Martröð eða draumur um framtíð landsins

 Sjálfshjálp handa hræddri þjóðÉg fór á frumsýningu Draumalandsins í Háskólabíói sl. miðvikudagskvöld. Þess vegna get ég tekið undir það sem er haft eftir Ólafi Sigurjónssyni, byggingarmeistara, á Smugunni. Það verður nefnilega enginn samur eftir að hafa séð þessa mynd. A.m.k. ekki þeir sem hafa einhverjar tilfinningar.

Í leit minni af efni um Draumalandið rakst ég á blogg Jóhanns Hauskssonar frá 7. ágúst á síðasta ári. Þar fjallar hann um ritdóm Sverker Sörlin, sem er prófessor í umhverfissögu og rithöfundur, á enskri þýðingu bókarinnar sem þá var nýkomin út. Þessi ritdómur birtist í Dagens Nyheter. Þar vakti  þetta sérstaka athygli mína: „Íslendingar ættu að vara sig á því að gera landið [...] að afdrepi fyrir þorpara þar sem græðgin er aflgjafinn og tækifærismennskan stýrið.“
Stíflan við KárahnjúkaSjálf las ég bókina, Draumalandið, eftir Andra Snæ Magnasonar fljótlega eftir að hún kom út. Bókin vakti mig svo sannarlega til umhugsunar en hún gerði mig líka dapra. Eiginlega miklu daprari en kvikmyndin sem byggir á henni. Ástæðan er sú að þegar ég las bókina sá ég ekki hvernig virkjana- og stóriðjubrjálæðinu yrði snúið við. Nú eygi ég hins vegar von til þess að græðgisþróuninni sem þetta byggir á verði hrundið á bak aftur.

Draumalandið fjallar um þjóð sem er búin að koma upp öllum sínum innviðum og hefur öll tækifæri í hendi sér en ákveður að gera landið að einni stærstu málmbræðslu í heiminum. Til þess þarf að fórna einstæðri náttúru og þenja efnahagskerfið til hins ítrasta.

Í aðdraganda hruns hins íslenska efnahagskerfis var farið út í stærstu framkvæmd Íslandssögunnar. Stærðarskalinn á þeim tíma var byltingarkenndur. Erlent vinnuafl var fengið til þess að byggja stærstu stíflu í Evrópu en orkuverðið var leyndarmál en samkvæmt erlendum stórblöðum sparar Ísland Alcoa um 25 milljarða króna árlega í orkuverði. Eða jafngildi árslauna 7000 kennara.

Draumalandið lýsir saklausri þjóð sem dregur að sér öfl og fyrirtæki með vafasamt orðspor og hörmulega slóð eyðileggingar á bakinu. Orkuverðið er stærsta beitan og strax eftir stærstu framkvæmd Íslandssögunnar er markið sett enn hærra: Tvö ný álver og samtals virkjanir sem jafngilda tvöföldun á stærstu framkvæmd sögunnar. (Leturbreytingar eru mínar. Sjá meira hér)

Einu sinni var ósnortið land... en svo kom álrisinn og lagði það undir sig...Myndin snart mig. M.a.s. svo að ég tárfelldi eins og margir sem finna til yfir því sem þarna kemur fram. Það sem einkum kom fram á mér tárunum var að horfa upp á varnarleysi heiðarfuglanna þegar varplandi þeirra var sökkt á kaf í vatn.

En raunveruleikinn er magnaðasta hrollvekjan. Rómantísk myndskeið og þeir hlutar Draumalandsins sem sýna eyðilegginguna, fórnirnar og örvæntingu þeirra sem börðust fyrir landinu og  lífinu voru vissulega  áhrifamikil, þótt þau væru flestum kunn.

Endurflutningur frétta og yfirlýsinga stjórnmálanna var hins vegar  skelfilegastur.  Fólk stundi í salnum og greip fyrir höfuð sér. Þetta var enn verra en mann minnti.  Kór á Austurlandi að syngja  „Ég vil elska mitt land fyrir forstjóra Alcoa.“ Stoltur fyrrverandi sveitarstjóri kominn í vinnu hjá álrisanum, grunlaus um raunverulegt hlutverk sitt. Vel heppnuð niðurstaða  eftir uppskriftinni. „Að plata og kaupa einfeldninga.“  (Leturbreytingar mínar Smugan)

Það var líka greinilegt eftir lok myndarinnar að það voru margir í einhvers konar losti. Ég hef aldrei verið á mynd þar sem hálfur salurinn situr eins og lamaður í sætum sínum eftir að myndinni er lokið. Þegar ég leit í andlit þeirra sem sátu eftir sá ég á andlitum þeirra að þeim var brugðið. Ég lái þeim það ekki.


Auk gagnrýninnar sem ég rakst á inni á Smugunni þá last ég þennan ritdóm Hjördísar Stefánsdóttur í Morgunblaðinu í dag en þar segir hún m.a: „Stórbrotið sjónarspil og eldfimt umfjöllunarefni ferja áhorfandann á heljarþröm í gegnum „tilfinningarússíbana“ sem stuðar farþegana til umhugsunar – sama hvort þeir samþykkja málstað myndarinnar eður ei.“

Inn á kvikmyndi.com hefur María Margrét Jóhannsdóttir skrifað gagnrýni um þessa mynd sem hún gefur þrjár stjörnur af fjórum. Hún hefur greinilega ýmislegt út á myndina að setja þar sem hún segir m.a:

Í raun fer meiri hluti fyrri hluta myndarinnar í það að uppfylla allar kröfur og staðla sem góðar áróðursmyndir þurfa að búa yfir og orðið „tilfinningaklám“ er það sem kemur upp í huga manns. Hent er upp á tjaldið til skiptis fallegum myndum af brosandi íslenskum börnum annars vegar og myndum af stóriðjuframkvæmdum og fátæku fólki á Indlandi hins vegar. Allt mjög dramatískt, eitthvað sem Michael Moore gæti verið stoltur af. Talað er um hvernig störfin í gamla daga voru raunverulegri en í dag – sérkennilegur óður til sjálfsþurftarbúskapar! – og því haldið fram að hagvöxtur sé slæmur. 

Það kemur kannski ekki á óvart að Viðskiptablaðið vekur sérstaka athygli á þessari gagnrýni undir yfirskriftinni: Draumalandið: Eitthvað sem Michael Moore gæti verið stoltur af“. Það gerir vefritið Völlurinn líka undir fyrirsögninni: „„Tilfinningaklám“ í Draumalandi“. Smáfuglarnir inni á AMX fjalla líka um myndina með þeirri aðferð sem þeim einum er lagið undir fyrirsögninni „Draumalandið: Áróðursmynd segir Morgunblaðið“. Það kemur reyndar fram að þeir hafi ekki séð myndina en byggja á því sem Hjördís Stefánsdóttir hefur um myndina að segja í sinni gagnrýni.

Ég ætla að enda þessi skrif í sambandi við kvikmyndina sem allir verða að sjá á umfjöllun vefmiðilsins náttúra.is um Draumalandið en þar segir m.a:

Það sem eftir stendur er verk sem allir verða að fá tækifæri til að sjá, ekki síst verða allir Íslendingar að sjá myndina fyrir 25. apríl á þessu ári. Draumalandið setur okkur Íslendinga rækilega í spor hins auðkeypta sveitalubba sem hefur verið rækilega tekinn í ........ Nota bene ekki aðeins af erlendum stóriðjurisum heldur af okkar eigin stjórnmálamönnum, bæjarstjórum og ekki síst fréttamönnum og konum sem hjálpuðu (og hjálpa enn) til við að láta allt hljóma eins og þetta sé allt saman eðlileg og uppbyggileg þróun sem beri að gleðjast yfir. Já góðu landar, við höfum verið gerð að algerum fíflum á síðustu árum, það er staðreynd sem kvikmyndin Draumalandið nær að segja frá á auðmjúkan og syrgjandi hátt.

Það er okkar að móta draumalandið héðan í frá!

Það var einu sinni hnjúkur sem teygði hlíðar sínar niður í gil...... en svo kom álrisinn og sökkti því í vatnMyndirnar frá virkjunarsvæðinu við Kárahnjúka eru fengar úr þremur áttum. Flestar eru af síðunni draumalandid.is. Tvær eru úr ferð sem ég fór um þessar slóðir sumarið 2002 og ein er af síðu Rafns Sigurbjörnssonar og er sú merkt honum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Sæl Rakel.

Ég var á frumsýningunni og hafði þetta að segja á bloggsíðu minni á eftir:

"Bók Andra Snæs Draumalandið sló í gegn. Kvikmynd Sigurðar Gísla Pálmasonar og félaga bætir um betur með sterku myndmáli, meitluðum skeytingum og atburðarás sem spannar öll eftirstríðsárin. Fjöldi kunnuglegra andlita birtist á tjaldinu inn á milli náttúrulífsmynda og sláandi eyðileggingar.

Myndin afhjúpar aðferðafræði auðhringanna sem hafa verið að ná fótfestu hérlendis til að koma hér upp stóriðjuverum í bandalagi við stjórnmálamenn, ráðherra og fulltrúa í sveitarstjórnum. Aðferðirnar hafa verið svipaðar hérlendis og í vanþróuðum ríkjum eins og John Perkins rekur á sannfærandi hátt.

Inngangsorð leikstjórans Þorfinns Guðnasonar á frumsýningunni voru tímabær hvatning til þjóðarinnar um að halda vöku sinni, láta ekki eyðileggja það sem við eigum dýrmætast, náttúru landsins og sjálfstæði.

Háskólabíó var troðfullt og undirtektir með langvinnu lófataki gáfu til kynna að verkið skilaði sínu."

Ég upplifði þá tíma sem myndin fjallar um allt frá árinu 1950 að ég var farinn að fylgjast með þjóðmálaumræðu og alþjóðamálum. Síðar varð ég beinn þátttakandi í umræðunni sem alþingismaður og um tíma í ríkisstjórn. Öll sú reynsla væri efni í bók, en það er meira virði að ungt fólk taki til hendinni og hreinsi til í garðinum þar sem illgresið veður enn uppi.

Svo vill til að ég þekki flesta Íslendingana sem koma fram í myndinni, Austfirðingana auðvitað náið, en sumir þeirra voru um tíma í flokki með mér fyrrum en hættu stuðningi við mig sem þingmann vegna andstöðu minnar við stóriðjuáformin eystra sem enduðu í Kárahnjúkavirkjun. Síðan hafa þeir verið framarlega í Samfylkingunni sem því miður heldur að meirihluta áfram óskoruðum stuðningi sínum við stóriðjuáformin.

Kvikmyndin er auðvitað afhjúpandi fyrir hugmyndaheim þessa fólks sem verið hefur leiðandi í stóriðjusókninni, ýmist sem embættismenn (Jakob Björnsson ofl) eða stjórnmálamenn (Geir H. og allt hans lið, Halldór Ásgrímsson og Valgerður og sú hirð öll sem enn sver stóriðjunni eiða, sbr. Siv Friðleifs, Einar Már Sigurðarson þingmaður og sveitarstjórnarpiltarnir í Fjarðabyggð, sem sumir eru nú á spena hjá Alcoa). Allt er þetta ömurleg saga en sem sýnir með ljósum hætti hvernig aðferðafræði auðhringanna virkar. Hugsaðu þér delluna: Alcoa að bjarga Austurlandi, síðan Norðurlandi með álbræðslu við Húsavík og Norðurál með fótinn inni á Reykjanesi þar sem Össur Skarphéðinsson er að dúkleggja fyrir auðhringinn með milljarðameðgjöf af ríkisfé.

Þakka þér fyrir vandaða yfirferð um áhrif af Draumalandinu og mismunandi viðbrögð við myndinni á ýmsum bæjum.

Hjörleifur Guttormsson, 10.4.2009 kl. 07:59

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég hef ekki lesið bókina, en ætla að sjá myndina við fyrsta tækifæri. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 10.4.2009 kl. 09:40

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæl Rakel, þeir eru ævinlega góðir pistlarnir þínir, efnistökin vel undirbyggð og í þetta skipti sem oftar get ég ekki orða bundist.  Ég vil taka það fram að ég hef hvorki lesið bókina né séð myndina Draumalandið.

En ég bý og er uppalinn í "draumalandinu" sem m.a. um er fjallað.  Það væri að tala niður til þín ef ég færi út í það að útlista hversu stórkotleg náttúruspjöll og auðhringja dýrkun átti sér stað þegar austfirðingar ásamt öðrum íslendingum ákváðu að yfirgefa torfbæina og koma upp á yfirborð jarðar.  Svo ég ætla ekki að útlista hér hve rótækar þær myndlíkingar gætu orðið á kvikmyndatjaldinu.

Mér er ekkert eins fjarri lagi og gera líti úr tilfinningum þeirra sem sjá eftir landi, undir vatn og mannvirki til þjónkunar erlendum auðhringjum.  Með því væri ég að tala niður til margra samferðamanna minna sem ég met mikils og niðra minningu foreldra minna sem dvöldu ófá sumur á stórbrotnum víðernunum norðan Vatnajökuls, löngu áður en þetta landsvæði varð eins aðgengilegt og það varð eftir 1990 með vegalagningu samhliða rannsóknum Landsvirkjunar.  

Eins er það mín skoðun að þessi langstærsta framkvæmd íslandssögunar hafi haft flesta þá galla sem þú kemur inn á í pistlinum.  Sá ókostur sem ég tel mestan eru vatnaflutningarnir.  Lagarfljótið sem áður var með einum fallegasta grænbláalit sem ég hef augum litið og hvergi séð, nema ef vera skildi í Karbíska hafinu, er nú orðið straumþungt grábrúnt fljót, sem gæti litarins vegna sómt sér í hvað iðnaðarborg sem er.

En hvers vegna tek ég þá ekki undir hvert orð í þessa pistils þíns og undir með Hjörleifi sveitunga mínum?  Það er m.a. vegna þess að á árunum frá 1980 til 2003 dró stöðugt úr afkomumöguleikum austfirðinga, það fyrst og fremst fyrir atbeina löggjafsamkomu íslendinga.  Það væri langt mál að fara út í þá sálma en til glöggvunar má nefna kvótakerfi til lands og sjávar.  Kerfi sem gerðu það að verkum að litlar, fallegar og sjálfbærar byggðir Austurlands áttu stöðugt meir undir högg að sækja.

Árin á 1984 - 2000 bjó ég á Djúpavogi og rak fyrirtæki sem þjónustaði aðallega sjávarútvegsfyrirtæki og fyrirtæki í matvælaiðnaði. Á þessum árum lagðist mest öll matvælavinnsla af á Austurlandi í nafni hagræðingar og á það við enn í dag.  Þetta hefð ekki verið hægt að gera nema brengla frjálsum grundvelli með lagasetningum. 

Til að nefna dæmi þá voru flest mjólkurbú á Austurlandi aflögð á árunum 1986 - 2000. Farið er að kyra neyslumjólkinni frá Egilsstaðabúinu til Akureyra, var um nokkurra ár skeið keyrt á Selfoss, í stað 500 m leiðar í mjólkurbú KHB.  Mjólkin hefur því á köflum verið búin að fara sem svara einum hring í kringum landið í nafni hagræðingar, áður en hún kemst til neytandans.

Svona hefur þróunin verið á flestum sviðum.  Blessuð lömbin ferðast frá Austurlandi norður á Húsvík, Sauðárkrók eða Hvammstanga til þess eins að vera slátrað og koma svo til baka sem neysluvara í kæliborð verslananna í nafni hagræðingar.  Í nafni hagræðingarinnar geta norðlendingar og sunnlendingar borgað bóndanum betur en austfirðingar, en bóndinn hefði samt mest útúr því að fá að áframvinna sínar afurðir sjálfur en það var víst ekki talið hagkvæmt, né boðlegt neytendum af fulltrúm löggjafans.

Því var það um svipað leiti og Hjörleifur sveitungi minn tók upp sína tjaldhæla við Austurvöll að ég flutti með mína fjölskyldu til Reykjavíkur vegna sífellt versnandi afkomumöguleika.  Það sem skilur á milli minnar sýnar og þinnar á langstærstu framkvæmd íslandsögunnar er að 2004 var atvinnuástandið í Draumalandinu okkar orðið þannig að ég og fjölskyldan mín hafði möguleika á að flytja til baka og komast þokkalega af. 

Magnús Sigurðsson, 10.4.2009 kl. 11:55

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Jóna: Þú skalt endilega fara og hafa með þér bréf ef þú ert viðkvæm

Hjörleifur og Magnús: Ég þakka fyrir innlegg ykkar beggja. Mér þykir virkilega vænt um þau bæði. Ég tek undir með Hjörleifi að mér finnst það ótrúleg della að tala um að álrisarnir séu að bjarga byggðarlögunum en finnst viðbót Magnúsar mjög mikils virði vegna þess að ég held að það séu margir sem átta sig ekki á því hvernig er farið með landsbyggðina. Það sem hann lýsir hefur viðgengis lengi og viðgengst enn.

Ég skil þess vegna blendnar tilfinningar þínar Magnús en þakka þér fyrir að hafa rakið það svona vel hvernig arfabiluð stjórnsýsla í fiskveiði- og landbúnaðarmálum er búin að kippa fótunum undan atvinnulífinu á Austurlandi og á vissan hátt undirbúa jarðveginn þannig að Austfirðingar voru ginkeyptari fyrir stóriðju.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.4.2009 kl. 14:05

5 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Æi hvað þetta er fín samantekt hjá þér Rakelin mín.

Ég ætlaði að fara á myndina í gær en varð ekkert af því. Hunskast á morgun...get ekki beðið mikið lengur með að sjá hana

Heiða B. Heiðars, 10.4.2009 kl. 20:55

6 Smámynd: Halldór K Kjartansson

Sæl Rakel, á þessum dapra degi. Ég las þessa stórgóðu bók strax og hún kom út, þá nýstiginn upp úr hjartaáfalli. Áhrifin voru slík að ég var með sprengitöflurna í hendinni framm í miðja bók en þá vaknaði bjartsýnin yfir því að það væri þó til fólk í landinu sem væri með hugsjónir og pilluglasið fór í vasann. Nú er bara að drífa sig á myndina, mér dugar ekkert minna en handklæði því ég er viðkvæmur sem kerling. En takk fyrir þína pistla, þeir virka stundum á mig eins og lítið Draumaland.

Halldór K Kjartansson, 10.4.2009 kl. 23:47

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Æi, Halldór, hvað mér finnst vænt um hrósið þitt Ég get ekki hugsað mér stærra hrós en einmitt það að ég skapi einhverjum lítið draumaland með sumu því sem ég skrifa Ég sé þig í anda með handklæðið í bíó en grínlaust þá kemur þessi mynd tárunum út á þeim sem kunna að finna til.

Heiða: Ég veit að þú átt eftir að sjá þessa mynd af því þú verður bara að sjá hana!

Grétar: Ég vona að þú komist í samband við viðkvæmnina í sjálfum þér þegar þú lætur verða af því að sjá þessa mynd. Það er öllum hollt að kunna að gráta. Þó þú kunnir ekki að gráta yfir sjálfum þér trúi ég að þú kunnir að finna nógu mikið til yfir landinu okkar og örlögum þess til að það kalli tár þín fram.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 11.4.2009 kl. 00:50

8 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ég er ekki búin að sjá myndina en ætla að reyna að sjá hana á morgun.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 11.4.2009 kl. 01:17

9 Smámynd: Baldvin Jónsson

Takk Rakel, frábær pistill. Myndin hafði gríðarleg áhrif á mig, í raun náði myndmálið enn meiri tengslum við mig en lestur bókarinnar og þótti mér þó nóg um þá.

Magnús, það eru til hundruðir leiða til að skapa um 400 störf á Reyðarfirði sem að hefðu ekki orðið þjóðinni allri svona dýrkeypt og þá að ótöldum umhverfisþættinum.

Að fara í þessa stærstu framkvæmd Íslandssögunnar þar sem virkjuð er um 30% af allir vatnsaflsorku á landinu til handa aðeins einum aðila og eitt í verkið tæplega 200 milljörðum er í raun glæpamennska. Þótt fáránlegt virðist hefði komið mikið betur út fyrir Reyðfirðinga og þjóðina alla að hreinlega bara gefa þeim til dæmis 20 milljarða inni á læstum reikningi og aðeins aðgang að vaxtagreiðslunum af því fé það sem eftir er.

Vaxtagreiðslur fyrir lítið samfélag eins og Reyðarfjörð og nágrenni væru nægjanlegar til þess að skapa þar gríðarlega nýsköpun, uppbyggingu og bjartsýni.

Þess í stað byggðum við gríðarlegt bákn sem kostaði ekki aðeins yfir 150 milljarða í byggingu, heldur kostar nú rúmlega 300 milljónir á ári aukalega vegna þess hve álverð er lágt í heiminum í dag.

Hvaða verði er réttlætanlegt að kaupa störfin fyrir landann?

Baldvin Jónsson, 11.4.2009 kl. 01:18

10 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir innlit og innlegg bæði Jakobína og Baldvin.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 11.4.2009 kl. 02:04

11 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Baldvin, ekki stendur á mér að taka undir með þér að það eru til hundruðir, jafnvel þúsundir leiða til að skapa 400 störf á Reyðarfirði.  Það sem ég var að benda á hér að ofan er einfaldlega það að þær leiðir sem íslensk stjórnvöld fóru með lagasetningum á árunum 1980 - 2003 fækkuðu störfum um fleiri hundruð á Austurlandi.

En nú ert þú í framboði Baldvin því vær eðlilegra að þú svaraðir þeirri spurningu sjálfur hvaða verði réttlætanlegt sé að kaupa störfin á fyrir landann?

Þetta er spurning sem frambjóðendur er ætlað að svara. 

Magnús Sigurðsson, 11.4.2009 kl. 08:48

12 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Bendi áhugasömum á lagið ,,hómó konsúmus" sem er að finna á blogginu mínu.

Þessi mynd er málið og kemur út á hárréttum tíma.

Þórður Björn Sigurðsson, 11.4.2009 kl. 16:06

13 Smámynd: Baldvin Jónsson

Magnús, ég trúi því einlæglega að þessi bitlinga pólitík sem hér hefur verið stunduð áratugum saman sé stór hluti vandans sem við stöndum frammi fyrir, hlaðið spillingu og einkavinavæðingum og greiðum.

Á Reyðarfirði tel ég þó að héðan af þurfi varla að útvega mikið af nýjum störfum, fólkið þar hefur þegar dæmt sig til þess að vinna sem álverkamenn um langa framtíð.

Annars staðar á landsbyggðinni tel ég að séu margir möguleikar í atvinnu uppbyggingu. Ég nefni til dæmis mjög aukna áherslu á gróðurhúsa iðnaðinn með það í huga að framleiða til útflutnings. Ég tel einnig að nú þegar að stór hluti kvótans er í raun kominn aftur í eigu ríkisins tví og þrí veðsettur, sé lag að deila hluta kvótans aftur til byggðanna og fastbinda hann við svæði þannig að ekki komi aftur til þessi gríðarlega eignaupptaka sem brottflutningur kvótans er í raun. Eignaupptaka í víðum skilningi því augljóst er að nánast allar eigur fólks í sjávarbyggðunum verða lítils virði um leið og þar er enga atvinnu að hafa.

Öðru fremur myndi ég þó vilja sjá hugmyndina um Byggðastofnun endurvakta þar sem að við gætum leitast við að fylgja dönsku aðferðinni sem mest til þess að styðja kröftuglega við uppbyggingu nýrra tækifæra á landsbyggðinni. Byggðastofnun hefði skilað því hlutverki væntanlega afar vel ef þar á bæ hefðu mál ekki þróast í þá áttina að gera litlar kröfur um viðskiptaáætlanir gegn lánveitingum og að því er virðist aðallega "vina" lán einhversskonar.

Baldvin Jónsson, 11.4.2009 kl. 21:54

14 Smámynd: Helga Þórðardóttir

Ég sá mydina í gær. Þetta er hrikalega góð mynd sem allir verða að sjá. Eftir myndina gat maður ekki komist hjá því að tengja þetta allt saman við spillingu innan ákveðins stjórnmálaflokks. Maður spyr sig fékk Framsóknarflokkurinn einhverjar sposlur frá Alcoa? Eitt hvað er bogið við þetta allt saman og afhverju hafa fjölmiðlar ekki sprt fleiri spurninga. Það er satt að segja margt sem er að brjótast um í höfðinu á manni þessa dagana.

Helga Þórðardóttir, 12.4.2009 kl. 00:31

15 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Tek undir með þér Helga. Myndin vekur svo sannarlega til umhugsunar! Ekki síst varðandi þær spurningar sem hefur aldrei verið spurt í þessu sambandi.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 12.4.2009 kl. 12:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband