Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014

Til kvótastýrðs sjávarútvegs III

Það er löngu kominn tími á það að hér verði haldið áfram og lokið við það sem lagt var upp með á þessu bloggi sl. haust en það er að bera saman ráðherra núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnar út frá því sem alþingisvefurinn gefur upp um feril þeirra. Markmiðið með þessum samanburði er að freista þess að gefa nokkra innsýn í það hvaða hefðir hafa orðið ofan á varðandi skipun ráðherra í íslenskri pólitík. Til þess að þetta markmið megi nást hefur einnig verið litið aftur í tímann frá upphafi ríkisstjórnarmyndunar á Íslandi árið 1917.

Hér verður þráðurinn tekinn upp þar sem frá var horfið undir lok október á síðasta ári en þá var annar hlutinn í sérstöku yfirliti á embættissögu og stjórnsýslulegum ákvörðunum sem varða innlend sjávarútvegsmál birtur. Þetta verður því lokahluti sérstakrar umfjöllunar um sjávarútvegsmál annars vegar og landbúnaðarmál hins vegar sem er aðdragandi að samanburði á menntun og starfsreynslu þess sem fór með þessa málaflokka í síðustu ríkisstjórn og hins sem gegnir embætti landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra nú.

Kjötiðnaðarmaðurinn, garðyrkjubóndinn og sjómaðurinn

Það má segja að annar hlutinn hafi endað þar sem sjávarútvegurinn tók við af landbúnaðinum sem drottnandi þáttur í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Þar er því haldið fram að afleiðingarnar hafi m.a. verið þær að virði nýfrjálss verkalýðs sveitanna var ekki aðeins gengisfellt heldur var vinnuaflið hneppt í skuldafjötra nýríks sjávarútvegsaðals með fulltingi ráðherra heimastjórnarinnar. Tilgangurinn virðist ekki síst hafa verið sá að bjarga þjóðarstoltinu, hinum nýstofnaða Landsbanka, en ekki verður annað ályktað en þar hafi líka verið ætlunin að vernda innvígða og tengda eigna- og valdastétt landsins frá þeirri smán að opinbera kunnáttuleysið, gagnvart því frelsi að ráða málum sínum sjálfir, fyrir öðrum þjóðum. 

Í þessum lokahluta verður haldið áfram að rekja mikilvægar stjórnsýslulegar ákvarðanir sem liggja núverandi stöðu í sjávarútvegsmálum til grundvallar. Í framhaldinu verður svo lokið við þær fjórar færslur sem eru eftir til að ljúka samanburðinum á ferilskrám núverandi og fyrrverandi ráðherra. Til að gera lesendum auðveldara að ná samhenginu eftir svo langt hlé er sennilega rétt að byrja á því að rifja lítillega upp megináherslurnar í fyrstu hlutunum tveimur.

Hér á undan var drepið á því hvar annar hlutinn endaði en þar voru dregin fram söguleg atvik og helstu ákvarðanir sem varða sjávarútveginn frá landnámi fram undir fimmta áratug síðustu aldar. Í fyrsta hlutanum var farið yfir embættissöguna í sjávarútvegsmálum frá því að fyrsti atvinnumálaráðherrann var skipaður árið 1917 fram til þess að Einar K. Guðfinnsson tók við sameinuðu ráðuneyti landbúnaðar- og sjávarútvegsmála í upphafi árs 2008.

Nýir húsbændur

Eins og vikið var að í öðrum hlutanum mótuðust margar þeirra hefða, sem þykja einkennandi fyrir íslenska pólitík, á heimastjórnartímabilinu. Hér er ekki aðeins átt við þær sem lúta að skipun ráðherra og hvað hefur þótt tilhlýðilegt að liggi henni til grundvallar heldur líka það hvernig alls kyns hagsmunaárekstrar voru umgengnir. Það er reyndar ekki annað að sjá en að sú hefð hafi fests í sessi að líta annaðhvort framhjá þeim eða láta sem slíkir árekstrar geti ekki átt sér stað.

Hér er vísað til þátttöku skipaðra ráðherra í atvinnurekstri og alls kyns nefndum, ráðum og stjórnum utan þings sem varða beinlínis þá málaflokka sem viðkomandi ráðherrar voru settir yfir. Auk þess er útlit fyrir að strax á tíma heimastjórnarinnar hafi það orðið að hefð að ráðherrar nýttu stöður sínar til að hygla helst eigin embættisheiðri með því t.d. að velta afleiðingunum af embættisglöpum sínum og/eða vanhæfni til starfans yfir á þá sem uggðu ekki að sér; þ.e.a.s. almenning.

Þannig vildi það til að frá tíma fyrstu heimastjórnarinnar, árið 1917, og fram til lýðveldisstofnunarinnar, árið 1944, hafði gjaldþroti tveggja banka sem átti sér rætur í offjárfestingum í sjávarútveginum verið velt yfir á herðar almennings í stað þess að þeir sem raunverulega báru ábyrgðina stæðu undir henni. Þ.e. eigendur sjávarútvegsfyrirtækjanna og stjórnendur viðkomandi banka.

Fiktað með krónuna

Sú hefð að valda- og eignastéttin stæði saman við að verja sína sérhagsmuni án tillits til þess hvernig það kæmi niður á lands- og þjóðarhagsmunum breyttust þar af leiðandi ekkert við það að óðalsbændaaðall gamla bændasamfélagsins missti tökin á almenningi. Verkalýðurinn sem áður hafði verið bundinn með vistarbandinu undir húsbændur sína í sveitunum streymdi um þessar mundir á mölina með ferðamalinn úttroðinn af væntingum um áður óþekkt frelsi.

Sjálfsagt voru þeir einhverjir sem tóku þátt í þessum flutningum sem fundu til eftirvæntingar gagnvart sjálfstæði landsins en það er þó líklegra að draumurinn um frelsið hafi fyrst og fremst verið bundinn við persónulegt sjálfstæði. Það er varla ofmælt að þessi hópur hafi fljótlega komist að því fullkeyptu þar sem í stað vistarbands bændaaðalsins tóku við skuldafjötrar hins ört vaxandi kaupsýslu- og sjávarútvegsaðals.

Þeir sem völdust inn á þing á þessum tíma voru velflestir synir vel efnaðra bænda sem höfðu alist upp við það að þeir sem áttu jarðir tóku ákvarðanir fyrir aðra í íslensku samfélagi í samráði við dönsk yfirvöld. Með heimastjórninni var stigið fyrsta skrefið að því að Íslendingar sæju um sín mál sjálfir óháð Dönum. Þessu fylgdi eigin gjaldmiðill; íslensk króna, eigin banki; Landsbankinn, og innlend stjórn og innlendir embættismenn.

Landsbankinn var reistur í Reykjavík og þar var líka vettvangur heimastjórnarinnar. Auk Landsbankans var Íslandsbankinn reistur í Reykjavík en hann var í eigu danskra og norskra fjársýslumanna. Kannski má leiða að því líkum að af þessum ástæðum hafi þeir sem stóðu að uppgangi togaraútgerðar við Faxaflóann verið svo nátengdir bankastarfseminni og heimastjórninni þó líklega hafi fleira komið til.

Í þessu sambandi er vert að minna á að fyrsti fjármálaráðherrann, Björn Kristjánsson, var einn aðaleigenda Alliance sjávarútvegsfyrirtækisins sem átti eftir að leiða Íslandsbanka til gjaldþrots og Ólafur Thors, sem lengi var forsætisráðherra ásamt því að fara með sjávarútvegs- og utanríkismál, var einn eigenda Kveldúlfs sem leiddi Landsbankann í sömu stöðu og Íslandsbanki hafði verið í 15 árum áður.

Það horfði því hvorki gæfulega í íslenskum efnahagsmálum né pólitíkinni þegar leið að lýðveldisstofnuninni árið 1944. Það er varla ofmælt að staðhæfa að hér hafi ríkt kreppa á báðum sviðum. Líklega voru það þessar ástæður sem réðu því að Sveinn Björnsson greip til þeirrar óvinsælu aðgerðar að skipa utanþingsstjórn sem sat hér þegar íslenska lýðveldið var stofnað.

Utanþingstjórnin Á myndinni eru, talið frá vinstri: Björn Ólafsson, Björn Þórðarson, forseti Íslands: Sveinn Björnsson, Vilhjálmur Þór og Einar Arnórsson. Jóhann Sæmundsson vantar á myndina. (sjá meira hér)

Burtséð frá því hvernig til skipunar utanþingsstjórnarinnar tókst þá hefur þýðing hennar fyrir bæði efnahagslega og pólitíska framvindu að öllum líkindum verið einhver. Hins vegar er sennilega óhætt að fullyrða að hún hafi ekki gert allan gæfumuninn en öðru máli gegndi um síldina!

Síldarævintýri og Marshallfé

Norðmenn höfðu gert út á síld við Íslandsstrendur áður en Íslendingar áttuðu sig á því hvaða tækifæri lágu í veiðunum á henni. Þó voru einhverjir farnir að gefa því gaum áður en það tímabil, sem hefur verið kennt við síldarævintýri, hófst. Þeir lærðu verklagið af Norðmönnum og tóku síðan veiðarnar og verkunina yfir. Þegar leið undir lok annars áratugar síðustu aldar voru Íslendingar komnir fram úr Norðmönnum í framleiðslumagni í síldarsöltuninni (sjá hér).

Í upphafi tuttugustu aldarinnar var saltfiskurinn undirstaðan á nær öllum útgerðarstöðum landsins „en eftir því sem á leið sneru Eyfirðingar sér æ meir að síldveiðum“ (Íslenskur söguatlas 3. bd: 38-39). Þeir sem áttu stærstu skipin sunnan- og vestanlands tóku þátt í veiðunum og sendu skip og áhafnir á síldarvertíðir fyrir norðan og/eða austan. En síldveiðunum fylgi meiri áhætta en saltfiskframleiðslunni auk þess sem síldveiðarnar voru árstíðarbundnar. Það var saltfiskverkunin reyndar líka.

Í góðum árum gaf síldin hins vegar svo vel að hún hefur verið sögð „einn helsti örlagavaldur Íslendinga“ á 20. öldinni. Sú ályktun hefur m.a.s. verið dregin að: „Án hennar er vafasamt að hér hefði byggst upp það nútímasamfélag sem við þekkjum í dag.“ (Íslenskur söguatlas 3. bd: 40)

Síldin varð mikilvægasta útflutningsgreinin í stað saltfisks áður

Eins og kom fram hér á undan þá var atvinna í kringum saltfiskframleiðsluna og síldveiðarnar árstíðarbundnar. Síldveiðarnar voru auk þess mjög landshornabundnar. Þegar veiðarnar stóðu sem hæst urðu þetta helstu „síldarplássin [...]: Bolungarvík, Ingólfsfjörður, Djúpavík, Skagaströnd, Siglufjörður, Dalvík, Hjalteyri, Dagverðareyri, Krossanes, Akureyri, Húsavík, Raufarhöfn, Vopnafjörður, Seyðisfjörður, Neskaupsstaður, Eskifjörður, Reyðarfjörður og Fáskrúðsfjörður.“ (sjá hér)

Á fjórða áratugnum lokaðist fyrir mikilvægustu saltfiskmarkaðina með borgarastyrjöldinni á Spáni. Síldin tryggði hins vegar áframhaldandi viðgang sjávarútvegsins og kom í veg fyrir að afleiðingar kreppunnar upp úr 1930 gerðu út af við ungt og veikburða efnahagslíf Íslendinga. Meðal þeirra fyrirtækja sem réttu úr kútnum á þessum tíma var stærsta útgerðarfélag landsins, Kveldúlfur, sem byggði síldarverksmiðju á Hjalteyri og bjargaði sér þar með frá gjaldþroti. Stjórnvöld létu hins vegar reisa síldarverksmiðjur á Siglufirði; stærsta síldarútgerðarbæ landsins.

Það var aftur á móti ekki fyrr en með hernáminu sem tókst að útrýma atvinnuleysinu sem hafði orðið landlægt með kreppunni. Allir sem voru í atvinnuleit gátu fengið vinnu allt árið og þurftu ekki lengur að búa við það árstíðabundna atvinnuleysi sem einkenndi íslenskt atvinnulíf á fjórða áratug síðustu aldar. Á sama tíma stóð landbúnaðurinn frammi fyrir nýjum keppinaut um vinnuaflið en sjávarútvegurinn gekk í gegnum byltingarkennda endurnýjun. 

Árin 1935-1950 varð [...] bylting í atvinnuefnum er fiskvinnslan skipti um grundvöll. Allt frá 1820 hafði saltfiskvinnsla á sumrin verið einkenni íslenskrar fiskvinnslu. Þetta var árstíðabundin starfsemi, háð veðri og vindum. Frá 1930 minnkaði mjög eftirspurn eftir saltfiski á alþjóðamarkaði og íslensk stjórnvöld leituðu nýrra framleiðsluaðferða og markaða. Ein lausnin var að byggja frystihús til að frysta fisk til útflutnings. (Íslenskur söguatlas 3. bd: 114)

Frystihús voru komin í flest pláss um 1942 en mörg þeirra voru endurbyggð auk þess sem ráðist var í nýbyggingar og hafnarframkvæmdir víða um land ásamt endurnýjun togaraflotans með því fé sem fékkst út úr því að Íslendingar gerðust aðilar að Marshalláætluninni árið 1948 (sjá t.d. hér). Árstíðasveiflur í sjávarútvegi heyrðu þó langt frá því sögunni til en sveiflur í aflamagni á milli ára höfðu þó meira að segja.

Síldarvinna

Eftir að hernámsliðið hætti að skapa atvinnu hér á landi kom síldin aftur til bjargar og hámarki síldarævintýris var náð. Það stóð þó ekki lengi því undir lok sjöunda áratugar síðustu aldar var hún á bak og burt og sneri ekki  aftur fyrr en nær þremur áratugum síðar (sjá hér).

Árið 1969 hvarf síldin. Hinn stóri norsk-íslenski síldarstofn var ofveiddur og ábyrgðina báru mestu síldveiðimenn þess tíma, Norðmenn, Íslendingar og Sovétmenn.
Hvarf síldarinnar varð íslensku síldarbæjunum og þjóðinni allri mikið áfall í atvinnu- og efnahagslegu tilliti. Á þessum árum hafði allt að helmingur útflutningsteknanna verið af síldarafurðum og þjóðin búið við mikla hagsæld.
(sjá hér)

Þær breytingar sem urðu á atvinnuháttum, byggðaþróun og lífskjörum þjóðarinnar með síldinni og hernáminu eru sannarlega þættir sem tengjast bæði beint og óbeint þeirri stjórnmálaþróun sem mótaðist þegar á heimastjórnartímanum, festist í sessi næstu áratugina á eftir og skapaði grundvöll af þeim hefðum sem pólitíkin lýtur enn þann dag í dag. Hér verður þó ekki staldrað frekar við þá samfélagsþróun sem stendur í beinu samhengi við hernámið og síldarævintýrið heldur horft frekar til þeirra stjórnsýslulegu ákvarðana sem leiddu til kvótastýringar í sjávarútvegi.

Áður en kemur að því að skoða forsendur og afleiðingar þeirrar framleiðslustýringar sem eru bundnar kvóta á veiðiheimildir er þó ekki úr vegi að minna á hvaða afleiðingar afskiptaleysi stjórnvalda varðandi síldveiðarnar hafði á marga af þeim bæjum sem byggðust meira og minna upp í kringum síldina. 

Djúpavík á Ströndum

Djúpavík á Ströndum er þeirra á meðal en þar hófst bygging síldarverksmiðju árið 1934 sem aflaði umtalsverðra tekna einkum fyrir þær útgerðir og þá einstaklinga sem tóku þátt í veiðinni og verkuninni auk þess að skila skatttekjum í ríkissjóð. Minnst af tekjunum urðu eftir í byggðarlaginu heldur streymdi burt með bátunum og vinnuaflinu sem komu annars staðar frá. Á Djúpavík varð lítið annað eftir en grotnandi byggingar og fölnandi minningar sem munu að lokum eyðast og hverfa. 

Þorskveiðunum settar takmarkanir í stækkaðri landhelgi

Það áttu gífurlegar breytingar sér stað í öllu því sem lýtur að sjávarútvegi á síðustu öld og líklegt að einhverjar liggi enn í nánustu framtíð. Stærri og afkastameiri skip þýddi meiri veiði en endalok þess tímabils sem var kennt við síldarævintýri varð alvarlegasti vitnisburðurinn um nauðsyn þess að setja fram stefnu og gera áætlanir varðandi fiskveiðarnar og aflamagnið. Útfærsla landhelginnar og verndun miðanna fyrir „rányrkju“ erlendra fiskiskipa í kringum miðja síðustu öld var sannarlega skref í þá átt.

Árið 1948 voru samþykkt lög á Alþingi um „vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins“ (sjá hér). Á grundvelli þeirra laga var landhelgin færð út í skrefum á árunum 1950 til 1975 (sjá hér). Sjávarútvegsráðherra þessa tíma voru að vonum mjög í sviðsljósinu og þar af leiðandi væntanlega eftirminnilegri en aðrir sem voru ráðherrar á sama tíma.

Þeir voru sjávarútvegsráðherrar þegar landhelgin var færð út

Það kveður ekki við svo ólíkan tón í ræðu Ólafs Thors, sem hann flutti árið 1952 í tilefni að því að landhelgin var færð út í 4 mílur, og ræðu Lúðvíks Jósepssonar sex árum síðar þegar landhelgin var færð út í 12 mílur. Í ræðu Ólafs Thors segir: „Aðgerðir íslenskra stjórnvalda í þessu máli eru sjálfsvörn smáþjóðar, sem á líf sitt og frelsi að verja.“ Í ræðu Lúðvíks Jósepssonar frá árinu 1958 segir: „[...] ekkert getur hindrað okkur í því að setja reglur, sem tryggja lífsöryggi þjóðarinnar í heild.“ (Íslenskur söguatlas, 3. bd: 168)

Ári eftir síðustu útfærsluna var þeim áfanga fagnað að Íslendingar væru „loks lausir við erlend fiskiskip af miðunum“ (Íslenskur söguatlas, 3. bd: 168). Á fullveldisdaginn það sama ár sendi þing ASÍ frá sér ályktun þar sem þetta kemur m.a. fram:

Fundur 33. þings ASÍ haldinn 1. desember 1976 fagnar unnum sigrum í þessu mesta hagsmunamáli þjóðarinnar og hvetur til aðgæslu um stjórnun fiskveiða og nýtingu helstu fiskistofna.

Þrátt fyrir að yfirlýst markmið útfærslu landhelginnar væri að vernda fiskimiðin og tryggja sjálfstæði landsins þá hefur á síðustu árum orðið að takmarka veiðar íslenskra skipa verulega og ýmislegt bendir til þess að Íslendingar hafi nýtt sínar auðlindir meira af kappi en forsjá. (Íslenskur söguatlas, 3. bd: 168)

Árið 1978 kynnti sjávarútvegsráðherra, Matthías Bjarnason, nýja hugmynd til stjórnar fiskveiðum sem voru leidd í lög það sama ár. Aðferðin hefur jafnan verið kölluð skrapdagakerfið sem í meginatriðum fól það í sér að vissa daga ársins átti uppistaða aflans að vera annað en þorskur.

Gert að aflanum

Þegar kom fram á árið 1983 þótti ljóst af skýrslum Hafrannsóknarstofnunar að markmið skrapdagakerfisins voru langt frá því að nást. Skýrslan þótti reyndar svo „svört“ að sjávarútvegsráðherra, Halldór Ásgrímsson, keyrði nýja fiskveiðistjórnarhugmynd í gegnum þingið sem gerði ráð fyrir að í stað þess að freista þess að takmarka veiðarnar með aðferðum skrapdagakerfisins þá væri veiðiheimildirnar bundnar skipunum.

Fyrsta kvótafrumvarpið varð að lögum á 12 dögum 

Frumvarpið um skiptingu heildarafla eftir skipum var lagt fram á Alþingi 9. desember 1983 og varð að lögum tólf dögum síðar (sjá feril málsins hér). Frumvarpið vakti töluverða umræðu þar sem m.a. kom fram hörð gagnrýni á tímapressuna sem málið var sett í, kvótafyrirkomulagið sjálft ásamt þeirri valdatilfærslu sem í frumvarpinu fólst.

Guðmundur Einarsson var einn þeirra þingmanna stjórnarandstöðunnar sem settu út á tímann sem var ætlaður til umræðu frumvarpsins með eftirfarandi rökum:

Það [frumvarpið] mun hafa áhrif á landshluta, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga. Þessi áhrif verða á atvinnumál, félagsmál, fjölskyldumál, byggðastefnu, peningamál í rekstri fyrirtækja, bankastarfsemi og yfirleitt flest það sem máli skiptir. Ég nefni þetta einungis til þess að sýna í örfáum orðum umfang máls sem Alþingi mun nú taka 2-3 eftirmiðdagsstundir til að ræða. Þetta er hugsanlega eitthvert afdrifaríkasta mál sem hefur komið inn á borð hér jafnvel svo að árum skiptir. (sjá hér)

Kjartan Jóhannsson, sem var sjávarútvegsráðherra á fyrstu tveimur árum skrapdagakerfisins, var einn þeirra sem gagnrýndi frumvarpið en Alþýðublaðið hefur þetta eftir honum fimm dögum eftir að Halldór Ásgrímsson lagði kvótafrumvarpið, svokallaða, fram í þinginu:

„Ég tel það mjög óeðlilegt að Alþingi framselji svona mikið vald án þess að til stefnumörkunar hafi komið um það hvernig slík heimild verður notuð, annaðhvort í lagatextanum sjálfum eða þá í sérstakri þingsályktunartillögu. [...] Meðan engin stefnumörkun er fyrir hendi er hætta á því að ráðherra nýti sér slíka heimild að eigin geðþótta, jafnvel þvert gegn meirihlutaviljanum.“ (sjá hér)

Guðmundur Einarsson velti líka fyrir sér því valdi sem frumvarpið færði ráðherra sjávarútvegsmála og varpaði fram eftirfarandi hugleiðingum í sambandi við það vald sem frumvarpið gerði ráð fyrir að yrði á hans hendi:

Það er kannski vert að minnast í þessu sambandi að á undanförnu ári eða tveimur hefur verið verulega mikið um tilfærslu skipa, um skipasölur á landinu. Og síðan spyr maður: Hver gefur og hver tekur þessi verðmæti? Það er ráðh[herra]. Og þá kemur grundvallarspurningin: Hefur hann þá umráðarétt yfir þeim auðlindum, yfir þeim peningum, yfir þeim millj[ónum] sem verið er að dreifa með þessu lagi? (sjá hér)

Ungur sjómaður

Viku eftir að Halldór Ásgrímsson, sjávarútvegsráðherra, mælti fyrir kvótafrumvarpinu (mál nr. 82/1983) á Alþingi mælti Guðmundur Einarsson fyrir áliti minnihluta neðri deildar. Þar segir hann m.a. þetta um kvótann:

Ég tel að hann muni skapa jafnmörg vandamál og hann leysir. Við erum að tala um aðgerð sem getur gert menn ríka eða örsnauða með einu pennastriki. Við erum að tala um aðgerð sem getur annaðhvort fært einstaklingum og fyrirtækjum milljónir eða svipt einstaklinga og fyrirtæki milljónum á einni nóttu.

Ég tel að það sé óhugsandi að Alþingi geti eða megi framselja umráðarétt þjóðarinnar yfir þessum auðlindum skilyrðislaust. Ég tel að það hafi raunar ekki til þess neitt umboð. Við erum að tala um aðgerð sem þarf að stefna að mjög mörgum markmiðum. Það þarf að vernda fiskstofna, það þarf að vernda byggðarlög, það þarf að vernda atvinnu og það þarf að vernda fjölskyldur. Það þarf að búa svo um hnútana að þetta séu ekki bara kaldir fjötrar og framlenging á því hallærisástandi sem hefur ríkt undanfarin þrjú ár. Það þarf að búa svo um hnútana að það sem verður gert verði í raun og veru til uppbyggingar.

Um seinna atriðið, þar á ég við reglur um meðhöndlun og framsal kvóta, vil ég segja það að það eina sem hefur komið fram í viðtölum sj[ávar]útv[egs]n[efndar] við hæstv[virtan] sjútvr[áð]h[erra] í þessu efni er að hann muni ekki leyfa beina sölu kvóta. [...] Þarna tel ég að Alþingi eigi aftur að marka grundvallarreglur. Þarna erum við að tala um meðferð og úthlutun á svo stórkostlegum auðæfum að það hlýtur að þurfa að setja þar stefnumarkandi reglur um. (sjá hér (leturbreytingar eru höfundar))

Fiskvinnslufólk í kringum 1970

Eins og öllum er væntanlega kunnugt þá var kvótafrumvarpið samþykkt og er vert að hafa það í huga að þessi stórkostlega ráðstöfun þeirra auðlinda sem fram að þessu hafði verið einhugur um að líta á sem „sameign þjóðarinnar“ (sjá hér) varð að lögum á innan við hálfum mánuði eftir að þáverandi sjávarútvegsráðherra, Halldór Ásgrímsson, mælti fyrir frumvarpinu. Þremur mánuðum síðar héldu aðilar sjávarútvegsins stóran fund í Sigtúni. Samkvæmt ályktun sem send var af fundinum má draga þá ályktun að hörmulegar afleiðingar þess fyrir einstakar byggðir hafi mátt vera ljósar frá upphafi:

Almennur fundur sjómanna, útgerðarmanna og fiskverkenda haldinn í Sigtúni sunnudaginn 18. mars 1984 telur að sú leið sem valin var til stjórnunar fiskveiða í byrjun ársins, skipting afla á veiðiskip, með öllu óhæfa þar sem hún leiðir m.a. til óréttlátrar skerðingar á þeirri athöfn fiskimannsins, sem leitt hefur sjávarútveginn til að vera meginstoð þjóðarbúskaparins. Einnig skal bent á hvern veg þessi stjórnun leikur atvinnuöryggi fólks einstakra byggðarlaga. (sjá hér)

Halldór Ásgrímsson var á fundinum í Sigtúni en átti ekki annað svar við þeirri gagnrýni sem þar kom fram á frumvarpið en það „að þetta kerfi [kvótakerfið] væri sett til eins árs og við það yrðu menn að una, héðan af yrði því ekki breytt, fyrr en á næsta ári“ (sjá hér).

Sex árum síðar var settur kvóti á allar veiðar 

Halldór Ásgrímsson var sjávarútvegsráðherra frá árunum 1983 til 1991 eða í átta ár. Á undan honum hafði enginn verið svo langan tíma yfir ráðuneyti sjávarútvegsmála. En Þorsteinn Pálsson, sem tók við ráðuneytinu á eftir Halldóri sat þar jafnlengi og hann eða frá á árunum 1991 til 1999. Þegar Halldór tók við sjávarútvegsráðuneytinu tók hann við af Steingrími Hermannssyni sem lagði honum kvótafrumvarpið í veganesti (sjá hér).

Frumvarpið lagði Halldór fram í þinginu sama ár og hann tók við embættinu eða þann 9. desember 1983. Átta dögum síðar var það það samþykkt með afgerandi meiri hluta úr neðri deild þingsins (23:9 (sjá hér)). Tólf dögum eftir að Halldór lagði frumvarpið fram í þinginu var það síðan samþykkt í efri deild með 11 atkvæðum en 7 voru á móti (sjá hér). Sex árum eftir að kvótafrumvarpið varð að lögum lagði Halldór fram nýtt frumvarp til laga um stjórn fiskveiða sem byggði í meginatriðum á því kvótakerfi sem hafði verið innleitt með lögunum sem hann fékk í arf frá Steingrími Hermannssyni.

Gert að aflanum

Í umræðum inni á þingi um seinna kvótafrumvarp Halldórs Ásgrímssonar kom fram hörð gangrýni á það að nýja frumvarpið gengi þvert gegn fyrri yfirlýsingum um að tekið yrði tillit til reynslunnar af því fiskveiðistjórnunarkerfi sem var innleitt með eldri kvótafrumvarpinu árið 1984. Karvel Pálmason var einn þeirra en í ræðu sinni gagnrýndi hann það miðstýringarvald í sjávarútvegi sem frumvarpið gerði ráð fyrir að færa einum manni; þ.e. sjávarútvegsráðherra, ásamt því að vísa til gagna sem sýndu hörmulegar afleiðingar fyrir þau byggðalög þar sem íbúarnir byggðu afkomu sína fyrst og fremst á sjávarútvegi:

Þegar þetta kerfi var sett á voru menn að tala um það til reynslu og hverju það mundi skila til þjóðfélagsins í mikilvægasta útflutningi þessa lands. Það átti að draga úr fiskiskipaflotanum. Það átti að minnka sóknina og það voru kannski tvö af einkennum þessa kerfis sem þeir sem tala fyrir því og hafa talað fyrir því tóku fram að mundu verða. En hverjar eru nú staðreyndir þessa? Hér væri auðvitað ástæða til, og til þess hefur maður gögn, að halda 8-10 tíma ræðu varðandi sögu þessa máls og hvaða áhrif það hefur haft á hin ýmsu landsvæði í kringum landið, fyrst og fremst þau landsvæði sem byggja númer eitt, tvö og þrjú á sjávarútvegi, og ég hygg að menn ættu að líta til ársins 1989.

Það eru að vísu mörg dæmi á því ári hvernig kvótinn, í því formi sem hann hefur verið framkvæmdur, hefur farið með ýmis sjávarútvegssvæði. Ég nefni t.d. Patreksfjörð. Hvað gerðist þar? Ég vil ekki trúa því að þeir stjórnmálamenn sem gefa sig út fyrir það að hugsa um hag almennings í landinu, þar með væntanlega fiskvinnslufólks, sjómanna á þeim svæðum þar sem það á við, íhugi ekki þessi dæmi sem hafa brunnið á þessu fólki svo vikum og mánuðum skiptir.

Ég hefði kannski átt að taka það strax fram í upphafi að ég er algjörlega andvígur því fr[um]v[arpi] sem hér liggur fyrir [...]

Þetta er eitt stærsta málið sem menn ræða nú um. Ég er þeirrar skoðunar að kvótinn eins og hann hefur verið framkvæmdur [...] ég er ekki að tala gegn því að menn þurfi að hafa stjórn á fiskveiðum, alls ekki, en að afhenda slíkt miðstýringarvald einum aðila, [...] sem gert hefur verið og á að gera áfram, með fr[um]v[arpi] sem hér er gert ráð fyrir, í auknum mæli, það er auðvitað út [í] hött og tekur engu tali að Alþingi afsali sér því valdi sem það á að hafa, ég tala nú ekki um í grundvallaratvinnugrein þessa lands. (sjá hér)

Komið með aflann heim

Halldór Ásgrímsson mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi 15. febrúar 1990. Þremur vikum síðar var það til umræðu í neðri deild þingsins þar sem Karvel Pálmason lýsti yfir þeim þungu áhyggjum sem hann hafði í sambandi við þau áhrif sem sambærilegt fiskveiðistjórnunarkerfi hafði þegar haft á atvinnulíf sjávarplássanna á landsbyggðinni. Þremur mánuðum síðar var það afgreitt úr úr nefnd. Í síðustu umræðunni áður en frumvarpið var lagt til atkvæðagreiðslu  dregur Geir Gunnarsson mörg kunnugleg atriði fram í ræðu sinni þar sem hann bendir á þá ágalla sem höfðu þegar komið fram á kvótakerfinu á þeim sex árum sem það hafði verið til reynslu.

Hömlulausar heimildir til sölu veiðileyfa sem fylgja skipum við eigendaskipti og óheftar tilfærslur veiðiheimilda milli tegunda og stærðarflokka skipa við sölu felur í sér að í því veiðileyfakerfi þar sem veiðiheimildir eru bundnar við fiskiskipin og flytjast með þeim við eigendaskipti er í rauninni innibyggð sú tilhneiging að aflaheimildirnar safnast á æ færri hendur og geta, fræðilega séð a.m.k., endað á einni hendi, hendi þess sem fjárhagslega er sterkastur. Gildir þá einu hvaðan það fjármagn er komið.

[...]

Það fr[um]v[arp] sem lagt var fram í vetur til nýrra laga um stjórnun fiskveiða fól ekki í sér neinar þær breytingar sem verulegu máli skiptu í þá veru að ráða bót á þeim megingöllum kerfisins sem með æ ógnvænlegri hætti gátu stofnað lífsafkomu fólks í sjávarplássunum í voða ef fiskiskip og veiðiheimildir voru seld frá staðnum. Þessi vandi sjávarplássanna hefur verið sífellt augljósari og í æ ríkari mæli brunnið á h[æst]v[irtum] alþ[ingis]m[önnum], hvar í flokki sem þeir hafa staðið. (sjá hér (leturbreytingar eru höfundar))

Það er svo sannarlega af mjög mörgu að taka þegar kemur að umræðum inni á Alþingi um kvótafrumvörpin frá 1983 og 1990. Kvótinn hefur líka verið mjög til umræðu síðan; bæði inni á þingi og víðar. Í fiskveiðistjórnunarlögunum frá 1990 er gert ráð fyrir möguleikanum á að rukka svokallaðan auðlindaskatt eða veiðigjöld. Umræður um þetta atriði hafa ekki síður verið áberandi síðustu misseri og komust í hámæli þegar Steingrímur J. Sigfússon lagði fram frumvarp um innheimtu slíkra gjalda vorið 2012.

Ung fiskverkunarkona

Í því samhengi er ekki úr vegi að minna á það að Steingrímur J. kom nýr inn á þing vorið 1983 og hefur því tekið þátt í umræðunni um kvótann frá upphafi. Hann tjáði sig líka um bæði frumvörpin í þinginu en í því sambandi er e.t.v. rétt að minnast þess að árið 1990 var hann landbúnaðar- og samgönguráðherra í þriðju ríkisstjórninni sem Steingrímur Hermannsson leiddi. Þess má svo geta að Jóhanna Sigurðardóttir var félagsmálaráðherra í þeirri sömu ríkisstjórn (sjá hér). Bæði greiddu kvótafrumvarpi Halldórs Ásgrímssonar atkvæði sitt samkvæmt því sem hefur komið fram í máli þingmanna síðar (sjá hér og hér)

Hér verður ekki farið nánar út í þátt eða afstöðu sjávarútvegsráðherra síðustu ríkisstjórnar á þeim tíma sem kvótinn var innleiddur heldur verður það látið bíða þess hluta þar sem borin verður saman menntun, þekking og reynsla Steingríms J. Sigfússonar og Sigurðar Inga Kristinssonar, sem er núverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, af undirstöðuatvinnuvegunum tveimur. Áður en botninn verður sleginn í þessa umfjöllun um þá, sem hafa verið skipaðir ráðherrar yfir sjávarútvegsmálunum og ákvarðanir þeirra, er þó vel við hæfi að líta yfir afskipti stjórnvalda af kjaramálum þeirra sem starfa í þeirri atvinnugrein sem hefur aflað þjóðarbúinu langmestra tekna rúmlega 100 síðustu árin.

Stjórnvöld til varnar útgerðinni

Í öðrum hluta þessarar umfjöllunar um sjávarútvegsmál var farið yfir helstu ákvarðanir sem voru teknar varðandi sjávarútveginn fram til ársins 1938. Þar bar frekast á björgunaraðgerðum sem snerust ekkert síður um að koma í veg fyrir að offjárfestingar tveggja sjávarútvegsfyrirtækja settu bankastarfsemina í landinu í þrot. Samkvæmt því sem var haldið á lofti í málgögnum Alþýðuflokks og Kommúnistaflokksins var skuldunum sem eigendur Alliance og síðar Kveldúlfs höfðu stofnað til velt yfir á herðar almennings.

Stjórnvöld höfðu líka afskipti af kjaramálum og þá einkum sjómanna. Þar bar hæst Vökulögin sem voru sett árið 1921, í embættistíð Péturs Jónssonar sem atvinnumálaráðherra, og lög um vinnudeilur og stéttarfélög sem voru sett í stjórnartíð þeirrar stjórnar sem kallaði sig Stjórn hinna vinnandi stétta, eða árið 1938. Skv. yfirliti sem birtist í Ægi í janúar árið 1995 var hún fyrst ríkisstjórna til að setja lög á verkfall sjómanna . Þar kemur líka fram að sjómenn fóru 18 sinnum í verkföll á árunum 1916 til 1995. Fjórtán sinnum náðust samningar en fjórum sinnum bundu stjórnvöld endi á kjarabaráttu sjómanna með lagasetningu.

1938 hófst verkfall sjómanna í byrjun janúar og lauk með lagasetningu um miðjan mars. Hermann Jónasson (Framsóknarflokki) var þá forsætisráðherra en Haraldur Guðmundsson (Alþýðuflokki) atvinnumálaráðherra (sjá hér). Hann sagði af sér embættinu í kjölfar þess að gerðadómsfrumvarp Hermanns Jónssonar á verkfall sjómanna var samþykkt á Alþingi.

Ein meginrök Hermanns Jónassonar fyrir því að endir yrði bundinn á verkfallið með lagasetningu voru þau að í reynd hefðu „allir flokkar viðurkennt að samningsrétturinn og samningsfrelsið yrði að víkja í þessu máli fyrir þeirri nauðsyn þjóðfélagsins að togararnir yrðu starfræktir.“ (sjá hér)

Svartur sjór af síld

1969 hófst verkfall sjómanna í ársbyrjun sem stóð í rúman mánuð. Samningaviðræður báru engan árangur. 17. febrúar setti þáverandi ríkisstjórn lög sem bundu enda á verkfallið. Bjarni Benediktsson (Sjálfstæðisflokki) var þá forsætisráðherra en Eggert G. Þorsteinsson (Alþýðuflokki) sjávarútvegsráðherra (sjá hér).

Tveimur árum síðar var skollið á enn eitt verkfallið en þá setti Geir Gunnarson (Alþýðubandalagi) verkfallið árið 1969, 1970 og þess sem þá var yfirstandandi í það samhengi að stjórnvöld hefðu skert kjör sjómanna til að bjarga útgerðinni. Þetta gerði hann í ræðu sem hann flutti á Alþingi 22. febrúar árið 1971. Þar sagði hann m.a: „Kjarasamningar nást ekki með eðlilegum hætti á meðan sjómenn eru undir oki þessara laga [vísar í lög nr. 79/1968]. Þótt lagaákvæðunum, sem hér er um rætt, sé ætlað að verða útgerðinni til styrktar, þá er það mikil skammsýni að ætla, að kjaraskerðingarlög gegn sjómönnum verði útgerðinni til framdráttar, þegar til lengdar lætur.“ (sjá hér)

1979 stóð farmannaverkfall frá 25. apríl fram til 19. júní þegar bundinn var endir á það með setningu bráðabirgðalaga. Þá var Ólafur Jóhannesson (Framsóknarflokki) forsætisráðherra og Kjartan Jóhannsson (Alþýðuflokki) sjávarútvegsráðherra (sjá hér). Samkvæmt fréttum frá þessum tíma var innihald laganna það að vísa „kjaradeilu farmanna [...] til kjaradóms, sem ákveða á laun, kjör og launakerfi áhafna á farskipum.“ (sjá hér)

1994 fóru sjómenn í allsherjarverkfall 1. janúar sem lauk með bráðabirgðalögum ríkisstjórnarinnar 14. sama mánaðar. Á þessum tíma var Davíð Oddsson (Sjálfstæðisflokki) forsætisráðherra og Þorsteinn Pálsson (Sjálfstæðisflokki) sjávarútvegsráðherra (sjá hér).

Í ræðu Steingríms J. Sigfússonar (Alþýðubandalagi) frá 25. janúar 1994 segir hann „það þó alveg ljóst [...] að það voru áhrif laganna um stjórn fiskveiða á kjör sjómanna sem voru erfiðasti þröskuldurinn í deilunni.“ og bætti við: „Ég tel að allur aðdragandi málsins og málsaðstæðurnar bendi til þess að einhver öfl sem hér höfðu mikil áhrif hefðu ætlað sér að láta þetta enda nákvæmlega svona og brjóta andstöðu sjómanna við þetta á bak aftur með lögum ef á þyrfti að halda til þess að geta síðan haldið áfram að reka kerfið óbreytt.“ (sjá hér)

Síðar í ræðu Steingríms J. fer ekkert á milli mála að með framangreindum orðum vísar hann til Landssambands íslenskra útvegsmanna sem samkvæmt hans meiningu stóluðu á að stjórn Davíðs Oddssonar gengi þeirra erinda gegn kjarakröfum sjómanna. Það er ómögulegt að áætla nákvæmlega hvað býr að baki þessari staðhæfingu Steingríms J. en hitt er víst að aldrei hefur verið gripið jafnoft inn í kjaradeilur nokkurrar starfsstéttar með lagasetningum eins og sjómanna á þeim áratug sem var framundan; þ.e. tíunda áratug síðustu aldar. 

Íslenskir togarasjómenn

Síðasta áratug tuttugustu aldarinnar gerðu sjómenn ítrekaðar tilraunir til að ná fram leiðréttingum á kjörum sínum gagnvart útgerðinni en ríkisstjórnin, undir forsæti Davíðs Oddssonar og með Þorstein Pálsson í sjávarútvegsráðuneytinu, gripu jafnharðan inn í með lagasetningum sem bundu enda á boðuð verkföll þeirra (sjá hér).

Sjómenn málaðir út í horn 

Afskiptum stjórnvalda af kjaradeilum og/eða kjörum starfsmanna í sjávarútveginum lauk ekki með því að síðasta öld leið undir lok. Upphaf þessara aldar markaðist af einu stærsta inngripi í innlendar kjaradeilur sem sögur fara af þegar enn ein lögin voru sett á verkföll sjómanna. Stór orsakavaldur harðandi deilna milli útgerðarinnar og sjómanna er sú tilhneiging útvegsmanna að standa straum af nýjum kostnaðarliðum útgerðarinnar með skerðingu á kjörum þeirra sem vinna að fiskveiðum. Kostnaðarliðirnir sem hér er vísað til eru annars vegar þeir sem komu til með kvótakerfinu, sem var fest í sessi í upphafi tíunda áratugarins, en hins vegar veiðigjöldunum sem voru lögbundinn í stjórnartíð síðustu ríkisstjórnar (sjá hér).

2001 fóru helstu samtök sjómanna í verkfall 16. mars en frestuðu aðgerðum til 1. apríl. Útvegsmenn settu lögbann á verkfallið. 16. maí setti Alþingi lög á verkföll og verkbönn og var gerðardómi falið að ákvarða kjör sjómanna. Vinnustöðvunin stóð alls í sjö vikur. Árið 2001 var Davíð Oddsson enn þá forsætisráðherra en Árni M. Mathiesen (Sjálfstæðisflokki) var sjávarútvegsráðherra (sjá hér).

Lagasetningin var rökstudd með því að vinnustöðvunin hefði valdið miklum skaða fyrir atvinnulíf landsmanna, nýtingu auðlinda sjávar og útflutningshagsmuni. Alvarlegustu áhrifin voru fyrir einstaklinga sem störfuðu við fiskvinnslu og fyrirtæki og sveitarfélög sem byggðu atvinnu sína á sjávarútvegi en hefði einnig áhrif langt út fyrir þá hagsmuni sem samningsaðilar fjölluðu um. Skýr merki voru sögð um neikvæð áhrif vinnustöðvunarinnar á efnahagslíf landsins og ef ekki yrði gripið inn í málið myndi hún valda óbætanlegu tjóni fyrir þjóðarbúið í heild. (sjá hér)

Vorið 2012 voru mörg tilefnin fyrir þeirri spennu sem var í í kjaraviðræðum sjómanna og útgerðarmanna. Meginástæðurnar áttu þó rætur í aðgerðum þáverandi ríkisstjórnar sem komu niður á kjörum sjómanna. Hér er vísað til afnáms sjómannaafsláttarins og veiðigjöldin sem útgerðin hugðist mæta með lækkun launa til sjómanna í skjóli hlutleysis Alþingis gagnvart slíkum aðgerðum  (sjá hér).

Vincent Van Gogh

Afnám sjómannaafsláttarins kom fram í frumvarpi sem Steingrímur J. Sigfússon lagði fram undir lok nóvember haustið 2009 (sjá hér) eða á meðan hann gegndi embætti fjármálaráðherra í síðustu ríkisstjórn. Í umsögn með frumvarpinu segir:

„Tilgangurinn með lagabreytingunum er að auka tekjur ríkissjóðs í samræmi við markmið áætlunar um að jöfnuði verði náð í ríkisfjármálum á næstu fjórum árum. Í þessu frumvarpi er verið að leggja til hluta af þeim breytingum á lögum um tekjuöflun ríkissjóðs sem ætlunin er að flytja þannig að ofangreind áform nái fram að ganga á næsta ári.“ (sjá hér)

Þegar kemur að þeim rökum sem var ætlað að réttlæta afnám sjómannaafsláttarins segir m.a. þetta í frumvarpinu:

Rök fyrir sjómannaafslætti á sínum tíma voru m.a. langar fjarvistir frá heimili, slæmar vinnuaðstæður og þörf á sérstökum vinnufatnaði. Öll þessi atriði hafa breyst eða dregið hefur úr gildi þeirra í samanburði við aðra launþega. Stór hluti þeirra sem nú fá afsláttinn stunda vinnu fjarri heimili sínu en hið sama gildir um fjölda starfsstétta án þess að það sé bætt með skattfé. Vinnuaðstæður hafa gjörbreyst frá því sem áður tíðkaðist [...] auk þess sem hlífðarfatnaður er lagður til af vinnuveitanda.

Sjómannaafsláttur hefur á stundum tengst kjaramálum sjómanna og hefur verið til hans litið við ákvörðun á kjörum þeirra. Slík afskipti ríkisins af kjörum einstakra starfsstétta heyra nú sögunni til og er eðlilegt að þau ráðist í samskiptum launþega og vinnuveitenda. Þá er eðlilegt að hver atvinnugrein beri launakostnað af starfseminni þar sem annað veldur misræmi á kostnaði og óhagkvæmni.
Þá er ekki hægt að líta fram hjá því að þær starfsstéttir sem njóta mests af afslættinum eru meðal þeirra best launuðu á sjó og landi. Hluti af þeim störfum sem nú eru unnin á sjó (á frystitogurum o.fl.) voru áður unnin í landi án þess að því fylgdi nokkur skattaívilnun. Sambærileg störf eru einnig unnin í landi og felst því mismunun í sjómannaafslættinum milli fólks eftir vinnustað. (sjá hér)

Frumvarpið um tekjuöflun ríkisins varð að lögum síðustu dagana fyrir jól árið 2009. Þar með var ákvæðið um afnám sjómannaafsláttarins í skrefum sem þýðir að með þessu tekjuári (tekjuárinu 2014) fellur hann niður (sjá hér). Annað sem olli vaxandi spennu í kjaraviðræðum sjómanna og aðila útgerðarinnar vorið 2012 var sú hugmynd útgerðarinnar að lækka laun sjómanna til að mæta nýjum kostnaðarlið útgerðarinnar sem var tilkominn af nýsettum lögum um veiðigjöld (sjá t.d. hér)

Steingrímur J. Sigfússon var nýorðinn sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þegar hann lagði frumvarpið fram en það varð að lögum í júní 2012 (sjá feril málsins hér). Samkvæmt markmiðshluta laganna er veiðigjaldinu ætlað „að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu og til að tryggja þjóðinni í heild hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlinda skapar.“ (sjá hér)

Sjómaður gerir að nýveiddum afla

Ályktanir 28. þings Sjómannasambands Íslands undirstrika hvað lá að baki þeirri spennu sem var í kjaraviðræðum sjómanna og útgerðarinnar vorið 2012. Af þeim fjórtán atriðum sem þingið ályktaði um eru þessi tvö efst á lista:

28. þing Sjómannasambands Íslands ítrekar enn og aftur mótmæli sín varðandi aðför stjórnvalda að sjómönnum með afnámi sjómannaafsláttarins. Það er á ábyrgð stjórnvalda að kjör sjómanna skerðist ekki þó ákvörðun sé tekin um það á hinum pólitíska vettvangi að kostnaður af sjómannaafslættinum sé færður frá ríki til útgerðanna. 28. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að stjórnvöld dragi skerðinguna nú þegar til baka og noti hluta veiðigjaldanna sem innheimt eru af útgerðinni til að fjármagna kostnaðinn.

28. þing Sjómannasambands Íslands vísar á bug kröfu LÍÚ um verulega lækkun launa vegna veiðigjalda og annars rekstrarkostnaðar. Þingið harmar hótanir um verkbann á sjómenn til að knýja á um að þeir taki þátt í sköttum á útgerðina. Veiðigjöldin eru skattur á útgerðina sem stjórnvöld kjósa að leggja á hagnað hennar. (sjá hér)

Heimildir um ráherra og ráðuneyti

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið: Ráðuneyti: Sögulegt yfirlit

Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis

Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn

Krækjur á lög sem varða sjávarútveginn

Lög um veiðigjöld. 2012 nr. 74, 26. júní
Lög um tekjuöflun ríkisins
(afnám sjómannaafsláttarins). 2009 nr. 129, 23. desember
Lög um stjórn fiskveiða
. 1999 nr. 116, 10. ágúst
Lög um stjórn fiskveiða
. 1990 nr. 38, 15. maí
Lög um veiði í fiskveiðilandhelgi Íslands
. 1976 nr. 81, 31. maí
Lög um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins
. 1948 nr. 44, 5. apríl

Sjávarútvegur: Lög og reglugerðir (yfirlit á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins)

Umræður á þingi um sjávarútveginn 

Ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslensku krónunnar  (br. 79/1968)
Veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands (82/1983)
Stjórn fiskveiða (heildarlög) (38/1990)

Einar Olgeirsson. Ræða flutt á sameinuðu þingi. 79. mál: Milliliðagróði. 17. fundur, 75. löggjafarþing. 1955-1956.  

Heimildir af frétta- og netmiðlum

Helgi Bjarnason. Fréttaskýring: Verkföll ítrekað stöðvuð með lögum. mbl.is. 24. maí 2012
Leggjast gegn lækkun launa sjómanna
. mbl.is 9. nóvember 2012
Ályktanir 28. þings Sjómannafélags Íslands 29. - 30. nóvember 2012

Ekki rétt að hóta lögum á verkbann. mbl.is. 5. nóvember 2012
Fimm karlmenn vinna að lausn kvótamála. dv.is. 6. júní 2012

Þórólfur Matthíasson. Yfirfjárbindingarhætta í eignakvótakerfi. 2010.
Sjómannaafsláttur lækkar um áramót
. mbl.is. 28. desember 2010
Óttast afleiðingar minnkandi kvóta
. mbl.12: 17. mars 2010
Þorsteinn Ólafsson. Framfarir í íslensku þjóðlífi á millistríðsárunum. 16. febrúar 2010.

Jón Ólafs. Skuldaskil Thorsaranna. 1. júlí 2006
Helgi Þorláksson. Alliance í Ánanaustum. mbl.is: 13. maí 2006

Flotinn til veiða í kjölfar lagasetningar Alþingis. mbl.is 17. maí 2001
Lög á verkföll sjómanna og verkbönn útgerðarmanna
. Samtök atvinnulífsins. 17. maí 2001.
Sjávarútvegsráðherra segir verið að verja þjóðarheill
. mbl.is. 17. maí 2001
ASÍ hafnar inngripum stjórnvalda í kjaradeilu sjómanna
. mbl.is. 3. maí 2001

Mikil samlegðaráhrif við sameininguna. mbl.is. 3. febrúar 1999 (sjá líka inn á tímarit.is)

14 sinnum samið, 4 sinnum lög. Ægir. janúar 1995

Átökin um fisksöluna: Íslandi fleytt út úr kreppunni eftir Ólaf Hannibalsson. mbl.is: 29. október 1994

Umræður um sjávarútvegsmál á Alþingi. mbl.is. 29. apríl 1993

Stjórnun fiskveiða. Úthlutun veiðiheimilda. Meinbugir á lögunum. 1991

Kvótafyrirkomulagi komið á til reynslu. Morgunblaðið 22. desember, 1983.
Engin stefnumörkun fyrir hendi
. Alþýðublaðið 14. desember 1983.
Skipting aflans leiði ekki til landshluta-togstreitu
Tíminn 29. nóvember, 1983

„Gerðardómsfrv. var samþykkt í fyrrinótt“ .Nýja dagblaðið, 18 mars 1938 

Heimildir sem varða sögu og þróun í sjávarútveginum

Sjávarútvegur.is (tenglasafn fyrir sjávarútveginn o.fl.)

Atvinnuvegir Íslands. 2013. Floti okkar Íslendinga.
Wikipedia. Þorskastríðin. Síðast breytt 21. nóvember 2013.
Wikipedia. Íslenska kvótakerfið.  Síðast breytt 5. maí 2013.
Wikipedia. Saga Íslands. Síðast uppfært 5. maí 2013.
Wikipedia. Sjávarútvegur á Íslandi. Síðast breytt 19. desember 2012

Heimildir úr lokaritgerðum háskólastúdenta

Sigurbjörg K. Ásgeirsdóttir. Atvinnusköpun í dreifbýli. febrúar 2013
Sigrún Elíasdóttir. Marshall-áætlunin og tæknivæðing Íslands. júní 2012  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband