Tunnurnar skrifa alþingismönnum bréf

Í Icesave-málinu í janúar í fyrra sýndi Ólafur það að hann getur tekið skynsamlegar ákvarðanir fyrir hönd þjóðarinnar ef nógu margir fara fram á það. Það er ástæðan fyrir því að þessi áskorun til hans er komin fram. Eins og málin horfa við þeim sem standa að baki þessari áskorun hefur Alþingi ekki unnið að hagsmunum þjóðarinnar um nokkurt skeið eða frá því allnokkru fyrir hrun. Afleiðingarnar eru þær að það er rúið nær öllu trausti!

Þessar aðstæður eru grundvöllur þeirrar stjórnmálakreppu sem kemur ekki síst fram í því úrræðaleysi sem almennt ríkir meðal stjórnmálastéttarinnar gagnvart efnahagskreppunni. Af skoðanakönnunum að undanförnu er líka ljóst að u.þ.b. helmingur þjóðarinnar veit ekki hvað hún ætti að kjósa ef þing væri rofið og boðað til kosninga. Ég lái henni það ekki miðað við þá blindgötu sem fjórflokkurinn hefur stefnt pólitíkinni í.

Það er greinilegt að stjórnmálastéttin þekkir vel til undirskriftarsöfnunarinnar, sem ég vísaði til hér á undan, en þar er áskorun á forsetans um að skipa utanþingsstjórn áður en það ófremdarástand sem nú er uppi kallar yfir þjóðina enn alvarlegri afleiðingar. Þetta kom ekki síst fram í skrifum þingmanna og ýmissa stuðningsmanna þeirra á vefmiðlum um mánaðamótin október/nóvember á síðasta ári eða í kjölfar þess að undirskriftarlistinn fór í loftið. (ég tók saman yfirlit um þessi skrif um miðbik þessarar færslu)

Tunnurnar skrifuðu líka alþingismönnum bréf 4. nóvember þar sem þær settu fram hugmyndir um það hvernig þingið getur skapað skipun slíkrar stjórnar lýðræðislegri umgjörð. Þær sendu þeim enn eitt bréfið í morgun en það er svohljóðandi: 

Góðan daginn!

Það er komið að leiðarlokum og því fyrr sem þið horfist í augu við það því betra. Alþingi nýtur ekki traust til að vinna að hagsmunum þjóðarinnar enda sýnir Rannsóknarskýrslan að stór hluti þeirra sem sitja á núverandi þingi bera ábyrgð á því að efnahagur landsins sigldi í þrot. Það eruð þið sem berið ábyrgð á núverandi stjórnmálakreppu en hún viðheldur og dýpkar þá efnahags- og samfélagskreppu sem er svo áríðandi að bregðast við.

Þrír af fimm núverandi þingflokkum hafa haft til þess ærin tækifæri að grípa til afgerandi aðgerða til að verja hagsmuni heimilanna í landinu en allir hafa sýnt það og sannað að það er fjármálkerfið sem hefur forgang fram yfir hag íslensks almennings. Lítil sem engin uppstokkun hefur farið fram frá bankahruni innan fjármálkerfisins og sama er að segja um stjórnsýslu- og embættismannakerfið.

Þær ríkisstjórnir sem fengu tækifæri til að verja hag almennra kjósenda hafa þjappað sér saman utan um gerendur hrunsins og tekið sig saman um að fylla þjóðina lygi og vafasömum fullyrðingum um eigið hlutverk, valdsvið og tilgang. Þið hafið öll týnt ykkur inni á leiksviði samkeppninnar um völd og athygli fjölmiðla sem flestir hafa tekið sig saman um að styrkja ykkur í þeirri veruleikafirringu að pólitík snúist hreinlega um ykkur sjálf og hvert ykkar situr að völdum.

Á meðan hangir þjóðin á heljarþröm örvæntingar og ótta yfir atvinnu- og eignamissi, íhugar landflótta og sumir taka eigið líf. Við höfum þolað lífskjaraskerðingu; frystingu launa, hækkun vöruverðs, hækkandi vexti, skattahækkanir og skerta heilbrigðisþjónustu, niðurskurð í menntakerfinu og er hótað með enn frekari skerðingu í gegnum ýmis konar gjöld og afborganir af lánum sem urðu til fyrir vanhæfni sumra ykkar og þeirra embættismanna sem þið sjálf eða fyrrum flokkssystkini ykkar komuð til embætta.

Við megum ekki við meiru en bjóðum ykkur að vinna með okkur að þeirri kröfu að hér verði skipuð utanþingsstjórn. Miðað við núverandi aðstæður er sú leið líklegust til að gefa þjóðinni og ykkur sjálfum næði til að leggjast í endurmat og uppgjör. Auk þess hefðu nýir stjórnmálaflokkar og - öfl tækifæri til að undirbúa sig og bjóða fram við næstu kosningar sem verða þegar ný stjórnarskrá verður tilbúin.

Þið eruð enn í bestri aðstöðu til að skapa skipun utanþingsstjórnar lýðræðislegri umgjörð en þá sem Sveinn Björnsson fór eftir við skipun utanþingsstjórnarinnar 1942. Sú sem þetta skrifar vísar í það sem hún sagði í svarbréfi til Ólínu Þorvarðardóttur um miðjan nóvember á síðasta ári:

„Þú sem þingmaður hefur tækifæri til að semja frumvarp til bráðabirgðalaga til að skapa skipan utanþingsstjórnar lýðræðislega umgjörð. Þar má t.d. leggja til skipun ráðgefandi samráðshóps valdhafa og almennings um skipun utanþingsstjórnar, hver/-jir sæju um að skipa í þennan hóp og hvernig, hvaða kröfur þeir sem yrðu skipaðir í utanþingsstjórnina verða að uppfylla og síðast en ekki síst að mæla með þjóðatkvæðagreiðslu þar sem þjóðin hefur tækifæri til að kjósa úr einhverjum hópi hæfilegan fjölda fulltrúa í utanþingsstjórnina.“

Í þessu samhengi er rétt að taka það fram að við höfum þegar talað við ýmsa málsmetandi einstaklinga varðandi útfærslur á þessu stjórnarfyrirkomulagi en eigum eftir að tala við fleiri. Hugmyndin og útfærslur hennar er því ekki eingöngu orðin til í kollinum á einhverjum sem hægt er að afgreiða sem „fasíska tunnuterrorista“.


mbl.is Brown ætti að biðjast afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar horfst er í augu við staðreyndir!

Sofandi að feigðarósiÍ heimi þar sem öllu er snúið á haus er því haldið fram að þeir sem aðhafast ekki neitt séu jákvæðir en þeir sem mótmæla neikvæðir. Það ætti þó að liggja í augum uppi að það þarf ákveðna jákvæðni til að spyrna við fótum við misskiptingunni.

Þeir sem mótmæla reyna að vekja svefngenglanna og fá þá til liðs við sig til að hafa áhrif á líf sitt. Mótmælendur ala nefnilega þá bjartsýnu von í brjósti að samstaða fjöldans dugi til að hreyfa við fámennri sérgæslusveit valda- og eignastéttarinnar í landinu. 

RándýrsklærÞess vegna hafa Tunnurnar og fleiri skipulagt mótmæli í tilefni þess að þing kemur saman aftur á morgun eftir jóla- og áramótafrí. ( Sjá hér og hér) Þingfundur byrjar klukkan 15:00 en á sama tíma verður tunnunum komið fyrir á Austurvelli.

Þingfundurinn byrjar því strax með hressilegri áminningu um það að við sættum okkur ekki við lygar og brellubrögð í stað alvöru aðgerða til bjargar landi og þjóð úr rándýrsklóm.

Í textanum frá Tunnunum segir að við séum orðnar þreyttar á því að láta stjórnvöld ljúga að okkur! Með því er m.a. verið að vísa til viðbragðanna við stóru mótmælunum 4. október en þeim var svarað með vel æfðum lygavef sem undirstrikaði það enn frekar að stjórnmálastéttin þjónar engum nema hagsmunum sjálfra sín og siðblinds fjármálakerfis.
Tunnur
Við hvetjum fólk til að mæta nú, eins og 4. október, í öllum sínum fjölbreytileika og standa saman í því að brjóta niður spillingar- og lygamúrinn og krefjast gagngerrar uppstokkunar. Við höfum staðið í bréfa- skrifum við þingmenn þar sem við höfum hvatt þá að skapa þessari leið lýðræðislegri umgjörð.  (Égrakti meginatriðin í þeim hér)

Það eru greinilega fleiri búnir að fá yfir sig nóg af „lygi valdhafanna“ en það verður ekki ljóst fyrr en seinni partinn í dag hvort fjöldinn er tilbúinn til að standa saman að því að koma þeim skilaboðum áleiðis. Gunnar Skúli Ármannsson skrifar hárbeittan pistil, eins og oft áður, þar sem hann segir m.a:

Daglega er almenningi drekkt í lygi valdhafanna. Fréttaflutningurinn er afvegaleiðandi og hlutirnir ekki nefndir réttum nöfnum. Afleiðingar bankahrunsins eru atvinnumissir, tekjumissir og eignamissir. Alveg sama hversu mikið er kallað eftir leiðréttingu á þessari gríðarlega miklu eignatilfærslu sem á sér stað gerist ekkert.

Bankar eru hiklaust endurreistir á kostnað almennings eins og sú starfsemi sé upphaf og endir alls í tilverunni. Fjölmiðlaumræðan gerir ekkert til að vefengja þessa forgangsröðun. Þess í stað dynur á okkur stöðug lygi um mikilvægi þess að bjarga fjármálastofnunum samtímis og það er óvinnandi vegur fyrir sömu stjórnvöld að ákvarða lágmarksframfærslu venjulegs Íslendings. (leturbreytingar eru mínar)

Hann heldur áfram og undirstrikar þær mörgu ástæður sem við höfum til að mótmæla:

Kvótinn, Magma, gjaldþrota heimili og fyrirtæki, niðurskurðurinn í heilbrigðismálum, hjá öryrkjum, hjá öldruðum, spilling við endurúthlutun fyrirtækja, reykfylltu bakherbergin sem vinstri stjórnin ætlaði að opna fyrir almenningi, skattahækkanir og einkavæðing Íbúðalánasjóðs Íslands í boði AGS og vegatollar. Öll þessi þjáning til að endurreisa spillt fjármálakerfi sem mun halda áfram að stjórna þeim sem við kusum til að stjórna fyrir okkur. (Sjá hér (leturbreytingar eru mínar)

Það ætti enginn að þurfa að spyrja sig hverju er verið að mótmæla því ástæðurnar eru margar. Það væri miklu nær að spyrja: Hvers vegna stöndum við ekki öll saman að þessu sinni?

Að lokum langar mig til að benda ykkur á viðtal Egils Helgasonar við Elías Pétursson í Silfrinu í gær. Í upphafi viðtalsins bendir Elías á það hvernig stjórnvöld nota hagtölur til að ljúga að okkur! Skýrasta dæmið er e.t.v. tölur um atvinnuleysi. Þar er aldrei tekið inn í þeir sem hafa flutt úr landi eða fjölskyldufeður sem eru að vinna erlendis.

Elías segir líka frá því að hann tók húsnæðislán árið 1998. Miðað við forsendurnar þá kostaði 6800 vinnustundir að endurgreiða það. Á þeim tíma sem er liðinn síðan hafa bæst 2500 vinnustundir! Það er því ekki hægt að halda öðru fram en hér hafi orðið verulegur forsendubrestur og raunveruleg kaupmáttarrýrnun!

Elías Pétursson fer ýtarlega yfir mörg meginatriði varðandi þróun íslenska hagkerfisins á undanförnum árum. Þróunin er vægast sagt geigvænleg en undir lok viðtalsins varpar Elías fram tveimur grundvallarspurningum:

  • Getum við haldið svona áfram?
  • Viljum við halda svona áfram?

Í framhaldinu dregur hann fram afar athyglisverðan lista yfir það hvaða afleiðingar það muni hafa ef við höldum áfram á þeirri leið sem við erum á núna:

1. Skuldasöfnun eykst áfram.

2. Kaupmáttarrýrnun hjá almenningi heldur áfram.

3. Fjármagneigendur halda áfram að hagnast á kostnað almennings.

4. Kjarabilið heldur áfram að breikka þannig að hér verður til enn ríkari yfirstétt.

5. Auðlindirnar verða seldar beint eða óbeint.

6. Það verður haldið áfram að virkja án þess að taka tillit til arðs og verðmætasköpunar.

Með þessu verður haldið áfram að ganga á auðlindirnar en eignir og innviðir samfélagsins drabbast niður þar sem öll innkoma í ríkissjóð fer í vaxtagreiðslur!

Þú sem lest þessar línur gerir það sem þú vilt seinni partinn í dag en ég reikna með að þú áttir þig á því að það er síst minni ástæða til að mótmæla nú en í janúar fyrir tveimur árum! Hins vegar vil ég taka það fram fyrir mína hönd að ég vil ekki sjá aðrar alþingiskosningar strax. Ástæðan er sú að enginn núverandi þingflokka hefur forsendur til að leysa úr því flókna verkefni sem samfélagið stendur frammi fyrir. Mér sýnist að til að leysa það dugi ekkert nema færustu sérfræðingar!

Það ætti að vera samvinnuverkefni þjóðarinnar allrar að hafa uppi á þeim þar sem hagsmunir okkar allra eru í húfi. Ef við getum ekki komið okkur saman um það hverjir það ættu að vera þarf að efna til kosninga úr ákveðnum hópi sem hefur fengið tilnefningu til verksins. Þetta http://utanthingsstjorn.is/ er grunnurinn að slíkri leið.


mbl.is Boða til mótmæla á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. janúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband