Mannsæmandi kjör fyrir alla!
1.5.2011 | 22:02
Tilefni þessara skrifa eru þau að mig langar til að vekja athygli á hópi kjarnakvenna sem boðuðu til samstöðu við málstaðnum Mannsæmandi kjör fyrir alla. Ég reikna með að hvatinn að því að kalla fólk saman í 1. maí-gönguna undir þessu merki hafi m.a. verið krafan um aðgerðir eða mótmæli sem hafa nánast algjörlega legið niðri frá því ráðandi öfl þögguðu niður í Tunnunum 17. janúar sl.
Allnokkur hópur mætti og setti sinn svip á gönguna með kröfuspjöldum og fíflafánum.
Þegar niður á Austurvöll kom hófust bitlausar ræður verkalýðsforystunnar en hápunktur dagsins var utan auglýstrar dagskrár. Ein kvennanna sem stóðu að því að kalla saman fólk til að ganga undir kröfunni um mannsæmandi kjör tók þá til máls og flutti ræðu.
Ræðumaðurinn heitir Berglind Nanna Ólínudóttir og flutti hún ræðu sína af þeirri einlægni og krafti sem ekki hafði heyrst í ræðum annarra ræðumanna dagsins. Ég tek það fram að leturbreytingar eru mínar þó þær kunni að fylgja áherslum Berglindar í flutningi hennar.
Ég valdi mér ekki það hlutverk í lífinu að verða öryrki. Því var þröngvað upp á mig. Ég valdi mér heldur ekki að vera málsvari eða fulltrúi þessa hóps, en það æxlaðist nú samt þannig. Kannski vegna þess að ég er kjaftfor og óhrædd við að segja mínar skoðanir. Og ég fæ ekki milljón á mánuði fyrir það! Ég dreg fram lífið á sultartekjum öryrkja á Íslandi í dag.
Og í mjög langan tíma er ég búin að bíða vongóð eftir því að þessir fulltrúar ALLRAR þjóðarinnar hér á Alþingi sjái að það er ekki hægt að bjóða fólki upp á þessa ekki-tilveru. Og með hverjum deginum dofnar vonin. Því miður.
Nú er svo komið að mér blöskrar við að hlusta á fréttir á hverjum einasta degi. Fátækt er að verða ríkjandi ástand í þjóðfélaginu. Nú stöndum við frammi fyrir yfirvofandi allsherjarverkfalli. Ég vildi að ég gæti farið í verkfall líka. Sýnt velferðarráðherra og öðrum háum herrum að kjörin mín eru ekki í lagi. Að ég sætti mig ekki við að þurfa sífellt að herða sultarólina. En hvernig fer ég í verkfall? Legg ég niður þessa vinnu sem var þröngvað upp á mig? Get ég hætt að vera geðsjúklingur í einn dag? NEI. Ekki boðið upp á það, ekki frekar en lágmarks tilveru.
Það sem hryggir mig þó mest, er að ég skuli vera í hópi fólks, sem er ávallt útmálað sem óhreinu börnin hennar Evu. Útmáluð fyrir að vera afætur á kerfinu, og kjósa okkur þetta hlutverk. Að við höfum það svo gott, að það sé kominn tími til að skera upp þetta kerfi og koma þessu í lag. Það er alveg rétt að það er löngu kominn tími til að skera upp bótakerfið og laga það, en ekki vegna þess að við séum öll meira og minna svindlarar og svikahrappar. Heldur vegna þess að þetta kerfi er hannað til að halda okkur í viðjum fátæktar.
Ég borða ekki fögur fyrirheit ríkisstjórnarinnar. Ég tek á mig aukna skattbyrði, auknar álögur og skerðingu á bótum án þess að æmta. Allt í von um að NÚ fari ástandið að lagast, og menn átti sig á því að það er ekki hægt að lifa á þessum smánartekjum. En allt kemur fyrir ekki.
John F. Kennedy sagði eitt sinn: Ekki spyrja hvað landið þitt getur gert fyrir þig, spyrðu heldur hvað getur þú gert fyrir landið þitt! Nú er kominn sá tími, virðulega samkoma, að við tökum okkur saman og sýnum ráðamönnum að skömmin er þeirra, ekki okkar. Verum sýnileg. Látum heyra í okkur, hvar og hvenær sem færi gefst. Sýnum þeim að við sættum okkur ekki við þetta ástand lengur.
Krefjumst mannsæmandi kjara fyrir alla, ekki bara fáa útvalda. Ég sit ekki lengur heima og bíð eftir að einhverjir aðrir mótmæli fyrir mína hönd, eða hafi skoðanir fyrir mig og haldi þeim á lofti. Ef ég vil að ástandið breytist verð ÉG að gera eitthvað í því! Það gildir um okkur öll. Sitjum ekki lengur heima og hengjum höfuð í skömm sem við eigum ekkert í. Höfum hátt, látum okkur sjást, og heyrast, og beinum skömminni að þeim sem eiga hana.
Berglind Nanna Ólínudóttir.
![]() |
Hæstu laun verði þreföld lægstu laun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |