Færsluflokkur: Heimspeki

Að skrifa sig frá úrtöluröddunum

Það er dapurlegt að sjá hvað marga skortir trú á framtíðina. Jafnvel þeir sem höfðu enga trú á því sem var að gerast í fortíðinni neita að trúa að nokkuð betra geti tekið við. Þessi vantrú veldur mér ákveðnu hugarangri. Þessar eilífu úrtöluraddir sem tala allt niður í svartasta myrkur eru líka ákaflega pirrandi þegar til lengdar lætur.

Vegna þeirra neikvæðu áhrifa sem þessar raddir hafa á mig ákvað ég að gera svolítið óvenjulegt í kvöld. Ég byrjaði á því að velja fortíðinni, nútíðinni og framtíðinni það tarotspil sem mér finnst hæfa hverri best. Spil sem lýsti því sem mér finnst standa upp úr í sambandi við það sem ég sé í hverri fyrir sig.
Fortíð - nútíð - framtíðSvo ákvað ég að draga fram tvær bækur sem ég hef nýverið lesið. Þetta eru: The Secret eða Leyndarmálið og Draumalandið eftir Andra Snæ Magnason. Undirtitillinn á bókinni hans vakti sérstaka athygli mína þegar ég dró hana fram aftur. Hann er Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð. Þegar ég rak augun í þennan undirtitil, sem hafði ekki vakið neina athygli hjá mér áður, spurði ég mig eðlilega hvort Andri Snær væri kannski að vísa til þessara radda með þessum titli!

Ég dró þessa bók fram vegna þess að mig langaði til að finna orð sem myndu orka til að auka á bjartsýnina sem við þurfum öll mikið á að halda. Ekki síst ef við þurfum að berjast við stóran hóp sem þorir ekki að sleppa takinu af því sem það þekkir.

Ég byrjaði aftan frá í bókinni hans Andra og rakst strax á þetta: Frelsi manna til að fá hugmyndir og hugsa nýja hluti er forsenda framfara og breytinga á öllum sviðum og þess vegna ríkir málfrelsi og skoðanafrelsi.“ (2006:258) Mér finnst þetta liggja í augum uppi og þess vegna trúi ég því að hinn mikli hugmyndahafsjór sem er að verða til núna í sambandi við það að umbylta kerfinu og stjórnsýslunni verði þjóðinni og framtíð okkar til góðs.
DraumalandiðÚrtöluraddirnar sem hljóma úr öllum áttum orka eins og sálfræðihernaður sem gerir út á óöryggi fólks (sbr. Andri Snær Magnason 2006:207) í því markmiði að viðhalda gömlum og úreltum gildum og aðferðafræði. Ég átta mig hins vegar ekki á því hvort þetta er meðvituð viðleitni til að sporna gegn nauðsynlegum og æskilegum breytingum.

Hin bókin sem ég dró fram er Leyndarmálið sem kom út árið 2007. Bókin fjallar um hugsanir og mátt þeirra. Þar er t.d. þessi speki höfð eftir Prentice Mulford: „Ef þú sérð aðeins erfiðleika í framtíðinni ertu að biðja um ógæfu og það verður örugglega veruleiki þinn“ og þessi eftir Martin Luther King: „Fyrsta þrepið er að trúa. Þú þarft ekki að sjá allan stigann. Taktu eitt þrep til að byrja með.“

Leyndarmálið
Ég veit að fleiri trúa með mér og vona að trú fleiri og fleiri eigi eftir að kvikna. Við verðum nefnilega að trúa á bjartari framtíð ef sá árangur sem við höfum þegar náð á ekki allur að renna út í sandinn. Ég stóð ekki í rúmlega þriggja mánaða mótmælum til að fá allt það sama yfir mig aftur í svolítið breyttum umbúðum!

Ég vil ekki þurfa að upplifa sömu þöggunina og óánægjuna og ég hef upplifað undanfarin ár. Ég vil nýja hugmyndafræði sem byggir á allt örðum gildum en siðspilltri öfgagræðgi. Ég vil sjá samfélag sem byggir á göfugustu þáttum mennskunnar; réttlæti, samhjálp og sanngirni. Ég vil að það verði tryggt að það sem hefur verið að gerast á bak við tjöldin á undanförnum árum geti aldrei gerst aftur!

Það verður að tryggja það að lög nái yfir þjófnað hvort sem hann er í gegnum vogunarsjóði eða vogaðan innbrotsþjóf. Það verður að tryggja það að auður og völd hefji einstaklinga ekki yfir það að fara eftir þeim lögum sem öllum almenningi ber að fara eftir. Síðast en ekki síst þá eigum við aldrei að þurfa að eyða ómældum tíma og orku í að fara fram á þá sjálfsögðu kröfu að vanhæfir stjórnendur og stjórnmálamenn segi af sér. Ég vil að möguleikunum á slíkum einræðistilburðum verði útrýmt!

Ég ætla sem sagt ekki að láta úrtöluraddirnar stela þeirri fallegu trú, sem ég el í brjósti varðandi framtíðina, frá mér. Það er reyndar lítil hætta á því að þeim takist það því þá hefðu þær líka komið í veg fyrir það að ég mætti á mótmælafundi síðastliðar viku, skipulegði borgarafundi og það að ég opinberaði skoðanir mínar á þennan hátt sem ég geri nú.

Þess vegna mun bölmæðisseggjunum ekki takast að drepa draum minn! Ég minni Alda hreinsunarinnarmig á það hverju við höfum áorkað nú þegar. Það er auðvitað mikið starf eftir óunnið en ég veit að við hættum ekki fyrr en okkur tekst að fullklára verkið sem hófst í formi lítillar öldu um miðjan október á síðasta ári. Þessi alda hefur stækkað jafnt og þétt og á eftir að verða enn stærri. Svo stór að hún mun hreinsa út svo um munar! Hún mun ryðja hindrunum úr vegi svo hægt verði að byggja upp nýja og betri framtíð.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband