Hagsmunir fólkins í stað fjármagnsins

Margir þeirra sem hafa tjáð sig á stuðnings-/áskorunarsíðunni: Lilju Mósesdóttur sem næsta seðlabankastjóra, eru á því að voði þjóðarinnar sé vís sama hver þeirra þriggja, sem hæfisnefndin mat hæfastan til seðlabankastjórastöðunnar, verður skipaður. Þeir sem styðja áskorunina um það að Lilja verði skipuð í  seðlabankastjóraembættið, byggja stuðning sinn ekki síst á því að þeir treysta henni til að upplýsa þjóðina af heiðarleika og einurð um það hver raunveruleg staða þjóðarbúsins er og hvernig má takast á við hana.

Þau styðja Lilju sem næsta seðlabankastjóra

Af því sem velunnarar síðunnar hafa sett fram þá er líka ljóst að þeir treysta Lilju til að leggja ekki afleiðingar fjármálahrunsins á almenning eingöngu heldur ganga að þeim sem bera ábyrgðina á bólumynduninni og eru komnir af stað aftur. Traustið stendur til þess að skiptigengisleið hennar forði samfélaginu undan snjóhengjunni sem hefur orðið til fyrir aflandskrónur og kröfur sjóða með falið eignarhald í gömlu bankana.

Þeir þrír sem hæfisnefnd fjármála- og efnahagsráðherra mat „mjög vel hæfa“ til að stýra Seðlabankanum eru allir á því að rétt sé að greiða kröfuhöfum að fullu með höfuðstól og ofurvöxtum. Þeir hirða lítt um aðvaranir um afleiðingar slíkrar skuldsetningarleiðar en drepa gjarnan málinu á dreif með vísan til nauðsynjar þess að „standa við skuldbindingar sínar gangvart erlendum kröfuhöfum“.

Fulltrúar skuldsetningar almennings til björgunar bönkum og öðrum einkafyrirtækjum

Valið á milli þessara þriggja grundvallast þar af leiðandi ekki á breyttum aðferðum heldur viðhaldi þeirrar hugmyndafræði að „einkavæða gróðann en þjóðnýta skuldir“ og skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða banka í einkaeigu eða önnur einkarekin fyrirtæki. Eini munurinn, hvað aðferðafræði þessara þriggja varðar, liggur í því hvort aðgerðin fari fram hratt eða hægt.

Kynning af síðunni: Lilju Mósesdóttur sem næsta seðlabankastjóra

Þeir sem vilja sjá Lilju Mósesdóttur sem næsta seðlabankastjóra hafna þess háttar fjármálafræði sem setur hagsmuni fjármagnsins í fyrsta sæti af þeirri ástæðu að slík forgangsröðun ógnar ekki aðeins lífsafkomu núverandi kynslóða heldur framtíðarinnar líka. Af þessum ástæðum eru þeir alltaf fleiri og fleiri sem eru tilbúnir til að taka undir áskorun til stjórnvalda um að setja hagsmuni fólksins ofar hagsmunum fjármagnsins og skipa Lilju Mósesdóttur yfir Seðlabankann þann 20. ágúst n.k.

Byggt á innleggi síðunnar: Lilju Mósesdóttur sem næsta seðlabankastjóra (sjá hér). Myndin af körlunum þremur er fengin að láni frá vb.is en myndin af Lilju er sennilega komin frá dv.is.


Bloggfærslur 7. ágúst 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband