Ræða haldin á Austurvelli þ. 10. des.
11.12.2011 | 18:49
Í gær var boðað til samstöðu- og sameiningarfundar á Austurvelli. Fjórir ræðumenn fluttu ræður og einn las úr nýútkominni ljóðabók sinni. Lame Dudes og Blússveit Þollýjar skemmtu með tónlistaratriðum auk þess sem Jólakór Grasrótarmiðstöðvarinnar kyrjaði umbylt jólalög við undirleik Hjartar Howser.
Einn ræðumannanna var ég sjálf. Ræðan mín er hér:
Virðulegu viðspyrnendur!
Mér þykir vænt um að sjá ykkur hér í dag! þó ég harmi tilefnið. Ég harma það að við séum ekki komin lengra eftir að hafa mótmælt nær samfleytt í yfir þrjú ár. Það er þó gott að sjá að þið eruð ekki tilbúin til að gefast upp og þyki ástæða til að minna á það að þið munið hvergi hvika í kröfum ykkar.
Þið kannist sennilega öll við spurninguna: Hverju ertu að mótmæla? eða: Hverju eruð þið eiginlega að mótmæla?
Ég gisti tvær nætur í tjöldum Occupy-hreyfingarinnar hér á Austurvelli í síðasta mánuði en þessar spurningar voru langflestum gestum þeirra greinilega efst í huga.
Ég get ekki svarað þessari spurningu fyrir alla þá sem hafa mótmælt hér á undanförnum þremur árum og óvíst að þó ég geri heiðarlega tilraun til að útskýra af hverju ég er hér að svör mín samræmist því, sem ykkur sem eru hér líka, er efst í huga.
Allt frá haustinu 2008 hafa mörg okkar reynt að koma því á framfæri að hér þurfi að fara fram heiðarlegt uppgjör. Sumir hafa ekki látið þar við sitja heldur sett fram hugmyndir og komið með prýðilegar lausnir varðandi það hvernig megi bregðast við þeim lýðræðishalla sem almenningur býr við.
Ég geri ráð fyrir því að þið sem eruð hérna í dag séuð flest búin að átta ykkur á að það eru ekki hagsmunir almennings sem eru í forgrunni núverandi ríkisstjórnar. Ég vona að þið séuð líka búin að átta ykkur á það voru ekki heldur hagsmunir okkar sem voru í forgrunni þeirra ríkisstjórna sem sátu áratugina fyrir kosningarnar vorið 2009.
Ég reikna þess vegna með því að þið hafið áttað ykkur á því að Alþingi er að langstærstum hluta skipað einstaklingum sem er ekki treystandi.
- Þar situr nefnilega fólk sem þáði styrki, öðru nafni mútur, til að komast inn á þing.
- Þar sitja einstaklingar sem steinhéldu kjafti yfir því að efnahagur landsins stefndi í hrun.
- Þar situr fólk sem hylmdi yfir stöðu og staðreyndir og laug sig til kosningasigurs
- Þar situr fólk sem tók, og tekur enn, afdrifaríkar ákvarðanir um samtryggingarplott til bjagar fjármálavaldinu á bak við tjöldin.
- Þar situr fólk sem hefur logið svo oft um svo þýðingarmikla hluti að ef ekki væri fyrir björgunarsveitirnar í grasrótinni þá væri landið komið á opinbera útsölu!
- Þar situr fólk sem er orðið svo vant því að ljúga að það þekkir ekki muninn á lygum og staðreyndum; réttu og röngu.
- Þar situr fólk sem hefur gert sig sekt um svo stóra glæpi gangvart landi og þjóð að stór hluti þjóðarinnar situr enn uppi lamaður af sorg.
Núverandi valdastétt á í ofbeldissambandi við almenning í landinu. Í þeirra augum liggur virði okkar í því hvort og hvernig við getum viðhaldið þeim lífsstíl óhófs og græðgi sem hún hefur tileinkað sér af þeim sem fara með hið raunverulega vald í landinu. Það er fjármálavaldinu.
Við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins í síðustu viku kom í ljós að það eru aðeins 6 þingmenn af 63 sem finnst eitthvað athugavert við það að handónýtu flokkakerfi sé viðhaldið á okkar kostnað og það á sama tíma og samfélagsþjónustan liggur undir blóðugum niðurskurðarhnífum.
Íslenskir viðspyrnendur höfðu mótmælt óréttlætinu, sem er tilkomið vegna ofvaxins fjármálakerfis og spilltrar stjórnsýslu, í hart nær þrjú ár þegar Spánverjar hrundu af stað mótmælum 15. maí síðastliðinn sem breiddust síðan hratt út um alla Evrópu.
Það er nefnilega ekki bara á Íslandi sem stjórnvöld hafa skorið niður velferðarkerfið og tekið veð í framtíð þjóðarinnar til að tryggja afkomu fjármálastofnananna. Þetta eru staðreyndir sem blasa við íbúum allar álfunnar. Þessar staðreyndir hafa reyndar verið vandamál í öðrum heimsálfum líka.
Vesturlandabúar hafa horft aðgerðarlitlir upp á það hvernig fjármálastofnanir heimsins hafa farið með Afríku, Suður-Ameríku og Asíu. En eftir að Occupy-ið byrjaði á Wall Streat 17. september er eins og fleiri séu að átta sig á þeirri staðreynt að núverandi kerfi er gengið sér til húðar.
Í því sambandi er ef til vert að minna á að þetta kerfi byggir á hagfræðikenningum og hugmyndum um lýðræði og ríkisvald sem var tekið upp eftir fámennum hópi heimspekinga sem voru uppi um aldamót 17. og 18. aldar. Kerfið sem við byggjum á í dag er því orðið þriggja alda gamalt sem ætti að segja okkur að það er svo sannarlega komið að fótum fram.
Sú fullvissa er ekki óalgeng að nútíminn sé miklu betur upplýstur en fortíðin og er þá gjarnan vísða til þeirra framfara sem orðið hafa í upplýsingatækni. Það vill hins vegar gleymast að langflestir fjölmiðlar heimsins eru einkarekin markaðsfyrirtæki sem vilja umfram allt viðhalda núverandi kerfi.
Þeim er þar af leiðandi enginn akkur í því að upplýsa almenning en eigendur þeirra eru sér hins vegar fullkomlega meðvitaðir um hvurs lags verkfæri þeir eru með í höndunum og beita því með sama hætti og miðaldakirkjan verkfærum kaþólskunnar á sínum tíma.
Það er á okkar ábyrgð að við látum ekki hneppa okkur í sömu fjötra og kaþólska miðaldakirkjan bjó skjólstæðingum sínum með hugmyndinni um himnaríki og helvíti.
Eina hérlenda ógnin við þá úreltu hugmyndafræði, sem við búum við, hefur blómstrað hér í grasrót Austurvallar. Þeir sem hafa staðið hér lengst eru sér fullkomlega meðvitaðir um það hverju samstaða okkar hefur skilað. Ef það hefði ekki verið fyrir grasrótina sætum við ekki aðeins uppi með skuld við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn heldur hefði Icesaveskuldum Landsbankans verið þröngvað upp á okkur líka.
Markmið okkar er að breyta núverandi kerfi sem ,samkvæmt hinni alþjóðlegu Occupy-hreyfingu, þjónar ekki nema einu prósenti mannkyns. Við hin, eða 99%-in, getum staðið saman, eins og heimspekingar 17. og 18. aldar, og skapað nýjan grundvöll til að byggja framtíð okkar á.
Við eigum val um það hvort við höldum áfram að trúa á þá heimsmynd, sem boðið er upp á af altari einkarekinna fjölmiðla, um að ómeðvituð neysla sé himnaríki en meðvituð viðspyrna helvíti.
Við getum vaxið og náð árangri ef við hættum að láta fjölmiðlastýra okkur af álitsgjöfum valdsins.
Annar veruleiki er mögulegur en því aðeins að við hættum að láta þá sem hafa hag af því að sundra okkur fæla okkur frá því að standa saman.
Við skulum átta okkur á því að sú þöggun og afbökun sem viðspyrnuöflin búa við eru staðfesting á því að þau eru valdinu hættuleg. Hvert og eitt okkar skiptir máli og það skiptir líka máli að þó við stöndum ekki endilega hlið við hlið þá þurfum við að vinna betur saman.
Og nú er kominn vettvangurinn til að byggja upp slíkt samstarf. 9. september sl. var stofnaður hópur sem hefur tekið Brautarholt 4. á leigu og opnað þar Grasrótarmiðstöð. Í Grasrótarmiðstöðina er vettvangur fyrir ykkur öll til að koma saman, hittast og spegla skoðanir ykkar og viðhorf í fleirum. Byggja brýr og skapa samstöðu við að ryðja burt handónýtu kerfi fyrir mannvænlega framtíð.
Við skulum nefnilega átta okkur á því að það verða engar breytingar ef við hrindum þeim ekki í framkvæmd sjálf!
Það er svo staðreynd að þegar fólk hjálpast að þá ganga hlutirnir hraðar. Það er líka staðreynd að því fleiri sem standa saman því meiri líkur eru á því að sameiginlegir hagsmunir heildarinnar nái fram að ganga.
Ég vænti þess að sjá ykkur öll og miklu fleiri í Grasrótarmiðstöðinni í Brautarholti 4 strax á nýju ári.
Þangað til gleðilega jóla- og áramótahátíð!
Sjáumst í Grasrótarmiðstöðinni ekki seinna en eftir áramót!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.