Til Evrópusambandsstýringar Íslands

Þetta átti að verða næstsíðasta færslan í skrifum um ráðuneyti síðustu og núverandi ríkisstjórnar. Í stað þess að staðið verði við þá fyrirætlan þá kemur hér sérstök færsla um embættisskipan og stjórnsýslulegar ákvarðanir á vegum Utanríkisráðuneytisins frá stofnun þess. Ástæðan er einfaldlega sú að miðað við núverandi stjórnmálaástand er það ekki aðeins forvitnilegt heldur gagnlegt að fara nokkuð ýtarlegar í sögu íslenskra utanríkismála en upphaflega stóð til.

Utanríkisráðuneytið var sett á fót í kringum hernámið 1940. Það er útlit fyrir að frá upphafi hafi það verið sjálfstæðara en önnur íslensk ráðuneyti sem sætir vissulega furðu þegar það er haft í huga hve margar ákvarðanir, sem hafa verið teknar á vegum æðstu embættismanna þess, hafa falið í sér „afsal og kvaðir bæði á landi og landhelgi“ og breytingar „á stjórnarhögum ríkisins“. Hér er vísað í 21. grein Stjórnarskrárinnar en þar segir:

Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til. (sjá hér)

Eins og glöggir lesendur taka væntanlega eftir gerir þessi grein íslensku Stjórnarskrárinnar ráð fyrir því að það sé forseti landsins sem geri „samninga við önnur ríki“. Við hernámið jók Hermann Jónasson, þáverandi forsætisráðherra, við embætti þáverandi félagsmálaráðherra, Stefán Jóh. Stefánsson, og skipaði hann utanríkisráðherra (sjá hér) auk þess sem lög voru sett um Utanríkisráðuneytið sem tóku gildi árið 1941 (sjá hér)

Vorið 1942 tók minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins við völdum með Ólaf Thors í forsætisráðuneytinu. Þessi stjórn sat í sjö mánuði en á þeim tíma var Ólafur Thors ekki aðeins forsætisráðherra heldur líka utanríkisráðherra auk þess að vera yfir landbúnaðar-, vega- og sjávarútvegsmálunum (sjá hér). Undir jól árið 1942 greip þáverandi forseti, Sveinn Björnsson, inn í það stjórnmálaástand sem upp var komið með því að skipa utanþingsstjórn (sjá hér).

Það er ekki fullkomlega útilokað að honum hafi reynst ákvörðunin um slíkt inngrip auðveldari í ljósi þess hvernig Alþingi hafði farið á svig við 21. grein Stjórnarskrárinnar og fært umboðið til „samninga við önnur ríki“ frá forsetaembættinu til nýs ráðherraembættis innan ríkisstjórnarinnar. Hins vegar breytti þetta ekki neinu hvað það varðar að samningsumboðið við önnur ríki er enn í höndum þess stjórnmálamanns sem hreppir utanríkisráðherraembættið þrátt fyrir að 21. grein Stjórnarskrárinnar um það hvers umboðið er hlýtur að teljast nokkuð skýr.

Fyrstu utanríkisráðherrarnir

Á árunum 1918 til ársins 1934 heyrðu utanríkismálin undir forsætisráðherra. Fyrsti Haraldur Guðmundsson ráðherrann sem ekki var forsætisráðherra en fór samt með utanríkismálin er alþýðuflokksþingmaðurinn Haraldur Guðmundsson en hans hefur verið getið nokkrum sinnum áður í þessu yfirliti. Hann var skipaður atvinnumálaráðherra í ráðuneyti Hermanns Jónassonar en fór auk þess með utanríkis-, heilbrigðis- og kennslumál. Haraldur var fyrsti ráðherrann sem var skipaður yfir heilbrigðismálin (sjá hér).

Eins og segir í þeim aðdraganda færslunnar um Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti sem nefnist: Til kvótastýrðs sjávarútvegs II þá var Haraldur skipaður ráðherra í fyrstu ríkisstjórninni sem Alþýðuflokkurinn átti aðild að. Forsætisráðherra hennar var Hermann Jónasson sem var þá nýr þingmaður Framsóknarflokksins. Fulltrúar þessarar ríkisstjórnar kölluðu hana Stjórn hinna vinnandi stétta

Þegar Hermann Jónasson setti gerðardóm á verkfall sjómanna í lok mars 1938 sagði Haraldur Guðmundsson af sér (sjá hér) og tók Hermann Jónsson við embættum hans þann hálfa mánuð sem eftir lifði af kjörtímabilinu (sjá hér).

Haraldur Guðmundsson tók gagnfræðapróf þegar hann var 19 ára. Næstu átján árin aflaði hann sér afar fjölbreyttrar starfsreynslu víðs vegar um land þar sem hann var m.a: gjaldkeri útibús Íslandsbanka á Ísafirði, blaðamaður og kaupfélagsstjóri í Reykjavík og loks útibússtjóri Útvegsbankans á Seyðisfirði fyrstu fjögur árin sín á þingi. Hann var kjörinn inn á þing árið 1927 þá 35 ára að aldri. Sjö árum eftir að hann var kosinn inn á þing gegndi hann sínu eina ráðherraembætti á tuttugu og sjö ára þingferli.

Fyrstu fjögur árin sem hann var á þingi var hann ekki aðeins útbússtjóri Útvegsbankans á Seyðisfirði heldur líka bæjarfulltrúi eða fram til ársins 1931. Hann átti auk þess sæti í landsbankanefnd fram til ársins 1936. Hann var formaður Alþýðuflokksins á árunum 1954 til 1956.

Stefán Jóh. Stefánsson Stefán Jóh. Stefánsson var fyrsti utanríkisráðherrann. Hann var skipaður í þriðja ráðuneyti Hermanns Jónassonar sem tók við völdum vorið 1939 og sat fram til vors 1941. Samfara utanríkisráðherraembættinu gegndi hann líka embætti félagsmálaráðherra sem einnig var ný ráðherrastaða. Stefán hefur þar af leiðandi komið við sögu þessarar samantekt áður þar sem fjallað var um Félags- og húsnæðisráðuneytið. Þar er hann talinn sem fyrsti félagsmálaráðherrann samkvæmt þessari heimild hér.

Stefán var líka fyrsti forsætisráðherrann til að skipa landbúnaðarmálunum sérstakan ráðherra (sjá hér) og kom þar af leiðandi við sögu í þeim aðdraganda færslunnar um Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið sem ber heitið Til kvótastýrðs landbúnaðar.

Stefán varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 24 ára og tók lögfræðipróf frá Háskóla Íslands fjórum árum síðar. 32ja ára var hann kominn með réttindi hæstaréttarlögmanns. Þegar hann kom inn á þing hafði hann 16 ára lögmannsreynslu að baki en hann rak áfram málaflutningsskrifstofu í Reykjavík með öðrum málaflutningsmönnum meðfram þingstörfum í 11 ár.

Stefán sat reyndar ekki óslitið inni á þingi frá því að hann var kjörinn í fyrsta sinn árið 1934 og þar til að hann hætti árið 1953. Nær allan þann tímann sem hann átti sæti þar gegndi hann jafnframt öðrum störfum. Þar má benda á að hann var bæjarfulltrúi í Reykjavík fyrstu þrjú árin sem hann sat á þingi jafnfram því að sitja í bæjarráði.

Við Tjörnina á fjórða áratugnum

Hann sat líka í bankaráði Útvegsbankans nær allan tímann sem hann var á þingi og var formaður þess lengst af. Á sama tíma var hann í stjórn Byggingarsjóðs verkamanna og lengst af formaður Norræna félagsins líka. Síðustu átta árin sem hann var á þingi var hann eining framkvæmdastjóri Brunabótafélags Íslands.

Þess má svo að lokum geta að hann hafði verið í miðstjórn Alþýðuflokksins í tíu ár þegar hann var kosinn inn á þing í fyrsta skipti og sat þar fram til ársins 1940. Hann var kosinn formaður flokksins árið 1938 en þá átti hann ekki sæti inni á þingi. Hann gegndi formannsembættinu fram til ársins 1952.     

Á þeim tíma sem Stefán Jóh. Stefánsson var utanríkisráðherra tóku Íslendingar alfarið við meðferð utanríkismála í kjölfar þess að Danmörk var hernumin af Þjóðverjum (sjá hér). Í kjölfarið var Utanríkisráðuneytið stofnað og lög sett um ráðuneyti Íslands og fulltrúa þess erlendis á árinu 1941. Ný lög um Utanríkisþjónustu Íslands voru sett árið 1971 (sjá hér) í stjórnartíð Emils Jónssonar sem var utanríkisráðherra á árunum 1965 til 1971.

Við borð stórveldis

Það geisaði stríð úti í Evrópu þegar Utanríkisráðuneytið var sett á fót. Danmörk var hernumin 9. apríl 1940 og daginn eftir er ráðuneytið stofnað.  Hálfum mánuði seinna er fyrsta alræðisskrifstofa Íslands opnuð í New York. Fjórum dögum síðar er opnað sendiráð í London. Stuttu seinna er opnað sendiráð í Stokkhólmi, í Washington ári síðar og í Moskvu árið 1944. Elsta sendiráð Íslendinga er frá 1920 en það er í Kaupmannahöfn (sjá hér)

Abraham Lincoln

Bretar hernámu Ísland mánuði eftir að Þjóðverjar lögðu Danmörku undir sig. Tveimur mánuðum síðar var Stefán Jóh. Stefánsson skipaður fyrsti utanríkisráðherra Íslands og bráðabirgðalög sett um utanríkisþjónustuna. Lögin um Utanríkisráðuneytið voru sett um miðjan febrúar 1941. Sama ár var gerður samningur við Bandaríkin sem kvað á um hervernd og viðurkenningu á frelsi og fullveldi Íslands. Samningurinn átti líka að tryggja að Bandaríkjamenn sæju „landinu fyrir nægum nauðsynjavörum á stríðstímanum og að tryggja siglingar að og frá landinu.“ (sjá hér)

Stefán Jóhann fékk lausn frá embættinu í byrjun árs 1942 en Ólafur Thors tók við því. Sjálfstæðisflokkurinn var yfir Utanríkisráðuneytinu næstu tíu árin en þá hafa þau tvö ár sem utanþingsstjórn Björns Þórðarsonar (1942-1944) verið undanskilin. Þá tók Ólafur Thors við  Utanríkisráðuneytinu að nýju og var yfir því til ársins 1947.

Næst tók Bjarni Benediktsson (eldri) við ráðuneytinu fram til ársins 1953 en hann er einn þeirra sex sem sátu lengst í embætti utanríkisráðherra. Í framhaldi þess að hann hætti tók við 15 ára stjórnartíð Alþýðuflokksins yfir Utanríkisráðuneytinu en Framsóknarflokkurinn hefur verið fyrirferðarmikill þar líka. Sósíalistaflokkurinn, síðar Alþýðubandalag, var hins vegar aldrei trúað fyrir utanríkismálunum.

Utanríkisráðherrar fyrri tíma

Á fyrsta rúma áratug Utanríkisráðuneytisins er grunnurinn lagður að framtíðarsamskiptum Íslendinga við aðrar þjóðir. Hér verður stuðst við síðu Utanríkisráðuneytisins þar sem reynt verður að draga fram það mikilvægasta. Fyrst er að nefna hervarnar- og viðskiptasamninginn sem var gerður við Bandaríkjamenn í tíð Stefán Jóh. Stefánssonar sumarið 1941. Hann gerði líka viðskiptasamning við Breta það sumar um kaup á íslenskum afurðum. Þrjú sendiráð voru opnuð a árunum 1940 til 1941 (sjá hér).

Í stjórnartíð Ólafs Thors voru opnuð tvö sendiráð til viðbótar. Á árunum 1945 og 1946 gerði Ólafur Thors samning við Breta um kaup á rúmlega 30 togurum. Keflavíkursamningurinn var undirritaður haustið 1946 en í samningum var gert ráð fyrir að bandarískir hermenn yfirgæfu landið en Bandaríkjamenn hefðu áfram afnot af Keflavíkurflugvelli. Rúmum mánuði síðar, eða 19. nóvember 1946 var Ísland aðili að Sameinuðu þjóðunum (sjá hér). Þess má geta að Thor Thors, bróðir Ólafs Thors, var „formaður sendinefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum frá upphafi til æviloka.“ Hann lést árið 1965 (sjá hér).

Þess má að lokum geta að á árunum 1944 til 1947 var Ólafur Thors ekki aðeins utanríkisráðherra heldur líka forsætisráðherra (sjá hér). Svipaða sögu er að segja frá árinu 1942 en þá fór hann með Utanríkisráðuneytið í ellefu mánuði. Frá maí og fram að því að utanþingsstjórnin tók við í desember það ár var hann auk þess forsætisráðherra og fór með landbúnaðar- og sjávarútvegsmálin (sjá hér). 

Af Arnarhóli á fjórða eða fimmta áratug síðustu aldar

Bjarni Benediktsson tók við utanríkisráðherraembættinu í upphafi árs 1947 og gegndi því fram til ársins 1953. Á þessu sex ára tímabili sat hann undir þremur forsætisráðherrum. Sá fyrsti var Stefán Jóh. Stefánsson sem var fyrstur til að fara með embætti utanríkisráðherra. Ráðuneyti hans sat frá ársbyrjun 1947 til loka árs 1949. Á þeim tíma var sendiráðunum erlendis fjölgað um eitt auk þess sem aðalræðisskrifstofa var opnuð í Hamborg en gerð að sendiráði þremur árum síðar. Það hefur verið staðsett í Brussel frá 1999 (sjá hér).

Í apríl 1948 gerðist Ísland stofnaðili að Efnahagssamvinnustofnun Evrópu sem var breytt árið 1960 í Efnahagsvinnu- og framfarastofnun Evrópu; betur þekkt sem OECD. Sama ár varð Ísland hluti af Marshalláætluninni sem tók til næstu fimm ára eða til ársins 1953. Ári síðar skrifaði Bjarni Benediktsson undir stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins en nánar verður sagt frá aðdraganda þess í sérstökum kafla hér á eftir.

Á árunum 1949-1950 var Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra í þriðja ráðuneyti Ólafs Thors (sjá hér) og svo áfram í ráðuneyti Steingríms Steinþórssonar á árunum 1953-1956 (sjá hér). Á þessum tíma var Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna samþykkt og Mannréttindasáttmáli Evrópuráðsins. Vorið 1951 var varnarsamningur milli Íslands og Bandaríkjanna undirritaður og árið 1952 var stofnuð fastanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu með aðstöðu í París (sjá hér).

Í nafni vaxtar og varna

Áður en lengra verður haldið er rétt að staldra ögn betur við þá þýðingarmiklu atburði sem áttu sér stað í íslenskri utanríkismálapólitík upp úr seinna stríði. Eins og kom fram hér að framan varð Ísland hluti af Marshall-áætluninni sama ár og það varð stofnaðili að Efnahagssamvinnustofnun Evrópu sem varð síðar að Efnahagsvinnu- og framfarastofnun Evrópu; betur þekkt sem OECD.

Þetta var árið 1948 og tók Marshall-áætluninni til næstu fimm ára. Bjarni Benediktsson var í Utanríkisráðuneytinu á þessum tíma en Stefán Jóh. Stefánsson var forsætisráðherra. Ríkisstjórn hans, sem var samsett af Alþýðu-, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki (sjá hér), tók einhliða ákvörðun um það að  Ísland gerðist aðili að Marshall-áætluninni án þess að samningurinn þar að lútandi væri nokkurn tímann borinn undir Alþingi til samþykktar (sjá hér).

Brjóttu ísinn með einhverju ókeypis

Með því Marhall-fénu voru keyptir tíu togara sem bættust við fiskskipaflota Íslendinga þegar árið 1948. Það var ekki aðeins gengið í það að veita sjávarútveginum heldur líka landbúnaðinum sem var vélvæddur. Stærstu framkvæmdirnar voru þó vatnsaflsvirkjanirnar þrjár: Sogs-, Laxár- og Írafossvirkjun. Aðrar framkvæmdir sem má nefna eru bygging áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi, Sementsverksmiðjunnar á Akranesi, síldarbræðslna og fiskimjölsverksmiðja auk hraðfrystihúsa sem voru byggð víða um land (sjá m.a. hér).

Á þessum tíma voru fáir sem gagnrýndu Marshall-áætlunina hér á landi utan Sósíalistaflokkinn. Síðar hefur því m.a. verið haldið fram að með „Marshall-aðstoðinni hafi verið markað upphafið að styrkjakerfinu á Íslandi í hinum ýmsu atvinnugreinum“ (sjá hér). Sumir hafa líka bent á að með byggingu Áburðarverksmiðjunnar hafi upphaf þeirrar stóriðjustefnu sem enn er við lýði verið mörkuð.

Bandaríski sagnfræðingurinn Michael J. Hogan hefur haldið því fram að tilgangur Bandaríkjamanna með Marshall-áætluninni hafi verið að móta Evrópu efnahagslega í sinni eigin mynd.“ (sjá hér) „American officials hoped to refashion Western Europe into a smaller version of the integrated single-market and mixed capitalist economy that existed in the United States.“ (sjá hér)

Michael J. Hogan segir að vonirnar sem voru bundnar Marshall-áætlunin hafi verið þær að án tollamúra á milli landa Vestur-Evrópu „væri hægt draga úr innri baráttu evrópsku þjóðríkjanna og skapa sameinað markaðssvæði óhult fyrir áhrifum kommúnista.“ (sjá hér). Fulltrúar Sósíalistaflokksins hér á landi töldu að hér væri á ferðinni „áætlun um að misnota aðstöðu dollaravaldsins til að ná efnahagslegum og pólitískum ítökum og yfirráðum um allan auðvaldsheiminn.“ (sjá hér)

Mótmæli 30. mars 1949

30. mars 1949 er dagur sem fáir gleyma sem hafa kynnt sér sögu hans. Þann dag var Atlantssamningurinn til umræðu á þinginu. Gert hefur verið ráð fyrir að um 8.000 manns hafi verið samankomnir á Austurvelli og nærliggjandi götum þegar flest var. Allt var þó með kyrrum kjörum framan af í kringum þinghúsið en öðru máli gegndi um það sem fór fram innan húss.

Áköfustu mótmælin komu frá fulltrúum Sósíalistaflokksins þar sem Einar Olgeirsson fór fremstur í flokki. Hann benti á að að hvorki ríkisstjórnin né fylgismenn hennar hefðu gefið neina skýringu á því hvers vegna þurfti að standa þannig að málinu að það var keyrt  í gegnum þingið á rúmum sólarhring án þess að nokkur sérfræðingur í alþjóðarétti fengi tækifæri til að sjá samninginn eða tjá sig um hann við utanríkismálanefnd þingsins. Hann fullyrti að málatilbúnaðurinn allur  skýrðist af því að ríkisstjórnin og þingmeirihlutinn væri að hlýða fyrirskipun erlendra stjórnvalda (sjá hér). Fleiri höfðu sig í frammi:

Hermann [Jónasson] minnti á hve framkvæmd Keflavíkursamningsins hefði orðið langt frá loforðunum, og lýsti yfir þeirri skoðun sinni, að ekkert hefði reynzt jafnhættulegt vinsamlegri sambúð íslendinga og Bandaríkjamanna og einmitt Keflavíkursamningurinn. (sjá hér)

Þegar kom að atkvæðagreiðslunni sat hann hjá ásamt öðrum þingmanni Framsóknarflokksins. Áður en að henni kom „bar Einar [Olgeirsson] fram þá breytingartillögu að því aðeins yrði afráðin þátttaka Íslands í Atlanzhafsbandalagi að samningsuppkastið hafi áður verið lagt undir þjóðardóm í þjóðaratkvæðagreiðslu og hlotið meiri hluta greiddra atkvæða (sjá hér). Tillagan fékk ekki brautargengi en það fékk samningurinn hins vegar.

Atkvæðagreiðslan um samninginn fór þannig að allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins (19) studdu að Íslendingar yrðu gerðir að stofnaðilum Atlantshafsbandalagsins (NATO). Ellefu þingmenn Framsóknarflokks, einn var á móti en tveir sátu hjá; þ.á m. Hermann Jónasson. Sjö þingmenn Alþýðuflokks utan tveggja sem greiddu atkvæði á móti en það voru Gylfi Þ. Gíslason og Hannibal Valdimarsson. Allir þingmenn Sósíalistaflokksins voru hins vegar á móti (10). Atkvæði féllu því þannig að 37 greiddu atkvæði með NATO-samningum 30. mars 1949 og 13 voru á móti en tveir sátu hjá (sjá hér).

Orðsending NATO-flokkanna

Á meðan á atkvæðagreiðslunni stóð inni í alþingishúsinu hafði friðurinn fyrir utan það snúist upp í logandi óeirðir. Sumir hafa haldið því fram að Ólafur Thors hafi sigað lögreglunni á friðsama mótmælendur og ólætin hafist þannig. Auðvitað verður aldrei hægt að rekja það nákvæmlega sem átti sér stað niður á Austurvelli þennan dag; síst að öllu eftir að allt fór þar úr böndunum. Það er þess vegna ómögulegt að skera úr um það hvort það voru þeir sem voru á móti aðild að Atlantshafsbandalaginu eða hinir sem voru hlynntir sem byrjuðu.

Það verður heldur tæplega nokkurn tímann fullkomlega hrakið eða sannað hvort Ólafur Thors hafi gefið lögreglu og hvítliðum skipum um að nú skyldu þeir ráðast til atlögu gegn friðsömum mótmælendum. Orðsendingin hér að ofan gefur þó tilefni til að draga þær ályktanir að átökin sem brutust út á Austurvelli 30. mars árið 1949 hafi verið sviðsettar. Þessi mynd og texti, sem voru sett á forsíðu Morgunblaðsins daginn eftir (sjá hér) er síst til að draga úr líkum þeirrar niðurstöðu.

Mynd Morgunblaðsins af mótmælunum fyrir framan alþingishúsið 30. mars 1949

Þess ber þó að geta að það var ekki aðeins formaður Sjálfstæðisflokksins sem hvatti friðsama borgara til að taka þátt í sviðsetningunni fyrir framan alþingishúsið daginn sem stofnaðildarsamningurinn við NATO var keyrður í gegnum þingið. Samkvæmt tilkynningunni hér að ofan þá skrifuðu formenn Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins einnig undir það að „kommúnistar hafi án þess að leita leyfis boðað til útifundar“ til að trufla starfsfrið Alþingis (sjá hér). 

Grunnur lagður að Evrópusambandsaðild

Hér verður þráðurinn tekinn upp að nýju við að rekja embættisverk þeirra sem hafa setið lengst í Utanríkisráðuneytinu. Sá sem tók við ráðherraembættinu af Bjarna Benediktssyni (eldri) var alþýðuflokksmaðurinn Guðmundur Í. Guðmundsson. Stjórnarskiptin fóru fram sumarið 1956 en þá varð Hermann Jónasson forsætisráðherra í fimmta skiptið (sjá hér).

Ríkisstjórnin sem Hermann leiddi var sett saman af Framsóknarflokki, Alþýðubandalagi og Alþýðuflokki. Forystan yfir utanríkismálunum kom í hlut Alþýðuflokksins; þ.e. Guðmundar Í. Guðmundssonar. Hann var utanríkisráðherra fram til ársins 1965 undir fjórum forsætisráðherrum. Á þeim tíma var Ísland aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna eða árið 1955 (sjá hér). Vorið 1962 öðlaðist samstarfssamningur Norðurlandanna gildi hér á landi (sjá hér).

Árið eftir var Pétur J. Thorsteinsson, sem hafði verið aðstoðarmaður í Utanríkisráðuneytinu á árunum 1947-1953, skipaður sendiherra gagnvart Efnahagsbandalagi Evrópu (sjá hér). Þess má geta að Pétur var sonur Péturs J. Þorsteinssonar sem stofnaði Milljónafélagið ásamt föður Ólafs Thors (sjá hér). Félagið varð gjaldþrota 1914 og átti þátt í því að Íslandsbanki riðaði til falls árið 1920 (sjá hér og líka hér).

Árið 1964 fékk Ísland bráðabrigðaaðild að Hinu almenna samkomulagi um tolla og viðskipti; GATT. Einar Benediktsson var skipaður fyrsti fulltrúi Íslands á vettvangi GATT en hann kom síðar „að undirbúningi að inngöngu Íslands í EFTA og starfaði einnig fyrir Ísland þegar samið var um EES-samninginn.“ (sjá hér). Einar óx upp innan sömu stéttar og Pétur J. Þorsteinsson (sjá hér) Árið 1968 fékk Ísland fulla aðild að GATT að tillögu þáverandi viðskiptaráðherra; Gylfa Þ. Gíslasonar (sjá hér).

Horft niður Lækjargötu sjöunda áratugarins

Flokksbróðir Guðmundar, Emil Jónsson, tók við embætti hans árið 1965 og gegndi því fram til 1971 (sjá hér). Á meðan hann var utanríkisráðherra var fastanefnd Íslands hjá NATO flutt frá París til Brussel ásamt því sem hún var gerð að sendiráði gagnvart Belgíu og Efnahagsbandalagi Evrópu (sjá hér). Árið eftir, eða 1970, varð Ísland aðili að Fríverslunarsambandi Evrópu (EFTA). Fastanefnd landsins gangvart því var sett niður í Genf. Gylfi Þ. Gíslason var flutningsmaður þingsályktunartillögu um þetta efni í desember 1969 (sjá hér). Fyrrnefndur Einar Benediktsson var fyrsti fastafulltrúi Íslands hjá EFTA.

Undir lok embættisferilsins í Utanríkisráðuneytinu lagði Emil fram stjórnarfrumvarp til laga um Utanríkisþjónustu Íslands. Miðað við umræðurnar sem sköpuðust í kringum frumvarpið þá er ljóst að þegar í kringum 1970 var einhverjum farið að blöskra kostnaðurinn í kringum utanríkisþjónustu svo nýfrjálsrar en fámennrar þjóðar. Alls komu fjórar breytingartillögur fram við frumvarpið á mismunandi stigum þess en frumvarpið fór í gegn án þess að tillit væri tekið til tillagna um öflugra eftirlit með „rekstri sendiráða og ræðismannsskrifstofa“ (sjá hér) og niðurfellingu 13. greinar (sjá hér) þessara laga þar sem augljósasti misnotkunarmöguleikinn liggur. Greinin sem um ræðir er svohljóðandi:

Starfsmenn utanríkisþjónustunnar taka laun samkvæmt almennum reglum um laun starfsmanna ríkisins. Auk þess skulu starfsmenn erlendis fá greiddar staðaruppbætur, sem miðast við kostnað á nauðsynjum (fæði, húsnæði o.fl.) og aðrar sérstakar aðstæður á hverjum stað. Þá skulu starfsmenn utanríkisþjónustunnar, sem dveljast langdvölum erlendis, fá greiddan hluta af kostnaði við að senda börn sín í skóla á Íslandi. Þessar staðaruppbætur skulu ákveðnar samkvæmt reglum er utanríkisráðherra setur að höfðu samráði við utanríkismálanefnd. Reglur skulu settar á sama hátt um greiðslur sjúkrakostnaðar starfsmanna utanríkisþjónustunnar erlendis. (sjá hér)

Rétt rúmum tveimur mánuðum síðar, eða 17. júní 1971, er fyrsta skrefið að innleiðingu  Vínarsamningsins stigið enn þann dag öðlast sá hluti hans sem snýr að stjórnarmálasambandi gildi á Íslandi (sjá hér).  Samkvæmt sáttmálanum nýtur öll utanríkisþjónustan í heiminum og starfsmenn alþjóðastofnana „skattfrelsis að öllu leyti.“ eins og Pétur H. Blöndal bendir á hér hér. Það er rétt að taka það fram að þetta hefur í engu breyst enn þá.

Þess má líka geta í þessu samhengi að ekki eru nema rétt rúm tvö ár síðan að íslenska ríkið greiddi 75 milljónir króna í bætur fyrir það að gámur starfsmanns utanríkisþjónustunnar fór í sjóinn (sjá hér). Það er útlit fyrir að hvorki þessi eða annar kostnaður í kringum Utanríkisþjónustuna hafi gefið tilefni til að taka lögin frá 1971 til endurskoðunar í þeim tilgangi að draga úr ríkisútgjöldum.

Samkvæmt þessari heimild hér rekur ríkissjóður 25 sendiráð, aðalræðisskrifstofur og fastanefndir víðs vegar um heiminn með yfir 120 starfsmenn. Langfjölmennasta sendiráðið er í Brussel með 15 starfsmenn en auk þess heldur ríkissjóður uppi 7 manna fastanefnd í sömu borg (sjá hér).

Börn í íslenskum vetri árið 1976

Framsóknarmaðurinn, Einar Ágústson, tók við af Emil Jónssyni í Utanríkisráðuneytinu og sat þar í sjö ár (1971-1978) undir tveimur forsætisráðherrum. Fyrst Ólafi Jóhannessyni og þá Geir Hallgrímssyni. Í stjórnartíð Einars í Utanríkisráðuneytinu var fríverslunarsamningarsamningur við Efnahagsbandalag Evrópu undirritaður. Hann tók gildi 1973 en komst ekki til framkvæmda að fullu fyrr en árið 1976 eða eftir lausn síðustu fiskveiðideilunnar við Breta. Undir lok ráðherratímabils hans öðlast annar hluti Vínarsamnings um ræðissamband gildi sem er 1. júlí 1979 (sjá hér).

Jón Baldvin Hannibalsson er meðal þeirra sem hafa setið lengst í utanríkisráðuneytinu. Steingrímur Hermannsson skipaði hann til utanríkisráðherra í öðru og þriðja ráðuneyti sínu. Vorið 1991 skipaði Davíð Oddsson hann enn og aftur yfir utanríkismálin á sínu fyrsta forsætisráðherrakímbili (sjá hér). Í embættistíð Jóns Baldvins fjölgaði sendiráðunum um tvö auk þess sem stjórnmálasamband var tekið upp við Eystrasaltsríkin en Íslendingar voru fyrstir þjóða til að viðurkenna sjálfstæði þeirra (sjá hér).

Á þeim tíma sem Jón Baldvin Hannibalsson var utanríkisráðherra undir forsætisráðuneyti Davíðs Oddssonar eru a.m.k. tvær afdrifaríka ákvarðanir teknar sem varða utanríkismálastefnu stjórnvalda. Ein þeirra er samningur um aukaaðild Íslands að hernaðarbandalagi Vestur Evrópusambandsins. Hugmyndin var lögð fyrir þingið í þingsályktunartillögu (sjá hér) í mars 1993 (sjá hér).

Eftir nokkrar umræður og gagnrýni á að með aukaaðildinni væru Íslendingar í raun í tveimur hernaðarbandalögum var tillagan samþykkt með 29 atkvæðum á móti 26. Átta þingmenn voru fjarverandi við atkvæðagreiðsluna (sjá hér). Miðað við þessa heimild hér voru Íslendingar reyndar orðnir aðilar áður en samþykkt Alþingis lá fyrir (sjá hér).

Langstærsta og afdrifaríkasta embættisverk Jóns Baldvins eru lögin um EES-samninginn (EEA) en hann  tók gildi 1. janúar 1994. Frumvarpið sem gerði ráð fyrir því að 10.000 blaðsíðna (sjá hér) meginmál EES-samningsins öðlaðist „lagagildi hér á landi“ (sjá hér) var til meðferðar á Alþingi í hálft ár (sjá hér). Ítrekaðar ábendingar úr ýmsum áttum varðandi það að samningurinn færi gegn 21. grein íslensku Stjórnarskrárinnar voru að engu hafðar frekar en undirskrifir 19% kjósenda og þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu (sjá mynd neðst í þessari frétt).

Þegar kom að atkvæðagreiðslu Alþingis um innleiðingu EES-samninginn féllu atkvæði þingmanna þannig að 33 studdu aðildina en 23 voru á móti. Sjö greiddu ekki atkvæði. Það má vekja athygli á því að á meðal þeirra sem greiddu ekki atkvæði voru sex þingmenn Framsóknarflokksins og einn þingmaður Kvennalistans. Þar á meðal voru: Finnur Ingólfsson, Halldór Ásgrímsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Valgerður Sverrisdóttir. Aðrir þingmenn bæði Framsóknarflokks og Kvennalista voru á móti.

Aðeins þrír þingmenn, sem greiddu atkvæði um EES-samninginn í upphafi árs 1993, eru enn inni á þingi. Það eru Össur Skarphéðinsson sem studdi samninginn, eins og allir aðrir þingmenn Alþýðuflokksins, Einar K. Guðfinnsson sem sagði líka já eins og 23 af 26 þingmönnum Sjálfstæðisflokksin og Steingrímur J. Sigfússon sem sagði nei eins og aðrir þingmenn Alþýðubandalagsins (sjá hér).

Madeleine Albright

Halldór Ásgrímsson tók við Utanríkisráðuneytinu vorið 1995 og sat þar í þremur ráðuneytum Davíðs Oddssonar eða fram til haustsins 2004 (sjá hér). Á meðan hann gegndi embætti utanríkisráherra fjölgaði sendiráðum erlendis um sjö (sjá hér). Samningurinn um Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) tók einnig gildi en það vekur athygli að það er forsætisráðherra, Davíð Oddsson, sem leggur fram frumvarpið um breytingar ýmissa laga vegna aðildar Íslands að Alþjóðarviðskiptastofnuninni (sjá hér). 41 þingmaður greiðir samningum atkvæði en allir þingmenn Alþýðuflokksins sitja hjá eða eru fjarverandi (sjá hér).

Í stjórnartíð Halldórs Ásgrímssonar í Utanþingráðuneytinu átti hann sæti í Þróunarnefnd Alþjóðabankans á árunum 1997 til 1998 og var formaður í ráðherraráði Evrópuráðsins (sjá hér). Afdrifaríkasta embættisverk Halldórs Ásgrímssonar sem kom til kasta Alþingis er væntanlega sú ákvörðun að gera Ísland að hluta af Schengen-svæðinu. Halldór lagði fram þingsályktunartillögu um þetta efni í nóvember 1999 sem var tekin til fyrstu umræðu í byrjun desember og í framhaldinu vísað til utanríkismálanefndar (sjá feril málsins hér).

Tillagan var samþykkt með 41 atkvæðum á móti 5 en 18 þingmenn voru fjarrverandi. Össur Skarphéðinsson er einn þeirra sem var fjarrverandi og greiddi því ekki atkvæði. Einar K. Guðfinnsson var viðstaddur atkvæðagreiðsluna en greiddi ekki atkvæði. Ögmundur Jónasson sagði nei en Steingrímur J. Sigfússon já (sjá hér). Þess ber að geta að ekki verður annað skilið en atkvæðagreiðslan hafi verið tvítekin og þá sú fyrri framkvæmd með nafnakalli (sjá hér). Þar falla atkvæði framantalinna með sama hætti nema Steingrímur J. hefur sagt nei (sjá hér)

Ráðuneyti jafnaðarmanna

Þegar saga Utanríkisráðuneytisins er skoðuð vekur það sérstaka athygli að af tæplega 75 ára starfssögu ráðuneytisins þá hefur ráðuneytið verið áberandi lengst undir forystu jafnaðarmanna (Alþýðuflokks/Samfylkingar) eða í kringum 32 ár. Til samanburðar má benda á að Framsóknarflokkurinn hefur verið yfir ráðuneytinu í 23 ár og Sjálfstæðisflokkur í 16 ár. Sósíalistar hafa aldrei farið fyrir ráðuneytinu (Sósíalistaflokkur/Alþýðubandalag/Vinstri grænir(?)). 

Jafnaðarmennirnir í Utanríkisráðuneytinu

Eins og áður hefur komið fram þá lagði Stefán Jóh. Stefánsson grunninn að því nána sambandi sem var staðfest með margs konar samningum í utanríkisráðherratíð Bjarna Benediktssonar (eldri). Stefán Jóh. var fyrsti utanríkisráðherrann og gerði varnar- og viðskiptasamning við Bandaríkjamenn árið 1941 (sjá hér). Hann var síðan forsætisráðherra í þeirri ríkisstjórn sem grundvölluðu það að Ísland er nú meðal þeirra ríkja nútímans sem standa á þröskuldi þess að verða eitt af sambandsríkjum Evrópusambandsins.

Það er a.m.k. margt sem gefur tilefni til að draga þá ályktun þegar horft er til þeirrar þróunar sem hefur orðið ofan á bæði í utanríkissamskiptum stjórnvalda og þeirri samfélagsþróun sem sigldi í kjölfar þeirra aðildarsamninga sem voru gerðir á þessum árum. Eftir tíu ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins í Utanríkisráðuneytinu, ellefu mánuði árið 1942 og svo árin 1944 til 1953, tók við fimmtán ára valdatíð jafnaðarmanna (Alþýðuflokks) sem spannar árin 1956 til 1971.

Í valdatíð Sjálfstæðisflokksins voru Íslendingar ekki aðeins orðnir aðilar að alþjóðabandalögum eins og Atlantsbandalaginu (NATO), Efnahagssamvinnustofnun Evrópu (OECD) og Sameinuðu þjóðunum (UN) heldur líka að Marshall-áætluninni sem fáir gagnrýndu á sínum tíma en einhverjir hafa þó bent á að hafi lagt grunninn að mörgum þeirra vandamála sem íslenskt samfélag glímir við enn í dag.

Alþingisgarðurinn í kringum 1950

Enginn þeirra samninga og/eða aðildar sem að ofan greinir voru lögð fyrir þjóðina heldur sátu stjórnmálamennirnir einir að ákvörðunum án þess að skeyta því nokkru hvort slíku fylgdi valdaafsal á íslensku „landi eða landhelgi“ eða breytingar „á stjórnarhögum ríkisins“ (sjá 21. grein Stjórnarskrárinnar). Á árunum 1956 til 1971 var haldið áfram á þessari braut þegar Ísland varð aðili að Fríverslunarsambandi Evrópu (EFTA) árið 1970.

Þáverandi viðskiptaráðherra, Gylfi Þ. Gíslason, var flutningsmaður þingsályktunartillögu um aðildina.
Einar Benediktsson, sem hafði verið skipaður fulltrúi Íslands gagnvart GATT árið 1964 vann „að undirbúningi að inngöngu Íslands í EFTA“ (sjá hér). Samkvæmt því sem segir hér „gerðist Einar snemma eindreginn talsmaður þess að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu.“ Síðar starfaði [hann] einnig fyrir Ísland þegar samið var um EES-samninginn.“ (sjá hér).

Í dag ritar þessi fyrrverandi sendifulltrúi landsins greinar þar sem hann lýsir þeirri skoðun sinni „að yrðu samningsslit með því að draga [ESB-]umsóknina til baka núna [yrði það] versta áfall fyrir orðspor Íslands í sögu lýðveldisins. Við sláum ekki á þá bróðurhönd sem margir ESB-leiðtogar hafa rétt okkur.“ (sjá hér). Meginrök Einars eru þau að næsta þróunarstig Evrópusamvinnunnar er svokallaður fríverslunarsamningur við Bandaríkin (Trans Atlantic Trade and Investment Pact).“ (sjá hér). Þess má svo geta hér í framhjáhlaupi að Einar Benediktsson starfaði hjá OECD áður en hann tók við starfi á vegum utanríkisþjónustu Íslands í sömu borg; þ.e. París (sjá hér).

Ingólfstræti sennilega í kringum 1970

Árið 1971 tók Framsóknarflokkurinn við Utanríkisráðuneytinu næstu sjö árin. Á þeim tíma var fyrsti hluti Vínarsáttmálans innleiddur (sjá hér). Samkvæmt honum eru starfsmönnum utanríkisþjónustunnar tryggð ýmis forréttindi sem Pétur H. Blöndal gerði ágæta grein fyrir í þingræðu sinni, í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna, þar sem svonefndir IPA-styrkir voru til umræðu í upphafi árs 2012 (sjá feril málsins hér):

Varðandi það sem h[æst]v[irtur] þingmaður sagði um skattfrelsi [...] þá er mjög undarlegt að Vínarsáttmálinn frá 1815 skuli enn vera notaður til að réttlæta skattfrelsi ákveðinna forréttindastétta í heiminum sem er utanríkisþjónustan öll og starfsmenn alþjóðastofnana sem njóta skattfrelsis að öllu leyti.

Þeir borga heldur ekki tolla, þeir borga ekki vörugjöld, þeir borga miklu lægra bensín og fyrir nánast hvað sem er borgar þetta fólk miklu minna. Það tekur ekki þátt í kostnaði við velferðarkerfið, það tekur ekki þátt í kostnaði við ríkisreksturinn og að það skuli vera vinstri menn sem standa hér, eins og hæstv[irtur] utanríkisráðherra, og verja þetta kerfi er alveg með ólíkindum.

Ég hef barist fyrir því í mörg ár að skattfrelsi utanríkisþjónustunnar verði afnumið en það gengur mjög erfiðlega vegna þess að ég rekst alltaf á þennan Vínarsamning frá 1815, held ég að rétt sé með farið, þar sem verið var að tryggja sendimenn fyrir því að gistiríki færi illa með þá en það er náttúrlega löngu liðin tíð.

Nú er þetta orðin forréttindastétt manna sem lifa í einhverjum allt öðrum veruleika en við hin og njóta leikskólanna okkar, njóta gatnanna okkar og háskólanna fyrir börnin sín og fyrir sjálfa sig og borga ekki til samfélagsins. Ég held að það væri verðugt verkefni fyrir h[æst]v[irta] þingmenn Alþingis að fara í herför fyrir því að afnema þetta skattfrelsi um allan heim, því að það verður að gerast um allan heim til að ná einhverjum árangri.“ (sjá hér)

Alþýðuflokksþingmaðurinn, Benedikt Gröndal, tók við af framsóknarþingmanninum, Einari Ágústsyni, í Utanríkisráðuneytinu. Hann sat þar aðeins í tvö ár (1978-1980) jafnframt því sem hann var forsætisráðherra (sjá hér). Í stjórnartíð hans var Mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna innleiddur (sjá hér). Þá taka við átta ár sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn skipta þannig á milli sín að ef sjálfstæðismaður var í Forsætisráðuneytinu var framsóknarmaður yfir Utanríkisráðuneytinu og öfugt.

 Aukinn sóknarþungi

Alþýðuflokkurinn komst aftur til valda í Utanríkisráðuneytinu árið 1988 þegar Jón Baldvin Hannibalsson varð utanríkisráðherra. Hann gegndi því embætti til ársins 1995. Það var í ráðherratíð hans sem Íslendingar urðu aðilar að EES-samningum (EEA). Eins og kom fram hér að framan var málið til meðferðar á Alþingi í hálft ár (sjá hér). Það vekur athygli að einn þeirra þingmanna sem tók þátt í því að gagnrýna  það að meginmál EES-samningsins fengi lagagildi hér á landi (sjá hér) var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Ferill hennar í málinu er reyndar allur afar athyglisverður.

Örlög þessarar þjóðar þau ráðast nefnilega innan lands og það eru engar "patentlausnir" til á vandamálum okkar. Við getum sem hægast klúðrað okkar málum öllum hvort heldur sem er innan eða utan Evrópska efnahagssvæðisins eða Efnahagsbandalagsins. Aðild að Evrópska efnahagssvæðinu eða Efnahagsbandalaginu er ekki upphaf alls, ekki rök í öllum málum og leysir ekki allt. (sjá hér)

Þetta eru lokaorðin í stórmerkilegri þingræðu Ingibjargar Sólrúnar frá 25. ágúst 1992 þar sem EES-samningurinn var til umræðu. Í ræðu sinni vísar hún í grein Lúðvíks Ingvarssonar, fyrrverandi prófessors við lagadeild Háskóla Íslands, sem birtist í Morgunblaðinu þann sama dag. Tilvísunin þjónar greinilega þeim tilgangi að benda á að með samþykkt EES-samningsins verði brotið á sama hátt gegn ákvæðum Stjórnarskrárinnar eins og Lúðvík bendir á að raunin hafi sýnt fram á að hafi gerst þegar „Íslendingar gerðust aðilar að Mannréttindasáttmála Evrópu“ árið 1953. Síðan vitnar hún beint í orð Lúðvíks Ingvarssonar um þetta efni:

„Í sáttmálanum er erlendum dómstóli veitt æðsta dómsvald um íslensk málefni á tilteknu sviði, þar sem Hæstiréttur Íslands var áður æðsta dómstig.“ [...]

,,Mörgum mun finnast að aðild að Mannréttindasáttmála Evrópuráðsins hafi hingað til aðeins leitt gott af sér fyrir Íslendinga þrátt fyrir það að aðildin hafi aldrei verið samþykkt á Alþingi með löglegum hætti. Af þessu mega þeir, sem þykir aðildin góð, ekki draga þá ályktun að allir milliríkjasamningar, sem samþykktir verða með ólöglegum hætti á Alþingi, muni aðeins leiða til góðs.“ [...]

„Mistökin, sem urðu við samþykkt aðildarinnar að sáttmálanum, eiga að vera öllum en þó einkum handhöfum löggjafarvaldsins, alþingismönnum og forseta Íslands, alvarleg áminning um að viðhafa alla gát þegar gerðir eru milliríkjasamningar sem e.t.v. stríða gegn stjórnarskránni.“
(sjá hér)

Undir lok ræðu sinnar víkur Ingibjörg Sólrún að þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (sjá hér). Þingsályktunartillagan var lögð fram í þinginu 24. ágúst 1992 af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Steingrími Hermannssyni, Ólafi Ragnari Grímsson, Kristínu Einarsdóttur, Páli Péturssyni og Ragnari Arnalds (sjá hér). Þar sem Ingibjörg Sólrún víkur að mögulegri þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands bendir hún á andstöðu Jóns Baldvins Hannibalssonar við að leggja málið „undir dóm kjósenda“:

Meginrök hans voru þau, svo vitnað sé beint, „að slíkt valdaafsal þingsins væri hvorki sjálfsagt né eðlilegt“ og að hann vildi ekki „stuðla að því að umbylta því stjórnarfyrirkomulagi sem var ákveðið í stjórnarskrá árið 1944 og hefur ríkt góð sátt um allan lýðveldistímann“ eins og hann sagði. Að auki taldi hann landsmenn ekki í stakk búna til að taka afstöðu til samningsins. (sjá hér)

Sams konar rök, og þau sem Ingibjörg Sólrún hefur eftir „jafnaðarmanninum Jóni Baldvini“ (sjá hér), komu fram í nefndaráliti um fyrrnefnda þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna EES-samningsins.

Frá því lýðveldið var stofnað má nefna þrjá tillögur um þjóðaratkvæði á Alþingi við meðferð mikilvægra samninga við erlend ríki eða fyrirtæki. Í öllum tilvikum voru tillögurnar felldar með atkvæðagreiðslu á þingi, þ.e. þegar fjallað var um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO), samninginn við Alusuisse um álverið í Straumsvík og aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA).

Í stuttu máli má því segja að það væri brot á íslenskri stjórnskipunarhefð að samþykkja þessa tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þátttöku Íslands í EES. Það gengi einnig í berhögg við fyrri niðurstöður á Alþingi þegar um mikilvæga alþjóðasamninga hefur verið að ræða.  (sjá hér)

Þingsályktunartillagan um þjóðaratkvæðagreiðslur um aðild Íslands að EES var vísað til allsherjarnefndar sem þríklofnaði í afstöðu sinni til hennar (sjá t.d. hér). Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokks og einn þingmaður Alþýðuflokks lögðust gegn henni með ofangreindum rökum, sem samandregið mætti umorðast þannig, að slíkt væri ekki í samræmi við þær vinnuhefðir sem stjórnmálaflokkarnir á Alþingi hefðu tileinkað sér fram að því.

Talsmaður hentugleikastefnunnar

Tillagan um að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu var felld á Alþingi með 31 atkvæði gegn 28. Fjórir þingmenn greiddu ekki atkvæði. Einn þeirra var Össur Skarphéðinsson sem var fjarrverandi. Aðrir þingmenn sem enn eru á þingi studdu tillöguna fyrir utan Einar K. Guðfinnsson sem var á móti (sjá hér).

Það vekur svo sérstaka athygli að Jóhanna Sigurðardóttir er einn þeirra þingmanna sem hafnaði þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort Ísland verði aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta vekur ekki síst undrun í ljósi nýlegra ummæla hennar um núverandi stjórnvöld sem ætla ekki að leggja það  undir dóm kjósenda hvort þeir vilja að aðlögunarferlinu að regluverki Evrópusambandsins verði framhaldið eða ekki (sjá hér). 

Áður en skilist verður við þátt Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í umræðum Alþingis um EES-samninginn og að Ísland undirgangist ákvæði hans með því að gerast aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu er rétt að minna á endanlega afstöðu hennar sem bæði kemur fram í nefndaráliti sem hún setti saman og atkvæðagreiðslunni. Í nefndarálitinu sem hún stóð ein að segir hún:

Enn er vafi á því að frumvarpið standist gagnvart stjórnarskrá og ekki er komið endanlegt lagaform á ýmsar tilskipanir EB sem munu hafa veruleg áhrif hér á landi. Við þessar aðstæður hljóta ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna að bera alla pólitíska ábyrgð á málinu.

Treystir undirrituð sér ekki til að leggja til við þingið að það samþykki frumvarp til laga um Evrópska efnahagssvæðið þó að hún sé efnislega sammála aðildinni á þeim forsendum sem hér hafa verið reifaðar. Aðrar þingkonur Kvennalistans telja aftur á móti að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópska efnahagssvæðisins og munu því greiða atkvæði gegn samningnum. (sjá hér)

Ingibjörg Sólrún sat hjá þegar kom að atkvæðagreiðslunni um fullgildingu EES-samningsins og samning EFTA-ríkjanna um m.a. stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls (sjá frumvarpið hér og niðurstöður atkvæðagreiðslunnar hér). Það má svo minna á að af þeim þingmönnum sem enn eru inni á þingi þá sögðu Einar K. Guðfinnsson og Össur Skarphéðinsson já en Steingrímur J. Sigfússon nei.

Fífur í vindi

Að lokum er svo rétt að minna á það aftur að 19% atkvæðisbærra manna skrifuðu undir kröfu um að því yrði vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort Ísland gerðist aðili að þeim samningi sem Jón Baldvin Hannibalsson hafði undirritað í Oportó í Portúgal 2. maí 1992 (sjá hér). Bæði þing og forseti virtu óskir um það að samningurinn yrði lagður undir dóm kjósenda að vettugi á rökum byggðum á vísunum til hefða og venja „sem ekki væri stætt á að bregða út af.“ (sjá hér)

Baráttan um Ísland hefst fyrir alvöru

Jón Baldvin Hannibalsson var utanríkisráðherra til ársins 1995 en þá tók Halldór Ásgrímsson við embættinu og gegndi því í átta ár. Á þeim tíma sem hann var yfir Utanríkisráðuneytinu varð ísland aðili að Schengen-samstarfinu sem er ætlað að tryggja „frjálsa för einstaklinga um innri landamæri fimmtán samstarfsríkja“ (sjá hér). Íslendingar gerðust aðilar að þessu samkomulagi 25. mars 2001.

Tveimur árum síðar var ráðist í byggingu Kárahnjúkavirkjunar en aðalverktakafyrirtækið, sem stóð að framkvæmdinni, var Impregilo sem er ítalskt byggingarfyrirtæki. Langflestir starfsmennirnir sem komu að virkjunarframkvæmdunum voru erlendir. Í framhaldinu tóku bæði stærri og minni fyrirtæki hér á landi að flytja inn erlent vinnuafl (sjá hér) sem þeir komust upp með að borga lægri laun en íslenskum verkamönnum (sjá hér).

Eftir alþingiskosningarnar vorið 2007 kom það mörgum á óvart að Samfylkingin skyldi ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Þegar það er skoðað að Samfylkingin er einshvers konar framhald Alþýðuflokksins þá hefði samstarf þeirra alls ekki átt að koma á óvart þar sem ekki voru liðin nema 12 ár frá því að jafnaðarmenn höfðu náð að mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokknum. Hér er að sjálfsögðu vísað til þeirrar stjórnar Sjálfstæðis- og Sjálfstæðisflokks þar sem Jón Baldvin Hannibalsson fór með Utanríkisráðuneytið fram til ársins 1995.

Ignibjörg Sólrún Gíslandóttir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem utanríkisráðherra Íslands

Í samstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skipuð yfir Utanríkisráðuneytinu og varð þar með arftaki Valgerðar Sverrisdóttur sem sat þar í eitt ár. Á undan henni sátu þeir Geir H. Haarde og Davíð Oddsson sitt árið hvor (sjá hér). Þegar Ingibjörg Sólrún tók við hafði aðildarsamningurinn að Evrópska efnahagssvæðinu gerbreytt starfsumhverfinu á Alþingi til þess að sífellt fleiri mál, sem lögð voru fyrir þingið, snertu beinlínis aðildina með einum eða öðrum hætti (sjá frá 117. löggjafarþingi hér). Í þessu ljósi og því sem síðar ætti að vera orðið ljóst er vel þess virði að grípa niður í ræðu Ingibjargar Sólrúnar frá 31. janúar 2008:

Virðulegi forseti. Nú eru 14 ár og 30 dagar frá því að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið gekk í gildi og Ísland með menningarstofnanir sínar, atvinnufyrirtæki, banka, sveitarfélög, vísindarannsóknir, stjórnsýslu og löggjafarstarf sameinaðist innri markaði Evrópu.

Engin ein ákvörðun í síðari tíma sögu Alþingis hefur haft jafnrík og djúptæk áhrif á íslenskt samfélag og enginn andmælir því nú, virðulegi forseti, að EES-aðild var algerlega rétt ákvörðun Íslendinga. Hún þýddi opnun landsins, nýtt frelsi fólks til að flytjast milli landa, stofna fyrirtæki, færa fjármagn og eiga viðskipti með vörur og þjónustu. Hún gaf af sér stóreflda íslenska háskóla, kynnti til sögu hér á landi fyrstu réttarbætur á mörgum sviðum, t.d. í umhverfismálum og neytendamálum, og hún er hin raunveruleg[a] forsenda þess að íslensk fyrirtæki gátu leyst gamlar og lúnar landfestar og sótt á heimsmarkað, jafnokar hvers sem er.

Við Íslendingar höfum margt að læra af 14 ára reynslu okkar á innri markaði Evrópu. Hugsum til þess núna hversu margir töldu árið 1993 að EES-aðild stefndi þjóðerni og sjálfstæði í bráða hættu og drögum þann lærdóm sem augljós er af sögu síðasta eins og hálfa áratugar, þann lærdóm að það styrkir Ísland verulega að taka þátt í innri markaði Evrópu. (sjá hér)

Flestum sem störfuðu með Ingibjörgu Sólrúnu á Alþingi þann tíma sem hún sat í Utanríkisráðuneytinu blandaðist vart hugur um að hún stefndi að því markmiði að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Ef til vill voru það orð flokksbróður hennar, Árna Páls Árnasonar, þáverandi varaformanns utanríkismálnefndar, sem gáfu fyrstu vísbendinguna. Þann 11. febrúar 2008 hefur  Steingrímur J. Sigfússon þetta eftir samfylkingarþingmanninum og spyr forsætisráðherra um stefnu þáverandi ríkisstjórnar gagnvart Evrópusambandsaðild:

„Við erum auðvitað að ræða um það,“ segir þingmaðurinn, „hvernig við getum leyst mjög brýnan og alvarlegan vanda sem er sá vandi að gjaldmiðillinn hentar ekki þörfum landsins lengur og veldur heimilum og fyrirtækjum gríðarlegum búsifjum. Þegar við erum að ræða lausnir á þeim vanda er alveg ljóst að evran er sú lausn sem menn binda mestar vonir við.

Það er líka ljóst að helstu stjórnmálaforingjar á Íslandi eru sammála um að evran verður ekki tekin upp án aðildar að Evrópusambandinu. Sama segir Seðlabankinn. Við þær aðstæður hlýtur umræða um lausn á þessum brýna vanda“ — aftur er talað um brýnan vanda — „alltaf að snerta aðild að Evrópusambandinu og það er óhjákvæmilegt.“ (sjá hér og alla umræðuna hér).

Í kjölfar bankahrunsins duldist engum lengur hverjar hugmyndir Ingibjargar Sólrúnar eru í samskiptum Íslands við önnur lönd. Þann 13. október 2010 ritaði hún grein í Morgunblaðið þar sem svar hennar til þjóðar sem var enn í áfalli yfir nýfegnum fréttum af hruni íslensku bankanna og afleiðingum þess:

Kostirnir í stöðunni eru því þessir. Annaðhvort pökkum við í vörn og hverfum aftur til þess tíma sem var fyrir 1994 eða við gerum þetta að upphafi nýrra tíma, sækjum ótrauð fram og búum til þær varnir fyrir íslenskan almenning og íslensk fyrirtæki sem við þurfum í upphafi 21. aldar. Þær varnir felast til skamms tíma í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og til lengri tíma í aðild að ESB, upptöku evru og bakstuðningi Evrópska seðlabankans.

Eftir hildarleik síðari heimsstyrjaldarinnar stóðu íslenskir stjórnmálamenn andspænis þeirri áleitnu spurningu hvort Ísland gæti spjarað sig án formlegra bandamanna ef til átaka kæmi í heiminum. Niðurstaðan var að svo væri ekki og Ísland gekk bæði til liðs við hinar Sameinuðu þjóðir og NATO.

Nú stöndum við andspænis sambærilegri spurningu þó ógnirnar séu af efnahagslegum toga. Ég tel það mikinn ábyrgðarhlut af stjórnmálamönnum að telja sjálfum sér og öðrum trú um að við getum haldið áfram að senda fólk á bátsskeljum út á opið haf og sagt því að fiska. Það hefur þegar endað með ósköpum. (sjá hér og líka frétt á mbl.is)

Í desember árið 2008 lét Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafa það eftir sér að hún teldi sjálfhætt í ríkisstjórninni ef Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti ekki að ganga frá umsókn um aðild að Evrópusambandinu (sjá hér). Ekki varð þó af stjórnarslitum fyrr en 26. janúar árið 2009 (sjá hér)

Áður en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir dró sig út úr stjórnmálunum lagði hún línurnar hvað varðar þann blekkingarleik sem haldið hefur verið á lofti æ síðan um að: „gengið [verði] til aðildarviðræðna við Evrópusambandið og síðan [verði] niðurstöður þeirra viðræðna lagðar undir þjóðaratkvæði.“ (sjá hér). Eftir að minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við völdum er þetta haft eftir Ingibjörgu Sólrúnum um það hver séu mikilvægustu verkefni stjórnarinnar:

Ingibjörg telur mikilvægt að sett verði ákvæði í stjórnarskránna fyrir komandi þingkosningar svo þjóðin geti hvenær sem er gert breytingar á stjórnarskránni með þjóðaratkvæðagreiðslu. „Það þýðir að þjóðin getur ákveðið að deila fullveldi sínu með öðrum þjóðum á næsta kjörtímabili ef hún svo kýs án þess að boðað sé til kosninga í millitíðinni. (sjá hér)

Ingibjörg Sólrún Gísaldóttir um nauðsyn þess að breyta Stjórnarskránni til að heimila valdaafsal til ESB

Össur Skarphéðinsson sem tók við Utanríkisráðuneytinu af Ingibjörgu Sólrúnu hefur verið ötull fylgismaður þeirrar utanríkismálastefnu jafnaðarmanna sem Ingibjörg Sólrún opinberaði í stjórnartíð Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Frá því að hann tók við völdum hefur það verið að koma æ betur í ljós að þeir eru margir og ólíkir hóparnir sem aðhyllast valdaafsal yfir landi og landhelgi ásamt breytingum á íslenskum stjórnarháttum. Það ber að hafa það í huga að þó hóparnir séu bæði margir og háværir þá er ekki endilega víst að þeir séu svo fjölmennir ef vel væri talið.

Þeir helstu eru stærstu atvinnurekendurnir og stærstu útgerðirnar sem sækjast eftir ódýrara vinnuafli, stærstu innflytjendurnir sem vilja losna við verndartolla íslenskrar matvæla- og iðnaðarframleiðslu, einhverjir háskólaprófessorar sem vilja halda í ýmsa styrki sem stöður þeirra grundvallast á og svo þeir stjórnmálamenn sem dreymir um öruggar stöður á þingum, stofnunum eða fastanefndum Evrópusambandsins þegar þingferli þeirra lýkur á Alþingi.

Núverandi stjórnarandstöðu og nokkrum ötulum talsmönnum hennar hefur tekist á nokkrum undanförnum dögum og vikum að æsa ýmsa óánægða kjósendur fram til að flykkja sér um þennan málstað án þess að taka nokkuð tillit til þeirrar ógna sem Evrópusambandsaðild hefur leitt yfir mörg þeirra ríkja sem nú þegar eru með fulla aðild og hafa tekið upp gjaldmiðil þess (sjá t.d. hér og hér).

Araham Lincoln

Þeir sem hafa hvatt til mótmæla fyrir framan alþingishúsið að undanförnu halda því enn þá fram að það sé eitthvað til sem heitir að „kíkja í pakkann“, „sérlausnir fyrir Ísland“ og það sé raunverulega eitthvað um að kjósa eftir að innlimunarferlið er um garð gengið. Sú örvænting sem margir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa orðið berir af á undanförnum dögum bendir þó til þess að jafnvel þeir sjálfir sjái fram á að málflutningur af slíku tagi dugi ekki lengur til að halda lífi í þeirri aðildarhugmynd sem þeir berjast fyrir.

Nánar verður komið að þessum þáttum í næstu færslu um Utanríkisráðuneytið en þar verða meginpunktarnir í þessari færslu dregnir saman og tengdir því Evrópusambandsaðildarferli sem var meginviðfangsefni síðasta kjörtímabils. Í lok hennar verður svo samanburður á menntunar- og starfsferli Össurar Skarphéðinssonar og Gunnars Braga Sveinssonar.

Helstu heimildir
Utanríkisráðherratal
Sögulegt yfirlit yfir utanríkisþjónustuna
 

Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis

Heimildir úr lögum
Utanríkisráðuneytið:
Lög reglugerðir og samningar 
Lög samþykkt á Alþingi
(stjórnartíðindanúmer laga)

Lög um Evrópska efnahagssvæðið. 13. janúar 2/1993.
Lög um utanríkisþjónustu Íslands
nr. 39/1971
Auglýsing um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stöðu flóttamanna
. 9.desember 74/1955

Ferlar einstakra mála inni á Alþingi
Samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins
(reglur um fjárhagsaðstoð við Ísland: IPA). frá 2. desember 2011 fram til 18. júní 2012.
Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna
. frá 18. nóvember 1999 til 22. mars 2000.
Aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu
. frá 16. mars fram til 28. apríl 1993.
Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu
. frá 24. ágúst fram til 5. nóvember 1992.
Evrópskt efnahagssvæði
. frá 18. ágúst 1992 fram til 12. janúar 1993.
Alþjóðasamningur um ræðissamband
. frá miðjum október 1977 fram í miðjan febrúar 1978
Utanríkisþjónusta Íslands
. frá miðjum febrúar fram í byrjun apríl 1971.
Alþjóðasamningar um stjórnmálasamband
. frá miðjum október 1970 fram í miðjan mars 1971.
Aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu
(þingályktunartillaga) 5. des. fram til 19. des. 1969. 

Heimildir úr þingræðum
Ræður þingmanna
(á árunum 1907-2014)

Þingræða Ólafs Thors frá 30. mars 1949: Atlantssamningurinn er merkasti friðarsáttmálinn.

Heimildir úr fjölmiðlum
Jóhanna: Svona stærilæti og ósvífni gagnvart þjóðinni er ekki hægt að líða
. eyjan.is 28. febrúar 2014.
Langt í metfjölda undirskrifta
. visir.is 28. febrúar 2014.
Einar Benediktsson (fyrsti fulltrúi í GATT). Vettvangur breytinganna. visir.is 20. febrúar 2014.

Sami. Tvöfaldi ávinningurinn: ESB-aðild og nýtt Atlantshafsbandalag. visir.is 27. apríl 2013.
Ljósmyndir lögreglunnar frá NATÓ mótmælunum í mars 1949
. 13. desember 2013
Arnaldur Grétarsson. Magnaðar myndir af Nató-mótmælunum við Austurvöll 1949. 1. ágúst 2013

Guðlaugur Þór Þórðarson: Öryggi landsins eftir Einar Benediktsson.  31. mars 2012.

Skafti Jónsson um gáminn: „Það er sárt að missa eigur sínar“. dv.is 19. desember 2011
Ómetanleg listaverk og ríkið borgar skaðann
. dv.is 2. desember 2011.

Vigdís Hauksdóttir. Vínarsamningurinn, Samfylkingin og erlend sendiráð. Morgunblaðið 20 nóvember 2010

Mannsævi í mörgum löndum (um æviminningar Einars Benediktssonar, sendiherra) dv.is 7. nóvember 2009.
Stjórnarskrá breytt fyrir ESB-aðild. visir.is 4. febrúar 2009.
Stjórnarsamstarfi lokið
. mbl.is 26. janúar 2009
Nægar ástæður til að slíta stjórnarsamstarfinu ef Samfylkingin hefði áhuga á því
. eyjan.is 4. janúar 2009

Ingibjörg Sólrún: Fyrst IMF og svo ESB. mbl.is12. október 2008.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Aftur til fortíðar eða upphaf nýrra tíma. Morgunblaðið 12. október 2008.

Fyrstu skrefin stigin í átt að samruna við ESB. Morgunblaðið 12. maí 1999.

Utanríkisstefna á vegamótum. Alþýðublaðið 15. apríl 1993
Páll Vilhjálmsson. Baráttan um skilgreininguna á forsetaembættinu. Vikublaðið 21. janúar 1993.

Allsherjarnefnd er þrískipt í áliti á þjóðaratkvæði um EES-samninginn. Morgunblaðið 4. nóvember 1992.
BSRB vill þjóðaratkvæðagreiðslu um EES-samning
. Morgunblaðið 15. september 1992
Ótrúlegur tvískinnungur og pólitísk hentistefna
. Morgunblaðið. 26. ágúst 1992.
Stjórnarandstaðan vill stjórnarskrárbreytingu og þjóðaratkvæðagreiðslu um EES-samninginn
. Morgunblaðið 22. ágúst 1992.

Landráðin framin í skjóli ofbeldis og villimannlegra árása á friðsama alþýðu. Þjóðviljinn 30. mars 1949
Trylltur skríll ræðst á Alþingi
. Morgunblaðið. 31. mars 1949

Hernaðaráætlun fimmtu herdeildarinnar bandarísku birt. Þjóðviljinn. 23. október 1948

Heimildir af vef Utanríkisráðuneytisins
EES - Samningurinn um evrópska efnahagssvæðið
. Utanríkisráðuneytið.
Evrópusamruninn í alþjóðlegu og sögulegu samhengi
. Utanríkisráðuneytið.
Sameinuðu þjóðirnar
. Utanríkisráðuneytið. 
Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið
. Utanríkisráðuneytið.
Skrá yfir fulltrúa Íslands hjá alþjóðasamtökum frá upphafi
. Utanríkisráðuneytið
Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna
. Utanríkisráðuneytið.
Vínarsamningurinn um ræðissamband
. Utanríkisráðuneytið.

Heimildir af Wikipediu
Evrópska efnahagssvæðið
. Wikipedia. Síðast breytt 26. júlí 2013.
Keflavíkursamningurinn
. Wikipedia. Síðast uppfært 11. september 2010.
Marshalláætlunin
. Wikipedia. Síðast uppfær 3. febrúar 2014.
Samningalotur GATT-samkomulagsins
. Wikipedia. Síðast uppfært 15. apríl 2013
Úrúgvælotan
. Wikipedia. Síðast uppfært 15. apríl 2013.
Vestur-Evrópusambandið
. Wikipedia. Síðast breytt 9. mars 2013

Heimildir úr ýmsum áttum
Andrés Magnússon. Utanríkisráðherra er ekki vandanum vaxinn. 20. júní 2008. (blogg)
Evrópuvefurinn. Upplýsingaveita um Evrópusambandið og Evrópumál
Helsingforssamningurinn
. Samstarfsamningur á milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar.
Jónas H. Haraldz. Ísland og Efnahagssamband Evrópu frá efnahagslegu sjónarmiði séð. Fjármálatíðindi. 1962
Staða Íslands í Evrópusamstarfi. Skýrsla Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra til Alþingis. 2000.
Sigrún Elíasdóttir. Marshall-áætlunin og tæknivæðing Íslands. júní 2012. 
„Tel mig ekki hafa betra verk unnið“
[Án árs] (viðtal til við Bjarna Benediktsson)
Umsókn Íslands um aðild að ESB
. Aðildarviðræður Íslands og ESB 2009-2013


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Frábær pistill og flott samantekt hjá þér Rakel hafi þú þökk fyrir.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.3.2014 kl. 12:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband