Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Af borgarafundi á Akureyri um niðurskurð í heilbrigðisþjónustunni

Fundurinn var haldinn sl. miðvikudagskvöld (28. jan.) í Ketilhúsinu og byrjaði kl. 20:00 en var ekki lokið fyrr en langt gengin ellefu. Fundarstjóri var sá sami og síðast en í tilefni umræðuefnisins var Edward klæddur skyrtu og jakka og m.a.s. með bindi.  Frummælendur á þessum fundi um niðurskurðinn í heilbrigðisþjónustunni voru fimm.

Þeir voru forstjóri sjúkarhúsins, deildarforseti heilbrigðisdeildar Háskólans á Akureyri, meðlimur í aðstandandafélgi fyrrum íbúa á seli, forstöðumaður dagdeildar geðdeildarinnar hér á Akureyri og nemandi við Verkmenntaskólans á Akureyri. Það voru tvær ræður sem vöktu sérstaka athygli og er tenging í báðar hér í lok þessa pistils.

Halldór Jónsson, forstjóri Sjúkrahússins, flutti ekki aðeins framsögu heldur var hann líka í pallborði ásamt Þorvaldi Ingvarssyni, framkvæmdarstjóra lækninga, og Örnu Rún Óskarsdóttur, yfirlæknis öldrunarlækningasviðs Sjúkrahússins.

Tveir þingmenn kjördæmisins voru líka í pallborði en það voru þau: Þuríður Bachman og Kristján Þór Júlíusson.  Hann er líka forseti bæjarstjórnar á Akureyri. Sigrún Stefánsdóttir, sem er formaður félagsmálaráðs Akureyrarbæjar, og Kristín Sigursveinsdóttur, deildarstjóri búsetudeildar, voru líka í pallborði ásamt Þóri V. Þórissyni, yfirlæknis Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri, Þráni Lárussyni, bæjarfulltrúa Fljótsdalshéraðs, og Emmu Agnetu Björgvinsdóttur, sem er móðir barns með þroskahamlanir.

Hólmfríður Haraldsdóttir, einn frummælandinn, vildi láta titla sig sem húsmóður og nema. Við Sigurbjörg Árnadóttir gómuðum hana eiginlega á mótmælafundinum á Ráðhústorgi sl. laugardag. Ég held að enginn sýti það.
Borgarafundur á Akureyri 28.01.09
Þvílíkur skörungur sem býr í þessari fíngerðu konu! Henni lá greinilega mikið niðri fyrir og kom víða við í ræðu sinni. Hún kom þess vegna ekki aðeins að niðurskurðinum í heilbrigðisþjónustunni heldur líka orsökum, afleiðingum og lausnum!

Eðli málsins samkvæmt gerði hún lokunina á Seli og tímabundna lokun dagdeildar geðdeildarinnar að sérstöku umtalsefni í ræððu sinni. Þar velti hún fyrir sér ýmsum þáttum eins og þeim hvernig væri vegið að öldruðum og öðrum sem væru síður líklegir til að bera hönd yfir höfuð sér í þessum niðurskurði. En hún kom að fleiri þáttum þessa máls:

Þá velti ég því líka fyrir mér, sem margoft hefur heyrst í þessari umræðu, að það eigi hugsanlega að færa í einkarekstur þá þætti í heilbrigðisþjónustunni sem eitthvað gefa af sér í aðra hönd. Líklega má þá ríkið halda áfram að reka það sem engu skilar í arð, eða hvað?  Er þetta það sem við viljum?

Þá benti Hólmfríður á að sú sameining í þjónustu heilbrigðisstofnana á Austurlandi og í Þingeyjarsýslu, sem þegar hafa komið til framkvæmda, hefðu alls ekki skilað þeim sparnaði sem þeim var ætlað heldur þvert á móti! Þráinn Lárusson, bæjarfulltrúi Fljótsdalshéraðs, gerði athugasemd við þessa fullyrðingu Hólmfríðar og sagði það alls ekki rétt að kostnaður hefði aukist við sameiningu heilbrigðisstofnana á Austurlandi. Hólmfríður víkur að þessari athugasemd Þráins í sérstakri viðbót sem hún gerði við ræðu sína. (Eins og ég vék að áður þá hangir ræða hennar við þessa færslu.)

Ræða Hólmfríðar Haraldsdóttur hlaut verðskuldaðar undirtektir enda vék hún að mörgu því sem er efst í huga margra hvað varðar nýliðna atburði á vettvangi efnahagsmálanna og afleiðingar þeirra. Fundarstjórinn, sem var farinn að hafa áhyggjur af tímanum, ákvað að biðja hana að stytta mál sitt. Hólmfríður varð við því og stiklaði þess vegna aðeins á stóru í sambandi við hugmyndir sínar um sparnaðar- og fjármögnunarleiðir á sviði heilbrigðismála undir lok ræðu sinnar.

Annar frummælandi á þessum fundi, Kristján Jósteinsson, forstöðumaður dagdeildar geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri, vakti ekki síður athygli fyrir innihald ræðu sinnar og skörungsskap í málflutningi. Þegar hann hafði lokið máli sínu ætlaði lófatakinu aldrei að linna og þó nokkrir risu upp úr sætum sínum til að votta honum virðingu sína og þakklæti!
WHO
Kristján vakti athygli á mörgu því sem hinn almenni borgari er alls ekki meðvitaður um í sambandi við geðheilbrigði og þjónustu við þá sem glíma við geðsjúkdóma. Hann benti m.a. á að samkvæmt tölum og spám Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO) þá sé sjúkdómabyrðin af völdum geðsjúkdóma hvað mest í heiminum og fer vaxandi.

Hann vakti líka athygli á því að heilbrigðisráðherrar aðildarríkja Evrópudeildar Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar hefðu skrifað undir aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum árið 2005 þar sem segir m.a: „ að brýnustu verkefni næstu ára verði að móta, innleiða og meta stefnu og löggjöf sem leiðir til aðgerða i geðheilbrigðismálum, draga úr geðrænum vandamálum og leggja áherslu á að fólk með geðraskanir sé virkir þáttakendur í samfélaginu.“

Auk þess minnti hann á að: „
Í heilbrigðisáætlun stjórnvalda 2001 – 2010 sem samþykkt var á Alþingi 20. maí 2001, eru tvö aðalmarkmið sem snúa að bættu geðheilbrigði. Annars vegar að dregið verði úr tíðni sjálfsvíga um 25% og hins vegar að dregið verði úr tíðni geðraskana um 10%. Þetta skuli m.a. gert með því að aðgangur að geðheilbrigðisþjónustu verði auðveldaður og meðferðarúrræðum fjölgað.“

Kristján minnti á að aukaverkanir efnahagshruns, eins og þess sem Íslendingar Borgarafundur á Akureyri 28.01.09hafa nú orðið, fyrir er versnandi geðheilsa. Máli sínu til áréttingar benti hann á þann veruleika sem Finnar hafa staðið frammi fyrir, og eru enn að bíta úr nálinni með, rúmum áratug eftir alvarlegt efnahagshrun þar í land. Í þessu samhengi er [...] mikilvægt að undir- strika [...] að engin þjóð á Vesturlöndum hefur orðið fyrir jafn alvarlegu áfalli og Íslendingar á síðari tímum.“ 

Þannig hélt Kristján áfram að draga fram ýmsar ályktanir og staðreyndir síðustu ára og mánaða sem undirstrika mótsögnina sem kemur fram í lokun dagdeildar, sem er undir geðdeild Sjúkrahússins hér á Akureyri, í sparnaðarskyni. Því til áréttingar vitnaði hann m.a. í orð landlæknis sem „beindi tilmælum til heilbrigðisráðherra [...] um að frumheilsugæslu og geðsviðum spítalanna skyldi hlíft er til niðurskurðar kæmi í heilbrigðiskerfinu.“

Um svipað leyti tilkynnti framkvæmdarstjóri lækninga á fundi stjórnar Sjúkrahússins hér „að sökum
efnahagsþrenginganna verði mikilvægt að efla dag- og göngudeildarþjónustu á sem flestum sviðum [...]. Nokkrum vikum síðar eða 29. desember sl. ákvað framkvæmdastjórn FSA fyrirvaralaust að loka dagdeild geðsviðs sjúkrahússins.

Heildarkostnaður við rekstur deildarinnar á árinu 2007 var um 26.9 milljónir, þar af launakostnaður um 19.7 milljónir. Eins og ég gat um í upphafi, var því borið við þegar ákvörðunin um lokun deildarinnar var tekinn að ætlunin væri að spara 17.5 milljónir. Til þess að setja þessar tölur í samhengi við annan kostnað innan Sjúkrahússins þá má geta þess að undir liðnum stjórnun og ýmiss þjónusta á árinu 2007, var kostnaður tæpar 730 milljónir króna, þar af launakostnaður rúmlega 420  milljónir. Allar þessar tölur má sjá í glæsilegri ársskýrslu sjúkrahússins frá árinu 2007.


Eins og ég gat um hér á undan var ræða Kristjáns ekki aðeins kraftmikil heldur afar upplýsandi. Ég hefði helst viljað birta alla ræðu hans en einhvers staðar verð ég að láta staðar numið. Ég hvet alla sem hafa hug á að setja sig inn í þessi mál að lesa hana alla. (Eins og ég hef vikið að áður þá er hún hengd við þennan pistil).

Áður en ég segi fyllilega skilið við ræðu Kristjáns Jósteinssonar, bráðum fyrrverandi forstöðumanns dagdeildar geðdeildar SA, verð ég að vekja athygli á einu til viðbótar sem kom fram í ræðu hans:

Geðhjálp hefur valið Akureyri sem fyrirmyndarsveitarfélag í geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi og af því tilefni verður haldin stór norræn ráðstefna á vegum Geðhjálpar og Norrænu ráðherranefndarinnar á Akureyri, í maí næsta vor. Þessi ákvörðun, að útnefna Akureyri sem fyrirmyndarsveitarfélag, var tekin áður en Geðhjálp frétti af lokun dagdeildarinnar og er nánast kaldhæðnisleg séð í því ljósi að helsta vaxtarbroddi geðheilbrigðisþjónustunnar, fyrir utan höfuðborgarsvæðið, er fyrirvaralaust lokað þegar skollin er á mesta kreppa í sögu þjóðarinnar frá Móðuharðindinum!

Eftir að framsögumenn höfðu lokið máli sínu fengu þeir sem sátu í pallborðinu tækifæri til að koma því að hvernig umræddur niðurskurður horfði við þeim. Þar vakti athugasemd Kristínar Sigursveinsdóttur, deildarstjóra búsetudeildarinnar, sennilega einna mesta athygli. Hún benti á að um leið og Sjúkrahúsið á Akureyri lokar deildum, eins og þeim sem hér um ræðir, kemur það harkalega niður á skjólstæðingum búsetudeildarinnar.

Sigrún Stefánsdóttir, formaður félagsmálaráðs, tók í sama streng og bætti því við að í þessu tilfelli þá flyttist sá kostnaður sem Sjúkrahúsið ætlaði sér að spara með aðgerðum að því tagi sem þeir hafa þegar gripið til yfir á bæjarfélagið. „Vandamálin hverfa ekki. Þau flytjast bara á milli.“ Þau koma ekki aðeins niður á rekstri búsetudeildarinnar heldur ekki síður fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar.

Arna Rún Óskarsdóttir, yfirlæknir öldrunarlækningadeildar Sjúkrahússins á Akureyri, vakti athygli á því að endurhæfing aldraðra á Kristnesi skerðist á kostnað nýtilkominna hjúkrunarrýma. Ég ætla að skjóta því hér inn að á Kristnesi rekur Sjúkrahúsið á Akureyri bæði endurhæfingar- og öldrunarlækningadeild.

Öldrunarlækningadeildin miðar að útskrift allra sinna skjólstæðinga. Í sumum tilfellum hefur það verið í hjúkrunarrými sem eru ekki til staðar á Kristnesi. Það stendur heldur ekki til að bjóða upp á slík rými í framtíðinni enda hefur öll starfsemin þar legið niðri í einn mánuð yfir sumarið. Eðlilega vakna upp spurningar varðandi aukinn rekstrarkostnað Kristnesspítala vegna þess að tæplega verður af slíkri lokun hans á næstunni...

Eitt af því sem kom upp vegna ábendingar Emmu Agnetu Björgvinsdóttur, sem er móðir barns með þroskahamlanir, er að hér í bæ vantar tilfinnanlega þroskateymi. Eins og er þurfa foreldrar sem eiga börn með einhver þroskafrávik að ferðast til Reykjavíkur til að fá greiningu. Það net stuðningsaðila sem þessi börn þurfa á að halda er líka götótt. Nokkrir þeirra sem voru í pallborði vöktu athygli á þessu og lýstu yfir áhyggjum sínum vegna þessa.

Borgarafundur á Akureyri 28.01.09Þá var komið að fyrirspurnum úr sal. Það sem vakti mesta athygli af því sem þar kom fram kom frá tveimur starfandi læknum hér á Akureyri. Pétur Pétursson, heilsugæslulæknir, benti á að það væri afar hæpið að nokkur sparnaðu náist í gegn með þeim aðgerðum sem hefur verið gripið til af hálfu Sjúkrahússins hér. Hann tók undir þá skoðun sem áður hafi komið fram að hún fælist líka fyrst og fremst í því að velta kostanði yfir á aðra.

Hins vegar vildi hann vekja athygli á þróunina sem hefur orðið í lyfjaframleiðslunni hér á landi á undanfarandi árum. Hann vill meina hún hafi verið rekin mjög í anda nýfrjálshyggjunnar. Þannig benti hann á að gömul og ódýrari lyf hafa horfið af markaðinum en miklu dýrari lyf frá stórum lyfjaframleiðendum komið í þeirra stað. Ef raunverulegur sparnaður ætti að nást í heilbrigðiskerfinu væri nær að horfa til þessara staðreynda og gera eitthvað í þeim.

Páll Tryggvason, barna- og unglingageðlæknir, lagði líka orð í belg. Hann sagði sögu sem hann sagði að endurspeglaði vel þann fáránleika sem liggur í sparnaðarhugmyndunum, sem liggur tímabundinni lokun dagdeildarinnar, til grundvallar. Það er kannski rétt að taka það fram að lokun títtnefndar dagdeildar er ekki endanleg heldur á að opna hana aftur í nýuppgerðu húsnæði næsta haust. Sel sem áður hýsti aldraða á að gera upp og hýsa alla þjónustu geðdeildarinnar í framtíðinni.

Páll sagði að þessi áform minntu sig á sögu sem hann hefði nýverið heyrt um áfrom um nýbyggingu fangelsis í einhverju ótilgreindu fylki í Bandaríkunum. Gamla fangelsisbyggingin þjónaði ekki lengur kröfum sem gerðar eru til slíkst húsnæðis. Auk þess sem staðsetning hennar væri ekki nógu góð að mati fangelsisyfirvalda á staðnum. Þess vegna þarf að byggja nýtt. Á meðan nýja fangelsið er í byggingu verða fangarnir geymdir í því gamla. En til að ná niður byggingarkostnaðinum og spara á að nota efnið úr gamla fangelsinu í nýbygginguna. Eitthvað hefur staðið á því að byggingarframkvæmdir hafi getað hafist og er nú búið að skipa nefnd til að komast að því hvað tefur... 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Baráttunni hvergi nærri lokið!

Ég veit ekki hvað ég tala fyrir hönd margra mótmælenda þegar ég fullyrði að mótmælin snerust ekki um það eingöngu að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum. Sú niðurstaða að búið er að slíta stjórnarsamstarfi hans og Samfylkingarinnar er því langt frá því ásættanleg niðurstaða að mínu mati.

Ef fráfarandi stjórn hefði tekið öðru vísi á málum í haust og a.m.k. viðurkennt mistök sín, vikið stjórn Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins frá og sagt fjármála- og viðskiptaráðherra upp þá hefði ég verið tilbúin til að gefa henni séns. Ráðherrar hennar gerðu það ekki og þess vegna varð það aðkallandi byrjun að koma stjórninni frá en það var aðeins byrjun! Það var nauðsynlegt til að hægt væri að fara að vinna að þeim mikilvægu breytingum sem þarf að koma á í sambandi við allt það sem lýtur að því hvernig stjórnsýslan hefur komið sér og sínum sérhagsmunamálum fyrir.

Það að engin var kallaður til ábyrgðar, þögnin, aðgerðar- og úrræðaleysið var það sem ýtti mér út í mótmælin til að byrja með. Mér hafði lengi blöskrað ýmislegt við stjórn landsins, skipanir í embætti og öll græðgisvæðingin sem er svo fullkomlega blinduð af tölum að hagur fólksins sem stendur að baki þeim gleymist. Það keyrði um þverbak þegar meðferð mála í tengslum við hrun bankanna lá fyrir sl. haust!
Kjaftæðið er enn til staðar!Ég get ekki sætt mig við að mótmælin og kröfurnar sem hafa komið fram í þeim lognist bara út af vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur dregið sig út úr stjórnarsamstarfinu. Hvað með hugmyndafræðina sem var mótmælt? Hefur hún breyst? Hvað með siðspillinguna? Hefur hún horfið? Hvað um ábyrgðarleysi? Er búið að uppræta það? Hvað um krosstengsl og yfirhylmingu? Liggur eitthvað fyrir hvað það varðar?

Svona mætti lengi telja en svörin við öllum þeim spurningum, sem mér detta í hug varðandi það sem ég taldi svo marga vera að mótmæla með mér, eru á einn veg: Það hefur í raun ekkert breyst! Það er allt við það sama! Við höfum engar tryggingar fyrir því að neitt muni breytast. Og má ég minna á að Davíð Oddson er enn í Seðlabankanum!

Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim árangri sem hafa náðst í gegnum mótmælin en verð að benda á að ef það var eina markmiðið að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum þá sitjum við líka uppi með enn meiri skuldir. Allir fyrrverandi ráðherrar sem tilheyra þeim flokki eru nefnilega komnir á BIÐLAUN! Hvaða sanngirni er í því að þeir sem reyndust óhæfir í starfi þiggi biðlaun?? Ef mér væri vísað úr starfi fyrir alvarlegt brot í mínu starfi fengi ég í mesta lagi þriggja mánaða laun en ráðherrar fá tólf mánaða biðlaun!

Og voru það bara ráðherrar Sjálfstæðisflokks sem gerðu sig seka um vanhæfni í starfi? Ekki samkvæmt mínum mælikvarða! Ráðherrar Samfylkingarinnar féllu nefnilega líka í þá gryfju að standast ekki hæfnisprófið sem fyrir þá var lagt!

En nú eru þeir að skipta ráðuneytunum á milli sín og þingmanna Vinstri grænna. Það má vel vera að margir treysti flokksmönnum Vinstri grænna betur en mörgum öðrum sem nú sitja inni á þingi. Ég get að einhverju leyti skilið það sjónarmið en ég skil hins vegar ekki að einhverjir séu tilbúnir til að treysta þingmönnum Samfylkingarinnar miðað við það sem á undan er gegnið!

Má ég minna á það að þessir sömu þingmenn og ráðherrar hundsuðu kröfur mótmælenda í allt haust og völtuðu yfir hag almennings í stað þess að sækja þá sem bera stærsta ábyrgð á íslenska efnahagshruninu til saka! Má ég minna á það að þeir vörðu ríkisstjórnina falli í nærri fjóra mánuði!
Ráðherrar Samfylkingarinnar í ÞingvallastjórninniMá ég líka minna á það að einn þeirra sagði að þeir sem höfðu uppi gagnrýni væru ekki þjóðin! Annar flissaði nærri því út í eitt. Þriðji mætti ekki á einn einasta borgarafund sem honum var boðið á. Fjórði vissi lengst af ekki í hvorn fótinn hann ætti að stíga og tveir urðu eiginlega ósýnilegir! 

Af framansögðu ætti öllum að vera ljóst að mér þykir það mjög áríðandi að við sem erum ekki sátt látum í okkur heyra áfram! Það ætti líka að vera ljóst hvers vegna ég álít að baráttunni sé hvergi nærri lokið!

Ég fanga því þess vegna að það standi til að koma saman á Austurvelli á morgun. Átta mig reyndar ekki á yfirskriftinni „sigurhátíð“ en það er e.t.v. annað mál. Ég veit ekki hvort það stendur til að koma saman víðar á landinu en því miður er allt útlit fyrir að ekkert verði af hefðbundinni laugardagssamkomu hér á Akureyri. 

Viðbót: Þeir í Mývatnssveit ætla a.m.k. að koma saman á morgun. Sjá hér.


mbl.is Boða sigurhátíð á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að skrifa sig frá úrtöluröddunum

Það er dapurlegt að sjá hvað marga skortir trú á framtíðina. Jafnvel þeir sem höfðu enga trú á því sem var að gerast í fortíðinni neita að trúa að nokkuð betra geti tekið við. Þessi vantrú veldur mér ákveðnu hugarangri. Þessar eilífu úrtöluraddir sem tala allt niður í svartasta myrkur eru líka ákaflega pirrandi þegar til lengdar lætur.

Vegna þeirra neikvæðu áhrifa sem þessar raddir hafa á mig ákvað ég að gera svolítið óvenjulegt í kvöld. Ég byrjaði á því að velja fortíðinni, nútíðinni og framtíðinni það tarotspil sem mér finnst hæfa hverri best. Spil sem lýsti því sem mér finnst standa upp úr í sambandi við það sem ég sé í hverri fyrir sig.
Fortíð - nútíð - framtíðSvo ákvað ég að draga fram tvær bækur sem ég hef nýverið lesið. Þetta eru: The Secret eða Leyndarmálið og Draumalandið eftir Andra Snæ Magnason. Undirtitillinn á bókinni hans vakti sérstaka athygli mína þegar ég dró hana fram aftur. Hann er Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð. Þegar ég rak augun í þennan undirtitil, sem hafði ekki vakið neina athygli hjá mér áður, spurði ég mig eðlilega hvort Andri Snær væri kannski að vísa til þessara radda með þessum titli!

Ég dró þessa bók fram vegna þess að mig langaði til að finna orð sem myndu orka til að auka á bjartsýnina sem við þurfum öll mikið á að halda. Ekki síst ef við þurfum að berjast við stóran hóp sem þorir ekki að sleppa takinu af því sem það þekkir.

Ég byrjaði aftan frá í bókinni hans Andra og rakst strax á þetta: Frelsi manna til að fá hugmyndir og hugsa nýja hluti er forsenda framfara og breytinga á öllum sviðum og þess vegna ríkir málfrelsi og skoðanafrelsi.“ (2006:258) Mér finnst þetta liggja í augum uppi og þess vegna trúi ég því að hinn mikli hugmyndahafsjór sem er að verða til núna í sambandi við það að umbylta kerfinu og stjórnsýslunni verði þjóðinni og framtíð okkar til góðs.
DraumalandiðÚrtöluraddirnar sem hljóma úr öllum áttum orka eins og sálfræðihernaður sem gerir út á óöryggi fólks (sbr. Andri Snær Magnason 2006:207) í því markmiði að viðhalda gömlum og úreltum gildum og aðferðafræði. Ég átta mig hins vegar ekki á því hvort þetta er meðvituð viðleitni til að sporna gegn nauðsynlegum og æskilegum breytingum.

Hin bókin sem ég dró fram er Leyndarmálið sem kom út árið 2007. Bókin fjallar um hugsanir og mátt þeirra. Þar er t.d. þessi speki höfð eftir Prentice Mulford: „Ef þú sérð aðeins erfiðleika í framtíðinni ertu að biðja um ógæfu og það verður örugglega veruleiki þinn“ og þessi eftir Martin Luther King: „Fyrsta þrepið er að trúa. Þú þarft ekki að sjá allan stigann. Taktu eitt þrep til að byrja með.“

Leyndarmálið
Ég veit að fleiri trúa með mér og vona að trú fleiri og fleiri eigi eftir að kvikna. Við verðum nefnilega að trúa á bjartari framtíð ef sá árangur sem við höfum þegar náð á ekki allur að renna út í sandinn. Ég stóð ekki í rúmlega þriggja mánaða mótmælum til að fá allt það sama yfir mig aftur í svolítið breyttum umbúðum!

Ég vil ekki þurfa að upplifa sömu þöggunina og óánægjuna og ég hef upplifað undanfarin ár. Ég vil nýja hugmyndafræði sem byggir á allt örðum gildum en siðspilltri öfgagræðgi. Ég vil sjá samfélag sem byggir á göfugustu þáttum mennskunnar; réttlæti, samhjálp og sanngirni. Ég vil að það verði tryggt að það sem hefur verið að gerast á bak við tjöldin á undanförnum árum geti aldrei gerst aftur!

Það verður að tryggja það að lög nái yfir þjófnað hvort sem hann er í gegnum vogunarsjóði eða vogaðan innbrotsþjóf. Það verður að tryggja það að auður og völd hefji einstaklinga ekki yfir það að fara eftir þeim lögum sem öllum almenningi ber að fara eftir. Síðast en ekki síst þá eigum við aldrei að þurfa að eyða ómældum tíma og orku í að fara fram á þá sjálfsögðu kröfu að vanhæfir stjórnendur og stjórnmálamenn segi af sér. Ég vil að möguleikunum á slíkum einræðistilburðum verði útrýmt!

Ég ætla sem sagt ekki að láta úrtöluraddirnar stela þeirri fallegu trú, sem ég el í brjósti varðandi framtíðina, frá mér. Það er reyndar lítil hætta á því að þeim takist það því þá hefðu þær líka komið í veg fyrir það að ég mætti á mótmælafundi síðastliðar viku, skipulegði borgarafundi og það að ég opinberaði skoðanir mínar á þennan hátt sem ég geri nú.

Þess vegna mun bölmæðisseggjunum ekki takast að drepa draum minn! Ég minni Alda hreinsunarinnarmig á það hverju við höfum áorkað nú þegar. Það er auðvitað mikið starf eftir óunnið en ég veit að við hættum ekki fyrr en okkur tekst að fullklára verkið sem hófst í formi lítillar öldu um miðjan október á síðasta ári. Þessi alda hefur stækkað jafnt og þétt og á eftir að verða enn stærri. Svo stór að hún mun hreinsa út svo um munar! Hún mun ryðja hindrunum úr vegi svo hægt verði að byggja upp nýja og betri framtíð.


Við höldum áfram með borgarafundina á Akureyri

Niðurskurður í heilbrigðismálum

Borgarafundur í Ketilhúsinu miðvikudaginn 28. jan. kl 20:00

Frummælendur:
Halldór Jónsson, forstjóri Fjórðungssjúrkahússins á Akureyri
Katrín Benjamínsdóttir aðstandandafélagi fyrrum íbúa á Seli
Hólmfríður Haraldsdóttir, nemi og húsmóðir
Árún K. Sigurðardóttir, deildarforseti Heilbrigðisdeildar HA
Kristján Jósteinsson,
forstöðumaður dagdeildar geðdeildar

Í pallborði:
Sigrún Stefánsdóttir formaður félagsmálaráðs Akureyrarbæjar
Arna Rún Óskardóttir yfirlæknir öldrunarlækingadeildar FSA
Þórir V. Þórisson yfirlæknir á HAK
Kristján Þór Júlíusson, þingmaður, varaformaður fjárlaganefndar og forseti bæjarstjórnar á Akureyri
Emma Agneta Björgvinsdóttir, móðir langveiks barns
Þuríður Backmann
,  þingmaður og fulltrúi í heilbrigðismálanefnd Alþingis

Aðrir sem fengið hafa fengið sérstakt fundarboð eru heilbrigðisráðherra og þingmenn kjördæmisins.

Þeir sem hingað til hafa boðað komu sína eru:
Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins

Fundarstjóri: Edward Huijbens

Næsti borgarafundur á Akureyri er fyrirhugaður sunnudaginn 8. feb. n.k. í samvinnu við undirbúningsnefnd borgarafundanna í Reykjavík. Yfirskrift fundarins er: Landráð af „gáleysi“


Búsáhalda- og dráttarvélamótmæli á Akureyri!

Mótmælin á Akureyri voru svo sannarlega ekki þögul í dag. Ég er reyndar sannfærð um að það voru gott fleiri en 300 sem fylltu mótmælakórinn en ég er búin að fá nóg af þessari talnaspeki fjölmiðlanna og ætla því ekki að tala meira um þátttökufjölda í þessari færslu.
Mótmæli á Akureyri 24.01.09Myndirnar sem ég tók í dag mistókust af einhverjum ástæðum allar þannig að ég fékk leyfi hjá Huga Hlynssyni til að nota myndir frá honum í staðinn. Myndirnar hans Skapta Hallgrímssonar, sem fylgja fréttinni á mbl.is um mótmælin hérna fyrir norðan, eru líka mjög upplýsandi.

Það má geta þess að Arinbjörn Kúld dreifði appelsínum borðum til stuðnings yfirlýsingu mótmælanda í Reykjavík um friðsöm mótmæli. Mótmælin hér fyrir norðan hafa reyndar aldrei fengið á sig neinn stimpil um ófrið. Enda hefur lögreglan á Akureyri verið einstaklega liðleg og hjálpleg í sambandi við mótmælin hér eins og ég hef vikið að áður.

Það voru ekki bara dráttavélarnar sem ljáðu mótmælum dagsins rödd sína heldur búsáhöldin líka. Gangan fór frá Samkomuhúsinu inn á Ráðhústorg á hægagangi dráttarvélanna undir taktfastri tónlist búsáhaldanna. Það var líka greinilegt að gangan vakti miklu meiri athygli nú en undanfarna laugardaga. Kannski þorir einhver þeirra sem stóðu álengdar og horfðu bara á að taka þátt næst.

Á meðan á mótmælafundinum stóð gátu mótmælendur gætt sér á grilluðum pulsum í boði dráttarvélaeigendanna sem eru bændur víðs vegar af Eyjafjarðarsvæðinu. Tveir framsögumenn voru á fundinum í dag og kem ég nánar að ræðum þeirra hér á eftir. Í lok ræðuhaldanna flutti Þórarinn Hjartarson frumort kreppuljóð.
Wolfgang Frosti SahrAð framsögunum loknum var ljóst að það voru ekki allir tilbúnir til að storma beinustu leið heim til sín. Það var því þó nokkur fjöldi sem dvaldist á Torginu og ræddu málin sín á milli, slógu taktinn á búsáhöld og Wolfgang Frosti Sahr fullkomnaði svo stemminguna í kjölfar mótmælafundarins með harmonikuleik sínum.

Enn aftur að framsögumönnum dagsins. Ég hef lýst því yfir áður hvað ég er ánægð með framsögumennina okkar sem blása okkur ekki aðeins eldmóði í brjóst heldur upplýsa okkur gjarnan um mikilvæg atriði. Ég var sérstaklega ánægð með framsögumennina í dag hvað þetta varðar. Bendi á að ræður þeirra beggja eru tengdar þessari færslu með góðfúslegu leyfi frá þeim.

Bændur settu svo sannarlega sinn svip á laugardagsmótmælin að þessu sinni með því að leiða gönguna á dráttarvélunum. Í lok göngunnar lögðu þeir svo dráttarvélunum hringinn í kringum Ráðhústorgið. Einn úr þeirra röðum var meðal frummælendanna. Mér finnst það mikið fagnaðarefni að rödd bændastéttarinnar sé komin inn í þessi mótmæli. Það er svo sannarlega tímabært að þeirra rödd fái að heyrast.
Guðbergur Egill EyjólfssonGuðbergur Egill Eyjólfsson, sem er bóndi og nemandi við Háskólann á Akureyri, upplýsti áheyrendur um þann veruleika sem bændur búa við í dag. Við vissum að bændur hafa átt undir högg að sækja á liðnum árum og margir hafa óttast að íslensk stjórnvöld stefni hreinlega að því að þurrka bændastéttina út. Það er aldrei að vita nema að sú fyrirætlun þeirra takist í skugga kreppunnar verði ekkert að gert. 

Guðbergur benti á að margir bændur væru orðnir svo aðþrengdir að þeir myndu ekki hafa efni á að kaupa áburð á túnin sín næsta vor. Ríkisstjórnin lætur sér fátt um neyð bændastéttarinnar finnast og sýna það svo sannarlega í verki því enn einu sinni hefur hið umdeilda matvælafrumvarp verið lagt fram á Alþingi. Í því samhengi sagði Guðbergur:

Þess má einnig geta hér að bæjarstjórn Akureyrar, sem samanstendur af Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni, bæjarstjórn þessa mikla matvinnslubæjar skilaði ekki inn umsögn um frumvarpið og hefur ekki mótmælt því á nokkurn hátt. Þrátt fyrir að lögleiðing þess gæti haft afdrifarík áhrif á atvinnulífið á Akureyri.

 

Þegar bændur standa svo höllum fæti sem og samfélagið allt þá er matvælafrumvarpið eina framlag ríkisstjórnarinnar til málanna. Þeir hafa jú mælst til þess við bankanna að veita frest á afborgunum af lánum bænda en það er bara frestur, engin lausn. Ábyrgðarleysi ríkisstjórnarinnar er því algert. Bágur efnahagur bænda er ekkert nýtt fyrirbæri. Framkoma ríkisvaldsins hefur verið með þeim hætti í garð sauðfjárbænda að nýliðun er nánast engin í greininni og meðalaldur sauðfjárbænda er kominn í 58 ár. Nútíma Íslendingar sætta sig ekki við þau kjör sem sauðfjárbændum er boðið upp á. Mér er spurn er það virkilega ætlun ríkisvaldsins að ganga af þessari atvinnugrein dauðri?


Í framhaldinu lagði Guðbergur áherslu á firringuna sem kemur ekki síst fram í því að í vaxandi atvinnuleysi skuli ríkisstjórnin vinna að því að stefna atvinnuöryggi allra, sem koma að landbúnaðarframleiðslu í landinu, í stórkostlega hættu með fyrrgreindu matmælafrumvarpi. Hann minnti á að í dag framleiða Íslendingar ekki nema u.þ.b. helming þeirra matvæla sem við neytum. Miðað við aðstæður væri því miklu nær að auka hlutfall þessarar framleiðslu og skapa fleirum atvinnu í leiðinni en auka innflutning á búvöruafurðum. Guðbergur tók grænmetisframleiðsluna sem dæmi:

Við framleiðum um 40% af því grænmeti sem við neytum. Við þá framleiðslu starfa um 900 manns fyrir utan þau fjölmörgu afleiddu störf sem greinin skapar. Ef við ákveddum að tvöfalda þá framleiðslu gætum við búið til ámóta mörg störf til viðbótar. Þarna er til dæmis tækifæri fyrir Húsvíkinga að reisa sér vistvæna stóriðju. 

Ég ætti ekki að þurfa að taka það fram en málflutningur Guðbergs fékk að sjálfsögðu afar góðar undirtektir!Embla Eir OddsdóttirNæst á mælendaskrá var Embla Eir Oddsdóttir sem er líka nemandi við Háskólann á Akureyri. Ræða hennar var ekki síður hugvekjandi en Guðbergs. Hún minnti á að þó mótmælendur mættu vissulega fagna ákveðnum áfangasigrum þá væri baráttan langt í frá unnin. Meðal þeirra mikilvægu krafna sem hún minnti okkur á að engin viðbrögð hefðu fengist við eru eftirfarandi:

Stjórnin sem vildi ekki fara, er ekki farin.... krafan hefur verið sú að ríkistjórnin víki.....hefur sú krafa eitthvað breyst í ljósi atburða síðustu daga?.... Enn stendur eftir að draga þá til ábyrgðar sem það eiga skilið og greiða úr þeim litlu og stóru hnútum sem eru á þessu pólitíska peningaflækta neti sem hefur verið riðið hér. Enn á eftir að finna smugur til að leita réttlætis fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem hafa jafnvel misst allt sitt. [...] Enn þarf að standa vörð um grunnstoðir samfélagsins og þar þarf landsbyggðin ekki síst að þjappa sér saman ef hún vill ekki standa eftir skugginn af sjálfri sér eftir örfá ár.

Mótmæli virkaAð lokum langar mig til að segja frá því að það hefur vakið athygli mína að akureyskir fjölmiðlar hafa veitt mótmælunum hér sáralitla athygli. Ég hef velt því töluvert fyrir mér hvers vegna þeir fjalla nánast ekkert um mótmælin í sinni heimabyggð. Þetta eru einstakir tímar og þeir geta svo sannarlega lagt sitt á vogarskálarnar og tekið þátt í að skrásetja atburðarrásina hér á Akureyri a.m.k.
 
Vikudagur gerði reyndar undantekningu í dag og birti þessa frétt. Þar segir líka frá Mývetningum sem halda áfram að vera fjölmennir (miðað við höfðatölu) og frumlegir í mótmælum sínum. Þeir eru líka greinilega með  öflugan fjölmiðlafulltrúa. Á Smugunni er svo mótmælum dagsins vítt og breitt um landið gerð góð skil.

 


mbl.is Sextán dráttarvélar á torginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Líkamleg veikindi firra engan ábyrgð gjörða sinna...

Geir H. HaardeÉg man eftir Geir H. Haarde í kosningarbaráttunni. M.a.s. ég varð að viðurkenna það að hann hafði einhvern persónulegan sjarma sem hafði reyndar farið fullkomlega framhjá mér fram að því. Það hefur hins vegar lítið farið fyrir honum á undanförnu ári. Kannski ekki nema von í ljósi þess sem við vitum núna. Við vitum það orðið öll að forsætisráðherrann er veikur og það alvarlega veikur.

Það eru alltof margir sem þekkja til einhverra sem hafa greinst með krabbamein. Þeir vita það þá líka að aðdragandi þess að meinið greinist er gjarnan langur og strangur. En stundum líður tillölulega skammur tími frá því að sjúklingur kennir þreytu og fleiri einkenna, sem eru samfara svo alvarlegum sjúkdómi, þar til greining hefur fengist. Ég vona að svo hafi verið í tilfelli Geirs.

Ég finn virkilega til með Geir H. Haarde og óska honum, fjölskyldu hans og vinum þess að hann nái skjótum og öruggum bata. Veikindi Geirs og samúð mín með honum þeirra vegna breyta hins vegar ekki því að mér hugnast ekki verk hans sem stjórnmálamanns að undanförnu. Ég er heldur ekki sátt við þá pólitísku refskák að veikindi hans séu sett fram sem forsendur breytinga sem kröfur hafa verið um frá því í haust.

Ég hef verið á þeirri skoðun frá bankahruninu að þeir sem fara með æðstu embættin hvað varðar fjármálaeftirlitið í landinu ættu að segja af sér. Gerðu þeir það ekki ætti að vísa þeim tafarlaust frá. Hefði Geir H. Haarde gengið fram af einurð til þeirra verka hefði ég getað sætt mig við áframhaldandi setu hans í forsætisráðherrastóli.

Traustið til allra fulltrúa ríkisstjórnarinnar hefur farið þverrandi dag frá degi. Engin sætir ábyrgð og engar upplýsingar um veigamiklil atriði varðandi hrun bankanna hafa komið frá núverandi ráðherrum. Miðað við máttlitlar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að mæta efnahagsvanda þjóðarinnar og miðað við hvar er skorið niður og hverju viðhaldið hefur skilyrðislaus krafa mín um afsögn ríkisstjórnarinnar orðið háværari með hverjum deginum. 

Ingibjörg Sólrún GísladóttirÞó ég finni sannarlega til með veikindum forystumanna beggja stjórnmálaflokkanna í núverandi ríkisstjórn þá breytir það því ekki að ég geri kröfu um að þau sýni skynsemi og ábyrgð þegar kemur að embættisstörfum þeirra. Mér finnst það grafalvarlegt mál að þeim og öðrum innan ríksisstjórnarinnar skuli finnast það í lagi að bjóða íslensku þjóðinni upp á það að tveir mjög alvarlega veikir einstaklingar leiði stjórnarsamstarfið á þeim grafalvarlegu tímum sem við lifum á.

Hvorki Geir H. Haarde eða Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafa sýnt skynsemi eða ábyrgð og dregið sig í hlé vegna veikinda sinna. Með því hafa þau ekki aðeins ógnað sinni eigin heilsu og líðan fjölskyldna sinna heldur velferð heillar þjóðar. Þau hafa talið sig best til þess fallin að bjarga þjóðinni þrátt fyrir skerta starfsgetu sem eru óhjákvæmilegar afleiðingar veikinda þeirra.

Það að þau hafi ekki áttað sig á því sjálf að þeim beri að draga sig í hlé við þessar aðstæður sýnir það svart á hvítu að við verðum að lagfæra ýmislegt í stjórnsýslunni. Eitt af þeim brýnu verkefnum sem eru fyrirliggjandi í því efni er að það verður að vera einhver sem grípur inn í þegar ráðherrar og/eða aðrir háttsettir opinberir embættismenn telja sig svo ómissandi að þeir misbjóða eigin heilsu og ógna um leið fjölskyldu sinni og sálarheill.

Við erum mannleg og þess vegna finnum við auðvitað til með persónulegum högum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Geirs H. Haarde sem mér þykir a.m.k. sjálfsagt að gefa frið til að ná sér af veikindum sínum. Við megum þó ekki blindast svo af samúðinni að hún breiði yfir öll þeirra mistök á stjórnmálaferli þeirra. Kröfur okkar hafa þess vegna ekkert breyst í sambandi við uppstokkun og hreinsanir á sviði stjórnmála, fjármála- og viðskiptalífs við þessi tíðindi.

Í lokin langar mig að vísa í nokkra bloggara sem koma að kjarna þessa máls hver með sínum hætti. Fyrst er: Marinó G. Njálsson sem bendir á hann í eftirfarandi orðum: „Veikindi Ingibjargar og Geirs gera ekkert annað en að styðja við þá kröfu að ríkisstjórnin fari frá.  Ég skil ekki eftir hverju er verið að bíða.“ Auk þess vísar hann í orð læknis sem hefur ekki sinnt Ingibjörgu en þekkir til viðlíka veikinda og þau sem hún glímir við. Sá hefur að sjálfsögðu áhyggjur og bendir á mjög rökréttar ástæður fyrir því.

Villi Ásgeirsson finnst mér líka sjá hlutina í hárréttu ljósi þar sem hann segir: „Þó verð ég að lýsa furðu minni á að hann [Geir] noti veikindi sín sem ástæðu fyrir kosningum. Það var orðið ljóst að ríkisstjórnin naut ekki stuðnings fólksins. Geir hefði átt að boða til kosninga fyrir löngu, taka til í Seðlabankanum og hjá FME og gera allt sem mögulegt var til að fá útrásarvíkingana til að skýra sín mál og hjálpa í uppbyggingingarstarfinu. Hefði hann gert þetta, væri fólki sennilega ljúft að leyfa honum að sitja fram að kosningum.“

Loks er tilvitnun af bloggi Egils Helgasonar. Þar gerir Páll Baldvin Baldvinsson eftirfarandi athugasemd við þessa færslu Egils frá því í dag (23. jan. '09):

Það ber vott um alvarlegan dómgreindarskort ef valdamenn í æðstu stöðum samfélagsins, fárveikir á sterkum lyfjum vegna krankleika, skuli komast upp með það að sitja áfram í þannig ástandi. Sá dómgreindarskortur er ekki bara þeirra sjálfra heldur líka allra sem í kringum þau eru. Það er ekki ásættanlegt þrátt fyrir fórnfýsi að pólitíks umræða næstu mánaða verði merkt því að tveir forystumenn í ríkistjórn og flokki séu fárveikir og vinna þeirra og allra kringum þau séu merkt þeim veikleika.

Bæði Ingibjörg Sólrún og Geir Haarde eiga að stíga til hliðar meðan þau ná fullri heilsu. það er þeim fyrir bestu. Við þurfum fullfrískt fólk í leiðtogastörf á þessum tímum. Og sú ábyrgð hvílir á öðrum forystumönnum flokkanna tveggja og henni geta þeir ekki vikist undan.

Hugheilar óskir um að þau nái sér bæði fljótt og vel eru efst í hvers manns huga en til þess þurfa þau veikindafrí eins og annað fólk í landinu þegar það veikist alvarlega. (26. athugasemdin)

Geir og Ingibjörg Sólrún

Þeim sem vilja breytingar bendi ég á vefinn Nýtt lýðveldi en þar fer nú fram undirskriftarsöfnum. Að henni stendur: „hópur Íslendinga sem telur brýnt að hefjast nú þegar handa við að endurreisa traust í þjóðfélaginu og efla virðingu fyrir reglum lýðræðis og grundvallarstofnunum samfélagsins.“
Það eru 2271 búnir að skrifa undir þar í þessum skrifuðu orðum.

Svona til vonar og vara þá bendi ég líka á undirskriftarlistann inni á kjosa.is Mér sýnist nefnilega á umræðunni að það hafi ekki allir áttað sig á því að það eru tveir flokkar við stjórn og þeir þurfa báðir að samþykkja það að efnt verði til kosninga til að af slíku verði. Það eru 9257 nú þegar búnir að óska eftir því að boðað verði til alþingiskosninga með netundirskrift sinni á þessum vef.

mbl.is Ingibjörg Sólrún komin heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laugardagsmótmælin á Akureyri

Traktorar, harmonikkur og dill.

Mótmæli á laugardag kl. 15 á Akureyri.

Gengið verður frá Samkomuhúsinu niður á Ráðhústorg. Að lokinni göngu er efnt til mótmæla á Ráðhústorginu á Akureyri. Krafa mótmælenda er skýr: Ríkisstjórnin á að fara frá og það strax.

Við hvetjum Akureyringa og nærsveitamenn að fjölmenna á torgið. Bændur eru hvattir til að mæta á dráttarvélum. Stöndum vörð um íslenskan landbúnað. Grasrótarsamtök að baki mótmælum þessum standa fyrir friðsælum mótmælum og munu bjóða upp á súpu.

Mætið með potta og sleifar eða hvaðeina sem framkvæmir hávaða svo að ríkisstjórnin vakni og átti sig á því að ekki er í lagi að skuldsetja margar kynslóðir þessa lands vegna óráðsíumanna.

Ríkisstjórnin nýtur ekki trausts. Allt vald liggur hjá þjóðinni.

Frummælendur á fundinum verða:
1. Guðbergur Egill Eyjólfsson, bóndi og nemi við HA.
2. Embla Eir Oddsdóttir, íslensk kona.

Allir sem vettlingi geta valdið eiga að mæta. Allir!!!
Fólkið í landinu


Af borgarafundi á Akureyri sl. miðvikudagskvöld

Atvikin hafa hagað því þannig að nú er ég, sem ætlaði bara að fá að taka þátt, komin í undirbúningsnefnd borgarafundanna hér á Akureyri. Fyrsti almenni borgarafundurinn varð svo að veruleika núna síðastliðið miðvikudagskvöld. Fundarefnið var niðurskurðurinn í menntamálum.

Gestir á borgarafundi á Akureyri 21.01.09Fundurinn var haldinn í Deiglunni og byrjaði klukkan 20:00. Fundarstjóri var Edward H. Huijbens og stóð hann sig frábærlega í því hlutverki. Rétt áður en fundurinn byrjaði fékk ég símtal frá einum skipu- leggjanda fundanna í Reykjavík. Hann bað fyrir kveðju undirbúningsnefndarinnar í Reykjavík. Edward flutti fund- inum kveðjuna. Hún hlaut afar góðar viðtökur viðstaddra sem voru u.þ.b. 150 manns.

Þrír frummælendur voru á fundinum. Þeir voru:

Ragnar Sigurðsson, nemandi við Háskólann á Akureyri. Hann gaf okkur innsýn inn í veruleika háskólastúdenta í nútíð og framtíð.

Rakel Snorradóttir, nemandi við Verkmenntaskólann á Akureyri. Hún flutti erindi sitt ásamt vinkonu sinni, Sólveigu, og gáfu þær okkur innsýn inn í veruleika framhaldsskólanemenda. Þær koma báðar annars staðar frá til að stunda nám við skólann og vöktu athygli á því m.a. hvað jöfnunarstyrkurinn, sem er ætlaður þeim sem þurfa að sækja sér framhaldsskólanám fjarri heimabyggð, er í litlu samræmi við það sem kostar að framfleyta sér.

Ragnar, Rakel og Sólveig fjölluðu öll um þann veruleika sem nemendur í framhaldsnámi hér á landi standa frammi fyrir í dag. Við hækkandi verðlag og aukið atvinnuleysi er áframhaldandi námi þeirra ógnað. Haskólastúdentar hafa alls ekki verið of sælir af þeim smánarlega lágum námslánum sem þeim hefur verið úthlutað hingað til. Þau hafa dugað illa fyrir framfærslu og bókakaupum. Hvað þá við núverandi aðstæður.

Vaxandi atvinnuleysi veldur því að framhaldsskólanemendur missa möguleikann á að framfleyta sér og mæta kostnaðinum í tengslum við námið með aukavinnu. Það eru þau sem missa fyrst vinnuna. Möguleikar á sumarvinnu verða líka afar takmarkaðir ef nokkrir. Ragnar vakti sérstaklega athygli á fyrirætlunum Lánastjóðs íslenskra námsmanna um að lækka námslánin næsta haust.

Rúnar Sigþórsson, dósent við Háskólann á Akureyri, var þriðji frummælandinn. Hann flutti fyrirlestum um menntun og gildi hennar. Framsaga hans var í stuttu máli frábær enda höfðu orð hans áhrif á alla viðstadda. Ég vek athygli á því að ræða hans fylgir þessari færslu en ég má þó til að vitna í nokkra staði í ræðu hans. Í byrjun ræðunnar sagði hann m.a:

Ég ætla sem sagt að reyna að tala við ykkur um menntun. Ekki um fræðslu í þröngum skilningi; ekki um þekkingu og færni sem hægt er að beita jöfnum höndum til góðra eða siðlausra verka, heldur menntun í merkingunni að verða meira maður. Já, takið eftir því: til að verða meira maður, ekki meiri maður; menntun sem styrkir manngildi og siðvit og tryggir eftir föngum að við notum Paulo Freireþekkingu okkar og hæfni til góðra verka en ekki illra.

Við vorum einstaklega heppin að fá Rúnar til að fjalla um þetta efni á fundinum. Orð hans fengu afar góðan hljómgrunn hjá öllum fundargestum; bæði áheyrendum og þeim sem sátu í pallborði. Undir lokin vitnaði Rúnar í Paulo Freire og sagði m.a. þetta sem uppskar ákaft lófatak allra viðstaddra:

Freire kallaði nálgun sína „kennslufræði hinna kúguðu“.  Það skyldi þó aldrei vera að við þyrftum einmitt núna á vænum skammti af kennslufræði hinna kúguðu að halda; menntandi, upplýstri samræðu og sköpun þekkingar sem gerir okkur kleift að greina sannleik frá lygi, heiðarleika frá spillingu og blekkingu frá veruleika nú síðast kannski landráð frá þjóðhollustu; þekkingu sem gerir okkur kleift að gera á upplýstan hátt upp við þá sem teymdu okkur út í fenið, þrautseigju til að gefast ekki upp á kröfunni um að slíkt uppgjör fari fram, hugrekki til að láta til okkar taka í fjölmiðlum og á fundum, sýn á hvers konar framtíð við viljum skapa í þessu landi og hæfni til að taka þátt í að byggja hana upp.

Eftirtaldir sátu í pallborði: Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, Jón Már Héðinsson skólameistari Menntaskólans á Akureyri, Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, Gunnar Gíslason fræðslustjóri Skóladeildar Akureyrarbæjar, Kristín Björk Gunnarsdóttir forstöðufreyja Menntasmiðjunnar á Akureyri, Elín Margrét Hallgrímsdóttir fulltrúi skólanefndar Akureyrarbæjar og Höskuldur Þórhallsson þingmaður kjördæmisins en hann á sæti í menntamálnefnd Alþingis. Einar Már Sigurðsson, sem er einnig þingmaður kjördæmisins og er líka í menntamálefnd, boðað forföll.

Það kom margt afar forvitnilegt og fróðlegt fram í málflutningi þeirra er sátu fyrir svörum ekki síður en þeirra sem komu með fyrirspurnir og/eða innlegg utan úr sal. Það er ljóst að það hefur orðið niðurskurður í fjárframlögum hins opinberra til menntamál sem hefur verið mætt með ýmsum hætti. Niðurskurðurinn bitnar auðvitað á gæðum náms og kennslu.

Niðurskurðurinn hér á Akureyri er frá 3% upp í 20%. Menntasmiðjan hefur orðið að þola mestan niðurskurðinn. Kristín Björk Gunnarsdóttir, sem var í forsvari fyrir hana, benti á að aukin eftirspurn er nú eftir námskeiðum á hennar vegum hjá atvinnulausum körlum. Það má kannski vekja athygli á að Menntasmiðjan var stofnuð til að mæta auknu atvinnuleysi kvenna upp úr 1980. Menntasmiðjan getur illa orðið við þeirri eftirspurn heldur fara allir hennar kraftar í að halda lífi.

Niðurskurðurinn er minnstur í framhaldsskólunum eða 3% sem hljómar sennilega ósköp meinlaust en þegar maður skoðar tölurnar sem standa á bak við prósenturnar lítur málið allt öðru vísi út. Sem dæmi má nefna að niðurskurðurinn sem Verkmenntaskólinn á Akureyri þarf að mæta er upp á þrjátíu og sex milljónir króna!

Það vakti athygli mína að í hópi spyrjenda voru nemendur við Háskólann á Akureyri sérstaklega áberandi. Innlegg Húna Heiðars Hallssonar, lögfræðinema við skólann, má kannski segja að hafi verið baráttu- og hvatningarkveðja til skólans en ekki síður til samfélagsins. Hann benti á að Háskólinn á Akureyri væri vanur fjársvelti af hendi ríkisins. Samt hefði hann vaxið og dafnað. Hann benti líka á að sú hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem hefði kollkeyrt landinu væri lítt áberandi innan Háskólans á Akureyri

Húni Heiðar HallssonHúni minnti á að skólinn hefði svo lengi þurft að búa við fjársvelti að hann tryði því að hann fyndi leiðir til að lifa þennan niðurskurð af. Jafnframt spáði hann því að nemendur Háskólans á Akureyri yrðu margir meðal leiðtoga nýrra tíma af þeirri einföldu ástæðu að hann væri sá háskóli í landinu sem hefði ekki smitast af hinni hættulegu hugmyndafræði sem hefði tekið sér bólfestu í öðrum slíkum hér á landi.

Ragnar Sigurðsson, einn frummælandanna, benti á hina kaldhæðnislegu staðreynd sem fælist í fyrirhuguðari lækkun LÍN á námslánum til háskólastúdenta. Þessi lækkun myndi sjálfkrafa skapa sparnað í háskólunum. Lækkunin og nær útilokaðir möguleikar nemenda til að verða sér úti um sumarvinnu, hvað þá vinnu með skóla, myndi stuðla að umtalsverðri fækkun nemanda í háskólanámi strax næsta haust. „Sparnaðurinn“ kæmi þannig sjálfkrafa og niðurskurðurinn í fjárlögunum þess vegna fullkomlega óréttlætanlegur.

Frumælendurnir úr röðum framhaldsskólanemenda höfðu líka áhyggjur af framtíð háskólamenntunar í landinu. Þeir voru heldur ekki bjartsýnir hvað varðar framtíðarmöguleika þeirra til náms. Þeir bentu líka á að núverandi aðstæður ógnuðu því að þeim tækist að ljúka yfirstandandi önn. Skólameistarar beggja framhaldsskólanna tóku í sama streng. Efnahagsástandið setur möguleikum nemenda verulegar skorður hvað það varðar að ljúka yfirstandandi námi. Enginn þeirra sem sátu fyrir svörum kannaðist hins vegar við að niðurskurðurinn bitnaði á kennurum nema háskólarektor. Hann benti á í því sambandi að fjárveiting til allrar þróunar- og rannsóknarvinnu við skólann var skorin niður.

Það forvitnilegasta sem kom fram á þessum fundi er að niðurskurðurinn í menntakerfinu er bara rétt hafinn. Hinn eiginlegi niðurskurður verður ekki fyrr en á næsta ári. Það er því ástæða til að benda á að skólarnir rétt halda sjó með núverandi niðurskurði. Allir sem þekkja til menntamála og sæmilega glöggskyggnir einstaklingar ættu að sjá það í hendi sér að sá niðurskurður sem þegar hefur orðið bitnar vissulega á gæði náms sem nemendum er boðið upp á. Boðaður niðurskurður næsta árs mun því valda verulegri röskun á öllu skólastarfi í landinu að ég tali ekki um þá gengisfellingu sem verður honum samfara á námi í íslenskum skólum.

Jón Már HéðinssonJón Már Héðinsson, skólameistari MA, minnti á að menntun ætti ekki að vera einkamál skólafólks heldur þyrftu kennara, nemendur, foreldrar jafnt og aðrir að standa vörð um hana. Það var mál manna á fundinum að það þyrfti að útrýma þeirri markaðshyggju sem nú væri ríkjandi í hugmyndafræðinni sem tengist bæði menntuninni sjálfri svo og rekstri skólanna. Auk þess var bent á að það væri nær að efla menntun á þvílíkum krísutímum, og nú blasa við í samfélaginu, en að skera hana niður.

Miðað við núverandi aðstæður í menntamálum er ljóst að skólarnir eru að berjast við að verja störf kennara og nám þeirra nemenda sem þegar eru komnir inn í skólanna. Það er einsýnt að sú barátta verður mun erfiðari þegar hinn eiginlegi niðurskurður verður í menntakerfinu í byrjun næsta árs. Það er þó ljóst að hún fer ekki öðru vísi en einhverjum verður sagt upp störfum, færri fá inngöngu og námið sjálft gengisfellur.

Það er í meginatriðum ljóst að framtíð menntunar á Íslandi er ekki björt. Niðurskurðurinn sem hefur orðið nú þegar í skólunum bitnar á gæðum menntunar. Rekstur skólanna er í hættu. Vinnuálag á kennara hefur vaxið auk þess sem starfsskilyrði þeirra hafa versnað. Þetta bitnar á nemendum. Bæði hvað varðar námsframboð og gæðum námsins sem þau eiga völ á. Aukinn niðurskurður í menntamálum á næsta ári er því hrein aðför að framtíð menntunar í landinu.

Það er líka önnur alvarleg hlið á þessum málaflokki sem eru möguleikar nemenda til náms. Möguleikar nemenda til framhaldnáms er nú þegar í mikilli hættu vegna samdráttar í atvinnulífinu og verulegrar skerðingar á möguleikum þeirra til vinnu með námi og yfir sumartímann. Þátttaka nemenda í atvinnulífinu hefur lengi verið grundvallarforsenda þess að ungt fólk hér á Íslandi hafi haft ráðrúm til að afla sér menntunar. Á sama tíma og lokast á þenan mikilvæga möguleika til tekjuöflunar útilokast stór hópur ungra einstaklinga á Íslandi frá tækifæri til framhaldsmenntunar. Borgarafundur á Akureyri 21.ö1.09Það voru margar spurningar sem vöknuðu á þessum fundi án þess að við þeim fengist nokkuð svar. Það var líka áberandi að þeir sem sátu í pallborði vissu lítið meira um framtíð skólamála í landinu og aðrir viðstaddir. Þessi skortur á upplýsingum til skólamanna hefur verið mjög áberandi í allri skólaumræðu undanfarin misseri. Fulltrúar menntamálaráðuneytisins hafa legið á upplýsingum um fyrirætlanir sínar eins og hernaðarleyndarmálum nú um nokkurt skeið þannig að hvorki skólarnir né fulltrúar í menntamálanefnd geta svarað sjálfsögðum spurningum um framtíðina í menntamálum.

Ég held að ég megi fullyrða að borgarafundurinn hér á Akureyri um niðurskurðinn í menntamálum hafi í öllum aðalatriðum verið vel heppnaður. Það er mikilvægt að skapa umræðu um þetta málefni. Það tókst svo sannarlega með þessum borgarafundi. Vonandi lifir hún áfram og smitar út frá sér. Það er líka full ástæða til að vekja athygli á þeirri dökku framtíð sem blasir við hvað þennan málaflokk varðar og upphugsa leiðir til að bregðast við henni. Markmið fundarins var auðvitað að vekja athygli á því og skapa umræður sem leiða vonandi til bjartari framtíðar í menntamálum en þá sem nú blasir við.

Ég ætla að enda þetta á nokkrum spurningum sem var varpað fram á fundinum varðandi framtíðarmöguleika nemenda til menntuna:

  • Hvað gerist þegar nemendur hafa enga möguleika á aukavinnu með skóla?
  • Hvað gerist ef foreldrar þeirra missa vinnuna?
  • Hvað gerist þegar þeir hafa enga möguleika á að verða sér út um sumarvinnu?
  • Hvaða möguleika eiga nemendur til háskólanáms í framtíðinni?
  • Hvað verður um landsbyggðina ef háskólar hennar þurrkast út?
  • Hvað verður um það fólk sem er að afla sér menntunar núna?
  • Verður einhver vinna fyrir það?
  • Hvað verður um nám þess?
Hefur einhver svar við þessum spurningum?


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þeirra stærsti glæpur eru landráðin sem liggja í gegndarlausri sókn þeirra við að hámarka sinn eigin gróða

Einhverjir þeirra sem liggja undir grun um að hafa framið auðgunarbrot í skjóli bankaleyndar hafa stigið fram og viðurkennt viðleitni sína við að hámarka gróðann með misjöfnum hætti. Þeir skýla sér þó á bak við það að gjörningar þeirra standist lög! Fjármálaeftirlitið hefur tekið undir það að ekkert ólöglegt hafi komið upp á yfirborðið enn í þessu sambandi.

Mér þykir það liggja í augum uppi að þó græðgisboltarnir hafi e.t.v. ekki brotið skráðan lagabókstafi þá hafa þeir brotið gegn öllum siðferðislögmálum! Lögin eru ekki lengur marktæk ef það er löglegt að einhverjir komist upp með það að nýta tengsl sín við fjármálastofnanirnar til að græða svo gengdarlaust í eigin þágu að það stefnir hag landsins í voða! Og ekki nóg með það heldur endaði þetta allt saman á því að þeir settu þjóðina á hausinn. 

„Lögin“ segja líka að einhver þurfi að borga og „snillingarnir“ sem hafa misst alla siðvitund í aðdáun sinni á lagabókstafnum hafa kveðið upp þann dóm að það séu ekki gerendurnir heldur almenningur í landinu. Það þarf auk þess að skera niður í ríkisrekstrinum því græðgishundarnir sem fundu smuguna í lögunum til að hirða sparifé hins almenna borgara kom þjóðarskútunni einnig á vonarvöl hvattir áfram af hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar.

Það er ljóst að peningar sem þeir öfluðu sér með því að láta greipar sópa liggja einhvers staðar. Í Markaðinum í gær var frétt sem varpar einhverju ljósi á það í hvar þá er að finna. Fréttin varpar líka ljósi á hina gengarlausu og siðspilltu græðgi sem stýrði gjörðum þessara böðla íslensku krónunnar.Rándýrir lúxusbílar í Lúx


mbl.is Isesave-viðræður ekki í bið vegna landsfundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við stöndum saman!

Í dag var frekar stór dagur hér á Akureyri í „göngunni til lýðræðis“ því hér voru bæði fjölmenn mótmæli og flottur borgarafundur. Borgarafundurinn fjallaði um niðurskurð í menntamálum. Ég ætla að segja betur frá borgarafundinum síðar. Núna ætla ég hins vegar að segja svolítið frá öðrum deginum í samstöðumótmælunum á Ráðhústorginu.

Fólk mætti klukkan 17:00. Fjöldinn varð upp undir tvisvar sinnum fleiri en í gærkvöldi eða rúmlega tvöhundruð. Kl. 20:00 byrjaði borgarafundurinn í Deiglunni. Honum lauk rúmlega 22:00 og þá fór ég ásamt mörgum fundargestum aftur á Torgið.
Jólatréð brennurStemmingin og samstaðan sem lá í loftinu þar í kvöld var með ólíkindum. Mér fannst allir vera einhvern vegin ákveðnir í að standa saman. Þó við séum ekki öll sammála um framtíðina þá erum við búin að átta okkur á því að við erum sammála um eitt mjög mikilvægt grundvallaratriði: Við viljum núverandi ríkisstjórn frá og við viljum hreingerningu í Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu. Við viljum að ráðamenn þjóðarinnar axli ábyrgð og þeir sem settu okkur á hausinn sæti henni fyrir gjörðir sínar.

Ég hugsa að við séum líka öll sammála um það að við viljum endurheimta æru okkar. Ég geri það með því að mótmæla því að yfirvöld komi fram við mig og þjóð mína eins og þræla. Það getur vel verið að einhverjum sé sama en mér þykir það bara engan vegin líðandi! Stemmingin á Torginu í kvöld einkenndist af samhug og bræðralagi. Við stöndum með sjálfum okkur, landi okkar og þjóð.
Trumbuslagarar IIÞað eru alltaf fleiri og fleiri sem ég heyri tala um úrelta jugmyndafræði sem hafi fengið að skjóta rótum alls staðar í samfélaginu og líka þar sem hún á ekki heima. Nýfrjálshyggjan hefur riðið röftum og vegið að rótum velferðarþjónustunnar þannig að sjúkra- og menntastofnanir hafa lotið markaðshyggjunni og hagur sjúklinga og nemenda verið fyrir borð borinn. 

Hugmyndir núverandi ríkisstjórnarinnar um það hvernig eigi að reisa við efnahag landsins byggir á þessari úreltu hugmyndafræði. Við mótmælendur vitum að það eru til aðrar leiðir. Við vitum að nýfrjálshyggjan eru ekki trúarbrögðin sem við höfum játast. Menning okkar byggir heldur alls ekki á þessari innfluttu hugmyndafræði. Við viljum því varpa af okkur oki þessarar græðgismöru sem hefur leitt þjóðina út í þær ógöngur sem hún er nú í fyrir tilstuðlan trúboða auðmagnins.

Það eru alltaf fleiri og fleiri sem eru að vakna til vitundar um það að til að takast á við vanda þjóðarinnar dugir ekkert annað en ný forgangsröðun. Ef marka má fjöldann á Ráðhústorgi í kvöld þá nær þessi vakning til sístækkandi hóps. Það lítur út fyrir að hann stækki dag frá degi um þessar mundir. Kannski er það vegna þess að fólk getur ekki lengur setið hjá og finnur sig þar af leiðandi knúið til að taka afgerandi afstöðu til þess sem fram fer.Mótmæli á Akureyri 21.01.09Meðal mótmælendanna á Torginu í kvöld voru tveir strákahópar sem vöktu sérstaka athygli mína. Annar fyrir mótmæli sín. Á spjaldinu hjá drengnum til vinstri á myndinni er eftirfarandi tilvitnun úr Kóraninum: „Sá sem aflar sér okurfjármuna mun eigi upp rís á annan veg en þann sem Satan krefur með snertingu sinni.“ (orðalag svolítið breytt)Við mótmælumHinir vöktu athygli fyrir alveg einstaklega göfugmannlegt framtak. Þeir höfðu hellt upp á tvær stórar kaffikönnur og buðu svo út í kaffið líka. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort þeim var ekki vel tekið!
KaffisveitinAð lokum langar mig til að taka það fram að mótmælin á Ráðhústorgi verður fram haldið á meðan ríkisstjórnin þráast við og situr áfram. Mótmælin á morgun byrja kl. 17:00 og standa væntanlega fram undir miðnætti eins tvö sl. kvöld.


mbl.is Mótmæli á Ráðhústorgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband