Áframhaldandi borgarafundir á Akueyri

Hér á Akureyri hafa verið haldnir nokkrir borgarafundir í kjölfar hrunsins sl. haust. Þar hefur áherslan einkum legið á þeirri framtíð sem fólk vill byggja upp og stefna að. Helsti hvatamaður þessara funda er George Hollander. Nú í byrjun árs hefur hann blásið til nýrrar fundaherferðar með eftirfarandi orðum: „Byrjum nýja árið með því að hittast, ræða stöðuna og móta framkvæmdaáætlun fyrir næstu misseri.“

Þessi fyrsti borgarafundur ársins verður haldinn n.k. miðvikudagskvöld (7. janúar) í Rósenborg (gamla Barnaskólahúsinu hér á Akureyri) og hefst kl. 20:00. Það er gert ráð fyrir að honum ljúki um kl. 22:00. Það skal tekið fram að fundirnir eru haldnir í fundarsalnum á efstu hæð hússins.

George Hollander, sem hefur verið ötulasti skipuleggjandi borgarafundanna hérna fyrir norðan, segir m.a. í stuttu fréttabréfi sem fylgir tilkynningunni um fundinn: Fyrir áramót hefur fámennur kjarni staðið að því að skipuleggja starfsemi Byltingar fíflanna. Núna er tækifæri fyrir alla, sem hafa áhuga á að vera virkir á þeim vettvangi, að mæta á þennan fyrsta fund nýs árs og koma með tillögur um framhaldið. Eftirfarandi er svo haft beint eftir bréfinu hans:

Eigum við að hafa fleiri borgarafundi? (ef svo um hvað?) Á að stefna á fleiri vinnuhópa? Aðra en þann sem snýr að atvinnu- og handverksmenningu? Á að leita eftir samstarfi við Akureyrarakademíuna eða Háskólann á Akureyri um að setja á laggirnar umræðuhóp um nýja framtíð þar sem fræðimenn, sérfræðingar og leikmenn hittast reglulega og fara að vinna að lausnum og nýrri sýn?

Til að Bylting fíflanna geti þjónað hlutverki sínu verður félagið að vera málsvari og vettvangur fyrir virkan hóp af fólki en ekki átak örfárra áhugasamra einstaklinga. Ég hvet þess vegna alla til að taka þátt og mæta n.k. miðvikudag. Ef einhverjir áhugasamir komast ekki n.k. miðvikudagskvöld má líka senda mér tölvupóst á (netfangið stubbur@est.is) með tillögur sem fundurinn getur tekið fyrir.

Í lok bréfsins hvetur George Hollander svo alla til að láta boðin um þennan fund ganga áfram, sérstaklega til þeirra sem hafa áhuga á að vera „virkir í endurreisn samfélagsins“.

Í lokin langar mig líka til að vekja athygli  á því að ég hef frétt að fyrsti borgarafundur nýs árs í Reykjavík verði mánudagskvöldið 12. janúar kl. 20:00. Efni hans er Buiterskýrslan skv. því sem má lesa hér hjá Heiðu B. Heiðarsdóttur. Hvet ykkur til að lesa allan pistilinn hennar sem ég vísa á!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband