Tilgangur
25.3.2013 | 06:26
Í dag hefst önnur vikan sem umræðan um stjórnarskrármálið verður efst á baugi á Alþingi og í fjölmiðlum án þess að hinn eiginlegi tilgangur sem liggur að baki umræðunni liggi á yfirborðinu. Hér hefur ítrekað verið minnt á það að á meðan þessu fer fram renni öll innlend verðmæti hægt og örugglega eftir færibandi peningavaldsins niður í gin hrægammasjóða með erlendum nöfnum... eins og Goldman Sachs...
Það er ekki eingöngu vegið að framtíð lands og þjóðar úr launsátri þess moldviðris sem stjórnarskrárumræðan hefur skapað. Framtíðinni stafar nefnilega ekki síður ógn af ýmsum greinum þess stjórnarskrárfrumvarps sem hefur skapað samningaviðræðunum við fulltrúa erlendra hrægammasjóða skjólið.
Hér er ekki síst átt við 111. grein þar sem segir: Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að (sjá hér) Eins og bent var á hér er fyrirliggjandi stjórnarskráfrumvarp nefnilega fyrst og fremst ætlað að uppfylla skilyrði til Evrópusambandsaðildar eins og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir dró svo skýrt fram í svari sínu sem hún veitti Birgittu Jónsdóttur sl. mánudag.
Ástæða þess að enn er verið að ræða stjórnarskrárfrumvarpið nú rúmri viku eftir áætluð þinglok er breytingartillaga Margrétar Tryggvadóttur sem hefur verið líkt við bæði pólitískt klofbragð og tundurskeyti. Síðastliðinn mándudagt vísaði Pétur H. Blöndal til síðarnefndu ummælanna á undan fyrirspurn sem hann beindi til Margrétar Tryggvadóttur varðandi það hvort það væri ætlun hennar að eyðileggja fyrir stjórnarskrármálinu og skoraði jafnframt á hana að draga breytingartillögu sína til baka.
Af þessu tilefni notaði Margrét Tryggvadóttir tækifærið og gaf kjósendum sínum kosningaloforð þess efnis að ef hún næði kjöri fyrir næsta kjörtímabil yrði það hennar fyrsta verk að setja stjórnarskrárfrumvarpið aftur á dagskrá verði það fellt nú.
Það ætti þess vegna að vera komið á hreint að þeir sem telja að málefni sem tengjast efnahagslegri afkomu heimila og fyrirtækja í landinu svo og málefni sem viðkoma skipan efnahagsmála í landinu hafi orðið fyrir barðinu á þrotlausri umræðu um gallað stjórnarskrárfrumvarp munu tæplega setja Margréti Tryggvadóttur, eða þann flokk sem hún býður sig fram fyrir, sem sinn fyrsta kost í næstu alþingiskosningum.
Þeim sem finnst það aftur á móti brýnt að í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins sé ákvæði um fullveldisframsal þannig að af Evrópusambandsaðild geti orðið geta aftur á móti treyst því að Margrét hefur tileinkað sér ýmsa klæki til að það geti orðið að veruleika.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)