Ég treysti honum ekki!

Ég veit að hver og einn hefur mismunandi sýn á hlutina. Miðað við mína forgangsröðun þá hef ég svimandi áhyggjur! Ég hef áhyggjur af afkomu bænda, ég hef áhyggjur af sjávarútveginum, orkubúskapnum, lýðræðinu, sjálfstæðinu og í stuttu máli framtíð okkar allra sem íslenskumælandi þjóðar sem býr yfir ómetanlegum menningararfi, landsgæðum og framtíðarmöguleikum.

Það getur vel verið að ég hafi of miklar áhyggjur. Það getur m.a.s. verið að áhyggjur mínar séu að einhverju leyti ástæðulausar. Ef sú reynist raunin þá er það svo sannarlega hið besta mál. Hins vegar ef ég lít aftur til fortíðarinnar, og þó ekki væri nema til nýliðinna áratuga, þá tel ég áhyggjur mínar óskaplega eðlilegar svo ekki sé meira sagt. Hér ætla ég að líta langt fyrir skammt og rifja upp ræðu Einar þveræings til undirstrikunar áhyggjum mínum og hverjar eru ástæður þess að ég er í raun miður mín fyrir hönd okkar allra.

Ég treysti því að allir þekki tilefni þess að Einar frá Þverá í Eyjafirði, best þekktur í sögunni undir nanfinu Einar þveræingur, flutti eftirfarandi ræðu. Ég treysti því líka að allir þekki hvaða afleiðingar það hafði fyrir þjóðina að flýja út úr Sturlungaöldinni á náðir noregskonungs. Ég treysti því að allir þekki ártalið sem Gamli sáttmáli var undirritaður, hvaða afleiðingar samkomulagsatriði hans hafði á lífsafkomu landans - þó sumar ættir lifðu vissulega góðu lífi og mökuðu krókinn allan þann hörmungatíma - og síðast en ekki síst vona ég að allir þekki hve löngu seinna þjóðinni tókst að rísa upp úr öskustónni og öðlast ákvörðunarrétt yfir eigin málefnum!

Einar þveræingur mælti fram þessa ræðu á alþingi Íslendinga, sem í þá daga var haldið á Þingvöllum, eftir að hann var inntur álits á boði Ólafs noregskonungs um að verða drottnari lands og lýðs en fá Grímsey í staðinn. Mér finnst vel við hæfi að rifja upp varnaðarorð hans á þessum degi! (Ég bendi á að leturbreytingar í textanum eru mínar)

Því er ég fáræðinn um þetta mál að engin hefir mig að kvatt. En ef ég skal segja mína ætlan þá hygg ég að sá myndi til vera hérlandsmönnum að ganga eigi undir skattgjafir við Ólaf konung og allar álögur hér, þvílíkar sem hann hefir við menn í Noregi. Og munum vér eigi það ófrelsi gera einum oss til handa heldur bæði oss og sonum vorum og allri ætt vorri þeirri er þetta land byggir og mun ánauð sú aldrei ganga eða hverfa af þessu landi. En þótt konungur sá sé góður maður, sem ég trúi vel að sé, þá mun það fara héðan frá sem hingað til þá er konungaskipti verða að þeir eru ójafnir, sumir góðir en sumir illir. En ef landsmenn vilja halda frelsi sínu því er þeir hafa haft síðan er land þetta byggðist þá mun sá til vera að ljá konungi einskis fangstaðar á, hvorki um landaeign hér né um það að gjalda héðan ákveðnar skuldir þær er til lýðskyldu megi metast. En hitt kalla ég vel fallið að menn sendi konungi vingjafir, þeir er það vilja, hauka eða hesta, tjöld eða segl eða aðra þá hluti, er sendilegir eru. Er því þá vel varið ef vinátta kemur í mót. En um Grímsey er það að ræða, ef þaðan er enginn hlutur fluttur sá er til matfanga er þá má þar fæða her manns. Og ef þar er útlendur her og fari þeir með langskipum þaðan þá ætla ég mörgum kotbændunum muni þykja verða þröngt fyrir dyrum. (Heimskringla í útgáfu Máls og menningar 1991: 406-407)

 


mbl.is Fagna ákvörðun Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég hef líka svimandi áhyggjur, sérstaklega vegna þess hvernig stjórnin ætlar að troða okkur inn í ESB hvort sem við viljum það eða ekki   Er ekki tímabært að losa sig við þessa sviksömu stjórn???? 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 17.7.2009 kl. 01:23

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Við erum systur í áhyggjum okkar! Kannski verðum við líka systur í baráttunni sem virðist vera óumflýjanleg

Rakel Sigurgeirsdóttir, 17.7.2009 kl. 01:46

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

  Ég er tilbúin hvenær sem er

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 17.7.2009 kl. 02:46

4 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Nú er mikilvægara en aldrei fyrr að allir fullveldissinnar vinni saman eins og hægt er.  Ég vil benda á Samtök Fullveldissinna sem mögulegan vettvang til þess.

Axel Þór Kolbeinsson, 17.7.2009 kl. 13:00

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það er a.m.k. ljóst að þú hefur svo sannarlega lagt nótt við dag, liggur mér við að segja, við að vinna að fullveldi landsins. Væri ekki nær að kynnast manninum sem stendur svo einarður á bak sannfæringu sinni sem þú gerir en ræða endalaust við menn gærdagsins í öllum þessum spjallþáttum sjónvarpsins

Rakel Sigurgeirsdóttir, 17.7.2009 kl. 13:16

6 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Ég hef ekkert á móti því að fólk kynnist mér, hvernig sem það fer að því.  Ég var í smá viðtali í síðdegisútvarpi rásar2 á þriðjudaginn, þar er ágætis byrjun í að heyra minn málflutning hið minnsta.

Axel Þór Kolbeinsson, 17.7.2009 kl. 13:23

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Við höfum hist á fundi hjá Kreppuvaktinni þannig að ég átti ekki bara við sjálfa mig. Ég var að benda á að mér finnst ástæða til þess á þessum tímum að þeir sem eru að berjast fyrir framtíð landsins séu kynntir frekar en að vera að hampa t.d. þeim sem settu okkur á hausinn eins og hefur verið gert í sumum af þessum spjallþáttum í sjónvarpinu. Þú ert einn þeirra sem mér finnst ástæða til að sé vakin rækileg athygli á en þau eru fleiri

Rakel Sigurgeirsdóttir, 17.7.2009 kl. 13:37

8 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Takk fyrir pistilinn Rakel. Já ég er sammála þér Axel hefur verið óþreitandi á vaktinni og stendur við sínar hugsjónir. Betra væri ef fleiri stæður við sitt.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 18.7.2009 kl. 09:27

9 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Stelpur og strákar, gefum framtíðinni tækifæri og skoðum alla möguleika með opnum huga. Þjóðin mun hafa síðasta orðið að lokum. Ég hef ekki myndað mér skoðun ennþá á þessari umsókn eða ESB af eða á. Eftir allt sem á undan er gengið finnst mér að komandi kynslóðir íslendinga eigi það skilið af okkur að við gefum framtíð þeirra tækifæri og eigum að hafa hagsmuni þeirra að leiðarljósi, ekki hvað okkur finnst í augnablikinu og heldur ekki láta reiðina og vonbrigðin stjórna því hvaða ákvörðun við munum taka í þessu máli.

En þetta er bara mín skoðun - eins og er.

Heyrumst og sjáumst.

 Ari

Arinbjörn Kúld, 18.7.2009 kl. 11:12

10 identicon

Óskapleg taugaveiklun er í gangi varðandi ESB.  Tómar fullyrðingar um allt það versta sem virðist eiga eftir að hellast yfir þjóðina ef við göngum í ESB (eða ekki).  Mikið minnir þessi umræða mig á EFTA-málin á sínum tíma, allt átti að fara á versta veg, nánast að hrynja.  Til dæmis átti sælgætisiðnaðurinn að þurrkast út, mér er sagt að hann "blómstri" í dag sem aldrei fyrr.  Hvar eru andstæðingar EFTA-aðildar í dag, nú vill varla nokkur maður kannast við neikvæða afstöðu sína til EFTA á sínum tíma enda yfirlýsingar margra um EFTA með ólíkindum og ekki ósvipaðar yfirlýsingum margra í dag um ESB.  Við höfum nú þegar undirgengist stærri hluta af ESB reglugerðum.  Hvernig væri nú að sjá fyrst hvað kemur út úr aðildarviðræðunum.  Kemur ekki þjóðin til með að taka ákvörðun út frá "væntanlegum aðildarsamningi".  Hvernig ætlar "stjórnin" að troða þjóðinni inní ESB eins og kemur fram hér ofar og er reyndar í takt við ótrúlegustu fullyrðingar sem maður hefur lesið síðustu árin varðandi ESB málin.  Sannleikurinn kemur til með að liggja í væntanlegum samningi, ekki því sem aðildarsinnar eða andstæðingar hér heima reyna að telja almenningi trú um.  Ég tek undir með Ara Kúld og sennilega eiga margir eftir að "gufa upp" með sína gagnrýni þegar aðildarsamningurinn liggur fyrir.  Er nokkuð skrítið þó staða þjóðfélagsins sé sú sem hún er í dag ef við ákveðum "alltaf fyrirfram" hvað okkur sé fyrir bestu án þess að skoða það sem í boði er.

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 19.7.2009 kl. 18:45

11 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég hef vissulega skoðanir á aðild að ESB. Miðað við þær forsendum sem ég hef kynnt mér finnst mér fleira mæla með því að við höldum okkur fyrir utan ESB. Sú skoðun byggir ekki síður á framtíð lands og þjóðar. Ég get engan vegin séð að það að hafa skoðanir sem mæla gegn því að við göngum inn í Evrópusambandi sé hræðsluáróður. Ég viðurkenni það þó fúslega að ég hef ekkert á móti því að þjóðin kjósi um aðild þegar samningur og vandleg kynning á honum liggur fyrir. Ég er hins vegar fullkomlega á móti að samingur um aðild verði gerði við núverandi aðstæður!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.7.2009 kl. 01:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband