Færsluflokkur: Menntun og skóli

Segið mér hver þeirra er sjálfstæðismaður...

... og ég skal segja ykkur hver fær stöðuna. Það er e.t.v. ljótt að fullyrða svona en það hefur vakið athygli skólamanna að á undanförnum virðist flokkshollusta ráða meiru en færni þegar kemur að skipun skólameistara. Því er staðan orðin þannig að í langflestum framhaldsskólum landsins eru skólameistarar þeirra yfirlýstir Sjálfstæðismenn.

Í sjálfu sér ætti það ekki að skipta máli hvaða flokk viðkomandi skólameistari kýs en það má kannski spyrja sig hvaða skilaboð þetta vinnulag við mannaráðningar sendir til ungs fólks. Hitt er alvarlegra að þetta skiptir miklu máli í því sem snýr að kjaramálum þar sem kjör kennara eru nú að nokkru háð stofnanasamningum. 

Kennarar hafa ekki aðeins staðið frammi fyrir því að menntamálaráðherra reyni að fjarstýra skólastjórnendum hvað varðar kjör þeirra, sem skólastjórnendur hafa yfir að segja, heldur hefur Þorgerður Katrín unnið að því leynt og ljóst að rjúfa þá einingu sem hefur ríkt fram að þessu á milli kennara og stjórnenda. Það er mál margra að núorðið sé það eins víst að skólastjórnendur standi gegn kennarahópnum og með skipunum Menntamálaráðuneytisins hversu fagmannlegar eða heillavænlegar þær kunna að vera.

Miðað við þetta veðja ég á að það verði sá umsækjendi sem er yfirlýstur Sjálfstæðismaður sem fær skólameistarastöðuna við Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Nema þeir vilji losna við Lilju Mósesdóttur úr bænumWoundering

><>      ><>      ><>      ><>      ><>      ><>    ><>      ><>      ><>      ><>  

Es: Ég hef áður skrifað um framhaldsskólann. Bæði hér og hér. Báðar greinar fjalla fyrst og fremst um nýju framhaldsskólalögin sem vel að merkja stendur til að innleiða þrátt fyrir þann kostnað sem innleiðing þeirra mun óhjákvæmilega skapa.!


mbl.is Tíu sóttu um stöðu skólameistara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einræði í menntamálum er líka óþolandi

Þorgerður Katrín GunnarsdóttirFréttin sem ég tengi þessari færslu er frá sl. fimmtudegi (4. nóv). Þar segir Þorgerður Katrín að henni finnist „óþolandi að líða fyrir tortryggnina  í samfélaginu.“ Þessi orð lét hún falla í tilefni af því að fréttamaður mbl.is spurði hana út í afskriftir skulda nokkurra lykilstarfsmanna Kaupþings vegna hlutabréfakaupa í bankanum. Eins og alþjóð veit var Kristján Arason, eiginmaður Þorgerðar, einn af framkvæmdastjórum hans.

Þorgerður Katrín sagði í þessu viðtali að það hefði verið mjög mismunandi hvernig staðið var að málum varðandi hlutabréfakaup í Kaupþingi. „Engar skuldir hafi verið felldar niður hjá eiginmanni hennar. Þau hafi komið sínum sparnaði til áratuga fyrir í öðru félagi fyrir löngu síðan.“

Mig langar til að vitna til orða Gríms Atlasonar sem hann birtir á blogginu sínu um þann gjörning: „Ráðfrú var með allan sinn sparnað, sem að mestu samanstóð af bankabréfum, í einkahlutafélagi. Eiginmaður hennar ráðlagði viðskiptavinum bankans að halda í bréf sín í bankanum fram á síðasta dag. Sjálfur færði hann allt í einkahlutafélag auk þess sem persónulegar ábyrgðir toppanna í bankanum vegna lána voru felldar niður. Ráðfrúin eiginkona hans sat á sama tíma á ríkisstjórn þar sem m.a. var ákveðið að bjarga þessum banka frekar en öðrum.“

Af framansögðu ætti að vera ljóst að sú tortryggni sem menntamálaráðherra segir ólíðandi á fullkomlega rétt hjá sér. Hún talar reyndar um að „það verði allt að koma upp á borðið“ í þessu sambandi. Ég reikna með að hún eigi við að það eitt muni duga til að eyða meintri tortryggni. Ég tek fullkomlega undir það með henni og vona að hún eigi við að hún ætli að stuðla að því.

Það sem mér finnst hins vegar merkilegt í þessu samhengi er að í reynd hefur hún sýnt allri kennarastéttinni umtalsverða tortryggni og ekki bara tortryggni heldur yfirgang líka. Hún neitaði að hlusta, vinna með og taka tillit til ábendinga frá samtökum kennara og keyrði svo nýju fræðslulögin í gegn á síðasta vorþingi. Nú ætti alþjóð að vera orðið nokkuð ljóst hvernig afgreiðslu frumvarpa til laga er háttað þar þannig að ég ætla ekki að fara ítarlegar út í það ferli allt saman.

Hins vegar vil ég taka það fram að mér sem framhaldsskólakennara finnst ólíðandi að búa við tortryggni menntamálaráðherra gagnvart kennarastéttinni og skólastarfi í landinu almennt. Mig langar líka til að vekja sérstaka athygli á því sem margir þeirra sem hafa mælt með nýju framhaldsskólalögunum hafa tuggið á. En það er „frelsið“ sem skólarnir eiga að fá í kjölfar þeirra. Það eru margar ástæður fyrir því að ég tel að þetta meinta frjálsræði fáist engan veginn staðist. Því til rökstuðnings ætla ég að láta nægja að benda á að menntamálaráðherra ákvað strax að binda starf framhaldsskólanna með 23 reglugerðum. Nú hef ég það eftir áreiðanlegum heimildum að þeim hafi fjölgað í 37.

Ég er auðvitað tortryggin og finnst ég hafa fulla ástæðu til þess. Tortryggni mín hefur minnst með það að gera að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Kristján Arason eru hjón. Hún stafar nefnilega fyrst og síðast af framgöngu Þorgerðar Katrínar í starfi hennar sem ráðherra menntamála í landinu. Mér finnst ég líka hafa fulla ástæðu til að tortryggja menntamálaráðherra sem útilokar meginþorra kennara frá mikilvægri þróunarvinnu og breytingum sem varða þeirra sérfræðisvið. Að ekki sé talað um að Kennarsambandið hefur lítil sem engin svör fengið við mörgum grundvallarspurningum er varða framkvæmd nýju laganna.

Það hlýtur að teljast eðlileg tortryggni í ljósi þess að ég veit að ráðuneytið hefur skipað a.m.k. fimm „leyninefndir“ til að sníða ramma utan um framhaldsskólann um leið og það útilokar hagsmunasamtök kennara frá þeirri vinnu og neitar þeim um sjálfsagðar upplýsingar. Það má vel fylgja hérna með að þeir sem vinna í þessum nefndum er uppálagt af formönnum nefndanna, sem menntamálaráðherra hefur skipað, að þeir upplýsi ekki utanaðkomandi aðila um það sem fram fer á fundum þeirra.

Ég hef væntanlega fært rök fyrir því að það er alls ekki allt upp á borðinu í sambandi við framkvæmd nýju framhaldsskólalaganna og raunar langur vegur frá því. Ég leyfi mér þess vegna að efast um að gögn um fjármál þeirra hjóna rati upp á borðið nema með dómsúrskurði. Og talandi um fjármál þá langar mig til að vekja athygli á nokkrum mikilvægum atriðum til viðbótar sem mér finnst afar mikilvægar í ljósi núverandi aðstæðna í samfélaginu.

Það hlýtur að liggja í augum uppi að innleiðing nýrra laga sem á við allt skólakerfið kostar peninga. Lögin innihalda að mörgu leyti framsæknar og byltingarkenndar hugmyndir í sambandi við öll skólastigin þrjú; leik-, grunn- og framhaldsskóla. En það gefur auga leið að það er ekki hægt að hrinda þeim í framkvæmd nema með ærnum tilkostnaði. Ég hef t.d. heyrt talað um áætlun upp á 220 milljónir í sambandi við innleiðingu laganna í tengslum við framhaldsskólann en vil taka það fram að af mínu mati er sú kostnaðaráætlun of lág. Ég hef góðar ástæður til að halda að það vanti einhverja mikilvæga þætti inn í þennan útreikning.

Þrátt fyrir þær efnahagshörmungar sem hafa riðið yfir íslenskt samfélag hefur enginn vikið einu orði að þeim kostnaði sem hlýtur að fylgja þeim nefndarstörfum sem nú fara fram í Menntamálaráðuneytinu í sambandi við nýju fræðslulögin annars vegar og þeim kostnaði sem hlýtur að fylgja innleiðingu þeirra hins vegar. Það hefur heldur engin tilkynning borist út í skólana varðandi framkvæmd laganna til Kennarasamtakanna eða út í skólana eftir efnahagshrunið. Hins vegar hélt Þorgerður Katrín fund í Menntaskóla Akureyrar sl. miðvikudagskvöld (5. nóv) þar sem hún ræddi aðallega um samræmingu skólastiganna þriggja sem er ein hugmynd þessar nýju laga. Ég mætti ekki á þennan fund. Verð að játa það að ég hafði bara ekki list á þvíPinch

Ég hef reyndar þær fréttir af fundinum að þar kom ekkert nýtt fram. Svör við margendurteknum spurningum sem einstakar greinar laganna hafa kveikt þeim, sem til þeirra þekkja, voru ekki á borðinu. Þar var ekki minnst einu orði á annað en það að þessi lög voru samþykkt sl. vor og að það ætti að vinna að þeim eftir fyrri áætlunum. Það eina nýja sem kom fram er að reglugerðirnar sem verða settar framhaldsskólanum fyrir utan lögin verða 37 en ekki 23. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu reglugerðarfargani og ekki að ástæðulausu. Áhyggjurnar stafa ekki síst af leyndinni sem ríkir í kringum vinnuna við þær og þögninni í sambandi við innihald þeirra. Mér finnst fullkomlega eðlilegt að þetta allt veki mér tortryggni og kvíða.

Mér finnst fullkomlega eðlilegt að spyrja: Hvers vegna er innleiðingu nýrra fræðslulaga er ekki frestað í ljósi núverandi efnahagsástands í samfélaginu? Það er ljóst að þessi nýju lög hafa valdið kennurum óvissu um langa hríð og það er fullt útlit fyrir að þau muni halda því áfram. Innleiðing þeirra mun ekki síður valda foreldrum og börnum óvissu en að mínu mati er síst á hana bætandi. Að síðustu er ljóst að kostnaður af innleiðingu laganna verður umtalsverður fyrir ríkið og þar af leiðandi skattgreiðendur. Það eitt og sér ætti auðvitað að vera fullnægjandi krafa um frestun innleiðingar laganna.

Sá kostnaður og sú óvissa sem framkvæmd nýju fræðslulaganna hefur í för með sér ættu að liggja í augum uppi. Þess vegna skil ég ekki af hverju innleiðingunni er ekki frestað í þeim tilgangi að stuðla að sparnaði í ríkisrekstrinum og vinna að því að draga heldur úr óvissu og kvíða en bæta við hvoru tveggja. Mér finnst rökin sem mæla með frestuninni blasa svo við að ég skil ekki hvernig menntamálaráðherra getur lokað augunum fyrir þeim. Ég skil þess vegna ekki í öðru en að henni gangi eitthvað það til með því að knýja innleiðingu þeirra til framkvæmda sem hún ætlar sér ekki að leggja upp á borðið. Þess vegna er ég tortryggin í garð menntamálaráðherra. Ég held reyndar að öll þjóðin hafi fulla ástæðu til að trotryggja hann líka.

><>      ><>      ><>      ><>      ><>      ><>    ><>      ><>      ><>      ><>        

 Hér eru krækjur í lög um leikskóla, - grunnskóla og - framhaldskóla ásamt lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda á skólastigunum þremur.

Ég vek sérstaka athygli á því hve orðalagið „ráðherra setur í reglugerð ákvæði“ er algengt í lögunum um framhaldsskólann.

Ég hef áður bloggað um þá undarlegu þögn sem ríkir um nýju fræðslulögin hér.


mbl.is Óþolandi að líða fyrir tortryggni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mér finnst það svo skrýtið...

Síðasliðið vor voru samþykkt ný lög um framhaldsskólann. Það hefur verið ótrúlega lítil umræða um þessi nýju lög í fjölmiðlum og úti í samfélaginu yfirleitt. Það ber að taka það fram að það var ekki aðeins gerð breyting á lögunum sem varða framhaldsskólann heldur öll skólastigin. Það vekur mér furðu hvað lítið hefur verið fjallað um þær breytingar sem þessi nýju lög hafa í för með sér.

Það eru eflaust á þessu nokkrar skýringar en engin góð. Sú sorglegasta er sú að það virðist enginn vita neitt. Það er reyndar ekki skrýtið því þeir (eða sá/sú) sem sköpuðu þau virðast ekki alveg gera sér grein fyrir innihaldinu eða umgjörðinni sjálfir. Það versta við þetta er að í meginatriðum er þetta alveg satt!

Ég get ekki fullyrt hvort að þeir fulltrúar sem menntamálaráðherra hefur sent út í framhaldsskólana fram að þessu, til að upplýsa kennara þeirra fyrst um frumvarpið og núna lögin, hafi ekki mátt segja, eða hafi ekki vitað, allt. Það hlýtur þó að teljast furðuleg vinnubrögð að senda tengiliði eða fulltrúa inn í skólana sem geta ekki svarað eðlilegum spurningum kennara um breytingarnar sem lögin munu hafa í för með sér á vinnuumhverfi þeirra og nemenda skólans.

Ef þau í Menntamálaráðuneytinu geta eða vilja ekki svarað þeim spurningum, sem brenna á kennurum og hagsmunasamtökum þeirra, varðandi nýju lögin þá er hæpið að þeir svari öðrum. Það er samt skrýtið að fjölmiðlar skuli ekki fjalla einmitt um það. Þögnina og/eða leynimakkið í kring um nýju menntalögin að hálfu ráðuneytisins. Ég myndi halda að það hvernig menntun er háttað í landinu varði alla þjóðina. Ekki bara kennara... Það er þess vegna skrýtið að almenningur í landinu uni þessari þögn og um leið óvissu um það hvenig menntun barna og unglinga á Íslandi verður háttað í framtíðinni.

Mér finnst það t.d. mjög athyglisvert að Alþingi hefur afsalað sér völdunum sem það hafði í þessum efnum til Menntamálaráðuneytisins. Mér finnst líka mjög athyglisvert að á sama tíma og fulltrúar ráðuneytisins reyna að setja nýju lögin um framhaldsskólann í glanspappír fyrir okkur hin með stöfunum: „skólarnir munu öðlast svo mikið frjálsræði“ þá sitja starfsmenn ráðuneytisins sveittir við að setja saman 23 reglugerðir til að ramma inn lögin...

pappírsfjalliðJá mér finnst það virkilega skrýtið að fréttamenn og fjölmiðlarnir yfirleitt skuli hlífa menntamálaráðherra og öðrum starfsmönnum ráðuneytisins við að skýra það út fyrir þjóðinni hvað þeir eru að búa til? Til hvers? Fyrir hverja? Hvers vegna? Hvað þetta kostar? Hvað muni ávinnast? Hverju var hent út? Hvað tekið upp í staðinn? Hvaða faglegu forsendur liggi að baki? Með hvaða menntunarfræðingum og -ráðgjöfum þetta var unnið? o.s.frv. o.s.frv.

Ég hélt fyrst að tilgangurinn með nýju lögunum væri sá að spara en mér sýnist að nú þegar sé búinn að fara þvílíkur peningur í þetta hringl ráðuneytisins með framhaldsskólann að ég skil ekki að það skuli ekki vera búið að loka á frekara bruðl í sambandi við hann a.m.k. Í lok síðustu aldar var eytt ótrúlega litlum tíma en miklum peningum til að búa til nýja námsskrá fyrir framhaldsskólastigið. Þegar hún kom út í upphafi þessarar aldar kom í ljós að innihald hennar var nokkurn vegin það sama og þeirrar á undan. Það var þó búið að hræra þannig til í innihaldi áfanganna að gömlu kennslubækurnar voru langflestar úreltar. Þess vegna þurfti að eyða meiri pening í að búa til nýjar þannig að þær pössuðu við þá sem urðu til út úr tilfærslu- og sambræðsluverkefninu... 

Nánast um leið og bókakassarnir með nýju námsskránni voru farnir af stað út í skólana var byrjað að undirbúa miklu stærra og kostnaðarsamara verkefni. Nú skyldi stokka allt íslenska menntakerfið upp. Nýju menntalögin eru útkoman og auðvitað varð „nýja“ námsskráin fyrir framhaldsskólann, sem hefur ekki einu sinni náð 10 ára aldri, úrelt um leið og þessi lög tóku gildi. Í raun veit enginn hvernig nýja námskráin á að vera. Fyrst þarf að fást botn í það hvar gólfið á að vera og hvar þakið samkvæmt nýju framhaldsskólalögunum. Á meðan það er ekki ljóst er tæpast hægt að fara að smíða veggina... Síðustu fregnir herma þó að reglugerðarfarganið verði tilbúið upp úr næstu áramótum.

Eins og allir geta ímyndað sér þá er ákaflega þægilegt að vinna við þessar aðstæður eða hitt þá heldur. Kennarar eru líka flestir alveg gáttaðir. Nemendur sennilega margir hverjir líka ef þeir eru þá almennilega meðvitaðir um það hvað er að gerast. Það eru þó nokkrir í hópi kennara sem prísa sig sæla yfir því að þeir eru að komast á eftirlaunaaldur. Senilega eru líka margir í núverandi nemendahópi framhaldsskólanna sem finnst að nýju lögin komi þeim ekki við þar sem þeir útskrifast samkvæmt gamla kerfinu. Einhverjir eru líka í losti eins og ég.

Þeir eru reyndar þó nokkrir sem reyna að halda í þá trú að í nýju lögunum felist miklar úrbætur. En það er staðreynd að heildarmyndina hefur enginn nema kannski menntamálaráðherra. Er það ekki skrýtið í ljósi þess að lögin hafa þegar tekið gildi!?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband