Það er svo skrýtið hvað það er erfitt að skilja suma þeirra

Atli GíslasonÉg var í Reykjavík um liðna helgi. Var þar reyndar alveg frá því á miðvikudagskvöldið og fram á sunnudag. Um leið og ég lenti brunaði dóttir mín með mig beinustu leið á borgarafund í Iðnó. Þar hlýddi ég á tvö fantagóð erindi.

Atli Gíslanson, lögfræðingur og þingmaður, flutti annað. Hann tók það fram að á þessum borgarafundi talaði hann sem lögfræðingur en ekki þingmaður. Mér heyrðist á öllu að hann sé komin með það alveg á hreint að þau eru mörg efnahagsbrotin sem hafa verið verið framin að undanförnu hér á landi. Það þarf að rannsaka þessi mál og taka á þeim hið strax.

Begur Þorri Viktorsson, hæstaréttardómari, var annar sem vakti athygli mína fyrir skeleggan flutning og innihald. Í stuttu máli sagði hann að vilji væri allt sem þyrfti. Nú væri tími framkvæmda. Biðin myndi kalla yfir þjóðina enn meiri hörmungar. Atvinnulífið og efnahagslífið myndi lamast. Efnahagslægðin dýpka og tíminn sem það tæki þjóðina að koma sér upp úr henni lengjast. 

Bjarni BenediktssonSvo kom Bjarni Benediktsson, þingmaður. Það var undarlegt að hlusta á hann. Ég veit ekki hvort það var eitthvað í höfðinu á mér eða í málflutning Bjarna sem gerði það að verkum að ég skildi ekki hvað hann var að segja. Ég náði ekki stefnunni eða innihaldinu. Hann var þó eitthvað að reyna að eigna síðustu ríkisstjórn það sem núverandi hefur gert. Svo fór hann alltaf með þráðinn út í móa, upp í hlíðar og í allar mögulegar áttir aðrar en beint áfram. 

Ég hafði mig alla við en skildi minnst af því sem hann sagði. Að lokum var farið að suða í höfðinu á mér eins og í útvarpstæki sem finnur enga rás. Mér var hugsað til þess að Sjálfstæðisflokkurinn er með námskeið eða skóla fyrir verðandi flokksefni. Eitt af því sem þeir læra þar er ræðumennska sem Gísli Blöndal stýrir. Ég veit ekki hvort ég á að auglýsa það hér en ég hef kennt tjáningu í mörg ár og er þess vegna vön því að hlusta á alls kyns ræður en ég held að enginn nemandi minn hafi gert sig sekan um að flytja jafn lélega ræðu og Bjarni þetta kvöld. 

Nú er ég ekki að meta innihaldið því að miðað við það sem ég náði var innihaldið ekki alveg glatað þó ég leggi kannski lítinn trúnað á það sem hann sagði þar. Það var hins vegar samhengið og stefnuleysið sem fór alveg með ræðuna. En nóg af ræðu Bjarna. Það var kannski við því að búast að ég myndi gagnrýna hann  en ég bjóst við að það yrði frekar fyrir innihald en tæknileg atriði í sambandi við uppbyggingu ræðunnar hans.

Það vakti líka sérstaka athygli að Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, var dottinn ofan í einhverja úrelta stjórnmálamannataktík og svaraði í löngu máli spurningum sem til hans var beint án þess að á neinu væri að byggja í svörum hans. Við endurteknar spurningar um svipað efni vísaði hann aftur í innihaldslausa svarið sitt á undan. Þetta var reyndar sorglegt. Maður varð einhvern veginn máttvana frammi fyrir svörum sem stönguðust einhvern veginn á við það sem hann sagði áður en hann tók við embætti. Hlustuðum við kannski ekki nógu vel þá?

Að loknum þessum fundi hugsaði ég um það að almenningur á rétt á heiðarlegum svörum í stað orðavaðals með engu innihaldi. Við eigum líka rétt á að stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir standa, tali við okkur á mannamáli en leiki sér ekki að því að fela allt í þokukenndum tilsvörum eða svæfa athygli okkar í innihaldslausum orðavaðli. 

Mig langar að lokum að vekja athygli á því að Katrín Snæhólm bloggaði um þennan sama borgarafund. Ég hvet ykkur til að lesa það ef þið eruð ekki þegar búin að því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband