Vörnin í orðræðunni

Ég hef lengi velt alvarlega fyrir mér þeirri undarlegu þróun sem hefur orðið á allri pólitískri orðræðu á undanförnum árum. Hér á ég ekki síst við merkingarfræðilegan viðsnúning ýmissa hugtaka og hið skipulega undanhald sem einkennir málflutning margra stjórnmálamanna. Framsetning stjórnmálamannanna á því sem þeir hafa til málanna að leggja er að mörgu leyti farin að minna á það sem fram fer í boltaíþróttunum því málflutningur þeirra snýst orðið um hraðar skiptingar á mill varnar- og sóknarleiks.

Steingrímur J. Sigfússon er alls ekki einn um þess háttar framsetningu en svör hans, eða öllu heldur ekki svör hans, endurspegla mjög vel það sem ég á við í þessu sambandi. Lítum á dæmi:

Það er jákvæður tónn í þessari frétt Financial Times. Hann er til marks um samningsvilja af hálfu Breta og að sjálfsögðu er hann til staðar hjá báðum þjóðunum. Við værum ekki að tala saman nema vegna þess að það er vilji til þess að láta á það reyna hvort að menn finni einhverjar sameiginlegar lausnir. Það má heldur ekki oftúlka það og ég get ekki farið að tjá mig eða staðfesta efnisatriðin sem þarna er komið inn á.

Það er verið að reyna að ræða þetta í trúnaði og það er lögð mikil áhersla á það af báðum aðilum, öllum aðilum, en það eru ekki síst Hollendingar sem vilja stíga afar varlega til jarðar. Þar er uppi viðkvæm staða og flókin.

Þetta er dálítið heitt mál í pólitískri umræðu í Hollandi. Þannig að það má segja að pólitíska staðan sé flókin í þessu máli, bæði heima fyrir og að heiman.

Þetta er svar Steingríms við spurningu blaðamannsins, sem tekur viðtalið við hann í tengdri frétt, um það hvort frétt í Finacial Times merki það að fundir íslensku samninganefndarinnar með Bretum og Hollendingum muni skila nýjum samningum. Í frétt FT er því m.a. haldið fram að Bretar séu hugsanlega tilbúnir til eftirgjafar í málinu. Eins og öllum má vera ljóst eftir lestur svarsins hér að ofan þá svarar Steingrímur aldrei spurningunni en setur mál sitt þannig fram að hann slær ekki á neinar væntingar en gefur heldur engin alvöru fyrirheit.

Hann talar um „samningsvilja af hálfu Breta“, „sameiginlegar lausnir“, „viðkvæma stöðu og flókna“ og „pólitíkst flókna stöðu“. Hann notar með öðrum orðum orð sem orka vonarvekjandi en undirstrikar það líka að þessi mál séu of flókin til að þau verði útskýrð á einfaldan hátt. Með því að undirstrika það hvað málin eru flókin gefur hann það í skyn að „venjulegt fólk“ eins og blaðamenn og lesendur þeirra séu þess ekki umkomnir að skilja umfang málsins eða um hvað snýst í öllum atriðum.

Aftur og aftur víkur Steingrímur sér undan því að svara óvenju gagnvirkum spurningum blaðamannsin. Í stað þess að svara raðar Steingrímur saman fjálglegri varnarræðu með litlu efnislegu innihaldi. Orðræða hans er m.ö.o. hlaðin orðum en þegar betur er að gáð þá er lítið bitastætt í orðaflaumnum. Ef hann kveður úr um eitt atriði, dregur hann úr vægi þess í því næsta sem hann hefur til málanna að leggja. Þannig má e.t.v. segja að hann tali í endalausa hringi. En meginniðurstaðan er þó sú að hann segir lítið sem ekkert með ótrúlegum fjölda orða.

Það litla sem hald er í er þó greinileg vörn. Hann er þó ekki að halda uppi vörnum fyrir íslenska lýðræðið eða almenning í landinu heldur sjálfan sig og þá sem hingað til hafa klúrað málum varðandi þá samingsendaleysu sem Icesave er nú orðið. Hann talar líka nær eingöngu í núinu. Hann talar t.d. aldrei um það hvað þeir sem hafa komið að samingsgerðinni fyrir Íslands hönd hafi valdið þjóðinni miklu tjóni. Þvert á móti reynir hann að verja störf þeirra og heldur því m.a. blákalt fram að öll möguleg tækifæri til að kynna málstað Íslendinga varðandi Icesave hafi verið nýtt.

Þetta kemur fram í svari hans þar sem blaðamaður spyr eftirfarandi spurningar: „Telurðu að þín ríkisstjórn hefði hugsanlega átt að koma meira á framfæri hversu þungur baggi þetta væri fyrir Ísland, þetta dvergríki í Norður-Atlantshafi?“

Ég held að maður hafi nú reynt það við öll möguleg tækifæri og alls staðar þar sem aðstæður hafa boðist. Þetta mál hvarf dálítið út úr umræðu eftir fyrstu mánuði haustsins 2008 og það er svo ekki fyrr en þetta fer að dragast svona lengi og verða svona erfitt í meðförum á Alþingi sem að þetta fer að fá á sig athygli aftur.

Það var ekki mikil athygli á þessu í sjálfu sér framan af ári 2009. Þá voru menn einfaldlega að reyna að þoka því í rétta átt eftir því sem vígstaðan þá bauð upp á.

Og ég endurtek að ég tel að þá hafi verið unnið gott verk, þegar menn færðu þetta úr þeim farvegi að við tækjum á okkur eitt risastórt lán og greiddum það til baka á 10 árum með 6,7% vöxtum yfir í að eignir Landsbankans yrðu látnar ganga upp í þetta í byrjun og að við fengjum langt vaxta- og afborgunarleysi sem er tvímælalaust hagstætt fyrir Ísland.

Þannig að í grunninn hefur orðið þróun sem hefur verið í rétta átt í þessu máli og ef við getum náð einhverju betra fram núna þá væri það gleðilegt.

Það er eftirtektarvert hvernig Steingrímur dregur úr vigtinni á því að málstaður Íslendinga hafi verið kynntur erlendis með vafaorðinu „held“. Með þessu verður hann ekki eins ber að lyginni sem í staðhæfingunni liggur. Allir sem vilja vita það vita það nefnilega að íslensk stjórvöld hafa einvörðungu kynnt málstað þjóðarinnar í þröngum hópi hagsmunaaðila. Sú kynning sem þau hafa viðhaft hefur heldur ekki haldið aðalatriðum Icesaves-málapakkans neitt á lofti.

Það er líka ákveðið háð í svari Steingríms varðandi þetta atriði hann segir nefnilega: „Ég held að maður hafi nú reynt það við öll möguleg tækifæri og alls staðar þar sem aðstæður hafa boðist.“ M.ö.o. þá er eins og hann sé að hæðast að blaðamanninum fyrir það að láta sér detta það í hug að spyrja spurningarinnar. Um leið og hann baktryggir sig með orðinu „held“ svona ef hann þarf að svara fyrir það síðar að hann hafi fullyrt of mikið varðandi kynningarmálin í þessu svari þá reynir hann að benda blaðamanninum á það með lævíslegri hæðni að hann geri sér greinilega ekki góða grein fyrir vettvangi stjórnmálanna og milliríkjasamskiptum ef hann telji að hann hafi ekkert þarfara að gera en grenja inn miskunnsömum skilningi hjá aðilum málsins yfir aðstæðum okkar.

Það er svo hreint og beint grátlegt hvernig Steingrímur afvegaleiðir ýmsar staðtreyndir málsins í aðdraganda kosninganna þegar nokkrar vísbendingar hafa þegar komið fram um það að Icesave-málið var hreinlega þaggað niður þeirra vegna m.a. fyrir atbeina hans helsta ráðgjafa. Það vita það líka allir sem vilja vita það að það hefur varla skapast svigrúm fyrir neitt annað á verkefnalista íslenska þingsins en einmitt þetta mál. Það er því beinlínis lítilsvirðing að tala um allt það tímabil, sem Icesave hefur yfirskyggt önnur ekki síður brýn mál, sem eitthvert rólyndistímabil sem samningurinn hefur þurft á að halda til að þróast í rétta átt!

Áður en ég slæ botninn í þessar vangaveltur um orðræðu Steingríms og fleiri stjórnmálamanna, sem er greinilega ætlað að leiða bæði viðmælendur og svo lesendur/áheyrendur á villigötur, langar mig til að bæta hér einu við. Ég vakti athygli á þessu viðtali inni á Fésbókinni minni. Út úr því kom mjög athyglisverður ábending í sambandi við orðaval Steingríms sem mig langar til að vekja athygli á.

Ein ágæt vinkona mín, sem býr yfir óvenju skörpum gáfum auk sjaldgæfri innsýn inn í hið pólitíska landslang hérlendis, bætti við þar nokkrum athyglisverðum punktum varðandi tungutak núverandi fjármálaráðherra. Það sem hún benti á er eftirfarandi:

  • „Þannig að ráðamenn í þessum löndum, ekki síst fjármálaráðherrarnir, eru önnum kafnir og það LOGA ELDAR víða."
  • „[...] ef þetta fer ekki að leysast, að það er ávísun á frekari erfiðleika hér í þjóðarbúskapnum, ekki síst hvað varðar afkomu ríkissjóð sem þá aftur kallar á enn þá sársaukafyllri aðgerðir á þeim VÍGSTÖÐVUM."
  • „Þá voru menn einfaldlega að reyna að þoka því í rétta átt eftir því sem VÍGSTAÐAN þá bauð upp á."

Í framhaldinu benti hún á hvað það væri „einkennilegt hvað tungutak mannsins er hervætt!

Merkilegast af öllu þykir mér að sjá að hvergi í viðtalinu glittir í lýðræðislega sýn á málið hjá fjármálaráðherranum (eða ætti ég kannski frekar að segja hershöfðingjanum, með skírskotun til tungutaks mannsins).“

Ég ætla að láta staðar numið í bili en hyggst halda áfram að skoða þá orðræðu sem mér þykir vera einkennandi meðal íslenskra ráðamanna og gera tilraun til að rekja hana saman við tungutak annars hóps sem hefur ekki síður verið áberandi í íslenskum fjölmiðlum undanfarin ár.


mbl.is Ver samningaleið stjórnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kvíðvænlegt, sóðaskapur áratugum saman, hvað um nýtt ríki einhverstaðar fyrir svikna rænda þreitta dapra reiða duglega góða Islendinga .þynglýsa kosningaloforðum/stefnuskrá , reglur, viðurlög á þingmenn og aðra þjóna , viðurlög við svikum ,viðurlög við aulaskap , viðurlög við hroka, viðurlög við græðgi, viðurlög við lygum, viðurlög brottrekstur við ómennsku allri í Islenskri pólitík

Ásgeir Gunnarsson (IP-tala skráð) 22.2.2010 kl. 00:28

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég vildi svo sannarlega að við gætum sameinast um það að stofna slíkt ríki, Ásgeir! Lýsingin þín á stöðu okkar, andlegri líðan og okkar innsta eðli þykir mér líka alveg dásamleg. Stefnuskrá hins nýja ríkis er að mínum dómi bæði réttlát og sanngjörn!

Stóra spurningin er auðvitað sú hver verður staða okkar, skuldaþrælanna, ef það tekst að staðfesta gjána milli þings og þjóðar með enn einni samningsnefnunni? Sennilega sú að við eigum ekki aðra úrkosti en stofna nýtt ríki. Ég er hrædd um að eina úrræðið til þess sé vel skipulögð bylting. Reyndar er ekki hægt að skipuleggja byltingu en við verðum að koma okkur saman um það hvað við viljum fá í staðinn fyrir það sem við gerum uppreisn gegn.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.2.2010 kl. 00:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband