Er utanþingsstjórn svarið?

Núverandi ríkisstjórn hefur sýnt það og sannað að hún annaðhvort vill ekki eða er ekki fær um að gera neitt fyrir heimilin í landinu. Við sjáum það á þessari niðurstöðu sem er útkoma hræðsluviðbragða Jóhönnu og Steingríms við stóru mótmælunum þann 4. okt. sl. Ólafur Arnarsson er þegar búinn að gera úttekt á því samkomulagi sem var undirskrifað fyrr í dag en niðurstaða hans er í stuttu máli sú að: „Aðgerðaáætlunin, sem ríkisstjórnin kynnti í dag, er samin af kröfuhöfum – fyrir kröfuhafa.“ (Sjá hér)

Ég vek hins vegar athygli á því að hér er tæpast hægt að tala um neina aðgerðaráætlun heldur er þetta viljayfirlýsing! Enda heitir plaggið: „VILJAYFIRLÝSING um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna“ Þegar maður les plaggið yfir þá er það allt morandi í orðasamböndum eins og „leitast skal við“ og „beita sér fyrir“. Það er líka ljóst að þetta plagg er ekki svar við kröfum þeirra margþúsunda sem mættu niður á Austurvöll 4. október síðastliðinn. Áður en lengra er haldið langar mig til að vekja sérstaka athygli á þessari frétt úr kvöldfréttum Stöðvar 2.

Viljayfirlýsingin og/eða samkomulagið sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar gerðu við kröfuhafana eingöngu er fyrir margra hluta sakir athyglisvert plagg. Ekki síst fyrir það hvernig textinn endurspeglar það að þau eru í vinnu hjá kröfuhöfum en ekki þeim sem ráða ekki við blóðþyrstar kröfur þeirra. Í upphafi er það m.a.s. tekið fram að það verður ekki gengið lengra í að mæta skuldavanda heimilanna:

Aðilar eru sammála um að með þessum aðgerðum sé með viðhlítandi hætti og eins og fært er brugðist við skuldavanda heimilanna. Mikilvægt er að úrvinnslu verði nú hraðað og ekki eru efni til að vænta frekari aðgerða. (Sjá hér (leturbreytingar eru mínar))

Skítt með almenning Í síðasta mánuði voru Hagsmunasamtök heimilanna útilokuð frá því að eiga nokkra aðild að því að vinna að lausn á skuldavanda heimilanna. Fréttatíminn og DV tóku það að sér að mála almenning þannig út í horn með því að taka þátt í áróðursstríði gagnvart fulltrúa Hagsmunasamtakanna sem átti aðild að þessu samkomulagi. Hér skal ekkert um það sagt hvort þetta var viljandi ásetningur stjórnenda þessara blaða en sú varð niðurstaðan samt.

Ég vil nota tækifærið og benda á þetta bréf sem formaður Samtakanna sendi Jóhönnu Sigurðardóttur í fyrradag með „Ramma aðgerða til sátta um skuldavanda heimilanna“. Í kjölfar frétta af því samkomulagi sem náðist milli samningsaðila í gær sendu Hagsmunasamtökin hins vegar frá sér yfirlýsingu þar sem þeir hafna aðferðafræði stjórnvalda:

Sú aðferðafræði sem stjórnvöld leggja upp með er ekki ný af nálinni og gengur út á að aðlaga stökkbreyttar skuldir að veðrými og greiðslugetu á grundvelli einstakra mála í stað þess að fást við rót vandans. Í aðgerðunum felst eingöngu viðurkenning á óinnheimtanlegum kröfum.

Þá fordæma samtökin þá stefnu stjórnvalda að ætla sér ekki að grípa til frekari aðgerða.  Slíkar yfirlýsingar bera í besta falli vott um alvarlegt vanmat á stöðunni og því viðfangsefni sem um ræðir.  Í versta falli hefur ríkisstjórnin gefist upp.  Sé svo verður hún að víkja. 
(Sjá hér (leturbreytingar eru mínar))

Einhverjir kunna að ímynda sér að hér sé verið að óska eftir kosningum en allir sem hafa fylgst með vita að það er enginn stjórnmálahreyfing eða -flokkur  inni á Alþingi sem er þess megnung/-ur að leysa núverandi stjórnvöld af þó það kæmi til kosninga. Hér er reyndar rétt að undanskilja Sjálfstæðisflokkinn en það er ljóst að það aðgerðar- og dáðleysi stjórnvalda sem nýútgefin viljayfirlýsing felur í sér er Sjálfstæðisflokknum síst á móti skapi þó flokksformaðurinn átelji þau fyrir seinagang í því að fara að þeirra góðu ráðum í þessu sambandi. (Sjá hér og hér)

Tunnan er ekki hljóðnuðEn hvað er þá til ráða? Ég hef áður bent á utanþingsstjórn (sjá kröfuna hér) sem er hugmynd sem kom fram í tunnumótmæl- unum og var reyndar sú meginkrafa sem bar mest á þar! Ríkisstjórnin kaus hins vegar að reyna að drepa málinu á dreif með að veifa götóttri, hvítri dulu sem hún kýs að leggja á borð fyrir þjóðina nú tveimur mánuðum síðar! Ég reikna með að almenningur verði fljótur að átta sig á því hvers lags rifrildi þetta er og hvaða blekkingarleik hún hefur haft í frammi á þeirra kostnað!

Þessi ríkisstjórn svo og langmestur hluti stjórnmálastéttarinnar er ógn við hagsmuni almennings bæði í nútíð og framtíð ef ekki verður gripið í taumana! Þess vegna ríður á að koma hér á stjórn sem neyðir hana til að taka hlutverk sitt og umboð gagnvart almenningi í landinu til rækilegrar endurskoðunar.

Ég hef sagt frá þeirri einu leið sem við höfum til að mynda starfhæfa ríkisstjórn en henni verður sett það meginverkefni að leiðrétta kjör almennings. Þetta er utanþingsstjórn! Á meðan hún starfar hafa stjórnmálaflokkarnir og þingmenn þeirra tækifæri til að ákveða hvort þeir leggi sig niður eða gerir gagngerar breytingar á starfsháttum sínum og -aðferðum!

Ég vil undirstrika það að hin óhæfa stjórnmálastétt, sem hefur lagt þinghúsið niður við Austurvöll undir sig, ógnar ekki aðeins kjörum almennings heldur lýðræðisumbótunum sem áttu að koma með nýrri stjórnarskrá. Ég vek athygli á þessari yfirlýsingu frá þingmönnum Hreyfingarinnar máli mínu til áréttingar.

Mig langar líka til að minna á að Katrín Oddsdóttir, einn hinna nýkjörnu stjórnlagaþingmanna, benti á það í landsfrægri eldræðu, sem hún flutti á laugardagsmótmælum niður á Austurvelli haustið 2008, að utanþingsstjórn væri svarið við vandræðum þjóðarinnar. Vandræði okkar í hnotskurn er spillt stjórnmálastétt sem vinnur fyrir fjármagnseigendur sem kosta þá inn á þing sem... Svo má ekki gleyma Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem er hér í boði Sjálfstæðisflokksins en núverandi ríkisstjórn hefur ekki hugrekki til að vísa úr landi heldur unir honum blóðtökunnar

Gerum kjörum okkar og stjórnlagaþinginu þann dýrmæta greiða að fylgja eftir þeirri einu kröfu sem getur bundið endi á það ófriðar- og ófremdarástand sem nú ríkir vegna vanhæfrar og trausti rúinnar stjórnmálastéttar. Dreifum slóðinni inn á hann um allt Netið. Prentum hann líka út og komum honum fyrir sjónir sem flestra. (Hér er  hann í pdf-skjali) Akiterum og útskýrum hvað er í húfi. Göngum svo til kosninga þegar stjórnlagaþingið hefur lokið störfum og lagt grunninn að nýju samfélagi.

Rifjum það að lokum upp sem Katrín Oddsdóttir sagði í ræðu sinni fyrir tveimur árum. Það er virkilega sorglegt hve lítið hefur breyst enda fengu sömu stjórnmálamenn, og ríghéldu kjafti yfir því hvert stefndi fyrir hrun, umboð til að stjórna hér áfram. Katrín bendir á utanþingsstjórnarleiðina undir lok ræðu sinnar (þegar sirka 10:35 mínútur eru liðnar af ræðunni)


mbl.is Hafna aðferðafræði stjórnvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. desember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband