Færsluflokkur: Vefurinn

Aðeins þakklæti

Frá bankahruninu síðastliðið haust hef ég leitað athvarfs í blogginu. Ég hef fengið útrás hér í tvennum skilningi. Ég hef fengið útrás fyrir alls kyns neikvæðar tilfinningar sem hafa leitað á hugann vegna þess sem mig grunar að hafi leitt þjóð mína inn í þann kolsvarta veruleika sem við erum nú stödd í. Ég hef líka fengið útrás fyrir skoðanir mínar og vangaveltur um það sem er að gerast úti í samfélaginu og þannig hlíft þeim sem ég umgengst. Fæstir þeirra hafa nefnilega nokkurn áhuga á því að ræða um það sem heyrir undir pólitík.

Bloggið mitt hefur dugað mér vel til þessarar útrásar og verið ein af leiðum mínum til geðræktar líka. Það hefur reyndar virkað mun betur til þess en mig grunaði í upphafi. Þar skipta bloggararnir sem ég hef kynnst í gegnum þessi skrif mestu máli. Ég hef eignast ótrúlega marga góða vini hérna sem halda mér upplýstri, gefa mér hvatningu, ljós, kraft, kjark og síðast en ekki síst hugmyndir.

Kannski var það einhver þeirra sem benti Jóni Karli Stefánssyni á skrif mín. Ég veit það ekki. Hann hafði samband á dögunum og útkoman út úr því er að núna hefur hann birt eina af þeim greinum sem ég hef birt hérna á blogginu. Þá sem ég er stoltust af. Þessa um baráttu góðs og ills. Það voru skrif tveggja bloggvina minna sem áttu einkum þátt í að blása mér henni í brjóst. Þeirra er beggja getið í greininni.

Skrif mín eru að sjálfsögðu samspil margra þátta en þáttur bloggvina minna er stór. Þess vegna brýt ég oddinn af ótta mínum við að vera væmin og þakka ykkar þátt í að fylla mig þeim eldmóði og kjarki sem liggur að baki mörgum bloggpistla minna. Án ykkar hefði þessi vettvangur heldur aldrei orðið mér það sem hann hefur orðið í reynd.

Mig langar til að þakka öllum þeim, sem hafa hvatt mig áfram til að skrifa á þessum vettvangi, alveg sérstaklega fyrir þeirra þátt.
Þakklæti


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband