Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013

Að þurrka út stjórnmálaflokk

SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar birti ársreikninga sína fyrir árið 2012 í upphafi þessa mánaðar á heimasíðu flokksins. Í frétt sem sett var saman á síðunni af þessu tilefni segir:

Á árinu 2012 voru heildartekjur (með fjármagnstekjum) SAMSTÖÐU  kr. 814.489  og heildarkostnaður kr. 425.269. Þegar landsfundur SAMSTÖÐU ákvað að draga fyrirhugað framboð flokksins til baka átti flokkurinn því kr. 389.220 inni á bankabók.  (sjá hér)

Umræddur landsfundur var haldinn 9. febrúar á þessu ári en þá mældist fylgi flokksins innan við eitt prósent. Þess er þó rétt að geta að strax í apríl/maí í fyrra bárust forráðamönnum flokksins orðrómur um að nafn SAMSTÖÐU væri ekki á lista Gallups yfir valkosti þeirra flokka sem kjósendur gætu hugsað sér að styðja í alþingiskosningunum sem nú eru nýafstaðnar.

Gallup þurrkaði SAMSTÖÐU út fyrir rúmu ári 

Þetta fékkst hins vegar ekki staðfest fyrr en í nóvember á síðasta ári þegar einn félagsmanna SAMSTÖÐU kom því til leiðar að hægt var að taka mynd af þeim valmöguleikum sem voru fyrir hendi.

SAMSTAÐA tekin út af lista Capacent

Birgir Örn Guðjónsson, sem var formaður flokksins á þessum tíma, gerði tilraun til knýja fram siðferðisleg viðbrögð af hálfu forráðamanna Callups en fékk aðeins loðin svör (sjá hér). Fréttir sem voru birtar á heimasíðu flokksins þar sem segir af þessari framkomu fyrirtækisins vöktu reyndar nokkra athygli (sjá hér og hér) í umræðum manna á millum en engin opinber umræða varð um málið.

Það hafði líka komið í ljós að þessi aðferð Callups að taka SAMSTÖÐU út af listanum svínvirkaði. Þegar nafn flokksins var tekið út mældist fylgi hans í kringum 10% en fór hratt niður á við og var svo komið undir síðastliðið haust að Lilja Mósesdóttir ákvað að axla ábyrgð á fylgistapinu með því að gefa ekki kost á sér til formanns eða stjórnarkjörs á landsfundi sem þá var fyrirhugaður. Allt kom fyrir ekki og í desember á síðasta ári voru horfurnar orðnar slíkar að hún ákvað að draga fyrirhugað framboð sitt til baka.

Fjölmiðlar tóku þátt

Fjölmiðlar lögðu líka sitt á vogarskálarnar í viðleitninni við að þurrka út SAMSTÖÐU og koma þannig í veg fyrir að af framboði Lilju Mósesdóttur gæti orðið. Sú sem þetta skrifar benti á þetta í bréfi sem var skrifað fyrir hönd stjórnar og framkvæmdaráðs SAMSTÖÐU og sent á fjölmiðla um miðjan desember í fyrra (sjá hér). Þar segir m.a:

Nú þegar líður að næstu alþingiskosningum hafa ný framboð fengið aukið rými í öllum stærri fjölmiðlum landsins með viðtölum við forystuaðila og aðra fulltrúa þessara flokka. Öll nema SAMSTAÐA. Þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir við bæði dagskrárgerðarmenn og þáttastjórnendur einkum hjá RÚV hefur fulltrúum flokksins ekki verið gefinn kostur á að koma sjónarmiðum og stefnu flokksins á framfæri í þeim málaflokkum sem hafa verið til umræðu hverju sinni.

Eins undarleg og það hljómar þá voru viðbrögðin við því að ofantalið var opinberað sáralitlar meðal þeirrar grasrótar sem hafði fram að þessu kennt sig við „baráttu fyrir réttlæti“. Hins vegar kepptust margir þeirra einstaklinga sem höfðu fyllt þennan hóp við að hrófla upp stjórnmálaflokkum í kjölfar þess að SAMSTAÐA var stofnuð 15. janúar í fyrra.

Offramboðið hafði sín áhrif

Það voru reyndar aðeins: Björt framtíð, Dögun og Píratar sem höfðu náð að opinbera stofnun sína fyrir landsfund SAMSTÖÐU sem haldinn var þann 9. febrúar á þessu ári. Á þeim fundi var sú  ákvörðun var tekin um það að draga framboð flokksins til baka af ástæðum sem mættu liggja ljósar fyrir af ofantöldu.

Eftir landfundinn var stofnun eftirtaldra flokka opinberuð: Alþýðufylkingin, Flokkur heimilanna, K-listi Sturlu Jónssonar, Landsbyggðarflokkurinn, Lýðræðisvaktin og Regnboginn. Það var því ekki ofmælt sem sú sem þetta skrifar setti fram í bloggpistli sem birtur var á þessum vettvangi um miðjan desember á síðasta ár. Þar segir m.a. þetta:

Þeir eru nokkrir sem vilja halda því fram að þeir berjist fyrir sömu málum og Lilja Mósesdóttir hefur barist fyrir inni á þingi allt þetta kjörtímabil en í stað þess að þeir styðji hana í verki þá ganga þeir til liðs við aðra flokka, stofna sína eigin eða eyða tímanum í að finna flöt á því hvernig þeir fái hana til sín eða sölsa bara blátt áfram hugmyndir hennar undir sig. (sjá hér)

Einhverjir nýttu tækifærið

Að undanförnu hefur hugmyndum Lilju Mósesdóttur um leiðir til lausnar efnahagsvanda samfélagsins verið haldið nokkuð á lofti í tilefni þess að nýskipuð ríkisstjórn hefur heitið því að vinna að leiðréttingum á skuldastöðu heimilanna. Þess ber hins vegar að geta að í þeirri umræðu sem hafin er nú í kjölfar nýafstaðinna kosninga eru hugmyndirnar eignaðar öllum öðrum en henni og ber þar mest á Hægri grænum.

Í því sambandi má minna á að það var ekki fyrr en í kjölfar þess að SAMSTAÐA birti stefnuskrá sína í byrjun febrúar á síðasta ári sem Hægri grænir opinberuðu sína stefnuskrá á heimasíðu sinni sem var opnuð síðastliðið vor (sjá hér). Þeirri sem þetta skrifar finnst engum blöðum um það að fletta að þar hefur sú efnahagsstefna sem Lilja Mósesdóttir er höfundurinn að verið kóperuð  nánast óbreytt. Þeir sem hafa fylgst gleggst með síðu Hægri grænna hafa líka eflaust tekið eftir því að efnahagsstefna Hægri grænna hefur tekið nokkrum breytingum frá því að hún var birt þar fyrst.

Það er rétt að taka það fram að eftir því sem fleira kom fram frá SAMSTÖÐU um stefnuna í efnahagsmálum þá bættu Hægri grænir því sem þeim leist best inn í sína. Dögun var líka iðin við að taka það sem þeim fannst líklegast til fylgisaukningar inn í sína stefnuskrá. Þetta gilti reyndar um fleiri stjórnmálaflokka en allir áttu það sameiginlegt að finna hugmyndunum helst önnur heiti sem er útlit fyrir að einhverjir sjái nú tilgang í að viðhalda frekar en tengja þær þeirri sem aðlagaði þær að núverandi aðstæðum í íslensku efnahagsumhverfi.

Allir flokkar vildu atkvæðin

Annað stig útþurrkunarinnar

Það þarf vart að minna lesendur á að Lilja Mósesdóttir er sérfræðingur í efnahagsáföllum og að allt síðastliðið kjörtímabil lagði hún sig fram um að vara við óskynsamlegum ráðstöfunum í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þannig lagði hún sig fram um að vara við Icesave-samningunum og ráðgjöf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Barátta hennar í Icesave hlaut liðstyrk miklu fleiri þó ekki ríkisstjórnarinnar sem hundsaði öll hennar ráð og lausnarmiðaðar hugmyndir varðandi skulda- og snjóhengjuvandann.

1. febrúar á þessu ári lagði Lilja Mósesdóttir fram þingsályktunartillögu þar sem hún dró saman hugmyndir sínar til lausnar hvorutveggju. Í þingsályktunartillögunni gerði hún nákvæma grein fyrir því hvaðan hugmyndirnar eru komnar, hvað hún hefur lagt til þeirra ásamt því að útskýra framkvæmd þeirra og verkan (sjá hér). Lyklafrumvarpið endurflutti hún líka í upphafi síðasta þings (sjá hér). Þess má geta að Sjálfstæðisflokkurinn tók það upp í breyttri mynd og kallar lyklalög.

Það er svo útlit fyrir að einstaklingar sem mætti kenna við þríburaframboðið, og þá einkum Dögun og Lýðræðisvaktina, ásamt Hægri grænum ætli að freista þess að gera það sem þeir tóku upp eitthvað aðlagað og gerðu að sínu í kosningabaráttunni endanlega að sínu undir nýjum nöfnum. Það er a.m.k. ekki annað að sjá af því sem Gunnar Tómasson o.fl. hafa látið frá sér fara í athugasemdum hinna ýmsu vefmiðla undanfarna tvo mánuði:

Skiptigengisleiðin skv. GT

Eins og lesendur sjá þá merkir Gunnar Tómasson sig Lýðræðisvaktinni en hinir, sem taka undir með honum varðandi það að leiðin sem hingað til hefur verið kennd við Nýkrónu eða skiptigengisleið sé nákvæmlega sú sama og Vestur-Þjóðverjar fóru, tengdust framboði Dögunar á einn eða annan hátt eins og reyndar Gunnar gerði sjálfur framan af (sjá vettvanginn þaðan sem myndin er tekin hér).

Það er líka eftirtektarvert að í stað þess að vekja athygli á margendurteknum viðvörunum Lilju Mósesdóttur við því sem Gunnar Tómasson talar um sem „aðsteðjandi vá“ nefnir hann Tryggva Þór Herbertsson sem sú sem þetta skrifar rekur ekki minni til að hafi lagt fram neina lausn á efnahagsvandanum né þess að hann hafi verið eitthvað áberandi í því að vara við því sem núverandi staða í efnahagsmálum gæti leitt af sér.

Bloggvettvangur Lilju Mósesdóttur ætti að vera prýðilegur vettvangur til að rifja upp innihaldið í viðvörunum hennar við afleiðingum efnahagsstefnu fyrrverandi ríkisstjórnar (sjá hér). Það má vera að Gunnar Tómasson geti vísað í einhvern slíkan vettvang þar sem Tryggvi Þór hefur sett fram efni sem réttlætir það að hann sé helst nefndur þegar talað er um sterkar viðvörunarraddir varðandi þá efnahagsstefnu sem hefur verið ríkjandi innanlands.

Skiptigengisleið Lilju Mósesdóttur

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni sem Lilja lagði fram á Alþingi í byrjun febrúar á þessu ári segir:

Flutningsmaður ályktunarinnar lagði fyrst til í mars 2011 að tekin yrði upp nýkróna með mismunandi skiptigengi til að leysa gjaldmiðilskreppuna. Sú tillaga kom í framhaldi af umræðu Friðriks Jónssonar, ráðgjafa hjá Alþjóðabankanum, um slíka lausn í lok árs 2010. Upptaka nýkrónu með mismunandi skiptigengi mun ekki brjóta í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar þar sem einstaklingar fá ekki mismunandi meðhöndlun heldur eignir (sbr. aflandskrónurnar sem bannað er að flytja úr landi nema með leyfi Seðlabanka).

Kosturinn við upptöku nýkrónu er að með mismunandi skiptigengi er hægt að laga bæði innra ójafnvægi (skuldavandann) og ytra ójafnvægi (snjóhengjuna) hagkerfisins án þess að skerða lífskjör. Við upptöku nýkrónunnar yrði launum, húsaleigu og innstæðum skipt úr krónu (ISK) yfir í nýkrónu (NISK) á genginu 1 ISK= 1 NISK þannig að verðmæti þeirra yrði óbreytt.

Aflandskrónurnar og innlendar eignir þrotabúanna sem eru um 1200 milljarðar væri hægt að skipta úr krónu yfir í nýkrónu á genginu 1 ISK = 0,6 NISK. Verðmæti snjóhengjunnar færi þannig úr 1200 milljörðum kr. í 720 milljarða nýkróna. Mismunurinn er 480 milljarðar og hann gæfi ríkinu svigrúm til að fjármagna afskriftir á lánum lítilla og meðalstórra fyrirtækja og laga þannig innra jafnvægið í leiðinni. (sjá hér)

 Áframhaldandi útþurrkunarviðleitni

Gunnar Tómasson hefur haldið því sem hann nefnir hugmyndir Hægri grænna mjög á lofti að undanförnu og m.a. gert tilraun til að vekja athygli Össurar Skarphéðinssonar á hugmyndum þeirra:

Gunnar Tómasson mælir með hugmyndum Hægri grænna

Leiðréttingarsjóðurinn sem Gunnar Tómasson vísar til hefur m.a. verið nefnd TARP-leiðin og er svo að skilja að Ólafur Arnarson hafi líka mælt með þessari leið. Þetta kemur fram í bloggi Gunnars frá 10. maí sl. en þar endurbirtir hann skrif Ólafs frá sama degi (sjá hér). Jóhannes Björn gerir eftirfarandi athugasemd við bloggfærsluna:

Jóhannes Björn bendir á misskilning

Peningamillifærsluleið Lilju Mósesdóttur

Það er útlit fyrir að það sem um ræðir hér að ofan sé einhvers konar útfærsla á peningamillifærsluleiðinni. Um hana segir í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni sem Lilja Mósesdóttir lagði fram um lausn á skulda- og snjóhengjuvandanum:

Flutningsmaður þessarar ályktunar hefur lagt til að farin verði leið hagfræðingsins Steve Keen, eins og Ólafur Margeirsson hagfræðingur hefur útfært hana, við að leiðrétta ójafnvægið á efnahagsreikningum heimilanna af völdum forsendubrests. Meginkostir peningamillifærsluleiðarinnar eru að leiðrétting forsendubrestsins hefur ekki áhrif á stöðu lífeyrissjóðanna, eignarrétt kröfuhafa og skuldatryggingaálag ríkissjóðs.

Íslenska útfærslan á leiðinni, sem kalla má peningamillifærsluleiðina, tekur mið af því að innlán voru tryggð að fullu og gengistryggð lán dæmd ólögleg. Peningamillifærslan rennur því aðeins til heimila með verðtryggð lán. Hér er aðeins verið að taka á skuldavanda heimilanna en ekki skuldavanda fyrirtækjanna og snjóhengjuvandanum.

[...]

Fyrsta skrefið í peningamillifærsluleiðinni felst í því að Seðlabankinn gefur út skuldabréf að upphæð t.d. 200 milljarðar kr. sem hann síðan lánar eignarhaldsfélagi sínu. Ástæða þess að Seðlabankinn er látinn gefa út skuldabréfið en ekki ríkið er að aukin skuldsetning þess fyrrnefnda hefur ekki áhrif á skuldatryggingaálag ríkissjóðs (sbr. „ástarbréfin“ sem fóru inn í eignarhaldsfélagið Sölvhól sem er í eigu Seðlabankans).

Í framhaldinu leggur eignarhaldsfélagið 200 milljarðana inn á innlánsreikning heimila með verðtryggð lán sem verða að nota greiðsluna strax til að borga niður höfuðstól verðtryggðra lána. Upphæðin sem hver og einn fær miðast við 20% leiðréttingu á skuld viðkomandi einstaklings. Eignarstaða heimilanna batnar því um 200 milljarða og vaxtabyrði þeirra af fasteignalánum minnkar.

Lánastofnunum verður síðan gert að leggja niðurgreiðsluna frá heimilunum inn á venjulegan innlánsreikning hjá Seðlabankanum. Seðlabankinn skuldar nú lánastofnunum 200 milljarða en á eign á móti hjá eignarhaldsfélagi sínu. Ríkið gæti lagt eigið fé inn í eignarhaldsfélagið og fjármagnað það með skatti á aflandskrónur og útgreiðslur úr þrotabúum gömlu bankanna til að gera eignarhaldsfélaginu kleift að greiða Seðlabankanum lánið til baka. Þannig er í engu hreyft við eignarrétti lánastofnana á útlánasafni sínu eins og raunin væri ef lánastofnanir væru þvingaðar til að afskrifa útlánasöfn sín um samtals 200 milljarða.

Vaxtatekjur lánastofnana, þ.m.t. Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna verða lægri eftir leiðréttinguna þar sem inneignin í Seðlabankanum er á lægri vöxtum en ef upphæðin hefði verið notuð til útlána. Á móti kemur að niðurfærslan gerir fleiri lántakendum kleift að standa í skilum af lánum sem þeir tóku hjá lífeyrissjóðunum og Íbúðalánasjóði og eykur almennt greiðsluvilja þeirra sem tóku verðtryggð lán.

Einn mikilvægasti kosturinn við peningamillifærsluleiðina er að engin verðbólga verður af völdum þessarar 200 milljarða skuldabréfaútgáfu Seðlabankans þar sem peningarnir fara í hring og enda aftur sem bundin innstæða hjá Seðlabankanum. Mikilvægt er að koma í veg fyrir að lánastofnanir auki ekki útlán í kjölfar niðurfærslunnar í þeirri von að Seðlabankinn lagi aftur skuldastöðu heimilanna þegar í óefni er komið (freistnivandi). Verðbólga mun hins vegar aukast eitthvað til skamms tíma vegna aukins kaupmáttar heimila. (sjá hér)

Peningamillifærsluleiðin er skýrð á myndinni hér fyrir neðan með svokölluðum T-reikningum. Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna 20% leiðréttingar verðtryggðra fasteignaskulda muni nema tæpum 200 milljörðum. Hvaðan þeir koma og hver kostnaðurinn af því verður er skýrt hér að neðan.


 Tilgangurinn

Þeir sem tóku þátt í því að þurrka út möguleika SAMSTÖÐU flokk lýðræðis og velferðar til framboðs, og um leið möguleika kjósenda til að velja Lilju Mósesdóttur inn á þing, verða að svara fyrir það sjálfir hver tilgangur þeirra hafi verið. Þeir sem halda enn uppteknum hætti og láta nú eins og verk Lilju Mósesdóttur á síðasta þingi séu dauð og ómerk ættu e.t.v. enn frekar að svara fyrir það hvað þeim gengur til.

Auðvitað er hægt að leiða að því einhverjar líkur hver tilgangurinn var með því að vinna fyrst gegn framboði SAMSTÖÐU og svo að freista þess að breiða hulinshjálm gleymskunnar yfir lausnarmiðaðar hugmyndir sérfræðingsins í efnahagsáföllum sem sat á síðasta þingi. Þess verður hins vegar ekki freistað hér heldur látið nægja að draga fram helstu stiklur varðandi aðferðina með fáum en væntanlega skýrum dæmum.

Það er rétt að árétta að hér er á engan hátt rakið allt það sem mætti nefna í ofangreindu sambandi heldur dregin fram nokkur dæmi sem sum hafa verið sett fram áður en þó ekki í því samhengi sem hér er gert. Tilgangur höfundar er lítilsháttar viðleitni til að svara spurningu sem fer ekki hátt en heyrist.

Spurningunni um það hvers vegna SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar dró fyrirhugað framboð sitt til baka. Ákvörðun sem ég reikna þó með að mörgum reynsluboltanum í pólitík megi vera fullljós að var sú skynsamlegasta í stöðunni. Ástæðurnar liggja þó væntanlega skýrastar fyrir þeim sem lögðu því ríkulegast lið að framboðið hlyti ekki þann framgang sem mátti ætla af upphafinu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband