Rannsóknarskýrslublogg hefur hafið göngu sína

RannsóknarskýrslanMeð þessari færslu langar mig til að vekja athygli á bloggi sem var stofnað í síðustu viku. Þetta er blogg sem leshópur sem hefur verið stofnaður í kringum lestur Rannsóknar- skýrslunnar hefur sett á laggirnar til að birta útdrætti, samantektir, vangaveltur og ályktanir um það sem þar kemur fram.

Tilkoma leshópsins stafar ekki síst af þeirri staðreynd að meðlimum hópsins finnst óviðunandi að búa við þá þögn sem er í kringum niðurstöður Skýrslunnar. Það er ekki nóg að setja saman nefnd og vinnuhóp til að framkvæma rannsókn á aðdraganda og orsökum á falli íslensku bankanna haustið 2008. Það er heldur ekki nóg að setja niðurstöðurnar saman í langa og ýtarlega skýrslu. Það verður að nýta þessar upplýsingar til að læra af þeim. Þær upplýsingar sem koma fram í Skýrslunni ættu að leggja til grundvallar uppbyggingu og breytingum á þeim þáttum sem skýrsluhöfundar benda á að sé ábatavant.

Til þess að það sé gerlegt þarf að kynna sér innihald Skýrslunnar. Leggjast yfir hana og lesa hana frá orði til orðs og draga fram mikilvægustu atriðin hvað þetta varðar. Framundan er kosning til stjórnlagaþings sem er ætlað það hlutverk að setja saman nýja stjórnarskrá. Lagaramminn í kringum þennan gjörning er að mörgu leyti gallaður. Meðal annars vegna þess að tíminn sem þessu er gefinn er alltof stuttur og þátttaka þjóðarinnar engan veginn nógu vel tryggð.

Hins vegar hlýtur það að vera ein af meginforsendum þess að eitthvert vit verði í þeirri vinnu, sem framundan er við ritun hennar, að þátttakendur hafi kynnt sér ágallana sem dregnir eru fram í Rannsóknarskýrslunnii. Skýrslan var líka skrifuð í þeim tilgangi að hún yrði lesin og lærdómar dregnir af niðurstöðum hennar. Þetta kemur m.a. fram í inngangi 8. bindisins þar sem segir:

Þessir stóru atburðir [þ.e. bankahrunið] draga fram margvíslega veikleika íslensks samfélags. Það er mat vinnuhóps um siðferði og starfshætti að höfuðmáli skipti að þjóðin geri sér grein fyrir þeim og að við öll lærum af þeim mistökum sem gerð voru. Íslendingar þurfa að velta því skipulega fyrir sér hvernig vinna eigi að betri fyrirtækjamenningu, bættum stjórnsiðum og öflugra lýðræðissamfélagi. (8. bd. Skýrslunnar bls. 8 (leturbreytingar eru mínar))

Höfundar 8. bindisins taka það fram í inngangi þess að þeir líti svo á að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis skapi grunvöll fyrir upplýsta og málefnalega umræðu um starfshætti og siðferði í íslensku samfélagi en benda jafnfram á að til að svo megi verða verður allt samfélagið að taka þátt. Þeir segja:Það ræðst hins vegar ekki síður af móttökunum í samfélaginu hvort skýrslan verður hvati til þeirra þjóðfélagsbreytinga sem nauðsynlegar eru.“ (8. bd. Skýrslan bls. 8 leturbreytingar eru mínar)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband