Ég sæki um skilnað á grundvelli pólitíks ofbeldis!

Það er undarlegt hlutverkið sem valdið hefur tekið sér í sambandi sínu við þjóðina. Í stað þess að það færi í endurhæfingu þegar upp komst um ofbeldið, sem það hafði beitt hana í aðdraganda hrunsins, þá er helst að sjá að það sé orðið að viðtekinni venju að stunda blekkingar og baktjaldamakk. Engar nýjungar hafa komið fram í upplýsingamiðlun heldur lokar valdið sig kirfilega af og svarar í gátum og undir rós varðandi alla sína gjörninga.

Öllum má vera orðið það ljóst að það eru ekki hagsmunir þjóðarinnar sem stjórnvöld hafa í fyrirrúmi þegar kemur að stjórnsýslulegum ákvörðunum heldur eru það hagsmunir peningavaldsins sem ráða ferðinni. Icesave-endaleysan er ekki eini vitnisburðurinn um það. Tildrög þessara svokölluðu „skulda þjóðarinnar“ hafa aldrei verið kynnt á heiðarlegan og opinskáan hátt heldur er almenningi boðið upp á slagorð þar sem höfðað er til meðvirkni hans og þrælslundar.
Kapítalisminn virkar ekki

Núverandi ríkisstjórn lætur ota sér fram sem ofbeldisverkfæri gagnvart þjóðinni sem skal borga Icesave sama hvað það kostar. Það sorglegasta er að stjórnin sem sat þegar Icesave varð til klifaði í sífellu á einhverju sem átti að heita „traust efnahagsstjórn“ en sú sem skal knésetja þjóðina til þeirra hlýðni að greiða afleiðingarnar kennir sig við „velferð“. Það er vandséð hvor braut alvarlegar af sér en það er ljóst að hvorug á erindi við hagsmuni íslensks samfélags.

Það er athyglisvert hve slagorðakennd umfjöllunin um þetta málefni er. Í hvert skipti sem hyllir í einhverja heilbrigða greiningu á sögu Icesave þá er henni óðara drekkt í pólitískum upphrópunum úreltrar nýfrjálshyggjuhugmyndafræði um innistæðueigendur, tryggingasjóði, skuldbindingar og skuldastöðu. Í framhaldinu er reynt að halda því fram að á meðan „Icesave-skuldbindingarnar“ eru ófrágengnar þá sé ekki hægt að snúa sér að neinu sem heitir atvinnuuppbygging eða öðru sem snýr að uppgjöri og endurmati á gildum og áherslum markaðshyggjusamfélagsins.

Valdið hefur ekki einu sinni fyrir því að staldra við og endurmeta einstefnulega hagsmuni fjármálaveldisins, sem það vinnur fyrir, þó marktækar ábendingar hafi komið fram um að Icesave-skuldbindingarnar eru þjóðinni sjálfri algerlega óviðkomandi enda Landsbankinn í einkaeigu þegar til þeirra var stofnað. Í stað þess að finna nýja leið og freista þess að vísa málinu annaðhvort til dómstóla eða fara opinberlega ofan í saumanna á því hverjir bera hina raunverulegu ábyrgð og hvernig var að öllum Icesave-gjörningnum staðið þá taka íslensk stjórnvöld það að sér að vera handrukkarar breskra og hollenskra stjórnvalda gagnvart íslenskum almenningi.

Það er ekki einu sinni staldrað við þá staðreynd sem kom fram í Kastljósi í desember sl. að Landsbankinn komst upp með að gefa upp falskar bókhaldstölur varðandi stöðu bankans í ársuppgjöri fyrir árið 2007 með aðstoð endurskoðunarskrifstofunnar PricewaterhouseCoopers. (sjá hér) Það er þess vegna eðlilegt að almenningur spyrni við fótum og spyrji: hvað gengur stjórnvöldum til þegar þeir sækja það svo fast að íslenskur almenningur borgi kröfuna sem breks og hollensk stjórnvöld gera vegna Icesave? 

Af hverju kjósa stjórnvöld að beita því pólitíska ofbeldi sem þau láta dynja á almenningi? Hvers vegna er svona mikið í húfi fyrir þau að verja fjármagnseigendurna fyrir því að mæta afleiðingum gjörða sinna? Hvers vegna fórnar Steingrímur hugsjónum sínum og mannorði með því að ganga svo freklega fram í því að verja hagsmuni auðvaldsmafíunnar? Hvers vegna er hann orðinn sá sami og hann barðist gegn áður?

Mafíuforingi auðvaldsins gegn almenningi

Ég hef aldrei verið sérstakur aðdáandi Steingríms en þó treysti ég honum einu sinni til þess að standa við orð sín og hugsjónir. Annað hefur nú komið í ljós og það sama má segja um Jóhönnu og vel flesta aðra sem sitja í ráðherrastólum núverandi ríkisstjórnar. Þessir einstaklingar eiga það allir sammerkt að ráða ekki við verkefnið sem þeir voru kosnir til að gegna.

Nú mætti e.t.v. skilja orð mín þannig að ég sé að mæla með því að núverandi ríkisstjórn yrði felld til að koma Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki að en það er öðru nær! Engum treysti ég verr en Sjálfstæðisflokknum til að koma að völdum enda sjáum við afleiðingarnar að stjórnarsetu þeirra síðustu tvo áratugina. Aðrir þingflokkar hafa hvorki nægilegan styrk eða trúverðugleika til að koma á nauðsynlegum friði og sátt í samfélaginu til að vinna að brýnustu málum þess.

Þessu ofbeldissambandi valdsins og almennings verður hins vegar að linna. Við sem byggjum þetta samfélag verðum að hafa hugrekki til að finna aðrar leiðir til að byggja það upp þannig að við sjálf og afkomendur okkar þurfi ekki að búa við þetta pólitíska ofbeldi sem þjónar hagsmunum fjármálaveldisins. En þá verðum við líka að KjarkurÞORA!

Við verðum að þora að horfa eftir öðrum leiðum til að komast út úr þeirri stöðnun sem núverandi stjórnmálakreppa viðheldur. Margir ætla að koma saman núna á mánudaginn sem er 17. janúar og mótmæla kyrrstöðunni. (sjá hér, hér og hér) Sumir hafa sett fram kröfu um gagngera uppstokkun og svo eru nokkrir sem hafa komist að þeirri niðurstöðu að utanþingsstjórn sé sú leið sem er skynsamlegast að fara við núverandi aðstæður.

Skoðaðu þetta: http://utanthingsstjorn.is/ og gerðu það upp við þig hvort þú þorir! Ávinningurinn af þessari leið yrði sá að það skapaðist næði til að leggjast í endurmat og uppgjör; bæði fyrir almenning og valdið. Auk þess hefðu nýir stjórnmálaflokkar og - öfl tækifæri til að undirbúa sig og bjóða fram við næstu kosningar sem verða þegar ný stjórnarskrá verður tilbúin.

Ef þú vilt kynna þér betur söguna á bak við þessa kröfu bendi ég þér á bloggfærsluna:  Við verðum að komast út úr þessari vitleysu! Svo tók ég saman spurningar og svör varðandi utanþingsstjórn.

Perhaps the way to meet tomorrow's challenges is not to use yesterday's solutions, but to dare to think the previously unthinkable, to speak the previously unspeakable, and to try that which was previously out of the question." (Neale Donald Walsch)


mbl.is Steingrímur gríðarlega bjartsýnn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. janúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband