Stjórnarandstaðan á Eyjunni
25.5.2015 | 12:45
Í fréttum helgarinnar hefur m.a. verið minnt á það að núverandi ríkisstjórn varð tveggja ára sl. föstudag. Af því tilefni hefur eyjan.is birt drottningarviðtöl við þrjá formenn stjórnarandstöðuflokkanna og einn helsta talsmann evrópusambandsaðildarinnar.
Það vekur e.t.v. athygli að hér vantar formann Samfylkingarinnar, Árna Pál Árnason, en það er ekki útilokað að það eigi eftir að birtast áður en hvítasunnuhelgin er úti. Það er margt athyglisvert við umrædd viðtöl en svo er líka annað ákaflega grátbroslegt.
Eitt er það hvað þau eru öll lík enda virðist útgangspunktur þeirra vera nokkuð sá sami. Formenn stjórnarandstöðunnar eru beðnir um að meta stjórnarsamstarfið, lýsa formönnum ríkisstjórnarflokkanna og spurðir um það hvort þeir geti hugsað sér að verða forsætisráðherrar.
Miðað við það sem hefur verið haldið á lofti að undanförnu þarf það að ekki að koma á óvart að stjórnarandstöðuformennirnir þrír kjósa að ala enn frekar á því viðhorfi að Framsóknarflokkurinn sé vandamálið í íslenskri pólitík. Þó aðallega fyrir það að Sigmundur Davíð sé ómögulegur í samskiptum. Hins vegar er Bjarni Benediktsson orðinn hugljúfi stjórnarandstöðunnar.
Viðhorfin sem koma fram virðast þó nokkuð ráðast af spurningum blaðamannsins sem spyr m.a: Eigið þið í vandræðum með að nálgast hann [Sigmund Davíð]? og Hvað með Bjarna Benediktsson, er auðveldara að eiga í samskiptum við hann? (sjá hér) Svörin eru auðvitað í stíl við spurningarnar.
Birgitta Jónsdóttir segir: Ég held að Bjarni [sé] nú mun betri. Það er auðveldara að tala við Bjarna. (sjá hér) og Katrín Jakobsdóttir: Bjarni er auðvitað duglegri að mæta hér í þingið, duglegri að taka sérstakar umræður. Einkum hvað varðar sérstöku umræðurnar, ég held að Sigmundur sé búinn að taka tvær í vetur. (sjá hér)
Þegar Guðmundur Steingrímsson er spurður hvort það sé erfitt að nálgast Sigmund Davíð svarar hann: Ég held að það eigi það nú flestir. Það er greinilegt að stjórnunarstíllinn er ekki þessi samráðs- og samtalsstíll. Það er mjög leiðinlegt að sjá hvað honum finnst þingið lítið mikilvægt og ber litla virðingu fyrir því. (sjá hér)
Þau Katrín, Guðmundur og Birgitta eru líka mjög samstíga í svörum sínum um það hvort þau hafi áhuga á því að mynda breiðfylkingu þeirra flokka sem nú eru í stjórnarandstöðu og hver yrðu þeirra helstu áherslumál í slíku samstarfi. Af svari Guðmundar Steingrímssonar verður ekki annað ráðið en þegar sé búið að setja saman nýja ríkisstjórn þar sem hann segir: Við tökum væntanlega bara upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið þegar ný ríkisstjórn tekur við. (sjá hér)
Hvorki Katrín né Birgitta eru jafnafdráttarlausar í sínum tilsvörum. Þó er það greinilegt á svörum þeirra að þær eru á sömu línu og Guðmundur. Birgitta talar um kosningabandalag um nýja stjórnarskrá og þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB. (sjá hér) Katrín fer eins og köttur í kringum heitan graut en samstarf hennar með formönnum evrópusambandssinnuðu flokkanna tekur af allan vafa um það hvar hún stendur í reynd.
Það sem hún lætur hafa eftir sér um evrópumálin í viðtalinu er ekki bara loðið og teygjanlegt heldur er þar sumt beinlínis rangt eða í besta falli svo mikil einföldun að það jaðrar við ósannindi. Hún segir:
Eitt erfiðasta mál sem VG hefur staðið frammi fyrir er afstaðan um aðild að Evrópusambandinu. Það mál klauf flokkinn í tvennt á síðasta kjörtímabili þegar sú ríkisstjórn sem flokkurinn átti aðild að lagði inn umsókn, þrátt fyrir yfirlýsta andstöðu við inngöngu. Það varð til þess að bæði þingmenn og aðrir áhrifamenn í flokknum gengu á dyr. (sjá hér)
Það er rétt að minnast þess að Katrín Jakobsdóttir var ekki bara varaformaður í flokknum þegar þetta gekk á heldur var hún líka ráðherra í þeirri ríkisstjórn sem tók hverja ákvörðunina á fætur annarri sem urðu til þess að kjósendur, flokksfélagar og þingmenn sneru við honum baki. Það er mjög mikil einföldun að halda því fram að þetta hafi allt stafað af afstöðunni til evrópusambandsaðildar.
Kveðja núverandi formanns Vinstri hreyfingarinnar - Græns framboðs til þeirra sem standa pólitískt munaðarlausir er bæði hæðin og köld. Hún tekur líka af allan vafa um að hún ætlar ekki að taka neina ábyrgð á því að hún og Steingrímur J. Sigfússon hafi stýrt flokknum til þess að verða ekki annað en skugginn af Samfylkingunni.
Það er alveg rétt að það hefur fólk yfirgefið hreyfinguna af því að þeir hafa bara metið þetta mál svo mikið grundvallarmál að þeir hafa ekki verið reiðubúnir að opna á þessa lýðræðisleið í málinu. Þó eru þeir hinir miklu fleiri og ég get bara sagt það að það hefur ekki fækkað félögum hjá okkur. Þótt einhverjir hafa farið þá hafa aðrir komið í staðinn. (sjá hér (feitletrun er blogghöfundar)
Þegar það er rifjað upp hversu margir þingmenn hurfu frá þingflokki Vinstri grænna á síðasta kjörtímabili þá er það í hæsta máta sérkennilegt, að þáverandi varaformanni og núverandi formanni flokksins, skuli finnast fimm þingmenn eðlilegur fórnarkostnaður fyrir þá óheiðarlegu stefnu sem hún heldur á lofti í Evrópusambandsmálinu.
Tveggja ára afmæli síðustu ríkisstjórnar
Hér þykir svo vera tilefni til að rifja upp hvaða aðstæður ríktu á stjórnarheimilinu þegar síðasta ríkisstjórn náði tveggja ára aldrinum en það var vorið 2011. Þann 21. mars sögðu Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir sig frá þingflokki Vinstri grænna. Ástæðan er ekki ein heldur margar. Meðal þeirra sem þau nefna eru: Efnahagsstefnan, fjárlögin, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Icesave, ESB, Magma og skuldavandi heimilanna. (sjá hér)
Eins og kemur fram í þessari upptalningu er langt frá því að afstaðan um aðild að Evrópusambandinu hafi verið einhver meginástæða en um það mál segja Atli og Lilja:
Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er sagt að virða skuli ólíkar áherslur hvors flokks um sig gagnvart aðild að ESB og rétt þeirra til málflutnings og baráttu úti í samfélaginu. Þetta málfrelsi um ESB virðist þó þeim einum ætlað sem hlynntir eru inngöngu eða sigla undir því flaggi að það sé lýðræðislegt að hefja aðlögun að ESB áður en þjóðin hefur sagt hvort hún yfirhöfuð vilji ganga þar inn.
Umsóknin er í öngstræti og sannleikanum um aðlögunarferlið er haldið frá þjóðinni. ESB mun aldrei samþykkja kröfur, skilyrði og forsendur Alþingis fyrir umsókninni. Á meðan gríðarmiklu fjármagni, tíma og kröftum er beint í þetta ólýðræðislega ferli og litið á það sem ógn við ríkisstjórnina að ræða opinskátt um það. (sjá hér)
Það fer vart framhjá neinum að upptalningin hér ofar snýr miklu fremur að efnahagsmálum en Evrópusambandsmálinu. Þegar Ásmundur Einar Daðason sagði sig úr þingflokknum var það í kjölfar vantraustsyfirlýsingar Sjálfstæðisflokksins á síðustu ríkisstjórn sem var borin upp þ. 14. apríl 2011. Hann nefnir aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu [sem] helstu ástæðu þess að hann styddi ekki ríkisstjórnina (sjá hér). Hann tiltekur þó líka fleira þó það sé ekki talið hér.
Vantrauststillaga Sjálfstæðisflokksins var lögð fram 11. apríl 2011. Það var fyrsta þingdag eftir að að önnur þjóðaratkvæðagreiðslan um þriðja Icesavesamning þáverandi ríkisstjórnar hafði farið fram. Atkvæðagreiðslan var knúin fram af grasrótarsamtökum almennings og fór fram laugardaginn 9. apríl þar sem þjóðin hafnaði samningnum.
Það er forvitnilegt að lesa bréf Bjarna Benediktssonar sem hann sendi til flokksmanna Sjálfstæðisflokksins í tilefni vantrauststillögunnar. Bréfið var birt á DV daginn áður en greidd voru atkvæði um vantrauststillögu hans (sjá hér). Vantrauststillagan var felld meðal annars fyrir hjásetu Guðmundar Steingrímssonar og dreifða afstöðu Hreyfingarinnar (sjá hér).
Einhvers konar yfirlýsing um stuðning þessara og Eyglóar Harðardóttur við ríkisstjórnarsamstarf Samfylkingarinnar og Vinstri grænna má svo heita tveggja ára afmælisgjöf ofantalinna til fyrrverandi ríkisstjórnar (sjá hér). Fyrri ríkisstjórn og þeir sem vörðu hana falli hirtu ekkert um það að skömmu fyrir afmælið höfðu þrír af öflugustu þingmönnum annars ríkisstjórnarflokksins yfirgefið þingflokk hans vegna kosningasvika og framkomu flokksforystunnar við þá sem vildu standa við yfirlýsta stefnu flokksins.
Þessi hirtu ekkert um það heldur að þjóðin hafði komið því afdráttarlaust á framfæri í tvígang að hún tæki það ekki í mál að borga ofurskuldir gerenda hrunsins. Fæstir treystu sér þó til að ganga svo langt að fara fram á nýjar kosningar því þeir voru fáir sem gátu hugsað sér að fá Sjálfstæðisflokkinn aftur til valda. Þegar kom að alþingiskosningum vorið 2013 var þó afgerandi meiri hluti kjósenda búinn að missa alla trú á þeim flokkum sem höfðu séð til þess að ríkisstjórnin hjarði kjörtímabilið.
Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið er vert að rifja það upp að á tveggja ára afmæli þeirrar ríkisstjórnar, sem núverandi stjórnarandstöðuflokkar áttu allir einhvers konar þátt í að halda á lífi, voru síst færri blikur á lofti. Blikur sem svo sannarlega hefðu átt að gefa fjölmiðlum tilefni til að taka púlsinn á stöðu mála á stjórnarheimilinu þá. Ef einhver man eftir slíkri yfirferð í kringum 10. maí 2011 væri kærkomið að fá ábendingar um það.
Ég minnist þess ekki að það hafi verið gert. Hins vegar man ég hversu oft mér blöskraði það hversu lítið fór fyrir gagnrýninni umræðu þrátt fyrir allt það sem fram fór. Ég man aldrei eftir því að Eiríkur Bergmann eða annar stjórnmálafræðingur hafi farið yfir málefnastöðu fyrrverandi ríkisstjórnar. Hins vegar man ég bæði eftir honum og öðrum þar sem þeir réttlættu gjörðir hennar.
Þar af leiðandi var ekki hægt að búast við öðru en að viðhorf Eiríks til núverandi stjórnvalda væri síst hlutdrægari en þó á hinn veginn. Þetta kemur fram strax í upphafi viðtalsins þar sem hann segir: Vantraustið á valdstjórninni er alvarlegt. Og varla viðunandi. En fá teikn á lofti um að til stjórnarskipta komi fyrir lok tímabilsins. (sjá hér)
Til að kóróna verkið kallar eyjan.is þá sem sáu ekkert, heyrðu ekkert og gerðu ekkert á síðasta kjörtímabili í drottningarviðtöl. Þeim er stillt upp eins og líklegustu bjargvættum kjósenda undan ríkisstjórn sem hefur þrátt fyrir allt ekki náð að svíkja kjósendur jafnillilega síðastliðin tvö ár eins og sú síðasta hafði náð á tímabilinu 2009-2011.
Jákvæðir forsætisráðherrar
En það er ekki bara eyjan.is sem hefur kallað til stjórnmálafræðing vegna tveggja ára stjórnarafmælis stjórnarflokkanna. dv.is hefur fengið stjórnmálafræðinginn Stefaníu Óskarsdóttur til að rýna ofan í sálarástand Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Hún viðrar þá skoðun sína að stjórnmálamaðurinn Sigmundur Davíð ætti að láta öðrum eftir að greina fjölmiðlaumæðu. (sjá hér)
Tilefni þessa virðist m.a. það að: Sigmundur hefur rætt mjög um neikvæða umræðu um störf ríkisstjórnarinnar og sagt skort á bjartsýni einkennandi. Bjartsýni og jákvæðni ætti að vera ríkjandi. sagði hann í viðtali við Eyjuna á föstudag.(líka hér)
Það er sannarlega skrýtið að kalla til stjórnmálafræðing til að lesa ofan í ályktun af þessu tagi. Það verður kannski sínu undarlegra þegar það er haft í huga að forveri hans í starfi, og sennilega enn aðrir þar á undan, var sömu skoðunar þó að hann færði hana í tal með svolítið öðrum orðum. Það gerir kannski gæfumuninn?
2. nóvember haustið 2010 var Jóhanna Sigurðardóttir beðin að bregðast við lækkandi fylgi Samfylkingarinnar auk mikillar og óvenjuháværrar mótmælahrinu. Svar hennar var að hún hefði meiri áhyggjur af miklum stuðningi við mótmælaaðgerðir enda vinni þjóðin sig ekki úr kreppunni nema með jákvæðu hugarfari. (sjá hér)
Þetta var haustið sem Tunnurnar mættu á Austurvöll eftir að í ljós var komið að ríkisstjórnin ákvað að misnota loforðið um uppgjörið, sem kallað hafði verið eftir, til að niðurlægja Sjálfstæðisflokkinn en hlífa sínum mönnum. Þetta háttarlag þótti skipuleggjendum sýna að flokkspólitíkin ætlaði sér ekkert að læra af hruninu.
Krafan var utanþingsstjórn og var settur af stað undirskriftarlisti til að fylgja henni eftir. Af svari Jóhönnu má draga þá ályktun að Jóhanna hafi ímyndað sér að samasemmerki væri á milli fylgisins við mótmælin og fjöldans sem skrifaði undir til að krefjast utanþingsstjórnarinnar.
Það varð öðru nær enda ýmsir sótraftar ræstir út til að koma utanþingshugmyndinni lóðbeint ofan í gröfina en undirskriftarsöfnunin þöguð í hel. Hún fékk því enga opinbera umfjöllun hvorki af þáverandi stjórnarandstöðu né í fjölmiðlun. Þessi orð Jóhönnu Sigurðardóttur nutu heldur engrar sérstakrar athygli:
Ég hef satt að segja miklu meiri áhyggjur af því sem kom fram í könnuninni að 73 prósent séu hlynnt mótmælaaðgerðum. Af því ber okkur öllum að hafa áhyggjur, því ef við ætlum að vinna okkur út úr þessari kreppu þá gerum við það ekki nema með jákvæðu hugarfari. Neikvæð orka drepur allt niður ef menn eru í þeim stellingum, að því er varðar mótmælin. Við eigum að reyna að sýna samstöðu til þess að reyna að vinna okkur út úr vandanum (líka hér)
Eins og lesendur taka eflaust eftir þá eru þetta nánast sömu orð og Sigmundur viðhefur nú: ef menn eru glaðir og bjartsýnir, og eru það af því að menn hafa tilefni til eins og við höfum, þá geta þeir haldið áfram að þróa samfélagið í rétta átt. En hitt leiðir til öfugþróunar. (sjá hér)
Af einhverjum ástæðum hafa þau samt sett afar háværan minnihluta svo út af laginu að einn þeirra miðla, sem hafa staðið dyggilega í að næra hópinn, fær til sín stjórnmálafræðing sem er settur í hlutverk ráðgefandi sálfræðings og sem slíkur kemur hann þeim skilaboðum til stjórnmálamannsins að hann hafi ekkert í fjölmiðlagreiningu... Man einhver eftir sambærilegu haustið 2010 í kjölfar fyrrgreindra orða Jóhönnu?
Þegar allt sem hér hefur verið nefnt er dregið saman er synd að segja annað en fjölmiðlarnir leggja sig alla fram um að næra stjórnmálakreppuna með síst ótrúlegri uppákomum en þeim sem viðgangast inni á þingi. Það er auðvitað líklegra að bæði þjóni sama tilganginum.
Sjá líka þessar nýju greinar inni á eyjan.is:
Stefanía: Vandi að stjórna og enn meiri vandi að stjórna vel
Bjarni: Íslendingar hafa aldrei áður verið í jafn sterkri stöðu og nú
![]() |
Bjarni: Staðan aldrei sterkari |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 31.12.2015 kl. 01:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)