Lítilsvirðing eða fíflska

Ómar Geirsson hefur fjallað þó nokkuð um þann fámenna hóp sem hefur haldið uppi þeim málflutningi að það sé þjóðarvilji að stjórnarskrárfrumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi verði lagt til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Þessi hópur hefur nú endurvakið reglulega laugardagsfundi á Austurvelli með Hörð Torfason í broddi fylkingar til að krefjast þess að Alþingi láti þennan vilja „ná fram að ganga.“ (sjá hér)

Álfheiður Ingadóttir og Gísli Tryggvason

Í dag verður þriðji útifundurinn haldinn og eru tveir framsögumenn á fundinum. Það eru þau Katrín  Fjeldsted, heimilislæknir og Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði.

  • Katrín Fjelsted var kosin formaður Evrópusamtaka lækna (CPME)  á aðalfundi samtakanna sem haldinn var í Brussel í júní í fyrra og tók við því embætti 1. janúar síðastliðinn. (sjá hér).
  • Þorvaldur Gylfason hefur á undanförnum árum verið tíður ráðgjafi AGS, framkvæmdarstjórnar ESB og EFTA auk þess sem hann hefur haldið fyrirlestra um efnahagsmál á vegum þessara í Afríku, Asíu og Mið-Austurlöndum. (sjá hér)

Því má svo bæta við að Þorvaldur og Katrín voru bæði í stjórnlagaráði.

Eins og þeir, sem hafa fylgst með umræðunni um stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs, kannast við er langt frá því að vera einhugur um ágæti frumvarpsins. Ein þeirra greina stjórnarskrárdraganna sem margir gjalda varhug við er 67. greinin sem fjallar um þjóðaratkvæðagreiðslur. Í ljósi nýfallins dóms EFTA-dómstólsins um Icesave-málið hafa fleiri tekið að velta inntaki hennar og tilgangi fyrir sér. Greinin hljóðar þannig:

Mál sem lagt er í þjóðaratkvæðagreiðslu að kröfu eða frumkvæði kjósenda samkvæmt ákvæðum 65. og 66. gr. skal varða almannahag. Á grundvelli þeirra er hvorki hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt. (sjá hér)

Lilja Mósesdóttir, þingmaður, er ein þeirra sem hefur vakið athygli á því hvað þetta þýðir. Í ræðu sem hún flutti í sérstökum umræðutíma þingsins um niðurstöðu dómsins sem var birtur síðastliðinn mánudag sagði hún um þetta atriði:

Íslendingar hafa nú eftir EFTA-dóminn sýnt fram á mikilvægi þess að þjóð hafi stjórnarskrártryggðan rétt til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum og varðandi skattaleg málefni.

Við megum því ekki samþykkja stjórnarskrártillögur sem ekki tryggja rétt kjósenda til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um mál af sama toga og Icesave-málið. (sjá hér líka hér þar sem Lilja gerir grein fyrir afstöðu sinni til nýrrar stjórnarskrár)

Í ofangreindu ljósi orkar það mjög tvímælis að til stendur, eftir því sem kemur fram í auglýsingu inni á Fésbókinni um framangreindan útifund, að veita þeim grasrótarhópum viðurkenningu sem knúðu fram þjóðaratkvæðagreiðslurnar sem fram fóru um Icesave-málið. Texti auglýsingarinnar hljóðar þannig:

Í lok fundar mun Hróshópurinn veita þeim grasrótarhreyfingum og sjálfboðaliðum sem hafa starfað gegn IceSave-málinu viðurkenningu. Fjöldi manns hefur lagt á sig mikið starf í sjálfboðavinnu til að tryggja hagsmuni íslensks almennings. Þetta fólk á þakkir skildar. Vonumst við til að sjá fulltrúa frá þessum hópum; InDefence, Advice, kjosum.is og Samstaða þjóðar. (sjá hér)

Af þessu tilefni leyfi ég mér að spyrja hvort það sé til eitthvert kjarnyrt og lýsandi nafnorð um þá sem láta sem 67. grein stjórnarskrárfrumvarpsins snúist um eitthvað annað en útiloka það að knúnar verði fram þjóðaratkvæðagreiðslur um þjóðréttarskuldbindingar sem fram kunna að koma í framtíðinni og ganga m.a.s. svo langt í meintu skilningsleysi sínu að þeir vilja stefna þeim fjölda sem lagði „á sig mikið starf í sjálfboðavinnu til að tryggja hagsmuni íslensks almennings“ til að taka við einhverju, sem á að heita viðurkenning, á útifundi „um „betri stjórnarskrá“?

Ég get heldur ekki annað en spurt þess líka hvort það eru til orð til að lýsa þeirri niðurlægingu sem baráttufólkinu fyrir Icesave er sýnt með því fullkomna taktleysi að stefna þeim sem börðust fyrir Icesave til óbeinnar þátttöku í útifundi sem snýst um það að taka leiðina af komandi kynslóðum sem þessu fólki var fær til árangurs í þeirri baráttu? ... eða er þetta bara fíflska?

Mig langar að lokum til að vekja athygli á bloggpistli sem ég birti hér skömmu fyrir jól um vegvillta viðspyrnu þar sem pistillinn kemur mjög inn á það hvernig það vildi til að hluti þeirrar grasrótar sem barðist fyrir auknu lýðræði strax í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 snerist til þess að berjast fyrir skerðingu þess nú.
mbl.is „Stóra stríðið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. febrúar 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband