Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Persónugervingur vandans!

Já, það er ástæða til að persónugera þessa atkvæðagreiðslu eins og önnur vandamál sem koma upp og þarf að leysa! Hér eftir þarf enginn að vera í vafa um það hvaða þingmenn eru færir um að gera upp hrunið og hverjir eru það ekki. Hér er hægt að ganga úr skugga um það hvernig þingmenn vörðu atkvæðum sínum í atkvæðagreiðslunni í dag.

Þar kemur berlega í ljós að 25 þingmenn eru tilbúnir til að taka undir niðurstöðu þingmannanefndarinnar um það hvaða ráðherrar skulu mæta fyrir landsdómi. Þessir 25 eru allir þingmenn Hreyfingarinnar og Vinstri grænna, sex þingmenn Framsóknarflokks og einn samfylkingarþingmaður en það er Jónína Rós Guðmundsdóttir. Framsóknarþingmennirnir sem eru á því að ráðherrar eigi að bera ábyrgð á gjörðum sínum eru eftirtaldir: Birkir Jón Jónsson, Eygló Harðardóttir, Huld Aðalbjarnardóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Siv Friðleifsdóttir og Vigdís Hauksdóttir.

Ég mæli með að við segjum hinum 38 upp við þingsetninguna n.k. föstudag! Það verða nefnilega mótmæli þá í tilefni þingsetningarinnar. Ég mæli líka með að þú mætir enda eiga forfeður þínir og -mæður, landið þitt, tungumálið þitt og menning auk framtíðarinnar og afkomenda þinna það skilið af þér að þú standir með þjóð þinni þennan dag. Slagorð mótmælanna gæti orðið: VIÐ ERUM ÞJÓÐIN!

Þessi mótmæli eru auglýst hér og hefur þeim sem ætla að mæta fjölgað um nær helming síðan niðurstöður atkvæðagreiðslnanna frá því fyrr í dag lágu fyrir! 


mbl.is Greiddi atkvæði samkvæmt sinni sannfæringu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í þágu banka og núverandi kvótahafa?

Þetta er afar óljós frétt um afar mikilvægt mál því eins og almenningur hlýtur að gera sér grein fyrir þá veltur áframhaldandi sjálfstæði okkar Íslendinga á eignarréttinum yfir náttúruauðlindunum. Ef  Alþingi Íslendinga situr aðgerðarlaust hjá á meðan sveitarfélögin ráðstafa orkuauðlindunum undir erlenda auðhringi og ef þeir dansa eftir hugmyndum Landssambands íslenskra útgerðarmanna um ráðstöfunarréttinn á fiskinum í sjónum þá verður ekki lengur neinum blöðum um það að fletta að íslensk stjórnvöld hafa gert sig sek um landráð!

LÍÚ vill tryggja óbreytt ástand í sjávarútveginum og gangi það eftir þá er baráttan um fiskveiðilögsöguna hér á árum áður farin fyrir lítið. Núverandi ástand er í raun talnaleikur exelskjalafræðinga til að tryggja fámennum fjármagnseigendahópi hámarksgróða út úr sjávarútveginum. Hagur almennings, sem ætti svo sannarlega að njóta góðs af því að búa við svo gjöful hafsvæði, er algerlega hlunnfarinn. Verði farið eftir hugmyndum LÍÚ er heldur ekkert sem tryggir það að núverandi kvótahafar selji ekki hlutinn sinn úr landi.

Það er ekki lengur þjóðarbúið sem nýtur góðs af gjöfulum fiskimiðum heldur fjármálastofnanir og útsmognar kvótaklíkur. Í reynd er kerfið sem þeir halda uppi svo rotið að það er ekki hægt að kalla það annað en rakna heimsku að vilja halda því við. Nema að við gerum ráð fyrir því að allir þeir sem vilja viðhalda því hafi beinan hag að því að arðræna þjóðarbúið og almenning um leið. Ég verð reyndar að taka það fram að það finnst mér persónulega vera hámark heimskunnar! Hver sem stuðlar að því að grafa undan samfélagslegum hagsmunum grefur nefnilega undan sjálfum sér um leið! 

En erindi mitt með því að blogga við þessa frétt er að vekja athygli á viðtali við Finnboga Vikar Guðmundsson sem sat í sáttanefnd um sjávarútveginn. Sú nefnd skilaði niðurstöðu sem hefur verið kennd við samningaleiðina nú í september. Finnbogi skilaði hins vegar séráliti sem varð tilefni viðtalsins sem ég birti hér að neðan.

Það skal tekið fram að viðtalið var tekið upp í tveimur hlutum. Í fyrri hlutanum segir Finnbogi Vikar frá niðurstöðu sáttanefndarinnar og tilboðsleiðinni sem mál líka kynna sér hér

Í seinni hlutanum fjallar Finnbogi hins vegar um það hvaða þýðingu það muni hafa fyrir sjávarútveginn ef samningaleiðin verður að lögum, hvers vegna sjávarútvegurinn er svona skuldugur og hver hafi hag af því að viðhalda jafnóréttlátu kerfi í sjávarútveginum og samningaleiðin mælir með.


mbl.is Frumvarpið liggi fyrir á haustþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Máttur og dýrð kunningjasamfélagsins!

Færslan hér að neðan fjallar reyndar ekki um það sem lýtur að núverandi umræðu þingsins um það hvort það eigi að kalla saman landsdóm, hvaða ráðherrar mæti fyrir hann og/eða það hvort þingmenn eigi að fá aðgang að göngnum þingmannanefndarinnar sem fjallaði um niðurstöður Rannsóknarskýrsl-unnar. Hún fjallar þó um afar skylt málefni sem er einkavæðing bankanna. Þessi færsla er tekin af rannsóknarskýrslublogginu

Máttur og dýrð kunningjasamfélagsins

Í umfjölluninni um einkavæðingu bankanna er ástæða til að vekja sérstaka athygli á samskiptum Samsonar-hópsins, og þá einkum Björgólfsfeðga, við ráðherranefndina sem var skipuð í kringum einkavæðingu bankanna og framkvæmdanefndina um sama málefni. Hér er ætlunin að gera grein fyrir þeim samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir og koma fram í Rannsóknarskýrslunni.

Áleit Kjartan Gunnarsson þá álitlega eigendur?

Það hefur komið fram áður að Björgólfur Guðmundsson segir að upphafið á því að hópurinn, sem kenndi sig síðar við Samson, komst á snoðir um áhuga ríkisins á því að selja hluti sína í bönkunum megi rekja til kokteilboðs í London. (Sjá hér í kaflanum „Blinduð trúarsannfæring“)

Upphafið að því að við komum inn í þetta er nú eiginlega þannig að úti í Englandi á sínum tíma, þegar við vorum nýbúnir að afgreiða Rússland eða þann hluta sem við vorum þar í, þá hittum við nú mann sem er frá HSBC, það er svona í kokteilboði og hann hefur orð á því að þeir séu alltaf með mandate frá ríkisstjórninni um að þeir megi, eigi að selja bankann. Þetta verður bara svona einhver léttleiki yfir þessu samtali, það var nú Magnús og Björgólfur, ég var ekki þarna úti, og það er eiginlega svona, það kveikir í mönnum. (1. bd. Rannsóknarskýrslunnar bls. 242 (leturbreytingar eru höfundar))

 

 

Áður en lengra er haldið er e.t.v. rétt að minna á það hverjir tilheyrðu Samson-hópnum en þeir eru talið frá vinstri: Björgólfur Guðmundsson, Magnús Þorsteinsson og Björgólfur Thor Björgólfsson. Og þá aftur að frásögn Björgólfs varðandi það hvernig þessi hópur frétti af því að til stæði að selja íslensku bankana.

Síðan er litlu, seinna, þá er boð eða kokteilboð hjá Heritable-bankanum sem Landsbankinn var þá, og þá eru þeir Halldór Jón og Kjartan Gunnarson þar, sem er þá stjórnarformaður úti, og þeir, svo tekst eitthvert samtal þeirra á milli og það, þeir fara að segja þeim að það eigi að fara að selja eitthvað í bankanum. [...] Og ég man það að þessi HSBC-maður sem þeir fengu umboð held ég 2001 að hann sagði að þeir hefðu leitað til 20, 17 eða 20 aðila, kynnt þeim málið, hvort þeir hefðu áhuga fyrir að taka þátt í þessu bankaútboði. (1. bd. bls. 242 (leturbreytingar eru höfundar)

Pappírsvinna Sennilega er Björgólfur að segja að Kjartan Gunnarsson hafi sagt þeim að HSBC-manninum hafi verið falin sala Landsbankans en hún hafi ekki gengið neitt þrátt fyrir að 17-20 aðilum hafi verið kynnt útboðið.

Reyndar má skilja þetta svo að Björgólfur sé að segja að í reynd hafi hann verið að gera mönnum greiða með því að kaupa óseljanlegan banka sem enginn hafði áhuga á. Hér skal þó ekkert fullyrt um það hvor Halldór Jón (sennilega átt við Halldór J. Kristjánsson) og Kjartan Gunnarsson hafi átt frumkvæðið að því að setja dæmið þannig upp að bankinn væri óseljanlegur. 

En aftur að frásögn Björgólfs Guðmundssonar á aðdraganda þess að hann bauð í Landsbankann í félagi við son sinn og Magnús Þorsteinsson.

Nú, svo komum við heim og förum að velta þessu fyrir okkur og þá töluðum við við þessa nefnd sem Ólafur Davíðsson er formaður fyrir, einhverjum hringingum og einhver sagði, einhvern veginn þróast það þannig að við komumst í samband við hann og [...] við ritum þeim bréf [...] (1. bd. bls. 242)

Ólafur Davíðsson var fulltrúi forsætisráðherra í Framkvæmdanefnd um einkavæðingu og leiddi hana. Það er vert að vekja athygli á því að hann tók við því embætti eftir að Hreinn Loftsson hafði sagt sig frá nefndinni í byrjun febrúar 2002 (Sjá hér) Það er ljóst að það hefur mikið gengið á í þeirri nefnd en síðar það sama ár sagði Steingrímur Ari Arason sig líka frá þessari sömu nefnd af ástæðum sem voru m.a. raktar hér. (Sjá líka hér)

„Vinarþel“ forkólfa Sjálfstæðisflokksins nýtt til hins ýtrasta

Framkvæmdanefndinni barst bréf Samson hópsins 27. júní 2002. Bréfið innihélt tilboð þeirra í 33,3% af hlutafé Landsbankans auk hugmyndar um kauprétt að 10% heildarhlutafjár til viðbótar. Þetta þýddi 90% af eignarhlut ríkisins. Hins vegar er ljóst að hópurinn var í stöðugu sambandi við Ólaf Davíðsson, formann nefndarinnar og Davíð Oddsson áður en þeir settu saman tilboðsbréfið

Í framhaldinu voru báðir bankarnir, þ.e Landsbankinn og Búnaðarbankinn auglýstir, en Samson- Björgólfur Thor Björgólfsson hópnum lá á. Lögmaður hópsins margítrekaði áhuga hópsins með skriflegum eftirrekstri sem Björófur Thor Bjórgólfssyni fylgdi eftir. Hann skrifaði ítrekunarbréf til Framkvæmdanefndarinnar 29. júlí þar sem hann setur fram spurn- ingar um það hvort það standi ekki örugglega til að selja þeim Landsbankann.

Tilefnið segir hann vera orð Valgerðar Sverrisdóttur í sjónvarpsviðtali sem gefi ástæðu til að ætla að „óvissa og stefnuleysi“ sé ríkjandi varðandi sölu bankanna. Bréfinu lýkur hann með eftirfarandi orðum:

Svar við ofangreindum spurningum óskast hið fyrst svo unnt verði að taka ákvörðun um næstu skref. Á meðan þeim er ósvarað telur undirritaður ógerlegt að meta hvort hann og samstarfaðilar hans hafi áhuga á að fjárfesta í kjölfestuhlut í Landsbanka Íslands hf. eða Búnaðarbanka Íslands hf. (1. bd. bls. 268)

Frá og með þessu bréfi er eins og Samson-hópurinn verði ráðandi aðilinn í samningaferlinu. Björgólfur Guðmundsson Framkvæmdanefndin gerir einhverjar athugasemdir við tilboðið einkum hvað varðar verð og annað sem þeir telja eðlislegar breytingar á tilboði þeirra. Þessu svarar Samson-hópurinn með því að „engar eðlislegar breytingar“ hafi orðið á grunnforsendum tilboðsins. Þó er ljóst að með bréfi frá 2. september verða þær breytingar á tilboðinu að hópurinn eykur við þann kauprétt sem félagið óskaði eftir úr 10% upp í 12,5% og í bréfi frá 6. september setja þeir fram verðið 3 - 3,9 krónur á hlut en þó með skilyrðum (sjá 1. bd. bls. 269).

Bolast í krafti „velviljans“?

9. september valdi Ráðherranefndin Samson-hópinn til einkaviðræðna. Framkvæmdanefndin kom þessu áleiðis til hópsins í bréfi en setti um leið fram fyrirvara varðandi verðið. Hópurinn svaraði fyrir sig strax daginn eftir þar sem segir að:

„Með því að velja félagið til frekari viðræðna teldu forráðamenn þess að FnE yrði að gera það á þeim forsendum sem þegar [væru] ljósar. Einkum væri þar átt við verðbil Samsonar, greiðslu í erlendum myntum og kaupréttarákvæði. Þær forsendur voru síðan ítrekaðar og í kjölfarið settar fram ákveðnar forsendur gagnvart FnE um framhald viðræðna. (1. bd. bls 269)

Hluti af þeim forsendum fólust í spurningum sem þeir vildu fá svarað. Spurningarnar voru settar fram bæði í bréfinu sjálfu og í sérstöku fylgiskjali. Grunnforsendurnar sem Samson-hópurinn hélt fram að hefðu verið ljósar frá upphafi hvað sem fram kemur í ofangreindum bréfum voru eftirtaldar:

  • Verðbilið er 3 - 3,9
  • Um er að ræða 33,3% eignarhlut með kauprétti á 12,5 til viðbótar
  • Greiðsla verður í erlendum myntum miðað við þær gengisforsendur sem tilgreindar voru þann 27. júní sl. 

    Þessar forsendur liggja til grundvallar á vali framkvæmdanefndar um einkavæðingu á kjölfestufjárfesti og því hlýtur nefndin að byggja val sitt á fyrrgreindum forsendum. Forráðamenn Samson vilja taka það skýrt fram að ef virða á forsendur félagsins að vettugi er litið svo á sem framkvæmdanefnd um einkavæðingu hafi hafnað viðræðum við félagið.
    (1. bd. 269 (leturbreytingar eru höfundar)

Þrátt fyrir þann augljósa yfirgang sem orðalag bréfanna gefa til kynna gekk nefndin til einkaviðræðna við hópinn en þar var helst tekist á um stærð eingarhlutarins og ósk Samsonar um kauprétt á 12,5% hlut til viðbótar 33,3% hlutnum. Heimildirnar sem höfundar Rannsóknarskýrslunnar byggja á geta líka pólitískrar „andstöðu Framsóknarflokksins á þessum tíma við að selja Samson stærri hlut en 33,3%.“ (1.bd. bls 269) Og enn og aftur skrifar Björgólfur Thor Björgólfsson bréf til að hafa áhrif á gang mála og nú til Valgerðar Sverrisdóttur.

Í því lýsti Björgólfur m.a. þeirri afstöðu að „til að geta talist kjölfestufjárfestir í Landsbankanum [væri] 33,3% eignahlutur ekki nægjanlegur í ljósi þeirra miklu fjármuna sem Samson [hefði] lýst áhuga á að koma með inn í íslenska hagkerfið.“ Efnislega er því lýst í framhaldinu að það fæli í sér „mikla áhættu“ fyrir félagið að lenda í aðstæðum þar sem hætta væri á hagsmunabaráttu og ágreiningi um stefnu bankans við aðra hluthafa, færi svo að ekki yrði komið til móts við óskir Samsonar um stærð hlutarins. Loks segir að það hefði „veruleg áhrif“ á áhuga Samsonar fyrir kaupum á hlut í Landsbankanum að þær aðstæður sköpuðust ekki. (1. bd. bls. 270 (leturbreytingar eru mínar)

Tveimur dögum síðar ganga forsvarsmenn Samson-hópsins enn lengra í því að „hóta“ því að draga sig út úr öllu saman ef þeir fá ekki að haga kaupunum eftir sínu höfði. Þeir skrifa formanni einkavæðingarnefndar, Ólafi Davíðssyni bréf, þar sem segir að ef sá hlutur sem Samson yrði boðið verði minni en 45,8% þá „væri það mat þeirra að „ekki [væri] verjandi út frá áhættu að færa svo mikla fjármuni erlendis frá til fjárfestingar hérlendis.““ (1. bd. bls. 270)

Bréfinu lauk með því að ríkinu var gefinn sólarhringsfrestur til að taka tilboðinu: „Ofangreint tilboð gildir til k. 17:00 fimmtudaginn 17. október 2002. Að öðrum kosti lítur Samson svo á að ríkið hafi slitið viðræðum við félagið.“ (1. bd. bls. 270) Rammasamningur um kaup Samsonar á hlutabréfum ríkisins í Landsbankanum var undirritaður 18. október 2002. Þar var gengið út frá kröfu hópsins um eignarhlut upp á samtals 45,8%.

Forréttindin af því að vera „rétt tengdur“

Nánir vinir

Áður en lengra er haldið er ástæða til að staldra við þá staðreynd að Steingrímur Ari Arason sagði sig úr framkvæmdanefnd um einkavæðingu daginn eftir að sú ákvörðun hafði verið tekin að ganga til samninga við Samson-hópinn um Landsbanka.  Í gagnrýni sinni á vinnubrögð nefndarinnar lét hann m.a. hafa það eftir sér að reglur um mat á tilboðum hefðu í veigamiklum atriðum verið ákveðnar eftir að tilboð lágu fyrir.

Við lestur kaflans um „Lok einkavæðingar Landsbankans og Búnaðarbankans“ er ljóst að það er síst ofmælt (Sjá 1. bd. bls. 233-284). Af því sem þar er rakið er ljóst að stöðugt var slakað á upphaflegum markmiðum með sölunni og kröfum sem umsækjendum var ætlað að uppfylla.  (sbr. það sem segir á bls. 261 í 1.bd) Í meginatriðum vörðuðu kröfurnar sem voru settar eftirfarandi atriði:

  • Fjárhagsstöðu
  • Þekkingu og reynslu
  • Hagsmunaárekstra
  • Stærð hlutar
  • Samskipti við stjórnvöld og eftirlit
  • Fyrirframgefnar upplýsingar til Fjármálaeftirlitsins
  • Hrein sakaskrá hvað varðar fjármálaglæpi (Sjá hér)

Út frá því sem kemur fram í Skýrslunni, og miklu víðar reyndar, er eftirtalið ljóst varðandi Samson-hópinn:

  • Fjárhagsstaða hans var mjög ofmetin af einhverjum ástæðum. 
  • Litið var framhjá augljósu þekkingar- og reynsluleysi hópsins á sviði bankareksturs.
  • Kaupendum voru ekki sett nein skilyrði sem héldu varðandi hagsmunaárekstra á fjármálamarkaði og engin viðurlög eða önnur viðbrögð voru merkjanleg þrátt fyrir það að þau urðu umtalsverð. 
  • Miðað við upphafleg markmið þá var ætlunin að eignaraðild að bönkunum yrði dreifðari og fjölbreyttari þannig að bankarnir yrðu samkeppnishæfari. Þetta varð aldrei reyndin með Landsbankann (reyndar hvorki Búnaðarbankann eða Íslandsbanka heldur) en hvorki stjórnvöld né eftirlit sýndu nein merkjanleg viðbrögð við þeirri staðreynd.
  • Eignaraðild Samson-hópsins  yfir stórum hluta Landsbankans hafði þær afleiðingar að þeir „léku“ sér með innviði bankans eins og þeim sýndist. Væntanlega komust þeir upp með það vegna vináttusambanda við þá sem gegndu flokksforystu í Sjálfstæðisflokknum.
  • Eins og áður hefur verið ítrekað lá mat Fjármálaeftirlitsins á hæfi kaupendanna ekki fyrir fyrr en rúmum þremur mánuðum eftir að ríkið gekk frá samkomulagi við Samson hópinn um kaup á Landsbankanum (Sjá hér)
  • Eins og alþjóð veit hafði Björgólfur eldri fengið á sig dóm fyrir fjármálamisferli sem eru, þegar grannt er skoðað, eins og generalprufa á því sem hann komst upp með í Landsbankanum. Auk þess eru allar líkur sem benda til að allur hópurinn sem stóð að kaupum á Landsbankanum hafi verið/sé tengdur mafíustarfsemi úti í Rússlandi. (Sjá líka hér)

Eins og þetta sé ekki nóg þá vekur það líka athygli að Samson-hópurinn bauð lægsta verðið í hvern hlut í bankanum. Í þessu samhengi er rétt að hafa það í huga sem Steingrímur Ari sagði um það að Samson-hópurinn hafi verið tekinn fram yfir aðra áhugasama kaupendur sem buðu upp á „hagstæðari tilboð fyrir ríkissjóð á alla hefðbundna mælikvarða.“ (1. bd. Skýrslunnar bls. 266)

Það vekur líka athygli að fullyrðingar Samson-hópsins um reynslu og sambönd varðandi alþjóðleg viðskipti eru látin vega upp á móti reynsluleysi í rekstri og stjórn íslenskra fjármálastofnana. Það sem þeir telja sjálfum sér til tekna í þessu sambandi eru reyndar atriði sem ættu að vekja tortryggni eða a.m.k. að kalla á nánari eftirgrennslan. Atriðin sem eru talin þeim til tekna eru: „Sambönd við alþjóðlega bankastarfsemi gegnum fyrri viðskipti“ og líka það að sú alþjóðlega sýn sem hópurinn býr að sé líkleg til að styðja alþjóðlegar áætlanir Landsbankans. (Sjá 1. bd. bls. 247)

„Virk tengsl“ komu þeim alla leið!

Ef við höldum svo áfram með meginmarkmið þessara skrifa, sem var að skoða samskipti Samson-hópsins við stjórnvöld á tilboðstímabilinu þá er fleira sem byggir undir þá skoðun að öllum innan stjórnsýslunnar sem áttu samskipti við þennan hóp mátti vera það morgunljóst að það að hann kæmist yfir banka yrði hvorki bankanum sjálfum eða viðskiptavinum hans til gæfu. Þæfingurinn, yfirgangurinn og bolabrögðin sem hópurinn og lögmaður hans beittu hafa ábyggilega verið töluvert umfangsmeiri en þau sem bréfin sem vitnað er til í þessari færslu gefa til kynna. Þessu háttalagi var heldur ekki lokið.
Undirritun kaupsamnings Samsonar við ríkið um kaup á hlut þess í Landsbankanum

Ráðherranefndin lét þó eins og ekkert væri og fulltrúar hennar undirrituðu kaupsamninginn á milli ríkisins og Samson við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu á gamlársdag árið 2002. Við endanlega samningsgerð kom upp enn einn þæfingurinn. Samson-hópurinn hafði komið sínu í gegn varðandi eignarhlutinn en þá byrjaði rexið og pexið að snúast um kaupverð og greiðslufyrirkomulag. Í stuttu máli snerist hann um þriðju greiðsluna sem var fyrir viðbótarhlutinn sem Samson fékk í geng að yrði upp á 12,5%.

Í stuttu máli tókst þeim að koma inn ákvæðum sem áttu að verða til lækkunar þessum hluta. Niðurstaðan varð sú að fyrir þetta ákvæði tókst þeim að lækka umsamið kaupverð á bankanum um 700 milljónir króna! Það er svo ekki hægt að skilja við þessa umfjöllun um samskipti Samsonar-hópsins við stjórnvöld án þess að víkja eitthvað að öðrum efndum þeirra á kaupsamningnum.

Það er reyndar svo margt athugavert hvað varðar efndirnar að í stað þess að fara yfir það allt saman verður einkum staldrað við þann þátt sem snýr að fjármögnun hópsins á kaupverðinu í gegnum Búnaðarbankann. Þeim sem vilja kynna sér aðra þætti efndanna er bent á kaflann „Fjármögnun Samsonar samkvæmt kaupsamningi um Landsbankann“ sem er á bls. 271-281 í 1. bindinu.

Minkarnir fá að leika lausum hala

Hópnum sem kom þannig fram við stjórnvöld að þau væru að tefja það að hann kæmi sínum digru sjóðum í nýtt verkefni fengu nefnilega lán fyrir langstærstum hluta kaupverðsins hjá Búnaðarbankanum. Fyrri hlutann fengu þeir í apríl 2003 en þann seinni í janúar 2004. Lánið varð alls upp á 90.072.205 bandaríkjadala. Þess má geta hér í framhjáhlaupi að þegar Kaupþing gjaldfelldi skuldir Samsonar  eignarhaldsfélag ehf. við bankann í nóvember 2008 hljóðuðu þær upp á 4.957.305.150,- íslenskra króna.

Þessi upphæð er langt umfram kaupverð Landsbankans en þrátt fyrir ósk Rannsóknarnefndar Alþingis um skýringar á því hvernig þessum fjármunum var ráðstafað hafa þær ekki fengist (sbr. 1. bd. bls. 280-281) Það er líka ástæða til að vekja sérstaka athygli á því að í þeim gögnum sem Björgólfur Guðmundsson sendi nefndinni af þessu tilefni þá segir hann lokagreiðslu fyrir Landsbankanna vera „nærri einni milljón dollara hærri en hún var í raun“ (1. bd. bls 279)

En aftur að lánafyrirgreiðslu Búnaðarbankans. Í apríl 2003 störfuðu Sigurjón Þ. Árnason og Elín Sigfúsdóttir, sem var hans hægri hönd hjá Búnaðarbankanum. „Skömmu eftir að lánið til Samson var afgreitt réðu Björgólfsfeðgar Sigurjón í stöðu bankastjóra Landsbankans. Honum fylgdu úr Búnaðarbankanum m.a. Elín Sigfúsdóttir, sem áfram var hægri hönd Sigurjóns.“ (Sjá hér (leturbreytingar eru mínar)

Stjórn Landsbankans 2007Stjórn Landsbankans í upphafi árs 2008. Talið frá vinstri: Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri, Þór Kristjánsson, Kjartan Gunnarsson, varaformaður stjórnar, Björgólfur Guðmundsson, stjórnarformaður, Þorgeir Baldursson, Svafa Grönfelt og Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri. (Sjá hér)

En það voru ekki bara Sigurjón Þ. Árnason og Elín Sigfúsdóttir sem Björgólfur Guðmundsson launaði lánagreiðann með ráðningu. Ársæll Hafsteinsson, sem var starfsmaður Búnaðarbankans á þessum tíma, var líka ráðinn og settur í hóp framkvæmdarstjóra Landsbankans nokkrum dögum eftir lánveitinguna. „Í framhaldinu upphófst einhver glannalegasti kafli í rekstrarsögu nokkurs banka. Þeim kafla lauk með stærsta „pýramídasvindli“ sögunnar sem skildi íslensku þjóðina eftir fjötraða og í sárum.“ (Sjá hér)

En það eru fleiri þáverandi starfsmenn Búnaðarbankans sem mætti ætla að hafi notið þess að hafa „hlaupið undir bagga“ með þessum „dyntótta bónbjargarhópi“ ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar við fjármögnun Landsbankans. Árni Tómasson, þáverandi bankastjóri Búnaðarbanka Íslands, er nú formaður skilanefndar Glitnis. Fyrrnefndur Ásæll Hafsteinsson er hins vegar skilanefndarmaður í Landsbankanum og Elín Sigfúsdóttir, sem var hægri hönd Sigurjóns Þ. Árnasonar, var ráðinn bankastjóri nýja Landsbankans eftir að sá gamli fór í þrot. (sbr. hér)

... og komu sér fyrir í digrari hænsnahúsum

Hér að framan hefur aðeins rakið brot af því sem kemur fram um samningsferlið, söluna og efndir kaupsamnings Samsonar eignarhaldsfélags ehf. gagnvart ríkinu. Í meginatriðum byggir það sem kemur fram hér að framan á þeim upplýsingum sem Rannsóknarnefnd Alþingis tókst af afla varðandi þessi atriði en í texta Skýrslunnar margtaka höfundarnir það fram að gögn vanti og ástæða sé til að rannsaka allt sem snýr að einkavæðingu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar á íslensku bönkunum miklu frekar.

Það ætti að vera ljóst af því sem er vitað varðandi þá ákvörðun að selja Samson-hópnum Landsbankans að þar réði eitthvað annað en trygg framtíð bankans og hagsmunir viðskiptavina hans. Þríeykið sem myndaði hópinn hafði komið sér upp traustum tengslum við flokksforystu Sjálfstæðisflokksins sem þeir njóta sennilega enn.

Það virðist vera óhætt að fullyrða það að þau tengsl hafi öðru fremur tryggt þeim eignarhlutinn í Landsbankanum. Um leið og hann var tryggður hófu þeir að treysta þessi „vináttubönd“ og byggja upp önnur með alls kyns fyrirgreiðslum til „vel valinna“ á öllum sviðum samfélagsins. Það er reyndar stórfurðulegt hversu vel þeim varð ágengt.

Með forsetanum
Með forsetahjónunum

 
Það verður þó að segjast að miðað við það að þingmenn og aðrir ráðamenn þjóðarinnar hindra það að einstaklingarnir, sem mynduðu Samson-hópinn, verði sóttir til saka og rannsakaðir enn frekar þá er greinilegt að þeir hafa ekki valið sér velgjörðarmenn af neinu handahófi!


mbl.is Umræðu frestað til mánudags
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki bara vanræksla heldur líka valdarán!

Í tilefni tengdrar fréttar þykir mér full ástæða til að endurbirta þessa færslu sem er frá 9. júní sl.

Upprifjun

Fyrir rétt tæpum mánuði skrifaði ég fyrsta hlutann af þremur þar sem ég velti því fyrir mér hvaða heiti hæfðu glæpum ráðherranna sem fóru með völd við haustið 2008. Tilefni þessara skrifa er það að skv.  Rannsóknarskýrslunni þorir rannsóknarnefnd Alþingis ekki að fullyrða meira, hvað glæp þeirra varðar, en þrír í hópi ráðherranna hafi gerst sekir um vanrækslu í starfi. Þetta eru þeir: Árni M. Mathiesen, Björgvin G. Sigurðsson og Geir H. Haarde (Sjá t.d. hér). Ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem leiddu hjá sér allar viðvaranir og merki um yfirvofandi hrun voru hins vegar tólf!

Ráðherrar hrunstjórnarinnar

Mín niðurstaða er sú að allir tólf hafi gerst sekir um „stórfellda eða ítrekaða vanrækslu (sjá 141. gr. Almennra hegningarlaga) þar sem það mátti heita ljóst frá upphafi stjórnarsamstarfs Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hvert stefndi. Vandinn var reyndar ljós þegar árið 2006 (sjá t.d. hér) og þess vegna spurning um það hvort ráðherrar ríkisstjórnarinnar, sem var við völd þar á undan, eru ekki líka sekir um vanrækslu og misferlis hvað varðar ráðherraábyrgð.

Í öðrum hluta þessara vangaveltna um heiti við hæfi á glæpum fyrrverandi ríkisstjórnar beindi ég kastljósinu einkum að því hvernig ráðherrar fyrrverandi ríkisstjórnar vanræktu ábyrgðina sem þeir gengust undir með embættum sínum. Ég hef stuðst við það sem kemur fram í 6. og 7. bindi Rannsóknarskýrslu Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008. Auk þess sem ég hef vísað í viðeigandi Lög um ráðherraábyrgð.

Kjarni annars hlutans var sá að undirstrika eiginleg umboðssvik ráðherranna í síðustu ríkisstjórn þar sem þeir „stofnuðu hagsmunum/heill ríkisins í fyrirsjáanlega hættu“ með aðgerðum sínum og/eða aðgerðaleysi (sjá 2. og 10. gr. Laga um ráðherraábyrgð). Undir lokin benti ég svo á 13. grein laganna þar sem segir að: „Hafi ráðherra bakað almenningi eða einstaklingi fjártjón með framkvæmd eða vanrækslu skal jafnframt hegningunni dæma hann til að greiða skaðabætur [...]“ og lauk svo máli mínu á því að reifa það að ráðherrar síðustu ríkisstjórnar hefðu misbeitt valdi sínu.

Björgvin settur út

Í því sambandi ýjaði ég að því hvert yrði meginviðfangsefni þessa síðasta hluta en það er reyna að finna heiti á þeim glæp samstarfsráðherra Björgvins G. Sigurðssonar að útiloka hann ekki aðeins af fundum um alvarlegt ástand og þróun stærstu viðskiptabanka landsins heldur að upplýsa hann ekki einu sinni um gang mála hvað þá að gefa honum tækifæri til að taka ákvarðanir sem heyrðu undir hans ráðuneyti; viðskiptaráðuneytið.

Björgvin G. Sigurðsson Hinn 7. nóvember 2007 átti Björgvin G. Sigurðsson fund með stjórn Seðlabankans. Með honum í för var Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður hans og Jónína S. Lárusdóttir, ráðuneytisstjóri Viðskiptaráðuneytisins. Björgvin segir frá því á bls. 92 í 6. bd. Skýrslunnar að þar hafi hann og Davíð Oddsson tekist á og að eftir fundinn hafi þeir ekki hist í tæpt ár.

Sennilega hafa þeir ekki heldur talast við á þessum tímabili. Ég ætla ekki að velta því fyrir mér hvor bar meiri ábyrgð en bendi á að hvernig sem á það er litið er það alvarlegt mál ef viðskiptaráðherra landsins og æðsti maður í stjórn Seðlabankans talast ekki við sama hvað veldur. Í því gerast báðir sekir um van- rækslu og um það að bregðast þeirri ábyrgð sem þeim var falinn.

Davíð Oddsson Björgvin G. Sigurðsson segir að samskipti manna í umræddri ríkisstjórn hafi verið erfið frá fyrsta degi og segir ástæðuna hafa verið „tortryggni og andúð á milli seðlabankastjóra og Samfylkingarinnar.“ (bls. 92. í 6. bd. Skýrslunnar). Davíð Oddson, þáver- andi seðlabankastjóri, segir ástæðuna fyrir því að Seðlabankinn fundaði ekki oftar með viðskipta- ráðherra vera þá að „menn treystu sér ekki til að segja neitt sem ætti að fara leynt við viðskipta- ráðherrann“ (sama bls. 93).

Hann segir að hann haldi að þetta hafi ráðið því að Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi ekki kallað hann á fundina sem þau sátu með bankastjórn Seðlabankans. Síðan heldur hann áfram:

[...] það sem vakti nú athygli mína var að þegar utanríkisráðherra, formaður hins stjórnarflokksins, lýsti því yfir að hann hefði verið á sex, sjö fundum með Seðlabankanum – hann hafði ekki sagt viðskiptaráðherranum frá neinu sem þar gerðist sem ég hefði nú búist við að mundi gerast. En ég held að það sé sama ástæðan, það var vitað að viðskiptaráðherra átti það til að hringja í fréttamann, jafnvel bláókunnuga fréttamenn, og segja þeim fréttir „off the record“, eins og það hét. Það getur bara ekki gengið í stjórnsýslunni.  (bls. 93. í 6. bd. Skýrslunnar (leturbreytingar eru mínar))

Geir H. Haarde Þegar Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir voru spurð hvers vegna Björgvin G. Sigurðsson var ekki boðaður á alla þá fundi sem þau sátu með forsvarsmönnum Seðlabankans vefst þeim greinilega tunga um tönn og grípa til þess tungutaks sem alþjóð er farin að kannast við undir þeim kringum- stæðum þegar embættismenn hjá hinu opinbera og innan úr fjármálageiranum hafa eitthvað að fela. Geir telur að ekki sé hægt að segja að Björgvini „hafi verið haldið skipulega frá upplýsingum sem hann átti rétt á.“ (bls. 93 í 6. bd. Skýrslunnar).

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segist ekki vita til þess að tortryggni hafi gætt innan ríkisstjórnarinnar. Hins vegar viðurkennir hún að það hafi kannski verið erfitt sambandið milli seðlabankastjóra og Samfylk- ingarinnar og bætir svo við: „Það var bara svona þegjandi samkomulag um að láta það ekkert þvælast fyrir sér“ (bls. 93 í 6. bd. Skýrslunnar).

Eðlilega spyr maður sig þá hvort það hafi orðið svona þegjandi samkomulag um að vera ekkert að ýfa seðlabankastjórann með nærveru Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, eftir uppákomuna þeirra á milli 7. nóvember 2007?

Athugasemd Össurar Skarphéðinssonar er líka athyglisverð í þessu samhengi. Hann varpar fram spurningu þar sem hann spyr „í hvaða ríki myndi það gerast að forystumaður ríkisstjórnarinnar hafi fund með seðlabankastjóra [um alls konar viðvaranir] en viðskiptaráðherra sé ekki látinn vita?“ (bls. 93 í 6. bd Skýrslunnar) Það sem er ekki síst athyglisvert við þessar vangaveltur Össurar er það að hann sat sjálfur á nokkrum þessara funda en virðist ekki átta sig á hans þætti í þessu leynimakki.

Ég bið ykkur að taka eftir því að hér er ekki annað að sjá en „samkomulagið“ um að halda Björgvini G. Sigurðssyni utan umræðunnar um það hvert stefni í íslenskum bankamálum og hvernig bæri að bregðast við því hafi verið meðvitaðar. Það er líka útilokað að hér hafi verið um þegjandi samkomulag að ræða sem kemur skýrt fram í því hvernig viðskiptaráðherra er sniðgenginn í öllu fundarfárinu árið 2008. Ég dreg þann þátt skýrar fram hérna síðar.

Síðdegis þann 7. febrúar 2008 fundaði stjórn Seðlabankans með Geir H. Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Árna Mathiesen. Auk þeirra sátu þeir Bolli Þór Bollason og Tryggvi Pálsson þennan fund (Sjá bls. 117-124 í 6. bd. Skýrslunnar). Viðbrögð forsætis- og utanríkisráðherra við þeim alvarlegu upplýsingum sem komu fram þar um stöðu íslensku bankanna voru rakin í fyrsta hluta þessara vangaveltna. Í stuttu máli má draga þau saman í þessum orðum: Þau vissu hvert stefndi en kusu samt að halda úti þeirri ímynd að staða íslenska fjármálamarkaðarins væri sterk.

Um viðbrögð ráðherranna segir Davíð Oddsson m.a: að þeir „hefðu ekki einu sinni talið tilefni til þess að ræða þau alvarlegu tíðindi [sem hann vill meina að hann hafi komið á framfæri við þá á fundinum 7. febrúar 2008] við viðskiptaráðherra.“ (bls. 120 í 6. bd. Skýrslunnar).

Jón Þór Sturluson tekinn inn í „klíkuna“

11. júlí 2008 boðaði Landsbankinn til fundar þar sem Anne Sibert og Willem Buiter kynntu skýrslu sem þau höfðu unnið fyrir bankann. Í stuttu máli opinberaði hún mjög alvarlega stöðu í efnahagsmálum landsins sem stafaði af ofvexti bankanna. Björgvin G. Sigurðsson var ekki á fundinum og er hæpið að kenna neinum um það nema honum sjálfum.

Jón Þór Sturluson Hins vegar var Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra þar. Í stað þess að hafa milligöngu um það að þau Buiter og Sibert hittu ráðherrann sem hann starfaði fyrir þá kom hann á fundi þeirra við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.

Ingibjörgu Sólrúnu virðist hafa fundist skýrsla þeirra áhugaverð fyrir það fyrst og fremst að hún sá rök í niðurstöðum hennar sem hvatti til Evrópu- sambandsaðildar. Það kemur líka fram að hún fékk glærur hagfræðinganna sem hún kom til Geirs H. Haardes ásamt skýrslunni. Síðan segir hún að hún hafi fengið „leyfi til þess að dreifa henni meðal svona einhverra aðila.“ (Sjá bls. 200-201 í 6. bd. Skýrslunnar).

Þegar Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, var spurður um það hvor hann hefði ekki kynnt ráðherranum sem hann átti að vinna fyrir niðurstöður Buiter-skýrslunnar vefst honum mjög tunga um tönn: „hann man ekki eftir því að ég hafi kynnt honum þessa skýrslu, ég get ekki, man ekki hvenær það átti að vera en ef ég hef gert það þá er ég ekki viss um að það hafi verið endilega svo neikvætt“ (Sjá bls. 201 í 6. bd. Skýrslunnar).

Þá kemur að lokuðum fundi ráðherra með hagfræðingum þann 7. ágúst 2008. Á þessum fundi var Jón Þór meðal hagfræðinganna á fundinum en auk hans voru þar hagfræðingarnir: Már Guðmundsson, Gauti B. Eggertsson og Friðrik Már Baldursson. Ráðherrarnir sem sóttu fundinn voru: Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Árni M. Mathiesen og Jóhanna Sigurðardóttir. Þegar Jón Þór er spurður hvers vegna viðskiptaráðherra hafi ekki verið boðaður á fundinn svarar hann að „þetta hafi verið „súperráðherrahópurinn““ (bls. 214 í 6. bd. Skýrslunnar).

Súperráðherrahópurinn

Það vekur athygli að Jón Þór er eini hagfræðingurinn á fundinum sem var ekki boðaður á fundinn til að flytja „framsögu um lausafjárvandann“ (bls. 214 í 6. bd. Skýrslunnar) en skv. Friðriki Má Baldurssyni, einum hagfræðinganna sem það gerðu, var það Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sem boðaði hann á fundinn og bað hann um stutt innlegg ásamt þeim Gauta og Má. Það kemur ekkert fram um það hvort og hvaða veður Björgvin G. Sigurðsson hafði af þessum fundi.

Áður en ég dreg fram mína skoðun á því hvaða nafn hæfi þeim glæp að halda viðskiptaráðherranum skipulega utan við og leyna hann upplýsingum um það sem heyrði undir hans embættissvið ætla ég að stikla á stóru hvað varðar atburðarrás septembermánaðar 2008. Fyrst vil ég vekja athygli á því að Jón Þór Sturluson á þátt í því að koma á fundi Björgvins G. Sigurðssonar með Alistair Darling fjármálaráðherra Bretlands í byrjun mánaðarins. Það er athyglisvert fyrir margra hluta sakir en ekki síst fyrir það að á þessum tíma virðist sem Jón Þór vinni miklu frekar fyrir Ingibjörgu Sólrúnu og um leið gegn Björgvini.

Á fundinn með Alistair Darling mættu frá Íslandi: einn embættismaður frá Fjármálaeftirlitinu, einn úr Fjármálaráðuneytinu og þrír úr Viðskiptaráðuneytinu. Þar á meðal Jón Þór Sturluson sjálfur. Það vekur sérstaka athygli að þrátt fyrir það nána samband sem hann hann á við „súperráðherrahópinn“ á þessum tíma þá segist Ingibjörg Sólrún ekkert hafa frétt af þessum fundi fyrr en eftir á! (Sjá bls. 226 í 6. bindi Skýrslunnar).

Þá er komið að síðustu dögunum fyrir yfirtöku ríkisins á Glitnis-banka. Ég reikna með að flestir sem gefa sér tíma til að lesa þessar vangaveltur séu þokkalega inni í öllu því sem gekk á þessa daga. Þ.e. því sem hefur verið gefið upp. Sjálf hef ég aldrei náð fullkomlega upp í það sem átti sér stað þessa afdrifaríku helgi, hvorki atburðarrásina né ákvarðanirnar. Mig hefur líka allan tímann grunað að ýmsu hafi verið haldið leyndu hvað þessi atriði varðar. Sú tilfinning hefur síst minnkað við lestur Rannsóknarskýrslunnar.

Eitt finnst mér reyndar standa upp úr af lestri þeirra blaðsíðna sem segja frá því sem átti sér stað þessa síðustu daga í september og fyrstu dagana í október árið 2008. Það er hin áberandi vanhæfni allra aðila sem komu að ákvörðunum um það hvernig skyldi bregðast við. Sofandahátturinn og feluleikurinn fram að þeim tíma, varðandi raunverulega stöðu bankanna, verður líka enn alvarlegri yfirlýsing um þá vanrækslu og ábyrgðarleysi sem allir sem voru í vinnu við að verja hagsmuni ríkisins gagnvart bönkunum gerðu sig seka um!

Valdaránið fullkomnað

Forsvarsmenn Glitnis töluðu við Davíð Oddsson, þáverandi bankastjóra Seðlabankans, hver í sínu lagi eða nokkrir samanfrá 25. september 2008. Davíð brá sér út af einum slíkum fundi næsta dag (26. sept.) til að hringja í Geir H. Haarde , sem var staddur í New York á þessum tíma ásamt Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Geir segist hafa upplýst Ingibjörgu Sólrúnu um það sem fram kom í samtalinu um stöðu Glitnis þann sama dag. Að morgni þriðja dagsins, eða 27. september, flaug Geir H. Haarde síðan heim. 

Síðdegis þann sama dag mættu bankastjórar Seðlabankans ásamt fjármálaráðherra í forsætisráðuneytið og funduðu. Geir H. Haarde heldur því fram að það hafi verið fyrst á þessum fundi sem honum hafi verið greint nákvæmlega frá vanda Glitnis. Árni Mathiesen var hins vegar settur inn í málin deginum áður. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að haft er eftir Árna að á fundi hans með Davíð Oddssyni þennan sama dag hafi sá síðarnefndi „verið kominn með vísi að þeirri leið sem síðar var farin.“ Það er líka haft eftir Davíð að það mat Árna eigi við rök að styðjast (Sjá bls. 13 í 7. bd. Skýrslunnar)

Ingibjörg 
Sólrún Gísladóttir Ingibjörg Sólrún kannast þó ekki við að hafa vitað af alvarlegri stöðu Glitnis fyrr en sunnudaginn 28. september. Þann dag hringdi hún í Geir H. Haarde eftir að henni barst símtal út þar sem hún var spurð um það hvort hún vissi hvað væri að gerast í forsætisráðuneytinu. Í símtali hennar við Geir segir hún að hann hafi bent henni á að hún þyrfti að nefna staðgengil til að sækja fundi um málið. (Sjá bls. 12 í 7. bd. Skýrslunnar)

Og hvern tilnefnir hún? Ekki Björgvin G. Sigurðsson, sem málefnið sem um ræðir heyrði undir, heldur Össur Skarphéðinsson sem þá var iðnaðarráðherra!?! Þegar Ingibjörg Sólrún náði loks í Össur „stóð [hann] allsber í búningsklefanum í World Class“ á leið í gufubað í tilefni af því að hann var í fyrsta skipti að fara til klæðskera! (sjá bls. 25 í 7. bd. Skýrslunnar). Ingibjörg Sólrún skipaði honum að mæta niður í Glitni að loknu svohljóðandi samtali skv. því sem Össur segir sjálfur frá:

Bíddu, á ég að fara þarna? Ég meina, [ég hef] hvorki áhuga né vit á þessu, og hún sagði: Það þarf einhvern sem þarf að stýra þessu af okkar hálfu sem hefur reynslu. Og ég sagði við hana: En á ég þá ekki að taka viðskiptaráðherra með mér? Hún sagði: Nei. Jón Þór verður þarna með þér. Ég sagði: En á ég ekki að hringja í viðskiptaráðherrann? Og hún sagði: Ekki strax, þannig að ekki tala við neinn, „keep it under wraps“.  (bls. 25 í 7. bd. Skýrslunnar (leturbreytingar eru mínar)

Össur Skarphéðinsson Sigríður Logadóttir, sem var einn þeirra fáu starfs- manna Seðlabankans sem var kallaður út þetta sunnudagskvöld, segir að henni hafi orðið það: „sérstaklega minnisstætt að þegar fundurinn er að hefjast þá snýtir Össur sér og segir yfir fundar- borðið að hann hafi bara akkúrat ekkert vit á bankamálum.“ (bls. 26 í 7. bd. Skýrslunnar). Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, var á þessum sama fundi skv. ósk eða skipun Ingibjargar Sólrúnar. Hún hafði hringt í hann fyrr þennan sama dag. En hvar var viðskiptaráðherrann?

Það er haft eftir Jóni Þór Sturlusyni að starfsmenn Viðskiptaráðuneytisins hafi verið í skemmtiferð utan höfuðborgarsvæðisins laugardaginn 27. september. Þar á meðal voru hann sjálfur svo og viðskiptaráðherrann. Jón Þór segir að hann hafi frétt af miklum fundarhöldum á þessum sama tíma í forsætisráðuneytinu og hringt í Tryggva Þór Herbertsson síðdegis en sá hafi varist allra frétta. Sjálfur segir Björgvin um þetta atriði:

„Fyrr um helgina höfðu borist fréttir af einhverjum fundum Davíðs og Árna og Geirs og við fylgdumst með því og ég man að ég bað Jón Þór að forvitnast um það, ég bað hann að hringja í Tryggva Þór, en þeir voru ágætis kunningjar. Jón hringdi í Tryggva, að mér heyrandi, og gekk mjög á hann á laugardeginum, og hinn bara fullyrti alveg „nei, nei, ekkert að gerast, bara fara yfir bankana, forsætisráðherra var að koma heim“, og bara alveg blákalt. Og Jón trúði honum og við bara líka, maður reiknar ekki með því að það sé alltaf verið að ljúga að manni.“ (bls. 16 í 7. bd. Skýrslunnar (leturbreytingar eru mínar)

Takið eftir því að Ingibjörg Sólrún hringir svo í Jón Þór daginn eftir og segir honum að mæta á fund þar sem Björgvin G. Sigurðsson hefði með réttu átt að sitja. „Aðspurður hvort honum [þ.e. Jóni Þór] hefði ekki þótt sérstakt að Björgvin G. Sigurðsson væri ekki kallaður til svaraði Jón: „Jú, jú, ég bara er ekki að spyrja slíkra spurninga.“ (bls. 25 í 7. bd. Skýrslunnar). Ingibjörg Sólrún gekk m.a.s. svo langt í því að halda Björgvini G. Sigurðssyni fyrir utan það að koma að þessum málum, sem heyrðu undir hans embætti, að hún sendir iðnaðarráðherra sem segist ekki hafa hundsvit á bankamálum og biður hann sérstaklega um að láta ekkert uppi um málið við hann!

Það þarf enginn að ímynda sér annað en að Ingibjörg Sólrún hafi komið slíku að við Jón Þór Sturlusona líka en sennilega var það miklu fyrr. E.t.v. átti hún ekki hugmyndina að því að Björgvin G. Sigurðsson var þannig rændur völdum sem viðskiptaráðherra en hennar var verknaðurinn!

Enda sagði hún sjálf í óvæntri ræðu sem hún hélt á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem var haldinn í tilefni af útkomu Rannsóknarskýrslunnar: „Ég kem hér upp bara til að segja ykkur að þegar ég horfi yfir þessi tvö ár þá finnst mér ég hafa brugðist.  (Sjá hér (leturbreytingar eru mínar)) Og sennilega blandast engum hugur um það að það gerði hún og það mjög alvarlega! Þess vegna sætir það furðu að: „Rannsóknarnefndin [hafi] komist að þeirri niðurstöðu að [Ingibjörg Sólrún Gísladóttir] hafi ekki gerst sek um mistök eða vanrækslu í starfi.“ (Sjá sömu heimild). 

Rannsóknarskýrsla Alþingis Það var heldur ekki Ingibjörg Sólrún sem að lokum hringdi í Björgvin G. Sigurðsson heldur Jóhanna Sigurðardóttir. Hún hafði fylgst með afar óljósum fréttum bæði á laugardags- og sunnudagskvöldinu. Eftir afar loðin tilsvör Geirs H. Haardes við spurningum fréttamanna varðandi það um hvað væri verið að funda svo stíft þessa helgi hringdi hún í Geir H. Haarde sunnudags- kvöldið 28. september en fékk lítið upp úr honum.

Næst hringdi hún í Björgvin G. Sigurðsson sem hún segir að hafi algjörlega komið af fjöllum (sjá bls. 35 í 7. bd. Skýrslunnar). Að sjálfsögðu veltir maður því fyrir sér að fyrst félagsmálaráðherrann fannst það svo dularfullt hvað forsætisráðherr- ann væri að bardúsa niður í Stjórnarráði með hagfræðingum að hann lét verða að því að spyrja hann beint út í það hvers vegna slíkt hvarflaði ekki að viðskiptaráðherranum?

Það er annað sem ég vil benda sérstaklega á varðandi það sem kemur fram hjá Jóhönnu en það er það hvernig hún frétti af niðurstöðum fundarhaldanna þessa síðustu daga septembermánaðar árið 2008. Hún segir að Jón Þór Sturluson hafi hringt í sig og greint sér frá þeirri niðurstöðu ráðherranna: Geirs H. Haardes, Árna M. Mathiesens og Össurar Skarphéðinssonar að ríkið yfirtæki Glitni. Aðspurð um það hvort Jón Þór hefði verið að leita samþykkis eða afstöðu hennar eða hvort Össur Skarphéðinsson hefði hringt í hana segir hún:

„Nei. Bara segja mér niðurstöðuna sem þá var komin.“ Jóhanna sagðist ekki hafa litið þannig á samtalið að verið væri að leita eftir samþykki hennar. Jóhanna sagðist heldur ekki minnast þess að Össur Skarphéðinsson hefði rætt við sig eða reynt að hafa samband við sig þetta kvöldþ (bls. 35 í 7. bd. Skýrslunnar)

Þetta stangast á við það sem Árni M. Mathiesen og Össur Skarphéðinsson halda fram. Árni segir að hann hafi „talið að Geir H. Haarde og Össur hefðu hringt í aðra ráðherra til að afla samþykkis þeirra.“ (bls. 26 í 7. bd. Skýrslunnar) Í tölvubréfi sem Össur sendi Þórunni Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, aðfararnótt 29. september kemur fram að hann og Jón Þór hafi hring í aðra ráðherra Samfylkingarinnar og hann hafi samþykkt tillöguna um yfirtöku ríkisins á Glitni í samráði við Ingibjörgu Sólrúnu. Ástæðan fyrir þessu bréfi segir hann vera þá að ekki náðist í Þórunni í síma.

Ég gat ekki fundið það að Geir H. Haarde hefði verið spurður út í það hvort eða hvernig leitað hefði verið samþykkis annarra ráðherra í ríkisstjórninni hvað varðaði þá ákvörðun að ríki tæki yfir Glitni.

Annað sem ég vil draga sérstaklega fram hér er að: Skýrslutökur rannsóknarnefndar Alþingis og gagnaöflun hafa ekki gefið til kynna að yfirvöld hafi notið nokkurrar ráðgjafar innlendra eða erlendra utanaðkomandi sérfræðinga þegar ákvörðunin [um yfirtökuna] var tekin.“ (bls. 28. í 7. bd. Skýrslunnar) En eins og flestum er sennilega í fersku minni birti forsætisráðuneytið fréttatilkynningu um yfirtöku ríkisins á Glitnis-banka á vefsíðu sinni að morgni mánudagsins 29. september 2008. Þar sagði m.a:

„Gert hefur verið samkomulag milli ríkisstjórnar Íslands og helstu eigenda Glitnis banka hf. að höfðu samráði við Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið um að ríkissjóður leggi bankanum til nýtt hlutafé. Þetta er gert með hliðsjón af þröngri lausafjárstöðu Glitnis og einstaklega erfiðum aðstæðum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum um þessar mundir.“ [...] „Ríkissjóður stefnir ekki að því að eiga eignarhlutinn í bankanum til langframa. Tilgangurinn með þessari aðgerð er að tryggja stöðugleika í fjármálakerfinu.“ (bls. 36 í 7 bd. Skýrslunnar (leturbreytingar eru mínar))

Landráð eða valdarán?

Eins og ég hef margítrekað sýnist mér það engum vafa undirorpið að ráðherrar hrunstjórnarinnar hafi allir gert sig seka um „stórfellda eða ítrekaða vanrækslu og stórkostlegt ábyrgðarleysi gangvart hagsmunum ríkisins með aðgerðum sínum og/eða aðgerðarleysi enda hefur það nú þegar „skert [...] frelsi og sjálfforræði landsins.“ (sjá d-lið 8. gr. Laga um ráðherraábyrgð).

Ég á erfitt með að skilgreina ofantalið sem annað en landráð enda er útskýring Íslenskrar orðabókar á orðinu þessi: 1. lögfr. brot gegn öryggi eða sjálfstæði ríkis út á við eða inn á við, föðurlandssvik“ (bls. 860) en það er líka önnur alvarleg sök sem a.m.k. ráðherrahópurinn, sem kom að ákvörðuninni um yfirtöku Glitnis, gerði sig seka um en það er valdarán. M.ö.o. þessi hópur rændi a.m.k. Björgvin G. Sigurðsson þeim völdum sem voru hans sem viðskiptaráðherra (Sjá hér og hér 13. gr.) 

Miðað við það hversu stórkostlegar ákvarðanir voru teknar síðustu daganna í september finnst mér heldur engum blöðum um það að fletta að það átti að boða til ráðherrafundar enda segir í Stjórnarskránni: „17. gr. Ráðherrafundi skal halda um nýmæli í lögum og um mikilvæg stjórnarmálefni.Svo skal og ráðherrafund halda, ef einhver ráðherra óskar að bera þar upp mál. [...]“ Ég get heldur ekki skilið 16. gr. öðru vísi en svo að það hefði átt að bera ákvörðunina um yfirtöku ríkisins á Glitni undir forsetann líka. 16. gr. [...]Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði. (Sjá hér)
 
Það getur ekki talist eðlilegt að ráðherrarnir sem tóku ákvörðunina um yfirtöku ríkisins á Glitni boðuðu ekki til ráðherrafundar í tilefni þeirrar stjórnarráðstöfun að leggja Glitni til hlutafjármagn upp á 84 milljarða króna! Ingibjörg Sólrún bannaði að Björgvin G. Sigurðsson kæmi að mikilvægum ákvörðunum sem varðaði viðskipta- og efnahagsmál landsins. Í þessu sambandi þykir mér líka ástæða til að draga 6. gr. Laga um ráðherraábyrgð fram en þar segir:

 

Hver ráðherra ber ábyrgð á stjórnarerindum þeim, sem út eru gefin í hans nafni, nema ákvörðun sé án hans atbeina tekin af undirmanni, sem til þess hefur heimild samkvæmt venju, eða eðli máls, eða starfsmaður hafi vanrækt að leggja erindi fyrir ráðherra. Ráðherra verður þó einnig sóttur til ábyrgðar fyrir þvílíkar ákvarðanir, ef honumhefur verið um þær kunnugt og hann hefur látið þær viðgangast án þess að gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir þær. (Sjá hér)

Ég reikna með að það séu fleiri en mér sem finnst það í hæsta máta undarlegt hvernig rannsóknarnefndin gat komist að þeirri niðurstöðu að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi ekki gerst sek um mistök eða vanrækslu í starfi. Ekki síst þegar það er haft í huga hvernig hún stóð að því að ræna Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, völdum sínum í gegnum aðstoðarmann hans, Jón Þór Sturluson.

Þeir voru ábyggilega fleiri sem stóðu á bak við það valdarán en af samtali hennar við Össur Skarphéðinsson, sem var rakið hér framar, þá er ljóst að hún studdi framkvæmdina og fullkomnaði valdaránið sunnudaginn 28. september 2008 með því að banna að Björgvin G. Sigurðsson væri látinn vita af mikilvægum fundarhöldum um málefni sem voru á hans sviði en sendi í hans stað ráðherra sem „hafi bara akkúrat ekkert vit á bankamálum.“ fyrir hönd Samfylkingarinnar.


mbl.is Fundað með Ingibjörgu Sólrúnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almenningur var aldrei settur inn í breytingarnar

Þessar línur eru aðallega byggðar á bls. 58-67 í 8. bindi Rannsóknarskýrslunnar.

Það má gera ráð fyrir að eftirfarandi lýsing sé sú mynd sem flestir gera sér um eðlilega bankastarfsemi:

Hefðbundin bankastarfsemi felst í því að taka við innlánum frá sparifjáreigendum, sem vilja geyma fjármuni sína í lengri eða skemmri tíma, og lána áfram til arðbærra verkefna. Bankinn er fjárvörsluaðili þeirra sem trúa honum fyrir sparifé sínu og þarf að vera gætinn í lánum til annarra þannig að hann verði ekki fyrir of miklum útlánatöpum. Lögð hefur verið áhersla á þá ímynd að að bankinn beri umfram allt hag viðskiptavinar- ins fyrir brjósti og í því skyni hafa í áranna rás þróast íhaldssamar reglur í þessum samskiptum. (bls. 59)

Fyrir einkavæðinguna nutu íslenskar fjármálastofnanir trausts sem grundvallaðist á Búa til peningaþessari mynd. Á þeim sjö árum sem eru liðin frá því að hún átti sér stað hefur þetta heldur betur snúist við. Við einkavæðinguna hófust hinir nýju eigendur þeirra handa við að breyta bönkunum, sem þeir komust yfir, úr hefðbundnum innlánsstofnunum í fjárfestingar- banka sem hafa það hlutverk að þjónusta viðskiptalíf og stóra fjárfesta. Tekjur fjárfestingabanka byggjast ekki á muninum á innláns- og útlánsvöxtum heldur þóknunum fyrir þjónustuna við viðskiptalífið og stóra fjárfesta.

Almenningur fylgdi ofangreindum breytingum ekki eftir [heldur] treysti bankanum sínum eins og hann hafði alltaf gert . Fæstir gerðu sér grein fyrir að með nýjum tímum voru komnir gjörbreyttir siðir. (bls. 59)

Viðskiptavinirnir gerðu sér þess vegna ekki grein fyrir að ekki var lengur litið á þá sem skjólstæðinga bankanna heldur sem vöru sem gat gefið arð. Samkeppni, bæði á milli bankanna og innan þeirra, jókst gríðarlega. Bankarnir kepptust við að bjóða í viðskiptavini samkeppnis-aðilanna með alls kyns gylliboðum og innan bankanna var komið upp söluhvetjandi bónuskerfi. 

Bankanum er sama um þig!Þetta hafði þær afleiðingar að þjónustufulltrúarnir sem viðskiptavinirnir álitu að hefðu þeirra hagsmuni í huga voru oft og tíðum að veita ráðgjöf varðandi þjónustu bankans sem skilaði þeim sjálfum aukagreiðslu í vasann. Þ.e.a.s. ef kúnninn beit á agnið.

Þetta skýrir m.a. þá gífurlegu áherslu bankanna á alls konar þjónustuformum eins og t.d. það sem náms- mönnum er boðið upp á. „Í þessu ljósi kemur það almenningi tæplega á óvart nú hve mikil ásókn var í að selja honum nýjar vörur eða þjónustu í bankanum.“ (bls. 60)

Almennt litu viðskiptavinir bankanna á þjónustufulltrúann, sem þeir voru í mestum samskiptum við, sem velgjörðarmann sinn sem þeir gátu treyst. Þjónustufulltrúar hafa líka aðgang að trúnaðarupplýsingum sem varða fjármál viðskiptavinanna þannig að það er e.t.v. ekki nema eðlilegt að almenningur vilji trúa því að þeim sé treystandi.

Ekki lengur þjónustufulltrúiEftir einkavæðinguna fengu þjónustu- fulltrúarnir hins vegar nýtt hlutverk sem væri nær að skilgreina sem sölumann þar sem þeim bar frekar að þjóna skamm- tímahagsmunum bankans fremur en hagsmunum viðskiptavinarins.

Þessi nýja skilgreining hafði þær óhjá- kvæmilegu afleiðingar að þjónustufulltrú- arnir gátu ekki lengur verið í hlutverki velgjörðamannsins sem setur hagsmuni viðskiptavinarins í öndvegi. 

Þessar breyttu áherslur í starfi bankanna voru aldrei kynntar út á við. Þær komu heldur hvergi fram í samskiptum þeirra við almenna viðskiptavini. Hefðu viðskiptavinirnir t.d. verið upplýstir um það að þjónustufulltrúarnir fengu greitt fyrir hverja þá „vöru“ sem þeir seldu þeim þá hefðu þeir eflaust litið öðruvísi á hlutverk þessara starfsmanna bankans. 

Það er hins vegar ljóst að Fjármálaeftirlitið vissi af þessum nýju áherslum þó að starfsmenn þeirra hafi ekki aðhafst neitt varðandi þetta atriði fremur en önnur sem tengjast vafasömum starfsháttum bankanna á þessum árum. Því miður eru dæmin fjölmörg um það að bankarnir reyndu að blekkja einstaklinga til viðskipta þó enginn þeirra verði rakin hér.

Fronturinn verður að vera í lagiÞað er að sjálfsögðu á ábyrgð einstaklingsins að taka ekki of mikla áhættu í lántöku en maður skyldi ætla að áhætta einstaklingsins á því sviði væri líka áhætta bankans. Það er líka eðlilegt að gera ráð fyrir að þeir sérfræðingar sem vinna hjá bönkunum búi yfir einhverjum starfsheiðri þannig að eðlilega gerði almenningur sér ekki grein fyrir því að oft og tíðum stríddu ráðleggingar bankanna gegn almennu siðferði og góðum starfsháttum.

Dæmi um þetta eru t.d. svonefnd „barnalán“ Glitnis (sbr. bls. 65) og framsetning bankanna á kynningum varðandi ýmsar áhættufjárfestingar eins og í hluta- bréfakaupum og kaupum á svokölluðum peninga-bréfum sem starfsmönnum allra bankanna var ráðlagt að kynna sem áhættulausa fjárfestingu. (sbr. bls. 63)

Þessi kúvending á starfsemi bankanna má rekja til þess að ábyrgð og raunsætt áhættumat vék fyrir voninni um áhættulausan hagnað. Hugmynd sem af öllum sólarmerkjum að dæma er runnin undan rifjum þeirra sem ráðherrarnir Davíð Oddsson og Halldór Ásgeirsson lögðu svo ríka áherslu á að eignuðust bankanna að þeir fóru á svig við lögin til að koma þeim ásetningi í kring.

Sjónarmið skammtímahagnaðar réðu ferðinni en ekki ábyrgð gagnvart samfélaginu. Allar leiðir til hagnaðar voru nýttar til fulls og eftirlitið stóð að mestu leyti aðgerðarlaust hjá. (bls. 67)

Það er ástæða til að vekja athygli á því að höfundar 8. bindisins taka það sérstaklega fram í lok kaflans sem þessi skrif byggja á að: „Ástæða er til mun ítarlegri rannsóknar á afstöðu Fjármálaeftirlitsins til ýmissa vafaatriða í íslensku viðskiptalífi.“ (bls. 67 (leturbreytingar eru höfundar).

Almenningur ber uppi sérhagsmunaelítunaÞað má hverjum vera orðið ljóst að innan bankanna var/er áhugaleysið á vönduð- um starfsháttum nær takmarkalaust. Sömu sögu er að segja um virðingar-leysið fyrir lögum og reglu. Stærstu eigendurnir og æðstu stjórnendur notfærðu sér stöðu sína óspart til að hygla sjálfum sér á kostnað almennra viðskiptavina bankanna.

Það er því óhætt að segja að bæði í því og því sem síðar hefur komið fram í orðum þeirra og gjörðum endurspeglist ekki síst takmarkalaust virðingarleysi gagnvart almennum borgurum svo og samfélags- legum hagsmunum.

Nægir þar að nefna viðtöl við marga þeirra svo og aðrar yfirlýsingar þeirra sjálfra á opinberum vettvangi en hér verður vikið að einu slíku dæmi úr Rannsóknarskýrslunni:

Þegar Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, baðst afsökunar í Kastljósviðtali í ágúst 2009 um tíu mánuðum eftir að bankinn hans féll, tiltók hann sérstaklega hluthafa bankans, kröfuhafa og starfsmenn. Aðspurður taldi hann sér ekki skylt að biðja þjóðina afsökunar.

Annan hóp vantaði þó tilfinnanlega í upptalningu hans: það voru sparifjáreigendur - fólk sem hafði trúað bankanum fyrir sparifé sínu og tapað hluta þess í peningamarkaðssjóðum eða öðrum sparnaðarformum, svo ekki sé talað um þá almennu viðskiptavini sem hafði verið ráðlagt að taka erlend lán eða kaupa hlutafé í bankanum þegar best lét. (8. bd. bls. 59 (leturbreytingar eru höfundar)

Það er ekkert vafamál að ef ekki hefði komið til stefnubreyting ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks þegar bankarnir voru einkavæddir þá hefðu þeir sem eignuðust bankana í kjölfarið aldrei komið til greina sem eigendur þeirra. Þess vegna ætti það að liggja í augum uppi að þeir sem ullu eiga ekkert síður að bera ábyrgð en eigendurnir og svo þeir sem stýrðu bönkunum af slíku taumleysi sem raun ber vitni.


mbl.is Breið samstaða náist um rannsókn á einkavæðingunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vítaverðir starfshættir Ráðherranefndar um einkavæðingu

Mikið er nú rætt um rannsókn á einkavæðingu bankanna og sýnist þeirri sem þetta ritar ekki vanþörf á. Eins og fram kemur í 1. bindi Rannsóknarskýrslunnar er margt enn á huldu hvað hana varðar en flest það sem hefur komið á daginn er afar tortryggilegt svo ekki sé meira sagt! Áður hefur verið fjallað um það hvernig að einkavæðingunni var staðið hér á þessum vettvangi (sjá hér og hér) en hér verður kastljósinu einkum beint að athugasemdum Steingríms Ara Arasonar. 

Steingrímur Ari ArasonSteingrímur Ari Arason var fulltrúi fjármálaráðherra í framkvæmdanefnd um einkavæðingu frá árinu 1991 þar til hann sagði sig úr henni haustið 2002. Úrsögina úr nefndinni setti hann fram í bréfi sem hann skrifaði þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddssyni.

Bréfið er dagsett þ. 10. september 2002 sem er daginn eftir að Ráðherranefndin, sem vann að einkavæðingu Landsbanka og Búnaðarbanka, hafði ákveðið að ganga til samninga við Samsonar-hópinn um Landsbankann. Ástæðurnar, sem Steingrímur Ari tilgreinir þar, eru þau vinnubrögð sem voru viðhöfð í aðdraganda þessarar ákvörðunar.

Hann segir líka að Samsonar-hópurinn hafi verið tekinn fram yfir aðra áhugasama kaupendur sem buðu upp á „hagstæðari tilboð fyrir ríkissjóð á alla hefðbundna mælikvarða.“ (1. bd. Skýrslunnar bls. 266) Steingrímur Ari leggur áherslu á það í þessu bréfi að hann hafi aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum!

Áður en lengra er haldið er e.t.v. rétt að árétta það að Framkvæmdanefnd um einkavæðingu starfaði undir ráðherranefnd um sama málefni. Ráðherranefndin starfaði undir forystu þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddssyni en auk hans áttu sæti í nefndinni: utanríkis-, viðskipta- og fjármálaráðherra (sjá. 1. bd. bls. 264).
radherranefnd um einkavæðingu

Steingrímur Ari lýsir því að lengst framan af hafi verklagið verið þannig að Framkvæmdanefndin vann upp valkosti til Ráðherranefndarinnar varðandi umsækjendur. Eftir að Samsonar-hópurinn kom til sögunnar snerist dæmið hins vegar þannig við að Ráðherranefndin fór að gefa Framkvæmda-nefndinni „fyrirmæli um efnislegar niðurstöður í vali milli viðsemjenda.“ Hann segir jafnframt að á þessum tíma hafi Ráðherranefndin verið hætt að halda formlega fundi og ákveðið hlutina í staðinn á „einhverjum hlaupum.“ (sjá 1. bd. bls. 267 (leturbreytingar eru höfundar))

Þetta stemmir við það sem Valgerður Sverrisdóttir og Davíð Oddson segja um starfshætti þessarar nefndar. Valgerður talar um að þessi hópur hafi átt einhver „smáviðtöl“ á eftir ríkisstjórnarfundum. „Þannig að þetta var ákaflega óformlegt og ekki skrifuð fundargerð.“ Og Davíð viðurkennir að hann minnist þess ekki sérstaklega að nein stefnumörkun hafi farið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar varðandi skilyrði og kröfur til kaupenda á hlutum ríkisins í bönkunum. (sjá. 1. bd. bls. 265)

Hvað stefnumörkunina varðandi skilyrði og kröfur til kaupenda er rétt að minna á 42. grein laga um fjármálafyrirtæki þar sem kveðið er á um mat á umsækjendum. Þar segir að Fjármálaeftirlitið leggi „mat á það hvort umsækjandi sé hæfur til að eiga eignarhlutinn með tilliti til heilbrigðs og trausts reksturs fjármálafyrirtækis.“ (Sjá hér (leturbreytingar eru höfundar)) Matið skal byggja á eftirtöldum þáttum:

1. Fjárhagsstöðu umsækjanda og aðila sem hann er í nánum tengslum við.

2. Þekkingu og reynslu umsækjanda.

3. Hvort eignarhald umsækjanda skapar hættu á hagsmunaárekstrum á fjármálamarkaði.

4. Stærð þess hlutar eða atkvæðisréttar sem umsækjandi hyggst fjárfesta í.

5. Hvort ætla megi að eignarhald umsækjanda muni torvelda eftirlit með hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki. Við mat á því skal m.a. horft til fyrri samskipta umsækjanda við Fjármálaeftirlitið eða önnur stjórnvöld, til þess hvort náin tengsl umsækjanda við einstaklinga eða lögaðila geta að mati Fjármálaeftirlitsins hindrað það í eðlilegum eftirlitsaðgerðum og hvort lög og reglur, sem gilda um umsækjanda, hindra eðlilegt eftirlit.

6. Hvort umsækjandi hefur gefið Fjármálaeftirlitinu umbeðnar upplýsingar ásamt fylgigögnum og þær upplýsingar hafa reynst réttar.

7. Refsingum sem umsækjandi hefur verið dæmdur til að sæta og hvort hann sæti …1) rannsókn.

1)L. 88/2008, 234. gr.


Eins og áður hefur komið fram þá sýna frásagnir þeirra sem komu að einkavæðingu bankanna hvernig ítrekað var farið á svig við bæði lög og markmið hennar. Nægir að benda á töflu sem er að finna í þessari færslu þar sem kaupendur Landsbankans og Búnaðarbanka eru bornir saman við þau skilyrði sem sett eru fram í lagagreininni hér að ofan.

Í Rannsóknarskýrslunni tekur Steingrímur Ari fram að þegar leið á sumarið 2002 hafi samskipti Framkvæmda- og Ráðherranefndarinnar verið þannig háttað að ákvarðanir hafi ekki komið frá Ráðherranefndinni sem slíkri heldur eingöngu frá Davíð Oddssyni og Halldóri Ásgrímssyni. Þeir hafi tekið „pólitískar ákvarðanir“ um val á viðsemjendum og þá með þeim hætti að FnE hefði fengið þau skilaboð frá þeim að semja ætti við Samson-hópinn um Landsbankann en S-hópinn um Búnaðarbankann.“ (1. bd. bls. 267)

Steingrímur segir að hann hafi rætt afstöðu sína til pólitískra afskipta af ákvarðanatöku varðandi viðsemjenda um bankana við þáverandi fjármálaráðherra, Geir H. Haarde en fengið það mjög sterkt á tilfinninguna að hann vildi halda sig á hliðarlínunni. Hann tekur það fram að bæði hann og Valgerður Sverrisdóttir hafi verið „ótrúlega [...] passíf og mikið á hliðarlínunni“ í þessum aðdraganda (sjá 1. bd. bls. 267)

Ríkisendurskoðun tók saman skýrslu í tilefni af úrsögn Steingríms Ara úr Framkvæmdanefndinni sem kom út í október 2002. Þar segir að gagnrýni hans á vinnubrögð Framkvæmdanefndarinnar snúi fyrst og fremst að eftirtöldum tveimur atriðum:

  • Reglur við mat á tilboðum voru óljósar og í veigamiklum atriðum ákveðnar eftir að tilboð lágu fyrir. Í stað mats með hlutlægum og gegnsæjum hætti leiddu vinnubrögð framkvæmdanefndarinnar til huglægrar niðurstöðu.
  • Mikilvæg atriði voru ófrágengin þegar samþykkt var að ganga til einkaviðræðna við Samson ehf. en traust undirstaða getur augljóslega ráðið úrslitum um þróun mála þegar til lengri tíma er litið. (Sjá hér bls. 16 og 1. bd. bls. 266 (leturbreytingar eru höfundar)

Landsbankinn seldur í hendurnar á glæpamönnum

Að lokum er ástæða til að minna á þetta:

  • Ríkisstjórnin semur við Samson eignarhaldsfélag ehf. 18. október 2002 um kaup á Landsbankanum en undirritun kaupsamningsins fór fram við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu á gamlársdag það sama ár. Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um Samson hópinn er hins vegar ekki dagsett fyrr en 3. febrúar 2003. (sbr. 8. bd. bls. 22)
  • Samkomulagið við S-hópinn um kaup á Búnaðarbankanum var undirritað 16. janúar 2003 en mat Fjármálaeftirlitsins á hópnum lá ekki fyrir fyrr en 17. mars 2003. (sbr. 8. bd. bls. 26)
Tveimur dögum eftir að ríkisstjórnin samdi við Samson ehf. hefur Morgunblaðið það eftir Davíð Oddsyni að hann sé ánægður með hvernig til hafi tekist með söluna:

„Stærsti áfanginn í einkavæðingarferlinu hafi nú orðið að veruleika og samkvæmt samkomulaginu við Samson ehf. hafi flest þau markmið náðst sem ríkið hafi sett sér. Verðið sé vel viðunandi. Nú sé stefnt að því að ljúka sölu Búnaðarbankans fyrir áramót og þá muni efnahagslífið gjörbreytast þegar ríkið verði horfið af fjármálamarkaðnum, líkt og stefnt hafi verið að í næstum áratug.“


Í sömu frétt er haft eftir Valgerði Sverrisdóttur að salan sé „í samræmi við þær áætlanir sem lagt hafi verið upp með í byrjun.“ (8. bd. bls. 22)


mbl.is Mistök gerð við einkavæðinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir eru fleiri sem væri ástæða til að kalla fyrir landsdóm

Grein af rannsóknarskýrslublogginu:

Álfrú og einkavæðingadrottning

Það er rétt að taka það fram að þó þessi skrif miði fyrst og fremst að því að draga fram ábyrgð Valgerðar Sverrisdóttur á þeim hörmungum sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir núna þá er það alls ekki ætlunin að draga úr ábyrgð annarra sem sátu í Ráðherranefnd um einkavæðingu og tóku ákvarðanir um sölu Landsbankans og Búnaðarbankans enda eru nöfn þeirra nefnd hér líka. Til stendur að gera ýtarlega grein fyrir þætti þeirra hér síðar. 

Valgerður Sverrisdóttir var þingmaður Framsóknarflokksins á árunum 1987 - Valgerður Sverrisdóttir2009 og ráðherra í ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks á árunum 1999-2007. Fyrst iðnaðar- og viðskiptaráðherra í sex ár (1999-2006) og síðan utanríkis- ráðherra í eitt (2006-2007). Það var einmitt í tíð hennar, sem viðskiptaráðherra, sem einkavæðingarferli bankanna gekk í gegn. Bankanna sem fimm árum síðar sliguðu íslenska efnahagskerfið til hruns.

Af þessum sökum er ástæða til að skoða feril hennar í Viðskiptaráðuneytinu og aðkomu hennar að einkavæðingu Landsbanka og Búnaðarbanka. Hér á eftir verður stiklað á stóru hvað þetta varðar með stuðningi af því sem kemur fram í Rannsóknarskýrslunni um söluferli þeirra. Auk þess sem hér verður vitnað í einstaka fréttir og ummæli hennar sjálfrar hvað varðar einkavæðingu bankanna, virkjunarframkvæmdir austanlands og álvæðingu og skoðun hennar á eigin ábyrgð svo og Framsóknarflokksins á núverandi samfélagsstöðu.

Tilefni þessarar samantektar er  ekki síst það sem segir í 14. grein Stjórnarskráarinnar: „Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.“ (Sjá hér (leturbreytingar eru höfundar) Af þessu ætti það að vera ljóst að Valgerður Sverrisdóttir ber ábyrgð á því hvernig komið er í samfélaginu og á þar af leiðandi að svara fyrir hana. Hér á eftir verður tilefni þess að Alþingi beri að kæra hana fyrir embættisrekstur hennar sem iðnaðar-og viðskiptaráðherra á árunum 1999-2006 þó rökstuddar.

 Valgerður tekur við af Finni

Ríkisstjórnin 1999Myndin hér að ofan er af þriðja ráðuneyti Davíðs Oddssonar frá 28. maí 1999-23. maí 2003. Á myndinni eru talið frá vinstri: Tómas Ingi Olrich, Sólveig Pétursdóttir, Páll Pétursson, Guðni Ágústsson, Árni M. Mathiesen, Davíð Oddsson, Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, Halldór Ásgrímsson, Geir H. Haarde, Jón Kristjánsson, Siv Friðleifsdóttir, Sturla Böðvarsson, Valgerður Sverrisdóttir, Ólafur Davíðsson ríkisráðsritari.

Nokkrar hrókeringar urðu í röðum ráðherranna á þessu tímabili en hér er aðeins vakin athygli á því að Valgerður Sverrisdóttir tók við iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu á gamlársdag árið 1999 af Finni Ingólfssyni. Það er auðvitað full ástæða til að skoða feril hans en það verður að bíða. Valgerður lét hins vegar þegar til sín taka í nýfengnu embætti við að vinna að túlkun þessarar ríkisstjórnar á stefnumálum sínum.

Það er af mörgum ástæðum merkilegt að lesa stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem tók við völdum árið 1999 en hér er markmiðið að beina einkum sjónum að einkavæðingu bankanna. Þess vegna verður látið nægja að benda á það sem snertir hana þar:

Að halda áfram einkavæðingu ríkisfyrirtækja, einkum þeirra sem eru í samkeppni við fyrirtæki í eigu einkaaðila. Hlutabréf í ríkisbönkunum verði seld með það að markmiði að ná fram hagræðingu á fjármagnsmarkaði en tryggja um leið virka samkeppni á markaðnum til að ná fram ódýrari þjónustu. Við söluna verði þess gætt að ríkið fái hámarksverð fyrir eign sína í bönkunum. [...] Stefnumörkun á sviði einkavæðingar fari fram í ráðherranefnd um einkavæðingu en undirbúningur og framkvæmd verkefna á þessu sviði verði í höndum framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Áður en sala einstakra ríkisfyrirtækja hefst verði lögð fram í ríkisstjórn áætlun um tímasetningu, fyrirkomulag og ráðstöfun andvirðis af sölu þeirra. Tekjunum verði varið til að greiða niður skuldir ríkissjóðs, til að fjármagna sérstök verkefni í samgöngumálum og til að efla upplýsingasamfélagið. (Sjá hér (leturbreytingar eru höfundar)

Valgerður Sverrisdóttir á IðnþingiÁ Iðnþingi árið 2001 segist Valgerður vonast til að öllum meginbreytingum á fjármagnsmarkaði verði lokið á yfirstandandi kjörtímabili „en sú veigamesta sé að nú hilli undir að ríkisbankarnir komist í hendur nýrra eigenda og að afskiptum ríkisins í almennri bankaþjónustu ljúki.“ (Sjá hér) „Lögmál frjálsrar samkeppni verður þá að fullu ríkjandi sem leiða ætti til hagsældar fyrir fyrirtæki og almenning.“ (Sjá hér (leturbreytingar eru höfundar)

Á Iðnþingi 2002 er ljóst að starfsorka hennar hefur þó farið að mestu í annað en einkavæðingu bankanna. Þar segir hún nefnilega: „Nýlega hef ég lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar. Tilgangur frumvarpsins er að afla lagaheimilda fyrir svokallaða Kárahnjúkavirkjun, sem er nauðsynleg vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi sem áformað er að ráðast í á næstu árum.“ (Sjá hér)

Mikið kapp en lítil forsjá 

Þó það sé ekki meginefni þessara skrifa að rekja þátt Valgerðar í álvæðingunni Austanlands verður ekki hjá því vikist að hafa nokkur orð þar um. Á sínum tíma lagði hún nefnilega alla sína orku í að vinna virkjunar- og stóriðjuframkvæmdum þar brautargengi. Hún hefur þó ekki viljað kannast við pólitíska ábyrgð sína í því né verið tilbúin til að svara fyrir gagnrýni varðandi ýmis atriði sem var haldið leyndum í sambandi við viðvaranir og athugasemdir um staðsetningu virkjunarinnar. 

Ögmundur Jónasson víkur að þessu í bloggpistli sínum í ágúst árið 2006 en þaðan er eftirfarandi tilvitnun tekin:

Hin pólitíska ákvörðun um Kárahnjúkavirkjun var tekin í Framsóknarflokknum fyrir margt löngu. Eftir það virðast röksemdir skipta ráðherra Framsóknar engu máli, þær komi pólitíkinni ekkert við. Þær séu bara fyrir embættismenn að glíma við; þeir eigi að svara öllum tæknilegum álitamálum, eins og hvort jarðfræðilegar eða efnahaglsegar forsendur hafi verið fyrir því að ráðast í þessar framkvæmdir! (Sjá hér (leturbreytingar eru höfundar)

Hér er líka ástæða til að víkja að bréfi Bjarna Harðarsonar. Lára Hanna Einarsdóttir birti þetta Valgerður Sverrisdóttir og stóriðjanbréf í heild sinni á blogginu sínu þ. 11. nóvember 2008 (Sjá hér) Þeir voru fáir sem fylgdu í fótspor hennar við að reyna að snúa umræðunni um þetta bréf að innihaldi þess. Allur hitinn lá í háværri gagnrýni á sendandann fyrir það að kunna ekki almennilega á tölvupóstinn sinn og hvernig hann vildi koma höggi á flokks- systur sína.

Í bréfinu minnir Bjarni Valgerði á þátt hennar og flokksforystu Framsóknarflokksins í hruninu sem var þá nýorðið. Hann bendir henni á þrjú atriði sem hún ber ábyrgð á. Þau eru:

1. Einkavæðing bankanna

2. Innleiðing tilskipunar ESB um raforkumál

3. Áróður fyrir aðild landsins að ESB

Bjarni ásakar Valgerði líka fyrir það að hafa stutt Halldór Ásgrímsson og nýjar áherslur hans í stefnu flokksins. Hann segir reyndar að með formennsku hans hefjist raunasaga Framsóknarflokksins. Ástæðuna segir hann liggja í þeim áherslubreytingum sem Halldór kom á varðandi stefnu flokksins.

Við mótun nýrrar stefnu skipaði Halldór „framtíðarnefnd“ sem vann að breytingunum. Það vekur athygli að Jón Sigurðsson leiddi þessa nefnd og var ætlað að fá Sigurð Einarsson og Bjarna Ármannsson til liðs við sig. Það er þó svo að skilja að sá síðarnefndi hafi afþakkað boðið. 

Bjarni telur upp fjögur atriði sem fólust í þessari nýju stefnu:

1. Í stað þess að standa vörð um sjálfstæði Íslands og fullveldi átti að gangast undir ESB-valdið í Brussel

2. Í stað hins blandaða hagkerfis skyldi innleiða „frjálst“ markaðshagkerfi líkt og í Bandaríkjunum og ESB

3. Ísland átti að verða „alþjóleg“ fjármálamiðstöð og skattaparadís

4. Frjáls innflutningur á landbúnaðarvörum átti að vera forsenda þess að flokkurinn næði fylgi í þéttbýlinu (Sjá hér)

Það vekur sérstaka athygli að hér er hvergi minnst á þátt Valgerðar í virkjana- og stóriðjumartröðinni en hér eru hins vegar dregin fram flest önnur sem máli skipta varðandi þátt Framsóknarflokksins í hruninu. Orð hans og Ögmundar Jónassonar og  Bjarna Harðarsonar rökstyðja þó bæði virkan þátt Valgerðar í þeirri atburðarrás sem leiddi til efnahagshrunsins.

„Þetta var dálítið barn síns tíma“

Valgerður SverrisdóttirFyrsta skrefið í einkavæðingu Landsbanka og Búnaðarbanka var frumvarp sem Valgerður Sverrisdóttir, viðskiptaráðherra, lagði fram hinn 5. mars árið 2001. Frumvarpið varðaði breytingu á lögum nr. 50/1997 um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Ísland. (Sjá hér)

Einu breytingarnar sem frumvarpið gerði ráð fyrir að yrðu á lögunum var að veita heimild til sölu á hlut ríkisins í Landsbankanum og Búnaðar- bankanum. (Sjá hér) Hins vegar var engin afstaða tekin til annarra atriða varðandi söluferlið. Í 1. bindi Rannsóknarskýrslunnar er ferill þessa frumvarps reifaður svo og annað sem lýtur að einkavæðingu beggja bankanna (sjá bls. 233-235)

Frumvarpið var samþykkt óbreytt 18. maí 2001 með 35 atkvæðum þingmanna Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Þingmenn Frjálslynda flokksins og Samfylkingar sátu hjá en þingmenn Vinstri grænna greiddu atkvæði gegn því. Eins og er áréttað í Rannsóknarskýrslunni var söluheimildin á bönkunum með öllu opin og óákvörðuð samkvæmt þessum lögum. „Öll frekari ákvarðanataka varðandi fyrirkomulag sölunnar fór því ekki fram á vettvangi þingsins heldur hjá stjórnvöldum“ (1. bd. bls. 234-235 (leturbreytingar eru höfundar) 

Það var því í höndum stjórnvalda:
a) hvort ætti að selja annan bankann eða báða
b) hvort þeir skyldu seldir á sama tíma
c) hversu stórir hlutir yrðu seldir
d) á hvaða verði
e) hvaða kröfur eða skilmála átti að gera til kaupenda
e) hvort það væri æskilegt og/eða heimilt að binda kaup eða eigu í bönkunum einhverjum skilyrðum (sbr. 1. bd. bls. 235)

Rannsóknarnefnd Alþingis spurði Valgerði út í þá leið sem var farin við sölu bankanna. Áhersla nefndarinnar snýr að því að fá einhverjar skýringar á því hvers vegna söluheimildin hafi verið höfð svo opin í lögunum og af hverju stjórnvöldum var látið það fullkomlega eftir að ákvarða nánari skilyrði og framkvæmd sölunnar. Svör Valgerðar eru síst til að vekja manni tiltrú á störfum hennar sem ráðherra: „Já, svona eftir á að hyggja þá er þetta náttúrulega mjög opið en þetta var dálítið barn síns tíma, framkvæmdarvaldið var náttúrulega mjög dóminerandi í þinginu á þeim tíma.“ (1. bd. 235 (leturbreytingar eru höfundar)

Þegar Valgerður var svo spurð um gagnrýni sem kom fram af hálfu stjórnarandstöðunnar um skort á pólitískri ákvarðanatöku um það hvernig skyldi standa að einkavæðingunni svarar hún „að reglur hefðu verið til um það „hvernig einkavæðingarnefnd skyldi starfa“ og að „Alþingi [hefði] alltaf tækifæri til að spyrja um alla hluti““ (1. bd. bls. 235)

Blinduð trúarsannfæring

Það verður að viðurkennast að margt í svörum Valgerðar frammi fyrir Rannsóknarnefndinni vekur manni bæði furðu og spurningar. Þó er eitt tilsvar hennar sem stendur upp úr en það varðar nánari eftirgrennslan nefndarmanna um afstöðu hennar í sambandi við það fyrirkomulag við sölu bankanna að ákvörðunarvaldið væri allt í höndum ráðherra. Þessu svarar Valgerður: 

„Já, það er sjálfsagt alveg rétt. Þetta var vissulega bara í höndum ríkisstjórnarinnar en [...] það var þó ákveðið ferli í gangi og það voru þá einhverjar kríteríur. Ýmsir héldu að þetta hefði bara allt verið ákveðið af þessum ráðherrum, ekki einu sinni fjórum heldur einhverjum tveimur og svo bara gert. En það var náttúrulega ekki alveg svo slæmt. Og ég nefni þá enn einu sinni þetta HSBC fyrirtæki sem ég hélt að væri voðalega merkilegt en svo veit ég ekkert um það.“ (1. bd. bls. 235 (leturbreytingar eru höfundar)

HSBC

HSBC-fyrirtækið“ sem Valgerður Sverrisdóttir minnist á í tilvitn-uninni hér að ofan er banki, reyndar stærsti banki í heimi, með höfuðstöðvar í London. Við einkavæðingu bankanna var óskað eftir tilboðum í ráðgjöf við söluna sem fór þannig að gerður var samn- ingur við breska fjárfestingabankann HSBC um verkið. (sbr. 1. bd. 237)

Þess ber að geta að Framkvæmdanefnd um einkavæðingu var falið að vinna að undirbúningi tillagna um fyrirkomulag á sölu bankanna tveggja. Nefndin starfaði undir Ráðherranefnd um sama málefni en hana sátu: Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson, Valgerður Sverrisdóttir og Geir H. Haarde

Við lestur Rannsóknarskýrslunnar kemur það berlega í ljós að þegar nær dró sölunni á bönkunum hætti Ráðherranefndin að taka mark á tillögum Framkvæmdanefndarinnar enda fór það svo að einn fulltrúi hennar, Steingrímur Ari Arason, sagði sig úr henni 10. september 2002. (sbr. 1. bd. 266) Uppsögnina sendi hann í bréfi til forsætisráðherra daginn eftir að Ráðherranefndin ákvað að ganga til viðræðna við Samson eignarhaldsfélagið ehf um kaup á hlut ríkisins í Landsbankanum.

Ástæða þess að stjórnvöld völdu Samson-hópinn til viðræðna segir Valgerður Sverrisdóttir eingöngu hafa verið þá að ráðgjafi stjórnvalda við söluna, þ.e. breski fjárfestingabankinn, mat Samson hópinn þannig að „þeir hafi heilmikla faglega þekkingu og séu færir um að kaupa banka“ (1. bd. bls. 263)

Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á tveimur atriðum sem koma fram í Skýrslunni í þessu sambandi. Fyrra atriðið kom fram í svörum Valgerðar Sverrisdóttur og Steingríms Ara Arasonar.

Bæði báru um að það hefði vakið athygli sína á þessu stigi í ferlinu að Skarphéðinn Berg Steinarsson, starfsmaður einkavæðingarnefndar, hefði tekist á hendur för einsamall til London til fundar við ráðgjafa stjórnvalda um söluna hjá HSBC. Steingrímur Ari lýsti vitneskju sinni um tilgang fararinnar með þeim orðum að starfsmaðurinn hefði farið á fund HSBS til að „sitja með þeim yfir því hvernig [ætti] að stilla upp matslíkaninu“ þó að „það [hefði átt] að heita að þetta reiknilíkan væri komið frá HSBC-bankanum“ (1. bd. bls. 263) 

Hitt er tölvubréf frá Edward Williams, sem var sá sem fór með ráðgjöfina fyrir hönd HSBC-bankans. Bréfið er dagsett þann 29. ágúst 2002. Bréfið er stílað á fyrrnefndan Skarphéðinn Berg Steinarsson, starfsmanns framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Undir lok bréfsins segir:

„By defining the criteria and weighting carefully, it is possible to arrive at the „right“ result in selecting the preferred party, whilst having a semi-scientific justification for the decision that will withstand external critical scrutiny.“ (1. bd. bls. 263)

Björgólfur GuðmundssonVarðandi það blinda traust sem mætti ætla að hafi verið á ráðgjöf HSBC-bankans er vert að benda á eitt atriði til viðbótar. Það varðar það sem Björgólfur Guðmundsson segir um það hvernig þeir, sem kölluðu sig Samson í tilboðinu sem þeir gerðu í Landsbankann, komust á snoðir um það að ríkið hygðist selja hlut sinn í bankanum.

Ef marka má orð hans segir hann að það hafi verið í kokteilboði úti í London þar sem þeir hafi hitt „mann sem er frá HSBC“ sem hafi sagt þeim að hann væri með „mandate“ (tilskipun/umboð) frá íslensku ríkisstjórninni um að hann „megi, eigi að selja bankann.“ (1. bd. bls. 242)

Það kemur kannski ekki á óvart að Steingrímur Ari segir í uppsagnarbréfinu, sem hann skrifar til forsætisráðherra, að ástæðan fyrir úrsögn sinni sé sú að „aðrir áhugasamir kaupendur [hefðu] verið sniðgengnir þrátt fyrir að hagstæðari tilboð“. Hann tekur það líka fram að á löngum ferli í nefndinni hafi hann „aldrei kynnst „öðrum eins vinnubrögðum““(1. bd. bls. 266)

Halldór ÁsgrímssonEkki benda á mig

Ráðherranefndin sem tók ákvörðun um það hvernig var staðið að sölu bankanna var, eins og áður segir, skipuð þeim: Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, þáverandi fjármála-ráðherra, Halldóri Ásgrímssyni, þáverandi utanríkisráðherra og Valgerði Sverrisdóttur, þáverandi viðskiptaráðherra.

Þessi vilja þó ekki kannast við það að þeirra hafi verið ákvarðanirnar heldur vísa til Framkvæmdanefndar um einkavæðingu og fyrrnefndan ráðgjafa ríkisstjórnarinnar. Það er reyndar erfiðleikum háð að rekja það nákvæmlega hvar ákvarðanirnar hafi verið teknar þó það verði að segjast eins og er að allt bendi til þess að það hafi miklu frekar verið hjá Ráðherranefndinni en þeim sem voru undir henni. 

Rannsóknarnefndin athugaði sérstaklega hvort hjá stjórnvöldum væru tiltæk skrifleg gögn um störf RnE sem varpað gætu ljósi á almenn störf og ákvarðanatöku nefndarinnar í söluferlinu, svo sem fundargerðir, en samkvæmt svörum stjórnvalda fundust engin slík gögn í vörslum þeirra. (1. bd. bls. 264)

Davíð OddssonEinu upplýsingarnar sem rannsóknarnefndin gat aflað sér um störf nefndarinnar var framburður Davíðs Oddssonar og Valgerðar Sverrisdóttur. Af framburði beggja er ljóst að störf hennar hafi verið mjög óformleg og óskipulögð. Valgerður segir að það hafi verið helst eftir ríkisstjórnarfundi sem nefndarmenn hafi setið saman og átt í einhverjum smáviðtölum. (sbr. 1. bd. bls. 265). Bæði, Davíð og hún, bera því við að málið hafi verið í höndum einkavæðingarnefndar; þ.e Framkvæmdanefndar um einkavæðingu.

Þau segjast bæði hafa reitt sig á ráðgjöf þeirra aðila, sem störfuðu undir þeim og bjuggu tillögur að efnislegum ákvörðunum í hendurnar á þeim, við ákvarðanatöku í söluferli bankanna . Þessir eru annars vegar einkavæðingarnefndin en hins vegar fyrrnefndur ráðgjafi ríkisstjórnarinnar frá HSBC. Í þessu sambandi er vert að vekja athygli á því sem fram kemur í máli Valgerðar varðandi það að Ráðherranefndin hafði aldrei bein samskipti við þennan ráðgjafa (sbr. 1. bd. bls. 266).

Hún segir samt að hún hafi gert „mjög mikið með þá ráðgjöf, ég trúi því að þeir hafi staðið faglega að málum og það kostaði mikla peninga að kaupa þá ráðgjöf að þeim [...].“ Síðan bætir hún við í sambandi við það hvað réð ákvörðunum varðandi sölu bankanna: „Við treystum okkar einkavæðingarnefnd og kannski treystu þeir HSBC eða hvernig það var.“ (1. bd. bls. 266 (leturbreytingar eru höfundar)

Það kemur reyndar líka fram í skýrslu Valgerðar hvað þetta varðar að ákvörðunin um það að gagna til samninga við Samson-hópinn um landsbankann hafi verið frá Davíð Oddssyni komin. (sbr. 1. bd. bls. 267) Steingrímur Ari Arason segir hins vegar að þeir Davíð Oddson og Halldór Ásgrímsson hafi verið þeir sem tóku „pólitískar ákvarðanir“ um það hverjir keyptu bankanna. Hann ýjar líka að samskiptum sem hafi átt sér stað á milli stjórnvalda og einstakra aðila úr Samsonar-hópnum í aðdraganda þess að þeir sendu Framkvæmdanefndinni bréf þar sem þeir lýstu áhuga sínum á að kaupa Landsbankann (sbr.1. bd. bls. 267)

Þegar Davíð Oddson er inntur eftir þeirri ábyrgð sem hann ber á söluferli bankanna svarar hann á mjög davíðskan hátt. Hann segir: Ég hef bara búið við það í háa herrans tíð að allt sem er ákveðið hefur verið eignað mér. Með réttu eða röngu.“ Hvað ráðgjöf HSBC varðar segir hann m.a. þetta.

„[Þ]egar þú ræður þér þekktan og góðan sérfræðing í þeim efnum til að setja fram síðan óskir og kröfur, þá mundum við halda að þá mundu öll fagleg og efnisleg sjónarmið, það ætti ekki að koma frá ríkisstjórninni, [...] ráðgjafinn mundi sjá til þess að þau lægju [fyrir] [...] [M]itt hlutverk í þessu er aðallega að veita pólitíska leiðsögn, leiðsögn og yfirstjórn í þessu, ég er ekki síðan í einhverjum detail-um“ (1. bd. bls. 266 (leturbreytingar eru höfundar)

Einn handa þér og annar handa mér  

Það þarf ekki að tíunda það að niðurstaðan varð sú að Samson-hópurinn keypti Landsbankann og S-hópurinn Búnaðarbankann. Það var líka farið nokkuð ýtarlega yfir þetta atriði í færslunni Ráðherrarnir fyrstir til að brjóta lögin um einkavæðinguna og afleiðingar þess í færslunni Glæpamenn á beit í bönkunum.

Það er ljóst af því sem þar kemur fram og öllu framansögðu að ráðherrarnir sem áttu sæti í Ráðherranefndinni sveigðu til eigin viðmið til að hrinda einkavæðingu bankanna í framkvæmd. Steingrímur Ari Arason segir líka að haustið 2002 hafi vinnubrögð Framkvæmdanefndar um einkavæðingu líka snúist við á þann hátt að í stað þess að hún ynni upp valkosti fyrir Ráðherranefndina þá hafi hún tekið við fyrirmælum þaðan um efnislegar niðurstöður við val á viðsemjendum. Hann segir reyndar:

„[É]g er 99,9% viss um að [Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson] taka ákvörðun um þetta, að selja báða bankana samtímis, að ganga til viðræðna við S-hópinn um kaup á Búnaðarbankanum og Samson hópinn um kaup á Landsbankanum.“ (1. bd. bls. 267) 

Þetta stangast þó reyndar aðeins á við það sem Valgerður Sverrisdóttir segir um þetta atriði:

„Við tókumst svolítið á, við Davíð, þarna einmitt þegar var verið að ákveða hvort það ætti að auglýsa báða bankana eða annan. Hann vildi bara auglýsa annan, bara Landsbankann. [...] Ja, hann vildi bara að þetta væri svona en ég vildi að þetta væri hinsegin og hafði vinninginn og þótti það nú ekki leiðinlegt.“ (1. bd. bls. 239)

Valgerður SverrisdóttirÞegar bankarnir voru seldir í kringum áramótin 2002/2003 voru markaðs- aðstæður alls ekki hagstæðar. Gagnrýni hvað þetta varðar svarar Valgerður með því að benda á að kjörtímabilið var að líða undir lok og þeim hafi þótt áríðandi að standa við kosningaloforð um einkavæðingu bankanna áður en það yrði úti. Hún bætir því síðan við að: „það er rétt sem hefur komið fram að það var fyrst og fremst Framsóknarflokkurinn sem þrýsti á það.“ (1. bd. bls. 239 (leturbreytingar eru höfundar)

Þetta er athyglisvert í ljósi þess að í ræðu sinni sem hún flutti á flokks- þingi Framsóknarflokksins í janúar 2009 virðist hún alls ekki kannast við að hvorki hún né flokkurinn beri nokkra ábyrgð á afleiðingunum þar sem hún segir: Því fer fjarri að Framsóknarflokkurinn beri ábyrgð á efnahagshruninu, eins og formaður Samfylkingarinnar ýjar gjarnan að." (Sjá hér (leturbreytingar eru mínar)

Það er til marks um veruleikafirringu Valgerðar Sverrisdóttur að í ræðu sinni bendir hún á að lausnina á þeim erfiðleikum sem samfélagið stendur frammi fyrir, m.a. fyrir embættisverk hennar og Halldórs Ásgrímssonar, sé að finna undir forystu Framsóknarflokksins. Valgerður lauk fyrrnefndri ræðu sinni þannig: 

„Traust þjóðarinnar mun aðeins fást við samhentan flokk sem hefur eitthvað mikilvægt til málanna að leggja. Samvinnuhugsjónin, félagshyggja, jöfnuður og umfram allt manngildi ofar auðgildi eiga að vísa okkur leið – bæði flokknum og þjóðinni til heilla.“ (Sjá hér)

 


mbl.is Þingfundur hefst á mánudagsmorgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ágreiningurinn stafar heldur ekki af góðu!

Grein af rannsóknarskýrslublogginu:

Allt aðrir hagsmunir en réttlætisins sem valda ágreiningnum!

Þeim sem var gefin heilbrigð skynsemi í vöggugjöf vita það að þegar kemur að því að skera úr um erfið málefni sem snerta mann sjálfan er farsælt að spyrja einhvern ótengdan. Snerti málið vinnufærni eða faglega hæfni sem maður vill fá skorið úr um er rétt að leita til óháðra fagaðila. Ef málið er alvarlegt þá eru vinnufélagarnir illa í stakk búnir til að meta hvað er rétt og rangt þar sem þeir tengjast málinu væntanlega allir á einhvern hátt. 

Þess vegna fela einstaklingur/-ar með þroskaða siðvitund og heilbrigða dómgreind úrlausn slíkra mála ábyrgum fagaðilum. Umfjöllun og úrskurður þess hvort ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem fór með völd haustið 2008 er ekki aðeins erfitt mál heldur bæði alvarlegt og þýðingarmikið. En voru það aðeins ráðherrar síðustu ríkisstjórnar sem brugðust skyldum sínum sem almannaþjónar? 

Ríkisstjórnin 2003
Ríkisstjórnin 2005

       Ríkisstjórnin 23. maí 2003                          Ríkisstjórnin 27. sept. 2005

Í siðmenntuðu samfélagi myndi að sjálfsögðu enginn sem sat á þingi á undanförnum áratug og tók ákvarðanir sem ollu hruninu sitja þar nú. Þeir sem hafa gengt ráðherraembætti í þeim ríkisstjórnum sem skrifuðu undir þær vanhugsuðu og oft og tíðum gerræðislegu ákvarðanir sem leiddu til hrunsins ættu auðvitað alls ekki að vera þar nú.

Þeir sem áttu sæti í þessum ríkisstjórnum og vissu hvernig var „gamblað“ með almannahagsmuni til að greiða götu flokksvina eiga heldur ekkert erindi inni á þingi nú. Öllum sem búa yfir þroskaðri siðvitund hljóta að sjá að þeir sem sátu í þeim ríkisstjórnum sem tóku þátt í að leyna almenning staðreyndum um yfirvofandi hrun eiga tvímælalaust ekkert erindi við almannahagsmuni

Ríkisstjórnin 2006
Ríkisstjórnin vorið 2007

        Ríkisstjórnin 15. júní 2006                         Ríkisstjórnin 24 maí 2007

Óháðir fagaðilar kæmust væntanlega að þeirri niðurstöðu að þessir ættu allir að sæta ábyrgð fyrir gjörðir sínar. Vinnufélagarnir og flokkssystkinin virðast hins vegar vera á öðru máli enda margir of nátengdir til að ráða við verkefnið sem þeim hefur verið falið.

En það er fleira sem spilar inn í. Það eru ekki síst tengsl miklu fleiri flokkssystkina við þá skjólstæðinga sem voru teknir fram yfir almannaheill svo og tengsl flokkanna sjálfra við þessa sömu skjólstæðinga. Af þessu tilefni er kannski rétt að birta töflu sem byggir á  upplýsingum sem koma fram í töflum 4 og 6 í 8. bindi Rannsóknarskýrslunnar (sjá bls. 165 og 167) um styrki sem þingmenn á yfirstandandi þingi þáðu af Kaupþingi og Landsbanka á árunum 2004-2007.

Það er rétt að taka það fram að Steinunn Valdís Óskarsdóttir hefur sýnt þann siðferðisþroska að segja af sér þingmennsku en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Björgvin G. Sigurðsson tóku sér aðeins tímabundið leyfi. Væntanlega til að bíða af sér storminn sem skapaðist við útkomu Rannsóknarskýrslunnar enda hyggst Þorgerður Katrín snúa aftur þegar nýtt þing hefst síðar í haust.

 Nafn KaupþingLandsbanki
 Samtals
Steinunn Valdís Óskarsdóttir
  3.500.0003.500.000
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
 1.500.000 2.500.0003.000.000
Guðlaugur Þór Þórðarson
 1.000.000 1.500.0002.500.000
Kristján L. Möller
 1.000.000 1.500.0002.500.000
Össur Skarphéðinsson
  1.500.0001.500.000
Björgvin G. Sigurðsson
    100.000
 1.000.0001.100.000
Guðbjartur Hannesson
  1.000.0001.000.000
Helgi Hjörvar
    400.000    400.000   800.000
Sigurður Kári Kristjánsson
     750.000
   750.000
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir
    250.000    300.000
   550.000
Ragnheiður Elín Árnadóttir
    250.000    300.000   550.000
Árni Páll Árnason
     300.000   300.000
Jóhanna Sigurðardóttir
     200.000   200.000
Katrín Júlíusdóttir
     200.000   200.000
Valgerður Bjarnadóttir
     200.000
   200.000


Það er ástæða til að birta þessa töflu til að undirstrika það að þeir sem deila harðast um það hvort og hvaða ráðherrar eigi að kalla fyrir landsdóm eru ekki aðeins óhæfir í það verkefni vegna tengsla við umrædda ráðherra heldur tengdir þeim sem þáðu styrki til að kosta prófkjör sín og annað sem flokksmórallinn segir þeim að tilheyri kapphlaupinu við að komast inn á þing.

Taflan hér að ofan segir langt frá því alla söguna því flokkarnir fengu líka umtalsverða „styrki“ frá skjólstæðingunum sem ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks sýndu slíkt örlæti að á sínum tíma komust þessir flokksvinir yfir tvo af stærstu bönkum landsins fyrir þeirra tilstilli. Í krafti nýfenginnar heimildar til að leika sér með innstæðurnar í bönkunum að sinni vild notuðu þeir þær til að hygla þeim sem þeir treystu best til að viðhalda friðhelgi þeirra og forréttindum.

„Styrkirnir“ sem Landsbanki og Kaupþing veittu núverandi þingflokkum á árunum 2004-2008 eru teknir saman á töflum 5 og 7 í 8. bindi Rannsóknarskýrslunnar (sjá bls. 166 og 168). Það skal tekið fram að í þessari töflu eru allar tölur teknar saman alveg óháð því hvort um er að ræða kjördæmaráð, fulltrúaráð, ungliðahreyfingar eða kvennadeildir flokkanna.

 

Kaupþing

Landsbanki

Samtals

Sjálfstæðisflokkurinn

 8.900.000   

34.760.000

43.660.000

Samfylkingin

15.600.000

11.497.500

27.097.500

Framsóknarflokkurinn

  9.249.000

 4.550.000

13.799.000

Vinstri grænir

 2.700.000

1.550.000

4.250.000

 

Að lokum: Er von til að þingmenn þessara flokka telji það brýnt að kalla ráðherrana til ábyrgðar sem sáu til þess að hagsmunir eigenda bankanna, sem tryggðu þeim sjálfum völd, voru settir ofar almannahagsmunum? Það er því miður margt sem bendir til þess að þeir hafi ekki burði til að leggja „mat á ábyrgð á hugsanlegum mistökum og vanrækslu stjórnvalda sem áttu þátt í hruninu.“ Það er líka hætt við því að þingmannanefndin taki ekki „afstöðu til framgöngu ráðherra í aðdraganda hrunsins.“ 

Þessi atriði eru þó grunnforsendur þess að hér fari fram „almennt pólitískt uppgjör á efnahagshruninu“ (Sjá þrjár síðustu tilvitnanir hér (leturbreytingar eru mínar)
mbl.is Ekki var við neinn titring
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnvöld fá falleinkunn fyrir að þjóna ekki almannaheill

Samtök atvinnulífsins er tvímælalaust eitt þeirra skrifstofubákna sem reyna allt hvað það getur til að halda við þeim pólitísku ítökum sem það hefur komist upp með að tileinka sér. Fjölmiðlarnir styðja þá og fleiri í því að viðhalda þeim með því að lepja eftir þeim fréttatilkynningar af þessu tagi án nokkurrar gagnrýni eða tilraunar til að varpa ljósi á að tvær hliðar kunna að vera á málunum sem þær fjalla um. Það er m.a. af þessum ástæðum sem mér þykir vel við hæfi að vekja athygli á þessari bloggsíðu og birta síðustu færslu sem var sett þar inn með þessari frétt.

Af Rannsóknarskýrslunni má lesa að ríkisstjórnir undanfarandi áratuga fá allar falleinkunn fyrir andvaraleysið sem þær sýndu gagnvart hagsmunum almennings. Þessu verður gerð miklu betri skil hér á næstu dögum en að þessu sinni er ætlunin að grípa niður í 8. bindinu þar sem dregnar eru saman ályktanir og lærdómar undir lok kaflans um „Stjórnsýslu og siðferði“ (þessi kafli spannar bls. 132-152 í 8. bindinu).

Áður er þó rétt að hafa örfá orð um samráðsnefndina sem vikið er að þar. Rætur hennar „má rekja til fundar sem haldinn var 15. janúar 2004 en þar voru stjórnvöldum kynntar viðlagaáætlanir sem gerðar höfðu verið hjá Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu og tóku mið af sambærilegum áætlunum erlendis.“ (8. bd. bls. 133 (Sjá líka 6. bd. bls. 69-78)). Rúmum mánuði síðar var settur saman samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbrögð við hugsanlegum áföllum á fjármálamarkaðinum.

Meðlimir þessa hóps voru eftirtaldir:

·         Bolli Þór Bollason, ráðuneytisstjóri, forsætisráðuneytisins

·         Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins

·         Jónína Lárusdóttir, ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytisins

·         Jónas Fr. Jónasson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins

·         Ingimundur Friðriksson, aðstoðarbankastjóri Seðlabankans

·         Tryggi Pálsson, framkvæmdarstjóri fjármálasviðs Seðlabankans

                                                                       (sbr. 8. bd. bls. 133)


Þremur árum síðar, eða dagana 20.-25. september 2007, tóku meðlimir hópsins þátt í norrænni viðlagaæfingu. Á æfingunni var gert ráð fyrir því að einn banki í hverju þátttökulandanna lenti í lausafjárvanda og áttu menn að bregðast við þeirri stöðu. Framan af fór æfingin fram eins og ráð var fyrir gert. Hins vegar gerðust óvæntir hlutir hjá íslensku þátttakendunum þegar kom að þeim þætti æfingarinnar að taka ákvörðun um það hvort stjórnvöld ættu að bjarga bankanum þeirra sem var kominn undir mörk með eigið fé. (sbr. 8. bd. bls. 135 og 6. bd. bls. 87-89)
 Ingimundur Friðriksson Baldur Guðlaugsson


Allar þátttökuþjóðirnar, utan Ísland, luku æfingunni. Þeir Baldur Guðlaugsson og Ingimundur Friðriksson ákváðu það í símtali sín á milli að það „væri bara skynsamlegt að hafa ekkert á endanum sagt af eða á um það hvort ríkið mundi ætla að koma þarna þessum banka til aðstoðar við þessar aðstæður eða ekki.“ (8. bd. bls. 136) Þetta er haft eftir Baldri Guðlaussyni enda leit hann svo á að þessi æfing hefði enga „hernaðarlega þýðingu fyrir raunverulega greiningu manna þar sem ekkert nýtt hefði komið fram.“ (6. bd. bls 8) 

Það er rétt að taka það fram að Tryggvi Pálsson og Jónas Fr. Jónasson taka það báðir sérstaklega fram að þeir vildu að æfingin hefði verið tekin til loka enda hefði slíkt komið sér vel við raunverulegar aðstæður haustið 2008. (sbr. 6. bd. bls. 88) En þá að markmiðinu með þessum skrifum sem er að draga fram ályktanir höfunda 8. bindisins varðandi siðferði og skyldur stjórnsýslunnar gagnvart umbjóðendum sínum.

Dæmið um samráðsnefndina sýnir skynsamlega viðleitni af hálfu stjórnvalda til þess að vera viðbúin hugsanlegum áföllum á fjármálamarkaði. Margvíslegir brestir í stjórnsýslunni urðu til þess að sú vinna skilaði sáralitlum árangri. Ástæður þessa eru sumpart þær að ráherrar voru illa upplýstir um gang mála og þeir bera sig ekki heldur eftir upplýsingum. Fyrir vikið sinntu ráðherrar ekki heldur upplýsingaskyldu sinni gagnvart þinginu.

Áberandi er að að ráðherrar reyni að skjóta sér undan ábyrgð með því að segja að þeir hafi ekki verið upplýstir eða að málin hafi ekki verið á þeirra könnu. En það er skylda ráðherra að afla upplýsinga hjá embættismönnum og þeir geta ekki skýlt sér bak við vanþekkingu. (Sjá hér bls. 163) Þeir bera höfuðábyrgð í krafti stöðu sinnar eða hlutverks á að gæta öðru fremur almannahagsmuna sem leiðtogar landsstjórnarinnar.

Vantraust er ríkjandi meðal aðila í stjórnkerfinu sem hindrar líka að upplýsingaflæði innan þess sé nægilegt. Mikið skortir á eðlileg samskipti milli ráðherra. Verulega skortir á að að gengið sé úr skugga um stöðu mála og að mikilvægar ákvarðanir séu vel undirbúnar og rökstuddar. Illa er haldið utan um fundargögn og skráningu atburða.

Stjórnmálamenn og embættismenn standa sem lamaðir frammi fyrir bankakerfi sem leyft var að vaxa langt umfram getu stjórnvalda til að ráða við það. Kjarkleysi og skortur á frumkvæði einkenna viðbrögð þeirra. Þótt skýringa megi leita í slæmri embættisfærslu og vanþroskuðum stjórnsiðum sem eiga meðal annars rætur í pólitískum ráðningum, hljóta oddvitar stjórnarflokkanna, helstu fagráðherrar og ráðuneytisstjórar þeirra að bera mesta ábyrgð á því hvernig haldið var á málum í stjórnkerfinu. (8. bd. bls. 151-152)


Það fer varla framhjá neinum að höfundar 8. bindisins líta embættisglöp þeirra sem um ræðir alvarlegum augum enda kveða þeir óvenju þungt að orði í ályktuninni hér að ofan. Maður skyldi þess vegna ætla að þingmannanefndin, sem var skipuð til að fjalla um Skýrsluna, muni skila úrbótum sem taka á ofantöldum þáttum. Henni er nefnilega ætlað að fjalla um eftirfarandi atriði með hliðsjón af niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar sem vann að Rannsóknarskýrslunni.

a.       Almennt pólitískt uppgjör á efnahagshruninu
Þingmannanefndin mun taka afstöðu til ályktana í skýrslu rannsóknarnefndarinnar um ástæður efnahagsáfallanna og hvaða lærdóm megi draga af þeim.

b.      Breytingar á lögum og reglum
Þingmannanefndin mun fylgja eftir ábendingum rannsóknarnefndarinnar um æskilegar breytingar á lögum og reglum er miða að því að hindra að efnahagsleg áföll endurtaki sig. Nefndin getur lagt fram lagafrumvörp og þingsályktunartillögur eða vísað einstökum ábendingum til fastanefnda þingsins.

c.       Mat á ábyrgð
Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar verður lagt mat á ábyrgð á hugsanlegum mistökum og vanrækslu stjórnvalda sem áttu þátt í hruninu. Gefi niðurstöður rannsóknarnefndarinnar tilefni til mun þingmannanefndin taka afstöðu til framgöngu ráðherra í aðdraganda hrunsins.

      Þingmannanefndin mun einnig fjalla um eftirlit með fjármálastarfsemi, starfsemi fjölmiðla, starfsemi fjármálafyrirtækja og aðra starfsemi í viðskiptalífinu, starfshætti og siðferði. (Sjá hér)


Varðandi þessa þætti hlýtur þingmannanefndin að taka mið af þeim atriðum sem höfundar 8. bindisins setja niður sem lærdóm sem þarf að draga varðandi það sem á undan er gengið. Í framhaldi af ályktuninni hér að ofan fylgja eftirfarandi lærdómspunktar sem mætti ætla að nefndin taki mið af við uppgjörið, breytingartillögur sínar og mat á ábyrgð:

  • Efla þarf fagmennsku og stórbæta vinnubrögð innan stjórnsýslunnar, svo sem með vandaðri gagnafærslu og skýrari boðleiðum milli embættismanna og stjórnmálamanna.
  • Stjórnmálamenn og embættismenn þurfa að setja sér siðareglur sem draga fram og skerpa þá ábyrgð og skyldur sem felast í störfum þeirra. Efla þarf þá hugsun meðal stjórnmálamanna að starf þeirra er öðru fremur þjónusta við almannaheill.
  • Takmarka þarf pólitískar ráðningar innan stjórnsýslunnar við aðstoðarmenn ráðherra, eins og kveðið er á um í lögum.
  • Skerpa þarf ákvæði um ráðherraábyrgð, svo sem með því að skýra upplýsingaskyldu ráðherra gagnvart Alþingi og ríkisstjórn. (8. bd. bls. 152)

mbl.is Stórauka þarf fjárfestingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rannsóknarskýrslan gerir vandaða grein fyrir glæpunum

Rannsóknarskýrslan er óhemju nákvæmt yfirlit yfir allt það sem gekk á í íslensku samfélagi á árunum fyrir hrun bankanna. En hún er ekki aðeins heimild um það sem var að heldur það sem viðgengst enn. Þess vegna er nauðsynlegt að hún sé lesin og af henni dregnir lærdómar sem leiða til breytinga og skynsamlegrar uppbyggingar á samfélagi þar sem vinnuframlag og verðmætasköpun almennings er annað og meira en fjárfestingarkostur með öðrum auðlindum landsins fyrir fáa útvalda.

Ég hef áður vakið athygli á því að leshópur sem stofnaður var í kringum Rannsóknarskýrsluna hratt af stað bloggi í síðustu viku þar sem meðlimir hans birta færslur með tilvitnunum úr Skýrslunni, samantekt á innihaldi hennar og vangaveltum sínum um efnið. Með þessu vilja þeir freista þess að rjúfa þá þöggun sem hefur viðgengist um þetta merka og vandaða verk. Þú getur tekið þátt með því að vekja athygli á þessu bloggi á blogginu þínu, með því að deila því á Facebook og víðar og líka með því að taka þátt í umræðum um einstakar færslur. 

Hér fylgir brot úr síðustu færslunni sem birtist þar og ber heitið:
Glæpamenn á beit í bönkunum!

staðreynd að stærstu eigendur bankanna voru jafnframt í hópi stærstu lántakanda þeirra er hins vegar alvarlegasta atriðið í þessu öllu saman! [...]  Þegar betur er að gáð eru líka áberandi vensl á milli stærstu lántakendanna í hverjum banka. Skilgreiningin á venslum í þessu samhengi eru þau að: „Ef líkur eru á að greiðsluvandi hjá einum hafi áhrif á annan eru þeir tengdir saman í greiningu bankanna.“ (8. bd. bls. 39 (leturbreytingar eru mínar)

Áður en lengra er haldið er rétt að taka það fram að „markmið reglna um tengda aðila er fyrst og fremst að gæta hagsmuna bankans, takmarka kerfislega áhættu og gæta þannig almannahagsmuna!“ (8. bd. bls. 39 (leturbreytingar eru mínar svo og upphrópunarmerkið)

Tengslin á milli Björgólfsfeðga eru augljósust þannig að ég ætla að byrja á þeim.

Björgólfur Guðmundsson
Björgólfur Thor Björgólfsson

Heildaráhættuskuldbindingar þeirra feðga í gegnum íslensku bankana og aðrar lánastofnanir nema 2.909.100.000,-  (sjá bls. 217, 227 og 233 í 2. bd). Áhættuskuldbindingar Eimskips og tengdra félaga er tekin með í þessa tölu enda Björgólfur Guðmundsson eigandi eins þeirra félaga sem var eigandi eins fjárfestingafélagins sem var hluthafi í Eimskip. Með öðrum orðum þá átti Björgólfur eldri Ólafsfell ehf sem átti Hansa ehf sem var eigandi Grettis ehf sem var hluthafi í Eimskip.

Það vekur athygli að í tilviki þessara feðga voru faðir og sonur ekki flokkaðir sem tengdir aðilar í Landsbankanum. Sigurjón Þ. Árnason segir að það hafi aldrei verið nokkur umræða um að tengja þá tvo saman. Hann segir líka að það hafi aldrei komið fram nein athugasemd frá Fjármálaeftirlitinu né öðrum yfirvöldum hvað tengsl þeirra tveggja varðar.

„Enda er það þannig að annar er farinn á hausinn en hinn ekki, og það gat gengið í báðar áttir. Og bíddu, við skulum fara eftir því, við, þessi skilgreining er búin til vegna þess að menn upplifa þá algjörlega sem sitt hvora, það er þannig. Þú upplifir þá alveg sem algjörlega sitt hvað.“ (8. bd. bls 39 (bein tilvitnun í Sigurjón Þ. Árnason))

Robert Tchenguiz
Exista

Heildaráhættuskuldbindingar Roberts Tchenguizs og Exista, þar sem hann var stjórnarformaður frá mars 2007, í gegnum íslensku bankana og aðrar lánastofnanir nema 4.037.000.000,-  (sjá bls. 209 og 214 í 2. bd). Þrátt fyrir að Robert Tchenguiz hafi verið stjórnarformaður Exista þá voru þeir ekki flokkaðir sem tengdir aðilar hjá Kaupþingi. (sbr. 8. bd. bls. 39)

Jón Ásgeir Jóhannesson
Ingibjörg S. Pálmadóttir

Miðað við Rannsóknarskýrsluna eru engin lán skráð á nöfn hjónanna, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Ingibjörgu Stefaníu Pálmadóttur, í gegnum íslensku bankana og aðrar lánastofnanir. Heildaráhættuskuldbindingar félaganna Gaums, Landic Propertys og Stoða (FL Group) eru hins vegar 3.038.100.000,-  (sjá bls. 211, 220 og 231 í 2. bd).

Þessi eignarhaldsfélög skiptast þannig á milli hjónanna að Jón Ásgeir var stærsti eigandi Gaums og stjórnarformaður Stoða ehf fram til vors 2008 en þá tók eiginkona hans, Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir, við stjórnarformennskunni. Hún var annar stærsti hluthafinn í Landic Propertys á eftir Stoðum hf og sat í stjórn þess. Í Glitni voru félög sem hún tengdist ekki tengd við félög í eigu eiginmannsins. (sbr. 8. bd. bls. 39)

Ef tölurnar yfir lán ofangreindra eru lagðar saman þá er heildaráhættu- skuldbindingar (öðru nafni lánum af ýmsu tagi) þessara einstaklinga hjá Glitni, Kaupþingi, Landsbanka, Straumi, SPRON og Sparisjóðabankanum: 9.994.200.000,-!

Þessi dæmi sýna hvernig gildandi reglur um bankastarfsemi voru túlkaðar stærstu eigendum þeirra í hag með það að markmiði aðauka möguleika [þeirra] á lánum fremur en að tryggja hagsmuni bankanna.“(8. bd. bls. 39)

Eins og áður sagði þá ber ríkisstjórn þeirra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar höfuðábyrgð á því hverjir fengu að hreiðra um sig í bönkunum með þeim afleiðingum sem við öll þekkjum en Fjármálaeftirlitið getur heldur ekki hvítþvegið hendur sínar af ábyrgðinni. Það er nefnilega einu sinni hlutverk eftirlitsins að fylgjast með því sem fram fer á íslenskum fjármálamarkaði.

Ef í ljós kemur að eftirlitsskyldur aðili fylgir ekki lögum og/eða reglum um stórar áhættur skal Fjármálaeftirlitið samkvæmt 1. mgr. 10 gr. laga nr. 87/1998 krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests. Jafnvel þótt ekki sé ljóst að um skýrt brot gegn reglunum sé að ræða þá skal Fjármálaeftirlitið samkvæmt 2. mgr. 10 gr. sömu laga gera athugasemdir ef það telur „hag eða rekstur eftirlitsskylds aðila að öðru leyti óheilbrigðan og brjóta í bága við eðlilega viðskiptahætti“. (2. bd. bls. 120 (leturbreytingar eru mínar)

Hér að ofan er vísað til laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi en það er kunnara en frá því þurfi að segja að Fjármálaeftirlitið virkaði alls ekki sem sá eftirlitsaðili sem þessi lög gera ráð fyrir. Afskiptaleysi þess var svo himinhrópandi að það er ekki hægt að láta sér detta annað í hug en afskiptaleysið hafi verið meðvitað nema við gerum ráð fyrir því að þar hafi farið fram skipulögð hálfvitavæðing hvað varðar starfsmannaval.

Í þessu samhengi þykir mér ástæða til að benda á ræðu sem forstjóri Fjármálaeftirlitsins, Jónas Fr. Jónsson, hélt á fundi hjá Félagi um fjárfestatengsl sem haldinn var 15. janúar 2008. Þar ræddi Jónas um afkomu og helstu áhættuþætti í starfsemi fjármálafyrirtækja og sagði m.a. þetta:

„Eiginfjárhlutföll bankanna eru sterk og þau geta staðið af sér veruleg áföll. Flestir þættir útlánaáhættu eru ágætlega dreifðir og markaðsáhættu er mætt með hærra eiginfjárhlutfalli og virkri stýringu. Veðköll og tryggingaþekja bankanna vegna hlutabréfalána sýna að verkferlar þeirra eru virkir og þeir hafa almennt gætt þess að taka tryggingar vegna slíkra lána.“ (Sjá hér)

Er nema eðlilegt að maður spyrji sig hvers vegna þessi maður var ráðinn í Fjármálaeftirlitið?! og á hvaða forsendum hann var gerður að forstjóra þess?? Mér þætti líka eðlilegt að sá sem ber ábyrgð á ráðningu hans og frama innan eftirlitsins svari fyrir hana og útskýri hverra hagmuna hann ætlaði Jónasi var að verja.

Til enn frekari áréttingar á þeirri ábyrgð sem Fjármálaeftirlitið ber á núverandi stöðu í íslensku efnahagslífi ætla ég að enda þetta á tilvitnun í Rannsóknarskýrsluna um valdheimildir þess.

Fjármálaeftirlitið getur gripið til víðtækra valdheimilda í tengslum [við] framkvæmd eftirlits með stórum áhættum. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 87/1998 er eftirlitsskyldum aðilum skylt að veita Fjármálaeftirlitinu aðgang að „öllu bókhaldi sínu, fundargerðum, skjölum og öðrum gögnum í vörslu þeirrar er varða starfsemina sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegan.“ Samkvæmt sama ákvæði getur Fjármálaeftirlitið gert vettvangskannanir eða óskað upplýsinga „á þann hátt og svo oft sem það telur þörf á.“

[...]

Sérstaklega er tekið fram í síðastnefndu ákvæði að lagaákvæði um þagnarskyldu takmarki ekki skyldur til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum. Samkvæmt þessu er ljóst að Fjármálaeftirlitið getur kallað eftir þeim upplýsingum um nauðsynlegar eru til að meta hvort farið hafi verið eftir reglum um stórar áhættur. (2. bd. bls. 120 (leturbreytingar eru mínar)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband