Í þágu sérhagsmuna

Þetta er níundi laugardagurinn sem frakkaklæddir efri stéttar karlar með hatta og úlpuklæddir draumóramenn safnast saman á Ingólfstorgi og láta sem það sé þjóðarvilji að skerða réttinn til þjóðaratkvæðagreiðslu og gefa ríkisstjórninni vald til framsals ríkisvalds til „alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að“. (sjá hér)

Að baki mótmælunum standa þeir sem hafa á einn eða annan hátt lagt sig fram um að villa þannig um fyrir innlendri viðspyrnu að sú grasrót sem varð til upp úr bankahruninu lítur nú út eins og eftir sinubruna (sjá bloggpistilinn: Vegavillt viðspyrna) Villumeistararnir hafa splittað sér upp í þrjú framboð sem öll eru eins og lélegt afrit af Samfylkingunni.

Þrjú framboð um það sama Tvö þeirra eiga þingmenn á þingi. Dögun er annað þeirra. Þingmennirnir tveir sem eru félagar þar hafa staðið fyrir hverjum öfgafarsanum á fætur öðrum á fjölum Alþingis á undanförnum vikum. 

Nú síðast er það handrit sem Margrét Tryggvadóttir er skrifuð fyrir sem mörgum þykir lykta af þvílíkum klækjabrögðum að líkt hefur verið við „pólitíkst klofbragð“. Yfirlýstur tilgangur er að þvinga stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs upp á þjóðina. Reyndar eru fleiri á því að með þessu muni Margrét Tryggvadóttir ná þeim árangri að ganga frá stjórnarskrármálinu dauðu.

Þar sem það má gera ráð fyrir að þessi sé ekki ætlun Margrétar Tryggvadóttur er eðlilegt að svara þeirri spurningu hvaðan hugmyndin að handritinu er upprunninn. Auðvitað er ekkert öruggt í því sambandi en ýmsir hafa fullyrt að hugmyndin sé komin innan úr Samfylkingunni eins og fleira sem þingmenn þingflokks Hreyfingarinnar hafa haft til málanna að leggja allt síðastliðið ár í það minnsta.

Það allra versta í þessu öllu saman er að á meðan þessir og þeir sem leika sér þannig að öðrum til að halda úti leikritinu: „Alþingi leiðir íslenskan almenning til glötunar“ renna öll innlend verðmæti hægt og örugglega eftir færibandi peningavaldsins niður í gin hrægammasjóða með erlendum nöfnum...

Sá þráláti orðrómur hefur nefnilega farið eins og eldur um sinu að fulltrúar Goldman Sachs séu búnir að vera hér á landi síðastliðinn hálfan mánuð (sumir segja sl. níu mánuði) að semja um hvernig þeir nái eignum sínum út úr íslenska hagkerfinu; þ.e. snjóhengjunni. Síðastliðinn hálfan mánuð hafa leikstjórar núverandi ríkisstjórnar att þingmönnum Hreyfingarinnar til hvers farsaþáttarins á fætur öðrum með þeim afleiðingum að almenningur snýr sér að einhverju öðru en að fylgjast með þessari vitleysu...

Stjórnmálamennirnir sem haga sér þannig nú blekktu velflesta kjósendur í síðustu kosningum til meðvitundarleysisins um samninga við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og samninga sem fólu það í sér að þjóðin skyldi borga Icesave. Strax eftir kosningar kom hið sanna í ljós og allt þetta kjörtímabil hefur farið í viðbragðsaðgerðir ýmissa sjálfboðaliðshópa til að viðhalda möguleikanum til mannsæmandi lífskjara hér á landi.

Það eru þessir sömu stjórnmálamenn ásamt þingmönnunum, sem komust inn á þing vorið 2009 í nafni mótmælaframboðsins, sem bjóða íslenskum kjósendum nú upp á endalausan farsa um stjórnarskrárfrumvarp til að blekkja kjósendur til meðvitundarleysis um samningana sem er verið að gera á bak við tjöldin við hrægammasjóðina.

Frakkaklæddur efri stéttar karlar með hatta og úlpuklæddur draumóramaður

Á meðan safnast frakkaklæddir efri stéttar karlar með hatta og úlpuklæddir draumóramenn saman á Ingólfstorgi hvern laugardag og láta sem það sé þjóðarvilji að skerða réttinn til þjóðaratkvæðagreiðslu og gefa ríkisstjórninni vald til framsals ríkisvalds til „alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að“. Á meðan renna öll innlend verðmæti hægt og örugglega eftir færibandi peningavaldsins niður í gin hrægammasjóða með erlendum nöfnum...  eins og Goldman Sachs...

*******************************
Myndin af vaktstjóra Lýðræðisvaktarinnar og þingmanni Hreyfingarinnar er fengin að láni hjá Árna Stefáni Árnasyni


mbl.is „Lágmarksreisn fyrir þingið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. mars 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband