Vald þagnarinnar
5.11.2010 | 18:21
Það er greinilegt að fréttamat fjölmiðlanna í dag er afar ríkisstjórnarhollt. Ástæðan er augljóslega sú að þeim hentar forgangsröðun hennar. Þessi ekki-frétt er gott dæmi um það þetta. Ekki síst í ljósi þess að í raun barst mbl.is stórfrétt í formi fréttatilkynningar í gærmorgun.
Tveir aðstandendur tunnumótmælanna hafa nefnilega hrundið af stað undirskriftarsöfnun með áskorun á forseta Íslands um að skipa utanþingsstjórn nú þegar. Yfirskrif mótmæla gærdagsins tengdist þessari sömu kröfu enda yfirskriftin: Tunnurnar kalla á utanþingsstjórn. Í fyrsta skipti var karfan sett á eitt meginmarkmið sem er einfaldlega sú að Alþingi samþykki utanþingsstjórn.Til að undirstrika þessa kröfu þá skrifuðum við Ásta Hafberg bréf sem við sendum á alla þingmenn í gærmorgun og reyndar alla helstu fjölmiðla, sem við ekkjum til, líka. Í bréfinu töldum við upp helstu ástæður þess að þinginu er ekki lengur treystandi. Bréfið endar á því að benda þingmönnunum á að nú hafa þeir tækifæri til að brúa bilið milli þings og þjóðar. Í stað flokkshagsmunapólitíkunnar þá geta þeir tekið sig saman í andlitinu og búið utanþingsstjórninni lýðræðislegri ramma en núverandi stjórnskipunarhefð gerir ráð fyrir.
Enginn fjölmiðill, utan Svipunnar, hefur birt neitt varðandi þetta bréf. Viðtal sem einn dagskrágerðamanna Kastljóss tók við mig varðandi kröfu mótmæla gærdagsins lenti undir ritstjórnarhnífnum af ástæðum sem ég fjalla um síðar en vil taka fram að eru algerlega ótengdar því sem ég sagði. Bréfið er hér:
*************************
Reykjavík aðfararnótt 4. nóvember 2010
Góðan daginn!
Við undirritaðar erum meðal aðstandenda tunnumótmælanna og ábyrgðarmenn undirskriftarsöfnunar áskorunarinnar um að forsetinn skipi utanþingsstjórn nú þegar. Tilefni þessara tilskrifa eru mótmælin síðar í dag en við viljum gera grein fyrir því hvers vegna við finnum okkur knúnar til að standa að mótmælum og krefjast utanþingsstjórnar.
Það getur ekki hafa farið fram hjá ykkur að Alþingi nýtur innan við 10% trausts þjóðarinnar. Ástæðan er hve illa þið valdið þingmannshlutverkum ykkar og hvernig langmestur meiri hluti ykkar hafið farið með umboð kjósenda ykkar. Mörg ykkar hafið setið inni á þingi þegar afdrifaríkustu ákvarðanirnar sem síðar leiddu til bankahrunsins voru teknar. Mikill meiri hluti sat og/eða situr enn í ríkisstjórninni sem leyndi þjóðina mikilvægum upplýsingum í aðdraganda hrunsins. Flest ykkar taka þátt í slíkum yfirhylmingum enn.
Meiri hluti ykkar hefur setið í ríkisstjórnum sem hafa náð völdum á fölskum kosningaloforðum. Einhver ykkar hafa líka komist inn á þing í krafti kosningabaráttu sem var kostuð af gerendum hrunsins. Langmestur meiri hluti ykkar hefur ítrekað sýnt það í orði og athöfnum að ykkur er fyrirmunað að skilja að slík hagsmunatengsl geta og mega ekki líðast. Alltof mörg ykkar tókuð líka þá afstöðu í kosningunum um landsdóm 28. sept. sl. að það sé eðlilegt að æðstu embættismenn landsins beri enga ábyrgð á gjörðum sínum.
Ekkert ykkar hefur heldur knúið í gegn alvöru lausnum við skuldavanda og atvinnuleysi almennings en þið hafið setið aðgerðarlaus hjá þegar miljarðaskuldir eru afskrifaðar hjá auðmönnum sem langflestir tengjast hruni bankanna ljóst og leynt.
Á meðan framtíð lands og þjóðar hangir á heljarþröm eyðið þið dýrmætum tíma og skattpeningum þjóðarinnar í flokkadrætti og bitlingapólitík og stundið aðra viðlíka sér- og flokkshagsmunagæslu af blindri eljusemi. Mörg ykkar eruð svo innmúruð í veruleika fámennrar valda- og eignaklíku að þið hafið algjörlega misst sjónar á raunveruleika meirihluta almennings sem berst í bökkum vegna sérhagsmunagæslu sem undanfarandi ríkisstjórnir hafa ýmist unnið að fyrir fjármálaöflin eða stutt með aðgerðarleysi sínu.
Þetta getur ekki haldið svona áfram! Enda stöndum við frammi fyrir því að sífellt fleiri missa atvinnuna, verða gjaldþrota og tapa eignum sínum. Fjölskyldur eru að sundrast vegna þess að stöðugt fleiri flytja úr landi og þeir eru líka nokkrir sem hafa ekki fundið annað svar frammi fyrir óréttlætinu sem þeim er boðið upp á, á ykkar ábyrgð, en binda enda á líf sitt.
Eina leiðin sem við sjáum út því öngstræti sem mörg ykkar hafið tekið þátt í að leiða þjóðina inn í, og ykkur er fyrirmunað að leiða hana út úr, er utanþingsstjórn. Þess vegna skorum við á ykkur að svara kalli tunnanna um slíka lausn. Þið hafið tækifæri til að brúa það bil sem er á milli þings og þjóðar með því að taka af skarið núna og samþykkja utanþingsstjórn þegar í stað. Þið eruð líka í aðstöðu til að bregðast við þessu kalli með því að skapa henni lýðræðislega umgjörð og taka þátt í umræðunni um það hvernig að skipun hennar verður staðið í samvinnu og sátt við íslenska þjóð.
Í fullri einlægni og djúpri von um að þið hlustið,
Rakel Sigurgeirsdóttir
og Ásta Hafberg
*************************
Að lokum vil ég láta þess getið að fjórir þingmenn svöruðu þessu bréfi. Það eru fjórar konur. Ein úr Hreyfingunni, önnur úr Sjálfstæðisflokknum og tvær úr Samfylkingunni. Ég reifa svör þeirra hérna síðar ef ég fæ samþykki þeirra til að birta og/eða vitna í þau.
![]() |
Olía lak úr mótmælatunnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)