Krafan er ósvikið lýðræði!
20.6.2011 | 01:58
Það var ekki hægt að kvarta undan verðrinu í gær en sólin máir þó ekki burt það sem ógnar framtíð okkar; hvorki hér á Íslandi eða annars staðar í heiminum. Í gær söfnuðust mótmælendur líka saman bæði í Evrópu og víðar í heiminum; eins og Argentínu, Mexíkó og Japan, og mótmæltu þeirri forgangsröðun sem viðgengst orðið í heiminum í dag. Forgangsröðun sem minnir um margt á lénstímabilsið og/eða aflátssölu kaþólsku kirkjunnar.
Enn og aftur hafa letidýrin sem nenna ekki að hafa fyrir lífinu sjálf, en sætta sig þó við ekkert minna en óhóf og vellystingar, komið hlutunum þannig fyrir að þau geti lifað snýkjulífi á almenningi líkt og á fyrrgreindum tímabilum. Valda- og eignastéttin hefur m.a. gengið svo langt að hún hefur búið til alls konar kerfisbundnar stofnanir til að viðhalda sjálfum sér en fyrirgera um leið réttindum almennings til mannsæmandi lífs.
Á sama tíma hafa hugtök eins og lýðræði og réttlæti orðið að innantómum orðum. Lýðræðið er í dauðateygunum og réttlætið er ekki til nema fyrir sjálfskipaða aðalsstétt eigna og valda. Grundvöllur þessa skipulags er geggjað fjármálakerfi sem hefur úthlutað einkabönkum einkaleyfi til að prenta peninga. Leyfið er nýtt þannig að þeir prenta peninga til útlána og reikna sér þau síðan til eigna. Þannig hefur fjármálakerfið í reynd lagt undir sig hvert samfélagið á fætur öðru uns svo er komið að það þykist í rauninni eiga allt! Hver man ekki eftir nýlegri frétt um það að einhver af þessu sauðahúsi ætlaði sér að kaupa fjallstindana í Austurríki?!
Nú hafa margir risið upp og séð í gegnum þessa svikamyllu. Spænska byltingin snýst m.a. um þetta. Í dag eru fimm vikur síðan byltingin á Spáni braust út en þar í landi hefur verið mótmælt nær linnulaust síðan. Mótmæli dagsins í dag beindust gegn stefnu Evrópusambandsins varðandi björgunaraðgerðir út úr þeirri óumflýjanlegu kreppu sem þetta kerfi skapar.
Það gefur kannski augaleið að í reynd eru ráð þeirra sem byggja á björgun innantóms fjármálakerfis fyrst og síðast aðeins kreppudýpkandi. Íslendingar hafa fengið að kynnast þessum sama aðgerðarpakka og afleiðingum hans í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem var sendur hingað og tókst með lítilli fyrirhöfn að fá íslenska valdhafa og fjármagnseigendur til liðs við aðferðir þessa gjörspillta kerfis sem gegnir því hlutverki að mergsjúga almenning í þeim tilgangi að viðhalda sjálfu sér.
Ég hvet þá sem lesa þetta til að horfa á þetta myndband og lesa skilaboð spænsku mótmælanna í gær. Ég reikna með að þeir sem gera það komist ekki hjá því að sannfærast um það að aðgerðarpakki Evrópusambandsins inniheldur sömu verkfæri og sá sem íslenska ríkisstjórnin neyddi upp á okkur Íslendinga með samningi sínum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Í lauslegri þýðingu eru meginskilaboðin þessi:
Við viljum ekki að það verði tekið veð í framtíð okkar.
Við viljum ekki greiða niður ólöglegar skuldir.
Við viljum ekki meiri niðurskurð í menntakerfinu.
Við viljum ekki meiri niðurskurð í heilbrigðisþjónustunni.
Við viljum ekki meiri skerðingu á kjörum almennra launþega.
Við viljum sanngjarnan starfslokaaldur og eftirlaunagreiðslur.
Við krefjumst þess að þeir sem ullu kreppunni gjaldi fyrir hana sjálfir.
Við krefjumst ríkisstjórna sem vinna með almenningi en ekki á móti honum.
Það skiptir engu hversu mikið verður reynt til að stöðva okkur.
Það skiptir engu hvað verður lagt á sig til að þagga niður í okkur.
Ofbeldi þeirra er okkar styrkur!
Leggjum undir okkur götur og torg borga og bæja um alla Evrópu [...] og fylgjum þessum kröfum eftir!
Íslenskur almenningur ætti ekki að vera í neinum vandræðum með að heimfæra þessar kröfur upp á þann raunveruleika sem blasir við okkur; íslenskri þjóð. Það er þó greinilegt að það er einhver alvarleg geðlægð sem hefur lagst yfir landann þegar kemur að mótmælum. Á sama tíma og mótmælendur rísa upp á Spáni, og miklu víðar, innblásnir af árangri íslenskra mótmælenda fækkar þeim stöðugt sem nenna að hafa fyrir því að spyrna á móti því gengdarlausa óréttlæti sem viðgengst hér á landi.
Þeir eru þó nokkrir sem láta slíkt ekkert á sig fá, og standa með kröfum þeirrar mótmælendabylgju sem nú ríður yfir heiminn, af því að það er ekkert sem fær stöðvað þeirra samfélagslegu meðvitund. Þessir eru óstöðvandi í hugmyndaauðginni við að hrífa aðra með til að rísa upp og taka þátt. Í dag var það u.þ.b. tuttugu manna hópur sem söng bæði á Ingólfstorgi og Austurvelli. Andres Zoran Ivanovic festi þetta á myndband.
Hér er textinn sem er sunginn í þessu myndbandi:
Lag: Drottinn er minn Hirðir
Steinki af mér hirðir, næstum hverja krónu
í löngum röðum, má maður nú hírast
þar til að þar fæ ég, eitthvert lítilræð´í poka.
Slíkt beygir sál mína, er ég fer um langan veg
í roki og kulda, til að standa í biðröð, buguð af sorg
skynja ég allt svo illt, og skömmin nærri.
Ekki er bankinn svo að hugga mig, býður ei lán
eða neina skuldbreytingu.
Sýslumaður hótar útburði, mælirinn er NÚNA fullur.
Já rukkararnir hundelta mig, alla ævidaga mína
og að boði Steinka, svelt ég langa ævi
Steinki af mér hirðir, næstum hverja krónu
(Tholly Rosmunds)
Þess má geta að þetta framtak okkar hefur orðið til þess að einhverjir hafa fengið andann yfir sig og sett saman texta við þekkt lög og komið þeim á framfæri við okkur og boðið okkur að bæta í textasafnið. Ef til vill eigum við eftir að birtast aftur niður í miðbæ Reykjavíkur og taka einhver þeirra en það þarf meira til að bylta við þeirri græðgismafíu sem er að leggja Ísland undir sig!
Það eina sem getur orðið okkur til bjargar er samtakamáttur almennings og hvenær er betra tækifæri en núna þegar almenningur víðs vegar um heiminn er að vakna til meðvitundar um það sem á sér ekki bara stað hér á landi heldur alls staðar í heiminum líka!
![]() |
Kreppulög á Ingólfstorgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)