Á meðan heimilunum blæðir
19.1.2013 | 18:39
Á meðan heimilunum blæðir, skjólstæðingum hjálparstofnana fjölgar og atvinnustéttirnar hrekjast úr landi breiða margir þeirra sem nú eru í pólitík yfir vanhæfni sína við að bregðast við ástandinu með einhverju sem mætti helst líkja við menntaskólapólitík. Pólitíkin einkennist því frekar af átökum við - eða um persónur en vitsmunalegum rökræðum um málefnaáherslur eða af lausnarmiðuðum leiðum til úrbóta.
Björt framtíð er ein birtingarmynd þessa. Flokkur sem hefur enga stefnu nema ganga inn í ESB eins fljótt og auðið er með rökum í ætt við frasa í beinan karllegg við ussið eða: Æi, hættum þessu veseni og skellum okkur bara í hrunadans ESB-partýisins!
Mórallinn sem hefur orðið ofan á innan Dögunar einkennist ekki síður af þeirri gelgjupólitík sem í reynd hefur engan annan tilgang en þjóna þeim þrönga hópi sem stendur saman í því að horfast ekki í augu við vandann sem ógnar tilveru flokksins. Brestirnir koma kannski best fram í titli skáldverksins: Hroki og hleypidómar eftir Jane Austen sem eru drifin áfram á hégómagirndinni.
Það var að öllum líkindum hégómagirndin sem leiddi Hreyfingarþingmennina á leynifundi með ríkisstjórninni í desember 2011. Það er a.m.k. ljóst að niðurstaðan af þeim fundum snerist ekki um hagsmuni almennings í landinu heldur leiddi hún til þess að stjórnarskrármálið hefur síðan verið eins konar þráhyggjustefna Hreyfingarþingmannanna og þess hóps sem stendur þéttast í kringum þessa einstaklinga.
Óhjákvæmilega veltir maður því fyrir sér hvað nærir þessa þráhyggju og verður að viðurkennast að stundum hefur það hvarflað að þeirri sem þetta skrifar að það sé ekkert annað en það að þannig yrði það tryggt að nafn Borgarahreyfingarinnar fengist skráð á spjöld sögunnar fyrir það að hafa komið einu af stefnumálum sínum í höfn; þ.e. nýrri stjórnarskrá.
Það er tæplega hægt að hugsa sér sjálfsmiðaðri tilgang. Ef tilgátan er röng þarf að finna aðra skýringu á því hvað það er sem stýrir þeirri sjálfsmiðuðu pólitík sem einkennir málflutning Hreyfingarþingmannanna og þeirra hópa og einstaklinga sem hafa þjappað sér í kringum þá til að mynda þann þrýsting sem þessir hafa reynt að halda uppi með yfirlýsingum um að núverandi stjórnarskrárdrög spegli þjóðarvilja varðandi það hver texti og innihald nýrrar stjórnarskrár eigi að vera (sjá hér og hér).
Hver sem skýringin á málflutningi þessa hóps varðandi stjórnarskrármálið er þá er ljóst að honum er haldið uppi af afar litlum en háværum hópi með tilvitnunum og áherslum sem ná ekki eyrum þess meirihluta sem vísað er til. Hvað þá að hann orki sannfærandi á þá sem eru vaxnir upp úr menntaskólapólitíkinni. Það væri því óskandi að þessir horfðu til þeirrar stöðu sem er í samfélaginu, þar sem heimilunum blæðir, skjólstæðingum hjálparstofnana fjölgar og atvinnustéttirnar hrekjast úr landi, og settu baráttuþrekið í að ráða bót á þessum samfélagsvanda.
![]() |
Vilja að stjórnarskrármálið sé klárað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)