Exelskjalið og raunveruleikinn

Í stefnuræðu sinni í kvöld mun forsætisráðherra tala upp af Exel-skjali um hagtölur sem urðu til í tölvum líkt og tölvufærðar peningaeignir bankanna sem ullu hruninu haustið 2008. Á grunni tölvufærðu hagtalnanna mun Jóhanna Sigurðardóttir halda því fram að „Íslendingum líði almennt betur“ og að „vísbendingar séu um“ að það fari að draga úr „óeðlilegri“ tíðni vanskila. (heimildin)

Þó forsætisráðherra stigi upp í ræðustól Alþingis í kvöld og haldi slíku fram þá breytir hún ekki raunveruleikanum sem íslenskur almenningur stendur frammi fyrir. Hér á eftir verða dregnir fram þrír litlir raunveruleikamolar sem fá ekkert rúm í Excel-skjalinu hennar Jóhönnu. Sögurnar eru allar teknar upp af Facebook þar sem þær voru birtar sem stöðuuppfærslur.

1. Fyrst er það saga ungs læknis á Landspítalanum sem er nýkominn heim úr námi:
Unglæknir
„Í gær gat ég ekki fengið hjartaómskoðun í gegnum vélinda af sjúklingi vegna þess að ómhausinn á eina tækinu til þess á Landspítalanum er bilaður og það er ekki til annar haus til vara.Í dag gat ég ekki fengið kyngingarmynd af sjúklingi vegna þess að það er ekki til skuggaefni á Landspítalanum :) Vona að forstjórinn kippi þessu í lag þegar hann er komin á hærri laun. Hahahaha :-D“

2. Svo er það stadus frá móður sem hefur þungar áhyggjur af framtíð barna og tengdabarna:

Hvað verður um börnin mín„Ég er nú svo heppinn að börn mín og tengdabörn eru ágætlega menntuð og hafa ágætis laun. Þau eiga marga vini í þessum hærri launakanti og margir skulda 40-70 milljónir og eiga á bilinu 0-40% af sínum eignum.

Þetta fólk hefur getað greitt af sínum lánum og flest lifað sparlega en vandinn er í raun að lánin hækka um 2-3 hundruð þúsund á mánuði. Og vegna þess að þau geta greitt og staðið í skilum er engin lækkun eða annað í boði fyrir þetta fólk.

Nú er ég að heyra að margir séu að gefast upp, séu hættir eða ætli að hætta greiðslum, láta bankann hirða eignina og flytjast erlendis.

Þetta er svo grafalvarlegt ástand að ég skil ekki í hvaða ríki flestir alþingismenn búa. Þeir eru ekki að skilja samhengið svo mikið er víst.

Og mér skilst að Drómi sem er í eign Seðlabankans og þar með ríkisins sé einna verstur viðureignar.

Svo er hægt að moka tugum milljarða í SP-KEF HÍTINA sem dæmi (en kratar voru þar við stjórnvölinn síðustu metrana) og auðvitað hugsar Samfylkingin um sitt Pakk.

Guð blessi unga menntafólkið okkar sem af dugnaði og eljusemi menntaði sig og byggði sér heimili af dugnaði. Mér virðist að stjórnvöldum sé alveg sama þó þessir krakkar yfirgefi landið.“

3. Að lokum er það stadus frá ungum fjölskyldu- og lögreglumanni:
Lögreglumaður
„Til að spara þeim vinnuna hjá Íbúðarlánasjóði við það að „rannsaka hvers vegna þessi heimili séu í vandræðum“ skal ég nefna nokkrar ástæður:
 
* Stökkbreyttu verðtryggðu lánin halda áfram að hækka!
* Sparnaðurinn er búinn!
* Kaupmátturinn hefur minnkað.
* Fólk neyðist til þess að kaupa hluti sem það hefur beðið með!
 
Svo er fólk bara orðið drulluþreytt á því að vera haldið í gíslingu lánadrottna meðan þeir sem komu þeim í þessa stöðu eru leystir út einn á fætur öðrum! Þetta er tifandi tímasprengja sem hagfræðidoktorar og talnasérfræðingar geta ekki aftengt með tölum og súluritum.
 
Ef að “sérfræðingarnir” skilja þetta ekki get ég fengið dóttur mína til þess að útskýra þetta fyrir þeim. Hún er sex ára!“
 
Dæmi af þessum toga eru því miður mýmörg þó þau rúmist ekki í Excel-skjali forsætisráðherra eða þess meirihluta sem hún segir að telji Ísland á réttri leið. Ég tek undir orð móðurinnar hér að ofan sem segir: „ég skil ekki í hvaða ríki flestir alþingismenn búa. Þeir eru ekki að skilja samhengið svo mikið er víst.“ Þess vegna ætla ég að vera niður á Austurvelli kl. 19:30 í kvöld og minna þessa alþingismenn á raunveruleikann sem er útilokað að ná sambandi við í gegnum tölvufært Excel-skjal.

Bloggfærslur 12. september 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband