Snertur af brenglun

Þegar ég lít til baka til haustsins 2008 óska ég þess stundum að ég hefði ákveðið að sitja heima í stað þess að rísa upp og fylgja viðspyrnubylgjunni. Ástæðurnar eru nokkrar en þær gætu þó rúmast undir einum hatti ef hatturinn héti vonbrigði. Hatturinn yrði hins vegar að vera býsna stór og rúma býsna margt.

Það mætti líka reyna að víkka skilgreiningarhattinn út og tala um vonbrigði yfir öllum þeim mannlegu brestum sem hafa gert þær vonir sem ráku mig af stað haustið 2008 að nánast engu. Þegar ég horfi til baka er ég nefnilega nokkuð sannfærð um að uppskeran er ekki í samræmi við það sem hefur tapast.

Þegar vonin er óttanum yfirsterkari

Haustið 2008 ákvað ég að fylgja í kjölfar þeirra landsmanna sem risu upp með þeim orðum að nú væri tími réttlætisins runninn upp. Tíminn sem hefur liðið síðan hefur leitt það í ljós að forsendur þess að fólk reis upp voru mjög misjafnar. Sjálf vildi ég mótmæla þeirri forgangsröðun og því misrétti sem bankahrunið opinberaði. Sannfæring mín varðandi þessi atriði höfðu hins vegar kviknað áður í samskiptum við heilbrigðiskerfið, af atvinnu minni innan menntakerfisins, návíginu við útkomuna af áherslunum í sjávarútvegsmálum, viðskiptum við fjármálastofnanir, opinberar stofnanir og aðrar þjónustustofnanir og líka fréttum af stefnu og áherslum í atvinnu- og umhverfismálum.

Haustið 2008 var mér löngu misboðið og stóð í þeirri meiningu að fleirum væri eins innanbrjóst. Í mínum huga var þetta aðeins spurning um að koma ákveðnum sjónarmiðum á framfæri sem ekki höfðu fengist að komast að áður. Sjónarmiðum sem snerust um það að manneskjan skipti meira máli heldur en sýndarveruleiki neyslusamfélagsins sem peningadrifin tilvera hafði sett í öndvegi.

Að meina það sem er sagt

Ég reis upp með það í huga að styðja við mótmæli sem ég hélt að grundvölluðust á sameiginlegri hugmyndafræði. Lengi vel var ég haldin þeim misskilningi að markalínan á milli þeirra sem tóku þátt í mótmælum og þeirra sem voru í aðstöðu til að bregðast við því sem aflaga hafði farið væri mismunandi hugmyndafræði. Hugmyndafræði sem byggðist á tveimur gerólíkum áherslupunktum. Annars vegar væru það þeir sem vildu viðhalda markaðsdrifinni samfélagsgerð með endurreisn þess sem hrundi og svo hinir sem vildu samfélag sem þjónaði velferð manneskjunnar.

Á þeim tæpu fimm árum sem eru liðin síðan hefur það hins vegar runnið upp fyrir mér að margir þeirra sem risu upp ætluðu sér ekkert nema koma sjálfum sér eða sínum til valda í óbreyttu kerfi. Þeir tóku upp frasa og tileinkuðu sér hugmyndafræði sem féll vel að félagshyggjumiðaðri stefnu en höfðu í reynd enga reynslu, þekkingu eða hæfni til að setja fram raunhæfar hugmyndir sem vörðuðu heill samfélagsins alls. Einhverjir fengu tækifæri til að sýna hvort hugur fylgdi máli sem leiddi þá sorglegu niðurstöðu í ljós að langflestir féllu á prófinu.

Raunsæi

Af þessum ástæðum hef ég leyft mér að halda því fram að margir þeirra sem settu sig í forystu grasrótarinnar hafi ekki haft annað markmið en „leiðrétta eigin egóhalla“ (sjá hér). Því miður hefur árangur margra þeirra orðið sá einn að gildisfella sjálfa sig en það sem verra er að með sjálfsupphefjandi aðgerðum og orðum hafa þeir ekki aðeins sundrað þeim sem gengu til liðs við viðspyrnuna í þeim tilgangi að leggja henni skynsemi  sína og heilindi heldur treyst það kerfi sem meginöldunni var ætlað að vinna gegn. 

Það er reyndar ekki bara við þá sem týndu sér í sjálfum sér að sakast því hugmyndir valdsins um að viðspyrnuna sárvantaði foringja féll í frjóa jörð meðal þeirra sem tóku aldrei þátt en fylgdust með úr fjarlægð og reyndar líka takmarkaðs hóps sem af einhverjum duldum ástæðum blönduðust viðspyrnunni. Þeir voru líka þó nokkrir sem fögnuðu því að aðrir sáu um viðspyrnuna fyrir þá. Sumir þeirra sem börðust týndu sér í hrósinu og hvatningunni sem þeir fengu í gegnum tölvupóst og símtöl. Þessir misstu sjónar á þeim hugsjónum sem snerust um almannahag og böðuðu sig í einstaklingshyggjunærandi hugmyndum um eigið mikilvægi.

Að tala af nauðsyn en ekki þörf

Vonbrigði mín eru þess vegna ekki aðeins bundin þeim sem týndu sér í sjálfsupphafningunni heldur ekki síður hinum sem villtu þeim sýn. Ég hefði aldrei risið upp haustið 2008 nema vegna þess að ég stóð í þeirri meiningu að nú væri stund nýrrar hugmyndafræði runnin upp. Ég hélt að sú skynsemi sem ég fann í viðspyrnunni á Akureyri og heyrði í tali sumra sem komu fram haustið 2008 myndi laða að fleiri. Að okkur myndi takast með hógværðinni að laða að fulltrúa allra samfélagshópa sem myndu að endingu skapa breiðan samræðuvettvang sem myndi að lokum leiða okkur til farsællar niðurstöðu um breytt kerfi sem myndi þjóna samfélaginu öllu.

Á þeim tímamótum sem má segja að hafi skapast eftir aðrar alþingiskosningarnar eftir hrun hefur það runnið upp fyrir mér að þeir voru harla fáir sem ætluðu sér að hafa samráð við aðra; þ.e. þá sem stóðu fyrir utan þeirra eigin hóp. Hin nýkjörna ríkisstjórn hefur staðfest að skjaldborgin sem sú fyrri reisti í kringum sig er komin til að vera. Fræðimannastéttin hefur lokað sig af í pólitískum fílabeinsturni og talar tungum þeirra hagsmunaafla sem styrkir vinnustaðinn sem stóll þeirra og staða hefur skjólið af. Meirihluti almennings eltir rauð villuflögg og glannalegar gervigulrætur fjölmiðla sem hafa vikið fagmennskunni út af borðum sínum og tileinkað sér upphrópunarkennda villuljósarblaðamennsku í hennar stað.

Vonin finnur sér alltaf leið

Það hefur dregið verulega niður í vonarneistunum sem kviknuðu haustið 2008 en þar sem ég hef tamið mér að trúa fremur á það góða í manneskjunni lifir enn í glæðum vonarinnar um að skynsamur almenningur vakni til meðvitundar um það að óupplýst afstöðuleysi er öruggasta trygging þeirra sem vilja hafa almenning að ginningarfíflum. Bankahrunið hefði átt að vekja alla þjóðina til meðvitundar um að slíkir tímar eru enn einu sinni runnir upp í mannkynssögunni að almenningur er tilneyddur til að spyrna við fótum vilji hann viðhalda möguleikum sínum til að hafa áhrif á sitt eigið líf.

Það sem hefur komið í ljós frá bankahruninu hefur rennt stoðum undir það að sú siðblinda sem hafði hreiðrað um sig í fjármálaheiminum hefur sest að miklu víðar og þá aðallega í öllum helstu valda- og stjórnsýslustofnunum landsins og reyndar erlendis líka. Á meðan skynsamt fólk heldur sig til hlés fyrir yfirgangi siðblindunnar er það alveg klárt að hættir og aðferðafræði siðblindunnar verða viðmiðið sem mun ræna skynsemina öllum tækifærum til að hafa áhrif á framgang mála. Og skiptir þá engu hvort um er að ræða mál sem varða almannaheill eða samfélagsins.

Penninn er vopn gegn þögninni

Það þarf átak til að rísa upp gegn óskammfeilni siðblindunnar en alveg eins og skynsamur maður myndi setja það í forgang að gera við lekt þak áður en hýbýli hans yrðu fyrir frekara tjóni þá þarf að takast á við þá siðblindu peningahyggju sem ógnar öllum grunnstoðum manneskjulegs samfélags. Enn einu sinni hafa gjörðir fárra leitt okkur til slíkra tíma að skynsamt fólk þarf mjög nauðsynlega að gera það upp við sig hvort það ætlar að sitja þögult hjá með hendur í skauti.

Að þessu sinni þarf skynsemin að gera það upp við sig hvor hún ætlar að  láta óseðjandi peningaöflum það eftir að móta framtíð alls mannkyns svo og komandi kynslóða. Sjálf mæli ég ekki með slíku aðgerðarleysi og það er ekki af svartsýni sem mér líst ekki á það heldur óbilandi bjartsýni á að það sé hægt að hafa áhrif á jafnvel blindustu markmið. Það er trúin á að það sé hægt að snúa neikvæðri þróun til jákvæðari vegar ef allir leggjast á eitt við að koma skynseminni að. 

Við erum hluti af heild

Ég trúi því enn að okkur sé öllum gefið að geta lært af fortíðinni. Þegar litið er til sögunnar þá vitum við öll að ef við sitjum aðgerðarlaus hjá þá munum við ekki aðeins kalla ógæfu yfir okkur sjálf heldur ókomna framtíð. Við vitum líka að dómur sögunnar verður ekki annar en sá að við höfum verið glórulausir hugleysingjar sem höfðum ekki einu sinni dug til að verja okkur sjálf eða börnin okkar. Að við höfum verið þrælar okkar eigin heimsku og/eða sjálfselsku...

Við höfum enn tækifæri til að sanna það fyrir framtíðinni að slíkur dómur á ekki við um okkur! Ef við viljum hljóta annan dóm en þeir sem létu t.d: galdrabrennurnar viðgangast, héldu uppi lénsherrafyrirkomulaginu í Evrópu eða vistarbandinu á Íslandi, létu sem gyðingaofsóknirnar væru eitthvað sem kom þeim ekki við, neituðu að taka afstöðu gegn Víetnamstríðinu, svo fátt eitt sé nefnt, þá er tíminn til að fyrirbyggja það núna en ekki eftir önnur fimm ár!


Bloggfærslur 8. júlí 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband