Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Þeir sem stjórna á bak við tjöldin!

4. okt. 2010Frá stóru mótmælunum 4. október síðastliðnum hefur verið í gagni leikþáttur stjórnvalda sem hefur snúist um það að skoða svokallaða niðurfærsluleið til að mæta skulda- vanda heimilanna. Meðleikendur voru forstöðumenn banka og ýmissa annarra hagsmunasamtaka. Það sem vakti mesta athygli var að forystumenn Hagsmunasamtaka heimilanna voru hafðir með að þessu sinni.

Sú ákvörðun vakti sumum von um að nú yrði eitthvað að gert sem dygði heimilunum til bjargar en aðrir töldu að hér væri eingöngu um blekkingarleik ríkistjórnarinnar að ræða í þeim tilgangi að lengja svolítið í líftíma sínum. Það er a.m.k. ljóst að þessar viðræður skiluðu engu þrátt fyrir að standa yfir í tvær vikur.

Af þessu tilefni var send út yfirlýsing á heimasíðu Hagsmunasamtaka heimilanna sem hefst á þessum orðum: „Þá er það orðið opinbert. Stjórn HH var dregin á asnaeyrunum í tvær vikur af getulausu stjórnkerfi.“ (Sjá hér (leturbreytingar eru mínar) Þeir bentu líka á að þessi leiksýning hefði afhjúpað þá sem stæðu í veginum fyrir leiðréttingu til handa almenningi:

Hagsmunasamtök heimilanna minna á að greiðsluverkfall er í fullu gildi. HH hvetur til þrýstings á bankana, ASÍ og SA. Þessir aðilar ætla ekkert að gera til að bæta fyrir þann órétt sem fólkið hefur orðið fyrir. Það eina sem á að gera er að hrekja fólk úr landi og/eða í gegn um eignaupptöku auk þriggja til fimm ára þrælkunar fyrir stökkbreyttum skuldum sem það stofnaði aldrei til.  (Sjá hér (leturbreytingar eru mínar)

Enn einu sinni eru það sérhagsmunir fjármálakerfisins sem á að taka fram yfir hagsmuni almennings í landinu. Þessi forgangsröðun bitnar á fólki eins og þér og mér sem er að missa allt til lánadrottnanna. Dæmi eru einnig um það að líf hafi tapast. Það er því þyngra en tárum taki að helsta hindrun ríkisstjórnarinnar við að koma á leiðréttingu lánakjara almennings eru talsmenn bankanna og stjórnendur lífeyrissjóðanna.

Á þingsetningardaginn, 1. október sl., tók ein kona sig út úr hópi mótmælenda sem voru samankomnir niður á Austurvelli af því tilefni. Hún ákvað að líta við í aðalútibúi Landsbankans sem stendur við Austurstrætið. Þegar inn var komið hækkaði hún röddina og lét alla vita hvað henni fyndist um „niðurfellingu skuldar sjávarútvegsfyrirtækis sem er að hluta til í eigu fyrrverandi forsætisráðherrans Halldórs Ásgrímssonar“ (sjá hér) Heimsókn hennar lauk með því að henni var skellt í gólfið og hún dregin út. Í kjölfarið var bankanum lokað.

Tunnum bankanaþegar tunnumótmæli hafa verið boðuð við bankann sendir Landsbankinn út yfirlýsingu þess efnis að farið hafi verið að verklagsreglum við niðurfærslu þessarar skuldar. Það er varla tilviljun að talsmenn bankans sýna þessi viðbrögð fyrst nú en ekki fyrir mánuði þegar fréttist af því að  fjölskyldufyrirtæki Halldórs hefði fengið 2,6 milljarða afskrifaða hjá Landsbankanum! (sjá hér)

Auðvitað getum við ekki unað því að á meðan valinkunnir gerendur hrunsins fá afskrifaðar skuldir þurfi almenningur að bera skaðann af öllu saman. Hvað hefur þjóð líka að gera með ríkisstjórn, þjónustustofnanir og hagsmunasamtök sem vinna gegn henni í þeim tilgangi að gera hana að þægum þrælum sem mala þessum forréttindi til valda og eigna? Auðvitað nákvæmlega ekki neitt!

Það er reyndar með ólíkindum að þjóðin skuli þurfa að taka sig saman og mótmæla í nær tvö ár samfleytt til að koma því á framfæri að hér þarf heiðarlegt uppgjör að fara fram! Að við þurfum ekki á yfirvöldum að halda sem þekkir ekki rétt frá röngu og hafa enga siðferðiskennd til að setja hlutina í eðlilega forgangsröð. Við vitum að ríkisstjórnin á að taka af skarið varðandi það að verja hagsmuni þjóðarinnar sem kaus hana en þar sem hún gerir það ekki neyðumst við til að grípa til okkar ráða.

Tunnum verkalýðsforystunaÞess vegna höfum við snúið mótmælunum að bönkunum. Við mótmælum því að bankarnir, sem steyptu efnahag landsins á hausinn, kostuðu þingmenn, afskrifuðu skuldir vildarvina en sækja fram af fullri hörku gegn þeim sem ráða ekki við að standa í skilum sökum forsendubrests, skuli dirfast að standa í vegi fyrir því að kjör almennings í landinu verði leiðrétt! (Sjá hér) Við byrjum við Landsbankann í dag kl. 14:00

N.k. föstudag beinast mótmælin gegn forystu ASÍ en þá verður mótmælt við ársfund samtakanna sem fara fram á Hilton hótelinu við Suðurlandsbraut. Mótmælin hefjast kl.  14:00 n.k. föstudag (22. okt). Eins og eftirfarandi tilvitnun ber með sér eru mótmæli sem snúa að verkalýðsforystunni ekki síður tímabær en mótmæli sem snúa að bönkunum:

Svo sannarlega veitir ekki af mótmælum á Austurvelli. En það er ekki síður þörf á því að launþegar mæti við höfuðstöðvar svokallaðra „samtaka launafólks“ og „tunni“ forystumennina þar frá völdum. Þeir eru ekki að vinna fyrir umbjóðendur sína, þeir eru eingöngu að vinna í eigin þágu í góðri samvinnu við atvinnurekendur. Þetta lið þarf að „tunna“ út sem allra fyrst. (Sjá hér (leturbreytingar eru mínar)

Ég ætla að enda á því að setja hérna inn myndband frá Lifandi mynd sem var tekið upp á mótmælunum 1. október sl. sem mörkuðu upphafið af þeirri mótmælabylgju sem stendur enn. Spurning hvort þingmenn séu enn að velta vöngum yfir því hvað vakti reiði almennings þann dag.

Til að ekkert fari á milli mála þá er e.t.v. rétt að minna á það að þriðjudaginn á undan, þ.e. 28. september, þá sýndi atkvæðagreiðsla 36 þingmanna að þeim finnst ekki rétt að æðstu embættismenn þjóðarinnar beri ábyrgð á gjörðum sínum en á sama tíma lætur þingið það viðgangast að þjóðin sitji undir allri ábyrgðinni af óráðsíunni sem fylgir því að búa við siðlausa og ábyrgðarlausa stjórnsýslu. Óréttlætið í slíku vekur ekki aðeins reiði heldur er það að sliga okkur!


mbl.is Bankarnir taki á sig sökina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin framkvæmir vilja Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Það er greinilegt að tunnurnar valda titringi þó alvöru viðbrögð láti á sér standa. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar koma fram í fjölmiðlum og reyna að telja okkur þegnunum trú um það að þau hafi vilja til að bregðast við skuldavanda heimilanna en þeir sem hafa sett sig almennilega inn í málið eru fullir efasemda. Við erum búin að átta okkur á því að ríkisstjórnin framkvæmir aðeins vilja Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Hann stýrir í raun landinu. Fjárlagafrumvarpið er eftir uppskrift AGS enda skiptir hann sér að öllu sem viðkemur fjármálakerfinu. Þetta er staðreynd sem fimm þingmenn hafa haldið fram í mín eyru. Tveir þeirra eru stjórnarþingmenn. Niðurskurðurinn í heilbrigðiskerfinu sem var fyrst boðaður í upphafi árs 2009 en á að koma til fullra framkvæmda nú er samkvæmt alþekktri formúlu AGS. Henni hefur verið beitt miskunnarlaust í öllum þeim löndum þar sem sjóðurinn hefur komið við sögu.
Skammtastefna AGSÍ fjárlögunum er líka boðaður umtalsverður niðurskurður í menntakerfinu þó hann hafi ekki farið jafnhátt. Sú forgangsröðun að skuldir fjármagnseiganda eru afskrifaðar hjá bönkunum á meðan fjármálastofnanirnar sækja fram af fullri hörku gagnvart skuldum almennings er líka eftir forskrift AGS. „Loforð“ fulltrúa ríkisstjórnarinnar mega sín því lítils eða engis því það þarf að bera öll slík undir landstjóra AGS hér á landi. Það eina sem hann mun gera er að gefa einhvern gálgafrest.

Ríkisstjórnin gæti hins vegar tekið þá ákvörðun að segja upp samningi sínum við sjóðinn enda er aðstoð AGS ekkert annað en bjarnargreiði. Af lánunum sem ríkisstjóður hefur nú þegar þegið af sjóðnum þarf hann að greiða 20% af tekjum ríkissjóðs í vexti. Talnaglöggir menn hafa sagt mér að það þýði u.þ.b. sömu upphæð og þarf til að reka hér bæði þá heilbrigðis- og menntunarþjónustu á sama hátt og hefur viðgengist hér hingað til. Það má því segja að niðurskurðurinn á þessum sviðum sé eingöngu tilkominn vegna samnings ríkisins við Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Þeir sem standa á bak við svefnpopa- og tunnumótmælin gefa lítið fyrir loforð. Þeir vilja sjá aðgerðir og nýja forgangsröðun. Þess vegna hafa þeir boðað til nýrrar mótmælahrinu í þessari viku. Aðfararnótt þriðjudagsins 12. október n.k. sofa hetjulegustu mótmælendurinir úti við Stjórnarráðið (Sjá hér) en daginn eftir verður ríkisstjórnin „tunnuð“ þar sem hún heldur ríkisstjórnarfund kl. 10:00 í Stjórnarráðinu. (Sjá hér)

Aðstandendur mótmælana hafa hvatt vinnuveitendur að gefa starfsfólki sínu frí fyrir hádegi þennan dag svo þeir geti tekið þátt í mótmælaaðgerðinni við Stjórnarráðið.


mbl.is Fjölmenn mótmæli á Austurlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tunnutónar í tilefni tveggja ára afmælis hrunsins

Það eru tvö ár síðan efnahagshrunið varð og enn hyllir ekki undir neitt réttlæti fyrir aðra en gerendurna. Ástæðan er sú að íslenska stjórnmálastéttin er svo hagsmunatengd þeim sem rústuðu efnahag landsins að þeir hafa ekki vilja eða getu til að ráða neina bót á þeirri staðreynd að lífskjör almennings er á hraðri niðurleið. Við þessu verðum við almenningur að bregðast.

Í dag, sem er afmælisdagur bankahrunsins, verður tunnumótmælunum fram haldið. Þingfundur hefst klukkan 14:00 og stendur eitthvað fram eftir degi. Mótmælin byrja hins vegar klukkan fimm en auðvitað má byrja fyrr ef einhver er með tunnu og ásláttaráhald. Tunnunum, sem hópurinn sem stendur að mótmælunum hefur enn undir höndum, verður hins vegar komið fyrir kl. 17:00 í portinu sem er vinstra megin við gamla landssímahúsið, beint á móti Háspennu. Sjá meira um þessi mótmæli hér.

Ég var niður á Austurvelli frá klukkan fimm fram til tíu í kvöld og það var svolítið merkileg upplifun fyrir margra hluta sakir. Tunnumótmælin sl. mánudagskvöld eru stærstu mómæli Íslandssögunnar þannig að auðvitað reiknuðu margir með því að þeir yrðu töluvert fleiri sem létu sjá sig í dag en raun bar vitni. Úthaldið hjá mörgum þeim sem hafa mótmælt núna í hart nær tvö ár er hins vegar á þrotum. Sumir eru þegar fluttir út en öðrum finnst tími kominn á að aðrir taki við að fylgja réttlætinu eftir. Miðað við það sem ég sá af mótmælunum í dag þá má eiginlega segja að það hafi gengið eftir nú.

Við urðum aldrei neitt sérstaklega mörg. Lengst af einhvers staðar á bilinu 20-40 en undir kvöld mætti nýr hópur sem ég hef a.m.k. saknað úr mótmælunum hingað til. Þetta var ungt fólk á framhaldsskólaaldri. Ég spurði lögregluna sérstaklega að því hvort þetta væri hópur sem liðsmenn hennar könnuðust við en þeir sögðu svo ekki vera. Sögðu að þetta væru bara „venjulegir“ krakkar að mótmæla eins og við enda ekkert síður ástæða fyrir þau að spyrna við fótum en okkur hin. Ég tek undir það. 

Krossinn sem hefur verið lagður á herðar íslenskum ungmennumÞetta voru krakkar sem hafa að öllum líkindum undirbúið sig miðað við það hvernig þau höfðu útbúið sig. Einn bar þungan kross sem er táknrænt fyrir þann fjárhagslega kross sem íslenska stjórnmálastéttin hefur margítrekað skrifað upp á að íslenskur almenningur þurfi að bera. Einhver þeirra tóku líka stærstu tréflísarnar sem höfðu kvarnast úr ásláttartólunum og lögðu fyrir framan gamla anddyri alþingishússins.

Þó við höfum ekki verið mörg sem mættum í dag, a.m.k. ef miðað er við gærdaginn, þá tókst okkur sem börðum tunnur að framleiða ærandi hávaða sem heyrðist skýrt og greinilega inn í þinghúsið. Það gat enginn í þingsalnum leitt hann hjá sér. Það olli líka langflestum áhyggjum að það voru mótmælendur fyrir utan sem ætluðu ekkert að láta deigan síga.

Ég hef lítið getað fylgst með bloggheimum eða herferð gömlu álitsgjafa svokallaðra vinstri afla í landinu að undanförnu en ég hef heyrt að sumir séu í óða önn að reyna að tala þau niður. Haldi því fram að það séu Sjálfstæðismenn sem standi á bak við þau. Ég get upplýst lesendur þessa bloggs um að það eru aðallega fimm konur sem hafa borið hitann og þungan að því að standa fyrir þessum mótmælum. Engin þeirra tengist Sjálfstæðisflokknum á neinn hátt. Við getum þó ekki komið í veg fyrir að einhver innan þeirra raða reyni að nýta sér það að einhverjir sem eru utangátta telji að mótmælin nú beinist eingöngu gegn ríkisstjórninni.

Virðingardauði AlþingisÉg held mér sé óhætt að fullyrða að það vita það allir að þessi mótmæli beinast gegn stjórnmálastéttinni allri. Hún hefur sýnt það á svo ótvíræðan hátt að hana skortir ekki aðeins heiðarleika heldur býr hún líka við verulega skerta ábyrgðartilfinningu enda lætur hún sem henni standi fullkomlega á sama um það hvernig almenningi reiðir af.

Virðing Alþingis er dauð fyrir afglöp þessa fólks sem áttar sig ekki á því upplausnarástandi sem það er að skapa í samfélaginu með því að sitja áfram og halda því fram að það, fólk með enga samkennd og siðferðisvitund, sé best til þess fallið að stýra landinu! Það er ekki aðeins efnahagur landsmanna sem stefnir til helvítis ef þeir sitja uppi með þessa valdasjúku og veruleikafirrtu stjórnmálastétt heldur þau sömu gildi og þingmennirnir hafa gert sig seka um að virða að engu. Þ.e: samkennd, heiðarleiki, kærleikur, ábyrgð og siðferðiskennd.

Það er ljóst að það hreyfir ekki við þeim til alvöru athafna fyrir okkur, almenning í landinu, þó stærstu mótmæli Íslandssögunnar hafi átt sér stað við vinnustaðinn þeirra. Jóhanna boðar til fundar þar sem hún býður öðrum flokkum að taka þátt í stefnu núverandi ríkisstjórnar sem er sú að fara í einu og öllu eftir því sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir þeim.

Sigmundur Davíð klifar á vilja Framsóknarflokksins án nokkurrar tilfinningasemi og það gerir Ólöf Nordal líka nema hún talar að sjálfsögðu um vilja Sjálfstæðisflokksins. Hvorugt vék að þeim alvarlega vanda sem samfélagið stendur frammi fyrir enda er útlit fyrir að þingheimi standi á sama að undanskyldum þeim: Birgittu Jónsdóttur, Lilju Mósesdóttur, Margréti Tryggvadóttur og Þór Saari. Þessi fjögur hafa raunverulegan skilning á því að lífi og framtíð Íslendinga er stefnt í voða með þeirri undarlegu forgansröðun að þjóna í einu og öllu vilja peningaaflanna í landinu þannig að þeir hafa orðið fullkomnar veiðiheimildir í tekjum landsmanna á meðan þeir geta ekki rönd við reist.

Eins og ég kom að hér í upphafi finnst mér seinni hluti gærdagsins úti fyrir Alþingi vera merkilegur fyrir margra hluta sakir. Skiptir engu þó við höfum sjaldnast verið nema milli 20-40 manns við tunnurnar. Ég var búin að nefna fyrra atriðið sem voru þeir sem voru nýir en hitt var allur sá fjöldi sem keyrði fram hjá okkur og tóku afstöðu í gegnum bílflauturnar og lyftu þumlunum í virðingarskyni fyrir úthaldi okkar sem börðum þungan taktinn út úr tunnubotnunum. Eftir kvöldmat birtist fjölskyldufólkið sem vildi leyfa börnunum sínum að sjá og upplifa hinn dimma hljóm kröfunnar um það að þau gætu haldið áfram að vera Íslendingar.

Dúmp, dúmp fyrir framtíðina, dúmp, dúmp fyrir heiðarlegu uppgjöri, dúmp, dúmp fyrir réttlætið, dúmp, dúmp fyrir lýðræðið og dúmp, dúmp fyrir nýtt fólk sem þorir, getur og vill vinna að þeim breytingum sem þurfa að fara hér fram. 

Hér er að lokum myndband frá mótmælunum í dag en þar má heyra að hávaðinn er vel greinanlegur þó tunnuleikararnir séu ekki margir:


mbl.is Heldur fjölgar á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við viljum heiðarlegt uppgjör!

Það skapaðist gífurleg samstaða niður á Austurvelli í gær. Tunnuómurinn dundi í marga klukkutíma samfleytt en síðustu tónarnir dóu ekki út fyrr en eftir miðnætti. Því miður var fáum sem hugkvæmdist að taka með sér tunnur til að við gætum notað þær áfram en a.m.k. 12 tunnum var bjargað og svo eru ábyggilega fleiri til annars staðar. Plasttunnurnar duga líka ágætlega til að skapa dimman óm kröfunnar um heiðarlegt uppgjör alþingis á verkum þess og ráðherranna í fortíð og nútíð.

Tunnumótmæli okt. 2010

Við erum búin að fá nóg af afleiðingum misgáfulegra aðgerða íslenskrar stjórnmálastéttar sem vinnur fyrst og fremst fjármálastéttinni þægileg lífskjör á kostnað okkar almennings. Við höfum þolað afleiðingar eins og atvinnumissi, gjaldþrot og eignamissi, sundrungu fjölskyldna vegna brottflutnings og sjálfsmorða. Þetta eru þeir alvarlegu hlutir sem við getum ekki búið við lengur.

Við þolum ekki meira af lygum, hroka og yfirhylmingum. Við krefjumst heiðarleika og réttlætis. Við viljum sjá heiðarleg viðbrögð við þeirri neyð sem hefur hrjáð okkur undanfarin ár. Við viljum sjá að mennskan verði gerð að aðalatriðinu í þeirri umbyltingu sem þarf að fara fram í samfélaginu. Við treystum gömlu stjórnmálastéttinni hreinlega ekki fyrir slíku verkefni eftir að hafa horft upp á öll þeirra afglöp. Við búum yfir hugmyndum að nýjum lausnum og erum tilbúin til að ræða þær við hluteigandi aðila gamla kerfisins.

Í tengdri frétt Morgunblaðsins er haft orðrétt eftir tilkynningu á Fésbókinni um áframhaldandi mótmæli svo ég sé enga ástæðu til að endurtaka hann hér en vil benda á atburðinn sjálfan sem er að finna hér.

Að lokum vil ég taka það fram að ég er sjálf afar sorgmædd yfir því að við skulum finna okkur tilneydd til að mótmæla einu sinni enn. Hins vegar tel ég það borgaralega skyldu mína að bregðast við þeirri neyð sem ég sé allt í kringum mig. Ég er hreinlega ekki tilbúin til að láta sem ekkert sé svo siðvilltir stjórnmálamenn geti haldið uppi einhverjum serímoníum í sjónrænu valdatafli inni á Alþingi í stað þess að taka ábyrgð og afstöðu til þeirra mála sem þeir voru kosnir til að vinna að.

Þess vegna mun ég halda áfram að hvetja til mótmæla og taka þátt í þeim sjálf þó ég vildi miklu frekar setja krafta mína í að vinna að því að leggja til hugmyndir að lausnum á ástandinu. Valdastéttin virðist aftur á móti vera svo sannfærð um að hún ein hafi það á valdi sínu að leysa úr erfiðum verkefnum og neitar að horfast í augu við það að allar athafnir hennar ógna framtíð lands og þjóðar svo geigvænlega að það hefur þegar kostað mannslíf! Ég vil að þessu linni og lýsi mig tilbúna til að taka þátt í því að vinna að slíku á hvaða vettvangi sem er!


mbl.is Boða til mótmæla í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tækifæri til að breyta!

Ég man þegar mótmælin byrjuðu í Reykjavík haustið 2008. Ég man að ég fylgdist með af því að mér fannst það löngu tímabært að við risum upp til að mótmæla því sem hafði farið fram í samfélaginu í nokkur ár þar á undan. Bankahrunið batt fólk saman til slíks. Ég trúi því að frumkvæði Sturla Jónssonar tæpu hálfu ári fyrr hafi skipt töluverðu máli í því að svo margir risu upp.

Ég man að ég fylgdist bæði með fréttum og bloggi til að vita hverju fram fór á mótmælunum í kjölfar hrunsins. Og ég man að ég naggaðist eitthvað út í matarkast á alþingishúsið og yfirlýsingar mótorhjólamanna í sambandi við hópspól fyrir framan þá sömu stofnun. Ég man hins vegar ekki eftir að ég hafi haft svo ríkt hugmyndaflug að kenna slíkt við ofbeldi.

En ég er löngu hætt að láta mig varða hvernig mismunandi einstaklingar tjá vonbrigði sín og vandlætingu enda hafa afleiðingar hrunsins bitnað misjafnlega á okkur. Sumir hafa misst vinunna, orðið gjaldþrota og misst eigur sínar í kjölfarið. Jafnvel endað á götunni. Kreppan hefur líka sundrað fjölskyldum. Margir hafa séð á eftir ástvinum sínum sem hafa flúið land en tilfinnanlegustu afleiðingarnar eru dauðsföllin sem hafa orðið fyrir staðreyndir hrunsins. Sjá t.d. hér.

Það er fullkomlega eðlilegt og skiljanlegt að lífsreynsla af þessu tagi veki mönnum reiði. Það er líka fullkomlega eðlilegt að sú reiði beinist gegn stjórnmálamönnunum og Alþingi því það voru þeir sem lögðu drögin að hruninu með gjörðum sínum, leyfðu því að verða með aðgerðarleysinu og samþykkja það svo að það skuli vera almenningur sem skuli blæða fyrir. Það tekur svo steininn fullkomlega úr þegar þeir hafna því að þeir beri nokkra ábyrgð á neinu sem viðkemur athöfnum þerra og/eða aðgerðarleysi.

Í kvöld ætlar alls konar fólk að mæta niður á Austurvöll kl 19:30 til að skapa stefnuræðu Jóhönnu Sigurðardóttur viðeigandi umgjörð og undirleik. Við ætlum að standa saman af því við vitum að samstaða er aflið sem þarf til að knýja fram breytingar.

Ég held að ég megi fullyrða það að við vildum öll vera að gera eitthvað allt annað en mæta einu sinni enn til að krefjast þess sama og í janúarbyltingunni. Þá opnuðum við dyr okkar upp á gátt og buðum sátt. Við báðum um réttlæti, jöfnuð og lýðræði. Við vildum að allir yrðu samferða.

Meiri hluti þjóðarinnar treysti Jóhönnu Sigurðardóttur og hennar flokksmönnum til að tryggja samfélaginu þann jöfnuð og réttlæti sem við báðum um. Steingrímur J. Sigfússon og flokkssystkini hans gáfu sömu fyrirheit. Reyndin varð hins vegar sú að þessi tóku við kyndli fyrri ríkisstjórna og hafa síðan staðfest það enn frekar að íslenska stjórnmálastéttin hefur hvorki áform né vilja til að vinna að hagsmunum annarra en fjármagnseigenda. 

Undanfarna áratugi hafa ákvarðanir stjórnvalda fyrst og síðast miðað að því að halda þeim sem eiga peningana í landinu góðum. Þannig hafa þau skipað í nefndir, lagt fram frumvörp og dregið sig í hlé til að þjóna hagsmunum þeirra og orðið margsek af því að misfara með umboð meiri hluta kjósenda sinna. Af þessum ástæðum er íslenskur almenningur hættur að treysta núverandi stjórnmálamönnum og krefst þess að þeir láti af störfum og skapi rúm fyrir nýju fólki.

Ég ætla ekki að fara nánar út í mínar hugmyndir um það hvað ætti að taka við eftir slíkt þingrof að þessu sinni en undirstrika að neyðarástandi hæfir neyðaráætlun.

Það gamla virkar ekki þannig að það þarf að hugsa dæmið upp á nýtt en krafa okkar mótmælenda nú er í grundvallaratriðum sú sama og í janúarbyltingunni. Við viljum réttlæti ekki ranglæti, við viljum jöfnuð en ekki ójöfnuð við viljum lýðræði en ekki fáræði. Ég vona að sú stjórnmálastétt sem heldur samfélaginu í gíslingu nú beri gæfa til að hlusta að þessu sinni. Við erum nefnilega tilbúin til að eiga í samræðum við þau og knýjum því á dyr...


mbl.is Litlar breytingar á fylgi flokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég harma aðför stjórnmálastéttarinnar að almenningi

Stjórnmálastéttin er haldin þvílíkri firringu að hún virðist ekki skilja þá neyð sem hún hefur komið almenningi í. Það er neyðin sem rekur okkur til að spyrna við fótum. Þess vegna hafa mótmælin aldrei sofnað þó þau hafi ekki enn náð sama krafti og í janúarbyltingunni 2009. Núna á föstudaginn mættu mörg okkar niður á Austurvöll og hrópuðum: VIÐ ERUM ÞJÓÐIN og VANHÆFT ALÞINGI.

Á mánudagskvöldið verður þeim mótmælum haldið áfram. Við höfum nefnilega misst alla trú á því að nátttröllin sem skipa gömlu flokkanna hafi vilja eða getu til að leysa vandann sem þau komu okkur í. Við erum að átta okkur á því að þau vilja aðeins verja fjármálakerfið og sjálf sig. Við krefjumst þess að á okkur sé hlustað og mörg okkar eru á þeirri skoðun að þvílíku neyðarástandi sem hin sérhagsmunamiðaða flokkapólitík hefur átt virkan þátt í að koma okkur í verði aðeins leyst með nýjum starfsaðferðum.

Mótmælin sem boðað hefur verið til næst komandi mánudagskvöld við upphaf stefnuræðu forsætisráðherra bera yfirskriftina: TUNNUMÓTMÆLI FYRIR BROTINN TRÚNAÐ. Sérstakur viðburður hefur verið settur inn á Fésbók til að fólk geti skráð sig. Sjá hér. Þar stendur þessi texti:

Næstkomandi mánudagskvöld er stefnuræða Jóhönnu Sigurðardóttur á dagskrá þingsins. Við skulum skapa henni réttan undirleik og umgjörð. Ómsterkir eða stórir hljómgjafar afar vel séðir. Mætum í öllum okkar fjölbreytileik og stöndum saman í því að koma vantrausti okkar á því sem fram fer innan þingsins á framfæri.

Gleymum því ekki að stofnunin sem steypti fjármálakerfinu í glötun fyrir tveimur árum, með vanhæfni sinni og spillingu, steypti lýðræðinu sömu leið í atkvæðagreiðslunni um landsdóm síðastliðinn þriðjudag. Því er komið að okkur almenningi að spyrna við fótum áður en þeir missa landið okkar niður um svelginn vegna áframhaldandi afglapa.

(Seinni efnisgreinin er byggð á því sem fram kemur í grein Svans Kristjánssonar sem birtist á eyjan.is 30. sept. sl.)

Það hefur fréttst að nú þegar sé búið að safna saman nokkrum tunnum og einhverjir ætla bara að taka ruslatunnuna sína og trylla henni inn á Austurvöll til að taka þátt í tónleikum tunnubandsins sem verður til þar. Því hefur jafnvel verið spáð að bandið muni áður en yfir lýkur ná viðlíka leikni og þessir hér:

Það skal tekið fram að mótmælin hefjast kl. 19:30. Ræða forsætisráðherra hefst tuttugu mínútum síðar. Sjá hér.


mbl.is Harma aðför að Geir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég segi þeim upp!

Síðastliðna viku hefur mér liðið eins og innbrotsþjófar hafi brotist inn hjá mér og rænt mig öllu. Jafnlyndinu líka! Ég ætla ekki að nota þennan vettvang til að kvarta frekar yfir stormabálinu sem geisar í huga mér eða andvökunóttunum sem örvæntingin yfir ástandinu hefur valdið mér. Hér ætla til hvaða ráða ég tók sem var að semja og senda eftirtöldum þingmönnum uppsagnarbréf.

Framsóknarflokkur: Guðmundur Steingrímsson, Gunnar Bragi Sveinsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Samfylking: Árni Páll Árnason, Ásta R. Jóhannesdóttir, Anna Margrét Guðjónsdóttir, Guðbjartur Hannesson, Helgi Hjörvar, Jóhanna Sigurðardóttir, Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller, Magnús Orri Schram, Oddný G. Harðardóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Róbert Marshall, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Skúli Helgason, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Össur Skarphéðinsson.

Sjálfstæðisflokkur: Ásbjörn Óttarsson, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Einar K. Guðfinnsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Sigurður Kári Kristjánsson, Kristján Þór Júlíusson, Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður E. Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigurður Kári Kristjánsson, Tryggvi Þór Herbertsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Víðir Smári Petersen og Þorgerður K. Gunnarsdóttir.

Bréfið sem ég skrifaði og sendi á póstföng þingmannanna er svohljóðandi:

Reykjavík 1. október 2010

Erindi: Að segja þér upp störfum sem þingmaður.

Ég hef fylgst náið með störfum þingsins eftir bankahrunið 2008 og lesið marga kafla Rannsóknarskýrslunnar ýtarlega. Af þessu og annarri upplýsingaöflun í gegnum fréttir og borgarafundi, bæði hér og á Akureyri, hef ég sett mig ýtarlega inn í aðdraganda og ástæður hrunsins svo og störf þín á Alþingi.

Af því öllu saman og svo því hvernig þú varðir atkvæði þínu sl. þriðjudag sé ég ekki annan kost en að segja þér upp umboði mínu. Ástæðan er ekki síst sú að þegar þú stóðst frammi fyrir alvöru tækifæri til að lýsa þig reiðubúin/-inn til að styðja við það að hér fari fram alvöru uppgjör, þegar til stóð að kalla fjóra ráðherra úr fyrrverandi ríkisstjórn til ábyrgðar, þá misnotaðir þú atkvæðisrétt þinn til að gegna þínum eigin hagsmunum og/eða flokksins þíns.

Með því sýndir þú svart á hvítu að þér er ekki treystandi til að gegna því ábyrgðarmikla starfi að vera þingmaður sem vinnur að velferð lands og þjóðar. Þú lokaðir augunum fyrir því upplausnarástandi sem ríkir í samfélaginu og útilokaðir þær sterku raddir sem krefjast uppgjörs og nýrra starfshátta sem munu leiða til siðvæðingar bæði innan þings og utan.

Þingmaður sem býr ekki yfir sterkari siðferðiskennd en svo að hann misnotar atkvæði sitt á ofangreindan hátt og skellir skollaeyrum við því að ráðherrar jafnt og aðrir verða að axla ábyrgðina á störfum sínum býr varla yfir ábyrgðarkennd sjálfur. Ég skora þess vegna á þig að víkja þegar af þingi sem þú hefur vanhelgað með æruleysinu sem þú hefur nú orðið ber af.

 


mbl.is „Fólk bíður eftir nýju afli“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband