Afhjúpandi þögn um umsókn Lilju

Það er óhætt að segja að hún hafi komið á óvart tilkynning fjármála- og efnahagsráðherra um það hver verður skipaður í embætti seðlabankastjóra. Það er þó líklegra að einhverjir hafi verið búnir að reikna þessa niðurstöðu út úr biðtímanum. Yfirlýsing Más Guðmundssonar, sem heldur embættinu, í kjölfar tilkynningar Bjarna Benediktssonar hefur þó væntanlega komið flestum í opna skjöldu.

Þegar rýnt er í undangengið umsóknar- og skipunarferli er reyndar fleira sem hlýtur að koma mörgum á óvart. Eitt af því er sú ríka tilhneiging fjölmiðla, og annarra sem láta sig samfélagsmál varða, að láta sem Lilja Mósesdóttir hafi ekki verið á meðal umsækjenda eða hafi verið algerlega óþekkt áður en hún sótti um seðlabankastjórastöðuna og þar af leiðandi sé ekkert um hana að segja.

Það er reyndar engu líkara en fjölmiðlar hafi tekið sig saman um að þegja þunnu hljóði yfir því að hún hafi verið á meðal umsækjendanna. Í það minnsta kemur þögn þeirra ekki heim og saman við það hvers gjarnt þeim er að greina frá hvers kyns athöfnum bæði þingmanna og annarra síður þekktra persóna. Það sætir því furðu að það að fyrrum þingmaður sæktist eftir æðsta embætti landsins á sviði efnahagsmála skuli ekki hafa fengið áberandi umfjöllun.

Skjaldborgin

Þögnin verður enn undarlegri þegar það er haft í huga að um er að ræða þingmann sem var frekar tilbúinn til að fórna pólitískum frama en láta af baráttu sinni fyrir almannahagsmunum. Allt síðasta kjörtímabil dró Lilja ekkert af sér við að vara við kreppudýpkandi afleiðingum efnahagsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, vekja athygli á skuldaíþyngjandi afleiðingum Icessave-samningsins og upplýsa þjóðina um ógnina sem henni stafar af kröfum hrægammasjóða.

Fulltrúar stjórnmálaflokka og hagsmunasamtaka, sem hafa það að yfirlýstu markmiði að berjast fyrir leiðréttingu á kjörum almennings og þess forsendubrests sem varð við bankahrunið, hafa líka verið undarlega þögulir. Mesta furðu vekur að ekkert hefur heyrst frá núverandi þingflokkum stjórnarandstöðunnar né félagssamtökum þeirra sem berjast fyrir hagsmunum heimilanna eða breyttu banka- og/eða peningakerfi.

Þessi grafarþögn er svo áberandi að það er eðlilegt að velta ástæðum hennar fyrir sér. Stærsta spurningin í þessu sambandi er hvort ræður meiru, í þögn fjölmiðla, stjórnmálaflokka og félagssamtaka, sú áhersla sem Lilja Mósesdóttir hefur lagt á að leiðrétta eignatilfærslu síðustu ára, í þágu lífskjara almennings og velferðarkerfins, eða það að hún á ekki pólitískt heimilisfang meðal núverandi þingflokka.

Meðmæli með Lilju Mósesóttur
Það mætti reyndar ætla að hvorutveggja þættu ómetanlegir kostir þegar kemur að skipun í embætti eins og seðlabankastjórastöðuna. Það sem atburðarrásin í kringum ráðningarferlið í seðlabankastjórastöðuna hefur hins vegar leitt í ljós er að allir núverandi þingflokkar taka undir þá forgangsröðun við efnahagsstjórn landsins sem þremenningarnir: Friðrik Már Baldursson, Már Guðmundsson og Ragnar Árnason standa fyrir. Þögnin staðfestir bæði það og svo hitt að það sé eðlilegt að það hver hlýtur seðlabankastjórastöðuna sé háð pólitískum tengingum fyrirferðarmestu þingflokkanna.

Ef þessu væri öðruvísi farið hefði einum og öðrum fundist eitthvað um aðdragandann og svo tilkynninguna um skipun Más í embættið. Allir þeir flokkar og félagasamtök sem hafa gefið sig út fyrir að vinna að því að hagsmunir allra kjósenda séu teknir fram yfir sérhagsmuni fjármálaaflanna höfðu tilefni til að láta til sín heyra strax og það kom í ljós að talsmenn þeirra voru metnir „mjög vel hæfir“ á meðan sá umsækjandi sem hefur talað fyrir leiðréttingu á eignatilfærslu undangenginna ára var settur skör neðar en þeir.


Sumir hafa leitt að því líkum að pólitíkin hafi komið sér upp vörn sem byggir á því að í stað þess að taka efnislega afstöðu til hugmynda Lilju Mósesdóttur um lausn skuldavandans þá hafi hún sagt sig frá lögmálum hennar. Þannig hafa einhverjir haldið því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tilefni til að refsa henni fyrir það að ganga til liðs við Vinstri græna og afla honum fylgis í alþingiskosningunum 2009 en fyrrverandi ríkisstjórnarflokkar geti ekki fyrirgefið henni það að hún sagði sig frá þinglokki Vinstri grænna og þar með úr ríkisstjórninni. Ef eitthvað er til í þessu þá er ljóst að flokkspólitíkin er ekki aðeins grimm og hefnigjörn heldur ógnar hún samfélagslegum hagsmunum.

Snjóhengjuvandinn Hvað sem þessu líður þá er það staðreynd að í stað þess að félagshyggju- og jafnaðarflokkar, á borð við Samfylkingu og Vinstri græna, hafi tekið sig saman og stutt þann umsækjanda til seðlabankastjórastöðunnar, sem aðhyllist hagfræðikenningar sem ríma við yfirlýsta stefnuskrá þessara flokka, sameinuðust þeir um þann umsækjanda sem hannaði núverandi peningastefnu og mælti með því að þjóðin borgaði Icesave. Allir nema Ögmundur Jónasson en enginn hefur hins vegar fundið tilefni til að furða sig á innhaldinu í yfirlýsingunni sem Már sendi frá sér á sama tíma og tilkynnt var um endurráðningu hans.

Afstaða Framsóknarflokksins hefur ekki komið skýrt fram en miðað við skuldaleiðréttingaráform flokksins hefði það verið eðlilegast að flokkurinn styddi og sæktist eftir því að fá Lilju Mósesdóttur til forystu í stjórn efnahagsmála í landinu. Ekkert hefur komið fram um að þeir hafi lýst slíku yfir á neinum vettvangi. Þögn þeirra er ekki síður sterk vísbending um afstöðu en þögn annarra þingflokka.

Í því sambandi er vert að vekja athygli á því að ekkert hefur heyrst frá fulltrúum Bjartrar framtíðar eða Píratapartýsins varðandi embættisveitinguna. Þar af leiðandi er eðlilegt að draga þá ályktun að hagfræðingar sem tala fyrir leiðréttingu á kjörum almennings og verndun velferðarkerfisins eigi ekki upp á pallborð þessara flokka  frekar en hinna sem eldri eru.

Froðueignir vogunarsjóða

Það er svo spurning hvort öll nýju framboðin og hagsmunasamtökin sem urðu til á síðasta kjörtímabili hafi horfið frá fyrri stefnumálum sem voru mörg hver sömu ættar og þau sem Lilja Mósesdóttir barðist fyrir á meðan hún var á þingi af óvenjulegri einbeitni og eldmóði. Á meðan ekkert heyrist frá þeim er ekki hægt að draga aðra ályktun en nýrjálshyggjan sé sú stefna sem hefur orðið ofan á meðal stjórnmálaflokkanna og annarra sem láta sig almannahagsmuni varða þó það hafi sýnt sig  rækilega í sex ára kjölfari bankahrunsins hversu grátt sú efnahagsstefna leikur velferðarkerfið og lífskjör meirihlutans. 

Þessi áberandi þögn afhjúpar ekkert annað en þann nöturlega raunveruleika að íslensk pólitík samanstendur af einni stefnu sem hefur komið sér fyrir í mörgum flokkum og flokksbrotum. Sú stefna er að viðhalda forréttindum fámennrar stéttar eigna og valda á kostnað almennings. Það er vissulega spurning hvers vegna þarf svo dýrt stjórnmálaflokkakerfi, ráðuneyti og aðra stjórnsýslu ásamt bönkum og fjármálastofnunum til að halda utan um þessa einföldu forgangsröðun. Þeirri spurningu verður ekki svarað hér en vakin athygli á því að skipun Más Guðmundssonar í embætti seðlabankastjóra opinberar það að enginn munur er á hægri og vinstri í íslenskri pólitík.

Þetta á a.m.k. við þegar kemur að stefnu í efnahagsmálum en hingað til hefur það verið mismunandi hugmyndafræði varðandi hagfræði sem hefur verið grunnforsenda þeirrar skiptingar sem áður hét að vera til hægri eða vinstri í pólitík. Það er ekki spurning að einhverjir kjósendur þurftu ekki skipun Más til að átta sig á þessu en það er óskandi að bæði aðdragandinn og svo skipunin sjálf veki þá sem höfðu ekki áttað sig á þessu fyrr.

Færslan er að nokkru leyti byggð á innleggi síðunnar: Lilju Mósesdóttur sem næsta seðlabankastjóra (sjá hér) og flestar myndirnar eru fegnar að láni þaðan.


mbl.is Már hugsar sér til hreyfings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband