Bloggfærslur mánaðarins, september 2014

Mjólkin og pólitíkin

Einu sinni var gríðarlega stórt mjólkurbú sem hét Korpúlfsstaðir. Húsbóndinn þar hét Thor Jensen. Sonur hans var Ólafur Thors. Hann var leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í nær þrjá áratugi. Sjálfstæðisflokkurinn var flokkur þeirra sem áttu von í peningum auk þeirra sem álitu heiti hans tengjast sjálfstæðisbaráttu landsins.

Thor Jensen og frú og Ólafur Thors á yngri árum

Á fjórða áratug síðustu aldar voru þeir sem áttu umtalsverðar eignir fámennir en engu að síður fjármagnsfrekir eins og oft og tíðum gegnir um þá sem tekst að telja umhverfi sínu trú um að þeir eigi það sem þeir krefjast. Á síðustu áratugunum áður en Ísland fékk sjálfstæði frá Dönum voru þetta nokkrir óðalsbændur og svo sjávarútvegsforkólfar og stórkaupmenn.

Fyrstu árin virtist ekkert ógna völdum Sjálfstæðisflokksins en frá og með árinu 1927 varð Framsóknarflokkurinn harður keppinautur. Jónas frá Hriflu og Tryggvi Þórhallsson voru fyrstu leiðtogar Framsóknarflokksins til að ógna “veldi“ þeirrar nýju eignastéttar sem var að verða til í byrjun síðustu aldar og þeim félagasamtökum sem hún hafði búið til í þeim tilgangi að tryggja sér og sínum völd og viðhalda þeim.

Nokkru áður en þetta varð hafði Thor Jensen tekið peninga úr sjávarútvegsfyrirtækinu Kveldúlfi og stofnað og byggt upp mjólkurbúið að Korpúlfsstöðum. Hann réði m.a. danska mjólkurfræðinga til að ná þeim framúrskarandi árangri í mjólkurframleiðslunni sem hann sóttist eftir. Korpúlfsstaðir varð stærsta mjólkurbú landsins á tímabilinu 1929-1934 og sá langstærstum hluta Reykjavíkur fyrir mjólk. Aðrir mjólkurframleiðendur komust ekki með tærnar þar sem mjólkurbúið við bæjardyr Reykjavíkur hafði hælanna í hreinlæti, gæðum og magni.

Árið 1934 kom fram nýr leiðtogi Framsóknarflokksins þó hann yrði reyndar ekki formaður hans fyrr en 10 árum síðar. Þessi nýi leiðtogi gerðist fulltrúi þeirra sem þóttust sviknir af dekri Sjálfstæðisflokksins við þá eignastétt sem hafði vaxið upp í sveitum landsins en valið sér athafnasvið á mölinni niður við sjóinn. Afurðasölulögin sem Hermann Jónasson kom á árið 1934 voru e.t.v. hugsuð af einhverjum til að ná sér niður á ósvífninni sem hinir nýríku kaupstaðabúar sýndu fortíðinni og sveitamenningunni. 

Pólitísk átök sem leiddu til helmingaskipta

Mjólkursölulögin voru hluti afurðasölulaganna en þau gerðu öllum mjólkurframleiðendum skylt að selja mjólkina til mjólkursamfélaga kaupfélaganna  eða SÍS. Þessi lög kipptu rekstrargrundvellinum undan Korpúlfsstöðum og setti búið á hausinn sama ár og þau gengu í gildi. Hins vegar urðu þau til að rétta þannig við ógæfulegum hag SÍS að árið 1937, eða þremur árum eftir að þau gengu í gildi, þá voru inneignir sambandsins orðnar hærri en skuldirnar (sjá hér).

Árið 1934 voru að undirlagi Framsóknarflokksins sett ný mjólkursölulög sem komu því skipulagi á dreifingu mjólkur sem við þekkjum í dag. Lögin áttu að jafna aðstöðu bænda hvar sem þeir bjuggu á landinu og féllu jafnframt að þeirri hugmynd Framsóknarmanna að smábýlarekstur væri æskilegasta fyrirkomulagið í landbúnaði.

Talið var að lögunum væri ekki síst beint gegn Thor Jensen, sem rak stórbú að Korpúlfsstöðum. Eftir að mjólkursölulögunum var komið á gat hann ekki selt Korpúlfsstaðamjólkina sérstaklega heldur þurfti öll mjólk í Reykjavík að fara gegnum Mjólkursamsöluna, nema greitt væri verðjöfnunargjald. Upp úr þessu hnignaði Korpúlfsstaðabúinu og það lagðist loks af. Alþýðuflokkurinn studdi mjólkursölulögin, en Sjálfstæðisflokkurinn var á móti. Þetta var því hápólitískt og flokkspólitískt mál (sjá hér).

Þó hagur SÍS vænkaðist árið 1937 þá ríkti kreppa annars staðar í landinu. Hún kom m.a. niður á sjávarútvegsfyrirtækinu Kveldúlfi sem þetta ár fékk einhverja innspýtingu þrátt fyrir harðvítuga gagnrýni Einars Olgeirssonar og félaga. Þá kom m.a. framsóknarþingmaðurinn Eysteinn Jónsson Kveldúlfi til varnar. Einhverjir hafa haldið því fram að á þessum árum hafi skuldum Kveldúlfs verið velt yfir á herðar almennings í gegnum endurreisn Landsbankans (sjá t.d. hér).

Hér má svo benda á að Reykjavíkurborg keypti Korpúlfsstaði af Thor Jensen árið 1942 en þá var Bjarni Benediktsson (eldri) borgarstjóri (sjá hér). Sjávarútvegsfyrirtækið Kveldúlfur var hins vegar ekki gert upp fyrr en árið 1974 nokkrum árum eftir að það varð gjaldþrota. Þá leysti Landsbankinn það til sín sem eftir var að eigum félagsins. Á þeim tíma var Jónas H. Haralz bankastjóri bankans (sjá hér).

Stórir gerendur í utanríkissamskiptum og íslenskum efnahagsmálum

Læt ég þar með lokið stuttri samantekt um forsögu/bakgrunn og lög sem hafa alið af sér fleiri milliliði en ég reikna með að Hermann Jónasson hafi órað fyrir að lögin myndu geta af sér og hafa kostað bæði neytendur og bændur meiri auðævi en nokkur gat séð fyrir!

Mín niðurstaða í þessu er sú að flokkspólitíkin er almenningi dýrari en að hann fái við kostnaðinn ráðið. Reyndar er allt eins líklegt að önnur stjórnarform reyndust síst ódýrari. Hins vegar blasir það væntanlega við hverjum manni að þegar framleiðslu er ætlað að bera uppi launakostnað fjölda milliliða, sem hafa stillt sér upp á milli framleiðandans - í þessu tilviki: mjólkurbóndans - og neytendans, þá er hætt við að það sé ekki bara neytandinn sem líði fyrir heldur líka framleiðandinn og varan sem um ræðir. 

Ýtarefni:
Brot MS alvarlegt fyrir samfélagið allt
RUV 23. september 2014.
Mjólkurbúið Mjöll var risafyrirtæki
Skessuhorn 28. maí 2014.
Rakel Sigurgeirsdóttir. Til kvótastýrðs sjávarútvegs III (blogg) 26. janúar 2014
- Til kvótastýrðs sjávarútvegs II (blogg) 23. október 2013.
- Til kvótastýrðs sjávarútvegs I (blogg) 12. október 2013.
- Til kvótastýrðs landbúnaðar (blogg) 22. september 2013.
Ingi Freyr Vilhjálmssson Á allt of troðnum slóðum DV 20. nóvember 2012
Guðrún Pétursdóttir Um helmingaskipti og fyrirgefningu skulda Morgunblaðið 28. ágúst 2003


mbl.is MS greiði 370 milljónir í sekt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband