Rót vandans

Sumir vilja e.t.v. ganga svo langt að halda því fram að rætur þeirra vandamála sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir sé eignarétturinn. Ég er á því að þær liggi miklu fremur í hugmyndinni um að verðmerkja veraldlegar eignir á þann hátt að sá sem á meira hafi þar með völd yfir þeim sem eiga minna.

ViskaÉg ætla ekki að lengja mál mitt með ýtarlegum vangaveltum um eignaréttinn en vil þó taka það fram að á meðan eignarétturinn tekur eingöngu til veraldlegra eigna og raffærða innistæðna í bókhaldi fjármálastofnanna þá er eignarétturinn vandamál. En eins og vikið hefur verið að þá er vandamálið í kringum eignaréttinn miklu fremur hugmyndafræðilegur en eiginleg ástæða vandans. Rót vandans liggur miklu fremur í peningunum sem er afsprengi þeirrar hugmyndafræði sem fengið hefur að blómstra í kringum réttinn til að telja eitthvað til sinnar einkareignar.

Peningar sem vopn

Með peningum hafa þeir sem hafa átt meira fengið vopn í hendurnar til að ráðkast með fleiri og fleiri þætti sem viðkoma einkahögum þeirra sem eiga minna. Fram að þessu hefur hugmyndafræði lénstímabilsins í Evrópu, fasistanna á Ítalíu og á Spáni, nasismans í Þýskalandi og komúnismans í austri verið höfð að dæmum um ógnarvald siðspilltrar einræðishyggju.

Veraldarsagan

Ég má til að minna líka á það hvernig kaþólska miðaldakirkjan, nýlendustefna ýmissa Evrópuþjóða og þrælaverslunin á milli Evrópu og Norður Ameríku hefur hingað til verið höfð að dæmum um það hvernig yfirburðarstaða í skjóli valds og peninga hefur bitnað á varnarlausum almenningi. En hvernig lítur þá nútíminn út í samanburði við þessi og fleiri áþekk tímabil sögunnar?

Ég geri mér vonir um að allir sem lesi þessar línur séu sammála um að sú ógn sem almenningur bjó undir á ofangreindum tímabilum var drifin áfram af peningum. Ég reikna líka með því að í reynd séu langflestir sammála um að ógnin sem almenningur stendur frammi fyrir í nútímanum snúist líka um peninga. Hvað annað liggur á bak við það að 1% mannkyns hefur komið sér þannig fyrir að það ógnar hinum 99%-unum?

Mig grunar reyndar að þeir sem telja sig njóta góðs af núverandi fyrirkomulagi peningamála í heiminum séu umtalsvert fleiri en 1%. En á meðan þjóðirnar sváfu við þá sannfæringu að heimska valdagræðginnar hefði lagst af, ekki seinna en við hrun kommúnismans í kringum 1990, hefur hún þrifist til þeirrar ógnar sem almenningi stafar af ávöxtum hennar nú. Í skjóli þeirra sem hafa komið undir sig einkaréttinum til peningaprentunar hafa orðið til nýjar valdastofnanir sem hafa það hlutverk að stýra fjármálahreyfingunum á alþjóðavísu.

Nýfrjálshyggja

Hugmyndafræði nútímapeningastefnu gengur í meginatriðum út á það að allt sé mögulegt í krafti peninga. Þeir eru því ekki einungis notaðir til að kaupa stjórnmálamenn og fyrirtæki heldur líka til að ryðja þeim úr vegi sem hafna þeirri hugmyndafræði að þeir sem eigi meiri peninga eigi þar með rétt til að ríkja yfir réttindum og athöfnum hinna sem eiga minna. 

Á meðan almenningur þegir gengst hann í rauninni undir þessa hugmyndafræði. Á meðan þjóðir heims undirgangast það að valdið eigi kröfu á almenning um að hann haldi því uppi á hverju sem gengur þá breytist ekki neitt. En ef allur almenningur opnar augu sín fyrir því að valdið gegnir ekki lengur því hlutverki sem það heldur fram þá er von um að framtíðin muni fjalla um samtímakynslóðirnar sem eitthvað annað en viljalaust fé eða sofandi sauði sem lét fara með sig eins og sá almenningur sem við höfum dæmt hingað til fyrir það að láta einstaklinga eins og Mussolini, Franco, Hitler, Stalín og Maó kúga sig.

Valdarán peninganna

Almenningur hefur lengst af verið „tækið“ sem skapar hin raunverulegu verðmæti meðEg skal annast þig vinnuframlagi sínu. Honum hefur verið kennd spakmæli eins og: „Vinnan göfgar manninn“ en það er ekki það sem knýr hann áfram heldur hitt að hver og einn hefur fyrir sjálfum sér að sjá og gjarnan einhverjum fleirum sem eru honum tengdir í gegnum ástvina- og fjölskyldubönd. Þeir sem hafa komist upp með að rækta letina í sjálfum sér í skjóli þess að eiga meira hafa á öllum tímum verið ótrúlega duglegir við að eigna sér misstóra hlutdeild í þeirri raunverulegu hvöt sem vinnusemi almennings er sprottin af.

Því miður hafa þeir sem hafa ekkert að verja nema lífið verið notaðir sem tæki í óheiðarlegri varnarbaráttu þeirra sem svífast einskis við að verja eignir sínar og völd. Þannig er það enn í dag og verður ekki betur séð en nútíminn sé síst betri í aðferðarfræði sinni en þeir -ismar sem kúguðu heilu þjóðirnar til hlýðni með ógn einræðisstýrðra byssukúlna á síðustu öld. 

Þó vopnin séu önnur nú, í þessu endalausa stríði þeirra sem eiga meira og hinna sem þeir lifa á, þá er aðferðarfræðin sú sama. Í stað gamalgróinna stríðsaðferða, sem kostuðu stórkostlega eyðileggingu á ræktunarlandi og byggingum ásamt mannslífunum sem féllu fyrir byssukúlum og sprengjum, er komin ný tækni sem takmarkar eyðilegginguna. Vígvöllurinn er ekki aðeins orðinn svo ógreinilegur að fæstir koma auga á hann heldur eru vopnin sem er beitt svo óáþreifanlegt að það kallar á annað hugtak en haft var um drápsvélar eldri stríða sem kostuðu blóð og aðra rekjanlega eyðileggingu.

Peningavaldið stýrir heiminum

Vopnunum sem er beitt í því stríði sem allir vinnandi menn eru óafvitandi orðnir þátttakendur í eru peningarnir. Stríðið er endalaust og tekur aldrei enda á meðan almenningur tekur því þegjandi að allt sem hann framkvæmir sé háð geðþóttaákvörðunum þess valds sem byggir stöðu sína á magni raffærða peningaupphæða sem það heldur fram að tilheyri því. Veruleiki nútímans er sá að allur almenningur er stríðsfangar í hlekkjum verðmerkingarinnar á eignarétti þeirra sem eiga meira.

Okkur var lofað að það sem er tekið af vinnuframlagi okkar þjóni okkar eigin hagsmunum því það fari í að byggja upp ýmsa samfélagsþjónustu sem við njótum síðan góðs af í okkar daglegu athöfnum og ef við verðum fyrir skakkaföllum. Af framlagi okkar hafa orðið til sjóðir sem þeir sem eiga meira hafa ekki staðist freistingarnar af. Þeir hafa annaðhvort komið sjálfum sér, eða þægum þjónum sínum fyrir, yfir þessum sjóðum sem hefur haft þær afleiðingar að sífellt minna verður eftir til hagsbóta fyrir þá sem leggja sjóðunum til raunveruleg verðmæti.

Þeir sem eru tilbúnir til að lifa þannig á verðmætunum sem almenningur skapar fer sífellt fjölgandi. Útsjónarseminni til að koma sér fyrir í sæti arðræningjans, sem uppábúinn nefnist milliliður, virðist engin takmörk sett. Sífellt spretta upp fleiri milliliðir sem skapa sér arð af regluverksstýringu á milli þeirrar einföldu athafnar almennings að viðhalda sjálfum sér með því að leggja fram vinnu og hafa mat og húsaskjól á móti.

Peningavaldið hefur dæmt almenning úr leik

Ýmsir gerviþarfasérfræðingar hafa líka sprottið upp í þeim tilgangi að hafa meira upp úr vinnusamri þrá almennings að hlúa að sjálfum sér og ástvinunum sem eru á þeirra forsjá. Ég ætla ekki að fara nákvæmar út í það hér hvernig sá hópur hefur í krafti hugmyndafræði, sem hefur verið sett í sparibúning markaðs- og viðskiptafræði, hefur komið sér fyrir á milli vinnunar og brauðsins. Ég tel að ég hafi dregið upp alveg nógu skýra mynd til að hver sem vill sjá og skilja grundvallaratriði hennar geri það nú þegar.

Peningana eða lífið

Kannski má segja að það gildi það sama um peningana eins og eignaréttinn. Þ.e. að peningarnir séu ekki vandamálið frekar en eignarétturinn heldur það hugarfar sem þeim eru tengdir. Það má að sjálfsögðu velta því fyrir sér hvort kom á undan: peningarnir eða valdið sem þeim hefur verið gefið. Það er a.m.k. ljóst að miðað við þá samfélagsgerð sem mannkynið hefur byggt utan um tilveru sína þá er líklegt að við þurfum að styðjast við einhverja skiptimynt til að hafa vöruskipti. En er nútíma peningakerfi ábyggilega eina færa leiðin til þess?

Peningahyggjan heldur lífinu í gíslingu

Að mínum dómi er fórnarkostnaður þess peningakerfis sem við búum við í dag einfaldlega alltof tilfinnanlegur fyrir allan almenning til að það réttlæti það að fórnarlömb þess leggi allt sitt til að viðhalda því. Peningakerfi nútímans byggir nefnilega á þeirri hugmynd að það séu peningarnir sem búi til brauðið og byggi húsin sem við búum í en ekki hendur okkar sjálfra.

Vinnan býr til brauðið

Allir þeir sem skilja þá einföldu staðreynd að það eru ekki peningarnir sem búa til brauðið heldur vinnuframlag okkar almennings hljóta að skilja að við þurfum sjálf að bregðast við til að líf okkar og þeirra sem byggja framtíðina grundvallist á hugmyndafræði sannleikans en ekki þeirri lygi sem peningarnir hafa hneppt tilveru okkar í. Hver og einn þarf þess vegna að spyrja sjálfan sig hvort honum þykir skipta meira máli: peningarnir eða lífið?

Almenningur þarf að koma sjálfum sér til bjargarLíf nútímamannsins hefur orðið fórnarlamb markaðsdrifinnar peningahyggju og það er þess vegna nútímakynslóðanna að bregðast við. Það breytir enginn heiminum einn síns liðs. Þú, sem lest þetta, þarft þess vegna að finna fleiri. Það er ekki nóg að lesa þessi orð, eða orð annarra sem tala á sömu nótum, og kinka samþykkjandi kolli.

Þú þarft að finna þá sem eru sammála þér og safna fleirum. Þú þarft að þora að fylgja þeim eða hvetja þá til að fylgja þér til aðgerða sem skila ykkur þeim árangri að þeir fjölmörgu sem í hjarta sínu þrá það eins og þú að breyta samfélaginu, til þess að þið og ástvinir ykkar megið njóta þar mannsæmandi lífsskilyrða, fái tækifæri til að uppfylla þessa heilbrigðu lífsþrá.

Ég er ekki að hvetja til þess að þú efnir til blóðugrar byltingar en ég get því miður ekki lofað þér að það eigi ekki eftir að renna eitthvert blóð. Þess vegna minni ég þig á að blóðið er nú þegar tekið að renna. Á hverjum degi deyr einhver úr hungri, auðlæknanlegum sjúkdómi eða fyrir sinni eigin hendi eingöngu vegna þess valds sem peningarnir hafa yfir lífi okkar nú.

Peningarnir munu ríkja yfir lífi okkar með þessum hörmulega fórnarkostnaði þar til við stöndum saman og bregðumst við því óréttlæti sem viðgengst eingöngu fyrir það að þeirPeningaprentvélin sem ráða yfir peningaprentvélunum kæra sig kollóta yfir fórnarkostnaðinum sem hlýst af núverandi peningakerfi. Þeir kæra sig kollótta á meðan við látum þá komast upp með það að telja okkur trú um það að það séu peningarnir þeirra sem búa til brauðið okkar en ekki við sjálf.

Þeir kæra sig kollótta og kætast ósegjanlega yfir því að við gefum þeim lífið fyrir þessa hugmyndarfræði því það er einmitt það sem tryggir þeim völd og meiri peninga...


Bloggfærslur 18. ágúst 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband