Peningaveldi eða lýðveldi?
31.12.2011 | 07:52
Í þrjú ár hefur öll þjóðin mátt vita að lýðveldið, sem á að heita að hafi verið komið á hér árið 1944, hefur sennilega aldrei virkað. Frá haustinu 2008 hefur það orðið sífellt berara að stjórnskipulagið sem við búum við er miklu nær að kenna við peningaveldi en sennilega hljómar lýðveldið Ísland betur en peningaveldið Ísland.
Það er reyndar staðreynd að skortur á lýðræði er ekki séríslenskt vandamál enda hafa einstaklingar og fjöldahreyfingar um allan heim vakið athygli á því að í raun eru það peningarnir sem stýra jafnt lýðræðislega kjörnum fulltrúum sem og öðrum þáttum samfélagsheildarinnar.
Occupy-hreyfingin hefur m.a.s. haldið því fram að þetta þýði það í reynd að 99% jarðarbúa hafi tapað réttindum sínum til þess eina prósents sem hefur sölsað undir sig eignum og völdum í krafti þess að þeirra er einkarétturinn til peningaprentunar.
Hér á landi eru það rúmlega 3000 fjölskyldur sem hafa komið sér þannig fyrir að þær sitja að öllum verðmætum þjóðarinnar. Meðal þeirra eru einstaklingar sem eignuðust bankana fyrir u.þ.b. áratug síðan með þeim glæsilega árangri að keyra efnahag almennings í stjarnfræðilegt hrun.
Í stað þess að þeir séu látnir gjalda fyrir glæpsamlega glæframennsku þá valsa þeir áfram óáreittir við peninga-prentunarvélarnar og ráða þannig áfram lífi og örlögum lands og þjóðar.
Með einkavæðingunni, sem tröllreið löndum á síðustu öld, komst peningaprentunin í hendur einstaklinga sem veruleiki nútímans hefur leitt í ljós að eru verulega andlýðræðislega sinnaðir. Fyrir tilstilli slíkra einstaklinga var mafíustarfsemi gerð lögleg með aðstoð ginkeyptra stjórnmálamanna eða þeir nýttu aðstöðu sína til að kaupa fólk sem þeir kostuðu inn á þjóðþing viðkomandi landa.
Grunlaus almenningur var þannig settur í þá aðstöðu að kjósa yfir sig mútuþæga og kostaða stjórnmálmenn sem höfðu það eina hlutverk að fórna lýðræðinu fyrir sérhagsmunagæslubræðralagið sem hafði komist yfir peningaprentunarvélarnar. Sök almennings er því ekki önnur en grandvaraleysið að láta sér ekki detta það í hug að þannig væri í pottinn búið.
Sérhagsmunamiðaður hugsunarháttur óhófsins, sem var lagður undir fallöxina í frönsku byltingunni, hefur vaxið ásmeginn og náð undirtökunum með afar skjótum hætti. Íslendingar hafa gjarnan talið sér trú um að hugsunarháttur hérlends forréttindahóps óaðlsbændasamfélagsins hafi látið í minni pokann með sjálfstæðinu og stofnun lýðveldisins árið 1944.
Ég reikna með að flestir átti sig á því núna að hann hefur lifað blómlegu lífi í bakherbergjum ýmis konar klíkubræðrafélaga og breiðst þaðan út með ógnarhraða um alla helstu kima eigna- og valdasamfélgsins. Þessir kimar hafa étið upp lýðræðið með þeim afleiðingum að íslenskur almenningur er jafn ofurseldur hinu óseðjandi peningavaldi og almenningur annarra þjóðríkja á jarðarkúlunni.
Eðlilega eru þeir margir sem spyrja sig hvað veldur þeirri blindu núverandi stjórnmálastéttar að leiðrétta ekki það hrópandi misrétti sem kemur fram í því að almenningur þarf ekki aðeins að borga forsendubrestinn sem kom í ljós við hrunið heldur er honum ætlað að taka á sig síhækkandi skatta og gjöld fyrir ýmis konar þjónustu þrátt fyrir óbreytt laun? Á sama tíma og hérlendum almenningi er ætlað að beygja sig undir óheyrilegar lífskjaraskerðingar af ýmsu tagi þá fá gerendur hrunsins sínar skuldir afskrifaðar. Almenningur er að kikna undan byrðinni og sífellt fleiri missa eigur sínar í hendur lána- og innheimtustofnana sem selja margar þeirra síðan á helmingsafslætti til meðlima forréttindahópsins.
Óréttlætið sem þetta endurspeglar heyrði áður undir starfshætti glæpagengja, sem var kennt við mafíu, en nýtur núorðið lögverndar ægivalds peningaveldisins. Almennir borgarar hafa yfirleitt ekki áttað sig á þessu samhengi en eiga þó langflestir eftirfarandi spurningu sameiginlega: Hvað veldur því að stjórnmálastéttin lætur þetta óréttlæti viðgangast?!?
Svarið liggur e.t.v. ljóst fyrir í augum sumra en það er sársaukafullt að skilja það að fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem meginþorri þjóðarinnar treysti fyrir atkvæðum sínum sjá ekkert athugavert við gjörðir sínar. Það er þó nauðsynlegt að horfast í augu við það að þess vegna ætla fulltrúar fjórflokksins, svonefnda, ekki að breyta neinu. Til að nálgast svarið við því hvað ræður gjörðum þeirra er e.t.v. gagnlegt að varpa fram þessum spurningum.
- Trúði hvíti maðurinn í Ameríku að hann beitti svarta órétti?
- Trúðu nasistar Þýskalands að þeir væru að fremja þjóðarmorð á gyðingum?
- Trúði kaþólska kirkjan í Evrópu að hún væri að ástunda blekkingar með því að selja meintum syndurum aflátsbréf?
Svörin við þessum spurningum ættu að leiða fram svörin við því hvaða augum íslenskur eigna- og valdaaðall lítur almenna borgara og hvort þessir líta á afstöðu sína og gjörðir sem dæmi um siðferðisbrest eða eiginhagsmunagæslu. Svörin ættu líka að færa okkur heim sanninn um það að fyrir tilstilli þeirra verður íslenskum mannslífum áfram fórnað til að þau geti viðhaldið stöðu sinni og lífsstíl.
Það er sem sagt undir þér og mér komið hvort við ætlum að sætta okkur við núverandi ástand þar sem 300.000 manna samfélag framselur öllum sínum réttindum fyrir sífellt dýrkeyptari forréttindi 3.000 óseðjandi fjölskyldna sem svífast einskis til að viðhalda stöðu sinni.
Það er íslensks almennings að taka afstöðu til þess hvort sívaxandi eignatap, - fátækt, - brottflutningur og fleiri ótaldar hörmungar, sem á hann eru lagðar, eru réttlætanlegur fórnarkostnaður til að viðhalda núverandi kerfi bara fyrir það að það hossar því sem við þekkjum þrátt fyrir að það innihaldi ekkert annað en: handónýtt flokkakerfi, siðvillta stjórnsýslu, hrunið fjármálakerfi, villuráfandi þjóðkirkju og sérhagsmunamiðaða verkalýðsforystu.
Katrín mun fá ráðuneyti eftir orlofið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.1.2012 kl. 02:11 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir góðan pistil, tek undir hvert orð. Spurning dagsins er bara þessi; hvernig getum við breytt þessu? Og það sem allra fyrst.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.12.2011 kl. 13:26
„Skortur á lýðræði“. Hvernig á að skilja það nema það sé háð magni og þá framboði og eftirspurn. Í mínum huga er annað hvort lýðræði eða ekki, já eða nei. Þaqð getur verið ófullkomið eins og er hjá okkur en í nýjustu hugmyndum um nýja stjórnarskrá sem Stjórnlagaráð hefur sett fram, er reynt að hefla verstu agnúa og galla af núverandi fyrirkomulagi.
Hitt er svo annað mál að peningaöflin telja sig geta „keypt“ þingmenn og jafnvel heilu stjórnarmálaflokkana. Mjög skýrt dæmi eru framlög í kosningasjóði. Guðlaugur Þór sankaði að sér tugum milljóna í kosningasjóð sinn vegna prófkjörsmála. Hvaða væntingar hafa þeir sem greiddu til hans sem þingmanns? Getur verið að maður sem tekur á móti tugum milljóna sé hlutlaus? Ætli hann sé ekki orðinn hlutdrægur og vilji sína viðkomandi skilning? Á venjulegu máli hjá siðmenntuðum þjóðum eru þetta taldar mútur.
Á þessu eru ótalmargar hliðar.
Við skulum minnast þess, að núverandi ríkisstjórn hugðist fækka ráðuneytum. Og það lág fyrir allan tímann. Það er ekki létt verk að sameina ráðuneyti og til þess þarf víðsýni og mikil vinna. Formaður VG telur sig geta tekist á við þetta verkefni og einginn heilvita maður sem þekki Steingrím vænir hann um neitt annað en að hann vinni að þessu máli að heilindum. Allt tal um eitthvað annað er alveg út í hött.
Jón Bjarnason er vandaður maður en hann er ekki líklegri en Steingrímur að geta komið þessu erfiða verkefni að sameina ráðuneyti. Þar reynir á fjölda álitamála sem Steingrímur er líklegri öðrum fremur að koma farsællega í höfn.
Góðar stundir.
Guðjón Sigþór Jensson, 31.12.2011 kl. 18:41
Því miður er Steingrímur fyrir mér rúin trausti, það þykir mér hann hafa sýnt með því að svíkja öll sín kosningaloforð fyrir stólinn. Sama marki er brennd Jóhanna, þó hún sé meiri prinsippmanneskja en Steingrímur, þá hefur hún þá "mission" að koma okkur með góðu eða illu inn í ESB. Þangað mun hún teyma þjóðina ef hún fær færi á því með Össuri dráttarvagni og Steingrími. það vil ég stoppa.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.12.2011 kl. 20:50
Bæði Steingrímur og Jóhanna hafa staðið dyggan vörð um velferðarsamfélagið. Bæði hafa þau lagt megináherslu á að okkar samfélag mætti vera hliðstætt og best er á Norðurlöndunum. Ef þú ert íhaldskona og hátekjumaður skil eg gremju þína. Þeir vilja ekki tekjujöfnun með hátekjusköttum og rífa niður samfélagið. Þeir vilja ekki taka þátt í þjóðfélagsrekstrinum, vilja mergsjúga samfélagið með einkavæðingu og hirða gróðann.
En sért þú lágtekjumanneskja en kýst íhaldið eða Framsókn, þá ertu greinilega að vaða reyk.
Góðar stundir með Jóhönnu og Steingrím í Stjórnarráðinu!
Guðjón Sigþór Jensson, 31.12.2011 kl. 21:41
Ég er hvorki hátekjumanneskja eða kýs íhaldið. Ég er eftirlaunaþegi. Öll börnin mín flúin úr landi vegna ástandsins og verið að hrekja mig út úr húsinu mínu vegna þess að eina framtíðin í atvinnusköpun á svæðinu er gerð snjóflóagarðs sem annað hvort hrekur mig út eða eyðileggur landið sem ég hef eytt síðustu 20 árum í að gróðursetja í. Þannig er meðal annars gremja mín tilkomin. Það er ekkert framundan með allt þetta góðæri sem þessir aðilar eru að prédika, og ég vil þau ÚT STRAX.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.12.2011 kl. 21:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.