Með samstöðu er allt hægt!
26.8.2012 | 00:51
Þegar ég gekk til liðs við SAMSTÖÐU flokk lýðræðis og velferðar taldi ég víst að þeir væru miklu fleiri en ég sem fögnuðu því að hér væri kominn farvegur fyrir þann lausnarmiðaða málflutning sem hefur skapað Lilju Mósesdóttur trausts óháð flokkslínum (sbr. könnun MMR frá febrúar sl.). Á þeirri forsendu ákvað ég að auka SAMSTÖÐU liðsstyrk enda þekki ég það vel frá ýmsum viðspyrnuverkefnum mínum hversu mikill grundvallarmunur er á huglægum styrk og verklegum.
Ákvörðun Lilju Mósesdóttur og tildrög hennar markar óneitanlega þáttaskil fyrir þá baráttu sem ég hef alla tíð lagt lið. Í kjölfar opinberunar hennar velti ég því þess vegna fyrir mér hvort kröftum mínum í þágu heiðarlegs uppgjörs við hrunið og skynsamlegrar uppbyggingar nýs samfélags sé betur varið annars staðar en í formannssæti SAMSTÖÐU-Reykjavík.
Ákvörðun Lilju Mósesdóttur, formanns flokksins, var rædd á stjórnarfundi aðildarfélagsins. Niðurstaðan varð sú að taka áskorun stjórnar flokksins um að fjölmenna á landsfundinn þann 6. október n.k. með von um að fleiri, sem hafa trú á því að með samstilltu átaki megi takast að byggja upp öflugt og traustverðugt stjórnmálaafl, geri slíkt hið sama. Það kostar vinnu en með samstöðu er allt hægt!