Færsluflokkur: Mannréttindi
Ég elska hvernig þig dreymir
5.5.2009 | 01:23
Ég veit ekki hvort það eru margir sem kannast við 1 Giant Leap. Ég kynntist þeim af fræðslumynd um tónlistargerð þeirra í sjónvarpinu og heillaðist gjörsamlega! Ég pantaði diskinn þeirra í gegnum amazon.com og spilaði hann upp til anga! Ekki spyrja mig hvenær þetta var nákvæmlega
Þar sem það á eftir að líða nokkur tími þar til ég skrifa aftur á þessum vettvangi langar mig til að setja inn tvö myndbönd með lögum af þessum diski sem ættu að útskýra hvers vegna ég elska tónlistina þeirra. Í mínum eyrum er þetta hugsvölunartónlist. Tónlist sem nærir sálina af fegurð og kærleika. Tónlist sem minnir mig á hvaða tilfinningu það færir mér að upplifa réttlæti, sátt og samkennd. Tónlist sem færir mér ekki aðeins von, trú og kærleika heldur gerir mig að betri manneskju.
Fyrst er lagið The Way You Dream sem er sungið af indveskri alþýðusöngkonu, Asha Bhosli og Michael Stipe.
Svo er lagið sem stækkar við hverja hlustun: Braided hair. Það má nálgast textann hér.
Þeir tveir sem áttu hugmyndina að 1 Giant Leap endurtóku ferðalag sitt um heiminn til að sameina tónlist allra heimsálfa í einu verki. Afrakstur þess ferðalags var myndin 2sides2everything. Ég get ekki beðið eftir að tónlistin sem varð til á ferðalagi þeirra komi út á diski. Hér er kynningarmyndband fyrir seinni myndina en þar útskýra þeir m.a. hvað þeim gengur til með verkum sínum.
Vona að þið njótið tónlistarinnar eins og ég og góðar stundir
Algjört siðleysi!
10.2.2009 | 03:17
Það segir einhvers staðar að með lögum skal land byggja. Hins vegar hefur komið í ljós að einhverjir hafa snúið þessu svo gjörsamlega á hvolf að þeir hafa misnotað lögin til að rífa landið niður. Þeir rústuðu bankakerfinu innan frá og efnahag þjóðarinnar um leið. Fjármálakerfið er hrunið, atvinnulífið rjúkandi rústir og heimilin sokkin í botnlaust hyldýpisskuldahaf.
Vissulega ófargar lýsingar en alltof sannar engu að síður. Það sem er enn rosalegra er að það voru aðeins fámenn græðgishyggjumannaklíka sem fór þannig með landið og þjóðina. Þeir létu greipar sópa í lífeyrissjóðunum sem ömmur okkar og afar byggja afkomu sína á, séreignarsparnaðinum sem mæður okkar og feður treystu fyrir framtíð sinni, sparifjárinnistæðunum sem við sjálf höfum nurlað saman til að mæta tilfallandi kostnaði og geymdu sumir drauma okkar um einhvern örlítinn munað. Sparifjárinnistæður barna okkar var heldur ekki hlíft enda er nú svo komið að mörg þeirra horfa upp á að draumar þeirra um framhaldsnám, hvað þá húsnæðiskaup eru að engu orðnir!
Vissulega fullkomlega siðlaus verknaður! en rök laganna segja engu að síður að hér hafi ekki verið framin nein lögbrot. Furðulegt hvernig lögin geta varið svo siðlausan gjörning! en það hefur víst einhver bent á að ofsóknir Þjóðverja undir forystu Hitlers gegn gyðingum hafi verið algerlega löglegar. Eða m.ö.o. ekkert í útrýmingarherferð þeirra gegn gyðingum braut í bága við þýsk lög!
Það er yfirgegnilega ótrúlegt siðleysi að nota lögin sem skálkaskjól fyrir jafn ómanneskulegum verknaði og útrýmingu heillar þjóðar. Þýsk lög vörðu áður útrýmingu gyðingaþjóðarinnar í gasklefunum eins og íslensk lög verja nú þá útrýmingu sem felst í því að höggva undan íslensku þjóðinni möguleika hennar á að sjá fyrir sér. Ósvífin í þessu er svo yfirgengileg að mann setur einfaldlega hljóðan.
Lög sem verja gjörninga af þessu tagi hafa svo sannarlega dæmt sig handónýt! Það sem blasir við skynseminni í þessu máli ætti að vera hafið yfir öll rök handónýta laga. Það að ræna heila þjóð lífsafkomunni er glæpur af verstu tegund. Gerendurnir hafa gert sig seka um alvarlegustu glæpi eins og landráð og drottinssvik! Þá ber að handtaka, yfirheyra og dæma í samræmi við brot þeirra.
Þess í stað fá þeir að leika lausum hala í skjóli laga um mannréttindi og alls konar ákvæði um þessa og hina leyndina! Hvað um mannréttindi fórnarlambanna; aldraðs fólks, foreldra, hinna vinnandi stétta í landinu, nemenda, sjúklinga, öryrkja, barna og allra hinna?!? Hvað um mannréttindi heillar þjóðar?!?
Það er eitthvað mikið, mikið að ef lögin eru hafin upp yfir mannlega skynsemi. Ef lögin brjóta gegn almennri siðferðis- og réttlætiskennd þá þurfa þau rækilegrar endurskoðunar við! Íslensk lög eru ekki hafin yfir alla gagnrýni fremur en lög Þjóðverja sem gerðu ekki ráð fyrir því að þar þyrfti að verja réttindi gyðinga sérstaklega.
Landráðakaflinn í íslensku lögunum gerir heldur ekki ráð fyrir því að nokkrum detti í hug að arðræna þjóðina í gegnum innlent bankakerfi. Hugmyndaflug þeirra sem sömdu þau á sínum tíma náði ekki lengra en til landráða sem framin eru í stríði á milli þjóða. Þeim datt einfaldlega ekki í hug að nokkur væri svo siðlaus að fremja landráð með því að sölsa undir sig auð samlanda sinna og ríkisins um leið!
Við þurfum ekki aðeins að taka lögin til alvarlegrar endurskoðunar heldur líka afstöðu okkar sjálfra. Lög eru þess eðlis að þau má sennilega alltaf túlka á mismunandi vegu en þau eiga og verða að gilda jafnt fyrir alla. Þau eiga ekki aðeins að byggja á hugmyndinni um réttlæti heldur ekki síður á hugmyndum um jafnrétti og eðlilegt siðferði. Þannig ætti enginn að komast upp með það að fela sig á bak við lög um mannréttindi á kostnað heillar þjóðar bara fyrir það að staða hans í samfélaginu veitir honum betri aðgang að framkvæmdaraðilum laganna.
Ég held ég megi fullyrða að langflestir, ef ekki allir, eru búnir eða byrjaðir að opna augu sín fyrir þeirri stöðu sem þjóðin er í, í dag. Þeir hinir sömu átta sig líka margir hverjir á því að sú slæma staða sem við stöndum frammi fyrir núna stafar af mannavöldum. Sú djúpa efnahagslægð sem við erum stödd í er verk einstakra fégráðugra Íslendinga sem notfærðu sér ýmsar glufur í íslensku lagaumhverfi til að maka sinn eigin peningakrók. Tungulipurð þeirra og tengsl við yfirmenn í íslensku fjármála- og stjórnsýslukerfi gerði þeim auðveldara fyrir þannig að þeir komust upp með það að ræna þjóðina og láta greipar sópa bæði í féhirslum einstaklinga og ríkisins.
Það hljóta allir að vera sammála um að slíkur þjófnaður er brot á lögum og þess vegna sakhæfur. Það vekur því stórkostlega undrun að enginn þeirra sem braut af sér hefur verið tekinn fastur. Það hefur heldur ekki einn einasti verið færður til yfirheyrslu enn þá! Þessi undur og stórmerki valda mörgum ótrúlegum andlegum þrengingum. Sumir neita að horfast í augu við það að við sem höldum uppi ásökunum um landráð og drottinssvik hafi nokkuð til okkars máls. Aðrir nota rök laganna til að slá á alvarleikann í glæpnum sem hefur verið framinn en einhverjir nota þau sömu rök til að styðja fullyrðingar í þá veru að þetta sé tómt mál að tala um því ekkert sé hægt að gera!
Það sem er e.t.v. allra alvarlegast í þessu samhengi er hegðun fyrrverandi stjórnvalda sem með stanslausu klisju- og áróðursstríði reyna að verja sitt fólk. Þeir sem standa að baki áróðursstríðinu eru gerendurnir sjálfir og þeir sem leyfðu þeim að komast upp með að ræna okkur svo gjörsamlega sem raun ber vitni. Þetta eru þeir sem vissu í hvað stefndi en gerðu ekkert í því. Þetta eru þeir sem vilja ná völdunum aftur hvað sem það kostar. Þetta eru þeir sem breyttu Alþingi í vinnslustöð þar sem bæði lögum og ólögum hefur aðeins verið renn í gegn formsins vegna. Þetta eru þeir sem eru grenjandi, öskrandi og rífandi sig ofan í rassgat yfir því að eftir fjögurra mánaða tíðindaleysi á Alþingi er þar allt í einu eitthvað að gerast!
Ég veit ekki hvort þeir eru sekir um annað en það að haga sér eins og óuppaldir frekjuhundar sem hafa aldrei þurft að láta neitt eftir sér. Framkoma þeirra bendir hins vegar til þess að þeir séu hræddir. Í öryggi valds síns hafa þeir leyft sér að veltast um í makindum sínum þrátt fyrir þær aðstæður sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir undanfarin misseri. Núna eru þeir allt í einu fullir af lífi en það lífsmark er átakanlega blandað af heiftúð. Þeir urra og hvæsa hræðsluáróðri fullum af ásökunum. Flest sem þeir segja er innihaldslaust blaður íklætt valdi og hroka þannig að orð þeirra hljóma sem stormviðri sem getur feykt við húsum og breytt staðreyndum. Enda er það tilgangurinn.
Með þunga þess sem valdið hefur ætla þeir sér að breyta staðreyndunum um það sem enn hefur ekki verið sagt. Þeir ætla að leika sér áfram með skoðanir almennings. Þeir ætla að hræra í hugum kjósenda sem þeir treysta að séu nógu vitlausir til að sjá ekki í gegnum hildarleikinn en hlustar aðeins á þann sem kveður skýrast að og getur yfirgnæft aðra með raddsyrknum einum saman.
Vissulega vitum við ekki allt en við erum ekki vitlaus. Við vitum það t.d. að gjammandi hundar eru annaðhvort hræddir eða hættulegir nema hvort tveggja sé. Við vitum líka að sú markvissa þöggun sem hefur verið beitt með ýmsum bolabrögðum á undanförnum tveimur áratugum hefur ekki alltaf verið við lýði á Íslandi. Við vitum það líka öll að þöggun samræmist ekki hugmyndinni um lýðræði.
Við vitum auðvitað alveg hverjir sátu við stjórn þetta tímabil sem þöggunin var laumað inn á öllum sviðum samfélagsins. Við áttum okkur líka á því að við vitum svo lítið um það sem var að gerast á þessu tímabili og um það sem er að gerast núna vegna þess að þessi þöggun virkaði. Við létum hana m.a.s. yfir okkur ganga! Við umbárum ástandið alltof lengi! Við vitum það.
En nú eru þessir tímar liðnir! Við erum risin upp! Við höfum m.a.s. fengið rödd og við ætlum ekki að láta hana kafna í merkingarlausri klisju- og áróðurshríð organdi frekjuvarga. Við ætlum að tala! Við ætlum að breyta! Við ætlum að byggja upp nýtt samfélag! Við ætlum að endurreisa lýðræðið! Og mikið vona ég að fólk sem á jafnlítið erindi við samfélagðið og lýðræðið eins og: öskur, formælingar, falskar ásakanir, lygi og annað þvaður verði útilokað frá þingmennsku þá!
Þýðir ekki að klína sök á Sjálfstæðisflokkinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mannréttindi | Breytt 22.3.2009 kl. 03:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)