Íslendingar eru á gálgafresti...

Sú staða sem Grikkland og Spánn eru í nú er sú staða sem Ísland væri í líka ef hér hefðu ekki farið fram tvær þjóðaratkvæðagreiðslur um Icesave-samningana og Tunnumótmæli haustið 2011. Það heyrast samt enn raddir sem segja að viðspyrnan hér á landi hafi ekki skilað neinu.

En ef ekki hefði verið fyrir Indefence-hópinn sem vann ötulega að því að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslurnar í byrjun árs 2010 og Samstöðu þjóðar gegn Icesave fyrri hluta árs 2011 þá væru kjör almennings á Íslandi þau sömu og Grikkir og Spánverjar standa frammi fyrir nú. Tunnumótmælin í októbermánuði 2011 knúðu svo fram sérstakar vaxtaniðurgreiðslur sem hafa haldið stórum hluta lánagreiðenda góðum síðan. Samkvæmt nýjum fjárlögum er gert ráð fyrir að viðlíka plástrameðferð verði framhaldið fram yfir kosningar.

Viðspyrnan hér á landi hefur skilað íslensku þjóðinni gálgafresti. Því miður eru þeir allmargir sem átta sig ekki á árangri hennar. Í stað þess að honum sé fylgt eftir hefur árangurinn orðið til þess að slá viðspyrnuna niður. Í skjóli viðspyrnuleysisins er stefna stjórnvalda sú sama og hefur leitt lífskjör almennings í Grikklandi og á Spáni til þeirra hörmunga að stefnir til alvarleika borgarastyrjaldar í báðum löndum.

Á þriðjudaginn var mótmælt á Spáni og aftur í gær. Í Grikklandi var mótmælt í gær. Kannski halda mótmælin þar áfram í dag. Það sem veldur ekki sístum ónotum yfir fréttum af mötmælunum í báðum löndum er sú staðreynd að þær fjölþjóðlegu fjármálastofnanir sem íslensk stjórnvöld hafa ofurselst varðandi stefnu og leiðir í efnahagsmálum eru orsakavaldar þeirrar stórfelldu lífskjaraskerðingar sem almenningur beggja landa er að mótmæla.

Í stað þess að grísk og spænsk stjórnvöld mæti kröfum kjósenda sinna víggirðast þau með lifandi her vígbúinna lögreglumanna. Í báðum löndum fer lögreglan fram með slíku offorsi að það vekur ekki aðeins furðu heldur líka illan grun. Hér er myndband frá óháða fréttamiðlinum therealnews.com sem sýnir mjög vandaða frétt þeirra frá mótmælunum á Spáni sl þriðjudag:



Þessi frétt kveikti upp eftirfarandi hugleiðingar sem ég lét fylgja krækju á myndbandið sem ég setti inn á Fésbókina:

Hér er frétt af mótmælum gærdagsins á Spáni sem er unnin skv. því sem fréttamönnum var a.m.k. einu sinni kennt að fara eftir. Það er að fréttir þeirra uppfylltu alltaf háin sex. Það er: HVAÐ, HVAR, HVENÆR, HVER/HVERJIR, HVERS VEGNA og HVERNIG.

Fréttamaðurinn sem vinnur þessa frétt vinnur á óháðum fréttamiðli sem hefur ekki yfir miklum peningum að ráða. Það er kannski þess vegna sem hann segir okkur: HVAÐ er um að vera. HVERJU er verið að mótmæla. HVERNIG mótmælin fóru fram og HVERS VEGNA kom til átaka á milli lögreglu og mótmælenda.

Útkoman er ekki aðeins upplýsandi frétt heldur áhrifarík. Hún leiðir í ljós nöturlegan sannleika um það hverjir etja einkennisbúnum mönnum gegn almenningi sem er í nákvæmlega sömu stöðu og þeir sjálfir. Hún fær mann líka til að hugsa hvers vegna lögreglan fer fram gegn almenningi og hvaða afleiðingar það muni hafa.

MÍN NIÐURSTAÐA ER ÞESSI: Það eru peningaöflin sem etja lögreglumönnunum fram í krafti þess að þeir eru menn sem eru að verja lífsviðurværi sitt. Ef peningaöflunum tekst ætlunarverk sitt verður borgarastyrjöld á milli lögreglu/hers og almennings. Í þvi stríði munu átökin stöðugt harðna með tilheyrandi líkams- og sálarmeiðingum. Borgarastríðið þjónar engum nema peningaöflunum vegna þess að í skjóli þess tekst eigna- og valdastéttinni að viðhalda forréttindum sínum í nokkrar kynslóðir til viðbótar.

Á meðan almenningur berst í tveimur fylkingum, þar sem önnur er í einkennisbúningi þeirra sem byggja lífsviðurværi sitt á því að verja valdhafa og peningamarkaðinn en hin stendur saman af öðrum atvinnustéttum, fara átökin sífellt harðnandi þar til þau ná hámarki í blóðsúthellingum. Það tekur næstu kynslóðir einhverja áratugi að græða sárin.
 
Borgarastríðið þjónar því engum nema eigna- og valdastéttinni og þess vegna mun hún ekki gera neitt til að binda enda á það heldur kynda undir... m.a. með hjálp peningastýrðra fjölmiðla!

Af þessu tilefni langar mig til að hrósa þessari óvenjulega vönduðu frétt á mbl.is af mótmælunum á Spáni. Íslensk kona sem er búsett í  Grikklandi lýsir samskiptum lögreglu og almenning á þann hátt að það vekur ekki ósvipaðar hugrenningar og hér að ofan en það var þetta sem hreyfði mest við mér: Íslensk kona sem búsett er í Grikklandi fylgdist með mótmælunum og segir suma mótmæla þó ekki sé nema sjálfsvirðingarinnar vegna en margir hafi misst trúna á að hægt sé að sporna við málum.“

Við lesturinn var mér óneitanlega hugsað til Íslendinga. Þrátt fyrir árangurinn sem hefur náðst með viðspyrnunni hér á landi eru þeir þó nokkrir sem aldrei hafa haft neina trú á að það að sporna á móti beri árangur. Enn fleiri hafa verið að gefast upp á síðasliðnu eina og hálfa ári þrátt fyrir dæmin sem ég taldi upp hér að ofan. Miðað við fjöldann sem mótmælti við setningarræðu forsætisráðherra þ. 12. september þá er hægt að segja að þeir eru sorglega fáir meðal íslensku þjóðarinnar sem hafa nægilega sjálfsvirðingu til að mótmæla óréttlætinu sem þeir mæta sjálfir og/eða horfa upp á að meðbræður þeirra verða fyrir...

Maður spyr sig óneitanlega að því hvað veldur? Því það eitt er víst að hér á landi hefur náðst tvímælalaus áragnur með mótmælum og annars konar viðspyrnu. Íslenska lögreglan hefur heldur ekki sýnt sig í að koma fram gagnvart samborgurum sínum eins og sú gríska og spænska þó íslensk stjórnvöld þiggi vel flest sín ráð frá sömu stofnunum og stjórnvöld Grikklands og Spánar.


mbl.is Grikkir hræddir og vilja breytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. september 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband