Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Í dag langar mig bara til að biðja

Heyr mína bænÍ dag langar mig bara til að biðja fyrir landi og þjóð og reyndar heimsbyggðinni allri. Ekki það að ég sé neitt sérstaklega trúuð í þeirri merkingu að vera kirkjurækin og trú Biblíunni. Ég trúi því hins vegar að lífið hafi tilgang og merkingu. Ég trúi því líka að fallegar hugsanir, bænir og óskir rati saman með öðrum slíkum og geti haft jákvæð áhrif.

Ég ætla þess vegna að senda bæn mína um réttlæti, kærleika, frið, heilbrigði og hamingju út í geiminn og vona að hún breytist í jákvæða orku sem verndar okkur öll fyrir aðsteðjandi hörmungum. Ég bið þess að okkur beri gæfa til að finna farsælar lausnir á vandamálunum sem steðja að íslensku þjóðinni og mannkyninu öllu.

Veit að ég er væmin en ákvað að leyfa mér það svona einu sinniJoyful


mbl.is Neyðarástand í Kaliforníu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er með í maganum yfir þessu slóri en...

Það er ótrúlegt hvernig er hægt að drepa málum á dreif og týna sér í japli og jamli og fuðri um önnur sem eru minna áríðandi. Það er líka spurning hvort það er þegjandi samkomulag um að blása út og draga þessa ESB-aðildarumræðu sem lengst til að hylma yfir óeiningu og/eða vanmátt forystumanna umræddra flokka (sjá tengda frétt) gagnvart þeim málum sem raunverulega brenna á okkur!

Þjóðin á þingÉg er auðvitað að tala um stöðu heimila og fyrirtækja í landinu. Ég er líka að tala um að kraftur verði settur í rannsóknina á efnahagshruninu. Ég er að tala um upplýsingar og uppgjör. Ég er að tala um að skapa traust og trúverðugleika. Ég er að tala um verulegar og stórfelldar umbætur sem stuðla að raunveru- legu lýðræði í landinu.

Ég er sannast sagna með í maganum yfir því að núverandi stjórnarflokkar telja að þeir hafi allan tíma í heiminum til að argaþrasast út af málum eins og ESB-aðild. Slík aðild er svo langt frá því að vera forgangsverkefni þegar tugir þúsunda ganga um atvinnulausir, enn fleiri heimili standa frammi fyrir gjaldþroti og hvert fyrirtækið á fætur öðru hrapar fram af gjaldþrotabrúninni í því fjandsamlega rekstrarumhverfi sem þeim eru búin.

Ég er með í maganum yfir þeim sem standa í þeim sporum að þurfa atvinnulausir og húsnæðislausir að horfa upp á það að í stað þess að gripið sé til alvöru aðgerða til að rétta þeirra hlut NÚNA þá er öllu púðrinu eytt í að ræða mögulegar aðildarviðræður sem skila engum árangri fyrr en í fysta lagi eftir tvö ár og sennilega engum merkjanlegum fyrr en eftir fjögur til sex ár!

Það er dapurlegt að sjá fjölmiðlana taka þátt í því að stýra þjóðfélagsumræðunni inn á slíkar villigötur og halda henni svo fastri í þessari þröngu blindgötu. Það ætti að vera ljóst að Samfylkingin sem er búin að sitja í stjórn í bráðum tvö ár er ekki atkvæðamikill eða atorkusamur flokkur þegar kemur að hugmyndum og lausnum og þess vegna furðulegt hvað fjölmiðlar eru duglegir við að spyrja leiðtoga hans alltaf sömu spurninganna aftur og aftur til að útvarpa og sjónvarpa sömu svörunum endalaust.

Það er ekki tími til að hjakkast í þessum drullupytti lengur! Vonandi fara fleiri að átta sig á því eins og fréttamennirnir sem fóru inn á kosningaskrifstofu Borgarahreyfingarinnar í dag og unnu þetta innslag í Kastljós í kvöld! Hlustið eftir hugmyndunum sem þau varpa fram. Gangið á þau og fáið þingmennina fjóra sem eru komnir inn á þing til að útfæra þær betur. Spyrjið þau hvað þeim finnst vera mest áríðandi að gera núna.

Þjóðin á þingFrelsum þessa frasakenndu og stöðnuðu þjóðmálaumræðu upp úr þröngsýnum hugmyndapytti stjórnmálamanna sem hafa eytt nærri allri sinni starfsævi innan þykkra veggja Alþingis og heyrum nýjar raddir, ferskar hugmyndir og hlustum eftir úræðum sem eiga við núverandi stöðu. Hættum svo öllu þessu japli og jamli og fuðri yfir pappírsbunkum og kaffibollum í loftlausum fundarherbergjum og förum að gera eitthvað!

Reynum að horfa okkur nær í stað þess að einblína á fjarlægar lausnir í fjarlægum efnahagsbandalögum. Komum stjórnmála- mönnunum út úr þeirra gluggalausa sýndarveruleika og fáum þá til að horfa á frjósama gróðurmoldina og gjöful fikskimið í sjónum allt í kringum okkur. Horfum til möguleikanna sem við eigum í landbúnaðinum og sjávarútveginum. Í innlendri framleiðslu og annarri atvinnuuppbyggingu sem byggir á hugviti og frumkvæði þjóðarinnar.

Frelsum þjóðmálaumræðuna út úr þeirri blindgötu sem hún er stödd í akkúrat núna og snúum okkur að verkum sem skila þjóðinni raunverulegum hagsbótum á morgun en ekki eftir einhver ár!


mbl.is Ekki víst að langt sé í land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er kominn nýr hundur til að sparka í?!

Einn hættulegasti löstur mannkynsins að mínu mati er öfundin! Nátengdur honum er annar sem er jafnvel enn viðsjárverri. Það er óttinn! Mér finnst ég finna óþægilega sterka lykt af þessum löstum í kringum stórkostlegan árangur Borgarahreyfingarinnar. Hreyfinguna sem varð til af hreinni hugsjón og réttlætiskennd margra þeirra sem spruttu á fætur síðastliðið haust vegna sannfæringarinnar um að það væri eitthvað mikið, mikið að í íslensku samfélagi.

Ég er ein þeirra sem stóð frammi fyrir þeirri áskorun hvort ég ætti að ganga alla leið og taka þátt í starfi Borgarahreyfingarinnar. Í allt haust og allan vetur hef ég setið undir ámæli og tortryggni ýmissa utanaðkomandi einstaklinga og radda sem virðast hræðast þá sem hafa skoðanir og eru tilbúnir til að fylgja þeim eftir. Miðað við það sem ég hef mætt er freistandi að draga þá ályktun að þeir þyki hvað hættulegastir sem eru tilbúnir að gagnrýna það sem hefur lengi viðgengist.

Ég hef fegnið athugasemdir eins og þær að ég sé að velta mér upp úr ástandinu. Að ég sé óþolandi pólitísk. Að ég eigi bara að einbeita mér að einhverju öðru en því sem kemur mér ekkert við. Á meðan á mótmælunum stóð var mér legið á hálsi fyrir að blanda geði við bjálaðan skríl. Að ég væri að taka þátt í tilgangslausum og marklausum skrílslátum, athyglissjúkra fúskara. Sjálfsagt hefur eitthvað fleira verið sagt sem mér barst aldrei til eyrna. En það er ljóst að það eru ýmisir tilbúnir að ganga býsna langt til að þagga niður í fólki eins og mér. Það sannaðist með eftirminnilegum hætti í vetur! 

Ég veit að ég er alls ekki eini mótmælandinn sem hefur mætt ofantöldum athugasemdum. Margir þeirra tilheyra nú Borgarahreyfingunni og enn heldur ófrægingin og tortryggnin áfram. Sjálf er ég í fimmta sæti hreyfingarinnar hér í norðausturkjördæmi. Ástæðan fyrir því að ég tók sæti á listanum var tvíþætt. Í fyrsta lagi er hún ekki flóknari en sú að ég vildi að þessi listi væri í boði fyrir kjósendur í þessu kjördæmi.
Fimm efstu menn á lista Borgarahreyfingarinnar í NAEn hin er sú að Borgarahreyfingin er í raun eðlilegt framhald þess sem hrinti mér út í mótmælin og undirbúningsnefnd borgarafundanna hér. Ég mótmæli nefnilega spillingu og óréttlæti og krefst rannsóknar á bankahruninu, ég krefst lýðræðis og lífvænlegra skilyrða fyrir þjóðina sem byggir þetta land.

Ég hélt eins og margir aðrir að það yrði ekki hundsað þegar stór hluti þjóðarinnar reis upp og mótmælti á torgum og kallaði saman til funda til að ræða mörg þeirra brýnu málefna sem hafa legið í þagnargildi mörg undanfarin ár. Það reyndist því miður ekki alls kostar rétt. En þrátt fyrir skipulagða hundsun bæði stjórnmálamanna og fjölmiðla á því sem fram fór á mótmæla- og borgarafundum þá höfðu mótmælin a.m.k. einhver áhrif. Breytingarnar sem andófið knúðu fram urðu þó ekki nægilega afdráttarlausar. Það er margt sem vantar upp á enn og þess vegna varð Borgarahreyfingin til!

Þeir sem óttuðust mótmælendur mest og stóðu fyrir ófrægingarhernaði gegn þeim sem andæfðu á Austurvelli og víðar um land eru nú risnir upp aftur. Nú beinist ófræging þeirra gegn þeim fulltrúum Borgarahreyfingarinnar sem komust inn á þing. Spurning hvort það er kominn nýr hundur í stað Vinstri grænna til að sparka í fyrir hundsvekkta tapara? Tapara sem sjá fram á það að með auknu lýðræði, réttlæti og jöfnuði muni þeir tapa kökunni sinni fyrir sneið á stærð við þá sem við hin höfum þurft að láta okkur duga hingað til.
Ásköpuð forréttindi:-(Það er engu líkara en þessir taparar hafi fundið sér nýjan hund til að sparka í. Allt er tínt til. Skiptir ekki máli hvort það eru heiðurslaun Þráins Bertelssonar eða það að Margrét Tryggvadóttir skuli líta á þingmennskuna sem starf sem þarf að sinna á sama hátt og þau sem hún hefur gengt hingað til. 

Það er augljóst að árangur Borgarahreyfingarinnar ógnar einhverjum sem eru uggandi um sinn hag. Ég er þess vegna hrædd um að við eigum eftir að mæta mörgum sem reyna að gera lítið úr okkur með því að tala niður til okkar. Það verður reynt að tala niður til okkar og við verðum sökuð um búsáhaldaglamur í því sem á að heita alvarlegar umræður um þjóðfélagsmál. Það er reyndar þegar byrjað að reyna að gera lítið úr baráttumálum okkar með slíkum viðlíkingum.

En ég segi það satt að ég er stolt af því að tilheyra þessum hópi! Ég er stolt af því að tilheyra þeim hópi hugsjónafólks sem hefur barist fyrir framtíð afkomenda sinna og þjóðarinnar um leið án þess að láta neinn bilbug á sér finna! Nú eigum við líka málsvara inni á þingi þannig að rödd okkar og kröfur verða ekki hundsaðar lengur.

Ég vona að eitt af því sem okkur tekst að breyta verði það að þingmenn fari að haga sér eins og fullorðið fólk sem ber virðingu fyrir öðrum og leggi af ófræðginarhernað eins og þann sem er þegar byrjaður gegn fjórum hugrökkum hvunndagshetjum sem hafa boðið sig fram til að vinna að heildarhagsmunum þessarar þjóðar. Ég vona að almenningur hætti að láta leiða sig á asnaeyrunum og leggi af þann leiða ávana að éta allt upp sem kemur úr ófrægingarherbúðum öfundarinnar og óttans.
Herdeild öfunarinnar og óttansÖfundin og óttinn sem elur slíkar árásir, sem fulltrúar Borgarahreyfingarinnar þurfa að takast á við strax á fysta degi eftir kosningar, urðu nefnilega til í sömu herbúðum og settu þjóðina í þá alvarlegu stöðu að við fundum okkur knúin til að rísa upp og mótmæla. Þeir sem vita upp á sig skömmina af því hvernig er komið fyrir efnahag landsins óttast sem aldrei fyrr hvað verður um forréttindin sem þeir hafa tryggt sér á undanförnum árum. 

Við höfum sagt spillingunni og óréttlætinu stríð á hendur og við munum berjast áfram þrátt fyrir skítkast og niðurrifstal þessara afla sem vilja viðhalda forréttindum sínum á kostnað lands og þjóðar. Ég vona að almenningur fari að átta sig á þessu heildarsamhengi. Ég vona að allir fari að opna augun fyrir því hvernig sífellt er verið að reyna að kasta ryki í augu hans. Hvernig sumir leitast sífellt við að drepa stóru málunum á dreif með ómerkilegum ófrægingarhernaði í þeim eina tilgangi að aðalatriðin megi týnast og gleymast í moldviðrinu sem slíkt rótar upp.

Ég get ekki annað en spurt hvort einhver vilji í alvörunni taka þátt í slíku? Ég bið alla um að horfa fram í tímann og sjá það fyrir sér þegar ófædd kynslóð spyr okkur í framtíðinni hvar við vorum þegar þjóðin var rænd af auðmönnunum og embættismönnunum sem unnu í þeirra þágu. Ég leyfi mér að efast um að nokkur vilji standa í þeim sporum að verða að svara slíkri spurningu þannig: „Ég barðist að sjálfsögðu á móti þeim sem kröfðust rannsóknar, réttlætis og lýðræðisumbóta.“

Ég veit að ég get svarað ófæddum barna- og barnabörnum mínum með með stolti: „Ég stóð upp og mótmælti! Ég tók þátt í því að vekja ráðamenn þjóðarinnar til umhugsunar með því að kalla þá til borgarafunda sem ég tók þátt í að skipuleggja! Ég gekk m.a.s. svo langt að ég tók þátt í að byggja upp stjórnmálaafl sem komst inn á þing...“ Ég bíð spennt eftir framhaldinu!

Bestu óskirAð lokum óska ég þeim: Birgittu Jónsdóttur, Margréti Tryggvadóttur, Þór Saari og Þráni Bertelssyni velfarnaðar og farsældar í starfi. Ég óska þeim óbilandi krafta og kjarks til að takast á við hið flókna og krefjandi starfs sem þau eiga fyrir höndum. Ég vona að þeim beri gæfa til að láta öfundina ekki draga úr sér áræðið og þorið sem þau þurfa á að halda í því erfiða starfsumhverfi sem bíður þeirra.


mbl.is Eins og hvert annað starf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonin er óneitanlega áhyggjum blandin

Niðurstaða þessara kosninga hefði vakið mér meiri gleði ef nú væri vorið 2006. Það vor greiddi ég Vinstri grænum atkvæði mitt þar sem ég bjóst við að Samfylkingin yrði ótvíræður sigurvegari þeirra kosninga og vildi nýta mitt atkvæði til að stuðla að því að þeir myndu vinna með Vinstri grænum. Við vitum hvernig það fór.
Fölsk vonarglæta
Þá vonaði ég líka að stór hluti þjóðarinnar hefði opnað augun fyrir því hvað klisjur Sjálfstæðisflokksins standa fyrir í raun og veru. Mér varð ekki að ósk minni og það er ljóst að það eru enn ótrúlega stórt hlutfall sem áttar sig ekki á því að hann er í raun hagsmunasamtök þeirra sem hugsa fyrst og síðast um að hámarka sinn eigin höfuðstól sama hvernig það bitnar á öðrum. Mottó hópsins er: Á meðan það er löglegt þá er mér skítsama um siðferðiskjaftæðið!

Niðurstaða kosninganna nú er útkoman sem ég hefði sætt mig við vorið 2006. Niðurstaðan sem ég hefði sætt mig við núna væri sú að Borgarahreyfingin og Vinstri grænir hefðu myndað meiri hluta á þingi. Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að það er ótrúlegur árangur að svo ungt framboð, eins og Borgarahreyfingin, hafi náð fjórum mönnum inn á þing. Þessir fjórir eiga þó örugglega eftir að verða okkar mikilvægustu þingmenn á næsta kjörtímabili! Ég óska þeim öllum til hamingju með að vera komnir inn á þing!

Málið er bara að núna er ekki rétti tíminn til að leiðrétta kosningaúrslitin frá 2006. Við þurfum nauðsynlega að horfast í augu við atvinnuleysistölur og tölur yfir gjaldþrot heimila og fyrirtækja. Við höfum ekki tíma til að hlusta á að það sé verið að rannsaka efnahagshrunið en það taki minnst tvö ár að komast til einhvers botns í málinu. Við höfum ekki tíma til að hlusta á yfirlýsingar um að ESB-aðild og upptaka evru muni bjarga þjóðarbúinu en það taki tíma að komast að samingaborðinu og setja saman samninginn! Við höfum síst af öllu tíma til að hlusta á einhverja hálfvolga álversumræðu þar sem það er ljóst að það stendur ekki til að byggja fleiri álver í bráð.

Við þurfum að setjast niður núna og leiðrétta lánin sem eru að sliga heimili og fyrirtæki. Við þurfum núna að tryggja að fleiri atvinnufyrirtæki fari ekki á hausinn. Við þurfum núna að gera gangskör í því að opna rannsóknina á bankahruninu. Við þurfum núna að tryggja það að náttúruauðlindirnar verði í eigu þjóðarinnar. Það er svo kannski rétt að taka það fram, til að forðast allan misskilning, að mér hugnast hvorki ESB-aðild eða uppbygging álvera. Er í raun á móti báðu!Áhyggjurnar myrkva minn hugÞegar stór hluti þjóðarinnar fagnar því að nú hafi Samfylkingin unnið stórsigur ásamt Vinstri grænum þá dreg ég mig út úr fagnaðarlátunum og hugsa um aðdragandann.  Við vitum svo sannarlega ekki hvar við stæðum núna hefði Samfylkingin tekið upp stjórnarsamstarf við Vinstri græna vorið 2006. Við vitum hins vegar að ráðherrar og þingmenn Samfylkingarinnar sátu stilltir og hljóðir við hlið Sjálfstæðisflokksins á meðan efnahagur þjóðarinnar stefndi hratt og örugglega fram af bjargbrúninni.

Við vitum líka að þeir aðhöfðust ekkert, sem var í takt við það, sem Samfylkingin segist standa fyrir í kjölfar efnahagshrunsins. Ég átta mig ekki á því hvers vegna þjóðin treystir henni best til að reisa þjóðarbúið við upp úr rústunum. Ég skil það betur að þjóðin skuli treysta Vinstri grænum til þess en þó ekki fyllilega. Ég hefði skilið það ef Vinstri grænir hefðu boðað tafarlausa rannsókn á aðdraganda bankahrunsins og eftirköstum, tafarlausar aðgerðir til bjargar heimilunum og uppsögn AGS-samningsins.
Pappírsbátur
Ég er ekki svartsýn heldur raunsæ þegar ég segi að úrslit kosninganna valda mér meiri áhyggjum en gleði. Auðvitað vona ég að ég hafi rangt fyrir mér. Auðvitað vona ég að sú stjórn, sem er nokkuð ljóst að verði til út úr þessum kosningaúrslitum, verði landi og þjóð til þeirrar gæfu sem hún þarf á að halda. Ég hef hins vegar áhyggjur.

Ég hef áhyggjur vegna þess sem þjóðin fær ekki að vita. Ég hef áhyggjur af því að kjósendur verði fyrir áfalli eina ferðina enn og finnist að þeir hafi verið blekktir þegar þessar upplýsingar skila sér loksins. Ég hef áhyggjur af því að þessum upplýsingum hafi verið meðvitað haldið leyndum fram yfir kosningar...

Ég held að atkvæðin hefðu fallið töluvert öðruvísi hefðu þær legið fyrir! En sjáum hvað setur...


mbl.is Nýtt Alþingi Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég styð réttlætið! Hvað með þig?

 Ég er kannski viðkvæm sál en eftirfarandi orð Þórs Saari hjá Borgarahreyfingunni snerta viðkvæma strengi hennar og hreyfa þá til auðmjúks þakklætis:

Við verðum að muna eftir því hvers vegna er verið að kjósa á morgun. Það er verið að kjósa á morgun af því að hér varð algjört efnahagshrun. Stjórnvöld á Íslandi brugðust almenningi algerlega og sveipuðu efnahagsmálin hér í leyndarhjúp, þannig að heimilin lentu á vonarvöl. Við megum ekki gleyma því.

Þessi sömu stjórnvöld þau sitja hér í kvöld, allt í kringum mig og bjóða almenningi upp á það að láta kjósa sig aftur á morgun. Við vitum hvað gerðist, hvernig það gerðist og við vitum hverjir bera ábyrgðina. Við megum ekki gleyma því heldur. Það er algjört grundvallaratriði. Ástæðan fyrir því að hlutirnir enduðu eins og þeir enduðu er þó kannski fyrst og fremst sú að við hættum að skipta okkur sjálf af stjórnmálum. Við gleymdum því, við sváfum á verðinum. Við megum ekki gera það.

Á morgun þegar við göngum inn í kjörklefann, þá skulum við ekki spyrja okkur þessarar spurningar, aftur og einu sinni, hvað gerðist og hvernig gerðist það. Við vitum hvað það var. Við skulum spyrja okkur þeirrar spurningar, hvað er það sem ég get gert og hvað er það sem mér ber að gera á morgun.

Ég hef ekki gleymt áhyggjum og þjáningum liðins vetrar. Ég hef ekki gleymt því að ríkisstjórnin og stjórnmálamennirnir brugðust því hlutverki að standa vörð um það sem þeir voru kosnir til. Þess vegna get ég ekki kosið neinn þeirra flokka sem áttu þingmenn inni á þingi. Ég get alls ekki gleymt því að fulltrúar þingflokkanna sátu hreyfingar- og orðlausir undir margboðuðu efnahagshruni.

Það er ekki nóg með það að ekki einn einasti þeirra varaði okkur við heldur stóð enginn þeirra upp og upplýsti okkur um, þó það væri ekki annað, en hans eigin sýn á það sem hafði gerst, var að gerast og mundi gerast.

Þögnin hefur mér alltaf þótt tortryggileg. Innihaldslaust orðagjálfur enn þá verra. Því miður finnst mér lokaorð formannanna bera töluverðan keim af slíku. Kannski mismikinn eftir mönnum en í ljósi þess sem við stöndum frammi fyrir þá eru orð Þórs Saari þau einu sem mér finnst eiga við.

HimnasendingEf það væri ekki fyrir hreyfinguna sem hann tilheyrir þá eygði ég litla von. Vegna Borgarahreyfingarinnar leyfi ég mér að vera bjartsýn á að við náum að taka skynsamlegar og mannúðlegar á vandanum en núverandi þingflokkar boða. Ég segi þess vegna guði sé lof fyrir Borgarahreyfinguna!


mbl.is Lokaorð formanna til kjósenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komum þeim öllum á þing á morgun!

... og tryggjum þannig þær lýðræðisbreytingar sem þurfa að verða á íslensku þjóðfélagi. Tryggjum það að hagur þjóðarinnar verði settur í forgangssæti á undan öllu öðru. Höfnum óréttlæti, spillingu og leynimakki. Komum þessu fólki inn á þing á morgun:
Efstu menn á listum Borgarahreyfingarinnar
Langar svo til að vekja athygli á því að hér á Akureyri býður Borgarahreyfingin kjósendum í kosningakaffi á skrifstofu sinni að Brekkugötu 3. Skrifstofan er opin frá kl. 10:00 og fram eftir degi eða a.m.k. til kl. 18:00.

Kosningavaka hreyfingarinnar er líka í undirbúningi hér á Akureyri. Hún verður auglýst nánar á Facebook.

Svo að lokum, ef þú hefur ekki séð þetta myndband með mörgum af efstu mönnum á lista Borgarahreyfingarinnar þá skaltu endilega kynna þér það sem þeir hafa að segja hér:


mbl.is Samfylkingin enn stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímamótaviðburður

xoÞað hefur því miður verið lítill tími til að blogga og ekki bæti ég mikið úr því í þetta skiptið þar sem ég ætla aðallega að vísa í aðra í þessari færslu minni. Fyrst ætla ég að vísa í snilldarfærslu Hrannars Baldurssonar þar sem hann gerir upp við flokanna og útskýrir hvers vegna hann velur Borgarahreyfinguna umfram þá.

Mig langar líka til að vekja athygli á þessari færslu Katrínar Snæhólm þar sem hún segir frá því að hér á landi er staddur hópur frá London sem er að gera heimildamynd um kosningarnar. Ég veit ekki hvort Borgarahreyfingin fær meira vægi en aðrir stjórnmálahreyfingar þar en Katrín segir a.m.k: „Þau eru líka sérstaklega að skoða hvernig framboð það eru sem spretta upp í svona umhverfi og aðstæðum eins og hér hafa verið síðan í október og hvert stefnan sé tekin.“

Mér finnst þetta m.a. merkilegt vegna þess að í mínum augum er Borgarahreyfingin tímamótaframboð. Framboðið er sprottið upp úr hópnum sem tók þátt í mótmælunum og leiddi margt hvert borgarafundina hér og fyrir sunnan. Stefnuskrá okkar er líka sprottið upp úr þessum jarðvegi. Mér finnst það mjög skrýtið að það skuli ekki vekja eftirtekt fjölmiðlafólks fyrir þessar staðreyndir

Það er nefnilega svolítið sorglegt að þegar við horfum til baka til þessa tíma þá þurfum við að leita út fyrir landsteinanna eftir myndefni um þessi tímamót. Tímamótin sem urðu þegar þjóðin tók sig saman og mótmælti úti á torgum og fundaði saman viku eftir viku frammi fyrir þúsundum manna en fjölmiðlar þögðu. Við þurfum að leita út fyrir landsteinanna að heimildum um það þegar þjóðin lét ekki deigan síga heldur stofnaði Borgarahreyfinguna og bauð sig fram til alþingiskosninga en fjölmiðlamenn ypptu margir hverjir bara öxlum. Sumir settu hana jafnvel undir sama hatt og Lýðveldisbyltinguna.

Spurning hvenær þessir vakna til meðvitundar um það að við erum að upplifa tíma sem í ljósi sögunnar verður metinn sem sá tímamótaviðburður þegar þjóðinni ofbauð svo  að hún bauð sig fram til þings! Ég trúi því að þessi tímamót marki upphaf af betri tímum. Þess vegna er ástæða til að skrásetja hvað það var sem siðbætti stjórnsýsluna og efnahagslífið á Íslandi.Þjóðin á þing


Líður að kosningum...

Það fer auðvitað ekki fram hjá neinum hve stutt er í kosningar. Samt er greinilegt að það eru alls ekki allir búnir að gera upp við sig hvað þeir ætla að kjósa. Sumir tala jafnvel um að skila auðu! Ég vona að þeir sem hyggjast skila auðum kjörseðli átti sig á því að þannig gera þeir í raun ekkert annað en leggja blessun sína yfir núverandi ástand! Það er algerlega bráðnauðsynlegt að allir kjósendur taki ábyrgð, taki afstöðu og kjósi!

Skoðanaviti
Nú er komið frábært hjálpartæki inn á mbl.is sem ætti að nýtast öllum sem eiga í erfiðleikum með að taka afstöðu. Það eru tuttugu spurningar þar sem maður á að taka afstöðu til hinna ýmsu málefna með að merkja við möguleika eins og „alveg sammála“ eða „alveg ósammála“. Að prófinu loknu færðu svo niðurstöðu um það hvernig skoðanir þínar samrýmast flokkunum sem eru í framboði. Krækjan í þetta próf er hér.

Þeir sem fylgjast með þessu bloggi eru kannski búnir að sjá viðtal við Herbert Sveinbjörnsson sem birtist inni á norðlenska vefmiðlinum akureyri.net í gær og ég vísaði í, í færslunni hér að neðan. Nú er hægt að nálgast þessa upptöku inni á You Tube. Ég get ekki staðist mátið og birt viðtalið við hann hér. Það skal tekið fram að viðtalið er tekið upp sl. sunnudag.

Mundu svo að taka afstöðu fyrir n.k. laugardag! Ég get ekki sagt þér hvað þú átt að kjósa en ég mæli með því að þú gefir Druslunni á Bak við Stýrið frí í þessum kosningum!


mbl.is Háir styrkir frá Baugi og FL
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég leiðrétti þetta hlutfall kannski pínulítið

Ég hef auðvitað áhyggjur af því að konur skuli ekki vera fleiri á framboðslistum flokkanna, sem bjóða fram til alþingiskosninga, en raun ber vitni. Það vekur t.d. athygli að hér í norðausturkjördæmi eru karlar í tveimur efstu sætum allra framboðanna nema hjá Vinstri grænum og Borgarahreyfingunni.

Hjá Borgarahreyfingunni eru það Herbert Sveinbjörnsson og Björk Sigurgeirsdóttir sem skipa tvö efstu sætin.Björk Sigurgeirsdóttir
Herbert Sveinbjörnsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mig langar að vekja athygli á umfjöllun sem framboðin hér í kjördæminu hafa fengið á vefmiðlinum akureyri.net og svæðissjónvarpinu N4. Í kjölfar efnahagshrunsins sl. haust var svæðissjónvarpið reyndar lagt niður en hefur verið endurvakið nú í kosningavikunni.

Akureyri.net er nýbúið að skipta um útlit og ritstjóra en nýr ritstjóri þess er Örlygur Hnefill Örlygsson. Ég hvet ykkur til að sjá flott viðtal sem hann tók við efsta mann á lista Borgarahreyfingarinnar hér í norðaustukjördæmi síðastliðinn sunnudag. Viðtalið er að finna hér.

5. sætiðHilda Jana Gísladóttir, fréttamaður hjá N4, hefur tekið upp viðtal við fimm efstu menn allra framboðanna sem bjóða fram í kjördæminu. Viðtölin við þá sem skipa fimmta sætið var frumsýnt í gærkvöldi. Viðtölin við þá sem skipa fjórða sætið var frumsýnt fyrr í kvöld en viðtölin við efstu menn verða ekki frumsýnd fyrr en n.k. föstudagskvöld eða kvöldið fyrir kosningar.

Það er kona sem skipar fimmta sætið hjá Borgarahreyfingunni hér í norðausturkjördæmi og má finna viðtalið við hana og aðra sem eru í fimmta sæti hinna framboðanna hér.


mbl.is Færri konur á framboðslistum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er það ekki vel við hæfi?

Er það ekki vel við hæfi að vekja athygli á því um hvað hugmyndin um sérstakt stjórnlagaþing snýst með því að tengja útskýringu á því við frétt eins af hörðustu andstæðingum hugmyndarinnarJoyful Það virðist a.m.k. vera full ástæða til að útskýra hugmyndina þar sem það virðast alls ekki allir vera með það á hreinu út á hvað hún gengur. Eftirfarandi er texti sem er að finna inni í síðunni Ákall þjóðarinnar sem er hópur inni á Facebook.

Kjör til stjórnlagaþings og endurskoðun stjórnarskrár [...]

Samtök um lýðræði og almannahag eru samtök fólks sem er fyrst og fremst lýðræðissinnað og krefst þess að Íslandi verði hér eftir stjórnað með hagsmuni almennings í huga. Samtökin krefjast þess að það fari fram endurskoðun á stjórnarskránni og að sú endurskoðun verði gerð af almenningi og fyrir almenning.

Samtökin eru óháð stjórnmálaflokkum og berjast fyrir almannahag og lýðræðis- samfélagi sem hafnar forræði og forréttindum stjórnmálaflokka samtímans. Samtökin telja augljóst að ríkisstjórnir Íslands til langs tíma og stjórnmálaflokkarnir að baki þeim hafi glatað öllum tengslum við raunverulegt líf fólksins í landinu.

Samtökin telja einsýnt að allir núverandi stjórnmálaflokkar séu með einum eða öðrum hætti bundnir á klafa sérhagsmuna og/eða hugmyndafræði sem sé andstæð víðtækum almannahagsmunum og að augljóst sé að nánast öll stjórnarandstaða, hverju nafni sem hún nefnist, bíði ætíð og aðeins eftir að komast að nægtaborðinu sjálf.

Samtökin telja endurskoðaða stjórnarskrá brýnasta mál samtímans og eru sannfærð um að aldrei fyrr hafi verið eins mikil þörf á að endurskoða stjórnarskrána og endurreisa lýðræði á Íslandi, ef landið eigi áfram að teljast til vestrænna lýðræðisríkja. [...]

Til að hagsmuna almennings verði gætt við endurskoðun stjórnarskrárinnar telja Samtökin grundvallaratriði að sú vinna fari fram á sérstöku stjórnlagaþingi sem verður án beinnar aðkomu stjórnmálaflokka og verði með eftirfarandi hætti:

  • Valið verði á stjórnlagaþing úr röðum almennings samkvæmt hefðbundnu 600 manna úrtaki frá Gallup og einnig verði valdir eins margir til vara og þurfa þykir vegna forfalla, áhugaleysis eða vanhæfis. Stjórnlagaþingseta verði fullt starf.
  • Stjórnlagaþingið skal skipulagt og verkinu stýrt af 5 manna sérfræðingahópi með sérþekkingu á stjórnskipunarrétti, mannréttindamálum og lýðræðisumbótum. Æskilegt er að a.m.k. 2 af hópnum séu erlendir sérfræðingar.
  • Stjórnlagaþingið skal endurskoða allar greinar stjórnarskrárinnar og hafa til hliðsjónar þá vinnu sem þegar hefur verið unnin í stjórnarskrárnefnd sem og taka við tillögum frá almenningi, jafnt einstaklingum sem hópum. Fyrri vinnu stjórnarskrárnefndar og aðsendum tillögum skal finna stað ef hægt er, en þó ætíð með almannahag, lýðræði og mannréttindi að leiðarljósi.
  • Endurskoðun stjórnarskrárinnar skal lokið á þremur mánuðum, drögin send til umsagnar hjá innlendum og erlendum sérfræðingum og tilheyrandi alþjóðastofnunum og að því loknu lögð fram til víðtækrar kynningar í einn mánuð.
  • Að lokinni kynningu verður ný stjórnarskrá borin undir þjóðaratkvæði.

Nánari upplýsingar veitir: almannahagur@gmail.com eða sími 892 02 94.


Þetta eru í meginatriðum þær hugmyndir sem Borgarahreyfingin vill að verði starfað eftir við gerð nýrrar stjórnarskár.


mbl.is Dólgsleg árás, segir Björn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband