Einbeittur brotavilji eða skipulögð glæpastarfssemi?

Þeir eru þó nokkrir sem höfðu áhyggjur af þeirri þróun sem átti sér stað í íslensku samfélagi á undanförnum árum. Sumir reyndu að vekja athygli á þeim í íslenskum fjölmiðlum því þeir vildu vara við því að samfélagið stefndi í þrot.

Margir hafa bent á athyglisverðar staðreyndir eins og þær hvernig hefur verið skipað í embætti og stöður á undanförnum árum. Þessir reyndu að vekja athygli á þeim áhyggjum sínum að skipulega væri stefnt að því að veikja eftirlits- stofnanir, fjölmiðla, lögreglu og dómsvald eða gera þessar stofnanir auðsveipar og meðfærilegar með því að setja vini og vandamenn í mikilvægar stöður innan þeirra.
ÞöggunartilburðirÞeir sem hafa talað þannig sáu þó ekki endilega allt það fyrir sér það sem hefur opinber- ast á þessum vetri. Enda þvílíkt og annað eins að maður setur hvað eftir annað hljóðan. Bæði opinberanirnar sjálfar og hvað þær hafa vakið lítil viðbrögð. Það er kannski ekki nema von að stór hluti þjóðarinnar sé hálfdofin og áttavillt þegar öll þau ósköp sem hafa gengið á og opinberast frá liðnu hausti eru höfð í huga.

Það er þess vegna spurning hvort þögnin í samfélaginu stafar af því hve vel hefur tekist við að skipa flokksholla einstaklinga í mikilvægar stöður eða því að meginþorri þjóðarinnar sitji enn fastur í áfallalostinu sem ósköpin hafa valdið henni. Hvort sem heldur er þá virðist ekkert lát á þeim tilefnum sem þarf að bregðast við. Hvert sjokkerandi hneykslismálið rekur annað og hverju slíku fylgir svo annað áfall yfir skortinum á eðlilegum viðbrögðum viðeigandi stofnana.

Nú síðast er það mútuþægni sjálfstæðismanna. Það er auðvitað ekki í mínu valdi að fullyrða að hver og einn einasti flokksmeðlimur hafi verið upplýstur um öll þau ósköp af mútugreiðslum sem flokkurinn tók við. Hins vegar er ótrúlegt að fylgjast með fréttaflutningi af minnisleysi og sakleysi einstaklinga innan flokksins sem þar hafa setið við stjórn. Það er ekki nóg með að þeir bregði við minnisleysi heldur vísa þeir hver á annan og komast upp með þetta allt saman. (Sjá m.a. fréttir á mbl.is frá því að málið kom upp og þessa samantekt Láru Hönnu Einarsdóttur)
FeluleikurÞað hlýtur að liggja í augum uppi að m.a.s. meðlimir innan Sjálfstæðisflokksins vita að það að taka við umræddum „styrkjum“ stangast ekki aðeins á við almennt velsæmi heldur eru upphæðirnar slíkar að hér getur ekki verið um neitt annað að ræða en mútur. Ég spyr mig þess vegna hvers vegna formenn og framkvæmdastjórar flokksins eru ekki í yfirheyrslu hjá efnahagsbrotadeildinni? Viðbrögð flokksmanna sýna það sennilega best að hér hefur verið flett ofan af mjög alvarlegu efnahagsbroti og það beri að rannsaka það af sérfræðingum í slíkum málum.

Miðað við það hvernig á málinu er tekið mætti ætla að hér sé um að ræða nemendafélag sem hefur orðið uppvíst af því að fara sér fullgeyst á eiginhagsmunapotsbrautinni. Ég vil þess vegna undirstrika það og ítreka að hér er verið að tala um ein elstu og áhrifamestu stjórnmálasamtök landsins! Miðað við það sem nú hefur komið fram eru þar innan um einstaklingar sem búa yfir einbeittum brotavilja og hafa stundað skipulagða glæpastarfssemi í skjóli flokksins.

Mér sýnist óhætt að draga þá ályktun að flokkurinn sé búinn að koma sér svo vel fyrir að þegar meðlimir hans verða uppvísir af slíkri glæpastarfsemi sem hér um ræðir þá er það talið eðlilegt að flokkurinn fjalli um hana innan sinna raða. Það ætti þó að liggja í augum uppi að flokkurinn hefur hvorki burði né vilja til að fjalla heiðarlega um þessi efni. Það kemur ekki síst fram í því að á  undanförnum dögum hafa svör og yfirlýsingar meðlima hans stangast svo á að það er augljóst að það er mjög einbeittur vilji meðal þeirra sem bera ábyrgðina til að firra sig henni.

Það er ljóst að það er eitthvað mikið að í samfélaginu þegar svo er komið að það þykir eðlilegt að stjórnmálaflokkur sem verður uppvís að slíku glæpsamlegu athæfi fær ekki aðeins að starfa áfram óáreittur heldur er allt tekið gott og gilt sem frá honum kemur þrátt fyrir að þar stangist flest augljóslega á. Þetta vekur í raun upp svo margar spurningar að það væri of langt mál að telja þær allar upp hér.

Miðað við framgang mála er e.t.v. það eitt eftir að binda vonir við það að dómgreind kjósenda sé nógu óspillt til að átta sig á því hvað hér er á ferðinni því það er augljóst að það treystir sér enginn sem á að taka á afbrotamönnunum til að bregðast eðlilega við. Ég leyfi mér a.m.k. að vona að kjósendur hafni því að hér sitji skipulögð glæpasamtök við stjórnvölinn áfram sama hvaða nafni þau nefnast!
mbl.is Nöfn fyrirtækja ekki rædd í miðstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Tek undir:)

Hólmdís Hjartardóttir, 12.4.2009 kl. 14:45

2 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Sá það staðfest að þú værir komin í framboð Rakel, til hamingju með það og gangi ykkur vel

Gleðilega páska

Sigrún Jónsdóttir, 12.4.2009 kl. 15:18

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það er rétt Sigrún. Hef verið að velta því fyrir mér hvort ég eigi að blogga eitthvað sérstaklega um þá erfiðu ákvörðun. En í stuttu máli er ég fyrst og fremst knúin áfram af þeirri einlægu ósk að hér verði hrundið í framkvæmd aðgerðum til endurreisnar lýðræðinu þó fleira komi til.

Takk fyrir hamingjuóskir og gleðilega páska

Rakel Sigurgeirsdóttir, 12.4.2009 kl. 15:40

4 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Egnu líkara en að hér sé um hvoru tveggja að ræða, einbeittur brota vilji og skipulagða glæpa starfsemi.

Svo segir Einar Kr. þeirra fyrri aðal í sjávarútvegsmálum að "heiðarleiki sé aðalsmerki" sjálfstæðis manna. Þetta er orðið eins og að hlusta á virkan alkóhólista halda því fram að hann/hún hafi aldrei drukkið! Ég spyr enn og aftur: á hvaða plánetu búa þessir menn? 

Arinbjörn Kúld, 12.4.2009 kl. 17:25

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Góður Ari Það er ekki nóg með að þeir hafi unnið stórtjón á efnahagsmálum landsins heldur hafa þeir stórskaðað tungumálið með hverri gengisfellingunni á fætur annarri

Rakel Sigurgeirsdóttir, 12.4.2009 kl. 17:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband