Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Við þurfum að skapa skilyrði fyrir bjarta framtíð

Eins og einhverjir vita var haldinn borgarafundur í Deiglunni á Akureyri sl. fimmtudagskvöld (þ.e. 30. okt.). Þeir sem þekkja til þar vita að Deiglan rúmar ekki marga í sæti enda hef ég grun um að skipuleggjendur þessa fundar hafi ekki búist við neitt sérstaklega mörgum. Veit reyndar ekki hvernig þessi fundur var auglýstur en ég rakst sjálf á auglýsingu inni á Facebook.

Reyndin varð sú að það var setið í flestum sætum. Tveir frummælendur voru á fundinum en það kom í ljós að það voru fleiri með undirbúna ræðu sem þeir vildu miðla fundargestum. Þegar upp var staðið höfðu rúmlega tíu tekið til máls. Það er greinilegt að flestir þeirra sem tóku til máls vilja horfa til framtíðar og byggja upp betra og réttlátara samfélag. 

Ég get auðvitað tekið undir það en ég bað um orðið til að koma eftirfarandi á framfæri. Ég ætla að taka það fram að þetta er ekki orðrétt það sem ég sagði á fundinum. Þar talaði ég bara eins og andinn blés mér í brjóst á þeirri stundu. Efnislega er það sem er skáletrað þó það sama en aðlagað að öðrum aðstæðum:

Sjálfsmynd mín sem Íslendings hefur orðið fyrir alvarlegu áfalli vegna þess sem hefur dunið á þjóðinni að undanförnu. Ég er reyndar viss um að það eru margir í sömu sporum og ég hvað það varðar. Framkoma stjórnvalda gagnvart íslensku þjóðinni í kjölfar nýliðinna atburða veldur því að sjálfsvirðing mín heldur áfram að molna niður.

Það er hollt og gott að horfa til framtíðarinnar og gera það upp við sig hvernig maður vill að hún verði. Það er líka gott að hafa hugmyndir um það hvernig á að fara að því að byggja upp til að framtíðin verði björt. Til að skapa þau skilyrði að það birti yfir framtíðinni tel ég hins vegar nauðsynlegt að byrja á því að koma sitjandi ríkisstjórn og óreiðumönnum á hennar vegum frá. Mér líst ekki á að bíða fram að næstu kosningum. Það verður bara til þess að það bættist enn frekar ofan á óreiðuna.

Ef þjóðin væri barn í umsjá foreldra sem kæmi fram við það eins og stjórnvöld gagnvart þjóðinni núna myndu barnaverndaryfirvöld vera kölluð til. Foreldrarnir eru óreiðufólk sem er ekki fært um að skapa barninu skilyrði til að þroskast eðlilega og beita barnið andlegu ofbeldi. Þess vegna yrðu þeir dæmdir óhæfir og barnið tekið af þeim. En hvert getur þjóðin leitað?

Við verðum að standa vörð um okkur sjálf og að mínu viti gerum við það með því að dæma núverandi ríkistjórn óhæfa til að fara með forræði íslensku þjóðarinnar. Hvernig komum við þessum skilaboðum áleiðis? Ég ætla að leggja fram nokkrar tillögur sem ég lagði fram á fundinum, bæta við einni sem kom utan úr sal og nefna eina enn sem mér var að detta í hug.

Ég stakk upp á fjöldamótmælum í Reykjavík sem landsbyggðin myndi taka þátt í líka og/eða borgarafundi sem sendi frá sér ályktun til ríkistjórnarinnar eða umboðsmanns Alþingis þar sem þessari kröfu væri komið á framfæri. Einn fundarmanna benti á undirskriftarlistann kjósa.is sem er inni á Netinu. Þar segir:

Við undirrituð viljum kjósa til Alþingis

Kjósendur á Íslandi telja ekki fært að hefja uppbyggingarstarf eftir bankahrunið nema með endurskoðuðu umboði stjórnvalda.

Í lýðræðisþjóðfélagi er það aðeins hægt með kosningum til Alþingis og myndun ríkisstjórnar byggða á þeim meirihluta sem þá nær saman eða þjóðstjórn fái enginn flokkur skýrt umboð kjósenda.

 
Í þessum skrifuðu orðum eru þeir 2905 sem eru búnir að skrifa undir þennan lista. Vonandi er ástæðan fyrir því að þeir eru ekki fleiri sú að hann vantar kynningu þannig að ég skora á alla að vekja athygli á honum. Það sem mér var svo að detta í hug er að mótmælafundir og borgarafundir myndu beina þeirri áskorun til  forsetans að hann leysti upp þingið þannig að hægt væri að boða til nýrra kosninga.

Þetta eru aðeins hugmyndir sem ég set hérna fram. Mér finnst staðan í samfélaginu ískyggileg. Það eru margir sem segja að við berum öll ábyrgð eins og það sé réttlæting þess að fámenn auðmannaklíka setti landið á hausinn í skjóli núverandi stjórnvalda. Þó einhverjir hafi fengið peningaglýju í augun og tekið lán til að lifa um efni fram réttlætir það ekki að stórglæpamennirnir komist upp með að láta íslenskum almenningi það eftir að borga upp hryðjuverkin sem þeir hafa unnið íslensku efnahagslífi.

Ég fyllist skelfingu við að fylgjast með forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Ég fyllist skelfingu við að heyra þá tala um að einkavæða bankanna aftur. Ég fyllist skelfingu við að heyra þá tala um að setja nú allt á fullt í byggingu fleiri álvera. Síðast en ekki síst þá kikna ég undan virðingarleysi stjórnarforustunnar og forystumanns Seðlabankans fyrir mér og þjóðarsystkinum mínum.

Ég vil að við mótmælum öll!!! Ef við viljum endurheimta virðingu okkar sem þjóð og fá að bera okkur með reisn inn í bjartari framtíð þá þarf núverandi ríkisstjórn, stjórn Seðlabankans og þeir sem stýra Fjármálaeftirlitinu að víkja. Ástæðan er einföld. Þessir brugðust Íslandi og þjóðinni allri. Þeir hafa sýnt það og sannað að þeir valda ekki þeim trúnaðarstörfum sem við sem þjóð trúðum og treystum þeim fyrir.  


Borgarafundur í Deiglunni á Akureyri í kvöld

BREYTTIR TÍMAR

Borgarafundur í Deiglunni á Akureyri

fimmtudaginn 30. október kl 20.00

nyirtimar_713935.pngHöldum borgarafund. Metum stöðuna, leitum svara og vinnum að lausnum.
Oft var þörf – nú er nauðsyn. Allir hvattir til að mæta og móta nýjan veruleika um betri framtíð.

Ávarp:
Georg Hollanders
Helgi Þórsson

Almennar umræður

Hittumst og sýnum að við höfum rödd, sýnum að við stöndum saman, sýnum hvert öðru samhyggð og finnum að við erum ekki ein!

Hefjumst handa við að byggja upp samfélag þar sem mannauður er í fyrirrúmi, samfélag sem byggist á samkennd og allir eiga hlutdeild að.

Fundurinn er haldinn í samstarfi við Gilfélagið.


Það er ekki að spyrja að hrokanum!

Ég hvet alla til að horfa á myndbandið sem fylgir þessari frétt þó það verði sennilega fáum til gleði. Það sem mig langar til að vekja sérstaka athygli á er að undir lok þessa viðtals (þegar komið er rétt rúmar 3 mín. inn í það) þá er Davíð Oddsson spurður út í afstöðu hans til mótmælaaðgerða almennings sl. helgar þar sem afsagnar hans hefur m.a. verið krafist.

Svör hans, sérstaklega síðasta svarið, finnst mér sýna svo vel hvaða taktík hann hefur viðhaft gagnvart fréttamönnum og um leið almenningi alla sína stjórnartíð. Þetta er því miður framkoma sem langflest flokksystkini hans hafa tekið á einn eða annan hátt upp eftir honum. Þessi framkoma er auðvitað á engan hátt í lagi!!! 


mbl.is Efast ekki um sjálfstæði bankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið finnst mér það gott

Mér þykir gott að sjá hvað margir mættu á borgarfundinn sem haldinn var í Iðnó í gærkvöldi. Það er reyndar dapurlegt að einhverjir sem ætluðu sér að vera viðstaddir þurftu frá að hverfa. Þar sem ég komst ekki á þennan fund af landfræðilegum ástæðum þá þarf ég að treysta á fréttir.

Enn og aftur veldur orðalag þeirra sem fjalla um aðgerðir almennings á undanförnum dögum mér vangaveltum. Í fréttinni á mbl.is er talað um að fundargestir hafi gert „hróp og köll að [...] alþingismönnum, sem voru mættir“. Í framhaldi er það dregið fram að alþingismennirnir hafi verið beðnir að koma til að svara spurningum fundargesta.

Ég veit ekki hvort blaðamaðurinn sem skrifar þessa frétt áttar sig ekki á því að þessi framsetning dregur óneitanlega upp mjög neikvæða mynd af fundargestum. Það bendir allt til þess að þeir séu skríll sem kann sig ekki. Af öðrum heimildum er þó ljóst að þetta á alls ekki við um gestina sem mættu á þennan fund. Árni Gunnarsson er einn þeirra sem mættu á fundinn og gerir athugasemd við þessa frétt á blogginu sínu. Ég treysti því sem hann segir um þetta mál miklu betur en því sem segir í fréttinni á mbl.is og vona að honum sé sama þó ég vísi á leiðréttingar hans í þessu sambandi.

Fréttin af þessum fundi á visir.is er líka miklu ítarlegri og vandaðri en sú á mbl.is. Þó þar sé líka talað um að hiti hafi verið í fundargestum og þeir hafi púað „á alþingismenn þegar þeir hugðust taka til máls“ þá er ljóst af öðru sem kemur fram í fréttinni á visir.is að þarna hefur verið samankominn siðmenntaður og góður hópur. Þar er líka hægt að gera sér ágæta grein fyrir því sem frummælendur fundarins höfðu til málanna að leggja. Hvað stemminguna á fundinum varðar þá treysti ég því sem María Kristjánsdóttir segir um hana og tek undir það með henni að „maður fyllist von um að einhverju verði hægt að breyta fyrst almenningur er farinn að taka lýðræðið í sínar hendur“ eins og þeir sem skipulögðu þennan borgarafund.

Þeir eru hetjur og eiga hrós og þakkir skildar. Það var viðtal við einn skipuleggjandanna í Kastljósi í gærkvöldi. Ég veit að það er ljótt að vera alltaf að setja út á en ég hnaut sérstaklega um tvær spurningar spyrilis í viðtalinu við Davíð A. Stefánsson sem er einn skipuleggjendanna. Það virkaði a.m.k. mjög hjákátlega í mínum eyrum þegar Davíð var spurður: Af hverju honum fyndist vera þörf fyrir svona fund? og hvort honum finnist að almenningur hafi orðið út undan í umræðunni?

Það sem gladdi mig hins vegar var að það kom fram í þessu viðtali að það stæði jafnvel til að setja upptökur af einhverju af því sem þarna fór fram inn á youtube.com. Ég lifi í voninni um að ég fái að heyra og sjá flutning Lilju Mósesdóttur og Vilhjálms Bjarnasonar en mér skilst að innlegg þeirra beggja hafi verið afar áhugaverð og vönduð. Það sem er haft eftir Einari Má inni á visir.is er líka frábært! Þar segir:

Þá líkti Einar ríkisstjórninni við persónur úr bók sinni Englum alheimsins sem fóru á Hótel Sögu og fengu sér að borða án þess að greiða reikninginn. Einar sagði að ríkisstjórnin væri ábyrgðarlaus líkt og persónurnar í bókinni. Munurinn væri aftur á móti sá að samfélagið hefði tekið af þeim ábyrgðina en ríkisstjórnin hefði verið kosin til að taka ábyrgð.

Þjóðin getur ekki beðið eins og Breiðavíkurdrengir eftir hvítbók, að mati Einars sem kallaði jafnframt eftir ábyrgð greiningardeilda bankanna sem hefðu verið á launum við ljúga.

Mér finnst þetta einstaklega vel til fundnar samlíkingar!!

Es: Að lokum er hér slóð inn á myndband sem er tekið af bloggi Péturs Tyrfingssonar. Hér segir Richard Wolff, sem er amerískur hagfræðiprófessor, með hvaða aðferðum eigi að ráða niðurlögum þeirrar kreppu sem gengur yfir efnahagslíf Vesturveldanna núna. Pétur segir á blogginu sínu: „Karlinn talar í 40 mínútur en það er þess virði að hlusta á hvað hann hefur að segja.“ Við sem erum búin að hlusta á hann erum sammála því og þess vegna ætla ég að taka þátt í því að vekja athygli á þessu myndbandi.


mbl.is Húsfyllir í Iðnó - hiti í fundargestum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er enn verið að reyna að gera lítið úr rödd þjóðarinnar?

Nokkur fjöldi er sagður hafa tekið þátt í aðgerðunum „Rjúfum þögn ráðamanna“ í Reykjavík. Myndin sem fylgir þeirri frétt finnst mér hins vegar benda til að að þeir hafi verið töluvert fleirri en nokkrir! Það er ekkert minnst á það hvort eitthvað hafi orðið úr aðgerðum fyrir vestan.

Hins vegar er drepið á  að það hafi verið gengið bæði á Seyðisfirði og Akureyri. Ég tók þátt í göngunni á Akureyri. Þeir voru reyndar ekki margir sem tókust á við veðrið hér fyrir norðan til að styðja kröfuna um að ráðamenn upplýsi þjóðina um gang mála. Ég myndi samt giska á að þegar flest var hafi þeir verið yfir eitt hundrað. Eftir því sem leið á tæplega klukkustundar dagskrá gáfust þó nokkrir upp fyrir kulda og úrkomu.

Á meðan á göngunni og dagskránni stóð grétu himnarnir frostblautum tárum yfir þátttakendur eins og sést vel á myndinni sem fylgir hérna með. Þó nokkrir tóku til máls og einhverjir fluttu frumsamin ljóð eða ljóð frá fyrri tíma sem eiga allt eins við í dag og þegar þau voru ort. Mér fannst ræða Gísla og Hlyns standa upp úr ræðuhöldum dagsins og langar til að þakka þeim fyrir sitt framlag. Þeir voru frábærir báðir! Ég dáist reyndar að Sigrúnu fyrir að koma fram fyrir hönd bæjarstjórnar Akureyrar þó ég hafi ekki verið sátt við innihald ræðunnar hennar. Þeir sem sitja með henni í stjórn bæjarins hefðu gjarnan mátt fylgja fordæmi hennar og sýna íbúum Akureyrar þann samhug sem mér fannst hún sýna með þátttöku sinni.

Hins vegar fannst mér framlag Þórarins Hjartar. á margan hátt standa upp úr. Ekki síst fyrir þá staðreynd að meðan hann kirjaði ættjarðarsöngva sem voru fjarskalega vel valdir þá lék hann undir berhentur á kassagítar. Hann lét svo sannarlega ekki óblíðar aðstæður aftra sér frá því að fylla okkur eldmóði og kjarki með einstaklega hvetjandi flutningi.

Megi þeir sem undirbjuggu dagskrána á Akureyri í dag hafa þökk fyrir framtakið og ég vona að þessu verði framhaldið. Miðað við fréttina sem ég tengdi þessari færslu stendur til að ganga næstu þrjá laugardaga í Reykjavík. Ég held að það sé full ástæða til að halda þessu áfram víðar á landinu. Vonand verða Akureyringar og nærsveitarmenn meðal þeirra sem treysta ekki bara á þátttökuna í Reykjavík til að vekja stjórnvöld upp að andvaraleysinu gagnvart rödd þjóðarinnar heldur undirbúa og taka þátt í aðgerðum til þess sjálfir.

Es: Það er athyglisvert að gera samanburð á umfjöllun íslenskra og erlendra fjölmiðla á mótmælunum í Reykjavík nýliðinn laugardag (18. okt). Í því sambandi bendi ég t.d. á frétt mbl.is, sem þessi færsla er tengd við, og þessa umfjöllun á hinu norska Aftenposten. 


mbl.is Þögn ráðamanna mótmælt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erum við kannski gíslar grimmra útrásarvíkinga?

 Ég er svo heppin að ég er búin að finna fréttaveituna eða fjölmiðilinn sem ég treysti til að halda mér upplýstri á þessum síðustu... Miðillinn sem ég er að tala um er bloggið hennar Láru Hönnu Einarsdóttur. Hún er reyndar svo dugleg að ég hef ekki haft undan að setja mig inn í allt sem hún hefur birt í þessari viku. Auk hefðbundinna skrifa er hún nefnilega mjög dugleg að safna saman áhugaverðu efni úr innlendum og erlendum fjölmiðlum.

Það var þess vegna ekki fyrr en núna í kvöld sem ég fann mér tíma til að lesa og skoða almennilega færslu hennar frá 21. okt. sl. sem hún nefnir “Þjóð í gíslingu“. Þarna eru tveir Kompásþættir sem eru mjög, mjög upplýsandi og viðtal Sjónvarpsins við Robert Aliber sem er eins konar punktur yfir i-ið. Eftir þetta allt saman verð ég bara að segja að ég furða mig alltaf meir og meir á þeim sem tala um einelti og öfga okkar sem krefjast uppstokkunar í stjórn Seðlabankans. Hún er reyndar nauðsynleg miklu víðar en mér sýnist að hún verði að byrja þar.  

Mér finnst þetta reyndar svo alvarlegt mál að sjálfsvirðing mín sem Íslendings mun bíða óbætanlegan hnekki ef enginn þarf að sæta ábyrgð fyrir það að hafa skapað 30 klíkubræðrum/-systkinum kjöraðstæður til að arðræna landið. Þetta lið eru sannkallaðir víkingar en þetta eru engar hetjur. Ég hélt reyndar að mannskepnan hefði þroskast frá tíma víkingaaldarinnar hinnar fyrri.

 Eins og við vitum var á þeim tíma til hópur/-ar ófyrirleitinna einstaklinga sem þótti það sjálfsagt aðDrápsvíkingur ráðast inn í þorp og betri býli í þeim eina tilgangi að koma sér upp auði. Þeir hirtu einfaldlega allt fémætt en ruddu öllum úr vegi með bitvopnum sínum sem hindruðu þá fyrirætlan. Sumir þessara settust einmitt að hér á landi. Þeir notuðu hinn illa fengna auð til að koma undir sig fótunum í  þessum nýju heimkynnum.

Munurinn á þeim og afkomendum þeirra er að forfeðurnirnir voru á flótta undan stjórnvöldum í sínu fyrra heimalandi.  Arftakar þeirra, útrásarvíkingarnir svokölluðu, virðast hins vegar vera í klíku með stjórnarherrunum. Það er m.a.s. útlit fyrir að þeir séu algerlega með þá í vasanum. Í skjóli þessarar „nánu“ vináttu hafa þeir sölsað undir sig þjóðarkökuna, hertekið ríkiskassann og hafa komið honum um borð í einhverja einkaþotuna. Áfangastaðurinn er sólrík skattaparadís í fagurbláu hafi...

Þetta síðasta er að sjálfsögðu skáldlegar ýkjur en þó byggt á því sem komið hefur fram síðustu daga. Það er reyndar synd að segja að maður hafi það á tilfinningunni að það hafi allt komið fram. Það dapurlegasta í þessu öllu saman er að það er útlit fyrir að íslensk stjórnvöld hafi annaðhvort látið útrásarvíkingana teyma sig algerlega á asnaeyrunum eða að þeir hafi verið með þvílíka glýju í augunum yfir þessari sveit að þeir hafi látið hagsmuni hennar ganga fyrir hagsmunum heillar þjóðar. Er nema von þó Aliber kalli íslenska stjórnarherra fífl í viðtalinu sem ég vísaði til hérna í upphafi!!


Rjúfum þögn ráðamanna og göngum til lýðræðis

nyirtimar.pngÞað hafa margir lagst á eitt við að undirbúa göngu þjóðarinnar til lýðræðis nú um helgina. Núna verða það ekki bara íbúar höfuðborgarsvæðisins og nágrennis sem fá tækifæri til að taka þátt heldur Norðlendingar, Vestfirðingar og sennilega Austfirðingar líka.

Hugmyndin er að fólk safnist saman í Reykjavík, á Akureyri, Ísafirði og Seyðisfirði á saman tíma sem er laugardagurinn (25. okt) kl. 16:00. Ég hef ekki upplýsingar um það hvar á að safnast saman á Ísafirði né Seyðisfirði eða hvert verður gengið en mér hefur skilist að þar sé líka verið að skipuleggja kyndilgöngu eins og þá sem á að fara fram á Akureyri og í Reykjavík. 

Í Reykjavík á að hittast á Austurvelli kl. 16:00 n.k. laukardag og ganga að ráðherrabústaðnum. Sjá nánar hér en á Akureyri á að hittast við Samkomuhúsið (sem er hús Leikfélags Akureyrar) á sama tíma og ganga að Ráðhústorgi.

Orðsending þeirra sem standa að þessum aðgerðum eru eftirfarandi: „Rjúfum þögn ráðamanna og göngum til lýðræðis. Við skulum hittast og sýna fram á að við höfum rödd, sýna hvert öðru samhyggð, sýna að við stöndum saman og finna að við erum ekki ein - við finnum til. Krafan er einföld og þverpólitísk, rjúfum þögn ráðamanna!

Það er líka greinilegt af upptalningu þeirra sem eiga að taka til máls á Austurvelli að það eru margir sem finna sig knúna til að láta í sér heyra og freista þess að ráðamenn þjóðarinnar taki mark á kröfum okkar: „Meðal þeirra sem taka munu til máls á Austurvelli eru Þorvaldur Gylfason, Jón Baldvin Hannibalsson, Þráinn Bertelsson, Ómar Ragnarsson, Páll Óskar Hjálmtýrsson, Jóhannes Gunnarsson, Óli Palli útvarpsmaður, rithöfundarnir Ólafur Gunnarsson, Einar Már Guðmundsson og Einar Kárason ásamt Eddu Björgvinsdóttur og Bryndísi Schram. Þá koma ungliðahreyfingar Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri - grænna að mótmælunum ásamt Stúdentaráði.“ (Tekið af visir.is)

Vona að þeir sem hafa verið að berjast við  kjánahroll gagnvart mótmælum hvers konar drífi sig í að þroskast upp úr slíkum barnaskap og komi og sláist í hópinn um helgina. Það þarf enginn að mæta með mótmælaspjald nema hann vilji en kyndlar eru mjög vel séðir.

Aðalatriðið er auðvitað að við sýnum samstöðu sem þjóð og minnum ráðamenn landsins á að við búum í lýðræðisríki. Kannski tekst þjóðinni líka að endurheimta sjálfsvirðingu sína í leiðinni. Því fleiri sem við verðum þeim mun líklegra er að okkur takist að vekja athygli á því að okkur stendur alls ekki á sama.


Auðvitað hefði ég viljað sjá fleiri en...

Frámótmælunum á AusturvelliÞeir sem mótmæltu fyrir framan Seðlabankann á föstudaginn fyrir rúmri viku voru 200. Í dag mættu helmingi fleiri og einu hundraði betur. Næst þegar blásið verður til mótmæla, sem verður vonandi ekki seinna en um næstu helgi, mæta svo tvisvar sinnum fimmhundruð og tveimur hundruðum fleiri. Nema að það verði þrisvar sinnum fleiri og þremur hundruðum betur. Kannski verða þeir fjórum sinnum fleiri og ...

Auðvitað vonaði ég og fleiri að þeir yrðu fjölmennari sem fyndu sig knúna til að láta óánægju sína í ljós með þátttöku í mótmælunum í dag. Hins vegar er eins og mörgum finnist mótmæli af öllu tagi vera eitthvað sem er fyrir neðan sína virðingu. En mig langar til að minna á að á meðan þjóðin lætur ekki í sér heyra er eðlilegt að draga þá ályktun að við séum með því að leggja blessun okkar yfir aðgerðir stjórnar Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar að undanförnu. Aðgerðir sem rúðu okkur ekki bara efnahagslegu sjálfstæði heldur virðingunni sem þjóð í leiðinni!

Við verðum að hætta að haga okkur eins og Bjartur í Sumarhúsum sem gat aldrei fundið samhljóm sinna skoðana með neinum örðum. Hann var svo upptekinn af sínum sérhagsmunum að hann gat aldrei fundið samleið með meðbræðrum sínum heldur var í stöðugri baráttu við allt og alla. Þess vegna áttaði hann sig aldrei á því hverjir áttu sömu hagsmuna að gæta og hann sjálfur og hverjir voru hinir raunverulegu óvinir hans sem unnu gegn því að hann kæmist af. Þessi afstaða hans varð svo stærsti þátturinn í falli hans og niðurlægingu í lokin.

Við megum ekki láta það sama henda okkur sem einstaklinga eða þjóð! Virkjum vandlætinguna og sýnum hug okkar í verki. Lýðræðið snýst ekki eingöngu um að krossa við bókstaf þeirra sem við treystum best að taka þátt í stjórnarsamstarfinu næstu fjögur árin. Virkt lýðræði snýst nefnilega líka um að veita stjórnvöldum aðhald með því að sýna hug okkar í verki. Hvaða vettvangur er betur til þess fallinn en mótmæli af því tagi sem hafa verið skipulögð að undanförnu?

Ég vona að þeir dugmiklu einstaklingar sem stóðu að baki þeim láti ekki hugfallast heldur haldi áfram. Ég vona líka að þeir sem eru ekki sáttir við það hvernig hefur verið haldið á málum þjóðarinnar að undanförnu, af hendi stjórnarherranna, ákveði að slást í hóp mótmælenda næst. Það skiptir ekki máli þó okkur greini á í einhverjum smáatriðum því nú eru það alltof stór aðalatriði sem hafa forgang.

Látum ráðamenn þjóðarinnar vita að okkur stendur ekki á sama. Ég trúi því nefnilega að við getum öll verið sammála um að þeim hefur orðið á alvarleg mistök. Að mínu viti er það mikilvægt að þeim skilaboðum verði komið á framfæri þannig að mark verði á tekið. Það má líka benda á það að lokum að með því að safnast mörg saman og mótmæla þeim aðstæðum sem ráðamenn þjóðarinnar hafa leitt yfir íslensku þjóðina og krefjast þess að þeir sem mestu ábyrgðina bera verði látnir sæta ábyrgð gjörða sinna, eins og í nágrannalöndum okkar, þá endurheimti íslenskur almenningur sjálfsvirðingu sína á ný.

Es: Ég vil bæta því við að Helgi Jóhann Hauksson var svo vinsamlegur að benda á að það væri hreinlega ekki rétt farið með tölur um þann fjölda sem safnaðist saman á Austurvelli í fréttinni sem ég tengdi þessari færstlu. Hann sendi mér slóð inn á bloggið sitt þar sem hann er með myndir sem sýna allt aðrar staðreyndir um mannfjöldann en mbl.is. Ég vona að hann hafi ekki á móti því að ég veki athygli á myndunum hans hér.

 

 


mbl.is Mótmæla Davíð Oddssyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótmæli á Austurvelli laugardaginn 18. okt.

Langar til að vekja athygli á þessu: http://www.nyirtimar.com/

Ég var að fá eftirfarandi orðsendingu senda: ,,Við mótmælum öll – Hittumst á Austurvelli á laugardag kl. 15. Vertu þáttakandi, ekki þolandi. Hvetjið alla sem ykkur eru nærri til að mæta líka. Við fáum kannski bara þetta eina tækifæri. (Dagskrá verður kynnt á morgun föstudag)."

Slóðin hér að ofan leiðir inn á nánari upplýsingar um það hverjir standa fyrir þessum mótmælum o.fl. sem vert er að vita viðvíkjandi þau.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband