Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Í nafni siðbótar á vettvangi stjórnmálanna

Ég má til að vekja athygli á þessari síðu og yfirlýsingunni sem hún inniheldur:

Yfirlýsing

Ég er Alþingismaður. Vinnuveitendur mínir eru fólkið í landinu og til þeirra sæki ég umboð mitt.

Sem kjörinn fulltrúi þjóðarinnar heiti ég að:

  • setja hagsmuni þjóðarinnar framar hagsmunum flokksins, sjálfs mín og hvers konar sérhagsmuna.
  • flytja mál, tala og kjósa í hverju máli samkvæmt eigin sannfæringu.
  • gera í alla staði mitt besta til að standa undir því trausti sem mér er sýnt.

Af virðingu við lýðræðið heiti ég að...

  • meta skoðanir og hugmyndir á eigin verðleikum, óháð því hver setur þær fram.
  • virða þá sem eru mér ósammála, kynna mér rök þeirra og skilja til hlítar hvar okkur greinir á.
  • orða skoðanir mínar þannig að leiði til samstöðu og sáttar frekar en sundrungu.

Í anda uppbyggilegrar umræðu heiti ég að...

  • byggja skoðun mína á öllum staðreyndum mála, einnig þeim sem ekki henta mínum málstað.
  • vera tilbúinn að skipta um skoðun ef nýjar upplýsingar, skilningur eða aðstæður kalla á það - og unna öðrum hins sama.

Jafnframt heiti ég því að hafa í huga að aðrir Alþingismenn eru samstarfsmenn mínir – og eru líka hér til að vinna Íslandi vel. Það sem skilur okkur að eru þær leiðir sem við teljum líklegastar til árangurs. Við erum því ekki andstæðingar, heldur samherjar í því að vinna að hagsmunum þjóðarinnar.

Þegar þetta er skrifað hafa 418 skorðað  á alþingismenn að gangast undir þessa yfirlýsingu og þrír alþingismenn gengis opinberlega undir hana. Ef þú vilt bætast í hópinn þá gengur þú einfaldlega í þennan  Facebook-hóp

 


Ég get ekki sagt annað en nei og aftur NEI!

Það er fleirum en mér sem þykir Icesave-málið verða þeim mun yfirgengilegra sem fleira kemur upp á yfirborðið varðandi þessa einkaskuld Björólfanna. Einkaskuld sem mörgum sem fara með völd í samfélaginu er svo yfirgengilega í mun að velta yfir á almenning. Svo yfirgengilega að þeir eru þögulir sem gröfin þegar kemur að stóru spurningunum sem varða þetta mál en belja eins og jötunvaxnar áróðursvélar þegar kemur að því að innprenta þjóðinni að henni beri að standa við skuldbindingar sínar...

Áróðursvélin er svo vel smurð að margir hafa gefist upp á að reyna að setja sig inn í það um hvað málið snýst. Þetta er e.t.v. ekki skrítið þegar það er haft í huga að í hvert skipti sem einhver bendir á lagaleg og jafnvel siðferðisleg vafaatriði varðandi það að íslensku þjóðinni beri að axla þessa skuld rísa upp grimmir varðhundar klíkubræðralagsins sem þrífast á þeirri eiginhagsmunablindu grundvallarreglu að einkaskuldum fjármagnseigendaaðalsins skuli velt yfir á almenning.

Í aðdraganda hrunsins lögðust áróðursvélarnar á eitt um að innprenta þjóðinni það að dýrka svokallaða „útrásarvíkinga“ eins og íslenskt karlalið í hand- eða fótbolta. Furðumargir voru ginkeyptir fyrir þessari markaðsetningu á gírugu og þrautþjálfuðu karlaliði, sem eins og nú hefur komið í ljós, kepptu innbyrðis í því að komast sem lengst í að mala undir sjálfa sig. Þeir svifust einskis í að ná sem lengst heldur léku á stjórnkerfið og lagarammanna enda voru þeir með siðblinda ráðgjafa og þjálfara á sínum snærum sem styrktu þá í að ná því markmiði að fremja og komast upp með hinn fullkomna glæp!

Nú er það undir okkur, þér og mér, komið hvort þeim tekst það eða ekki! Ef við krefjumst réttlætis þá hljótum við að fara fram á það að gerendur hrunsins sæti ábyrðg. Margir reiknuðu eflaust með því að úrslit kosninganna sl. vor yrðu meðal annars liður í því að opna dyr að réttlátu uppgjöri. Langflestir hljóta að hafa orðið fyrir sárum vonbrigðum þegar það kom í ljós hver túlkun núverandi ríkisstjórnar er á réttlætinu sem samfélagið kallaði eftir.

Hagsmunahópur Myndin hér að ofan er fengin að láni hjá Sigurlaugu Ragnarsdóttur en ég þekki uppruna hennar ekki frekar en hvet ykkur til að skoða það vandlega hverjir það eru sem brosa hér saman út að eyrum svo útkoman kallar á hugrenningatengsl við velheppnaða samstillingu og bræðralag.

Auðvitað má velta því fyrir sér frá ýmsum hliðum hvað ræður því að núverandi ríkisstjórn forgangsraði verkefnum í nákvæmlega sömu röð og sú sem vék í janúar á síðasta ári. Líklegasta skýringin er þó sú að glæpamennirnir sem höfðu hreiðrað svo vel um sig í samfélaginu, að þeir „áttu landið“ og fjármögnuðu stjórnmálamennina, hafi slíkt hreðjatak á stjórnmálamönnunum að þeir sjái ekki út fyrir sjálfheldu spillingarpottsins sem þeir eru dottnir ofan í.

Það er a.m.k. ljóst að það geta ekki verið neinir heilbrigðir hagsmunir sem liggja að baki því að fulltrúar núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnar hafa verið fullkom- lega sammála um að eini möguleiki þjóðarinnar til endurreisnar sé að greiða götu fjármagnseigenda og innlendra og erlendra fjármálastofnana. Grunnurinn að því að Icesave-skuldirnar, sem örlátur styrktaraðili velflestra þingmanna sat uppi með vegna fífldjarfra fjármálaumsvifa, skuli velt yfir á almennnig var lagður í tíð stjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.

Úrklippan hér að neðan, sem er tekin úr Fréttablaðinu, er athyglisverð fyrir margra hluta sakir en hér er henni ætlað að undirstrika það að grunnurinn að Icesave-samningavandanum var ekki síður skapaður í síðustu ríkisstjórn. (Smelltu á myndina þar til þú getur lesið textann)IcesaveGrunnurinn að því að einkavinur alltof margra sem tilheyra íslenskri valda- stétt eignaðist banka var lagður í stjórnartíð Sjálfstæðis- og Framsóknar- flokks. Og nú hafa Samfylking og Vinstri grænir tekið upp hanskann fyrir þennan  harðsvíraða eiginhagsmunafursta og berjast á hæl og hnakka fyrir því að hann geti áfram haft töglin og haldirnar í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Tilgangurinn er mér hulin ráðgáta. En ég hef þó vissulega velt því fyrir mér hvort hann geti hangið saman við það að „þau verði að gera það“ sjálfra sín vegna. Á móti muni þau njóta áframhaldandi fjárhagslegs stuðnings hans við að viðhalda eigin völdum.

Til áréttingar er aðferðin, sem allir framantaldir reiddu sig á, sú að losa menn af sama sauðahúsi og Björgólfur Thor, við gífurlegar skuldir sínar en láta mig og þig borga þær í staðinn! Ég segi NEI! Hingað og ekki lengra! Ég neita að taka á mig afleiðingarnar af flíruskap nöðrunnar sem íslenska valdastéttin hefur alið sér við brjóst. Ég neita að rýja mig og landið inn að skinni fyrir slíka afætu. Ég neita að beygja mig undir alræmda valdastétt nýlenduþjóða því það mun éta land mitt inn að beini eins og aðrar nýlendur sínar hingað til.
Ísland étið inn að beini
Síðast en ekki síst segi ég nei við því að fjármagnselítan komist upp með það í krafti stjórnvalda að velta sínum einkaskuldum enda- laust yfir á almenning. Það er kominn tími til að þeir taki út fyrir mistökin af vanhugsuðum gróðaaðgerðum sínum sjálfir! Það er kominn tími til að ég og allur almenningur fái frið fyrir slíkum siðvilltum eiginhagsmunaseggjum!

Við erum heldur ekki ein því eins og þeir vita, sem hafa fylgst með umræðunni um þessi mál í erlendum fjölmiðlum, þá treysta margir í alþjóðasamfélaginu á það að við sýnum einmitt það fordæmi að brjótast undan oki þess afætusamfélags sem auðmenn heimsins hafa byggt upp í í kringum sig og sína.


mbl.is Standi saman um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mangaðar ræður fluttar á Austurvelli

Á mótmælunum á Austurvelli í gær (23.01.10) voru fluttar tvær magnaðar ræður. Ræðumennirnir sem fluttu þær voru þeir: Jóhannes Björn Lúðvíksson, höfundur bókarinnar Falið vald, og Atli Steinn Guðmundsson, ungur fjölskyldufaðir sem hefur ákveðið að flytja úr landi ásamt fjölskyldu sinni vegna ástandsins og aðgerðarleysis stjórnvalda.

Hér má lesa stórkostlega ræðu Jóhannesar Björns Lúðvíkssonar þar sem hann segir m.a:

Elítan sem hefur hreiðrað um sig í skjaldborginni og sett fólkið út á gaddinn kemst upp með myrkraverk sín í skjóli leynimakks og pukurs sem lengi hefur viljað loða við íslenska stjórnsýslu. Þótt tugþúsundir Íslendinga hafi verið gerðir eignalausir þá heldur leynimakkið áfram. Hvar eru nákvæmir listar yfir alla pólitíkusa sem fengu kúlulán og aðra óeðlilega fyrirgreiðslu frá glæpagenginu sem setti landið á hausinn? Hvers vegna fær fólkið sem verður að borga fyrir glæpinn ekki nákvæmar upplýsingar um hvað bankarnir eru að afskrifa?

Ræða Atla Steins er ekki síður stórkostleg en ég hef ekki fundið hana í jafnaðgengilegu formi hér á Netinu og ræðuna hans Jóhannesar. Ég birti hana því alla en vek sérstaka athygli á þessum orðum hans: 

Ég fylltist öryggistilfinningu þegar Jóhanna steig fram í kosningabaráttunni og lofaði þjóðinni skjaldborg um þær fasteignir sem nú eru á leið undir hamarinn í þúsundatali eftir 1. mars næstkomandi.

Reyndin varð önnur. Skjaldborg Jóhönnu Sigurðardóttur reyndist stærsti gúmmí- tékki íslenskra kosningaloforða og er nú á góðri leið með að verða brandari ársins 2009. Hin týnda borg Samfylkingarinnar, sveipuð dulúð, myrkri og himinháum vöxtum. Í stað þess að hyggja að atvinnulausu fjölskyldufólki á leið í gjaldþrot var stefnan sett til Brussel. Evrópusambandið sem öllu á að bjarga – í fyrsta lagi árið 2012 þegar hér verður löngu sviðin jörð.

Hvet ykkur svo endilega til að lesa ræðuna alla:

Góðir Íslendingar

Náttum fóru seggir
negldar vóru brynjur,
skildir bliku þeirra
við inn skarða mána.

Þetta stutta en firnasterka vísukorn er komið úr Völundarkviðu og lýsir orrustu sem er okkur fjarlæg og óþekkt. Kveðskapurinn á þó vel við hér í okkar samfélagi ársins 2010 þar sem sannarlega hafa seggir farið hér um að næturþeli og búið þjóðinni kaldar kveðjur með ósýnilegu og torskildu hagkerfi sem nú er á góðri leið með að binda íslenska skattgreiðendur á þann klafa sem lengi mun uppi verða.

Mér var boðið að koma hingað í dag og ræða um þá ákvörðun okkar sambýliskonu minnar að flytjast búferlum til Noregs með rísandi sól. Mér rann auðvitað blóðið til skyldunnar og þáði það góða boð enda tel ég mér það ljúft að greina frá forsendum og aðdraganda þeirrar ákvörðunar okkar.

Raunar vorum við orðin nokkuð viss í okkar sök þegar undir lok síðasta sumars um að við stefndum á brottflutning og sennilega værum við farin ætti ég ekki þennan vetur eftir af háskólanámi. Brottför er því ráðgerð í maí.

Okkar val stóð á milli Hollands og Noregs, þeirra tveggja landa þar sem minnst atvinnuleysi er innan Evrópska efnahagssvæðisins, flóknari útreikningar bjuggu nú ekki að baki. Eftir að vinir okkar og kunningjar tóku að flykkjast til Noregs og við fórum að heyra viðbrögð þeirra við norsku samfélagi varð það fljótt ofan á að hverfa þangað enda tungumálið nær okkur og hægara um vik að fá vinnu en í Hollandi þar sem atvinnuleysi hefur aukist nokkuð.

Þá skemmdi það ekki fyrir að vinafólk okkar hefur átt láni að fagna hjá frændum okkar Norðmönnum og ber saman um það að þarna sé komið samfélag sem styðji við bakið á þegnunum og aðstoði þegar á móti blæs.

Reynsla mín hérna heima er sú að þegar á móti blæs, blási stjórnvöld enn meira, og í sömu átt. Ég ætla að gera þá játningu hér og nú, frammi fyrir guði og mönnum, að greina frá því að ég kaus Samfylkinguna í kosningunum vorið 2009. Þau mistök geri ég bara einu sinni á ævinni. Ég trúði Jóhönnu Sigurðardóttur. Félagsmálaráðherrann gamli sem barðist með kjafti og klóm fyrir litla manninn um það leyti sem ég var að fermast.

Ég fylltist öryggistilfinningu þegar Jóhanna steig fram í kosningabaráttunni og lofaði þjóðinni skjaldborg um þær fasteignir sem nú eru á leið undir hamarinn í þúsundatali eftir 1. mars næstkomandi.

Reyndin varð önnur. Skjaldborg Jóhönnu Sigurðardóttur reyndist stærsti gúmmítékki íslenskra kosningaloforða og er nú á góðri leið með að verða brandari ársins 2009. Hin týnda borg Samfylkingarinnar, sveipuð dulúð, myrkri og himinháum vöxtum.
Í stað þess að hyggja að atvinnulausu fjölskyldufólki á leið í gjaldþrot var stefnan sett til Brussel. Evrópusambandið sem öllu á að bjarga – í fyrsta lagi árið 2012 þegar hér verður löngu sviðin jörð.

Hvað er þá orðið okkar starf í sex hundruð sumur, höfum við gengið til góðs, götuna fram eftir veg? Mér er það til efs.

Skattar og aftur skattar er hið eina meðal sem ríkisstjórn Samfylkingar og vinstri grænna þekkir. Mér reiknaðist til, eftir stutta rannsóknarvinnu, að hæsti leyfilegi virðisaukaskattur innan ESB sé 25 prósent. Hér æða menn í aðildarviðræður og byrja svo á því að taka upp 25,5 prósent virðisaukaskatt. Það er gott veganesti til Brussel.

Góðir Íslendingar.

Viljum við 25,5 prósent virðisaukaskatt?

Viljum við verðtryggð okurlán?

Viljum við nýtt heimsmet í nauðungarsölum?

En … viljum við réttlæti?

Því miður – það er bara ekki á matseðlinum.

Kæru samlandar. Ég verð sennilega hvorki forsætisráðherra né forseti úr þessu. Því er þetta sennilega eina skiptið sem ég fæ að ávarpa svo stóran hóp hér á Austurvelli og mér þykir sannarlega vænt um það tækifæri.

Mér þykir vænt um að fá að segja ykkur frá því að ég ætla að flytja burt af landi mínu áður en hæstvirtur fjármálaráðherra skattleggur sjálft andrúmsloftið.

Mér þykir vænt um að segja ykkur að ég kæri mig ekki um að deila 103.000 ferkílómetrum með mönnum sem fengu að eignast heilan banka fyrir ágóða af dularfullri bruggverksmiðju í Rússlandi. Sannara reyndist þó að kaupféð var fengið að láni frá öðrum banka, er nú horfið í kreppunnar skaut og aldrei það kemur til baka.

Okkur sem hér stöndum er hins vegar ætlað að greiða til baka ofurskuld þessara sömu manna við breska og hollenska sparifjáreigendur sem hafa ekkert til saka unnið annað en að láta glepjast af hinni tæru snilld Landsbankans. Það er ekki öfundsvert hlutskipti að fæðast hér á landi í dag, með tíu milljón króna yfirdráttarheimild – í botni.

Ég skvetti ekki rauðri málningu á hús manna um nætur, ég hef ekki í hótunum við útrásarvíkinga eða hraðlygin stjórnvöld. En ég fer. Þannig kýs ég að sýna mitt álit á þeirri vitleysu sem hér blasir við hvert sem litið er. Eftir endalaust röfl þings og stjórnar um ekki neitt, þar á meðal hvenær þingmenn fái næst matarhlé, er ekkert í sjónmáli. Ekki neitt!

Ég hef engan áhuga á að horfa hér upp á menn á borð við Sigurjón Árnason steypa þjóðinni í mörg hundruð milljarða skuld og fara svo að kenna fjármálaverkfræði við Háskólann í Reykjavík. Ekki fannst mér skemmtilegra að lesa um það í fjölmiðlum nú í byrjun janúar að maðurinn lægi á sólarströnd á Kanaríeyjum meðan Íslendingar reyndu af veikum mætti að landa einhvers konar greiðsluáætlun gagnvart Bretum og Hollendingum. Svo ég vitni nú í gamalt og gott dægurlag: Er ekki kominn tími til að sjá og sigra….Sigurjón Árnason?

Enn minni áhuga hef ég á að horfa upp á Björgólf Guðmundsson akandi um götur borgarinnar á 12 milljóna króna jeppa, marggjaldþrota, og Björgólf Thor valsandi um sína mörg hundruð milljóna villu í London.

Hvenær ætla þessir herramenn að bæta þjóðinni þann skaða sem þeir hafa valdið?

Hvenær ætla þeir að segja eitt einasta orð við þjóðina?

Hvenær ætla þeir að opna þá feitu bankareikninga sem þeir eiga á Tortola og fleiri skattaskjólum og bæta þessari og næstu kynslóðum tjónið sem þeir ollu þegar þá vantaði pening til að gefa viðskiptavinum sínum gull að éta einhvers staðar í helvíti?

Hvenær!?!

Ég segi bara eins og Guðmundur jaki heitinn sagði einhvern tímann í ræðu: „Hvílíkur helvítis kjarkur!“

Íslenskir verktakar krefjast hér stórframkvæmda áður en þeir verða hungurmorða. Og nú er lag. Geymum álverin, hátæknisjúkrahúsið og netþjónabúið. Það sem Íslendinga vantar er eitt stórt, rammgert fangelsi í úkraínskum barokkstíl, staðsett á miðhálendinu. Það myndi ég kalla tæra snilld.

Hér stendur hnípin þjóð í vanda og óttast reiði breskra og hollenskra yfirvalda. Var það ekki þessi sama þjóð sem skaut úr fallbyssum á breska togara vorið 1973 og gaf dauðann og djöfulinn í reiði breskra ráðamanna. Ég sé ekki að Gordon Brown sé meiri bógur en Edward Heath og Harold Wilson þótt hann hafi einhver hryðjuverkalög á kantinum. Auðvitað á hver einasti Breti og Hollendingur að fá sitt sparifé til baka, annað tek ég ekki í mál. En greiðslubyrðin má ekki vera þannig að þjóðin sé sigld í kaf. Og þeir sem ábyrgðina bera eiga að leggja allt sitt fé á borðið, hvar sem það er falið.

Eitt er Icesave og annað er sú skuldabyrði sem komin er til af verðbólgu og gengishruni. Þar ættu lánastofnanir vissulega að axla ábyrgð en skjaldborg Jóhönnu og félaga hennar er hins vegar umhverfis þær stofnanir. Mín lán hækkuðu um tæpar 40 milljónir á 16 mánuðum. Í sex mánuði samfleytt hækkaði myntkörfulán frá Frjálsa fjárfestingarbankanum að meðaltali um 77.000 krónur á dag.

Það kemur ekki til greina að ég borgi þessa hækkun. Ekki til að tala um! Þegar lögfræðingur bankans sendi mér bréf til að tilkynna mér um nauðungarsölu kom þar fram að innheimtukostnaður væri 923.107 krónur, fyrir utan virðisaukaskatt. Það er dýrt að skrifa eitt bréf á þessum síðustu og verstu.

Við Íslendingar eigum heimsmet í fleiru en myntkörfulánum, sköttum og bridge. Við eigum nefnilega líka hæsta fílabeinsturn á Vesturlöndum. Þar er komið félags- og tryggingamálaráðuneytið. Þar situr fyrrverandi bankaráðsmaður úr Kaupþingi og glottir við tönn eins og Skarphéðinn í Njálu.

Þessi maður heitir Árni Páll Árnason og sat nýlega fyrir svörum í þættinum Í Bítið á Bylgjunni. Lítið kom það á óvart að nákvæmlega helmingur þeirra hlustenda sem hringdu inn spurði Árna Pál hvenær hann ætlaði að fara að gera eitthvað í málum þjóðarinnar. Árni sagðist vera búinn að gera alveg fullt og benti á hin miklu greiðslujöfnunarúrræði sín. Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar að í fyrsta lagi eru úrræði Árna svo flókin að þau skilur ekki nokkur maður og í öðru lagi virðist það úrræði sem lengst gengur, eftir að hagfræðingar þýddu það á mannamál, lækka greiðslubyrði húsnæðislána um 17 prósent. Þetta er nú aldeilis munur, sérstaklega þegar báðar fyrirvinnur heimilisins eru án atvinnu eins og sums staðar er. Hvílíkt björgunarvesti.

Í kvöldfréttum sjónvarpsins á þriðjudag lýsti Árni Páll því svo yfir að engum væri greiði gerður með frekari frestun á nauðungarsölum. Hagur skuldarans væri einfaldlega að klára sín mál gagnvart lánardrottnum. Þar höfum við það. Hæstvirtur ráðherra virðist telja að Ísland skorti fleiri tóm hús í eigu banka og lánastofnana. Gott og vel. Samkvæmt kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær á Landsbankinn einn nú 428 fasteignir sem hann hefur hirt upp í skuldir. Best að fjölga aðeins í því safni.

Árni virðist líka álíta að hér sé bara allt í lukkunnar velstandi og þjóðin sigli hraðan byr út úr ógöngum sínum. Lái honum hver sem vill. Mér fyndist lífið ábyggilega bara fínt ef ég sæti inni á skrifstofu á ráðherralaunum með eðalvagn og einkabílstjóra fyrir utan. Skítt með það þótt atvinnuleysisskrá fitni um 40 manns á dag og fólk streymi frá landinu í leit að þjóðfélagi þar sem það getur lifað með reisn.

Stjórnmálamenn sem hafa aldrei verið starfsmenn á plani verða aldrei réttsýnir stjórnmálamenn. Enginn ætti að fá að gegna embætti félagsmálaráðherra nema að undangenginni námsvist í félagslegri íbúð í Þórufelli með 50 þúsund krónur á mánuði til að lifa af og frítt í strætó og sund. Mér skilst að flugfreyjustarf hjá Loftleiðum gefi líka af sér ágæta félagsmálaráðherra – en það skilar afleitum forsætisráðherra.

Góðir Íslendingar. Síðastliðinn sunnudag, 17. janúar, voru 160 ár liðin síðan skólapiltar úr Lærða skólanum lentu upp á kant við rektor sinn, Sveinbjörn Egilsson. Þeir gengu fylktu liði um götur Reykjavíkur, sem þá var vart nema bær, og hrópuðu „Rektor Sveinbjörn Egilsson, pereat!“ sem á latínu útleggst hann farist eða tortímist.

Núna, 160 árum síðar, ætla ég að snúa pereati þeirra skólapilta upp á ríkisstjórn Íslands. Ekki þá einstaklinga sem hana skipa, en stjórnina sem pólitískt fyrirbæri. Góðir fundarmenn, við skulum hrópa þrisvar sinnum ríkisstjórn Íslands, pereat.

Góðir Íslendingar.

Látum aldrei aftur bjóða okkur upp á þá afarkosti sem okkur eru nú settir!

Látum aldrei aftur einkafyrirtæki í eigu glæpamanna grafa okkur lifandi í skuldum!

Og látum aldrei aftur stjórnmálamenn landsins segja framan í stútfullt Háskólabíó „Þið eruð ekki þjóðin“! Því svo sannarlega erum við sterk þjóð sem gengið hefur fylktu liði gegnum þykkt og þunnt. Þjóð með þjóðum!

Ég segi hingað og ekki lengra og kveð þetta land. Ykkur, samlanda mína, þjáningarbræður og -systur, hvet ég og kveð með þessum orðum:

Íslendingar, stöndum upp!


Borgarafundur: Sálarheill þjóðar á krepputímum

Fyrsti borgarafundur ársins var haldinn undir þessari yfirskrift síðastliðinn fimmtudag í Deiglunni. Fundarstjóri var Edward H. Huijbens en hann hefur stýrt langflestum fundanna sem borgarafundanefndin hér á Akureyri hefur staðið fyrir. Enda annar eins fundarstjóri vandfundinn.

Að þessu sinni hóf Edward fundinn með örstuttu ávarpi þar sem hann vakti athygli á efni næstu funda sem borgarafundanefndin er með í undirbúningi og svo því að um þessar mundir samanstendur borgarafundanefndin aðeins af einum nefndarmanni sem langaði að nota tækifærið og óska eftir fleirum til samstarfs.

Borgarafundur á Akureyri 14.01.10Á fundinn mættu í kringum fjörutíu gestir og var ánægjulegt að sjá mörg ný andlit og svo aldursbreiddina sem þar var að sjá.  Spurningunum sem varpað var fram undir yfirskrift fundarins varða líka ekki síður þá yngri en hina sem eldri eru en þær voru:

* Hvernig komumst við heil í gegnum það ástand sem nú er uppi í samfélaginu?
* Hvernig er andleg og félagsleg staða almennings?
* Er einhver ástæða til að hafa áhyggjur af sálarheill þjóðarinnar.

Framsögumennirnir sem tóku að sér að fjalla um þetta efni voru þrír en þegar kom að umræðum tóku þeir líka sæti í pallborði ásamt fjórum til viðbótar. Þessir fluttu framsögur á fundinum:

  • Sigmundur Sigfússon, geðlæknir
  • Pétur Maack Þorsteinsson, sálfræðingur
  • Þuríður Lilja Rósenbergsdóttir, náms- og starfsráðgjafi í grunnskóla 

Hér á eftir ætla ég að gera grein fyrir því sem fram kom í ræðum þeirra en ég bendi líka á að glærur þeirra eru settar sem krækjur neðst í þessa færslu.

Framsaga Sigmundar Sigfússonar

Sigmundur byrjaði mál sitt á því að vara við því að hann ætlaði sér ekkert að vera frumlegur í ræðu sinni heldur myndi hann vitna í aðra. Þetta dró hins vegar ekkert úr vægi orða hans. Fyrst vitnaði hann í þessi orð landlæknis sem hann lét hafa eftir sér við hrunið, haustið 2008:

Kostnaður hins opinbera við heilbrigðisþjónustuna hér á landi nemur um 20% af ríkisútgjöldum. Líklegt má telja að krafist verði sparnaðar í heilbrigðiskerfinu ekki síður en öðrum sviðum.

Landlæknisembættið hefur lagt áherslu á að sá sparnaður komi ekki þar sem ætla má að helst verði aukning þegar áhrifa kreppunnar fer að gæta í meira mæli og að sem minnst verði skorið niður í almennri heilsugæslu og á geðsviði. (glæra 1 í glærupakkanum frá Sigmundi sem er krækt neðst í þessa færslu)

Sigmundur Sigfússon

Sigmundur minnti á það sem varð hér á Akureyri til vitnis um að ekki var farið eftir þessum tilmælum. Dagdeild geðdeildar Sjúkrahússins hér fyrir norðan var nefnilega lokað sl. vetur.

Sigmundur sagði að sú staðreynd að dregið hefur úr  neyslu geðlyfja að undanförnu haf leitt til þeirrar ályktunar að andlegt ástand þjóðarinnar hafi batnað. Hann benti á að það væri ekki síður líklegt að neyslan hafi dregist saman vegna minnkandi fjárráða. Þá vék hann að því hvað við gætum lært af Finnum. Í því sambandi vísaði hann í Skýrslu nefndar um sálfélagsleg vibrögð við efnahagskreppunni frá 5. ágúst 2009.

Nefndinni hafa borist gögn frá Finnlandi og fengið til sín finnska fyrirlesara. Kjarninn í því sem fram hefur komið hjá finnsku fræðimönnunum er „að það sé ekki aðeins mannúðlegt að þétta sálfélagslega netið í kringum börn, unglinga og atvinnuleitendur á tímum kreppu og atvinnuleysis“ heldur sé það að öllum líkindum ódýrara þegar upp er staðið (sjá glæru 3).

Ekki er t.d. hægt að útiloka að mikil aukning í langtímaörorku ungs fólks og fjölgun barnaverndarmála í Finnlandi 2000-2007 tengist miklum niðurskurði í heilbrigðis- og félagsþjónustu þar í landi á tímum kreppunnar. (glæra 3)

Því næst brá Sigmundur upp glæru með yfirliti yfir þær stofnanir sem vaka yfir velferð landsbúa (sjá glæru 4). Þá vék hann að orðum Kristins Tómassonar, yfirlæknis Vinnueftirlitsins, þar sem hann hefur sett „torskiljanlegar, válegar fjármálafréttir [...] í samhengi við framlög til heilbrigðismála á Íslandi.“ (glæra 5) og líka það sem kemur fram í grein hans um heilsufar og efnahagsmál en hún birtist í ellefta tölublaði Læknablaðsins árið 2008. (Hér er krækja í greinina)

Það sem Sigmundur hafði eftir Kristni Tómassyni tengist annars vegar atvinnu en hins vegar dánartíðni. Varðandi atvinnuna hafði hann m.a. þetta eftir Kristni: „Það eru til margar rannsóknir sem undirstrika slæm áhrif atvinnuleysis á heilsu fólks, lífsgæði og ævilíkur. Þannig að það er forgangsverkefni að halda atvinnustigi háu.“  og líka þetta: „án heilbrigði einstaklinga verður enginn hagvöxtur, velferð eða velmegun.“ (glæra 6) Varðandi dánartíðnina hafði Sigmundur m.a. þetta eftir Kristni: 

Í rannsókn á áhrifum efnahags á dánarmein í eina öld sýndi Brenner tengsl milli hagvaxtar og lækkandi dánartíðni á síðustu 100 árum í Bandaríkjunum. Hann sýndi að með batnandi almennum hag lækkaði dánartíðni, [...] Þeim sem eru verra settir efnahagslega og félagslega í samfélaginu er hættara við flestum sjúkdómum svo sem [...] geðsjúkdómum auk vel flestra annarra sjúkdóma. (glæra 7)

Þá vék Sigmundur orðum sínum að grein Ólafs Guðmundssonar, yfirlæknis BUGLs, sem birtist í þriðja tölublaði Læknablaðsins árið 2009. (Þessa grein má nálgast hér) Þar segir Ólafur frá rannsókn sem var gerð í Finnlandi til að meta áhrif finnsku kreppunnar á geðheilsu barna þar í landi.

Ályktað var að efnahagsþrengingar voru áhættuþáttur fyrir geðheilsu barna í gegnum fjárhagsálag, geðheilsu foreldra og uppeldi. Niðurskurður félagslegs stuðnings og geðheilbrigðisþjónustu er því sérlega varhugaverður á krepputímum.  (glæra 8)

Í grein sinni varpar Ólafur Guðmundsson fram spurningunni um það hvernig líðan íslenskra ungmenna hafi verið fyrir kreppu og vísar þar í rannsókn sem UNICEF gerði meðal 15 ára nema á Norðurlöndunum árið 2007. Þar kom í ljós að íslensku ungmennin skáru sig töluvert frá meðaltalinu varðandi þá þætti sem voru til rannsóknar (sjá glæru 9 og grein Ólafs).

Sigmundur vísaði líka til niðurstaðna úr rannsókn sem var gerð á geðheilsu íslenskra framhaldsskólanema árið 2004. Að mati Sigmundar sýna niðurstöður hennar að frekar hátt hlutfall unglinga glímdi við einhvers konar geðröskun á þessum tíma (sjá glæru 10). Hann benti á að það væri ástæða til að gera aðra slíka rannsókn nú til samanburðar.

Því næst setti Sigmundur upp glærur sem sýna fjölgun öryrkja á Íslandi frá sjöunda áratug síðustu aldar. Eina sem sýnir fjölgun öryrkja á Íslandi frá árinu 1962 og aðra sem sýnir fjölgun öryrkja með geðraskanir frá sama tíma. Þar kemur fram að nokkur fjölgun hefur verið að eiga sér stað (sjá glærur 11-12).

Það sem vakti einkum athygli mína er hin mikla fjölgun sem hefur orðið á öryrkjum með geðraskanir. Einkum meðal karla en þeir voru 17,4% árið 1962 en voru orðnir 40,8% árið 2005. Það er sennilegt að opnari umræða og ákveðin viðurkenning á tilvist geðsjúkdóma hafi haft einhver áhrif í sambandi við þessa miklu fjölgun sem hefur orðið.
Borgarafundur á Akureyri 14.01.10Þá vék Sigmundur að grein Guðmundar Jónssonar, prófessors við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, sem birtist í Sögu sl. vor. Greinin heitir Efnahagskreppur á Íslandi 1870-2000. (Ég má til að benda hér á bloggfærslu Ögmundar Jónassonar um þessa grein). Í þeim punktum sem Sigmundur dró fram úr grein Guðmundar var m.a. minnt á hér varð mjög alvarlegt atvinnuleysi á árunum 1968-1970. Það varð mest 7% í janúar 1969. Fólk streymdi þá úr landi í atvinnuleit. Fólksflóttinn varð mestur 2200 manns árið 1970 (sjá glæru 13)

Það kemur líka fram í grein Guðmundar að hér á landi hafi orðið meiri efnahagsveiflur eftir 1914 en í flestum öðrum Evrópuríkjum. Af yfirliti hans yfir það hve efnahagslægðir eru tíðar hér á landi dró Sigmundur þá ályktun að það væri ekkert síður mikilvægt að hafa leiðbeiningar í Símaskránni hvernig skyldi bregðast við efnahagskreppum en jarðskjálftum.

Sigmundur vitnað því næst bæði til Freuds og Sókratesar varðandi sálarheilbrigði. Sókrates sagði m.a. að skynsamri og hófsamri sál veittist auðvelt að viðhalda heilsunni en „óhóf leiði til vanheilsu. (glæra 15) Í þessu sambandi benti Sigmundur á að það væri nauðsynlegt fyrir sálarheill þjóðarinnar að halda vanheilum stjórnendum frá og að nýlegar rannsóknir sýndu að siðblinda væri tífalt algengari meðal stjórnenda en venjulegs fólks.

Í lok þessara vangaveltna um sálarheill íslensku þjóðarinnar á krepputímum varpaði Sigmundur upp þessari tölfu með skilmerkingu Eriksons á geðheilbrigði:

Skilmerki Eriksons frá 1950

Geðheilbrigði

Geðræn vandamál

Grundvallartraust

Vantraust

Frumkvæði

Efasemdir

Skýr sjálfsmynd

Sektartilfinning

Geta tengst öðrum náið

Skömmustukennd

Þá lauk Sigmundur Sigfússon máli sínu með eftirfarandi orðum: „Sálarheill þjóðarinnar tel ég undir því komna að okkur takist að læra af reynslunni og rifja upp gömul og góð gildi [en] firringin og sýndarveruleikinn víki.“ (glæra 17)

Framsaga Péturs Maacks Þorsteinssonar

Pétur Maack ÞorsteinssonÁ eftir ræðu geðlæknisins tók sálfræðingurinn við. Hann hóf mál sitt á að ítreka það að atvinna væri grunnforsenda sálarheillar. Af þessum ástæðum byrjaði Pétur á að skoða tölur varðandi atvinnuleysi síðasta áratuginn eða frá 2000/2001 til loka ársins 2009. Þessi yfirlit eru á gærum sem má finna í krækju, merktri Pétri, í lok þessarar færslu.

Fyrsta glæran sýndi heildaratvinnuleysi frá janúar 2001 til nóvember 2009. Það kemur sennilega engum á óvart að þar kom fram að atvinnuleysi jókst gríðarlega í október 2008. Næsta glæra sýndi hlutfall langtímaatvinnu- leysis af atvinuleysi á síðustu níu árum eða frá febrúar 2000 til nóvembers á síðasta ári. 

Yfirlitið sýnir að þetta hlutfall hefur lengst af rokkað frá því að vera rétt rúmlega 10% til tæplega 40%. (sjá glæru 2) Síðasta sumar fór þeim sem voru búnir að vera atvinnu- lausir lengi hins vegar fjölgandi og hlutfall þeirra meðal atvinnulausra fór upp fyrir 50% sl. haust.

Þriðja glæran sýnir svo fjölda langtíma- atvinnulausra. Það er rétt að taka það fram að þetta hugtak á við þá sem hafa verið atvinnulausir í sex mánuði eða lengur. Af línuritinu á glæru 2 má sjá að undanfarin ár hefur hlutfall þeirra sem eru að glíma við langtímaatvinnuleysi oftast verið á bilinu 20-30%. Þessari tölu þarf að ná niður fyrir 10% samkvæmt því sem kom fram í máli Péturs.

Þegar tölurnar á bak við þessar hlutfallstölureru skoðaðar kemur í ljós að fjöldinn sem um er að ræða hefur rokkað frá nokkrum hundruðum til tæplega 2000 manns. Í ársbyrjun 2008 voru þetta 438 einstaklingar en frá því í ársbyrjun 2009 hefur þessi hópur farið ört vaxandi og taldi 7.394 einstaklinga í nóvember á síðasta ári.

Pétur benti á að það væru langtímaatvinnulausir sem væri ástæða til að hafa mestar áhyggjur af varðandi andlega líðan. Hann velti því hins vegar fyrir sér hvort það væri endilega þannig að andleg líðan þeirra væri eitthvað verri en annarra hópa? Til útskýringar þessum vangaveltum varpaði hann upp þessari mynd:
Líðan er háð túlkun á því sem hendirÍ stuttu máli á þessi mynd að undirstrika það að líðan eða viðbrögð eru háð því hvernig hver og einn hugsar eða túlkar atburðinn sem hann upplifir. Í þessu samhengi benti Pétur á að „það hefði verið áfall að missa vinnuna þegar allir sem vildu hafa vinnu höfðu kost á því að vera í vinnu. Hins vegar er margt sem bendir til þess að túlkunin á því að missa vinnuna hafi breyst þegar fleiri eru í þeim sporum að vera atvinnulausir.“

Á síðustu glæru Péturs koma fram þau samflélagslegu viðbrögð sem eru fyrir hendi hér (sjá glæru 5). Þetta eru þær leiðir sem atvinnulausir geta nýtt sér. Mörg úrræði hafa verið kynnt í því sambandi en það er spurning hvernig til tekst. Tíminn einn getur leitt það í ljós en miðað við reynslu Finna er of snemmt að draga nokkrar ályktanir auk þess sem það vantar rannsóknir og/eða að draga saman þær staðreyndir sem þegar liggja fyrir um sálarástand þjóðarinnar og tengsl þess við kreppuna.

Pétur sagði að ef hann talaði bara út frá sjálfum sér þá fyndi hann fyrir neikvæðum áhrifum þess að fylgjast of náið með fréttum undangegna mánuði. Hann sagði að ef hann kynntist samfélaginu bara í gegnum fjölmiðla væri veruleikinn vissulega svartur en þegar hann liti í kringum sig gengi lífið í aðalatriðum sinn vangagang. Af þessu dró hann þá ályktun að það væri vænlegast fyrir sálarheill þjóðarinar að einbeita sér að einhverju heilbrigðara en fréttafluttningi fjölmiðlanna. Það væri a.m.k. nauðsynlegt að finna eitthvert mótvægi.

Framsaga Þuríðar Lilju Rósenbergsdóttur
Þuríður Lilja Rósenbergsdóttir
Þuríður byrjaði ræðu sína á því að kynna hlutverk náms- og starfsráðgjafa. Þar dró hún m.a. fram að þeir veita margvíslega ráðgjöf varðandi þætti sem lúta að náminu sjálfu og svo persónulegum málefnum nemenda.

Varðandi það hvort hún eða kollegar hennar í öðrum grunnskólum á Akureyri merktu einhverjar breytingar á líðan barna eftir hrun sagði Þuríður að engar rann- sóknir hefðu farið fram á þessu en þó mætti vel greina aukin kvíðaeinkenni og óöryggi hjá börnum. Auk þess sem mál virðast vera orðin þyngri nú en áður og krefðust þar af leiðandi meiri tíma.

Hún benti á að of snemmt væri að segja til um hvort hér væru bein orsakatengsl en þó væri rökrétt aðálykta að þar sem varnir voru veikar fyrir hrun megi búast við því að vandamálin í kjölfar þess aukist eða þyngist. Þurríður tók fram að við mættum „ekki útloka áhrifin sem ástandið getur haft á börn og unglinga.“ (glæra 6 sem er í krækju neðst i þessari færslu merkt Þurríði)

Vandamál barna koma eðlilega snemma fram í skólunum og samkvæmt því sem Þurríður sagði þá hefur dregið mjög úr ásókn í gjaldskylda þjónustu í grunnskólunum í bænum. Þuríður dró þá ályktun að ein ástæða þessa kynni að vera sú að önnur gildi eru við lýði nú sem hafa e.t.v. áhrif á börn. Þó benti hún á að gjaldskráin hefði hækkað og meira bæri á því að það þyrfti að ganga á eftir greiðslum fyrir umrædda þjónustu.

Þuríður lauk máli sínu á því að segja að það væri „ekkert lögmál að kreppan hafi neikvæð áhrif á börn. Það er undir hinum fullorðnu komið. Hvernig þeir taka á málunum og hvernig þeir kjósa að standa að málefnum barna.“

Fjölbreytt pallborð

Það voru sjö einstaklingar sem sátu í pallborði. Auk Sigmundar Sigfússonar, geðlæknis, og Péturs Maacks Þorsteinssonar, sálfræðings, voru það eftirtaldir:

  • Steinunn Jónsdóttir, náms- og starfsráðgjafi í Brekkuskóla.
  • Þorsteinn E. Arnórsson, þjónustufulltrúi Einingar-Iðju.
  • Guðrún Sigurðardóttir, framkæmdarstjóri Fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar.
  • Hafsteinn Jakobsson, framkvæmdarstjóri Rauða krossins á Akureyri.
  • Jóna Lovísa Jónsdóttir, prestur í Akureyrarkirkju og framkvæmdarstjóri Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar. 

Borgarafundur á Akureyri 14.01.10Fundarstjóri gaf þeim sem voru í pallborðinu og höfðu ekki verið með framsögu tækifæri til að bregðast við yfirskrift fundarins svo og því sem hefði komið fram í máli ræðumannanna hér á undan.

Jóna Lovísa sem var fulltrúi kirkunnar byrjaði. Henni fannst túlkun Péturs athyglisverð varðandi áhrif þess hvernig þeir sem yrðu fyrir atvinnumissi upplifðu það að missa vinnuna. Hún tók undir það að það væri eins og einhver viðhorfsbreyting væri að eiga sér stað. Fólk væri yfirvegaðra í ástandinu en hefði verið reiknað með fyrirfram.

Hún benti líka á að margir sem hafa ekki efni á að sækja sér þjónustu hjá geðlæknum og sálfræðingum leita til kirkjunnar í staðinn.

Hafsteinn, sem kom frá Rauða krossinum, benti á að „maðurinn er duglegur að aðlaga sig að aðstæðum. Það er kannski það sem við erum að horfa upp á núna.“ Mörg verkefni sem Rauði krossinn kemur að sem lúta að því að sporna gegn því að skjólstæðingar þeirra verði fyrir félagslegri einangrun. Hann minnti á að við „sjáum ekki fyrir endann á verkefninu“ sem við blasir og sagði mikilvægt að við nýttum okkur það sem aðrir hafa farið í gegnum á undan okkur; t.d. Finnar.

Guðrún, sem var fulltrúi Fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar, sagði að hingað til merktu þau hjá Fjöldskyldudeildinni engin bein áhrif sem mætti beinlínis tengja við hrunið. Þróunin milli áranna 2008 til 2009 væri alveg sambærileg við þá sem var á milli áranna þar á undan. Miðað við þær umsóknir sem bærust hefði ekki orðið merkjanleg fjölgun í hópi þeirra sem glíma við fjárhagsörðugleika. Það er hins vegar spurning hvort einhver viðhorfsbreyting hafi þarna eitthvað að segja. Skýringuna má e.t.v. rekja til þess að fólk gerir minni kröfur en áður eða aðlagi sig frekar að aðstæðunum.

Guðrún, tók það fram að hún hefði áhyggjur af unga fólkinu sem væri á atvinnuleysisskrá en hefði aldrei verið í vinnu áður og hefði því engan bótarétt.

Þorsteinn var fulltrúi verkalýðsfélagsins Einingar Iðju. Hann byrjaði á að fara yfir atvinnuleysistölur á svæðinu. Hægt er að sjá nýjustu tölur um atvinnuleysi á Akureyri svo og landinu öllu hér. Þorsteinn vakti athygli á átakinu Ungt fólk til athafna sem er verið að hrinda í framkvæmd hér á Akureyri um þessar mundir en stendur til að ýta úr vör um allt land. Það má lesa nánar um þetta átak í Vikudegi en eftirfarandi er einmitt tekið þaðan:

Átakið [...] nær til fólks á aldrinum 18 til 24 ára.  Á starfssvæði Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra eru um 250 ungmenni á atvinnuleysisskrá. Markmiðið er að tryggja að enginn verði atvinnulaus lengur en þrjá mánuði án þess að bjóðast vinna eða virkniúrræði. Ungu fólki án atvinnu bjóðast námstækifæri í framhaldsskólum, eða á vegum símenntunarstöðva, ný starfsþjálfunarpláss og störf við átaksverkefni. Einnig verður boðið upp á sjálfboðaliðastörf, ný pláss á vinnustofum, ásamt endurhæfingar- og meðferðarúrræðum. (sjá fréttina undir krækunni hér að ofan sem er merkt Vikudegi)

Auk þess benti Þorsteinn á Starfsendurhæfingarsjóð en hlutverk hans „er að draga úr líkum á því að launafólk hverfi af vinnumarkaði vegna varanlegrar örorku, með aukinni virkni, eflingu endurhæfingar og öðrum úrræðum.“ Sjóðurinn er þegar kominn með tvo ráðgjafa hér á Akureyri . Það má fræðast enn frekar um markmið, úrræði o.fl. á virk.is

Þorsteinn lauk máli sínu á því að undirstrika miklvægi þess að þeir sem eru atvinnulausir skrái sig í stéttarfélag til að öðlast réttindi. Í því sambandi benti hann á að aðeins rúmlega helmingur þeirra sem eru atvinnulausir nú eru í stéttarfélagi.

Steinunn, sem er náms- og starfráðgjafi í grunnskóla, tók sæti í pallborði í stað Þurríðar Lilju. Hún hafði litlu við það að bæta sem fram hafði komið í máli hennar enda höfðu þær unnið saman að fyrirlestrinum. Hún vék þó talinu að brottfalli nemenda úr námi. Hún benti á að það er ástæða til að velta fyrir sér hvað tekur við hjá því unga fólki sem fellur úr skóla. Hver eru réttindi þeirra og hvert geta þau leitað?

Víða komið við í fyrirspurnum og umræðunum

Eins og áður sagði voru fundargestir i kringum fjörutíu manns. Eftir að fundarstjórinn opnaði fyrir umræður tóku margir þeirra til máls og komu víða við. Sá fyrsti vildi meina að svartsýnisrausið í fjölmiðlunum væri sjálfstæður hluti þess vanda sem við væri að glíma um þessar mundir. 

Bæjarstjórnarmaður, sem sótti fundinn, vakti athygli á því hve stór hluti þeirra sem eru atvinnulausir eru karlmenn og lýsti yfir áhyggjum sínum varðandi það hvernig ætti að virkja þennan hóp.

Sigurbjörg ÁrnadóttirSigurbjörg Árnadóttir var einn fundargesta.  Margir muna eflaust eftir því að hún vakti athygli á alvarlegum afleiðingum viðbraðga finnskra stjórnvalda við kreppunni þar í landi og varaði íslenska ráðamenn við því að feta sömu slóð og Finnar í kjölfar efnahagshrunsins hér haustið 2008. Miðað við umræðuefnið og það að framsögumennirnir, einkum Sigmundur, vísuðu hvað eftir annað til reynslu Finna kom það ekki á óvart að Sibba, sem bjó í Finnlandi á tíma finnsku kreppunnar, fyndi sig knúna til að leggja eitthvað til umræðunnar. 

Hún tók líka til máls og benti á að það væri rétt að það væri margt líkt hér á landi nú og var í Finnlandi. Einkum viðbrögð stjórnvalda. Afleiðingar þeirra hér yrðu sennilega þær sömu og þar. Hún undirstrikaði það að of stuttur tími væri liðinn til að félagslegar og andlegar afleiðingarnar á þjóðina væru komnar í ljós en miðað við afleiðingarnar í Finnlandi væri mikil ástæða til að hafa áhyggjur af börnum og unglingum. Hún minnti líka á að þeir væru margir hér á landi sem ættu mjög erfitt í dag þó það væri ekki komið upp á yfirborðið.

Kona meðal áheyrenda sem sagðist vera komin frá Aflinu, sem eru samtök hér á Akureyri gegn kynferðis- og heimiliofbeldi (þessi krækja vísar á heimasíðu Aflsins), benti á að samkvæmt þeirra heimildum hefur heimilisofbeldi aukist í kjölfar hrunsins. Börn kvarta t.d. meira undan líkamlegu ofbeldi. Hún benti líka á að það væri mikið um konur af erlendu bergi brotnar í þessu bæjarfélagi sem þær næðu ekki til og undirstrikaði að það mætti ekki gleymast að það væri mikið um falin vandamál sem mætti rekja til ástandsins sem enginn vissi um en yrði að gera ráð fyrir.

Einn fundarmanna, sem hafði búið erlendis á nýliðnum uppgangstímum en snúið heim um það leyti sem allt hrundi, benti á að hann hefði fylgst með úr fjarlægð og litist mjög illa á þá þróun sem hann varð vitni af. Í því framhaldi vildi hann koma því á framfæri að það væri nauðsynlegt að við veltum því fyrir okkur hvað væri eðlilegt ástand þjóðar? og hvort aðdragandi efnahagshrunsins hafi verið eðlilegt ástand?
Borgarafundur á Akureyri 14.01.10 Nú var komið að því að gestir í pallborði fengju tækifæri til að bregðast við spurningum og athugasemdum fundargesta.

Steinunn tók undir það sem hafði komið fram að umræðan í fjölmiðlum væri mörgum erfið.

Pétur vildi meina að margir fjölmiðlamenn hefðu ekki síður tekist á við alvarlegt áfall í kjölfar hrunsins. Hann sagði það erfitt og jafnvel mannskemmandi að þurfa að halda sig í þeirri umfjöllun sem nú færi fram á vettvangi fjölmiðlanna. Hann taldi þó að sjálfbjargarviðleitnin myndi bjarga þjóðinni. Tækifærismennskan sem er hin hliðin á sjálfsbjargarviðleitninni kom okkur hins vegar í þetta.

Næst vék hann að brottfalli frá námi á milli skólastiga, þ.e. grunnskóla og framhaldsskóla, sem hann sagði meira hér en annars staðar. Við þær aðstæður sem við búum við núna á vinnumarkaðinum sitjum við uppi með mjög stórt hlutfall ósérhæfðs vinnuafls meðal ungs fólks. Þetta er vandamál sem þarf að huga sérstaklega að.

Sigmundur sagði það nauðsynlegt að fjölmiðlar fjölluðu um það sem fram færi í samfélaginu og það væri okkur, almenningi, líka nauðsynlegt að fylgjast með. Við þyrftum á því að halda að sjá að stjórnmálamennirnir eru ekki í jafnvægi til að ýta undir gagnrýni okkar. Við hrunið voru stjórnmálamennirnir greinilega í losti og enn meiri afneitun en við sem vorum að fylgjast með.

Þá vék hann aftur að reynslu Finna og undirstrikaði að við ættum að læra af henni. Það brýnasta núna er að spyrna gegn niðurskurði í heilbrigðisþjónustunni og þar með geðheilbrigðisþjónustunni.

Þorsteinn brást við orðum bæjarstjórnarmannsins sem lýsti yfir áhyggjum sínum yfir því hvort og hvernig væri hægt að koma á móts við þann stóra hóp karlmanna sem eru nú á atvinnuleysisskrá. Hann sagði að í þessum hópi væru karlmenn úr verktakageiranum, byggingaiðnaðinum, bílstjórar og þeir sem hefðu unnið á stórum jarðvegsvinnutækjum auk ófaglærðra. Hann sagði að vissulega hefði það verið skoðað hvernig ætti að mæta þessum hópi. Nýlega hefði verið óskað eftir hugmyndum frá þeim sem mynduðu þennan hóp af starfi sem þeir gætu fundið sig í.

Varðandi það sem kom fram hjá konunni sem talaði fyrir hönd Aflsins sagði hann að hann hefði vissulega áhyggjur af stöðu þeirra kvenna sem sættu heimilisofbeldi og væru einangraðar heima hjá sér. Hins vegar væri erfitt að finna leiðir til að ná til þeirra ef þær gæfu sig ekki fram sjálfar.

Guðrún tók undir það sem hafði komið fram um það að þeir sem ynnu að velferðarmálum í samfélaginu þyrftu að vera vel vakandi og fylgjast gaumgæfilega með. Hún hafði hins vegar áhyggjur af áhrifum neikvæðrar umfjöllunar fjölmiðla og sagði að þetta atriði hefði m.a. verið rætt innan Almannaheillanefndar.

Hún tók undir það sem kom fram í máli Þorsteins og bætti því við að áætlun um það hvernig mætti bregðast við hinum stóra hópi karla sem nú væru atvinnulausir væri í undirbúningi hjá Vinnumálstofnuninni og Starfsendurhæfingarsjóði.
Borgarafundur á Akureyri 14.01.10Fulltrúi bæjarstjórnar sem hafði velt fyrir sér stöðu karla á afvinnuleysisskrá spurði hvort þeir sem væru komnir út af bótum væru í sama ferli og hinir sem væru þar enn og hvort það hefði verið eins mikil neyð hér fyrir jólin og í Reykjavík.

Jóna Lovísa sagði að það hefði orðið 60% á umsóknum hjá kirkjunni frá því um jólin í fyrra. Fólk sem lendir á milli og fær þess vegna ekki aðstoð annars staðar leitar til kirkunnar.

Hafsteinn sagði að það hefði orðið nokkur aukning á milli ára hjá Mæðrastyrksnefndinni. Það hefðu verið um 300 sem hefðu fengið aðstoð í fyrra en um 400 fyrir þessi jól.

Guðrún vildi benda á að þröskuldurinn hefði sennilega lækkað þannig að fólk sækti frekar um aðstoð nú en áður svo væru það líka einhverjir sem færu á alla staði sem veittu aðstoð.

Jóna Lovísa bætti því við að það væri mikilvægt að þær stofnanir sem sinntu aðstoð af því tagi sem um var að ræða ynnu saman. 

Steinunn tók í sama streng og bætti því við að það væri mikilvægt að stoppa upp í götin í kerfinu þannig að þær stofnanir sem væru að vinna að því sama hefðu meira samband.

Það var að líða að lokum þessa fundar og fundarstjóri hvatti áheyrendur og gesti í pallborði til að bæta því við sem þeir væru að brenna inni með.

Sigurbjörg Árnadóttir tók aftur til máls og minnti á að afleiðingar kreppunnar í Finnlandi hefðu m.a. birst í aukningu sjálfsvíga og kulnunar í starfi meðal heilbrigðisstarfsfólks og kennara. Einkum hefði sjálfsvígstilfellum meðal ungra karla fjölgað. Þar hefðu heldur aldrei verið jafnmargir ungir öryrkjar eins og nú.

Einn fundargesta vildi vekja athygli á þeirri ályktun sem hann hafði dregið af því fram hafði komið á fundinum. Meginniðurstaða hans var sú að hér væri allt í þessu fína. Miðað við upplýsingarnar sem komu fram í máli framsögumanna og pallborðsgesta taldi hann ástæðu til bjartsýni á það að þjóðin kæmist heil í gegnum það ástand sem nú er uppi í samfélaginu.

Sigmundur brást við þessu og undirstrikaði að á þessu væru sannarlega tvær hliðar. Honum fannst fullsnemmt að fullyrða nokkuð um afleiðingarnar og minnti í því samhengi á það sem hefði orðið í Finnlandi. Að hans mati er það grundvallaratriði að efla traust á réttarfarið og dómsvöld til að tryggja sálarheill þjóðarinnar.

Hann sagðist horfa mikið til þess að hér fari fram almennilegt réttaruppgjör 1. febrúar n.k. í kjölfar birtingar á rannsóknarskýrslu Alþingis. Að hans mati er mikið undir því komið að það fari fram. Það er nauðsynlegt fyrir sálarheill þjóðarinnar en þó einkum fyrir ungt fólk. Ef réttaruppgjör fer fram horfir það upp á það að hér gildi engin norm.

Hafsteinn átti síðasta orðið á þessum fundi og talaði út frá því sem hafði komið fram í máli Sigmundar hér á undan og líka fyrr um kvöldið. Hann sagði að samkvæmt leiðbeiningum Símaskráarinnar væru viðbrögðin við jarðskjálftum þau að skríða undir borð. Það færi því vel á því að undirstrika að „viðbrögðin við kreppu væru þau að skríða undan borðum.“


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hann hefur lög að mæla!

Hann heitir Guðbergur Egill Eyjólfsson og skifaði þessa fantagóðu grein sem birtist á Smugunni í gær (11. janúar). Grein sem allir ættu að lesa!

Grípum tækifærið!

gudbergur-egill-eyjolfsson.jpgKínversk bölbæn segir: „Megir þú lifa áhugaverða tíma“. Við lifum svo sannarlega áhugaverða tíma og það er að miklu leyti undir okkur komið hvernig spilast úr aðstæðum. Til góðs eða ills. Hitamálið þessa dagana er hin umdeilda ákvörðun forseta Íslands að neita undirskrift laga um Icesave samningana.

Hér hafa skapast óvanalegar aðstæður að því leyti að búið er að færa ákvarðanatöku sem varðar yfirgang og óréttmæti hins alþjóðlega kapítalíska hagkerfis frá stjórnvöldum og yfir til fólksins sjálfs. Þetta er það sem valdaelítan hræðist hvað mest. Að fólkið sjálft fái að taka ákvarðanir. Enda einkenndust fyrstu viðbrögð erlendis frá af miklu offorsi bæði vegna hneykslan valdhafanna en einnig og aðallega til þess að reyna að hræða líftóruna úr íslenskum almenningi og þar með hafa áhrif á ákvarðanatöku þeirra.

Hvort sem okkur líkar þessi staða betur eða verr er mikilvægt að spila sem best úr aðstæðunum.   Ríkisstjórnin ætti að leitast við að kynna málstað Íslands á opinberum vettvangi og sýna um leið fram á hve kerfið sjálft er gallað og óréttlátt. Ríkisstjórnin ætti umfram allt að forðast að  hella sér út í harðvítuga kosningarbaráttu gegn þeim hluta þjóðarinnar sem hafna vill samningnum og kljúfa þar með samstöðu þjóðarinnar út á við. Sama hver niðurstaðan verður ætti ríkisstjórnin að sitja áfram og vinna úr þeim aðstæðum sem úrslit atkvæðagreiðslunnar hefur í för með sér.

Það að við bjóðum alheimskapítalismanum byrginn getur ef til vill verið okkar verðmætasta gjöf til þróunarmála sem hugsast getur. Að sýna að lýðræðið, fólkið sjálft, geti stöðvað óréttlætið og vonandi gefið fátækum þjóðum sem hnepptar hafa verið í skuldafen Vesturlanda einhverja von. Okkar viðspyrna í þessu máli skiptir engu máli peningalega fyrir þær þjóðir sem við deilum nú við. Það er kerfið sjálft sem liggur undir og þetta er óréttlátt kerfi. Nú er heimurinn að fylgjast með málinu og við sem aðhöllumst vinstri stefnu njótum þá þeirra forréttinda að geta sýnt fram á ósanngirni kerfisins og ef til vill stuðlað að breytingum í sanngirnisátt.

Nú er lýðræðið í ferli og vonandi segir fólkið nei við lélegum og ósanngjörnum samningi. Vonandi segir fólk nei við lélegu og ósanngjörnu kerfi. Við vitum að þetta getur verið efnahagsleg áhætta en barátta við ill öfl er aldrei án áhættu. Þegar ég tala um ill öfl á ég ekki endilega við Breta og Hollendinga heldur kerfið sjálft. Ég spyr mig: „Erum við vinstri menn eða ekki? Berjumst við fyrir réttlæti eða ekki?“

Það er ef til vill rétt að það er best til skamms tíma fyrir fyrirtækið Ísland að taka þessum samningi þegjandi og hlóðalaust. En er það réttlátt? Við verðum að spyrja okkur fyrir hvað við erum að berjast. Erum við eingöngu að berjast fyrir krónum og aurum fyrir Ísland eða erum við að berjast fyrir réttlæti. Og þá réttlæti fyrir alla sem beygðir eru undir ok og óréttlæti  kapítalismans. Hér er ef til vill einstakt tækifæri fyrir vinstri menn að bjóða kapítalismanum byrginn svo eftir verður tekið. Við höfum verið efst í fæðukeðjunni um áratugaskeið í skjóli Bandaríkjanna og ættum með baráttunni að rétta þeim, sem neðstir eru í keðjunni, og halda kerfinu uppi, hjálparhönd. Það gerum við með viðspyrnu við kapítalismann.

Það sem verið er að óskapast yfir ákvörðun forsetans sem er  þó eitt af baráttumálum VG í framkvæmd. Það er á stefnuskrá flokksins að undirskriftir 15-20 % atkvæðisbærra manna geti kallað fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig að hneykslun á ákvörðun forsetans af hálfu vinstri manna er hneykslun á baráttumáli eigin flokks. Ef þetta baráttumál flokksins hefði verið komið til framkvæmda hefði það sama gerst en þá bara án milligöngu forsetans.

Ef við sannarlega getum haft áhrif á alþjóðakapítalismann þá eigum við að grípa tækifærið. Sökin á skuldum okkar er lélegar reglur bæði hér og erlendis, græðgi og firring einstaklinga. Stærsta sökin er þó hið alþjóðlega kapítalíska fjármálakerfi og sú staðreynd að peningar eru í forgrunni alþjóðasamskipta en ekki hagsæld fólksins. Því til sönnunar er að í veröldinni eru nægar auðlindir öllum til handa ef þeim væri dreift af sanngirni og þær nýttar á þeim stöðum sem þeirra er þörf. Sú er ekki raunin og Vesturlönd njóta þess í stað gæða þriðja heimsins með bros á vör. Þar með taldir Íslendingar.

Erlendir fréttamiðlar hafa æ meir snúist á sveif með Íslendingum eftir því sem frá líður synjun forsetans. Við verðum að fá almenningsálit umheimsins enn frekar í lið með okkur. Það er hægt ef forystumenn okkar leggja í baráttuna.

Ríkisstjórnir undangenginna ára voru samþykkar þessu kerfi og sú ríkisstjórn sem nú situr og kennir sig við vinstri stefnu ber skylda til þess að berjast gegn kapítalismanum. Almenningur verður að því virðist að borga þessa Icesave-skuld á einn eða annan hátt en við skulum reyna að lágmarka skaðann og umfram allt að hafa þetta síðustu skuld þjóðarinnar í þessa veru. Við verðum að breyta kerfi okkar á þann hátt að annað hvort banni ríkið starfsemi einkabanka á Íslandi eða ábyrgist eingöngu ríkisbanka. Ríkisbanka sem eins og aðrir bankar hugsar aðeins um hag eigenda sinna sem yrðu í þessu tilfelli, góðu heilli, þjóðin sjálf.

Guðbergur Egill Eyjólfsson

Formaður svæðisfélags VG á Akureyri og nágrenni

 


mbl.is Mjög gott skref
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sálarheill þjóðar á krepputímum

Þar sem Magnús Árni Skúlason, liðsmaður InDefence talar um sektarkennd þjóðarinnar fyrir ósvífna hegðun íslenskra bankamanna í þessari grein má ég til að nota tækifærið og vekja athygli á efni næsta borgarafundi sem haldinn verður hér á Akureyri n.k. fimmtudag undir yfirskriftinni: Sárlarheill þjóðar á krepputímum.

Auglýsingin um þennan fyrsta borgarafund ársins er svohljóðandi:

Hvernig komumst við heil í gegnum það ástand sem nú er uppi í samfélaginu? Hvernig er andleg og félagsleg staða almennings? Er einhver ástæða til að hafa áhyggjur af sálarheill þjóðarinnar?

Þessum og fleiri spurningum verður velt upp og leitast við að svara á fyrsta borgarafundinum á þessu ári sem verður haldinn í Deiglunni þann 14. janúar n.k. Fundurinn hefst kl. 20:00.

Framsögumenn:
Sigmundur Sigfússon geðlæknir
Pétur Maack sálfræðingur
Þuríður Lilja Rósenbergsdóttir náms- og starfsráðgjafi í grunnskóla

Fundarstjóri:
Edward H. Huijbens

Pallborð:
Sigmundur Sigfússon geðlæknir
Pétur Maack sálfræðingur
Steinunn Jónsdóttir náms- og starfsráðgjafi í Brekkuskóla
Þorsteinn E. Arnórsson þjónustufulltrúi Einingar-Iðju
Guðrún Sigurðardóttir framkvæmdarstjóri Fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar
Hafsteinn Jakobsson framkvæmdarstjóri Rauða krossins á Akureyri
Jóna Lovísa Jónsdóttir prestur í Akureyrarkirju og framkvæmdarstjóri Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar

 


mbl.is Skammast sín fyrir bankana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einstakur þingmaður!

Lilja MósesdóttirLilja Mósesdóttir er einn af mínum uppáhaldsstjórnmálamönnum. Hún hugsar út fyrir þann ramma sem íslensk stjórnmál eru búin að takmarka sig inni í. Þegar hún fjallar um sérfræðisvið sitt styðst hún við orðaforða sem allir hafa möguleika á að skilja. Með öðrum orðum er Lilja óhrædd við að standa með almenningi án nokkurra felutjalda orðskrúðs og klisja enda er hún heil í stuðningi sínum við hann.

Ég, eins og aðrir landsmenn, kynntist málflutningi Lilju fyrst í gegnum borgarafundina í Reykjavík. Þar kom hún fram á einum af fyrstu fundunum sem haldnir voru í Iðnó og vakti þegar athygli fyrir það að fjalla um það sem lýtur að hennar sérfræðisviði, hagfræði, á mjög skýran og auðskiljanlegan hátt. 

Þetta sætti tíðindum haustið 2008 þar sem langflestir innlendir spekingar sem gáfu sig út fyrir að kunna eitthvað fyrir sér í hagfræði töluðu þannig að enginn skildi upp né niður. Það er reyndar ákveðin aðferð sérfræðinga sem líta svo stórt á sig að þeir telja það til vitnis um stórfengleik þekkingar sinnar að tala þannig að enginn skilji þá.

Hitt er svo ekki síður algengt að þeir sem gefa sig út fyrir að vera sérfræðinga á tilteknu sviði tala þannig að enginn geti skilið til að útiloka efasemdir og spurningar varðandi kenningar þeirra. Því miður nota líka einhverjir þessa aðferð til að fela sína eigin vanhæfni. M.ö.o. það skilja því miður ekki allir fagið sem þeir hafa menntað sig til þó þeir hafi náð tilskildum árangri á háskólaprófi og þannig hlotið leyfi til að titla sig sérfræðing á tilteknu sviði. Þeirra leið til að breiða yfir getuleysið er tungutak sem einkennist af óskiljanlegum en innihaldslausum orðavaðli sem við fyrstu áheyrn kann að hljóma gáfulega en um leið situr ekkert eftir.

Lilja fer allt aðra leið eins og kom svo vel fram í ræðu hennar á borgarafundinum í Iðnó sem var haldinn 27. október 2008: 


Ég man enn eftir því hvað margir fögnuðu þessum fyrirlestri Lilju. Ekki síst fyrir heiðarlegan málflutning hennar sem kom hvað best fram í því að hún talaði um „flókna“ hluti á skeleggan og auðskilinn hátt. Þeir sem hlýddu á ræðu hennar áttuðu sig á því að umfjöllun um hagfræði þurfti alls ekki að vera svo flókin. Það fór allt eftir þeim sem talaði. Þeir hagfræðingar sem höfðu ekkert að fela töluðu um sitt sérfræðisvið á þann hátt að allir áheyrendur gátu fylgt honum eftir og skilið.

Lilja flutti annan fyrirlestur á borgarafundi í Iðnó 8. nóvember 2008. Í fyrirlestrinum varaði hún við viðskiptum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í þeim seinni lýsti hún yfir áhyggjum sínum yfir ráðaleysi íslenskra ráðmanna sem væru „fastir í vinnubrögðum og hagsmunatengslum gamla Íslands“.

Það er vel þess virði að rifja það upp sem núverandi þingmaðurinn, Lilja Mósesdóttir, sagði í þessum fyrirlestrum sínum á borgarafundunum sem haldnir voru í Iðnó á áliðnu hausti 2008. Ég hvet ykkur líka til að fylgjast vel með því sem þessi réttlætissinnaði og kjarkaði þingmaður hefur til málanna að leggja inni á þingi og í fjölmiðlum. Það er full ástæða til að taka það fram hér að sem betur fer þá heyrist rödd hennar eitthvað í fjölmiðlum þó fjölmiðlamenn mættu vissulega stuðla að því að rödd hennar fengi að njóta sín í miklu ríkari mæli bæði í prent- og ljósvakamiðlum !

Upphaflegt tilefni þessara skrifa var að vekja sérstaka athygli á grein á visir.is eftir Lilju Mósesdóttur. Þessi grein hennar ber yfirskriftinni Icesave er uppgjör almennings við fjármagnseigendur. Þar segir Lilja m.a:

Ef þjóðin hafnar frumvarpinu taka gildi lög um ríkisábyrgð sem samþykkt voru í lok ágúst með fyrirvörum Alþingis. Fyrirvarar Alþingis voru afar mikilvægt fordæmi fyrir skuldsettar þjóðar um að hægt væri að rísa upp og segja hingað og ekki lengra. Skilaboð Alþingis með fyrirvörunum voru að Íslendingar viðurkenni skuldbindingar sínar en borgi aðeins þær skuldir sem þjóðin ræður við að greiða án þess að fórna velferð komandi kynslóða.

Það er ljóst að Icesave snýst ekki um líf vinstristjórnar heldur hagsmuni íslenskra skattgreiðenda. (leturbreytingar eru mínar)

Ég hvet alla til að lesa þessa grein Lilju Mósesdóttur í heild. Ómenguð réttlætiskennd hennar og skýr málflutningur, sem koma fram þar og í öllu öðru sem ég hef séð og heyrt til hennar hingað til, gerir allt sem frá henni kemur ákaflega aðgengilegt. Hún sjálf er líka einstakur þingmaður enda einn af örfáum sem ég treysti af heilum hug!


mbl.is Þing klukkan 10:30 á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísbjörg í stað Iceslave

Nú væri auðvitað vel við hæfi að skrifa eitthvað spekingslegt um ákvörðun forsetans frá því fyrr í dag og hugsanlegar afleiðingar hennar. Ég veit ekki hvort það er í mínu valdi. Ég ætla a.m.k. að láta það vera því þegar eitthvað er aðeins hugsanlegt finnst mér heillavænlegra að bíða og sjá hver útkoman verður.

Mig langar hins vegar að nota tækifærið og skoða stjórnarparið sem hefur svo hátt og ástundar nú sem aldrei fyrr bölmóð og hræðsluáróður í tilefni þess að forsetinn ákvað að vísa þessu risastóra máli, sem Icesave-samningurinn er, til ákvörðunar þjóðarinnar. Mig langar líka til að velta upp nokkrum atriðum sem þeir, sem taka undir með áróðursmaskínunni, bera fyrir sig.

Nú veit ég að þeir eru allnokkrir sem treysta Jóhönnu og Steingrími J. best allra til þess að leiða okkur út úr þeim ógöngum sem þeir kenna Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki fyrst og fremst um. Það er sennilega best að taka það fram að það er alls ekki markmið mitt að draga úr sekt þessara flokka á hruninu sem varð hér haustið 2008.HreingerningarliðiðAð mínu viti er málið hins vegar alls ekki svona einfalt. Jóhanna Sigurðardóttir hefur verið í stjórnmálunum lengi. Þar af leiðandi þykir mér það í hæsta máta undarlegt að það sem var að gerast næstum því fyrir framan nefið á henni hafi farið svo fullkomlega fram hjá henni og flokkssystkinum hennar að þau hafi ekki haft neina möguleika á því að vara við hruninu eða reyna að afstýra því.

Það má heldur ekki gleymast að Samfylkingin hafði setið í stjórn í rúmt ár áður en hrunið átti sér stað. Af þessum ástæðum er mér gjörsamlega fyrirmunað að skilja hvernig nokkur getur ætlast til þess að mark sé takandi á rökum eins og þeim að Jóhanna sé gamalreyndur stjórnmálamaður og hafi alltaf unnið skjólstæðingum sínum af heilindum.

Viðsnúningurinn á Steingrími J. Sigfússyni er mér aftur á móti ákveðin ráðgáta. Ég velti því þó fyrir mér hvernig allar viðvaranir og önnur merki í aðdraganda hrunsins gátu farið svo fram hjá honum að hann og fylgismenn hans hafi ekki átt þess kost að spyrna við fótum og krefjast upplýsinga og skýringa. Ég er heldur alls ekki sátt við viðbrögð hans við hruninu sjálfu en allra síst því hvernig hann hefur leikið úr spilunum eftir að hann komst í ríkisstjórn!

Frá því að Steingrímur J. komst í stjórn hefur hann svikið hvert loforðið við kjósendur sína á fætur öðru. Hann hefur því miður gerst sekur um bein ósannindi líka. Ég veit ekki hvað veldur. Sumir halda því fram að ástæðan sé eftirsókn hans í völd. Ósannindin og hræðsluáróðurinn, sem hann hefur viðhaft til að styðja gjörðir sínar, séu til þess ætluð að viðhalda þeim. Einhverjir hafa líka vísað til orða Johns Perkins til að styðja þá ályktun að þessi óvænta framkoma hans stafi af því að honum hafi beinlínis verið ógnað.

Hvað sem veldur þá finnst mér viðsnúningur Steingríms J. vera svo ber að ég furða mig á því að þeir eru enn allnokkrir til sem treysta honum best til þess að leysa vanda okkar Íslendinga. Ég furða mig jafnmikið á því trausti sem hann nýtur og Jóhanna Sigurðardóttir. Ég furða mig ekki síst á því vegna þess að ég kem alls ekki auga á það að þau hafi neina stjórn á aðstæðum eða því sem þau segjast vera að vinna að.
LeiðtoginnÉg viðurkenni það að ég hafði fulla trú á Samfylkingunni þegar hún kom fyrst fram. M.a.s. svo mikla að ég hélt mér enn við þann flokk fyrst eftir að Vinstri grænir komu fram. Það var eitthvað í málflutningi og aðferðafræði Steingríms við að vinna málstað sínum og flokkssystkina sinna fylgi sem mér féll alls ekki við.

Ég kaus þó Vinstri græna við alþingiskosningarnar 2007. Reyndar fyrst og fremst vegna þess að mér fannst þeir skástir! Við hrunið haustið 2008 missti ég trú á þeim líka og nú hef ég endanlega misst alla trú á flokkakerfinu í núverandi mynd.

Ég get einfaldlega ekki haft trú á einstaklingum í ríkisstjórn og/eða stjórnarandstöðu sem forgangsraða þeim verkefnum sem við stöndum frammi fyrir núna þannig að samskipti við erlend ríki og fjármálastofnanir gangi fyrir þeim ógnum sem heimilin í landinu þurfa að glíma við. Sú skjaldborg og þau bjargráð sem ríkisstjórnin, undir handleiðslu Jóhönnu og Steingríms, hafa reynt að telja okkur trú um að séu forsendurnar í forgangsröðun þeirra hefur ekki komið almenningi að neinu gagni, þvert á móti, enda virðast þau fyrst og fremst miða að því að skapa hér sama gróðabrallsvettvanginn og var hér í tíð útrásardólganna.
Undanhald eða sjálfsvörnEins og hefur komið fram í undanfarandi færslum mínum hér á blogginu var ég í fyrsta skipti beinn áhorfandi að því sem fram fer í þingsal alþingishússins síðustu daga þriðju umræðu um ríkisábyrgðina á Icesave. Þar rann það það upp fyrir mér, sem mig grunaði reyndar áður, að það sem gerðist við síðustu kosningar var ekkert annað en það að stjórnar- og stjórnarandstöðuliðar skiptu um hlutverk. Það eru því miður alltof, alltof fáir sem tala þar af sannfæringu eða eru í fullkomnum tengslum við það sem raunverulega fer fram úti í samfélaginu.

Ef ég mætti ráðleggja þeim Jóhönnu og Steingrími myndi ég segja þeim að byrja á því að reka ráðgjafa sína, þá Hrannar B. Arnarson og Indriða G. Þorláksson. Loka á fulltrúa fjármagnseigendanna sem keyrðu hér allt í kaf í eiginhagsmunagæslunni og snúa sér að almenningi. Í öllu því viðspyrnustarfi sem hefur sprottið hér upp úr grasrótinni eru margir sem hafa nú þegar unnið gríðarlegt starf í þeirri viðleitni að byggja upp lýðræðislegra samfélag. Ég myndi ráðleggja þeim að snúa sér að þessum aðilum.

Meðal þeirra eru miklu ábyggilegri matsaðilar en þeir sem sögðu að íslensku bankarnir væru í skínandi góðum málum fyrir hrun en segja nú að lánshæfismat íslenska ríkisins hafi lækkað niður í ruslflokk í kjölfar þess að forseti Íslands synjaði Icesave-lögunum staðfestingar (sbr. tengda frétt). Þar eru líka aðilar sem eru vel ritfærir á erlenda tungu og margir þeirra m.a.s. í góðum samböndum við hina ýmsu erlenda fjölmiðla. Margir þeirra hafa t.d. reynt ítrekað að vekja athygli á raunverulegri stöðu Íslendinga í meintri millríkjadeilu. 

Mörg okkar höfum haft af því verulegar áhyggjur hvort og hvernig ríkisstjórnin hefur kynnt stöðu okkar út á við. Það hefur svo sannarlega komið í ljós að þær  áhyggjur eiga við rök að styðjast. Ef það er virkilega markmið ríkisstjórnarinnar „að draga úr þeim skaða sem orðspor Íslands hefur beðið og byggja trúverðugleikann upp að nýju“ þá verða leiðtogar hennar að sýna það með heiðarlegri verkfærni en hingað til annars munu þau áfram sitja föst á byrjunarreit!Föst á byrjunarreit Að lokum ítreka ég enn og aftur það sem ég hef sagt aftur og aftur með mismunandi orðum: Gamli tíminn er liðinn og af honum hefur nýr tími tekið við! Gömlu aðferðirnar duga ekki til uppbyggingarinnar. Við þurfum hugarfarsbreytingu til að byggja upp það samfélag sem við höfum tækifæri til að reisa okkur og framtíðinni núna.

Hugmyndafræðin sem byggir á sérhagsmunagæslu peningavaldsins er stærsti óvinurinn í þeirri uppbyggingu sem ég er tilbúin til að taka þátt í. Ég vil samfélag þar sem jöfnuður og réttlæti ríkja! Samfélag þar sem ég get snúið mér aftur að hversdagslífinu án þess að hafa stöðugar áhyggjur af því að þeir sem veljast til valda séu að vinna að duldum hagsmunum örfárra útvaldra. 

Ef Jóhanna og Steingrímur J. telja sig hæfa til þess að taka þátt í slíkri uppbyggingu þá er tíminn til að sýna fram á það runninn upp núna! Ég treysti þeim ekki til að gera sér grein fyrir því miðað við áherslur þeirra hingað til. Þolinmæði mín gagnvart úrræðaleysi þeirra og vanhæfni er á þrotum en ég á kannski ekki annað val í stöðunni en bíða enn um sinn...


mbl.is Sammála um að lágmarka ókyrrð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögurstundir

Icesave-málið er svo sannalega eitt þeirra mála sem hefur verið komið þannig fyrir að það mun varða okkur öll! Í mínum augum er þetta mál hið svívirðilegasta frá upphafi til enda! Ég lít þannig á það að með því að samþykkja ríkisábyrgð á Icesave-skuldunum erum við að skrifa undir þann ójöfnuð sem er ég alfarið á móti!

Ég er nefnilega alfarið á móti því að vegna þess að ég er íslenskur ríkisborgari þurfi ég að taka á mig byrðar vegna fjárglæfrastarfsemi sem meintir auðmenn þessa lands hafa komist upp með að ástunda í skjóli óskilvirks eftirlits og handónýtrar stjórnsýslu. Í þessu skjóli dafnaði illra manna ráð sem ekki sér fyrir endann á.

Því miður gengur það ákaflega erfiðlega að ráða niðurlögum þess illgresis sem hefur þrifist eftirlits- og aðhaldslaust á liðnum árum. Margt kemur til sem ekki verður tíundað frekar hér en niður í grasrótinni er líka ýmislegt að gerast. Að sjálfsögðu vildi ég sjá enn blómlegra starf þar en ég fagna því þó að undir illgresinu skuli leynast réttlætisleitandi laukar sem neita að gefast upp við spírunina.

Hér á eftir langar mig til að gefa einhvers konar yfirlit yfir atburði síðustu daga nýliðins árs og síðastliðins laugardags. Fræ hugmyndanna of uppskeru framkvæmdanna má að langmestu rekja til þeirrar grasrótar sem lifir enn og á vonandi eftir að vaxa og dafna enn frekar á árinu sem nú er nýhafið!

28. -29. desember 2009

Mánudagskvöldið 28. desember hittumst við nokkur til að undirbúa viðbrögð við því sem lá í loftinu þá. Þ.e. að breytingar á Icesave-frumvarpinu frá sl. sumri yrðu samþykktar sem lög frá Alþingi. Auðvitað vonuðu margir að breytingunum yrði hafnað en sumir voru sannfærðir um að sú von væri aðeins ofurbjartsýni. Eftir þennan fund grasrótarinnar fórum við nokkur til að sitja á þingpöllum. 

Daginn eftir mætti ég niður á Austurvöll en þar hafa nokkrar hetjur staðið þá endalausu daga sem Icesave hefur verið til umfjöllunar inni á þingi. Ekki bara núna í desember heldur allt sl. sumar og líka þegar það var tekið til annarrar Iceslave-jólatréðumræðu eins og nú undir lokin.

Þetta var því miður fámennur hópur en þeir sem skipa hann eiga það sameiginlegt að þeir eru gæddir fágætri staðfestu og réttlætiskennd. Annað sem einkennir marga í hópnum er ótrúlegt hugmyndaflug og sköpunargleði eins og jólatréð á þessari mynd Nikulásar Einarssonar ber vitni um.

Ég kynntist ekki aðeins þessum hetjum þennan dag heldur hélt ég áfram að fylgjast með endaleysunni um Icesave inni í þingsal. Ég sagði frá upplifun minni af veru minni á þingöllum hér. Mig langar að bæta örlitlu við það sem þar stendur.

Fréttir af þingstörfum og svo innlit inn á útsendinguna frá Alþingi inni á alþingis- vefnum hafa smátt og smátt dregið úr tiltrú minni á Alþingi sem stofnun. Vera mín á þingpöllum var ekki til að byggja hana upp nema síður sé. Mér leið eins og ég væri að horfa á fólk sem áttaði sig ekki á því að það væri týnt inni í sýndarveruleika.

Mér fannst langflestir sem tóku til máls vera svo uppteknir af því að „leika sjálfan sig“ í þessu verndaða umhverfi að þeim væri horfin öll tengsl við raunveruleikann. Veruleika minn og annars almennings. Þann veruleika sem allir þurfa að takast á við fyrr eða seinna...

Þetta kvöld var aftur fundað í grasrótinni og lögð drög að viðbrögðum...

30. desember2009

Þennan dag var safnast saman niður á Austurvelli undir kjörorðinu rautt neyðarkall. Ég veit ekki hvað við vorum orðin mörg þegar klukkan sló 12:00 og rauðu blysin voru tendruð. Það skiptir heldur ekki máli að mínum dómi heldur hitt að við reyndum. Við vildum ná athygli þingmanna og ég held að það hafi tekist þó þeir sem kusu með nýju Icesave-löggjöfinni hafi ekki tekið mark á skilaboðunum.Rautt neyðarkall Þessa mynd tók Jóhann Ágúst Hansen hjá Svipunni. Hún sýnir hluta þess hóps sem tók þátt í viðburðinum. Eftir að honum lauk voru sumir áfram á Austurvelli þrátt fyrir nístandi kuldann. Við fórum reyndar af og til inn á nálæg kaffihús, eins og Íslenska barinn, til að fá í okkur hita. Um miðjan daginn voru flestir sem voru eftir komnir inn á þingpalla til að fylgjast með því sem fór fram niðri í þingsalnum.

Þar sem því hefur verið gerð þokkaleg skil í fréttum hvað fór fram þar þennan dag ætla ég ekki að rekja það hér. Mig langar þó að taka það fram að það sem ég sá og heyrði þennan dag undirstrikaði enn frekar þá tilfinningu að þaðan sé engra breytinga að vænta. M.ö.o. þá er Alþingi handónýt stofnun. Þar sitja aðeins valdalausir þingmenn og þrefa um málefnin.

Tilgangurinn er sennilega sá að blekkja okkur almenning. Láta okkur standa í þeirri meiningu að þingmennirnir sem við kjósum um hafi einhver völd og fái einhverju áorkað en reyndin er allt önnur eins og þeir vita sem eru tilbúnir til að horfast í augu við það hver veruleikinn í þessu efni er.

Þetta kvöld fór atkvæðagreiðslan um Icesave-frumvarpið, sem var gert eftir uppskrift Breta og Holllendinga, fram. Vonbrigði þeirra sem voru fyrir utan Alþingishúsið var næstum áþreifanleg. Djúp vonbrigði og sorg skinu út úr andlitum margra og sumir hreinlega grétu. Aðrir reyndu að bera sig betur en ræddu um það hvert skyldi flytja næsta vor.

31. desember 2009 - Gamlársdagur

Þennan dag söfnuðumst við saman að Bessastöðum til að minna á þann almenning sem skyldi borga Icesave-skuldirnar fyrir Björgólfana ef forsetinn skrifaði undir lögin. Upphaflega var áætlað að Indefence-hópurinn myndi afhenda undirskriftarlistana, varðandi áskorun til forsetans um að setja frumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslu þennan dag, en þar sem verulegur skriður komst á undirskriftirnar strax að lokinni atkvæðagreiðslunni á þinginu, kvöldinu áður, var þeirri afhendingu frestað fram til laugardagsins 2. janúar.

Hingað til hafa ríkisráðsfundirnir sem haldnir eru á gamlársdag að Bessastöðum hafist á hádegi en þar sem fréttir höfðu borist af fyrirhuguðum mótmælum fyrir framan forsetabústaðinn á sama tíma og hann átti að fara fram var hann færður fram til kl. 11:00 en einhverjir ráðherranna voru mættir enn þá fyrr. Við söfnuðumst saman við hringtorgið við afleggjarann heim að Bessastöðum. Þaðan gengum við svo heim á hlað.

Við vorum ekki mörg sem mættum en þó var þar góður og samstilltur hópur. Einhverjir reyndu að koma skilaboðum til forsetans með söng ættjaraðarlaga eins og „Land míns föður, landið mitt“ en aðrir með því að ávarpa hann beint í gegnum gjallarhorn. Annars stóðum við slegin í þögn vegna áhyggnanna af því sem við okkur blasir í stjórnsýlsu þessa lands og því hvernig fulltrúar hennar víla það ekki fyrir sér að koma einkaskuldum kostunaraðila sinna yfir á okkur og afkomendur okkar um ókomin ár.

Þegar ráðherrarnir yfirgáfu bústað forsetans tóku nokkir sér sæti eða stóðu fyrir framan bílana sem fluttu þá á brott eins og sést á þessari mynd sem Jóhann Ágúst Hansen á Svipunni tók.
Á Bessastöðum á gamlársdag 2009 Með aðstoð lögreglunnar áttu þeir þó allir auðvelt með að komast í burtu. Ég reikna með að þrátt fyrir að þeir hafi verið skömmustulegir þegar þeir komu sér út í bílana þá hafi þeir verið fljótir að hrista skömmina af sér þegar þetta „óþægilega“ fólk var úr augsýn. En þeir voru ekki alveg lausir við okkur...

Við höfðum frétt að Kryddsíldin hefði verið færð af Borginni upp í Öskjuhlíðina og komum út boðum um þessa nýju staðsetningu um leið og hún lá fyrir. Af einhverjum ástæðum mættu þó ekki nema fáir. Við vorum aldrei nema fjögur sem stóðum á klettunum fyrir framan salinn þar sem útsendingin fór fram og hluta af tímanum vorum við ekki nema þrjú.

Okkur tókst samt að láta til okkar heyra. Nóg til þess að þeir sem voru í útsendingunni voru minntir á svik stjórnmálamannanna við kjósendur. Ég hef ekki séð útsendinguna sjálfa en mér hefur borist það til eyrna að þegar hávaðinn varð hvað mestur þá hafi farið um stjórmálamennina sem voru minntir á það fyrir hverja þeir eiga að vera að vinna.

Nokkur augnablik voru þeir minntir á að vinnan þeirra snýst ekki um að viðhalda eigin völdum með öllum brögðum heldur voru þeir kosnir inn á þing vegna þess að kjósendur treystu þeim. Þeim var treyst til að vinna að hagsmunum lands og þjóðar en neyta allra bragða til að þóknast öllum öðrum. Þ.e. græðgispostulunum sem settu okkur á hausinn, erlendum auðmangssvikahringjum o.s.frv.

Í ljósi þess að við vorum bara þrjú sem tókst með hávaðanum einum saman að minna Steingrím og Jóhönnu á fyrir hverja þau eiga að vinna og hvernig þau eru að bregðast velti ég því óneitanlega fyrir mér hvað við gætum gert ef við skipulegðum okkur betur. Það er nefnilega ljóst að stjórnmálamenn óttast enga frekar en kjósendur sína en á meðan við þegjum þá er svo afskaplega auðvelt fyrir þá að gleyma okkur fyrir þá örfáu sem í krafti peninga og valda hafa aðgang að þeim á hverjum einasta degi.

2. janúar 2010

Þá var það síðasta hálmstrá okkar almennings í hinu svokallaða Icesave-máli. Indefence-hópurinn boðaði til athafnar á Bessastöðum þennan morgun áður en þeir gengu á fund forseta til að afhenda honum undirskriftirnar sem höfðu safnast á vefsvæði sem þeir höfðu komið upp með svohljóðandi áskorun til forsetans:

Ég skora á forseta Íslands, herra Ólaf Ragnar Grímsson, að synja nýjum Icesave-lögum staðfestingar. Ég tel að það sé sanngjörn krafa að sú efnahagslega byrði sem ríkisábyrgðin leggur á íslenskan almenning og framtíðarkynslóðir þessa lands, verði borin undir íslensku þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Viðburðurinn við Bessastaði var skipulagður af Indefence-hópnum. Ég reikna með að mætingin hafi farið fram úr þeirra björtustu vonum en eins og við mótmælendur erum farnir að venjast eru tölurnar yfir viðstadda mjög á reiki. Ég myndi sjálf giska á í kringum 1000 manns. Kæmi það heldur ekki á óvart að talning hefði leitt í ljós u.þ.b. 1500.

Samkvæmt skipulagningu Indefence-hópsins var kveikt á rauðum neyðarblysum eftir að hópurinn hafði hlýtt á kór flytja ættjarðarlag. Ég verð að segja að hugur minn var alltof upptekinn af þeirri neyð sem vofir yfir framtíð lands og þjóðar ef forsetinn kýs að skrifa undir lögin til að ég tæki eftir því hvað var sungið.

Eftir að rauðu neyðarblysin höfðu brunnið uppgötvaði ég að það voru alls ekki allir sem héldu á blysum. Sumir voru töluvert frumlegri og héldu á hálmstráum! sem var svo sannarlega vel við hæfi!Síðasta hálmstráiðMyndin er fengin að láni frá Maríu Sigmundsdóttur.

Og nú bíðum við og vonum að það reynist eitthvert hald í síðasta hálmstráinu!


mbl.is Blaðamannafundur í fyrramálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bréf frá Indefence

Hér er orðsending frá Indefence í sambandi við athöfnina á Bessastöðum í fyrramálið:

Laugardaginn 2. janúar, næst komandi, kl. 11, mun Indefence-hópurinn afhenda forseta Íslands, herra Ólafi Ragnari Grímssyni, undirskriftir fólks sem skorað hefur á hann að synja nýjum Icesave-lögum staðfestingar. Enn eru Íslendingar að skrá sig í þessa áskorun á vefslóðinni: www.indefence.is sem verður opin fram að undirskrift Ólafs Ragnars Grímssonar. [Þegar þetta er skrifað eru þeir orðnir 55516]

Við í hópnum erum nú að leggja drög að skipulagningu þessa fundar og köllum eftir fólki sem er tilbúið til þess að taka þátt í afhendingu undirskriftanna. Tekið skal fram að um er að ræða virðulega athöfn, ekki mótmæli.

Þetta á að vera söguleg stund fyrir alla fjölskylduna sem seinna verður líklega fjallað um í sögubókum. Byrjað verður á því að hlýða á kór „InDefence“ undir stjórn Egils Ólafssonar þar sem fundargestir taka undir. Að því búnu mun almenningur á svæðinu tendra rauð neyðarblys sem ákall til alþjóðasamfélagsins um að Íslendingar séu að ganga að nauðarsamningum sem þjóðin vill fá að taka afstöðu til.

Lykilatriðið nú er að þeir sem við getum treyst að muni taka þátt í þessari athöfn láti skipuleggjendur vita á netfangið olaf@simnet.is. Best væri ef hver og einn komi með bíl fullan af fólki og tveimur rauðum blysum á mann. Athugið: bara rauð blys og enga skotelda.

Búið er að kaupa 300 blys og hjáparsveitirnar segjast eiga nóg til að selja okkur á morgun eða laugardagsmorgun.

Við skulum leggja áherslu á að þetta séu ekki mótmæli heldur fjölskyldufundur sem krakkarnir hafi gaman af að vera á.

Frábær útivist fyrir fjölskylduna. (mörg hundruð blys, mjög áhrifamikið). Einnig skulum við leggja áherslu á virðulega framkomu.

Afhendingin verður auglýst opinberlega og þjóðin hvött til þátttöku en við viljum þó geta tryggt að ákveðinn hópur fólks sé á staðnum til að tryggja ákveðið yfirbragð.

                                                                                  Bestu kveðjur,
                                                                                  f.h. Indefence: Ólafur Elíasson, píanóleikar
i


mbl.is Fylgst með ákvörðun forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband