Í kjörklefanum

Eins og lesendur eru eflaust meðvitaðir um standa kjósendur frammi fyrir óvenju miklu vali í alþingiskosningunum sem fram fara í dag. 11 stjórnmálaflokkar bjóða fram í öllum kjördæmum, 12 í Norðvestur, 13 í Reykjavík norður og 14 í Reykjavik suður. Þetta eru 15 stjórnmálaflokkar alls.

Stimplar í Kópavogi

Mörgum þykir þetta offramboð vera skýrasti vitnisburðurinn um þá stjórnmálakreppu sem blasir við hér á landi sem bein afleiðing efnahagshrunsins og þess ráðaleysis sem pólitíkin hefur orðið ber af frammi fyrir því hvernig skuli tekið á fjármálaheiminum sem nærir rót vandans.

Viðbrögðin við offramboðinu hingað til minna helst á einhvers konar sjokkviðbrögð og má e.t.v. heita eðlilegt því það er væntanlega það síðasta sem nokkrum datt í hug að dáðleysi „velferðarstjórnarinnar“ sem tók við í kjölfar bankahrunsins myndi leiða til þeirra algeru upplausnar á þeim væng stjórnmálanna, sem hingað til hefur verið kenndur við vinstri, að hvorki fleiri né færri en 11 ný framboð myndu bjóða fram nú.

Á meðan ríkisstjórnarflokkarnir tveir ásamt velflestum offramboðanna hafa komið fram eins og þeir séu að bjóða fram annaðhvort í einskismannslandi eða í litla, sæta menntaskólanum sínum þar sem atkvæði klíkusystkinanna mun tryggja þeim völd vaxa Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn sem meirihluti hópsins hefur tekið sig saman um að gera að sínum höfuðandstæðingum.

Kjörseðill í Reykjavík suður

Það er auðvitað býsna þægilegt að stinga höfðinu bara ofan í sandinn og láta sem 13 framboð sé eðlilegri útkoma en einn til þrír félagshyggju- og umhverfisverndarflokkar sem teflt er gegn fjármagnssinnuðum stóriðju- og virkjanaflokkum. Meðal nýju framboðanna eru reyndar tveir flokkar sem skera sig úr hinum 11. Þetta eru Landsbyggðarflokkurinn og Regnboginn.

Landsbyggðarflokkurinn setur landsbyggðina á oddinn. Þeir sem þekkja til á landsbyggðinni eru væntanlega sammála því að það var kominn tími á að málefni hennar fengju sterka rödd. Því miður býður flokkurinn eingöngu fram í Norðvesturkjördæmi.

Regnboginn er álitlegur kostur fyrir þá sem vantar valkost sem setur umhverfis-, jafnréttis- og lífskjaramál þeirra verst settu í forgang. Hann er raunar líka eini valkostur þeirra sem vilja tryggja það að á næsta þingi verði einstaklingar sem láti ekki beygja sig í ESB-málinu.

Björtustu vonirnar í alþingiskosningunum 2013

Nóttin framundan mun leiða það í ljós hvort þessir flokkar muni koma mönnum inn á þing. Það má hins vegar draga það fram hér að ef þeir megindrættir sem skoðanakannanir undanfarandi daga hafa bent til að verði niðurstaða kosninganna að þá er tilefni til að benda formönnum bæði Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks á að færa foringjum og/eða talsmönnum Samfylkingar og Vinstri grænna ásamt offramboðunum 11 sérstakar þakkir fyrir að hafa beint kjósendum til þeirra með eiginhagsmunamiðari stjórnmálablindu sinni. Sjálfsagt er að þakka öllum stærri fjölmiðlum á Íslandi líka fyrir þá niðurrifs- og sundrungarpólitík sem þeir hafa alið á með sínu framlagi.

Það er hins vegar óskandi að almenningur minnist þess hverju samstaða almennings skilaði á síðasta kjörtímabili. Það er ekki síður óskandi að allir hafi það í huga að ef niðurstaða kosninganna nú lítur út fyrir að vera svört að þá verðu pólitíkin varla mikið svartari en á síðasta kjörtímabili. Það eru þó væntanlega einhverjir sem hafa áttað sig að það verður verulegt skarð fyrir skildi þar sem Lilja Mósesdóttir verður ekki meðal þeirra sem verða á næsta þingi.

Lilja Mósesdóttir

Kjósendur munu þar af leiðandi ekki eiga neinn sérfræðing í efnahagsáföllum á komandi þingi. Þess vegna er hæpið að þar verði nokkur sem upplýsi almenning um afleiðingar þeirra fjármálagjörninga sem komandi þingheimur hefur til umfjöllunar og/eða meðferðar. Af þessum ástæðum verður almenningur að standa sig miklu betur á verðinum gagnvart því sem fram fer inni á þingi.

Það er afar líklegt að ásókn erlendra kaupahéðna eins og Ross Beaty og Huang Nubo muni harðni til muna á næsta kjörtímabili og ekki ólíklegt að bæði Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur verði veikir á svellinu gagnvart því að fá skjótfengna peninga í ríkiskassann til að keyra upp atvinnulífið. Það er líka afar líklegt að áróður Evrópusinnanna í Já-Ísland muni harðna verulega strax eftir kosningarnar auk þess sem það er líklegra en ekki að afstaða landsfunda Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks verði lítið heilagri en kosningaloforð Vinstri grænna gagnvart sínum kjósendum fyrir fjórum árum.

Það eina sem íslenskur almenningur hefur að treysta á við þær aðstæður, sem er hætt við að muni blasa við undir morgun, er hann sjálfur. Það ríður því á miklu að allur almenningur verði fljótur að ná sér af doðanum sem sá pólitíski ærslaleikur sem hér hefur viðgengist hefur valdið. Þetta er orðinn langur tími eða heilt ár og keyrði svo um þverbak síðustu þrjá til fjóra mánuðina.

Indíánaspeki

Ég leyfi mér að vona að uppskeran af þessum öfgakennda og lamandi ærslaleik verði sá jákvæði lærdómur að horfast í augu við það að það var samstaða almennings sem dugði best á síðasta kjörtímabili. Það er mikilvægt að þetta komist til skila þar sem það er útlit fyrir að hún verði áfram eina trygga haldreipi almennings á því næsta líka.

Lífið hefur alltaf verið hópverkefni en það hefur sjaldan verið jafn mikilvægt að almenningur standi saman í að verja framgang þess eins og nú. Þeir sem eru sammála því að til að tryggja grunnforsendur lífsins þurfi að verja landið og menninguna sem umgjörð um lífið of framtíðina munu að öllum líkindum leiða saman hesta sína fyrr en varir.

Örvæntum því ekki heldur höldum haus og vonum að þessi sem héldu að pólitík væri X-faktor keppni til að komast að í beinni á alþingisrásinni læknist af þeirri glópsku í timburmönnunum sem hljóta að leggjast yfir marga þeirra sem hafa farið offari í sundrungarpólitíkinni á undanförnum vikum.


mbl.is Nokkuð minni kjörsókn í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífið er ekki einstaklingsframtak

Íslenskir kjósendur eru sannarlega ekki öfundsverðir af því vali sem þeir standa frammi fyrir í alþingiskosningunum í dag. Í flestum kjördæmum hafa þeir 11 möguleika, 12 í Norðvestur, 13 í Reykjavík norður en 14 í Reykjavík suður.

Auk fjórflokksins svokallaða, þ.e. Framsóknarflokks, Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna, sem bjóða fram í öllum kjördæmum, eru það eftirtalin framboð: Björt framtíð, Dögun, Flokkur heimilanna, Hægri grænir Lýðræðisvaktin, Píratar og Regnboginn. Alþýðufylkingin og Húmanistaflokkurinn bjóða auk þess fram í báðum Reykjavíkur-kjördæmunum, K-listi Sturlu Jónssonar í Reykjavík suður og Landsbyggðarflokkurinn í Norðvesturkjördæmi.

Offramboðið

Framboðin sem eru umfram fjórflokkinn eru því alls 11 og má heita með ólíkindum að í samfélagi sem telur ekki nema 236.944 kosningabæra einstaklinga skuli vera 1.512 sem eru reiðubúnir að taka sæti á 72 framboðslistum 15 stjórnmálaflokka! Þetta vekur ekki síst undrun þeirra sem hafa meira og minna lifað og hrærst í grasrótinni sem flest þessara framboða eru grundvölluð á en enn frekar þeirra sem unnu að því í heilt ár að koma fótunum undir framboð eins og SAMSTÖÐU.

Sundur og saman

Af einhverjum ástæðum fer lítið fyrir þeim spurningum sem mætti ætla að vakni frammi fyrir því að 11 ný framboð hafa komið fram fyrir þessar alþingiskosningar. Húmanista-flokkurinn er elstur, Hægri grænir halda upp á þriggja afmælið sitt í byrjun sumars en hinir níu eru allir í kringum eins árs gamlir eða yngri. 

Björt framtíð er elst, stofnuð 5. febrúar. Þá er Dögun, stofnuð 18, mars. Önnur eru yngri og ótrúlega mörg aeins örfárra mánaða. Frá stofnfundi Dögunar hefur sá stjórnmálaflokkur klofnað í þrennt. Klofningarnir eru Píratar stofnaðir 24. nóvember og Lýðræðisvaktin 17. febrúar.

Það hlýtur að vekja sérstaka athygli að á þeim tveimur mánuðum sem eru liðnir frá stofnun Lýðræðisvaktarinnar hafa verið gerðar nokkrar tilraunir til samstarfs sem er útlit fyrir að snúist um það að atkvæði greidd klofningum Dögunar eða flokkunum sem mætti kalla þríburaframboðið (þ.e. Dögun, Píratar og Lýðræðisvakt) verði talin sameiginlega.

Haltu mér, slepptu mér

Myndin hér að ofan er tekin af frétt sem birtist á dv.is í gærmorgun en hún var síðan tekin út af einhverjum ástæðum. Áður hafði athugasemdakerfið þó leitt ýmislegt athyglisvert í ljós.

Haltu mér, slepptu mér

Þegar það er haft í huga að þetta er langt frá því fyrsta fréttin sem birtist um sambands-togstreitu þeirra einstaklinga sem koma við sögu framboðs Dögunar, Pírata og Lýðræðisflokks getur ekki hjá því farið að maður velti fyrir sér uppruna þeirra og tengslum sem að þessum framboðum koma.

Þegar að er gáð

Dögun varð til í framhaldi þess að þrír stjórnmálaflokkar tóku sig saman við leigu húsnæðis sem stendur við Brautarholti 4. Húsnæðinu var gefið heitið Grasrótarmiðstöðin enda var yfirlýstur tilgangur þessa framtaks sá að skjóta skjólshúsi yfir þá grasrót sem hafði staðið að ýmis konar viðspyrnuverkefnum eins og tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum um Icesave og Tunnumótmælum sem knúði ríkisstjórnina m.a. til að setja saman samráðsnefnd um skuldaúrræði húsnæðislánagreiðenda.

Hér eru ótalin grasrótarsamtök eins og Heimavarnarliðið og Hagsmunasamtök heimilanna sem hvort með sínum hætti hafði sýnt skuldugum heimilum ómetanlegan stuðning. Hagsmunasamtök heimilanna komu aldrei að Grasrótarmiðstöðinni en Heimavarnarliðið hélt reglulega fundi þar. Þeir sem tóku húsið á leigu höfðu þó afar takmarkaðan áhuga á grasrótinni sem slíkri heldur heltu sér í það að stofna stjórnmálaflokk.

Eftir á að hyggja er útlit fyrir að megintilgangurinn hafi verið sá að tryggja ákveðnum einstaklingum innan Hreyfingar, Frjálslyndra, Hagsmunasamtaka heimilanna og fyrr- verandi stjórnlagaráðs þingsæti. Einhvers staðar á leiðinni komu svo hagsmunaöfl frá Útvarpi Sögu og Fjölskylduhjálpinni inn í þetta og gerðu kröfu um það að oddvitar þeirra fengju örugg sæti. Niðurstaðan varð fjórir flokkar; þ.e: Dögun, Píratar, Lýðræðisvaktin og Flokkur heimilanna.

Klofningurinn

Þegar horft er til þess hverjir skipa fyrstu sæti þessara framboða er ljóst að Frjálslyndi flokkurinn hefur hvergi fengið athvarf. Hins vegar er einn Hreyfingarþingmaður í oddvitasæti á lista Dögunar og annar á lista Pírata. Tveir fulltrúar Hagsmunasamtaka heimilanna eru í oddvitasæti á lista Dögunar og einn á lista Flokks heimilanna.

Fulltrúar stjórnlagaráðs eiga oddvitasæti á öllum listunum fjórum ef undan er skilinn listi Pírata en Smári McCarthy bauð sig þó fram til stjórnlagaráðs. Jón Þór Ólafsson hefur verið mikill ákafamaður um framgang stjórnarskrárfrumvarpsins. Hann hefur líka verið mikilvirkur stuðningsmaður Hreyfingarþingmannanna. Aðalheiður Ámundadóttir var starfsmaður stjórnlaganefndar (sjá hér).

Útvarp Saga og Fjölskylduhjálpin hafa hvergi fengið athvarf nema á lista Flokks heimilanna. Rétt er að taka það fram að fulltrúi Fjölskylduhjálparinnar er í öðru sæti en ekki oddvitasæti þess lista þar sem hann á sæti eins og aðrir sem hér hafa verið taldir. Það er líka rétt að það komi fram að þeir fulltrúar Útvarps Sögu sem eiga oddvitasæti á lista Flokks heimilanna sátu stofnfund Lýðræðisvaktarinnar 15. febrúar. Formlegur stofnfundur Flokks heimilanna var haldinn 1. apríl.

 

Hagsmunasamtök

Fulltrúar þeirra í 1. sæti

 Merki Dögunar

Hagsmunasamtök heimilanna

Þingflokkur Hreyfingarinnar

Fulltrúar tengdir stjórnlagaráði

Andrea J. Ólafsdóttir

Gísli Tryggvason

Margrét Tryggvadóttir

Þórður Björn Sigurðsson

 Merki Píratapartýisins

Þingflokkur Hreyfingarinnar

Kjarnahópur Hreyfingarinnar

Fulltrúar tengdir stjórnlagaráði

Aðalheiður Ámundadóttir

Birgitta Jónsdóttir

Jón Þór Ólafsson

Smári McCarthy

Merki Lýðræðisvaktarinnar

 

Fulltrúar tengdir stjórnlagaráði

Eyþór Jóvinsson

Lýður Árnason

Þorvaldur Gylfason

Þórhildur Þorleifsdóttir

Örn Bárður Jónsson

 Merki Flokks heimilanna

Hagsmunasamtök heimilanna

Fulltrúar tengdir

stjórnlagaráði Útvarp Saga

Fjölskylduhjálpin

Arnþrúður Karlsdóttir

Ásgerður Jóna Flosadóttir (2.sæti)

Pétur Gunnlaugsson

Vilhjálmur Bjarnason

 
Fylgistregðan kann að byggja á vantrausti

Í draumi þessara nýju framboða er falið fall Borgarahreyfingarþingmannanna sem mun að öllum líkindum gera það að verkum að þeir verða tiltölulega fáir meðal kjósenda sem treysta sér til að kjósa nokkurt nýju framboðanna. Væntanlega eru þó þau framboð sem rekja uppruna sinn til sömu róta og Borgarahreyfingin útilokuðust frá því að njóta trausts meðal kjósenda.

Það er reyndar nánast útilokað að þeir sem hafa fylgst grannt með því hvernig þingmenn Borgarahreyfingarinnar hafa farið með traust 7,2% kjósenda geti hugsað sér að kjósa Dögun eða Pírata. Reyndar ekki ólíklegt að einhverjir þeirra sem kusu Borgarahreyfinguna fyrir fjórum árum veðji frekar á fjórflokkinn í þessum alþingiskosningum.

Þingmenn Borgarahreyfingarinnar

Kjósendur létu sig dreyma um breytingar í málefnaáherslum og nýjungar varðandi sambandið á milli þings og þjóðar. Draumarnir voru grundvallaðir á þeirri réttlætisást sem virtist búa undir amatörslegum málflutningi og framkomu þeirra hversdagslegu einstaklinga sem skipuðu sér í efstu sæti Borgarahreyfingarinnar. Kjósendur leyfðu sér að treysta því að þessi væru blásin sama eldmóði og þær þúsundir sem höfðu mótmælt víða um land og krafist réttlátra leiðréttinga á lífskjörum sínum ásamt uppgjöri við hrunið.

Þó vonbrigði kjósenda í síðustu kosningum hafi tæplega verið skoðuð af yfirvegun eða alvöru þá er greinilegt að það gera sér flestir grein fyrir því að fylgishrun Samfylkingar og Vinstri grænna í skoðanakönnunum að undanförnu stendur í beinum tengslum við framgöngu þessara flokka á kjörtímabilinu. Hins vegar virðast þeir vera fáir sem tengja lélegt fylgi offramboðsins við vonbrigðin sem Borgarahreyfingin olli sínum kjósendum á kjörtímabilinu.

Ein líklegasta skýringin á afar lélegu fylgi  langflestra meðal offramboðsins er að vonirnar sem voru bundnar við nýtt framboð í síðustu alþingiskosningum brugðust. Framganga Borgarahreyfingarþingmannanna hefur ekki aðeins grafið undan þeim sjálfum og framboðum þeirra heldur þora kjósendur ekki að treysta nýjum framboðum þar sem síðasta kjörtímabil sýndi það svart á hvítu að það eru ekki aðeins meðlimir eldri flokkanna sem bregðast.

Fulltrúar mótmælaframboðsins, sem 7,2% kjósenda treystu fyrir atkvæði sínu, stukku yfir í annan flokk, sneru baki við stuðningsmönnum sínum, grasrót og tóku eitthvert svig á stefnumálin. Þau hafa m.a.s. orðið ber að því að ljúga blákalt um staðreyndir.

Því miður virðist ekkert lát ætla að verða á óheiðarleikanum þó þingmennirnir hafi stofnað nýja flokka í kringum framboð sín. Þannig reynir Þór Saari, sem skipar 5. sæti á lista Dögunar í Suðurkjördæmi, að halda því fram að: „Því miður náðu egóin tökum á sumum upprunalegu félögum okkar og til urðu Lýðræðisvaktin, Píratar, Samstaða (sem svo hvarf), Hægri grænir og fleiri.“ (sjá hér)

Ég veit ekki hvort Guðmundur Franklín geti tekið undir það að hann hafi einhvern tímann verið félagi þingflokks Hreyfingarinnar. Það er hins vegar ljóst að eftir að Hreyfingar-þingmennirnir sviku bæði Lilju Mósesdóttur og Atla Gíslason haustið 2011 hafði þingflokkur Hreyfingarinnar opinberað svo þjónkun sína við ríkisstjórnina, sem Atli og Lilja höfðu sagt skilið við vorinu áður, að það var útilokað að þessi ættu frekari samleið (sjá hér).

Fráhrindandi óheilindi 

Það að að kenna SAMSTÖÐU  um lélegt gengi Dögunar ber ekki aðeins vitni um verulegan skort á pólitísku innsæi heldur er framsetningin bæði óheiðarleg og óforskömmuð afbökun á sannleikanum. En Þór virðist ekki vera einn um það meðal Dögunarfélaga að kunna ekki að fara rétt með staðreyndir heldur búa veruleikann til eftir aðstæðum. Gunnar Skúli Ármannsson, sem skipar heiðursætið á lista Dögunar í kjördæmi Margrétar Tryggvadóttur, heldur viðlíka fram um ástæður lélegs fylgis Dögunar:

Dögun var stofnuð til að sameina alla þá sem vildu gefa fjórflokknum frí. Meginástæðan er að fjórflokkurinn er verkfæri séhagsmunaaðila eða auðvalds eins og það hefur lengstum verið kallað. Tilraunin mistókst. Lilja Mósesdóttir vildi stofna sinn flokk, Birgitta vildi stofna sinn flokk og Lýður vildi stofna sinn flokk. Sturla vildi stofna sinn flokk, Halldór í Holti vildi stofna sinn flokk og svo framveigis. (sjá hér)

Hér er ástæða til að minna á að haustið 2011 tók Þór Saari nefndarsæti af Atla Gíslasyni í Íslandsdeild vestnorræna ráðsins (sjá hér og hér) meðvitaður um það hversu mikils virði sætið var Atla. Enginn Hreyfingarþingmannanna hafði heldur neitt við það að athuga að á sama tíma var Þuríður Bachman sett í sæti Lilju Mósesdóttur í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins (sjá hér og hér). Þetta var gert þremur dögum áður en Lilja átti að fara til Strassborgar og flytja ræðu sem fulltrúi flokkahópsins hennar um skýrslu OECD um efnahagsmál (sjá hér).

Það er svo rétt að taka það fram að SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar var stofnaður 15. janúar 2012, tæpum fjórum mánuðum eftir að Hreyfingarþingmennirnir höfðu opinberað þjónkun sína við ríkisstjórnina. Dögun var ekki stofnuð fyrr en tveimur mánuðum eftir að SAMSTAÐA var stofnuð eða 18. mars það sama ár.

Engin formleg beiðni um málefnasamstarf barst nokkurn tímann frá Dögun til stjórnar SAMSTÖÐU. Hins vegar er ljóst að einhverjir fulltrúar Dögunar lágu mjög í einstökum stjórnarfulltrúum SAMSTÖÐU. Flest bendir til að það hafi haft þann tilgang að freista þess að það næðist meirihlutafylgi innan stjórnar SAMSTÖÐU fyrir þeirri hugmynd að flokkarnir sameinuðust.

Þórður Björn Sigurðsson og Andrea J. Ólafsdóttir

Hér verða þessi samskipti ekki rakin frekar í bili en það má þó minna á það að í alþingiskosningunum 2009 fór Borgarahreyfingin fram með efnahagsstefnu sem var að langmestu leyti byggð upp á hugmyndum sem Lilja Mósesdóttir hafði lagt fram á Opnum borgarafundum haustið 2008 og á Austurvelli í upphafi árs 2009.

Nú eru það fulltrúar Hagsmunasamtaka heimilanna sem sjá um að útskýra efnahagsstefnu Dögunar en hún er að langmestu leyti kóperuð upp úr stefnuskrá SAMSTÖÐU þó þessir fyrrum formenn Hagsmunasamtaka heimilanna falli gjarnan í þá freistni að tala um hana eins og sitt eigið sköpunarverk. (sjá t.d. hér)

Stolið og stælt eða sérstaða

Það er líklegra að allir þeir sem hafa tekið þátt í því að sópa upp flokkum og fólki á nýliðnu ári hafi verið meira haldnir af kappi en forsjá. Það vekur t.d. athygli að stefnumál langflestra er eins og sniðin að þeirri málefnadagskrá sem haldið hefur verið á lofti af eigendastýrðum fjölmiðlum. Viðhorf þessara skyndiflokka til mikilvægra mála eins og ESB-aðlögunarinnar er því í aðalatriðum eins og úrklippubók þeirra frasa sem hafa komið fram á RUV og 365-miðlum um þetta efni. 

Landsbyggðarflokkurinn og Regnboginn

Meðal nýju flokkanna er þó að finna tvær gleðilegar undantekningar. Annars vegar er það. Landsbyggðarflokkurinn sem er með algerlega sjálfstæða stefnu í málefnum landsbyggðarinnar. Viðhorf oddvita listans hafa líka komið spyrlum konsingastjónvarpsins á RUV oftar en einu sinni algerlega í opna skjöldu. Miðað við það litla vægi sem málefni landsbyggðarinnar hafa fengið að undaförnu, bæði í stjórnmálaumræðunni og í störfum þingsins, er það fagnaðarefni að hér sé kominn fram flokkur sem vill verja hagsmuni landsbyggðarinnar sérstaklega.

Annar flokkur sem nýtur töluverðar sérstöðu er Regnboginn sem varð ekki síst að veruleika fyrir þá staðreynd að enginn hina flokkanna var reiðubúinn til að leggja upp í kosningabaráttuna með aðildarviðræðurnar við ESB að aðalmáli. Regnboginn er eini flokkurinn sem er afdráttarlaust á móti því að aðildarviðræðunum verði framhaldið án þess að þjóðin fái tækifæri til að segja sitt álit áður en aðlögunarferlinu lýkur.

Ef litið er til fjölda flokka eingöngu, fyrir þessar alþingiskosningar, er ljóst að kjósendur eru ekki öfundsverðir. Það er nefnilega ekkert áhlaupaverk að kynna sér öll þessi framboð og reyna að gera upp hug sinn. Væntanlega fallast mörgum hendur þegar þeir horfa framan í það að margir flokkanna bjóða líka upp á stefnuskrár sem eru eins og afrit hver af annarri eða klippimyndir héðan og þaðan.

Einhverjir bjóða upp á stefnur í málaflokkum sem enginn í oddvitasætunum hefur menntun eða beina reynslu af. Sumir bjóða m.a.s. fram með efnahagsstefnu SAMSTÖÐU án þess að nokkur innan flokksins sé með þá sérfræðimenntun sem til þarf til að hrinda í framkvæmd efnahagsáætlun til að byggja upp efnahagsstöðugleika í kjölfar þess sem hefur átt sér stað á íslenskum fjármálamarkaði eftir bankahrunið 2008.

Þegar 15 flokkar bjóða fram til þings með 1.512 frambjóðendum alls er ljóst að einhverjir verða fyrir vonbrigðum. Það er hætt við að kjósendur verði líka fyrir vonbrigðum... Ég hef satt að segja mestar áhyggjur af þeim. Ég vona samt að þeir séu fáir sem eru í sömu standandi vandræðum og ég með að kjósa!

Kannski að ég rölti bara þarna austur eftir og skili auðu...
mbl.is Rólegt í Laugardalshöllinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. apríl 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband