Leiðrétting á sannleikshallanum
21.1.2013 | 22:30
Ég hef orðið vör við að einhverjir eru haldnir þeim misskilningi að SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar hafi verið lagður niður. Einhverjir halda því líka fram að Lilja Mósesdóttir sé hætt í SAMSTÖÐU. Ég kann ekki skýringarnar á því hvernig þessi misskilningur er til kominn en þykir sennilegast að hann stafi af orðum einstaklinga sem kunna ekki alveg að fara með sannleikann.
Það er rétt að það var haldinn félagsfundur fyrir tæpri viku síðan eða þriðjudagskvöldið 15. janúar. Þann dag varð SAMSTAÐA ársgömul en boðað var til fundarins að frumkvæði tveggja SAMSTÖÐUfélaga sem vildu ræða stöðu og framtíð flokksins.
Niðurstaða fundarins varð sú að meiri hluti félagsmanna samþykkti áskorun, sem lögð var fram á fundinum, um það að leggja það fyrir komandi landsfund hvort lítill og fjárvana stjórnmálaflokkur ætti að bjóða fram í öllum kjördæmum eða breyta SAMSTÖÐU í þjóðmálafélag að sinni a.m.k. (sjá hér og hér)
Daginn eftir birtist fréttatilkynning í fjölmiðlum frá sjö af níu fulltrúum í stjórn flokksins þar sem fram kom að þau undu ekki þessari lýðræðislegu niðurstöðu félagsfundarins. Í fréttatilkynningunni sögðu þessi sjö sig frá trúnaðarstörfum sem landsfundarfélagar á landsfundinum í október höfðu falið þeim. Jafnframt sögðu sjömenningarnir sig úr flokknum og báru við eindregnum vilja Lilju um að SAMSTAÐA bjóði ekki fram í næstu alþingiskosningum auk samstarfsörðugleika.
Það er e.t.v. rétt að taka það fram að yfirlýsingin kom forystu framkvæmdaráðsins svo og öðrum félagsmönnum SAMSTÖÐU jafn mikið á óvart og öðrum sem lásu í fjölmiðlum að þessi sjö hefðu sagt af sér stjórnarstörfum þremur vikum fyrir boðaðan landsfund. M.ö.o. þá var hún hvorki rædd á félagsfundinum sl. þriðjudagskvöld né borin undir framkvæmdaráðið.
Sá sem tók við formennsku SAMSTÖÐU af Lilju Mósesdóttur sl. haust var einn þeirra sem stóð að yfirlýsingunni. Í útvarpsviðtali á RUV viðurkenndi hann að ekkert væri hæft í fullyrðingum sem hann og aðrir fráfarandi stjórnarfulltrúar höfðu haft um Lilju Mósesdóttur í yfirlýsingunni frá deginum áður (sjá hér). Eftir stendur að líklegasta skýringin á því að sjö af níu stjórnarmönnum yfirgáfu SAMSTÖÐU með framangreindum hætti er sú að þessi sjö geti ekki sætt sig við meirihlutaákvörðun félagsfundarins um að endanleg ákvörðun um framboð í næstu alþingiskosningum verði tekin á landsfundi SAMSTÖÐU 9. febrúar n.k.
Það er svo kannski rétt að árétta það að engin breyting hefur orðið á stöðu Lilju Mósesdóttur innan flokksins. Hún var kjörin formaður framkvæmdaráðs SAMSTÖÐU á fyrsta framkvæmdaráðsfundinum eftir landsfundinn í október. Meðal verkefna formanns framkvæmdaráðs er að leiða þann undirbúning sem nú er kominn á verulegt skrið fyrir landsfundinn sem verður haldinn laugardaginn 9. febrúar. Allir félagsmenn SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar eru að sjálfsögðu boðnir velkomnir á fundinn.
Þeir sem vinna að undirbúningnum með henni eru félagar sem sitja í stjórnum og framkvæmdaráði SAMSTÖÐU (sjá hér) auk nokkurra félagsmanna til viðbótar sem hafa boðið fram krafta sína við undirbúninginn. Nánar verður sagt frá tilhögun landsfundarins í félagsbréfi, sem hefur verið sent út á SAMSTÖÐUfélaga nokkuð reglulega frá því í lok apríl í fyrra, og á heimasíðu flokksins síðar í þessari viku.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.1.2013 kl. 01:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)