Viðburðarrík helgi framundan í Grasrótarmiðstöðinni
17.2.2012 | 02:49
Þorbjörn Broddason, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, flytur erindi í Grasrótarmiðstöðinni núna á laugardaginn undir yfirskriftinni: Samfélagsleg ábyrgð samfélagsfirrtra fjölmiðla. Fyrirlesturinn hefst kl. 13:00 og lýkur kl. 15:00. Þorbjörn er löngu þekktur fyrir fjölþættar fjölmiðlarannsóknir sínar en niðurstöður þeirra hafa birst í fjölda fræðirita og -greina sem hafa komið út eftir hann bæði á íslensku og ensku.
Í erindi sínu mun Þorbjörn m.a. benda á að valdhafar á öllum tímum og í öllum heimshlutum hafa haft eitt höfuðmarkmið; sem er það að halda völdum. Í þessu augnamiði hafa skynsamir þjóðaleiðtogar komið sér upp tækjum til að móta hugsun og umhugsunarefni alþýðunnar.
Þorbjörn mun líka tala um þau tímamót sem runnin eru upp með því sem hann nefnir ofurmiðla og örmiðla. Ofurmiðlarnir eru þeir sem eru miðstýrðir, búa yfir óhemjufármagni, virða engin landamæri og eru þar með utan allrar pólitískrar lögsögu. Örmiðlarnir eru aftur á móti þeir sem eru í höndum mjög fámennra hópa, jafnvel bara eins, og eru veikburða eftir því en geta eigi að síður náð til milljóna og aftur milljóna fyrir atbeina samskiptaforrita á netinu.
Þessi tímamót eru svo stórkostleg að Þorbjörn hikar ekki við að jafna þeim við byltingu Gutenbergs.
Það eru allir velkomnir á þennan fund en fjölmiðlamenn ofur- og örmiðla eru sérstaklega hvattir til að mæta á þennan fund! Sjá líka viðburð á Facebook
Fleiri grasrótarviðburðir
Hálftíma eftir að þessum fundi lýkur hefst samstöðusamkoma í Grasrótarmiðstöðinni sem Attac-samtökin á Íslandi hafa boðað til stuðnings Grikkjum en grískur almenningur þarfnast stuðnings í baráttu sinni gegn árásum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Evrópusambandsins og auðvaldsins. Í viðburðinum sem hefur verið stofnaður á Facebook af þessu tilefni segir að:
Það sem á sér stað á Grikklandi núna er stórkostleg aðför að réttindum almennings. Stórfelldar launalækkanir, uppsagnir opinberra starfsmanna, skerðing lífeyrisréttinda, niðurskurður opinberra útgjalda og þyngri skattbyrðar á hina lægst launuðustu ásamt fleiri lífskjaraskerðingum.
Aðstandendur viðburðarins hvetja fólk til að standa saman og standa með þeim sem nú fara út á götur í Grikklandi og mætum í Grasrótarmiðstöðina.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Frábært og fjölbreytt starf grasrótarinnar ég fagna því.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.2.2012 kl. 15:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.