Færsluflokkur: Menning og listir

Yndislega margbrotin mynd

Villtu vinna milljarðTíminn líður svo hratt að ég man ekki lengur hvort það er eitt eða tvö ár síðan ég las bókina Viltu vinna milljarð? eftir Vikas Swarup. Bókin er alveg yndisleg eins og allir vita sem hafa lesið hana. Ég mælti þess vegna með henni við alla á sínum tíma. Þeir sem hafa unun af lestri góðra bóka en hafa enn ekki lesið þessa sögu hvet ég til að gera það.

Sagan er nú orðin að kvikmyndinni Slumdog Millionare. Ég fór að sjá hana í Borgarbíói á Akureyri í kvöld og þvílík upplifun! Þessi mynd er bókstaflega hlaðborð af öllu því besta sem maður getur krafist af góðri bíómynd. Það sem kemur mér e.t.v. mest á óvart er að mér fannst myndin að sumu leyti áhrifaríkari en sagan sjálf.

Hvernig á líka venjulegur Íslendingur, eins og ég, að sjá fyrir sér það sem hann þekkir ekki eins og fátækrahverfið og mannmergðina í Mumbai? Myndin bætir úr því og þó sagan í myndinni sé töluvert breytt frá þeirri í bókinni þá skiptir það ekki máli. Þær eru yndislegar báðar.

Aðalleikararnir í Slumdog MillionaireAðalleikarinn, Dev Patel, er líka ákaflega sannfærandi sem hinn hreinlyndi og gegnheili Jamal Malik. Myndin er veisla fyrir skynfærin. Hún snerti svo sannarlega við mér. Þar var margt sem hjálpaðist að en tónlistin átti ekki sístan þátt í því.

Bókin fékk afar góða dóma bæði hér og erlendis. Myndin hefur líka þegar hlotið góðar viðtökur og fjögur Golden Globe-verðlaun. „Myndin var meðal annars kosin besta dramatíska kvikmynd liðins árs. Leikstjórinn, Danny Boyle, fékk verðlaun fyrir besta leikstjórn og myndin var einnig verðlaunuð fyrir besta handritið og bestu tónlistina.“ (Sjá hér)

Í krækjunni sem ég setti inn á vef Borgarbíós er hægt að sjá sýnishorn úr myndinni. Takið sérstaklega eftir því að í lok þess heyrist lag Sigur Rósar; Hoppaípolla.

Eins og ég sagði er þetta ákaflega vel gerð mynd. Sagan er góð. Leikstjórnin meiri háttar og tónlistin sérstaklega vel valin. Ég vil meina að myndin hafi allt til að bera sem hægt er að krefjast af góðri mynd. Þeir sem vilja fara í bíó til að sjá vel gerða mynd sem snertir við tilfinningunum ættu  alls ekki að láta þessa fara fram hjá sér.

Þó myndin eigi að gerast í Indlandi, sé tekin þar og leikararnir séu flestir af indverskum uppruna þá er myndin ekki indversk í þeirri merkingu. Í afkynningu hennar er samt dans- og söngvaatriðið sem er svo einkennandi fyrir margar þarlendar kvikmyndir. Með skemmtilegri afkynningum sem ég hef séð. 


Handverkshátíðin á Hrafnagili

Handverkshátíðin á Hrafnagili var haldin í 15 skipti um síðustu helgi. Eins og þeir sem hafa kynnst þessari hátíð vita er hátíðin frábær vettvangur fyrir handverksfólk til að kynna og selja framleiðslu sína. Ég hef farið á nokkrar af þessum hátíðum á undanförnum árum en það var orðið eitthvað síðan ég fór síðast.

Núna í ár var ég fyrst og fremst þarna vegna þess að yngri dóttir mín var með kynningar- og sölubás á hátíðinni. Ég er auðvitað mjög stolt af henni en ekki síst fyrir það að það er greinilegt að metnaður þeirra sem standa að Handverkshátíðinni hefur vaxið. Það er þess vegna orðið erfiðara að komast að með verkin sín en var.

 

Mér fannst líka áberandi hvað margir básanna voru fallegir en ekki síður hvað það sem var þarna til sýnis og sölu var vandað og eigulegt. Verkin hennar Tinnu sómdu sér vel innan um verk hinna þannig að það er ekki að ástæðulausu sem ég er stolt af henni.

Það er svona ár síðan að Tinna byrjaði að mála fyrir alvöru. Í byrjun gaf hún vinum og vandamönnum flestar myndanna sem tækifærisgjafir. Í upphafi þessa árs setti hún myndir af sumum verkanna sinna inn á síðuna etsy.com Hún fékk strax mjög jákvæðar undirtektir þar og núna eru 205 sem hafa sett hana og/eða einhver verka hennar í uppáhaldið sitt.

Framkvæmdastjóri garðræktarstöðvarinnar Takao Nursery rakst á myndirnar hennar þar og hafði samband við hana og bað hana að mála mynd fyrir listann þeirra. Listinn þeirra heitir Art Imitates Nature og kemur út einu sinni á ári. Þar eru ungir listamenn víðs vegar að úr heiminum fengnir til að mála eftir blómum sem þau selja. Þú getur skoðað listann hér en myndin sem Tinna málaði fyrir listann er í opnu 5 (eða síðu 9-10)

Um páskana datt henni svo í hug að flytja inn peysur og mála á þær. Hún fékk tvær vinkonur sínar í lið með sér til að hrinda hugmyndinni í framkvæmd. Þær stofnuðu síðu á MySpace þar sem þessi föt ásamt fleiru er til sölu. Peysurnar sem hún málaði á seldust nær strax upp en það eru nokkrar eftir enn.


 Þessar jákvæðu undirtektir hafa aukið Tinnu kjark og áræði þannig að í dag málar hún ekki bara á striga og föt. Hún er að mála á púða, segla og svo hefur hún gert gjafakort með eftirprentunum af nokkrum verkanna sinna. Þetta var hún með til sýnis og sölu á Hrafnagili um síðustu helgi.

 

Það voru margir sem komu í básinn hennar Tinnu og létu jákvæð orð falla um það sem hún er að gera. Flestir þeirra tóku nafnspjaldið hennar en það fóru rúmlega 400 slík. Það verður gaman að sjá hvort að það skilar sér í einhverju meiruSmile

 

Margir þeirra sem komu í básinn hennar Tinnu höfðu orð á því hvað það sem hún er að gera er mikið öðru vísi og kannski er það þess vegna sem hún seldi ekki meira en raun bar vitni. Það er eins og margir þurfi ákveðinn tíma til að meðtaka það sem er nýtt og eða framandi.

  Tinna er sjálf búin að blogga um sýninguna þar sem hún segist vera ánægð eftir þessa helgi en þreyttKissing Þar vísar hún líka í umfjöllun norðlensku sjónvarpstöðvarinnar N4 um Handverkshátíðina en þar var m.a. viðtal við hana sjálfa. Þar kom fram að Tinna væri meðal yngstu þáttakendanna á hátíðinni og ég get staðfest það að hún var sú yngsta sem var ein með bás á Handverkshátíðinni að þessu sinniHeart

 

Ég hef kynnst því áður að það getur verið erfitt fyrir fólk með góðar hugmyndir að koma þeim á framfæri. Ég kannast líka við það að þeir sem eru að skapa eitthvað spennandi þykir það frekar vandræðalegt og jafnvel leiðinlegt að koma sjálfum sér á framfæri. Þetta er tilefni þess að ég skrifa þessar línur og velti því fyrir mér um leið hvort og hvernig megi skapa vettvang fyrir ungt hæfileikafólk eins og Tinnu til að koma þeim sjálfum og því sem það er að skapa á framfæri.

 

Handverkshátíðin á Hrafnagili er svo sannarlega frábær vettvangur en þarf ekki eitthvað meira?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband