Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012

Capacent setur niður

Mér þykir ástæða til að vekja athygli á þessari frétt af heimasíðu SAMSTÖÐU:

Capacent er án efa eitt þekktasta fyrirtækið á sviði samfélagsrannsókna hér á landi. Á heimasíðu þeirra segir: „Capacent er leiðandi þekkingarfyrirtæki á sviði ráðgjafar, rannsókna og ráðninga.“ (sjá hér) Það er líka ljóst að ýmsir miða sig við niðurstöður kannana þeirra. Þetta á líka við um kannanir sem eru gerðar varðandi fylgi stjórnmálaflokka.

Miðað við það hvernig er vísað til niðurstaðna kannana sem gerðar hafa verið á vegum Capacent má ganga út frá því að almennt sé gert ráð fyrir því að forráðamenn fyrirtækisins leggi metnað sinn í vönduð vinnubrögð þegar kemur að frágangi skoðanakannana. Það sætir því furðu að fá af því rökstuddar fréttir að í viðhorfskönnun fyrirtækisins skuli einum stjórnmálaflokki vera sleppt. Óstaðfestar fréttir bárust reyndar af því strax á vormánuðum að SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar væri ekki með á listanum yfir stjórnmálaflokka í könnunum á vegum umrædds fyrirtækis. Á þeim tíma mældist SAMSTÐA þó með á milli 9-11% fylgi.

Þegar á eftir þessu var gengið vildu forsvarsmenn Capacent ekki kannast við að þetta ætti við rök að styðjast. Eins og meðfylgjandi skjámynd úr könnun fyrirtækisins á viðhorfum fólks til stjórnmála sýnir er SAMSTAÐA óvéfengjanlega ekki með á listanum í yfirstandandi könnun og því eðlileg krafa að forsvarsmenn fyrirtækisins útskýri hvers vegna henni er sleppt þegar önnur framboð, sem hvorki eiga félagsmenn sem sitja á yfirstandandi þingi né hafa haldið landsfund, eru höfð á honum.

Skjámynd af valmöguleikunum úr viðhorfskönnun Capacent varðandi val á stjórnmálaflokkum.

Hér eru valmöguleikarnir klipptir innan úr stærri myndinni hér að ofan.

Í bréfi Capacent til þátttakenda segir um þá könnun sem ofangreind spurning er tekin úr: „Könnunin er hluti af stórri rannsókn á viðhorfum fólks til stjórn- og þjóðmála sem er framkvæmd er [svo] reglulega.“ Í þessu ljósi er það grafalvarlegt mál að einum stjórnmálaflokki er sleppt úr í valmöguleikunum. Það er heldur ekki hægt að taka mark á niðurstöðunni sem fæst út úr spurningu sem er þannig úr garði gerð að ekki er boðið upp á velja alla möguleika sem eru fyrir hendi.

Í svarbréfi framkvæmdastjóra Capacent, Einars Einarssonar, til formanns SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar, Birgis Arnar Guðjónssonar, sem barst í dag við fyrirspurn formannsins, gefur framkvæmdastjórinn þessa skýringu:

Þessi könnun er hvorki gerð með það að markmiði að mæla fylgi flokkanna né til birtingar. Þessari spurningu er ætlað að sía út þá sem eiga fá [svo] áframhaldandi spurningar um ákveðna stjórnmálaflokka.

Í öllum könnunum sem Capacent framkvæmir með það að markmiði að mæla fylgi flokka eru öll framboð talin upp og þar með talin Samstaða.

Hann svarar því hins vegar ekki af hverju SAMSTÖÐU er sleppt á meðan önnur ný framboð, sem hvorki hafa haldið landsfund né eiga þingmann inni á þingi, eru höfð með. Hann skýrir það ekki heldur hvernig þessi spurning á að „sía út þá sem eiga að fá áframhaldandi spurningar um ákveðna stjórnmálaflokka“. Þeirri spurningu er t.d. ósvarað hvernig þessari viðhorfskönnun er ætlað að „sía“ út þá sem styðja SAMSTÖÐU þegar SAMSTAÐA er ekki með á listanum.

Eftir situr að það er ekki hægt að ætlast til þess að mark sé tekið á niðurstöðum þessarar könnunar Capacent til viðhorfa fólks til stjórnmála. Vissulega vekur þetta líka upp spurningar um það hvort mark sé takandi á þeim niðurstöðum sem hafa verið kynntar að undanförnu um þetta efni á vegum Capacent. Þeir eru reyndar einhverjir sem vilja halda því fram að lítið mark sé takandi á skoðanakönnunum almennt en þó er ekki hægt að líta fram hjá því að þær eru skoðanamótandi.

Ef Capacent vill viðhalda þeirri stöðu að vera leiðandi á sviði viðhorfskannana skyldi maður ætla að forsvarsmenn fyrirtækisins líti þau mistök sem þeir hafa nú orðið uppvísir að mjög alvarlegum augum. Maður skyldi því ætla að forráðamenn þess komi með viðunandi skýringar á því hvernig stendur á því að þeir bjóða þátttakendum í könnunum Capacent upp á það að gefa upp afstöðu sína til stjórnmálaflokka án þess að þeir séu allir hafðir með. Svör þeirra hingað til hafa því miður ekki verið til þess fallin að byggja upp traust til þess. Á meðan þau hafa ekki borist er ekki hægt að líta þetta öðrum augum en Capacent hafi sett verulega niður.


Skipuð kynningar- og tengslafulltrúi SAMSTÖÐU

Eftirfarandi frétt var birt á heimasíðu SAMSTÖÐU í gærkvöldi: 

Rakel SigurgeirsdóttirRakel Sigurgeirsdóttir hefur verið skipaður kynningar- og tengslafulltrúi SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar. Skipunin gildir út janúar á næsta ári. Fulltrúahlutverk hennar er ólaunað eins og önnur verkefni innan SAMSTÖÐU.

Rakel gekk til liðs við flokkinn um miðjan febrúar. Á félagsfundi sem haldinn var þann 12. mars var hún kjörin formaður aðildarfélags SAMSTÖÐU í Reykjavík. Allt frá stofnun hefur félagið verið mjög öflugt í að standa fyrir fundum og öðrum opnum viðburðum sem hafa þann tvíþætta tilgang að kynna stefnu SAMSTÖÐU og opna félögum og fleirum aðgengi að forystu flokksins.

Áður en Rakel gekk til liðs við SAMSTÖÐU hafði hún tekið virkan þátt í viðspyrnunni. Fyrst á Akureyri og síðar í Reykjavík. Á Akureyri byrjaði hún á að taka þátt í mótmælagöngum þar haustið 2008 og átti síðar sæti í borgarafundanefnd sem skipulagði reglulega fundi tvo fyrstu veturna eftir hrun. Eftir að hún flutti til Reykjavíkur hefur hún síst dregið af í viðspyrnunni.

Hún var einn aðalskipuleggjandi Tunnumótmælanna haustið 2010 og var í hópi kjosum.is sem safnaði undirskriftum til að krefjast þjóðaratkvæðagreislu um Icesave-samninginn fyrri hluta árs 2011. Eftir það hélt hún áfram í Samstöðu þjóðar gegn Icesvave þar sem hún stóð að framleiðslu myndbandasyrpunnar: Af hverju NEI við Icesave? Frá haustinu 2011 lagði hún hönd á plóg við uppbyggingu Grasrótarmiðstöðvarinnar þar sem hún stóð m.a. fyrir reglulegum laugardagsfundum. Auk þessa stýrði hún undirbúningi tveggja borgarafunda sem haldnir voru síðastliðinn vetur í Háskólabíói um lánamál heimilanna.

Rakel starfaði áður með Hreyfingunni. Hún var fimmta á lista Borgarahreyfingarinnar í Norðausturkjördæmi í alþingiskosningunum 2009. Varamaður í stjórn Hreyfingarinnar frá haustinu 2009 og í stjórn hennar frá júní 2011. Hún sagði sig frá henni í október það sama ár.

Rakel er með BA-próf í íslensku og fjölmiðlafræði og eins árs viðbótarnám í hagnýtri fjölmiðlun. Hún starfaði eitt ár á svæðisútvarpi Norðulands en frá útskrift frá Háksóla Íslands hefur hún lengst af verið framhaldsskólakennari. Núverandi starf Rakelar er íslenskukennsla fyrir útlendinga.

Sem kynningar- og tengslafulltrúi SAMSTÖÐU mun Rakel annast ritsjórn heimasíðunnar og önnur kynningar- og tengslmál SAMSTÖÐU auk verkefnisstjórnunar ýmissa skyldra verkefna á vegum flokksins.

 


Rekstur skóla og menntun nemenda er sitt hvað

Menntum til mennskuÍ orði eru flestir sammála um að góð menntun ætti að vera ein grunnstoða allra samfélaga. Á undanförnum árum hafa aðgerðir menntamála-yfirvalda þó frekar stuðlað að því að grafa undan skólastarfi í landinu. Það má vera að einhverjum finnist þetta stór orð en þó er líklegra að þeir séu fleiri sem kannast við það alvarlega ástand sem við blasir í menntamálum.

Ekki er heldur annað að sjá en menntamálaráðherra gangist við þessu ástandi í grein sinni „Snúum vörn í sókn" sem birtist í Fréttablaðinu 9. nóvember síðastliðinn. Þó þar sé því haldið fram að núverandi ástand megi bæta þá er það viðurkennt að „á sama tíma og skorið hefur verið niður" í framhaldsskólunum þá hafi nemendum fjölgað meira „en nokkru sinni fyrr".

En það er ekki bara fjölgun nemenda með auknu vinnuálagi á kennarana sem ógnar þeirri menntun sem skólunum er ætlað að veita. Sú hugmyndafræði að skóla eigi að reka eins og hvert annað fyrirtæki sem skilar hagnaði á þar ekki síðri þátt. Hér mætti líka líta til afleiðingar þessarar markaðsdrifnu hugmyndafræði á fleiri opinberar stofnanir en hér verður horft til þeirra sem hafa grafið undan þeirri samfélagsþjónustu sem lýtur að rekstri skóla og menntunar nemenda.

Misvísandi stefna í rekstri skóla

Það skortir mikið á að hér sé rekin samræmd stefna í skólamálum þrátt fyrir yfirlýsingar um annað. Þetta kemur meðal annars fram í því að landsmenn sitja ekki lengur við sama borð hvað þessi mál varðar frekar en þegar kemur að annarri samfélagsþjónustu sem þeir taka þó þátt í að reka með skattgreiðslum sínum. Sú ákvörðun að færa rekstur grunnskóla yfir til sveitarfélaga er skýrt dæmi um skortinn á ígrundaðri stefnu í þessum málaflokki.

Á meðan tekjustofnar ríkis og sveitarfélaga byggja á sömu forsendum og áður þá er sveitarfélögunum gert að sinna þeirri ríkisskyldu að halda uppi skyldunámi grunnskólans. Afleiðingarnar þekkja þeir best sem búa í dreifðari byggðum landsins. Skólar eru lagðir niður og skólabörnin þurfa að sækja skóla langt að heiman. Þessi ráðstöfun grefur ekki aðeins undan menntuninni heldur ógnar hún áframhaldandi búsetu á sífellt fleiri stöðum úti á landsbyggðinni.

Á sama tíma og ríkið hefur velt rekstri og ábyrgð grunnskólans yfir á sveitarfélögin með framangreindum afleiðingum hefur verið ráðist í að opna tækifæri til framhaldsmenntunar í ýmsum fámennari byggðarlögum landsins. Þetta skýtur nokkuð skökku við í ýmsum skilningi en þó einkum þeim að á sama tíma og rekstrarfé rótgróinna framhaldsskóla er skorið niður er umtalsverðum fjármunum varið til uppbyggingar nýjum framhaldsskólum og framhaldsdeildum.

Tvíbent stefna í menntamálum

Tilfinnanlegt misræmi er líka að finna á núverandi stefnu og viðhorfum varðandi menntunina sjálfa. Í þessu sambandi er einboðið að vísa til þess hvernig hefur verið staðið að innleiðingu nýrra laga um framhaldsskólann frá vorinu 2008. Þrátt fyrir allan þann tilkostnað og tíma sem fór í að setja lögin saman var ýmsum spurningum varðandi menntun nemenda og vinnuþátt kennara enn ósvarað þegar lögin voru samþykkt. Þrátt fyrir þann tíma og þá vinnu sem hefur farið í það að hrinda þeim til framkvæmda síðan hafa svörin ekki fengist enn.

Í fyrstu var áætlað að innleiðingu laganna yrði lokið eigi síðar en 1. ágúst 2011. Fullri gildistöku hefur hins vegar verið frestað til ársins 2015 vegna fjárhagsvanda ríkissjóðs. Það hefur legið fyrir frá upphafi að innleiðingin kostaði peninga. Á meðan þeim er ekki veitt í þetta verkefni og ekki nást samningar sem miða að því að bæta kjör kennara er ljóst að óánægja þeirra eykst. Við slíkar aðstæður búa kennarar ekki aðeins við óviðunandi ástand sem ógnar kjörum þeirra heldur er metnaði stéttarinnar til að veita nemendum góða menntun stefnt í voða.

Misvísandi stefnur menntamálayfirvalda varðandi rekstur menntastofnana, starfið sem þar fer fram og hvernig því skuli háttað teflir ekki aðeins vinnuaðstæðum kennara og menntun nemendanna í hættu heldur grefur það undan framtíð íslensks þekkingarsamfélags. Við því þarf að bregðast tafarlaust með afgerandi hætti ef ekki á illa að fara. 

Höfundur er varaformaður framkvæmdaráðs SAMSTÖÐU og fyrrverandi framhaldsskólakennari.
mbl.is Samræmda stefnu í skólamálum vantar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband