Þetta var aldrei einleikið
19.12.2012 | 00:47
Ekkert sem ég hef skrifað hingað til hefur tekið jafnlangan tíma og það sem fer hér á eftir. Ritunartíminn er orðinn að fullu hálfu ári en úrvinnslutími sumra atriðanna sem hér eru leidd fram hafa tekið miklu lengri tíma. Sum þeirra hafa valdið mér miklum heilabrotum. Það sem um er að ræða er eiginlega yfirlit eða uppgjör við þann tíma sem ég var samferða Hreyfingunni og grasrót hennar sem ég hef komist að niðurstöðu um að eigi erindi við fleiri en mig eina.
Grasrót verður til
Þegar ég las um fyrstu atvik hrunsins mánudaginn 29. september 2008 þá áttaði ég mig strax á því að þau væru ekki einleikin. Viðspyrnan sem byrjaði að láta á sér kræla í október var ekki einleikin heldur þó hún hafi reyndar strax í upphafi leitt fram nokkra einleikara sem urðu fyrirferðarmeiri en aðrir. Það er þó rétt að taka það fram að þetta var og hefur verið meira áberandi á viðspyrnuvettvangi höfuðborgarinnar en annars staðar á landinu.
Í hinum frjóa jarðvegi viðspyrnunnar í kringum miðju Reykjavíkurborgar spruttu líka upp hugmyndirnar um stofnun nýs stjórnmálaafls sem tæki meginkröfur mótmælanna upp á sína arma. Það er ljóst að þessar umræður voru á engan hátt einleiknar en alveg frá upphafi tókust ýmsir einleikarar þar á með þeim lyktum að einhverjir urðu ofan á og aðrir undir.
Þeir sem þekkja til vita að ég var búsett á Akureyri á þessum tíma þannig að ég var ekki viðstödd þessar fæðingarhríðir Borgarahreyfingarinnar en fylgdist með úr fjarlægð. Sú fjarlægð gerði það að verkum að margt af því sem fram fór í fæðingarferlinu skilaði sér ekki til mín fyrr en miklu síðar.
Ég get ekkert fullyrt um það rúmum þremur árum síðar hvort það sem ég veit nú hefði breytt einhverju um það að ég ákvað að taka þátt í að bjóða fram fyrir Borgarahreyfinguna vorið 2009. Það hefur hins vegar aldrei verið neitt launungamál að krafa mín í viðspyrnunni hefur aldrei snúist um það að knýja fram nýjar alþingiskosningar án þess að reyna einhverjar aðrar leiðir fyrst.
Hins vegar varð niðurstaðan í ársbyrjun 2009 sú að boða til alþingiskosninga og í því ljósi get ég ekki annað en fagnað því að Borgarahreyfingin hafi orðið til þó það sé langur vegur frá því að ég geti fagnað öllu því sem að tilveru hennar hefur snúið síðan. Það er ekki mitt að meta hver ber ábyrgðina á öllu því sem hefur gengið á þann tíma sem er liðinn frá því sú niðurstaða lá fyrir að Borgarahreyfingin kom fjórum þingmönnum inn á þing en þó tel ég einsýnt að ein ástæðan sé sú að einleikarnir voru of margir.
Fyrsta þingár grasrótarframboðsins
Það leið eitt ár frá því að þingmennirnir fjórir tóku sæti á Alþingi þar til ég flutti til höfuðborgarinnar. Ég hélt því áfram að horfa á framvinduna úr fjarlægð. Það er engan veginn hægt að gera sér grein fyrir því nú hver afstaða mín hefði verið, hvað varðar sundurlyndið milli þingmannanna og grasrótarinnar, hefði ég verið á staðnum. Þó finnst mér líklegra að ef ég hefði treyst mér til að velja þá hefði ég gert það sama og ég gerði þá einfaldlega af þeirri ástæðu að í mínum augum þá var von til þess að nýorðnir þingmenn myndu standa við það sem þeir sögðust ætla að gera.
Þ.e. það er mitt mat að það að viðspyrnan átti fulltrúa inni á þingi skipti meira máli en þær furðulegu skærur sem ég hafði veður af. Ég sat líka á fundinum haustið 2009 þar sem þingmennirnir tóku sig saman og gengu út af aðalfundi Borgarahreyfingarinnar. Það sem ég sá og heyrði á þeim fundi hefur fylgt mér síðan sem vitnisburður um það að þingmennirnir áttu engan betri kost en kljúfa sig frá þeim hópi sem þar sat eftir.
Auðvitað fannst mér það furðulegt að allur peningurinn sat eftir hjá flokknum en sú staðreynd var líka til vitnis um það hvurs konar hópur sat eftir í stjórn Borgarahreyfingarinnar. Ég vissi það þá og hef nokkrum sinnum síðar orðið beinlínis vitni að því hvurs lags áfall allur leikþáttur sumarsins 2009 var þingmönnunum þremur sem stofnuðu nýtt stjórnmálaafl. Stjórnmálaafl sem var nánast kópering af Borgarahreyfingunni sem kemur kannski ekki síst fram í því að heiti þess nýja varð eins og stytting á heiti móðurflokksins.
Frá mínum bæjardyrum séð var Borgarahreyfingunni hróflað upp á ótrúlega skömmum tíma og eflaust má skrifa ýmisleg byrjunarmistök hreyfingarinnar á þann stutta tíma sem einstaklingarnir, sem lögðu nótt við dag, höfðu til að koma framboðinu saman. Ég ætla ekki að tíunda þau hér en eins og áður sagði þá grunar mig að stærsta þáttinn megi rekja til þess að of margir einleikarar kölluðust til þessa verkefnis.
Þetta kom fram í undirbúningnum, röðuninni á lista og fyrstu vikurnar og mánuðina eftir að Borgarahreyfingin komst inn á þing. Svo kom skellurinn og Borgarahreyfingin sat eftir þingmannslaus. Einn þingmannanna var farinn yfir til Vinstri grænna en hinir þrír stofnuðu nýja hreyfingu og réðu til sín starfsmann. Á stofnfundi Hreyfingarinnar var ég kjörin varamaður í stjórn en var ekki viðstödd fundinn og vissi ekki af þeirri ráðstöfun sem mig varðaði fyrr en hálfu ári síðar.
Ræturnar stóðu ekki lengi
Sumarið eftir klofninginn flutti ég svo til borgarinnar og fór að taka virkari þátt. Þar var ýmislegt öðru vísi en ég hafði ímyndað mér úr fjarlægðinni. Þetta var að mörgu leyti góður hópur en hann var frekar einsleitur. Ef það var eitthvað sem einkenndi hann öðru fremur þá var það hvatvísin. Það var kannski fyrir hana sem Tunnumótmælin 4. október 2010 urðu að veruleika en við vorum þó ekki nema tvær sem stóðu þeim að baki sem tilheyrðum svokölluðum kjarnahópi Hreyfingarinnar. Hinir komu úr ýmsum áttum. Sumir flokksbundnir og aðrir ekki.
Það var hins vegar í Tunnubyltingunni sem það fóru að renna á mig tvær grímur varðandi það hvort ég væri á réttum stað með því að fylgja Hreyfingunni. Ástæðan fyrir því að ég hafði leiðst út í það að styðja þingmennina með svo áberandi hætti að mæta á landsfund Borgarahreyfingarinnar haustið 2009 og ganga með þeim út af fundinum var sú grundvallarhugsun sem kom fram í slagorði Borgarahreyfingarinnar: þjóðin á þing og sú yfirlýsing að þingmennirnir ætluðu sér að brúa bilið á milli þjóðarinnar og þingsins og stuðla að bættri samvinnu við grasrótina sem hafði að mestu sprottið upp úr sama jarðvegi og Borgarahreyfingin.
Í Tunnubyltingunni gat ég ekki betur séð en þessu væri þveröfugt farið. Þó einhverjir þingmannanna þriggja auk starfsmannsins tækju þátt í því að vekja athygli á Tunnuviðburðunum náðist aldrei samhent átak í þessum hópi við það sem Tunnurnar voru að gera. Starfsmaður Hreyfingarinnar setti saman hugmynd upp úr hugmynd einnar úr Tunnuhópnum sem Hreyfingin lagði fram á þingi á svipuðum tíma og undirskriftarsöfnun um utanþingsstjórn var í undirbúningi á vegum tveggja úr Tunnuhópnum.
Einn þingmannanna kórónaði svo verknaðinn með því að eigna þingflokki Hreyfingarinnar þann titring sem varð í kjölfar þess að undirskriftarsöfnunin fór í loftið án þess að víkja að því einu orði að hugmyndin var fengin að láni frá grasrótinni. Hvað þá að hann hefði fyrir því að minnast á undirskriftarsöfnun hennar. Þetta svo og viðbrögðin við gagnrýni á þessa framkomu vöktu mér tortryggni. Tortryggnin í garð Hreyfingarinnar minnkaði ekki þegar þingflokkurinn tók að hrósa þremur Samfylkingarþingmönnum sérstaklega fyrir mannkosti sem ég átti erfitt með að kannast við að þeir stæðu undir.
En svo kom Icesave. Það voru einhverjir sem veltu vöngum yfir því hvar þingmenn Hreyfingarinnar væru þar sem þeir höfðu vænst þess að stuðningur þeirra yrði meira afgerandi. Ég ætla ekkert að efast um afstöðu þeirra í Icesave-málinu en ég var líka of upptekin af þátttöku minni í einum baráttuhópanna til að velta því sérstaklega fyrir mér hvað þeir voru að gera. Hins vegar vakti það athygli mína að Hreyfingin ákvað að halda sérstaka kosningavöku, að kvöldi dagsins sem þjóðin kaus með eða á móti þessum þætti Icesave vorið 2011, þó þeim væri boðið að taka þátt í þeirri sem baráttuöflin héldu sameiginlega.
Í stað þess að þingmenn Hreyfingarinnar þæðu boð Samstöðu þjóðar gegn Icesave og Advice-hópsins, sem þessi öfl héldu sameiginlega með öllum þeim sem vildu koma og vera með, héldu þeir sína eigin kosningavöku með starfsmanni sínum og tryggustu stuðningsmönnum Hreyfingarinnar. Engin þeirra hafði tekið virkan þátt í viðspyrnunni sjálfri.
Þegar blómin fölna
Á fámennum aðalfundi Hreyfingarinnar í júní 2011 var ég sjálfri mér til mestrar undrunar kosin í stjórn Hreyfingarinnar en þá þegar var ég komin að þeirri niðurstöðu að tíma mínum væri betur varið í vinnu með grasrótinni en Hreyfingunni. Auk þess sem ég var tekin að hafa verulegar áhyggjur af þeirri gjá sem ég hafði áttað mig á þegar í Tunnubyltingunni að var á milli Hreyfingarinnar og hinnar eiginlegu grasrótar en hún hafði farið sístækkandi síðan.
Kannski var gjáin þarna á milli fyrir Tunnubyltingu en ég varð hennar ekki áþreifanlega vör fyrr en þá. Út frá mínum bæjardyrum séð þá hélt sú gjá áfram að breikka með ógnarhraða á meðan þingflokkurinn týndi sér alltaf meir og meir í því að hylla bæði menn og málefni sem þjónuðu frekar sérhagsmunahópum en almannahagsmunum.
Þetta kom ekki síst fram sumarið 2011 þar sem ég lagði það til að þingmenn Hreyfingarinnar legðu sig fram um að komast að samkomulagi við Atla Gíslason og Lilju Mósesdóttur um samstarf sem fór þannig að þegar þing kom saman þá um haustið varð ljóst að samstarf við ríkisstjórnina var Hreyfingunni mikilvægara en styðja þau málefni sem urðu til þess að Atli og Lilja sögðu sig frá ríkisstjórninni.
Þetta kemur líka fram í því sem kom út úr stofnun Grasrótarmiðstöðvarinnar. Ég, ásamt fleirum, lögðum okkur fram um að treysta því að allir þeir sem komu fram fyrir hönd Borgarahreyfingarinnar og Hreyfingarinnar við stofnun hennar væru ærlegir í því að skapa grasrótinni vettvang til að vaxa og dafna við lífvænlegar aðstæður. Að Grasrótarmiðstöðinni væri ætlað að verða vettvangur allra sem vildu vinna að heillavænlegum lausnum þeirra kreppna sem hafa komið út úr efnahagshruninu haustið 2008. Ég reyndar kom mér hjá því að sitja í stjórn Grasrótarmiðstöðvarinnar en lagði mig engu að síður fram um að gera hana að þeim vettvangi sem ég vildi trúa að henni væri ætlað að verða.
Auðvitað varð það mjög snemma ljóst að Grasrótarmiðstöðin var fyrst og fremst vettvangur umræðna sem leiddu til stofnunar þess stjórnmálaafls sem hefur kosið að kenna sig við Dögun. Það skal tekið fram að sjálf tók ég aldrei þátt í umræðunum sem leiddu til stofnunar Dögunar en fyrir tengsl mín við marga þeirra sem þar komu að vissi ég oft meira um það sem þar fór fram en ég kærði mig um að vita.
Skömmu eftir þingbyrjun haustið 2011 lét ég verða af því að segja mig úr stjórn Hreyfingarinnar með formlegum hætti. Þar benti ég á að mér fyndist kröftum mínum betur varið í að byggja upp grasrótina en sitja þar í stjórn. Það er að öllum líkindum skýring þess að þeir sem stýrðu þessari umræðu buðu mér aldrei til hennar.
Í nóvember 2011 varð ég þess áskynja að ýmsir í hópi Hreyfingar/Borgarahreyfingar höfðu hug á því að efna til samstarfs við ríkisstjórnina. Þegar umræðurnar fóru af stað var þingmönnunum gerð grein fyrir því af fulltrúum ríkisstjórnarinnar að samstarf kæmi ekki til greina nema þeir tækju stjórnarskrármálið fram yfir baráttuna fyrir heimilin. Þó þingmennirnir hafi reynt að neita því að af nokkru samkomulagi hafi orðið er ljóst að baráttumál þeirra frá síðustu áramótum hafa hvorki verið í takt við þá grasrót sem Borgarhreyfingin/Hreyfingin byggði tilveru sína á né í tengslum við grundvallaratriði lífsafkomunnar.
M.ö.o. þá hafa þingmennirnir fjórir sem komust inn á þing í kjölfar mótmælanna haustið 2008 glatað sambandinu við stærstan hluta þeirra kjósenda sem treystu þeim fyrir atkvæði sínu. Þeir hafa lokað sig af líkt og langflestir fulltrúar fjórflokksins inni í sínum eigin heimi. Þessi dapurlega staðreynd veldur mér sárari harmi en svo að mér takist að koma honum í orð. Harmurinn snertir þau sjálf, grasrótina sem treysti þeim, kjósendur þeirra og mig sjálfa.
Önnur leið
Til að fara hratt yfir sögu þá skráði ég mig í SAMSTÖÐU í febrúarbyrjun þessa árs. Á þessum tíma hafði ég setið í stjórn Grasrótarmiðstöðvarinnar um nokkurt skeið í afleysingum fyrir gjaldkera hennar. Í anda þess markmiðs sem Grasrótarmiðstöðinni var sett við stofnun hennar og í ljósi þess að SAMSTAÐA var húsnæðislaus vildi ég kanna hug annarra stjórnarmeðlima til þess að SAMSTAÐA fengi inni í Grasrótarmiðstöðinni.
Hugmyndin féll í afar misjafnan jarðveg og fannst einhverjum á fundinum það á engan hátt sanngjarnt að bera hugmyndina upp miðað við það hver staða innanhússumræðunnar um sameiningu ýmissa eldri smáflokka til nýs framboðs var stödd. Það var líka áberandi að þeir sem ætluðu sjálfum sér og sínum stað innan þess stjórnmálaflokks sem út úr sambræðslunni kæmi voru af einhverjum ástæðum viðkvæmari fyrir þeirri ákvörðun minni að gerast félagsmaður í SAMSTÖÐU.
Vissulega var þetta ekki einleikið en það var ljóst að ákvörðun mín ógnaði þeim sem voru uppteknari af sjálfum sér en hugsjónunum sem gerðu það að verkum að ég hafði lagt mig alla fram við að vinna að samvinnu og samtöðu allra þeirra sem eru sammála um að það eru lífskjör almennings, heimilin og atvinnulífið sem við þurfum að verja. Til að tryggja framtíð lands, þjóðar og menningar þarf meira til. Það þarf nýja hugsun og hugrekki til að reisa efnahagskerfið á innlendum stoðum.
Í aðdraganda þess að Borgarahreyfingin varð til fylgdist ég grannt með bloggum margra þeirra sem gengu síðar til liðs við Borgarahreyfinguna. Það fór ekki framhjá mér að margir þeirra tóku undir orð Lilju Mósesdóttur úr ræðum hennar á opnum borgarafundum í Iðnó og á Austurvelli. Það var svo að heyra þá að hugmyndir þeirra og hennar um ógnirnar sem steðjuðu að íslensku samfélagi og leiðirnar til lausnar færu saman.
Í kosningabaráttunni vísuðu frambjóðendur Borgarahreyfingarinnar mjög í orð og hugmyndir Lilju varðandi hver vandamálin væru og hvaða lausnir bæri að skoða. Framan af var svo ekki annað að skilja en að þingmenn Borgarahreyfingar/Hreyfingar væru tilbúnir til að leggja hugmyndum Lilju lið og þessi ættu í nánu samstarfi við hana. Því miður bar þeim ekki nema takmörkuð gæfa til þessa samstarfs enda flest sem bendir til að hugur hafi ekki fyllilega fylgt máli.
Það má alla vega vera ljóst að þingmenn Hreyfingarinnar og þó nokkrir meðal þeirra dyggustu stuðningsmanna hafa ekki legið á liði sínu við þá ófrægingarherferð sem hefur verið viðhöfð til að kæfa niður vitræna og málefnalega umræðu um þær lausnir sem Lilja Mósesdóttir hefur lagt fram á kjörtímabilinu. Það er sanngjarnt að taka það fram að það bar ekki á þessu í fyrstu þó eitthvað hafi kraumað undir lengi vel þá heyrðu hnútur á borð við þær sem hafa sést á þessu ári bæði á Fésbókinni og víðar til undantekninga fram til haustsins 2011.
Ástæða þess að ég hef látið verða af því að birta þetta, sem hefur tekið mig hálft ár að setja saman, er sú að mér finnst innihaldið koma fleirum við en mér einni. Ástæða þess að ég byrjaði að reyna að koma þessu efni niður á blað var sú hvernig margt af þessum fyrrum félögum og kollegum opinberuðu sig í framkomu sinni við mig eftir að ég kaus að fara aðra leið en villigötuna sem ég get ekki betur séð að þau hafi ratað til. Þessi skrif eru þar af leiðandi ekki einleikin frekar en annað sem þau innihalda en þau eru fyrst og fremst uppgjör mitt við þann tíma sem ég átti með Hreyfingunni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)