Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Við mótmælum öll á þjóðfundi 1. desember

Ingólfur á ArnarhóliÞað er auðvitað ótrúlegt hvað yfirstandandi þrengingar hafa þjappað mörgum saman og knúið þá til að láta í sér heyra á opinberum vettvangi.

Það er raunar enn ótrúlegra hvernig íslensk stjórnvöld hafa getað leitt þetta allt hjá sér og látið sem þessi óvenjulega samstaða og þrautseigja komi þeim ekkert við. Framkoma þeirra neyðir okkur til að halda áfram.

Þess vegna koma landsmenn saman enn einu sinni, vonandi fleiri en nokkurn tímann fyrr, og láta í sér heyra. Að þessu sinni er boðað til þjóðfundar á Arnarhóli. Margir valinkunnir ræðusnillingar munu kveða sér hljóðs og varpa sínu ljósi á núverandi stöðu í efnahagslífinu og afleiðingar þess á íslenskt samfélag.

Landsmenn eru hvattir til að leggja niður vinnu á morgun og mæta kl 15:00. Miðað við mælendaskrána verður enginn svikinn af því. Það er þess vegna von mín og trú að allir sem vettlingi geta valdið muni hlýða kallinu og láta sjá sig á fundinum.

Borgarahreyfingin sem stendur á bak við þessa uppákomu krefst breytinga á stjórn landsmála og breytinga á stjórnsýslunni. Ástæðan er það gjörningaveður sem fjármálamenn, stjórnvöld og embættismenn hafa kallað yfir þjóðina.

Borgarahreyfingin er regnhlífarsamtök þeirra hópa og einstaklinga sem hafa haft sig í frammi opinberlega undanfarnar vikur. Forsvarsmenn hennar hvetja öll samtök launþega til að vekja athygli félagsmanna sinna á fundinum og að Samtök atvinnulífsins sýni vilja sinn til þjóðarsáttar og hvetji aðildarfélög sín til að gefa starfsfólki leyfi frá störfum.

Sjá nánar um þennan atburð í meðfylgjandi frétt og á síðu Nýrra tíma.

Viðbót: Samkvæmt mbl.is hafa Nýir tímar blásið til trukkamótmælagöngu klukkan 14 á morgun, 1. desember. Gangan hefst frá Hlemmi og verður gengið niður Laugaveg að Arnahóli þar sem Þjóðfundurinn hefst með tilheyrandi dagskrá klukkan 15.


mbl.is Boða þjóðfund á Arnarhóli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fundur um Evrópusambandsaðild

Ákvað að vekja enn frekari athygli á fundi um Evrópusambandsaðild sem verður haldinn á morgun; 30. nóv. Fundurinn verður í Alþýðuhúsinu sem er við Skipagötu 14 á Akureyri. Fundurinn hefst kl. 14:00 en Stefna - félag vinstri manna stendur fyrir honum.

Sigurgeir Hreinsson, fyrirliði eyfiskra bænda og Þorlákur Axel Jónsson, menntaskólakennari munu draga upp rök með og á móti aðild. Þorlákur er ákvafur fylgjandi ESB-aðild þannig að ég geri ráð fyrir því að Sigurgeir sé mjög á móti henni. Að lokum eru almennar umræður.

Þessar upplýsingar eru fengnar af dreifildi sem var dreift á mótmælafundinum á Ráðhústorgi í dag. Aftan á því eru 10 spurningar um sjálfsforræði Íslendinga vegna fundarins. Þær eru fullrar athygli verðar. Ég læt nokkrar þeirra fylgja hér með.

  • Er fullvalda lýðveldi á Íslandi pólitískt gjaldþrota; tilraun sem mistókst?
  • Hefur bankahrunið í haust valdið varanlegri vantrú á íslensku sjálfstæði?
  • Þurfum við forsjá frá Brussel og evrópsum seðlabönkum?
  • Þurfa íslenskir fésýslumenn meira athafnafrelsi en heimavöllurinn býður upp á?
  • Erum við of fá og smá fyrir sjálfstæðan gjaldmiðiðl?
  • Höfum við nægjanlegt fullveldi innan ESB? t.d. yfir auðlindum lands og sjávar?

Mér stendur ekki á sama

Fjórði mótmælafundurinn var haldinn á Akureyri í dag. Safnast var saman við Samkomuhúsið, en það heitir leikhúsið okkar hérna fyrir norðan, og gengið þaðan inn á Ráðhústorg. Ég sjálf var eitthvað sein fyrir þannig að ég sleppti göngunni en mætti á fundinn. Fjöldinn á þessum fundi var svipaður og á þeim fyrsta sem olli mér svolitlum vonbrigðum. Ég verð nefnilega að segja eins og er að ég skil ekki í því af hverju þeir sem eru óánægðir kjósa fremur að sitja heima en slást í hóp okkar mótmælenda og sýna samstöðu.
Mótmæli á Akureyri
Ég veit ekki hvort það er rétt hjá mér en ég hef á tilfinningunni að ríkisstjórnin, stjórnin í Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu treysti því að við höfum ekki úthald til að standa saman og knýja fram réttlæti íslenskum almenningi til handa. Mér stendur ekki á sama ef rétt reynist.

Mér stendur alls ekki á sama ef eigendur bankanna og fyrirtækjanna komast upp með það að íslenskur almenningur verði á vonarvöl næstu áratugina vegna ofurskuldanna sem þeir stofnuðu til í nafni útrásarinnar. Mér stendur engan vegin á sama þegar ofantaldar stjórnir telja það sjálfsagt mál að efnahagur heillar þjóðar sé fórnað fyrir örfáa flokksgæðinga. Mig langar þess vegna til að hrópa svo hátt að heyrist til endimarka veraldarinnar:

Burt með vanhæfa seðlabankastjórn!

Burt með spilltu leynimakksstjórnina í Fjármálaeftirlitinu!

Burt með hrokafulla ríkisstjórn sem er ekki í neinu sambandi við þjóð sína!

Ég vona að einhver heyri í mér og komi okkur til bjargar áður en það verður of seint. Áður en vilji þjóðarinnar tapast í myrkri ársbyrjunarinnar 2009.

Mig langar þó miklu frekar til að biðja þjóð mína að standa saman við það að byggja okkur réttlátari framtíð. Við þurfum að standa saman og sýna að okkur er ekki sama. Þó við séum fá þá veit ég að við verðum aldrei 100% sammála um leiðir en ég trúi ekki að nokkur geti sagt það af einlægni að hann sé sáttur við þann veruleika sem blasir við í íslenskum fjármálaheimi í dag. Ég trúi því ekki heldur að nokkur geti sagt það af hjartans einlægni að ofantaldir hafi meiri rétt en íslenskur almenningur. Ef ég og þú yrðum ber af alvarlegum glöpum í starfi yrði okkur gert að segja upp. Af hverju á eitthvað annað að gilda um ofantalda?

Um næstu helgi verð ég í Reykjavík og þá ætla ég að mæta á Austurvöll. Ég er alls ekki að baki dottin. Ég læt ekki kulda, annir eða úrtölur halda aftur af mér eða telja úr mér réttlætisandann. Ég er með mína forgangsröðun á hreinu. Það er nefnilega ekkert sem skiptir jafnmiklu máli í mínum huga en verja lýðræðið og hindra óréttlætið. Baráttan fyrir þjóðarhagsmunum kemur bara einfaldlega á undan mínum sérhagsmunum.

Ég sé reyndar mínum hagsmunum best borgið í nútíð og framtíð með því að byrja á því að vinna með öðrum að því að vinna gegn óréttlætinu sem ég þarf að líða með þjóð minni.


mbl.is Segir góða stemningu á mótmælafundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarafundur í Deiglunni á Akureyri

Ég var að fá tilkynningu um borgarafund sem verður haldinn í Deiglunni hér á Akureyri fimmtudagskvöldið 27. nóvember n.k. og hefst fundurinn kl. 20:00. Langar til að vekja athygli á honum hér og fleiru sem er framundan.

Frummælandi á borgarfundinum núna á fimmtudeginum verður Hilmar Þór Hilmarsson, dósent við viðskipta- og raunvísindadeild HA. Þegar frummælandinn hefur lokið máli sínu verður opnað fyrir almennar umræður og fyrirspurnir. Fundarstjórn verður í höndum Guðmundar Egils Erlendssonar.

Grasrótarsamtökin Bylting fíflanna stendur fyrir þessum fundi eins og þeim á undan og hvetja þau Akureyringa til að fylla Deigluna, ræða stöðuna og leita lausna. Ég hef frétt að Jón Þorvaldur Heiðarsson hagfræðingur sem talaði á síðasta borgarafundi hafi verið alveg frábær.

Samkvæmt því sem ein sem var á fundinum sagði mér var hann einstaklega skýr og fjallaði um íslenskt fjármálalíf og núverandi stöðu í efnahagsmálunum á mannamáli. Hún sagðist loksins skilja eitthvað í hagfræði eftir að hafa hlustað á málflutning hans. Auk þess sem hún skildi miklu betur hvers lags áhættufjármálaóráðsía leiddi þjóðina í það þrot sem hún stendur frammi fyrir núna.

HúniII Bylting fíflanna hefur opnað kaffihús um borð í Húna II sem liggur við bryggju nánast í hjarta bæjarins. Það er öllum velkomið að líta við og þiggja kaffi og kannski kleinur með.

Það er ýmislegt um að vera hér á Akureyri á næstunni sem má rekja beint eða óbeint til núverandi ástands í samfélaginu. Mig langar að nota tækifærið og benda á nokkra slíka viðburði sem eru á dagskránni á næstunni.

Fjórða gangan til lýðræðis verður gengin n.k. laugardag eða 29. nóvember. Mæting er við Samkomuhúsið kl. 15:00 en þaðan verður gengið inn á Ráðhústorg.

Stefna – félag vinstri manna stendur fyrir fundi um ESB/EES í Alþýðuhúsinu á sunnudaginn kemur. Þetta kemur fram í athugasemd sem Þórarinn Hjartarson gerði við færsluna mína „Termítarnir sem eru að eyðileggja landið“.

Ég hef ekki séð þetta auglýst annars staðar en vek athygli á þessu hér vegna þess að ef innganga í Evrópubandalagið verður gert að aðalkosningabaráttumáli næstu kosninga er eins gott að fara að setja sig almennilega inn í um hvað er að ræða.

Eitt meginhagsmunamál samtakanna, Bylting fíflanna, er að virkja lýðræðið en umræður um það verður efni þarnæsta borgarafundar sem hefur verið boðaður fimmtudaginn 4. desember.

Að lokum má geta þess að núna á fimmtudaginn verður haldið málþing á Akureyri sem ber yfirskriftina "Æskan á óvissutímum". Það er KFUM og KFUK ásamt Ungmennafélagi Íslands og Bandalagi íslenskra skáta í samstarfi við Menntamálaráðuneytið, Æskulýðsráð og Akureyrarbæ sem standa að málþinginu. Málþingið er haldið í Rósenborg og hefst kl. 13:00. (Sjá nánar hér)

Tilkynningalestri er lokið. Hafið góðar stundirSmile

Es: Langar að bæta við að: Þriðju skjaldborgarmótmælin fara fram á morgun. Eftir borgarafundinn í gær er enn meiri þörf til þess að halda áfram að þrýsta á stjórnvöld. Stöndum vörð um Alþingi, vörð um lýðræðið. Látum stjórnvöld finna fyrir því að okkur sé ekki sama. Krefjumst ábyrgðar og kosninga!

Mætum öll á morgun kl. 12 fyrir fram Alþingishúsið (tekið af síðunni Nýir tímar)


Bæn spillta græðgisvæðingarsinnans

Ég heyrði brot úr laginu sem ég læt fylgja þessari færslu í fyrsta skipti þegar ég sá bíómyndina Flugdrekahlauparinn (Kite Runner). Það var eitthvað við flutning þess og samhengið sem það var sett í sem greip mig strax. Ég fór svo inn á YouTube og hafði upp á myndbandi með flutningi alls lagsins þar. Söngvari þess heitir Sami Yusuf. Textinn sem hann syngur er islömsk bæn; fyrst flutt á arabísku svo á ensku.

Það sem greip mig strax var þetta í enska textanum: „My sinds are like highest mountain“. Mér sýnist að þeir sem komu þjóðinni í þann vanda sem við stöndum frammi fyrir núna þurfi virkilega að horfa í eigin barm og viðurkenna sekt sína og syndir. Mér sýnist þær vera fjallháar. Þeim væri þess vegna sannarlega hollt að iðrast og biðjast fyrirgefningar. 

Þar sem bænin sem um ræðir hér er bæn Múhameðstrúarmannsins þá leyfði ég mér að gera lauslega þýðingu á henni. Þýðingin er þó aðalega frjálsleg á lokum hennar þar sem ég tók mér svolítið skáldaleyfi. Þrátt fyrir að það kenni einhverrar tvíræðrar kaldhæðni af minni hálfu þar þá tek ég það fram að lagið, flutningur þess og umgjörð eru ákaflega falleg.

Ó, guð minn!

Syndir mínar eru á stærð við hæstu fjöll.
Góðverk mín eru mjög fá.
Þau eru á stærð við lítinn piparávöxt.

Ég sný mér til þín.
Hjarta mitt er fullt af skömm og augun full af tárum.
Ég bið þig um að veita mér fyrirgefningu og miskunn.

Ó, guð minn!
Sendu þjáningarsystkinum mínum blessun þína og frið.


Ósannfærandi leiðangursstjóri óstarfhæfs björgunarliðs

Hrokinn í þessum manni er svo yfirgengilegur að mig setur ýmist hljóða þegar hann lýkur upp á sér trantinum eða það hellist yfir mig slík sjóðbullandi reiði að hún dregur úr mér allan mátt. Hvernig er hægt að vera svo veruleikafirrtur að telja það trúverðugt að hann, Geir H. Haarde, sé upptekinn af því að leiða ríkisstjórnina í björgunarleiðangri, þjóðinni til bjargar, þegar ekkert hefur þokast í þá átt síðastliðna tvo mánuði. Í raun er það eina sem hefur gerst á þessum tíma það sem svartsýnustu menn óttuðust...

Þjóðin er að drukkna í skítnum á meðan græðgisafæturnar hirða það upp úr haugnum sem þeim líst best á. Það er nákvæmlega ekkert sem þjóðin hefur fengið frá skipstjóra sjóræningjaskipsins og áhöfninni hans nema fáránleika og fölsk loforð pakkað inn í lítilsvirðandi dramb og yfirlætisfullan hroka.

Þvílíkur hroki og yfirlæti er ekki í þessum orðum Geirs í tilefni vantrausttillögunnar sem var borin upp á þinginu í dag: [Hann] „sagði, að mörgum kunni að virðast sem stjórnmál séu hálfgerður málfundur. [leturbreytingar mínar] En nú séu ekki þannig tímar. Þeir þingmenn, sem kosnir voru á síðasta ári hafi gefið þjóðinni þá skuldbindingu, að sinna þeim störfum, sem þurfi að vinna og það muni ríkisstjórnin gera.“

Hvað hefur hann gert annað sjálfur síðastliðnar vikur en vera á „málfundum“ út um allan bæ með bræðrum sínum í glæpnum sem settu landið á hausinn og þjóðina alla á vonarvöl? Einu svör hans og Ingibjargar Sólrúnar við gagnrýni eru endurtekningar og aftur endurtekningar. Útþvældar tuggur. Sennilega æfðar fyrir framan spegil. Geir dregur enn einu sinni upp tugguna um þær mikilvægu björgunaraðgerðir sem hann er svo upptekinn af að hann má ekki vera af því að standa í einhverju kjaftæði um vantraustsyfirlýsingar stjórnarandstöðunnar ...Mig skortir orð til að lýsa vandlætingu minni og öðrum tilfinningum sömu ættarCrying

Þeir hjá visir.is eru þegar búnir að ákveða það fyrir okkur að vantrauststillagan verði felld. Trúi því ekki fyrr en á reynir. En minni enn og aftur á kjosa.is ef allt annað bregst þá verðum við að fylla þennan lista. Þeim fjölgar reyndar stöðugt sem skrifa undir og eru núna komnir upp í 5271. Má til að skjóta hérna inn einum gullmola af athugasemdalistanum þar:

Þegar heilt bankakerfi hrynur eins og það gerði á Íslandi er ekki hægt að treysta þeim ráðamönnum sem voru blindaðir af útrásargræðgi og eru nú fullir af HROKA, haldandi í stólana sína eins og þeir eigi þá. Ef þeir vilja stólana, gefum þeim stólana og kaupum nýja. Auðvelt mál.

Ég hef aldrei séð svona litla virðingu frá ráðherrum gagnvart sínum þegnum í vestrænu ríki. Eftir að Ísland er orðið gjaldþrota þá hefur ENGINN, ég endurtek, ENGINN af fólkinu sem stóð vaktina haft nógu mikla virðingu gagnvart mér og þér til að segja af sér. Ef við látum eftir þessu blinda fólki mun Ísland verða brotið lýðveldi þar sem "einræðis herrarnir" munu fela sig fyrir aftan "sérsveit" lögreglunar. Hafa þeir allir gleymt því "who is the boss"?

Enda þetta á birtingarmynd lýðræðisins á Íslandi í dag. Ég rændi þessari mynd af blogginu hennar Jakobínu Ingunni Ólafsdóttur.

Banamein lýðræðisins


mbl.is Önnum kafin við björgunarstörf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er ekki sama Jón eða séra Jón!

 Fréttinni sem ég tengi þessari færslu lýkur þannig: „Ragnar sagði að það hvarflaði að sér að tilgangurinn með handtökunni hafi í raun verið að senda mótmælendunum skilaboð.  Slíkt sé tíðkað í ýmsum löndum, sem Íslendingar vilji síst kenna sig við, að götur og stræti séu hreinsaðar fyrir vissar athafnir.“ Mér rennur kalt vant milli skinns og hörunds. Er þetta þá ekki bara ímyndun mín?

Inni á Vísindavefnum er eftirfarandi skilgreiningu á fasisma að finna:

Þannig boða fasistar öfgafulla þjóðernishyggju og lofsama rétt ríkisins til þess að stjórna nánast öllum þáttum mannlegs samfélags. Ríkisvaldið hefur í þeirra augum algjört vald yfir þegnunum en takmarkast hvorki af lögum né mannréttindum. Þeir líta á þjóðríkið sem eina órofa heild sem hverjum einstaklingi beri að beygja sig undir og þjóna. Mannréttindi eru fyrir borð borin, sé það talið til hagsbóta fyrir ríkisheildina. Fasistar höfða til einingar þjóðarinnar sem þeir vilja sameina gegn meintum óvinum ríkisins. Með öðrum orðum verður ríkið sjálft æðsta takmark mannlegs samfélags. (Hrafnkell Tjörvi Stefánsson 2003)

Hljómar þetta ekki óhugnanlega kunnuglega? Langar einhvern í alvöru að kveðja lýðræðið og innleiða fasismann? Sjá ekki allir hverjir það eru sem hafa verið að færa lýðræðið æ meir í átt til ofangreindra stjórnarhátta? Finnst virkilega einhverjum skrýtið þó almenningur rísi upp lýðræðinu til varnar og krefjist þess að þeir sem hafa leynt og ljóst unnið að því að innleiða fasismann víki? Minni enn og aftur á undirskriftarlistann kjosa.is 5139 eru búnir að skrifa undir hann núna.

Frelsið leiðir fólkið

Sjálfsvirðingu minni sem Íslendings hefur verið ógnað að undanförnu. Hún hefur orðið fyrir miklum hnekki og það ekki að ástæðulausu. Mér finnst það hins vegar engin lítilsvirðing við mitt þjóðarstolt þó ungur maður sýni hug sinn til þeirra vinnubragða sem eru viðhöfð á Alþingi okkar Íslendinga á táknrænan hátt. Ég get nefnilega tekið undir það með honum að þar er eitthvað mikið að.

Þeim sem þar starfa hefur hins vegar eflaust þótt það lítilsvirðing við sína persónu að störfum þeirra væri þannig líkt við það að renna vörum fyrir skynjarann á búðarkassa eða að það væri gefið í skyn að þeir störfuðu í þágu auðmanna landsins. Hins vegar spyr ég mig hvort það réttlæti að lög séu brotinn á gerandanum í því máli? Er sjálfsviðing þingmanna sem sagt meira virði en heillar þjóðar?

Það er nefnilega mjög lítilsvirðandi fyrir mig sem Íslending að auðmenn hafi fengið að „gambla“ með þjóðarhaginn í skjóli ríkisstjórnarinnar. Í mínum augum er það mun alvarlegri glæpur en sá að ungur maður flaggi Bónusfána á vinnustað hennar til að koma skoðun sinni á vinnubrögðunum sem þar eru viðhöfð á framfæri.

Vinnubrögðin sem ríkisstjórnin hefur orðið ber af er árás á sjálfsvirðingu mína. Andlegri heilbrigði minni er ógnað. Mér líður eins og ég sé fórnarlamb óvinveittra afla sem lætur sig engu skipta hvort og hvernig ég og mínir komast af. Mér finnst handtaka þessa unga manns vera eins og yfirlýsing um það að ég eigi engan rétt sem einstaklingur því þeim réttindum verði að fórna svo græðgin geti blómstrað áfram í gróðurmold spillingarinnar.

Mér er gjörsamlega nóg boðið! Ég get ekki annað en mótmælt þessu óréttlæti...

Í raun á ég ekki annarra kosta völ!


mbl.is Engin lagaheimild fyrir handtöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svörin eru enginn svör en svara þó spurningunni um hæfni þeirra sem bjóða þjóð sinni upp á þau

Ég stal þessu frá Agli Helgasyni. Stóðst ekki mátið því þetta er eitthvað sem allir ættu að sjá. Mér sýnist þetta a.m.k. birta ákveðinn kjarna málsins.

abyrgdarmennirnir.png


Termítarnir sem eru að eyðileggja landið

thorarinn.jpgVæntingarnar sem ég gerði til áhrifanna af því að fara á útifund hér á Akureyri í dag brugðust mér ekki! Þvílíkar ræður og þvílíkir ræðumenn. Þvílíkur samhugur og þvílíkur kraftur!

Því miður hafði eitthvað klikkað með að auglýsa þennan fund almennilega. Þau á N4, sem er svæðisbundið sjóvarp sem er rekið hér á Akureyri, minntu þó reglulega á gönguna og fundinn í framhaldi hennar alla síðastliðna viku. Hins vegar fann ég ekkert um þennan fund á neinum af norðlensku netmiðlunum.

Það er sennilegt að skýringarinnar á því hve fáir þátttakendur voru í dag sé ekki síst að finna í því að aðgerðirnar voru ekki nægilega ve kynntarl. Það er synd því ræðumenn dagsins voru hreint út sagt frábærir!

Fyrstur tók til máls Edward Hákon Huijbens en hann er forstöðumaður Rannsóknamiðstöðar ferðamála við HA. Ræða hans var ótrúlega kraftmikil enda uppskar hann ákaft lófaklapp aftur og aftur á meðan á ræðu hans stóð. Hann talaði m.a. um blekkingarleikinn í aðdraganda efnahagshrunsins þar sem bankar og fyrirtæki tóku lán á lán ofan til að búa til þann sýndarveruleika sem þau sóttust eftir. Þau vildu sýna sterka stöðu sína á markaði og fundu til þess aðferð sm sligaði að lokum efnahagslíf landsins og hverjum er látið eftir að hreinsa upp eftir þá?

Edward endaði ræðu sína á að hvar honum þætti gáfulegast að byrja hreingerningarstarfið. Hann skoraði á sunnanmennina sem hafa safnast saman á Austurvelli sl. laugardaga að ganga inn í alþinginshúsið og bera ráðherrastólana út úr húsinu. Hann mælti með því að ef ráðherrarnir sætu í stólunum þegar til ætti að taka þá væru þeir bornir út með stólnum sínum. Edward endaði svo mál sitt með því að bjóða fram krafta norðanmanna í þetta þarfaverk.

Næstur steig á stokk Björn Þorláksson fréttamaður. Ræða hans var líka kraftmikil og flott. Hann minnti m.a. á stjórnmálamennina sem héldu um stjórvölinn fyrir u.þ.b. 20-30 árum. Hann benti á að þeir hefðu ekki verið hafnir yfir mistök þó þau hefðu ekki verið neitt í líkingu við geræðisafglöpin sem núverandi stjórnmálamenn hafa orðið berir af. Gömlu stjórnmálamennirnir hefðu þá sýnt þann heiðarleika að viðurkenndu sín oft og tíðum klaufalegu mistök og hefðu þess vegna uppskorið traust.

Í dag er hins vegar komin upp ný kynslóð stjórnmálamanna sem gerir aldrei mistök eins og dæmin sanna. Það þekkist a.m.k. ekki lengur að þeir sjái sig knúna til að viðurkenna þau nema einn framsóknarmaður sem hefur þurft að horfast í augu við það að hann kann ekki að skrolla á tölvumúsinni við vinnutölvuna sína. Það er þess vegna í okkar verkhring að virkja lýðræðið og koma þessu hrokafulla spillingarliði frá. Í lok ræðu sinnar fékk hann viðstadda til að hrópa þrefallt: Niður með spillinguna! Vá! hvað það veitti manni mikinn kraft að kreppa hnefann í átt til himins og þenja lungun í þessu ákalli.

Þriðji einstaklingurinn sem steig á stokk var Þorvaldur Örn Davíðsson nemandi í Menntaskólanum á Akureyri. Hann steig sérstaklega á stokk til að þakka Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra fyrir að eyða milljónum ef ekki milljörðum í að hanna nýtt (man ekki hvort hann sagði stórgallað en ég ætla þá að bæta því við) fræðslufrumvarp sem nær utan um öll skólastigin í landinu og fá það samþykkt. Á sama tíma stuðlar menntamálaráðherra svo að því að ungt fólk á Íslandi hefur enga möguleika á því að byggja upp lífvænlega framtíð hér heima. Heyr, heyr!!!

farvelisland.jpgJónína Hjaltadóttir forstöðumaður Lautarinnar talaði síðust. Hennar ræða var líka alveg frábær. Hún líkti stjórnvöldum, seðalbankastórninni, stjórn fjármálaeftirlitsins og stjórnenda bankanna í landinu við termíta sem væru búnir að éta sundur stoðir efnahagslífsins valda þannig því alvarlega hruni sem þjóðin stendur nú frammi fyrir. Hún benti líka á að það liti út fyrir að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins litu svo á að þegar þeim hlotnaðist valdið í þriðja skiptið við síðustu kosningar þá hefðu þeir unnið það til eignar. Hún óskaði þess að termítarnir ætu upp vald þeirra áður en þeim yrði útrýmt.

Í lok fundarins kom ég þeirri hugmynd á framfæri við fundarstjórann, George Hollander, og þá ræðumenn sem ég náði til að þessum frábæru ræðum væri safnað saman og birtar. Þeirri hugmynd var vel tekið. Hins vegar hafði þeim dottið í hug  að taka ræðurnar upp en ekki hefur enn tekist að hafa upp á neinum sem er með alla tæknina og búnaðinn í kringum upptöku og vefbirtingu á sínu valdi.

Að lokum þakka ég frábæran fund og þó sérstaklega ræðumönnunum sem voru hreint út sagt magnaðir! Ég tek það fram að ég er ekki með ræður þeirra fyrir framan mig heldur vitna ég í ræður þeirra eftir minni.

Ég minni svo á að borgarfundur verður haldin í húsnæði gamla Barnaskólans, sem nú heitir Rósenborg, n.k. mánudagskvöld og hefst hann kl. 20:00. Boðað hefur verið til fjórðu göngunnar hér á Akureyri n.k. laugardag. Sami tími og sama gönguleið.


mbl.is Kröftug mótmæli á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tekur Ísland við sem helsta glæpanýlenda heimsins?

Ég var að rekast á fréttina sem hér fer á eftir inni á visi.is Fréttin er um það að yfirmaður fjármálaeftirlitsins þar í landi hafi „sagt af sér eftir að upp komst um píramídasvindl sem hefur kostað fjölmarga Kólumbíumenn mörg hundruð milljónir bandaríkjadala.“ Forseti landsins, Alvaro Uribe, hefur líka „beðið þjóðina afsökunar á að hafa ekki gripið inn í málið fyrr.“

Einhvern tímann stóð ég í þeirri meiningu að Kólumbía væri þekkt fyrir spillingu þar sem þætti sjálfsagt að komast upp með auðgunarbrot af ýmsu tagi án þess að nokkur þyrfti að sæta ábyrgð. Eftir lestur eftirfarandi fréttar, sem ég ákvað að birta að mestu leyti alla, vaknar óhjákvæmilega sú spurning hvort Ísland sé næsta Kólumbía í heiminumCrying

Yfirmaður fjármálaeftirlits Kólumbíu segir af sér

alvaro_uribe.jpg[...] Til óeirða hefur komið í Bogota, höfuðborg Kólumbíu, síðustu daga vegna málsins.

Lögregla lokaði skrifstofum pýramída- fyrirtæksins fyrr í vikunni vegna ásakana um að svik væru í tafli og að um peningaþvætti væri að ræða fyrir eiturlyfjabaróna og FARC skæruliða. Um tvö hundruð þúsund manns í Kólumbíu og nágrannalöndum sitja eftir með sárt ennið og hafa tapað um tvö hundruð milljónum bandaríkjadala.

Yfirmaður kólumbíska fjármálaeftirlitsins sagði af sér vegna málsins og Alvaro Uribe, forseti, baðst afsökunar á að hafa ekki brugðist við fyrr þó tapið þarna væri langt frá því jafn mikið og milljarða dala tapið vegna íslenska bankahrunsins. Uribe segir að þeir sem hafi tapað fái bætur. [leturbreytingar mínar]

Stofnandinn, David Murcia, var handtekinn í Panama og framseldur til Kólumbíu í gær. Hann segist saklaus.

Það kemur reyndar fram í lok fréttarinnar að óeirðinar í höfuðborg landsins stafi af því að almenningur þar í landi telji að ráðamenn hafi logið sökum upp á Murcia og gangi eitthvað annað til en vernda hagsmuni þjóðarinnar.  Ég er að sjálfsögðu ekki í aðstöðu til að dæma neitt um það.

Það sem vekur hins vegar athygli mína er að Jónasinn þeirra í Kólumbíu er látinn fjúka og Ólafurinn þeirra talar til þjóðarinnar. Staða hans er sennilega einhvað önnur en sýndarforsetans okkar þar sem forseti Kólumbíu getur gefið loforð eins og það sem ég feitletraði inni í fréttinni. Það sem vekur mér svo mestrar forvitni er það hvort loforð Uribe fái einhverjar efndir. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband