Í myrkviðum þagnarinnar

MandarínurÉg hef velt því fyrir mér að undanförnu hvort einelti geti orðið svo víðtækt að það sé hægt að tala um að það sé orðið á samfélagslega vísu...

... hvað annað skýrir það að eini þingmaðurinn sem hefur virkilega verið að vinna að því að setja fram heildrænar lausnir á því sem rak Íslendinga út á mótmælavöllinn haustið 2008 er í þeirri stöðu sem Lilja Mósesdóttir stendur frammi fyrir nú. Fjölmiðlar þegja þunnu hljóði yfir því sem hún leggur til umræðunnar og SAMSTAÐA nýtur engrar athygli þeirra; fréttatilkynningar frá flokknum eru hundsaðar svo og þeir sem eru þar í forystu.

SAMSTAÐA er eina nýja framboðið sem er undanskilið í þekktasta umræðuþætti í sjónvarpi. SAMSTAÐA er eini nýi flokkurinn sem er undanskilin á lista yfir stjórnmálaflokka í könnun um viðhorf fólks til stjórnmála. Fæstir þora að stíga fram til að viðurkenna stuðning sinn við stjórnmálflokkinn sem Lilja Mósesdóttir stofnaði.  Samt voru þeir hátt í 1.000 sem kusu hana til öruggs sætis í prófkjöri VG vorið 2009.

Engin þeirra innlendu aðila sem hafa lagt til umræðunnar um hagstjórn eða annarra efnahagsaðgerða hefur þorað að leggja henni lið. Það er þó skylt að geta þess að einhverjir hafa stutt hana án þess að vilja gera þann stuðning opinberan eða ganga til liðs við flokkinn sem hún stofnaði. Frosti Sigurjónsson hefur þó ekki legið á fögnuði sínum yfir þingályktunartillögu Lilju Mósesdóttur um aðskilnað peningaprentunar og útlánastarfsemi bankakerfisins þó hann hafi frekar kosið að ganga til liðs við Framsóknarflokkinn en SAMSTÖÐU.

Þeir eru nokkrir sem vilja halda því fram að þeir berjist fyrir sömu málum og Lilja Mósesdóttir hefur barist fyrir inni á þingi allt þetta kjörtímabil en í stað þess að þeir styðji hana í verki þá ganga þeir til liðs við aðra flokka, stofna sína eigin eða eyða tímanum í að finna flöt á því hvernig þeir fái hana til sín eða sölsa bara blátt áfram hugmyndir hennar undir sig.

Svo eru þeir því miður nokkrir sem leggja sig fram um að gera hana tortryggilega og viðhalda illa rökstuddum sögum um bakgrunn hennar. Það sem er enn dapurlegra er að þeir eru vissulega til sem taka slíkum sögusögnum gagnrýnislaust og hafa þar af leiðandi ekkert fyrir því að kynna sér verk hennar inni á þingi, málstað eða stefnuskrá SAMSTÖÐU.

SpírallGetur verið að ástæðan sé sú að fjármagns-eigendurnir eigi fjölmiðlana og fyrirtækin sem gera út á mælingar á viðhorfum fólks? En þeir eiga þó varla skoðanir almennings, eða hvað!?!

Í ljósi þess sem hefur verið vísað til hér að ofan er varla of langt gengið að spyrja sig hvort að fjármangseigendur óttist svo þekkingu og lausnarmiðaða hugsun Lilju að þeir hafi skipað undirsetum sínum að gera nú allt til að halda rödd hennar og viðhorfum fyrir utan alla miðla og mælingar? En er það ekki hæpið að þeir hafi gengið svo langt að búa líka til röngu myndina af Lilju sem eineltið þrífst á...

Þeirri spurningu er líka ósvarað hvers vegna pólitíkin kemur fram við Lilju Mósesdóttur á þann hátt sem raun ber vitni. Getur verið að pólitíkusarnir óttist ekkert frekar en hugmyndir hennar og verk dragi úr því sem þeir hafa lagt fram sjálfir? eða eigum við að gera ráð fyrir að fjármagnseigendur eigi þá líkt og fjölmiðlana og fyrirtækin sem gera út á mælingar á viðhorfum fólks?


Bloggfærslur 15. desember 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband