Svar til Sigrúnar
19.2.2012 | 06:13
Tilefni þessara skrifa er eftirfarandi innlegg inni á Fésbókarsíðunni minni: Rakel, af hverju þurfum við alla þessa fundi? Alla þessa upplýsingu og alla þessa vinnu af ykkar hendi? Þurfum við ekki, sem viljum breytingar, að skilgreina óútskýranlega hjarðhegðun, flokkadrætti og milljóna fífla sem vinna í stjórnsýslunni? Byrjum þar - sópum og - skúrum. Þeirra er ábyrgðin. Við höfum ekki sönnunarbyrðina.
Ég svaraði Sigrúnu og sagði henni að við spurningu hennar væri ekki til neitt eitt stutt eða einfalt svar en lofaði henni bloggfærslu í staðinn. Þetta er hún en hér ætla að ég að reyna að svara þeim hluta spurningarinnar sem snýr að mér.
Einfalda svarið væri e.t.v. að vísa í bloggfærslu mína frá 3. desember 2008 sem ég nefndi Þess vegna er ég mótmælandi en henni lýkur á þessum orðum: Ég er mótmælandi og á meðan frelsi, öryggi, réttlæti og virðing íslensku þjóðarinnar er svívirt á þann hátt sem það er nú þá verð ég það áfram. Ég á ekki annarra kosta völ!
En þá er það spurningin um það hvers vegna alla þessa fundi og af hverju alla þessa vinnu af hálfu þeirra sem eru að vinna í grasrótinni? Það er nefnilega svo að ég er langt frá því að vera sú eina sem hef unnið nær sleitulaust frá haustinu 2008 að því að spyrna við fótum. Margir hafa verið mun einbeittari en ég og sett krafta sína í eitt afmarkað og mikilvægt verkefni eins og það að berjast fyrir leiðréttingu á lánum heimilanna eða réttindum bótaþega. Aðrir hafa unnið ekki síður óeigingjarnt starf við að setja fram hugmyndir að lýðræðisumbótum eða lagt heilmikla vinnu í brautargengi nýrrar stjórnarskrár.
Það er ljóst að stærstu fjölmiðlar landsins hafa gert lítið af því hingað til að vekja athygli á þessari vinnu eða þeim einstaklingum sem standa að baki henni. Það ætti hins vegar ekki að stöðva einn né neinn. Það útheimtir hins vegar vinnu að vekja athygli á þessu starfi og hugmyndunum sem hafa komið út úr því. Þeir eru þó nokkrir í grasrótinni sem hafa sett sér það markmið að koma þessu öllu betur á framfæri og einhverjir miðlar hafa lagst á árarnar með okkur.
Að öðrum ólöstuðum mætti nefna: Hjara veraldar, Svipuna, Kryppu og Útvarp Sögu en svo eru það einstaklingarnir í grastótinni. Þar eru ljósmyndarar sem eiga orðið ótrúlegt safn ljósmynda af alls konar viðspyrnuaðgerðum stórum og smáum. Þeir sem standa að baki því sem að ofan er talið verða seint taldir en þar sem spurningunni var beint til mín ætla ég að tala út frá sjálfri mér.
Þegar ég fór af stað haustið 2008 ætlaði ég mér aðeins að taka þátt með því að taka mér skilti í hönd og halda mig einhvers staðar aftarlega í mótmælagöngunum sem hófust á Akureyri í október þetta ár. Ég byrjaði líka að blogga af alvöru en ég notaði bloggið til að segja frá þeim viðspyrnuaðburðum sem voru á Akureyri. Bæði mótmælunum og borgarafundunum. Í byrjun árs 2009 var ég komin í það sem við kölluðum borgarafundanefnd á Akureyri. Ég átti eftir að starfa að þessum fundum fram til vorsins 2010 en þá skipti ég um búsetu.
Af öllum þeim verkefnum sem ég hef tekið þátt í frá hruni þá eru það borgarafundirnir fyrir norðan sem hafa gefið mér mest. Ástæðan fyrir því að mér fannst vinnan í kringum þá svona gefandi er án efa töluvert bundin því hve dásamlegar samstarfskonur mínar í þessu verkefni eru. Það skiptir líka máli að við misstum aldrei sjónar á því að tilgangurinn með þessum fundum var að skapa samræðu sem myndu leiða til skilnings og breytinga.
Við vildum skapa samræðuvettvang á milli ólíkra hópa samfélagsins. Í þeim tilgangi reyndum við að taka alltaf á einhverju efni sem snerti samfélagsumræðu líðandi stundar. Við létum fátt ef nokkuð okkur óviðkomandi og fengum jafnt lærða og leika til að halda framsögur en í pallborð voru gjarnan fengnir stjórnmálamenn og aðrir sem fengust við málefni sem snerta almannahag.
Bæði þá, og núna þegar ég horfi til þessara funda úr fjarlægð, finnst mér að á fundunum hafi skapast ótrúlega flottar umræður. Því miður entust þær yfirleitt ekki fram á næsta dag enda voru þessi fundir nær algjörlega hundsaðir af fjölmiðlum norðan heiða og þrátt fyrir að ég hafi bloggað fundargerðir eftir hvern fund og Sóley tekið nokkra þeirra upp rataði ekkert sem þar var sett fram áþreifanlega út fyrir fundina sjálfa.
Hins vegar vissum við allar að það voru margir ánægðir með þessa fundi. Kómískast var náttúrulega að heyra til þeirra sem aldrei mættu en voru samt svo himinlifandi að vita af því að það var einhver viðspyrna í gangi í þeirra bæjarfélagi.
Þegar ég flutti suður byrjaði ég á því að taka þátt í ýmsum viðspyrnu- verkefnum sem fram fóru undir berum himni. Þann 4. október 2010 var sá stærsti en ég var ein þeirra sem tóku þátt í að skipuleggja hann. Engu okkar datt þó í hug fyrirfram að þetta yrðu stærstu mótmæli Íslandssögunnar a.m.k. hingað til. Ég var ein þeirra sem hafði af því stórar áhyggjur að það var ekki fyrirliggjandi neitt plan.
Það var hins vegar sett fram undir lok þess sama mánaðar eftir að við fórum nokkur og heimsóttum forsetann. Ríkisstjórnin ásamt öðrum, sem vilja ríghalda í kerfið sem þjónar fáum útvöldum, tókst að leiða almenning á asnaeyrunum til trúarinnar á það að þar væri einhver vilji til að koma á móts við þá sem hefðu orðið verst úti í hjáverkum voru svo raddir og hugmyndir Tunnanna þaggaðar niður með hræðsluáróðri um m.a. fasisma.
Á síðasta ári hélt ég áfram að taka þátt í ýmis konar viðspyrnuverkefnum og ber þar hæst þátttaka í Samstöðunni gegn Icesave. Síðastliðið haust var svo Grasrótarmiðstöðin opnuð. Um svipað leyti leitaði Sturla Jónsson til mín vegna þess að hann hafði áhuga á að koma á borgarafundi til að segja frá baráttu sinni við að halda í það sem hann á eftir af ævistarfinu. Það er að segja húsnæði sitt og fjölskyldunnar.
Í framhaldi borgarafundarins kom svo hugmyndin að laugardagsfundunum í Grasrótarmiðstöðinni. Mörg okkar sem höfum verið virk í viðspyrnunni höfum staðið frammi fyrir því að fólk hefur einangrað sig svo frá því sem fram fer í samfélaginu sem það býr í að það veit lítið sem ekkert um það sem á hefur gengið. Þannig þekkir það í mesta lagi það sem fram hefur komið í fréttum um málið. Það veit þess vegna ekkert um að það eru til aðrar hliðar á málunum.
Mörg okkar hafa líka staðið frammi fyrir einstaklingum sem vita nánast ekkert um það sem fram hefur komið hjá þeim fjölda grasrótarhópa og einstaklinga sem hafa látið sig hagsmuni almennings varða. Þessir vita lítið sem ekkert um þær samfélagsumbætur sem hafa orðið til í grasrótinni. Ef þessar upplýsingar skila sér ekki til samfélagsins er hætt við að öll sú vinna sem þessir aðilar hafa lagt að mörkum verði til lítils.
Sú leið sem sum okkar trúa a.m.k. að sé fær til að koma þeim áleiðis er að halda fundi. Við höfum reynt að vekja athygli á þeim með stofnun viðburða inni á Facebook. Með því að auglýsa þá á heimasíðu Grasrótarmiðstöðvarinnar. Með því að koma fyrirlesurum í fjölmiðla og með því að taka fundina upp til að koma því sem þar kemur upp áleiðis.
Í mínum huga er það svo að við þurfum að koma upplýsingunum um það að það eru komnar fram hugmyndir um það hvernig við getum skapað nýtt samfélag en við þurfum að koma þeim áleiðis þannig að þeir sem vilja eitthvað nýtt þori að grípa til aðgerða. Það er löngu tímabært að sópa og skúra en á meðan fólk heldur að sér höndum fyrir það að það veit ekki hvað á að taka við eftir hreingerninguna er ekkert við því að gera annað en halda upplýsingafundi og reyna að vona að það færi því kjarkinn til að ráðst í nauðsynlegar hreingerningaraðgerðir.
Þetta útheimtir vinnu og að sjálfsögðu óskum við þess mörgum sinnum að við fengjum feiri með okkur. Því það er staðreynd að okkur veitir ekkert af fleiri höndum. Ég vona að Sigrún og aðrir sem hafa spurt sig þess sama og hún séu sáttir við þetta svar þó þeir séu því ekkert endilega sammála.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:46 | Facebook
Athugasemdir
Frábær pistill Rakel og þetta er þrotlaus vinna, ég er afar þakklát fyrir allt sem þið eruð að gera. Vildi að ég væri virkari. En málið er bara að orkan mín fer einhvernveginn í allt og ekkert. En ég styð ykkur heils hugar og vona að grasrótinn fái sína umboðsmenn í Samstöðu og Breiðfylkingunni. Takk fyrir mig mín kæra.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.2.2012 kl. 20:27
Flott færsla Rakel og vona ég að sem flestir lesi hana og íhugi framhaldið hjá okkur í þjóðfélaginu sem vonandi leiðir til breytinga úr flokksræði til lýðræðis!
Sigurður Haraldsson, 19.2.2012 kl. 21:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.